8.4.2011 | 23:28
Hógvær snillingur.
Helgi Tómasson er einn af bestu sonum Íslands eins og sést á sessi San Francisco-ballettsins í balletheiminum.
Ég hef áður orðað þá hugmynd að stytta af honum verði reist framan við Þjóðleikhúsið í ballettstellingum og styttur af Björk og Vigdísi á viðeigandi stöðum.
Á sínum tíma var Helgi í fremstu röð ballettdansara heimsins. Eitt sinn er hann kom til heimalandsins, spurði fjölmiðlaamaður hann: "Hver er besti ballettdansari heims? Er það Nurejev?"
Helgi svaraði hógværlega: "Það er ekki hægt að svara svona spurningu. Við erum fjórir."
![]() |
Helgi risi í ballettheiminum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2011 | 14:32
Líka þríhyrninginn á Rauðarárholti.
Það er mjög þarft mál að friða verkamannabústaðina við Hringbraut. Þetta eru stórmerkar og einstæðar byggingar í sögu þjóðarinnar.
En mér finnst þetta gott tilefni til að taka upp annað mál, friðun "þrýhyrnings" verkamannabústaða og annarra húsa á Rauðárárholti, sem segir byggingarsögu þjóðarinnar frá árunum eftir verkamannastaðina í Vesturbænum, á árunum 1940-1965.
Á þessum árum, einkum árunum 1940-1950, urðu mestu breytingar á þjóðarhögum í sögu þjóðarinnar og á fáum ef nokkrum stöðum á landinu endurspegla íbúðabyggingar þetta betur en á Rauðarárholti.
Á þríhyrningi, sem markaðist af Stórholti, Háteigsvegi og Einholti voru byggðir verkamannabústaðir, en utan við verkamannabústaðina, á norðurhlið Stórholts og suðurhlið Háteigsvegar eru hins vegar hús einkaframtaksins.
Samhliða húsaröð einstaklingsframtaksins við Stórholt rísa síðan nýir verkamannabústaðir við Stangarholt strax eftir stríðið, sem eru áberandi stærri en verkamannabústaðirnir upp suðurhlið Stórholts og saman segja þessar húsaraðir á dásamlegan hátt frá kjörum þjóðarinnar á þessum árum.
Húsin í þríhyrningnum eru þakin gráum skeljasandi, sem var höfuðeinkenni á húsum þessarar tíðar og sést til dæmis vel í Norðurmýri og einnig um allt land.
Styrkja þarf þá sem þyrfti að endurnýja ytra byrði húsanna til að kljúfa viðbótarkostnað, sem felst í því að setja skeljasand utan á húsin.
Skipulag hverfisins er athyglisvert þar sem þvert í gegnum það voru litlar tengigötur og göngugata í gegnum leikvöll, sem var í miðju þess.
Mér rennur blóðið til skyldunnar því ég ólst upp í Stórholtinu í aldeilis dæmalausu umhverfi í rúmlega 1000 manna þorpi sem stóð þá á holtinu með Klambratún á aðra hliðina en autt holtið á hinar hliðarnar og hermannabragga fyrir ofan og neðan.
Saga fólksins í götunni er líka sérstök vegna mannlífsins sem þar var og kemur að hluta til fram í mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, sem ólst upp í Stórholtinu.
Er vafasamt að jafnmargt þjóðfrægt fólk hafi verið á ferli á jafn litlum bletti á sama tímabili.
Ef við töku litlu tengigötuna milli Meðalholts og Stórholts sem miðju er allt þetta fólk í götunni á um það bil 200 metra kafla frá Einholti til Stórholts:
Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ í marga áratugi, Bjarni Böðvarsson og sonur hans Ragnar Bjarnason, Pétur Pétursson þulur og dóttir hans, Ragheiður Ásta Pétursdóttir, Kristján Kristjánsson og sonur hans Pétur Kristjánsson, Baldur Scheving knattpsyrnumaður í Fram, - og síðan upp Stórholtið (set inn nokkra minnisverða karaktera í svigum) : Oddur sterki af Skaganum, Pétur Hannessson og dóttir hans Sólvegi Pétursdóttir, alþingismaður og forseti Alþingis, (kaupmaðurinn á horninu, Bernhard Arnaar og synir hans, Örn skurðlæknir og Björn), aðstoðarmaður kaupmannsins, Ámundi Ámundason, (Villi sleggja), Gunnar V. Andrésson, ljósmyndari, Hafsteinn miðilll (Ingólfur Hólakot) Jónína Þorfinnsdóttir, kennari og formaður Hvatar og fleiri félaga, Jón R. Ragnarsson, rallkappi, "Snæra-Mangi" leigubílstjóri, Hilmar Karlsson, kvikmyndagagnrýnandi, (......"fulla", sögupersóna í Bíódögum sem "var í Kananum og sneri síðar við blaðinu og gerðist reglusöm og virðuleg frú) , Eyþór Gunnarsson, læknir, og sonur hans, Gunnar Eyþórsson fréttamaður, fyrri maður Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, hans sonur síðan Eyþór Gunnarsson, hljómlistarmaður, Helgi Kristjánsson, glímukappi, hans sonur Davíð Helgason, landsliðsmaður í körfubolta, Sigríður Hannesdóttir verkalýðsfrömuður, Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður, Kristín Ólafsdóttir, söngkona og síðar borgarfulltrúi.
Læt hér staðar numið en vísa á rölt mitt og Sigurlaugar systur minnar með Lísu Pálsdóttur um hverfið nú um daginn í tveimur þáttum Lísu Páls.
![]() |
Friða verkamannabústaðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2011 | 10:29
Ferðalög lúðrasveitarinnar.
Á fyrstu árum sjónvarpsins þurfti að hljóðsetja fréttamyndir, sem komu til landsins án hljóðs. Hljóðmenn voru orðnir svo snjallir í þessu að þeir gátugert ótrúlegustu hluti.
Einkum var Marínó heitinn Ólafsson snillingur í þessu.
Í þættinum "Eyðibyggð" eru nokkur leikin atriði þar sem enginn maður sést þó.
Sagt er frá því þegar draugurinn Hafnar-Skotta réðist á bóndann að Höfn í Hornvík þar sem hann var að slá úti á túni og skar hann á háls með ljánum.
Við Marínó settum þetta á svið á morðstaðnum þannig að aðeins sást skugginn af sláttumanninum og varð úr hjóðsett atriði í stíl hins fræga sturtuatriðis í Psycho Hitchcocks.
Tryllinglegan hlátur Hafnar-Skottu bjuggum við þannig til að Maríanna Friðjónsdóttir var klipin dálítið hressilega og hláturblandið vein hennar bjagað svolítið.
Korrið í bóndanum skornum á háls var búið til úr hljóðum svína í svínabúi á Vatnsleysuströnd.
Í einum kafla myndarinnar er gengið upp stiga í timburhúsi í Aðalvík og komið að auðu rúmi þar sem sagt er frá unglingi með slæman berklahósta sem þar gæti hafa legið á árum áður og endað þar líf sitt.
Berklahósti og hrygla unglingsins var þannig búin til að notuð var upptaka á hinum magnaða reykingarhósta Magnúsar Bjarnfreðssonar og hann gerður talsvert hraðari og hærri.
Eitt sinn vantaði hljóð við leik Lúðrasveitar Siglufjarðar við upphaf Skíðalandsmótsins 1973.
Marínó var ekki lengi að leysa það mál.
Nokkrum vikum síðar átti Jón Múli Árnason leið upp í sjónvarp og hitti fyrir tilviljun okkur Marínó. Hann sagði við okkur: "Fyrir hreina tilviljun horfði ég á myndina ykkar frá fyrsta degi Skíðalandmótsins og verð að upplýsa ykkur um eitt: Ég er búinn að spila í Lúðrasveit verkalýðsins í marga áratugi en sú lúðrasveit hefur aldrei komið til Siglufjarðar."
![]() |
Gleymdist að fjarlægja hnéð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2011 | 09:14
"What have they done to the rain?"
Ofangreind setning var grunnlínan í vinsælu lagi með sama nafni á hippatímanum þegar óttinn við eyðandi kjarnorkustríð var hvað mestur.
Sú ógn sem stafar af hinni fáránlega miklu kjarnorkuvopnaeign stórveldanna er ekki viðunandi því að hún er svo lúmsk og hrikaleg. Geislun frá Fukushima eða öðru slíku veri er barnaleikur miðað við eyðandi kjarnorkustríð.
Því miður gengur allt of hægt að minnka kjarnorkuvopnaforða heimsins. Þess vegna er lagið "What have they done to the rain" í fullu gildi meðan þessi ógn er látin viðgangast.
Í tvö skipti hefur heimurinn verið á barmi kjarnorkustyrjaldar, fyrst í Kúbudeilunni og síðar munaði enn minna á níunda áratugnum að slíkt gereyðingarstríð brytist út vegna bilunar í viðvörunarbúnaði, sem hefði getað sett allt af stað fyrir mistök.
![]() |
Óttast geislavirkt regn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2011 | 00:56
Í tveimur flugslysum á sama degi.
Kannski er það heimsmet að lenda í sex náttúruhamförum í einu og sama ferðalaginu eins og Svanstrom hjónin gerðu fyrstu mánuðina eftir að þau giftu sig.
En hér á Íslandi var líklega sett heimsmet fyrir um 35 árum, þegar fólk, sem var á flugi yfir Mosfellsheiði að vetrarlagi í lítilli fjögurra manna flugvél lenti í tveimur flugslysum sama daginn.
Flugvél þeirra brotlenti síðla dags nokkra kílómetra fyrir sunnan veginn yfir Mosfellsheiði og kom þyrla varnarliðsins til að sækja þau og flytja slösuð til Reykjavíkur.
Í flugtakinu með slasaða fólkið missti þyrlan flugið, skall til jarðar og stórskemmdist og þurfti að gera út leiðangur til að sækja alla sem lentu í því slysi.
Ég man vel eftir þessu því að ég fór sem fréttamaður á staðinn til þess að fjalla um þetta.
![]() |
Lentu í sex náttúruhamförum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.4.2011 | 21:46
Vegir Drottins eru órannsakanlegir.
"Eftir því sem ég veit meira og uppgötva meira, því betur geri ég mér grein fyrir því hvað ég veit lítið" mun einhver frægur vísindamaður hafa sagt.
"Vegir Drottins eru órannsakanlegir" segir á öðrum stað.
Engu að síður er það skylda mannsins að nema aldrei staðar í þekkingarleit sinni.
Kannski kemur sá tími þegar uppgötvuð verður tilurð áður óþekktrar orku, eðlisfræðilega séð, sem ég vil nefna mannshugann. Ég tel afar líklegt að sá náttúrukraftur" sé til og jafnvel mælanlegur.
Og þá kann jafnvel að verða stutt í það að það verði fundið út líka, að mannshugurinn sé aðeins hluti eða birting af alheimsanda eða alveldissál, eins og mig minnir að Einar Benediktsson hafi orðað það.
![]() |
Ný frumögn eða náttúruafl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.4.2011 | 19:19
Fallegt og þarft vinabragð.
Ólafur Þórðarson á marga vini eftir langan og farsælan feril sem tónlistarmaður, útvarpsmaður og umboðsmaður margra skemmtikrafta. Hið mikla áfall, sem hann varð fyrir af völdum ógæfumanns, hefur ekki aðeins leikið hann hræðilega heldur fylgir slíku mikið fjárhagslegt áfall.
Þess vegna er það fallegt og þarft vinabragð að klára það verk, sem Ólafur hafði byrjað á, að halda þá tónleika sem voru hans hjartans mál.
Það er ekki aðeins þarfur og góður tónlistarviðburður heldur er einnig gott að ágóðinn af henni nýtist til að lina það fjárhagslega áfall, sem hinn hörmulega árás á Ólaf hefur valdið.
![]() |
Styrktartónleikar fyrir Ólaf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2011 | 11:06
Heima, frá vöggu til grafar.
Í aldir og árþúsund hafa börn fæðst og fólk andast á heima í faðmi fjölskyldunnar og svona var þetta hér á landi hjá allri alþýðu allt fram á síðustu öld.
Miðað við þennan ógnarlanga tíma eru hinir síðustu áratugir mjög skammur tími í sögu mannkyns, sem þetta hefur breyst, þannig að nú fæðast menn og deyja á sérstökum stofnunum.
