"Alefling andans og athöfn þörf."

 "Hvað er langlífi?  Alefling andans og athöfn þörf."

Þannig orti Jónas Hallgrímsson á sínum tíma, þegar hann velti fyrir sér, hvað langlífi væri, og svaraði sér sjálfur. 

Alzheimer sjúkdómurinn styttir líf þeirra, sem hann fá, og rýrir lífsgæði þeirra oft á tíðum meira en flestir aðrir sjúkdómar.

Þessi slæmi sjúkdómur er verðugt viðfangsefni þeirra íslensku vísindamanna hjá Íslenskri erfðagreiningu sem tekið hafa þátt í fjölþjóðlegri rannsókn á arfberunum sem auka hættuna á því að fá Alzheimer sjúkdóm. 

Þetta er langtímaverkefni og menn láta sig dreyma um endanlegan árangur eftir fimmtán ár. 

En það er til mikils að vinna þegar um er að ræða árangur í baráttunni við illvígan sjúkdóm sem herjar á hundruð þúsunda manns um allan heim. 

En ljóðlínur Jónasar eiga ekki aðeins við langlífið heldur líka lífshætti manna og störf og alveg sérstaklega um starf þeirra Íslendinga, sem alefla andann í þörfum athöfnum. 

Þá á við um Íslenska erfðagreiningu og fjölmörg fyrirtæki, sem byggjast á beislun mannauðs þjóðar okkar. 

Nefna má fjölmörg dæmi um slík, CCP, Össur o. s. frv., fyrirtæki þar sem hugvit og þekking skapa fleiri störf og meiri gjaldeyristekjur af þeim en til dæmis allar álbræðslur landsins. 

Í baráttusöng fyrir bættum hag og betra þjóðfélagi má syngja: 

 

Horfum fram á hamingjudag ! 

Hress við skulum nú taka þann slag ! 

Fylkjum liði fólkinu´í hag ! 

Frelsi-jafnrétti-bræðralag ! 

 

Bestu leiðir bjóðum við hér: 

Að beisla mannauðinn farsælast er. 

Fylkjum liði fólkinu´í hag !

Frelsi-jafnrétti-bræðralag ! 

 

 


mbl.is Finna fimm Alzheimergen til viðbótar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu það að það fer dáldið í taugarnar á mér þegar stóriðjuandstæðingar benda á vísinda- og menningastarf sem dæmi um „eitthvað annað“.

Ekki misskilja mig, ég er eflaust jafn mikill andstæðingur stóriðjustefnunnar og þú en það er meira verðgildi í vísinda- og menningastarfi en bara peningalegur auður. Þegar þú tengir störf CCP og Íslenskra Erfðagringar við hluti eins og „gjaldeyristekjur“ og „mannauðsbeislun“ ertu að horfa fram hjá raungildi hlutana. Vísindi er nefninlega miklu meira en leið til að eignast peninga eða búa til störf. Vísindi er leið til að afla þekkingar sem er verðmetin á allt öðrum skala heldur en peningalegum. Afþreyingarmenningin er sömu leiðis með raungildi sem er alls ekki peningalegt. Eve online er ekki leið til að eignast peninga, heldur er þetta fyrirbæri til að stunda menningu og gagnvirk samskipti fólks í gegnum leik. Störf og gjaldeyristekjur er eitthvað sem skapast til hliðar og er í mesta lagi bónus.

Það sem ÍE hefur gert fyrir menninguna okkar er frábært, þau hafa unnið frábært starf, ekki í að afla tekna eða búa til störf, heldur við að afla þekkingar og miðla henni. Raungildi vinnu ÍE er svo langt handan peninga að það er hlægilegt að nota orð eins og „gjaldeyristekjur“ í sama samhengi. Í versta falli er það hættulegt, því að fólk bindir peningalegan auð við vísindin í stað þess að sjá raunverulegan auð þeirra. Til dæmis var fólk ekki lengi að afskrifa deCode eftir að viðskiptalíkanið þeirra féll þó svo að vísindastarfið þeirra væri framúrskarandi. Komist hugmyndin um peningalegan auð vísinda og menningastarfs inn í valdskipulagið er allt eins víst að allt slíkt starf sem ekki er séð fram á að skili peningalegum auð verði afskrifað, námsgreinar eins og heimspeki og listir leggjast niður, og í staðin verður ofuráhersla á námsgreinar með sama sem ekkert raungildi en mikið peningalegt gildi eins og viðskiptafræði og hagnýta menningamiðlun.

Þegar þú handvelur fréttir sem styðja málstaðinn þinn um „eitthvað annað“ þá ertu lítið skárri en álversinnarnir sem handvelja fréttir um arðsemi álvera. Það er þið finnið dæmi sem styðja málstaðinn en hunsið dæmi sem hrekja hann. Þetta er mannleg hegðun sem nefnd hefur verið staðfestingarhneygð. Þetta er ekki góð leið til að rökræða og ekki málstað okkar til framdráttar.

R (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband