4.4.2011 | 07:31
Hvað um flök Glitfaxa og Goðafoss?
Ef hægt er að finna flugvélarflak á 4000 metra dýpi í miðju Atlantshafi, hlýtur að vera hægt að finna flak flugvélarinnar Glitfaxa, sem fórst út af Flekkuvík á Vatnsleysuströnd fyrir réttum 60 árum og liggur þar á litlu dýpi.
Flakið hefur verið skilgreint sem votur grafreitur og nýtur því 75 ára grafarhelgi. En eftir 15 ár ætti að verða hægt að finna það og komast að því hvað olli hinu mannskæða flugslysi, sem kostaði 20 manns lífið.
Ég hef verið að kanna líklegar orsakir að undanförnu og finnist flakið, má útiloka eða staðfesta nokkrar þeirra.
Af stillingu hæðarmælis vélarinnar má sjá hvort skekkja í henni hafi valdið því að flugmennirnir hafi talið sig fljúga hærra en þeir gerðu og flogið í sjóinn.
Höggið hefur verið býsna mikið, því að annars hefði ekki fundist brak úr gólfi vélarinnar.
Með því að rannsaka eldsneytisgeymana má sjá hvort bensínleysi hafi valdið því að hún hafi hrapað í sjóinn.
Grafarhelgi af flaki Goðafoss afléttist eftir átta ár og þá væri kannski hægt að finna forsetabílinn, sem Roosevelt Bandaríkjaforseti sendi með skipinu sem gjöf til forseta Íslands.
![]() |
Flugvélarflak fannst í Atlantshafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.4.2011 | 07:21
Súrnun sjávar, stórmál.
Í Landanum í gærkvöldi var sérlega áhugaverð umfjöllun Leifs Haukssonar um súrnun sjávar við Ísland.
Þar kom fram margt athyglisvert, til dæmis mikil áhrif hennar á lífríkið og fiskistofna og einnig það að í milljónir ára hafi slík súrnun með þeim afleiðingum sem henni fylgja, aldrei gerst eins rosalega hratt og nú.
Af því gæti leitt að lífríkið skaðaðist meira en þegar þetta gerðist fyrir milljónum ára, því að þá hefði það fengið mun lengri tíma til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.
Lokaorðin í þessari sérlega fróðlegu og athyglisverðu umfjöllun voru sláandi: "Vísindamenn eru ekki alveg á eitt sáttir um orsakir og afleiðingar varðandi gróðurhúsaáhrif af völdum útblásturs, en um orsakir súrnunar sjávar þarf ekki að deila, þar er um að ræða beint og ótvírætt orsakasamband."
![]() |
Óþekkt ástand í sögu mannkyns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2011 | 07:13
"Alefling andans og athöfn þörf."
"Hvað er langlífi? Alefling andans og athöfn þörf."
Þannig orti Jónas Hallgrímsson á sínum tíma, þegar hann velti fyrir sér, hvað langlífi væri, og svaraði sér sjálfur.
Alzheimer sjúkdómurinn styttir líf þeirra, sem hann fá, og rýrir lífsgæði þeirra oft á tíðum meira en flestir aðrir sjúkdómar.
Þessi slæmi sjúkdómur er verðugt viðfangsefni þeirra íslensku vísindamanna hjá Íslenskri erfðagreiningu sem tekið hafa þátt í fjölþjóðlegri rannsókn á arfberunum sem auka hættuna á því að fá Alzheimer sjúkdóm.
Þetta er langtímaverkefni og menn láta sig dreyma um endanlegan árangur eftir fimmtán ár.
En það er til mikils að vinna þegar um er að ræða árangur í baráttunni við illvígan sjúkdóm sem herjar á hundruð þúsunda manns um allan heim.
En ljóðlínur Jónasar eiga ekki aðeins við langlífið heldur líka lífshætti manna og störf og alveg sérstaklega um starf þeirra Íslendinga, sem alefla andann í þörfum athöfnum.
Þá á við um Íslenska erfðagreiningu og fjölmörg fyrirtæki, sem byggjast á beislun mannauðs þjóðar okkar.
Nefna má fjölmörg dæmi um slík, CCP, Össur o. s. frv., fyrirtæki þar sem hugvit og þekking skapa fleiri störf og meiri gjaldeyristekjur af þeim en til dæmis allar álbræðslur landsins.
Í baráttusöng fyrir bættum hag og betra þjóðfélagi má syngja:
Horfum fram á hamingjudag !
Hress við skulum nú taka þann slag !
Fylkjum liði fólkinu´í hag !
Frelsi-jafnrétti-bræðralag !
Bestu leiðir bjóðum við hér:
Að beisla mannauðinn farsælast er.
Fylkjum liði fólkinu´í hag !
Frelsi-jafnrétti-bræðralag !
