Varnarsigrar og sigurvegarar kosninga.

Oft er talað um að framboð í kosningum vinni "varnarsigra" og að sigurvegarar í kosningum séu þau framboð sem bæta mest við sig.

Gengur þetta nú upp?

Tökum hliðstæðu úr knattspyrnunni. Íslendingar tapa 2:14 fyrir Dönum. Spila aftur við þá og tapa 6:10. Eru Íslendingar þá sigurvegararnir? Unnu þeir "varnarsigur"? Höfðu aldrei áður skorað eins mörg mörk í landsleik.

Annað dæmi: Handboltalið tapar 15:30 fyrir öðru liði.

Liðin mætast aftur og þá verða tölurnar 20:30. Er liðið sem skoraði 33% fleiri mörk en síðast þá sigurvegari?


Ábyrgð íslenskra Titanic-skipstjórnenda.

Ég heyrði ekki alla umræðu foringja stjórnmálaflokkanna í sjónvarpinu en rætt var eftir á um þau ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þegar Jóhanna Sigurðardóttir bar íslenska bankahrunið saman við Titanic-slysið að það slys hafi ekki verið hönnuðum skipsins að kenna.

"Það er ekki hægt að kenna hönnuðum Titanic fyrir það hvernig fór" sagði Sigmundur og átti við það að ekki sé ekki hægt að kenna Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um það hvernig fór fyrir því hagkerfi sem þeir hönnuðu í tólf ára slímsetu sinni í stjórn.

Sigmundur Davíð virðist hafa verið látinn sleppa við það að ræða málið betur og er það miður. Það vill nefnilega þannig til að það voru sömu aðilarnir sem hönnuðu hið íslenska Titanic-efnahagskerfi og stjórnuðu skipinu í tólf ár á leið þess til endaloka þess.

Davíð Oddsson stóð fyrst við stýrið í brúnni lengi vel og síðan var Halldór Ásgrímsson meira að segja skipstjóri í eitt ár áður en Geir Haarde tók við og var skipstjóri þegar skipið sökk í október 2008 eftir að hafa rekist á ísjaka útlánafrosts á hinu alþjóðlega hafsvæði fjármálanna.

Í maí 2007 var skipstjórnarmönnum Framsóknar refsað af kjósendum fyrir glannalega og ábyrgðarlausa siglingu spillingar, bruðls og ójafnaðar, en Sjálfstæðismenn sluppu við það og héldu stjórninni áfram eftir að vaktaskipti höfðu orðið og hluti áhafnarinnar kom frá Samfylkingunni í eitt ár og fjóra mánuði fyrir hrunið.

Berum saman Titanic-slysið og hrun íslenska efnahagskerfisins.

Titanic var smíðað sem stærsta og fullkomnasta skip veraldar árið 1912.
Íslenska bankakerfið átti að verða fjármálalegt Titanic.

Titanic var hannað 1912 með loforði um að það gæti ekki sokkið.
Fjórum mánuðum fyrir íslenska Titanic-áreksturinn, í maí 2008, fullyrti Davíð Oddsson enn og aftur opinberlega að íslenska bankakerfið gæti ekki sokkið þótt hann vissi betur. Geir, Ingibjörg og Þorgerður sungu sama söng.

Sparað var í gerð Titanic með þynnra og lélegra stáli og alltof fáum björgunarbátum. Þess vegna brotnaði það í tvennt þegar það reis upp á endann þegar það sökk.
Á hinu íslenska Titanic á árunum 2004-2008 var ekki talin þörf á að auka gjaldeyrisvarasjóðinn íslenska og grípa til róttækra fyrirbyggjandi ráðstafana.

Titanic átti að setja hraðamet yfir Atlantshaf og því var ekkert slegið af og ekki beygt af leið þótt hættumerkin blöstu við og varað hefði við hættulegum ísjökum á fyrirhugaðri leið.
Íslenska fjármálakerfið sigldi á methraða 2008. 2007 skrifar Hannes Hólmsteinn að það sé orðið fjórfalt stærra en landsframleiðslan og æskilegt að auka vaxtarhraðann enn.
Allar aðvaranir um yfirvofandi hættu voru hunsaðar.