Móðir mín heitin var fylgin sér og ákveðin kona og þegar hún átti mig, var hún ekki sátt við þáverandi yfirlækni á fæðingardeildinni eftir að hafa kallað hann fyrr á meðgöngutímanum heim til sín upp í lítið herbergi á hanabjálka í timburhúsi við Lindargötu, þegar leit út fyrir að hún myndi missa fóstur eftir að hafa dottið í stiganum upp í risið.
Læknirinn kom og skoðaði hana, en þegar hann var að kveðja leigusalann frammi á gangi sem lýsti kjörum unga kærustuparsins, þau ættu ekki neitt og tímarnir væru erfiðir (des ´39) heyrðist hann muldra: "Þú kallar á mig þegar það kemur."
Þetta heyrði móðir mín, reis upp í rúminu og kallaði: "Ef þér farið héðan eruð þér morðingi!" Það var ekkert verið að skafa utan af hlutunum!
Hann kom inn og gaf henni sprautu og fór ekki fyrr en hún leyfði það. Hún fór síðan á fæðingadeildina til þess að eiga mig, en eftir þetta átti hún næstu fjögur systkin mín heima í heimahúsi því að hún var ekki sátt við yfirlækninn.
Ég man ekki eftir því þegar Edvard og Jón fæddust, því ég var svo ungur þá, og þegar Guðlaug fæddist, var ég í sveit.
En ég man vel eftir því þegar Ólöf systir mín fæddist og það verður mér ævinlega ógleymanlegt, - ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að upplifa slíkan atburð í þessu umhverfi.
Þá var ég tæplega átta ára og þessi atburður var eftirminnilegasti atburðurinn, sem ég upplifði á æskuheimili mínu.
Yngstu systur mína, Sigurlaug, átti móðir mín síðan á fæðingardeildinni, enda 24 ár frá fæðingu elsta barnsins, og rykið, sem þyrlaðist upp eftir atburðinn 1939, hafði sest.
Ég tel að enda þótt enginnn deili um það að tæknilega sé best að fæðing og dauði eigi sér stað í besta læknisfræðilega umhverfi við bestu fáanlegu umönnun, sé í því fólgin óæskileg firring að jafn eðlilegir atburðir og fæðing og dauði hafa verið fjarlægðir af heimilunum.
Ég byggi það á reynslu minni af því að hafa verið viðstaddur fæðingu í faðmi fjölskyldunnar.
Það var óviðjafnanlegt.
![]() |
Eiginmaðurinn tók á móti barninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.4.2011 | 20:02
Fer ekki alltaf eftir gæðastimplum.
Reynslan sýnir að það fer ekki alltaf eftir þeim gæðastimplum, sem ljómað hafa um nöfn bílategunda, hvort gallar komi upp í þeim með þeim afleiðingum að innkalla þurfi þá.
Ég hef í mörg ár fylgst með úttektum þýska bílablaðsins Auto motor und sport á gæðum og bilanatíðni mismunandi tegunda og þar hafa oft verið dálitlar sveiflur eftir árum og gerðum.
Tímaritið hefur gefið út árlega bæklinga um þetta undir heitinu Gebrauchtwagen.
Tímaritið hefur sett einfalda útlistun á bilanatíðni þannig að hún hefur verið flokkuð eftir því hvar hún er í bílnum, svo sem hemlar, rafkerfi, drifbúnaður, stýrisbúnaður eða lekatíðni.
Síðan hefur notaður grænn litur þar sem bilanir voru minni en í meðallagi en súlurnar hafa verið rauðar, þegar bilarnir voru tíðari en í meðallagi.
Árum saman var áberandi hvað grænu súlurnar voru einkennandi fyrir sumar bílgerðir eins og Mazda og Toyota. Má segja, að hér á landi hafi Mazda verið einhver vanmetnasta bílategundin hjá íslenskum bílakaupendum.
Allt fram til ársins 2000 skar ein bílategund sig algerlega úr, því að á hverju ári voru allar súlurnar rauðar.
Það var gamla upprunalega gerðin af Mini.
Stundum hefur bilanatíðni verið ótrúlega há á einstökum gerðum "eðalbíla" eins og Benz og BMW.
Ákveðin þróun átti sér stað á fyrri hluta síðasta áratug þegar bílategundir eins og Hyundai og Skoda skutust hratt upp á við í gæðum.
Var Skoda á tímabili kominn upp fyrir Volkswagen, sem er móðurfyrirtæki Skoda.
Ég hitti bílaáhugamann í Berlín fyrir nokkrum árum þar sem þetta bar á góma og ég spurði hann álits á því.
Hann svaraði: "Ég skal útskýra þetta , en segðu ekki frá því að það hafi verið Þjóðverji sem sagði þér það. Ástæða þess að Skoda er kominn fram úr Volkswagen er sú, að það eru Tékkar sem setja Skodann saman en Tyrkir setja Volkswagen saman."
Ég stóð við loforðið meðan ég var ytra en hér í fámenninu úti í Ballarhafi mörgum árum seinna held ég að það sé allt í lagi að láta þetta flakka.
![]() |
Innkalla þúsundir Benz-bifreiða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.4.2011 | 09:41
Máttur hugvitsins.
Íslensk pylsa kann ekki að þykja merkilegt fyrirbæri og þaðan af síður skúr við hús á mótum Pósthússtrætis og Tryggvagötu, en þegar hugvit og útsjónarsemi eru annars vegar getur þetta orðið að fyrirbæri á heimsvísu.
Þeim sem létu sér detta í hug að leiða Bill Clinton fyrrum Bandaríkjaforseta að Bæjarins bestu hér um árið að Bæjarins bestu hefði varla órað fyrir því að hægt væri að vinna þannig úr þessum litla viðburði, að skúrinn sá arna yrði "Mekka pylsunnar" í heiminum.
Smáatriðin, sem gera pylsurnar góðar láta lítið yfir sér en geta orðið dæmi um það að hið smæsta getur orðið það stærsta.
1968 hitti ég Bandaríkjamann í Kaupmannahöfn, sem hafði orðið vellríkur á afar smárri uppfinningu, sem var lítil pappírsskutla sem hægt var að láta fljúga á magnaðan hátt með því að skutla henni út í loftið.
Lag skutlunnar byggðist á því hvernig pappírinn, sem hún var brotin úr, var klipptur til áður en var brotin saman eftir línum, sem markaðar voru í hana.
Hann hafði fengið einkaleyfi fyrir þessari uppfinningu og var að vinna skutlunni nýja markaði. Hann sagðist búast við að þetta gengi yfir líkt og Húlahoppið tíu árum fyrr en kvaðst vera á góðri leið með að verða milljarðamæringur.
Nú er spurningin hvort hægt verði að fá Bill Clinton til að gefa leyfi til að tengja nafn hans hinni íslensku pylsu og matreiðslu hennar.
1986 hitti ég bandaríska konu í Los Angeles sem græddi á tá og fingri á því að selja skreið til Nígeríu á sama tíma og íslensku sölusamtökin voru í mestu vandræðum með viðskiptin við Nígeríumenn, sem vegna fátæktar borguðu lélegt verð fyrir skreiðina ef greiðslurnar frá þeim skiluðu sér á annað borð.
Kvartað var yfir skreiðinni vegna maðka í henni og allt var þetta mál hið vandræðalegasta.
Konan sagðist selja sína skreið eftir vandaða meðhöndlun í góðum umbúðum á hundrað sinnum hærra verði en Íslendingar fengju. Hún keypti skreið fyrir slikk á Íslandi, flytti hana til Ameríku, ynni hana þar og seldi síðan til Nígeríu.
Ísleningar væru asnar, þeir væru að reyna að pranga hálfónýtri vöru inn á bláfátæka Nígeríumenn en áttuðu sig ekki á því að 1% Nígerúmanna væru ríkt fólk sem væri tilbúið til að kaupa vandaða innpakkaða vöru.
"1%" svaraði ég, "það er nú ekki há tala." "
"Rétt er það", svaraði konan, "en Nígeríumenn eru 120 milljónir svo að við erum að tala um meira en eina milljón góðra viðskiptavina.
Hugvit hins íslenska mannauðs er ásamt einstæðu landi, dýrmætasta auðlind okkar.
![]() |
Íslenska pylsan slær í gegn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)