![]() |
Finna fimm Alzheimergen til viðbótar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2011 | 19:06
Sveigjanlegan "sviptingarhraða"?
Svonefndur "sviptingarhraði" er nú 143 km á radar lögreglunnar og er þá gert ráð fyrir ákveðnu fráviki vegna fráviki vegna hugsanlegrar mælingarskekkju. Þessi hraði er ekki háður neinum skilyrðum hvað varðar aðstæður og það er að mörgu leyti vafasamt.
Þannig missir ökumaður ökuréttindin sem mælist á 143ja kílómetra hraða á þráðbeinum, breiðum og beinum vegi í þurru og björtu veðri, enginn annar bíll á ferð og engin hætta er á að skepnur hlaupi upp á veginn.
Ökumaður sem ekur á 142ja hraða á móti þéttri umferð á mjóum og bugðóttum vegi í lélegu skyggni eða fer fram úr bíl eða bílum á þessum hraða heldur hins vegar ökuréttindunum.
Ég tel að breyta eigi þessum reglum og taka eitthvert tillit tll aðstæðna. Sérstaklega þurfi að huga að því að með framúrakstri á ofsahraða eða mætingu á ofsahraða er öryggi annarra vegfarenda ógnað.
![]() |
Framúraksturinn reyndist dýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.4.2011 | 18:52
Hvað er hvað og hver er hvurs hvurs er hvað ?
"Hvað er hvað og hver er hvurs og hvurs er hvað, / hvernig átti ég að vita það" söng Brynjólfur Jóhannesson á sínum tíma.
Þegar Björgólfur Thor Björgólfsson var spurður um það í kvikmyndinni "Guð blessi Ísland" hvar allar þessar svimandi fjárhæðir, sem um hefur verið rætt í sambandi við Hrunið væru niður komnar, svaraði hann því til að þær "hefðu horfið".
Björgólfur hefur borið á móti því að hann beri nokkra ábyrgð á Icesave, því að hann hafi bara átt hluta af hlutafé hans. Bankastjórarnir og stjórn bankans bæri alla ábyrgð.
Nú er sífellt að koma betur í ljós að í raun gat Björgólfur höndlað með tugi milljarða úr sjóðum bankans alveg fram á gjaldþrotsdag þótt hann segist ekki hafa haft nein áhrif á Icesave.
Gaman verður að vita hve lengi verður hægt að syngja "hvað er hvað og hver er hvurs og hvurs er hvað?"
![]() |
32 milljarða millfærslur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.4.2011 | 17:50
Ekki spurning um hvort heldur hvenær.
Það var ekki spurning um hvort heldur hvenær það myndi gerast að vegna misskilnings yrði herþotum bandamanna beitt gegn samherjum í Líbíu. Svipuð atvik hafa gerst í öllum styrjöldum og má sem dæmi nefna svipaðar árásir herþotna í Afganistan.
Þar að auki er alltaf sú hætta fyrir hendi að skotglaðir hermenn fari offari þegar þeir hafa fullkomustu stríðstól veraldar í höndunum og að orðbragðið í samtölum þeirra hver við annað verði í svipuðum tóni og hin eftirminnilegu orðaskipti, sem átt sér stað þegar ráðist var á friðsamt og vopnlaust fólk í Bagdad og upplýst var fyrir tilstuðlan Wikileaks.
Eitthvert skelfilegasta vopnið í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar var Stuka steypiflugvél Þjóðverja.
Þær steyptu sér yfir fólk á jörðu niðri með ærandi hávaða og gereyddu því sem ráðist var á.
Þessar árásarflugvélar voru svo skelfilegar, af því að þær komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og hurfu síðan og þess vegna þóttu þessar árásir svo lúalegar.
Yfirbragð hliðstæðra árása nú er svipað. Bandamenn nota herflugvélar sínar til þess að valda dauða og eyðieggingu á jörðu niðri án þess að hætta lífi hermanna sinna, en passa sig á því að fara ekki inn með landher, þar sem mannfall yrði meira.
Árásin á flutningalest uppreisnarmann er því hið versta mál fyrir bandamenn, þótt um misskilning virðist hafi verða ræða ef marka má frásagnir af árásinni.
![]() |
Herþota skaut á uppreisnarmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.4.2011 | 11:20
Á að miða við "gróðærið"?
Fróðlegt væri að vita hvernig umferðin á þessu ári er í samanburði við umferð síðustu ára.
Er hún kannski álíka mikil og hún var árið 2005? Nú tíðkast mjög að bera ýmislegt saman við það sem var hér á árunum 2005-2008 og þegar í ljós kemur mikilll samdráttur er það málað mjög dökkum litum.