Fjölmiðlarnir löptu það upp og allt var gert sem hægt var til að telja almenningi trú um óskeikulleika Titanic-glæframannanna 1912 og 2006-08.
Fyrirfram var gefið út að hraðamet yrði sett í siglingu yfir Atlantshaf, og þótt vitað væri að skip hefðu rekist áður á ísjaka á siglingaleiðinni, skipti það ekki máli, Titanic átti ekki að geta sokkið. Tæknin að baki þess væri einstök og ekki af neinum öðrum að læra.
Viðskiptaráð á Íslandi gaf það út 2006 að íslenska fjármálaundrið væri einstakt og að íslendingar hefðu enga ástæðu til að leita fyrirmynda og ráða hjá norrænu þjóðunum, af þeim væri ekkert að læra, - "þær standa okkur svo langt að baki" var sagt.

Þegar Titanic hafði rekist á ísjakann var farþegum gefið í skyn að ekkert væri að óttast. Fyrstu björgunarbátarnir fóru því hálftómir frá borði og þeir forsjálustu björguðu sér.
Þegar hafa verið rakin mörg dæmi um hvernig fjármálamenn, sem sáu hið íslenska Titanic nálgast ísjaka efnahagshrunsins 2008, björguðu eigin skinni með öllum tiltækum ráðum á meðan almúginn var róaður niður og sagt að "aðgerðarleysið bæri árangur."

Hljómsveit Titanic spilaði eins og ekkert væri í veislusal Titanic eftir áreksturinn við ísjakann og prúðbúnir gestir nutu lífsins í glæsilegum sölum og vistarverum.
Á Alþingi Íslendinga vorið 2008 svaraði fjármálaráðherrann aðfinnslum um skipstjórn Geirs Haarde með því að hrópa yfir þingheim: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!"

Það tók drjúgan tíma að skoða þá ábyrgð sem menn báru á siglingu Titanic 1912 og klára það mál.
Hvað verður um ábyrgð hinna íslensku skipstjórnarmanna á siglingunni síðustu árin fyrir hrunið 2008?


mbl.is Þung ábyrgð að bera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafn ávinningur.

Það eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á því að halda í gamla bíla til daglegs brúks og fer mjög eftir stærð bílanna, hvað snertir mengun og eyðslu.

Gallar nýrra bíla:

Það fylgir bæði kostnaður og mengun að framleiða nýja bíla. Afskriftir eru stór útgjaldaliður og oftast er fjármagnskostnaður miklu meiri. Sú starfsemi sem þarf að fara fram til að standa undir þessum útgjöldum getur út af fyrir sig kostað mengun.

Kostir nýrra bíla:

Nýir bílar eyða minna, menga minna og eru öruggari en gamlir bílar af sömu stærð.

Gamlir bílar eru fjarri því að vera eins. Sumir eru stórir, eyðslufrekir, viðhaldsfrekir, menga mun meira og eru ekki eins öruggir og nýrri bílar. En svo finnast aðrir sem eru litlir, sparneytnir, menga ekki mikið og standast sumir hverjir furðu miklar öryggiskröfur.

Gallar gamalla bíla:

Viðhaldsfrekari en nýir bílar. Menga meira. Eyðslufrekari. Minna öryggi.

IMGP0314

Kostir gamalla bíla:

Minni afskriftakostnaður og í fleiri tilfellum minni fjármagnskostnaður. Spara mengun og kostnað við að framleiða bíl í staðinn. Skapa meiri atvinnu vegna viðhalds.

Ég hef farið mína leið í þessu efni. Ég ek að jafnaði um á ódýrasta bíl landsins, átta ára gömlum bíl sem kostaði þegar ég keypti hann fjögurra ára gamlan í Póllandi, 60 þúsund krónur og 110 þúsund krónur kominn á götuna hér.

Bíllinn var á sinni tíð ódýrasti, einfaldasti og sparneytnasti bíllinn á Evrópumarkaðnum og er enn einn af sparneytnustu bílum sem eru í umferð. Getur samt tekið fjóra í sæti.

Þegar bíllinn var hannaður sem arftaki Fiat 500 var hann þyngdur um 100 kíló með ýmsum styrkingum til þess að hann stæðist strangar öryggiskröfur og hefur staðið sig furðu vel í árekstraprófunum allt til þessa dags.

Þegar Pólland var á leið inn í ESB var hinni ofursmáu vél sem er aðeins 650 cc og 24 hestöfl, breytt til þess að koma menguninni niður úr öllu valdi. Bíllinn getur þó náð 115 kílómetra hraða.

Ég reynsluók nýlega eina helgi Toyota iQ, sem er næst stysti nýi bíllinn á markaðnum, aðeins 2,98 metra langur, en getur samt tekið fjóra í sæti og er jafn breiður og meðalstórir bílar.

Þessi bíll mengar langminnst allra bensínbíla, 99g/km og stenst fremstu öryggiskröfur. Getur náð 150 km hraða.

Ég ætla að greina betur frá honum síðar. Gallinn við nýja bíla um þessar mundir er hins vegar sá að þeir eru svo dýrir, kosta tvær milljónir og þaðan af meira.

imgp0312-1

Á meðfylgjandi myndum af þessum tveimur ofangreindu smábílum og sjá má einkanúmerið "EDRÚ", sem mér var gefið þegar ég varð sextugur. Í númerinu felast skilaboð sem vísa til margra sviða þjóðlífsins og eiga vel við fréttina sem þetta blogg tengist við.


mbl.is Gömlu bílarnir lifa lengur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst um minni eftirspurn.

Það er samdóma álit þjóðarleiðtoga heims að minnka verði notkun á jarðefnaeldsneyti. Ef eftirspurn eftir því minnkar ekki skiptir engu máli þótt einhverjar þjóðir, sem hugsanlega kunna að búa yfir nýjum olíulindum, gaslindum eða kolanámum, hætti við að nota sér það.

Ég er í hópi þeirra sem vildi óska sér þess heitt að ekki þyrfti að nota neitt jarðefnaeldsneyti. En tæknin er ekki komin á það stig að hægt sé að útrýma olíunotkun og heldur ekki olíuvinnslu. Raunar gefur jarðefnaeldsneyti jarðarbúum svo mikla orku að engin leið er með núverandi tækni að finna aðrar orkulindir sem komi algerlega í staðinn.

Tæknilega mögulegt er að reisa svo mörg kjarnorkuver að þau framleiði alla orku sem jarðarbúar þurfa, en jafnvel sú orka myndi ekki verða endurnýjanleg vegna þess að þá myndi hráefnið fyrir öll þessi kjarnorkuver ganga til þurrðar á nokkrum áratugum.

Stóra málið er að þjóðir heims verða að koma sér saman um róttæka minnkun eftirspurnar og aðgerðir til að stórminnka losun gróðurhúsalofttegunda. Í þeim samdrætti vinnslu yrði ekki sanngjarnt að draga þá línu að aðeins núverandi vinnsluþjóðir fái að halda áfram að framleiða þá olíu sem óhjákvæmilega verður að vinna meðan orkunotkunin verður blönduð.

OPEC-ríkin hafa þetta þannig að þau gæta þess að framleiða ekki of mikið af olíu vegna þess að þá lækkar verðið á henni. Það þýðir að eina ráðið til að minnka sjálfkrafa framleiðsluna er að minnka eftirspurnina.

Ef Ísland yrði olíuframleiðsluland og gerðist OPEC-ríki myndi það beygja sig undir það verð og þær framleiðslutakmarkanir sem þjóna þessu markmiði auk þess markmiðs allra þjóðríkja heims að minnka notkun olíunnar og útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Ég er fylgjandi róttækum aðgerðum til að minnka eftirspurn. En ég er ekki fylgjandi því að sumum þjóðum, sem búa yfir þeirri auðlind sem olía og gas eru, verði bannað að framleiða slíkt meðan aðrar megi það.

Eitt verður yfir allar þjóðir að ganga og jafnræði verður að ríkja milli þjóða.

Það er síðan annað og mjög áríðandi verkefni að tryggja að að ekki sé tekin áhætta á óafturkræfum umhverfisspjöllum við leit og vinnslu.


mbl.is Hlýnunin felur í sér tækifæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnt eðli máls.

Útstrikanir byggjast á mismunandi ástæðum. Þær geta snúist um persónulegt traust og þær geta líka byggst á því að viðkomandi frambjóðandi hafi skoðanir í málum sem eru umdeild meðal stuðningsmanna flokksins.

Mál Þráins Bertelssonar finnst mér dálítið sérstakt. Menn bera mál hans saman við það að Ögmundur Jónasson ákvað að taka aðeins þingfararkaup en afsala sér launum fyrir að vera forseti BSRB á sama tíma.

Laun hans sem forseti BSRB kom þó ekki úr ríkissjóði.

Þarna er verið að bera saman ólíkar forsendur hjá Þráni og Ögmundi. Ögmundur hefur sinnt báðum störfunum samtímis og á því byggir hann þá ákvörðun að taka ekki tvöföld laun.

Öðru máli gegnir um Þráin. Hans laun eru ekki starfslaun eins og laun Ögmundar heldur viðurkenning á starfi sem hann vann fyrir margt löngu.

Tökum hliðstæðu. Winston Churchill fékk Nóbelsverðlaun á meðan hann var þingmaður, gott ef hann var ekki líka forsætisráðherra þá. Þetta eru allhá peningaverðlaun. Hann varð fyrst heimsfrægur rithöfunur 1898. Átti hann að afsala sér þeim?

Halldór Laxness er enn betra dæmi. Hann fékk Nóbelsverðlaun 1955 fyrir stórvirki sem hann hafði unnið allt að 30 árum fyrr. Ef hann hefði verið þingmaður, hefði hann átt að afsala sér þeim?

Hefði Jónas Árnason átt að afsala sér hliðstæðri viðurkenningu á meðan hann var þingmaður og rithöfundur?

Ólafur Arnalds fékk Umhverfisverðlaun Norðurlanda fyrir áður unnið brautryðjendastarf. Þau námu nokkrum milljónum króna. Átti hann að afsala sér þeim af því að hann þáði þá laun hjá ríkinu?

Ég var nálægt því að hreppa það sama nokkrum árum síðar. Ég viðurkenni að ég íhugaði aldrei að ef til þess kæmi ætti ég að afþakka þessi verðlaun. Kannski var ég svona spilltur.

Í fyrra fékk ég svonefnd Seacology-verðlaun. Átti ég að afsala mér þeim af því að á sama tíma þáði ég lífeyri hjá íslenska ríkinu sem þó duguðu varla fyrir húsaleigu? Raunar fóru þeir peningar allir í kvikmyndagerðina sem ég stunda. Voru það illa fengnir peningar sem kvikmyndagerðin fékk þar?

Ég og margir aðrir fá nokkur þúsund krónur árlega sem STEF-gjöld. Þau eru greidd fyrir notkun á hugverkum sem unnin voru fyrir jafnvel mörgum áratugum. Mátti ég aldrei taka við þeim þegar ég var starfsmaður RUV og jafnvel ekki heldur núna af því að ég er lífeyrisþegi?

Raunar verða þessar STEF-tekjur til þess að ég fæ ekki eillilaun.

Finnst fólki vera eðlismunur á því að fá verðlaun úr þeim sama ríkissjóði og greiðir starfslaunin og á því að launin komi ekki frá ríkinu? Sé svo ætti að vera í góðu lagi fyrir Ögmund að taka tvöföld laun úr því að BSRB greiðir honum þau en ekki ríkissjóður.

Þetta mál vekur upp áhugaverðar spurningar um eðli máls sem þörf er að rökræða.

Getur verið að niðurstaðan verði sú að munur sé á því hvort greitt sé fyrir löngu unnin verk eftir á eða hvort greitt er fyrir tvö störf á sama tíma?

Og að auk þess fari mjög eftir eðli hvers máls hver niðurstaðan verður.


mbl.is Össur var næstur falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um útlendinga?

DSCF3065DSCF3067DSCF3069

(Ath: Hægt er að njóta myndanna betur með því að tvísmella á þær) 

Árum saman liðu útflutningsatvinnuvegirnir fyrir allt of hátt skráð gengi krónunnar.

Þegar ég flutti á sínum tíma fréttir af því að til Lapplands kæmu fleiri ferðamenn bara á veturna en allt árið til Íslands.

Ég sýndi af því myndir en menn ypptu bara öxlum og sögðu að Ísland væri ekki samkeppnisfært þótt hingað væri styttra fá fjölmennustu ríkjum Evrópu en til Lapplands.

Nú snaraukast ferðir Íslendinga um eigið land og er þó kreppa. En hvað um útlendinga þegar krónan hefur lækkað um helming?

Myndirnar með þessu bloggi voru teknar í hinu síðasta af fjórum kvikmyndatökuferðalögum mínum nú í apríl til Mývatnssveitar og svæðisins norður af því sem gera á að virkjunarsvæði. 

Við Friðþjófur Helgason fórum frá Leirhnjúki norður í Gjástykki á yfirbyggðum vélsleða í eigu Stefáns Gunnarssonar, skoðuðum gíga úr Kröflueldum 1975-84 og tókum myndir fyrir heimildarkvikmyndina "Sköpun jarðar og ferðir til mars" sem ég er að vinna að. 

Síðan fórum við norður að Þeystareykjum og gígnum Stóra-Víti á 36 ára gömlum jöklajeppaskrjóði með dísilvél í fylgd palljeppa í eigu Kristjáns Kristjánssonar sendibílstjóra í Reykjavík, sem Helgi Friðþjófsson ók.

Þær myndir eru neðar á síðunni.  

Í góðu veðri ríkir öræfakyrrð á svona slóðum en það er liðin tíð, í bili að minnsta kosti,  því dynurinn frá borholunum við Þeystareyki glymur um allt þetta stóra svæði og heyrist greinilega í 15 kílómetra fjarlægð.

Í Rovaniemi í Lapplandi má sjá hundruð vélsleða sem ferðafólk fær að nota til að fá þann draum uppfylltan að þeysa á um slétta snjóbreiðu á flötu landi í svartasta skammdeginu eftir langt flugferðalag sunnan úr Evrópu.

DSCF3066

Fólkið lætur hvorki fimbulfrost, rökkur né snjókomu á sig fá, - margt af því er komið langt sunnan frá Miðjarðarhafi til að upplifa þetta fernt þegar það hefur komist á leiðarenda og drepið á sleðunum: Kulda, þögn, myrkur, ósnortna náttúru.   

Hið tilbreytingarsnauða vetrarmhverfi í Lapplandi stenst engan samjöfnuð við hið ótrúlega eldfjallalandslag á hálendinu norður af Mývatnssveit með nýmynduðum hraunum, gígum og gjám og sjóðheitum náttúrulegum hverasvæðum inni í miðri ísauðninni.

Á myndinni af Stóra-Víti, þar sem sjá má slóðir vélsleða niðri í hluta þessa gígs, stendur Friðþjófur efst uppi á brúnni andspænis en er eins og lítið sandkorn á myndinni, sést ekki nema myndin sé stækkuð með því að tvísmella á hana.  

Svo virðist sem menn sjái ekkert annað en álver hér á landi og maður heyrir setningar eins og. "Álver er forsenda fyrir jarðgöngum".

"Álver er forsenda byggðar, annars fer hér allt á vonarvöl" "

Þú og þínir líkar eruð andstæðingar byggðar og atvinnu á landsbyggðinni."

DSCF3085

"Það er stundum lítill snjór í Mývatnssveit."

Litlu virðist skipta þótt ég bendi á að yfirleitt sé snjóþekja á hálendinu fyrir norðan sveitina þar sem tekin var upp kvikmynd í slíku umhverfi fyrir nokkrum árum og flugvél lent þar á hjarni.

Heldur ekki þótt ég minnist á að lágt gengi krónunnar skapi tafarlausa möguleika í ferðaþjónustu. 

Ég reyni að vísu að forðast umræður um þessi mál á ferðum mínum og passa mig að minnast ekki orði á neitt annað en það sem gleður okkur öll. Ekki veitir af að vera jákvæður.

Ég má bara ekki vera jákvæður um aðra möguleika en álver. 

Það er óvinsælt að tala um óþægilega hluti, einkum fyrir mann sem er að verða stimplaður "óvinur Norðausturlands númer eitt" á svipaðan hátt og gert er á Austurlandi og stefniir í að gert verði á sunnanverðum Vestfjörðum.

DSCF3080

Umhverfið við Þeystareyki hefur breyst mikið. Þar hefur myndast vatn sem fer stækkandi og af einhverjum ástæðum töldu menn nauðsynlegt að bora nánast alveg ofan í fallegasta gróna hverasvæðinu. 

Innsti kjarni Þeystareykjasvæðisins er ekkert ólíkur hverasvæðunum í Yellowstone í Bandaríkjunum, sem eru á grónu landi.

En samt er munurinn gríðarmikill. Það er vegna þess að í næsta umhverfi Þeystareykja eru hraun og gjár sem mynda með hinu gróna svæði einstaka landslagsheild sem tekur umhverfiu hveranna í hinu friðaða svæði Yellowstone langt fram að fjölbreytileika. 

Nýlega hefur hinn eldvirki hluti Íslands verið útnefndur sem eitt af hundrað undrum veraldar, raunar eitt af um 40 náttúrgerðum undrum og eitt af sjö náttúruundrum Evrópu.

DSCF3091

Yellowstone, frægasti og elsti þjóðgarður heims með öllum sínum óbeisluðu hverum og vatnsföllum komst þar ekki á blað. Verður samt friðaður um aldur og ævi og orkan í staðinn sótt til merkari svæða á Íslandi.  

Þeystareykir eru hluti af stærsta, magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði í heimi og hafa þá sérstöðu meðal háhitasvæða þess að þar er gróið land. Eins og einn liturinn í regnboga þessa fjölbreytta svæðis.

Þeystareykir eru hliðstæða við hálsinn á Monu Lisu. Sá háls er ekkert öðruvísi eða merkilegri, skoðaður einn og sér, en hver annar háls á málverkum af konum.

Hann hefur hins vegar þá sérstöðu að vera hluti af Monu Lisu og það gerbreytir málinu. Enginn skyldi dirfast að snerta við honum.   


mbl.is Fólk flykkist í ferðalög innanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáfræði og óskhyggja um stefnuskrár í umhverfismálum.

Umsagnir fréttamanna og bloggara í dag sýna magnaða fráfræði og óskhyggju um stefnuskrár stjórnarflokkanna í umhverfismálum. Fréttamenn spyrja hvort SF þurfi ekki að gefa eftir gagnvart kröfum VG í umhverfismálum.

Jóhönnu Sigurðardóttur tókst að skjóta því að á ská í lok viðtals í dag að Samfylkingin legði líka mikinn áhuga á umhverfismál. Það hafði engin áhrif á bloggara sem áfram telja um mikinn stefnumun að ræða.

Hvernig væri nú að frétta- og blaðamenn og bloggarar létu af þrálátu áhugaleysi sínu á umhverfismálum og kynntu sér stefnuskrár þessara tveggja flokka? Enginn hafði áhuga á því eftir landsfund SF en nú er áhugi á að blása upp ímyndaðan stefnumun.