Á árunum 2003-2008 fjórfölduðust skuldir heimilanna og samt voru tekjur fólks miklu meiri en nokkru sinni fyrr og vegna óraunhæfs gengis krónunnar, sem var allt að 40% hærra en gengið gat til frambúðar, var í gangi gríðarleg hvatning til mesta neyslufyllerís sem þjóðarsagan kann að greina frá.
Umferð um hringveginn og aðrar birtingarmyndir neyslu og bruðls á þessum árum var ein af birtingarmyndum óeðlilegs ástands, sem hlaut að taka enda.
Vitaskuld eiga tugþúsundir Íslendingar í gríðarlegum erfiðleikum vegna Hrunsins og engin ástæða er til að draga dul á það.
En það að umferð um vegi landsins sé kannski svipuð og hún var fyrir gróðærið ætti ekki að verða til þess að við málum það sérstaklega eins og skrattann á vegginn.
Það var ekkert slæmt að lifa á Íslandi árin 2000 og 2001, síðustu árin en að efnahagsfylleríið byrjaði og ef meirihluti þjóðarinnar hefði látið það vera að steypa sér í skuldir, væri flest hér með öðrum brag en nú er.
![]() |
Sögulegur samdráttur í akstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.4.2011 | 21:56
Gaman að bjallan fór svo langt norður.
Endir Útsvars gat ekki verið meira spennandi og aðeins tvö stig skildu í lokin. Einhverjir hafa verið að tala um það að erfitt sé að keppa við mannval frá tveimur stærstu borgar/þéttbýlis-samfélögum landsins, Reykjavík og Akureyri.
Því að Akureyri fellur nú orðið undir alþjóðlega skilgreiningu borgar- eða þéttbýlis (urban) sem ber skammstöfunina FUA, Functhional Urban Area, en á slíku svæði þurfa að búa minnst 15 þúsund manns og ferðatími inn að miðju svæðisins sé innan við 45 mínútur.
Mér þykir vænt um sigur Norðurþings, þótt hið stórgóða Akureyrarlið hefði líka átt skilið að sigra.
Þegar ég fór af stað með spurningaþættina "Hvað heldurðu?" 1986 var markmiðið að laða fram skemmtilegt og klárt fólk frá hinum ýmsu byggðum landsins og nota svona keppni til þess að uppfylla þá mótsögn að keppni á milli byggða yki samheldni og kynni þeirra á milli.
Hvað eftir annað hafa keppendur frá tiltölulega fámennum byggðarlögum sýnt glæsilega frammstöðu í svona þáttum og í þetta skipti var gaman að bjallan fór svona langt í burtu frá þéttbýlissvæðinu við sunnanverðan Faxaflóa.
Ef ég man rétt þá réði misheppnuð spurning um Hamlet og hauskúpu úrsltum um það 1987 að Þingeyingar féllu úr keppni svo að nú var svo sannarlega kominn tími á það að þeir hefðu betur á tvísýnum endaspretti.
Til hamingju, Þingeyingar!
![]() |
Norðurþing sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2011 | 20:28
Bláeygir gagnvart breyttu ástandi.
Ég ætlaði að blogga í gær um allar þær spurningar sem vöknuðu við sýknun ákærðs manns í alvarlegu árásarmáli.
Þessum spurningum er varpað upp og gefin vísbending um svör sem mann grunaði að útskýrðu þetta mál:
1. Hér á landi hefur skapast það ógnarástand í glæpaheiminum að ofbeldismenn geti komist upp með verk sín með því að hóta fórnarlömbum sínum limlestingum ef þau kæra eða bera vitni alvarlegum afbrotamálum sem varða margra ára fangelsisrefsingu.
2. Íslendingar og lögreglan þar með eru enn algerlega bláeyg gagnvart þessu nýja og framandi ástandi ef marka má meðhöndlun þessa máls.
Við svo búið má ekki standa.
![]() |
Fórnarlambi hótað margsinnis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.4.2011 | 10:15
Annað hvort virkt eða ekki.
Menn geta deilt um það hvort bann á auglýsingum á áfengum drykkjum hafi áhrif á neyslu þeirra eða ekki. Það hefur verið niðurstaða alþjóðlegra rannsókna og viðurkennt af heilbrigðisstofnun Sþ að því aðgengilegri sem áfengi og fíkniefni eru og því meira sem þeim er haldið að fólki, því meiri sé neyslan.
En látum það liggja á milli hluta. Ef í gildi er bann við auglýsingum á áfengi verður það að vera þannig úr garði gert að ekki sé jafn hlægilega auðvelt að fara í kringum það og reynslan hefur sýnt.Einna versta dæmið um það var þegar í einni slíkri auglýsingu var kneifaður léttur bjór í hippaumhverfi og beinlínis gert út á það á sérstaklega lúmskan hátt að sveipa dýrðarljóma andrúmsloft sem fylgir alhliða neyslu vímuefna.
![]() |
Bannað að auglýsa léttbjór |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)