Ég starfaði í umhverfisnefnd SF á nýlegum landsfundi hennar. Samþykkt stefna Samfylkingarinnar hefur grænkað. Við fengum tekið upp að stefna að grænu hagkerfi og jafnrétti kynslóðanna (öðru nafni sjálfbær þróun).

Þetta er mjög mikilvægt. Sjálfbær þróun er þróun (starfsemi, framkvæmdir nýting) sem ekki sviptir komandi kynslóðir frelsi um að velja sér sína þróun. Sem sagt: Engin óafturkræf umvhverfisspjöll. Samþykkt var að hætta ágengri orkuöflun. Það þýðir í raun byltingu í nýtingu háhitans.

Felld var tillaga virkjanasinna um að Ísland sækti um undanþágu frá mengunarkvótum svo að hægt væri að reisa fleiri álver. Fulltrúar frá íslandshreyfingunni og Framtíðarlandinu lögðust þarna á sveif með öflugum grænum samherjum í SF og réðu með þeim úrslitum í þessu mikilvæga máli.

Samþykkt var viljayfirlýsing um að Vatnajökulsþjóðgarður yrði stækkaður til suðvesturs allt að Mýrdalsjökli svo að allt hið ósnortna eldvirka svæði norðan Suðurjökla yrði friðað. Það fellir sjálfkrafa út einar 5-6 fyrirhugaðar virkjanir á því svæði, Markarfjótsvirkjun, Reykjadalavirkjun, Torfajökulsvirkjun, Bjallavirkjun, Skaftárveitu og jafnvel Hólmsárvirkjun. Enginn fréttamaður tók eftir þessu.

Að sumu leyti gengur nýsamþykkt stefna SF lengra í græna átt en nýsamþykkt stefna VG.

Ég hef tekið eftir því að margir innan VG tóku ekki eftir þessu, en þetta er mjög mikilvægt fyrir VG.

Þá segja menn: En SF gaf eftir varðandi Fagra ísland og gefur aftur eftir núna.

En ég spyr á móti: Eftir hverjum á SF að gefa núna? Kröfum VG um fleiri álver?

Í ríkistjórninni 2007 gerði Sjálfstæðisflokkur stóriðjuna að úrslitaatriði. Samfylking gaf eftir því að Sjálfstæðismenn gátu hvort eð er ráðið þessu í krafti meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þingi.

Formaður Framsóknar setti strax ofan í við Kolbrúnu Halldórsdóttur á fyrsta starfsdegi hennar í minnihlutastjórinni og gerði það ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks réði í raun úrslitum í stóriðjumálum, þar með talið í Helguvíkurmálinu.

Hingað til hefur meirihluti þessara gömlu slímsetuflokka ráðið úrslitum í stóriðjumálum, sama hvaða stjórn hefur setið að völdum.

Nú er 86 ára tímabili lokið þar sem annar hvor eða báðir þessara flokka stóðu að öllum stjórnarmyndunum.

Það er eins og margir hafi enn ekki áttað sig á því hve óhemju mikilvægt þetta er.

Þegar fréttamenn elska að benda á ósætti og átök um stefnur stjórnarflokkanna verða þeir að gæta sín á því að stefna flokkanna sé mismunandi í raun.

Hún er það ekki núna og því um ekkert ágreiningsefni að semja um varðandi umhverfismál. Eða það skyldi maður ætla.


mbl.is Áframhaldandi viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nógu fínt að segja gríma.

Það er ekki nógu fínt að nota orðið gríma. Hallærislegt þegar afi og amma töluðu um að notaðar hefðu verið gasgrímur í heimsstyrjöldunum.

Nei, "mask" skal það kallast sem fólk gæti notað gegn svínaflensunni ef marka má orðaval í útvarpinu nú rétt áðan.

Læknar munu væntanlega hætta að nota grímur við uppskurði og nota hér eftir maska. Aðeins enskan er nógu fínt mál rétt eins og outlettin eru miklu söluvænni verslunarfyrirtæki en önnur.

Æðstu leiklistarverðlaun þjóðarinnar eru kennd við grímu. Þannig orðaval er greinilega ekki "in" og við verðum að fara að búa okkur undir það að verðlaunin verði ekki nógu fín nema þau beri enskt heiti, til dæmis "Mask prize" eða eitthvað svipað því.

Það hlýtur að koma að því. Þykir nokkur bíómynd boðleg nema með ensku heiti?


mbl.is Tvö óstaðfest tilfelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöföld harmsaga?

Ég heimssótti Keikó til Noregs skömmu áður en hann dó og gerði um hann sjónvarpspistil. Hann var að vísu orðinn gamall en það duldist ekki að honum leið ekki vel. Hann var daufur og auðséð að hverju stefndi.

Keikó varð tvívegis fórnarlamb ígrips mannanna inn í hina villtu náttúru. Hann var það ungur þegar hann honum var rænt úr eðlilegu umhverfi sínu að erfitt er að átta sig á því hvort honum leið verulega illa í fangavistinni í Mexíkó þegar hann var búinn að laga sig að henni. 

Hann hafði vanist aðstæðum þar og líklega gleymt því að mestu hvernig það var að vera frjáls í hafinu. 

Nú er ljóst að það hefði verið skást fyrir velferð hans að láta hann óáreittan innan um mennina.

Menn hefðu mátt segja sér að það væri rangt að "frelsa" hann og flytja hann til fjarlægs lands. En það þarf víst alltaf að sannreyna alla hluti, hversu augljósir sem þeir kunna að vera.

Tónlistin er öflugt verkfæri, - lag Michels Jacksons um hvalinn "Willy" er gott dæmi um það. 

En það má þó segja að Keikó hafi ekki lifað og dáið til einskis. Örlög hans ættu að verða mönnum lexía og koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt gerist aftur. 


mbl.is „Rangt að frelsa Keikó"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn erfiðara en 1918.

1918 voru engar flugsamgöngur á milli landa. Til Íslands sigldu tiltölulega fá skip á hverju ári. Samt kom spánska veikin hingað rétt eins og svarti dauði 1402.

Tímarnir eru gerbreyttir og Ísland er ekki meira eyland en önnur lönd í þessu tilliti. Flensan er farin af stað og verður ekki stöðvuð. Spánska veikin, sem var inflúensa, lagði fleiri í gröfina á heimsvísu en féllu í heimstyrjöldinni fyrri.

Margt er líkt með tímunum nú og fyrir 90 árum. 1917 var dýpsti kreppudalur sem komið hefur á íslandi, dýpri en í heimskreppunni miklu. Ofan á það bættist spánska veikin árið eftir auk hafísvetrarins mikla og Kötlugoss.

En það er alltaf ljós í myrkrinu. Fullveldið 1918 var langstærsta skref Íslands í sjálfstæðisbaráttunni, einkum vegna þess að þá var í fyrsta skipti tryggt að hægt væri eftir ákveðinn tíma hægt að rifta sambandinu við Dani endanlega.

Ónæmisbakteríu þróast hraðar en varnir við þeim. Börn okkar og barnabörn fá mikið verkefni að glíma við.

Það hefur líklega alltaf verið tálsýn að maðurinn gæti sigrast á öllum sjúkdómum. Þeir hafa fylgt öllu lífi frá örófi alda og við það verður að sætta sig og reyna með baráttu að fá það besta út úr því lífi sem okkur hefur þó verið gefið milli vöggu og grafar.

Okkur er áskapað að berjast fyrir lífinu og taka þann slag með þökk fyrir það að hafa fengið að lifa. Ekki er enn vitað hve skæð svínaflensan verður. 1918 fór ungt fólk verr út úr veikinni en gamalt en ekki hefur komið í ljós núna hverjir eru veikastir fyrir.

Á okkar tímum getur heilbrigðiskerfið tekið mun fastar og markvissara á í varnaraðgerðum en 1918, þótt ekki verði hægt að stöðva faraldurinn.


mbl.is Of seint að hindra útbreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband