27.5.2010 | 07:20
Skynsamlegt í ljósi reynslunnar.
Yfirlýsing um goslok í Heimaeyjargosinu 1973 markaði tímamót í aðgerðum vegna þess. Þegar í stað var hafist handa við uppbyggingarstarf sem tók nokkur ár.
Það kynni að vera freistandi að lýsa yfir goslokum í Eyjafjallajökli en í ljósi reynslunnar frá gosinu 1821 er vafalítið óskynsamlegt að gera það í ljósi þess hve mikið áfall það yrði ef gysi á nýjum stað, jafnvel í Kötlu.
Eins og er eru verkefnin ærin við að ráða fram úr þeim viðfangsefnum sem öskurok á hinu stóra svæði allt frá Landmannaleið suður til sjávar á eftir að færa mönnum.
![]() |
Lýsa ekki yfir goslokum að sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2010 | 01:23
Hin blinda áltrú.
Orkumálastjóri hefur rökstutt það vel að þótt álver hafi passað vel inn í það þegar virkja þurfti stórt á einum stað eins og við Búrfell í upphafi eða við Kárahnjúka, gildi þveröfugt gagnvart jarðvarmavirkjunum, sem séu alger andstæða stórra vatnsaflsvirkjana.
Vitað er fyrirfram hve mikla orku heildarvirkjun eins fallvatns muni gefa og að hagkvæmtast sé að virkja stórt.
Hins vegar er mikil óvissa jafnan um það hver mikið muni fást út úr hverju jarðvarmasvæði og því heppilegast að virkja þar í áföngum skref fyrir skref.
Þess vegna henti litlir og fleiri kaupendur betur jarðvarmavirkjunum heldur en stórir, orkufrekir kaupendur.
Þetta vilja áltrúarmenn alls ekki skilja heldur vaða áfram með hina blindu trú sína sem er á skjön við helstu skynsemisrök jarðvarmavirkjana.
Menn heimta álver og aftur álver og þegar sex hugsanlegum kaupendum er raðað, lenda tveir álrisar efst á forgangslistanum.
Er engin leið að stöðva þessa vitleysu?
![]() |
Sumarleyfi tefja uppbyggingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2010 | 12:24
"Hvort eð er" hugarfar?
"Hvort eð er" hugarfar á miklum vinsældum að fagna hér á landi. Það byggist á því að þegar allt er með endemum skipti ekki lengur máli þótt haldið sé áfram á þeirri braut, það sé hvort eð er búið að klúðra svo miklu.
Þetta hugarfar skín til dæmis í gegn þegar um umhverfisvernd eða náttúruvernd er að ræða. Við erum hvort eð er svo rækilega búin að rýja okkur öllu áliti erlendis að það tekur því ekki að vera neitt að reyna að rétta hlut okkar.
Með þessu hugarfari má réttlæta að ráða fólk í vinnu í borgarstjórn Reykjavíkur sem ýmist hefur aldrei komið nálægt neinu slíku eða gerir það opinbert að það ætli ekki að vinna þessi störf heldur auglýsir eftir fólki til að gera það.
Slíkt er auðvitað með endemum en þá er bara yppt öxlum og sagt: Stjórnmálamenn eru hvort eð er búnir að haga sér með endemum síðustu ár og við Íslendingar erum hvort eð er orðnir frægir að endemum.
![]() |
Mikið forskot Besta flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.5.2010 | 22:17
Slæmar fréttir og góðar fréttir.
Allt það gríðarlega magn ösku, sem sunnanátt bar frá Eyjafjallajökli norður yfir austurhluta Fljótshlíðar og um afréttina norður og austur af henni, allt frá Heklu og austur um, hefur nú verið rifið upp af stífri norðanátt sem hefur kaffært allt þetta svæði og Mýrdal og Eyjafjöll í dag.
Ég fór austur að Fljótsdal og til baka í dag og meðfylgjandi myndir, sem ég ætla að setja inn, sýna, að þarna var mikið öskumistur.
Norðurflug, sem byrjað er að fljúga þyrlu frá Hótel Rangá að nýju, gat ekkert flogið í dag vegna öskumistursins og ekki flaug ég heldur.Frá Fljótshlíð sást aðeins rétt suður á sléttuna niður af hlíðinni í stað þess að í svona veðri er venjulega frábært útsýni þar yfir sléttuna, Markafljót og Eyjafjallajökul, sem rís í suðri.
Varla grillir á efstu myndinni í hús á sléttunni til vinstri á myndinni og askan þyrlaðist upp í hvirflum eins og sjá má.
Það verður snúið viðfangsefni fyrir ferðaþjónustuna í sumar að standa þannig að málum að þetta bitni ekki illilega á henni á hinum vinsælu ferðamannaslóðum allt norðan frá Landmannaleið suður um Eyjafjöll og Mýrdal.
Þetta eru auðvitað slæmar fréttir en samt er hægt að sjá jákvætt við það að askan fjúki nú og raunar sem fyrst og mest á meðan aðal ferðamannatíminn er ekki hafinn.
Því meira af öskunni sem vindurinn feykir nú á haf út, því minna verður af henni síðar í sumar þegar mest á ríður að hún geri sem minnstan óskunda.
![]() |
Innandyra í öskufoki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2010 | 23:46
Verstu "lestarstjórarnir".
Ég vil bæta við pistil um "lestarstjóra" í umferðinni því sem er kannski mikilvægast í sambandi við þá en það tillitsleysi þeirra að halda sig inn við miðlínu vegar og koma þannig kyrfilega í veg fyrir að nokkur komist fram úr þeim.
Fyrir nokkru ók ég niður Kambana og á þeim kafla voru þrír afar hægfara bílstjórar. Tveir þeirra héldu sig fast við miðlínu þótt auðvelt væri fyrir þá að víkja til hægri út á breiða öxl sem er ætluð fyrir farartæki sem komast ekki hratt.
Við slíkar aðstæður er freisting að fara fram úr hægra megin og nota vegöxlina til þess en það er ekki leyfilegt og því gera menn það ekki.
Einn af þessum þremur bílstjórum skar sig þó úr og fór strax út á öxlina. Þegar ég fór fram úr bílnum áttaði ég mig á því að þetta var útlendingur á bílaleigubíl.
Sjálfur á ég tvo fornbíla sem geta ekki haldið 90 kílómetra hraða upp brekkur ef ég fer út úr bænum og reyni alltaf að haga akstri mínum þannig að allir komist fram úr mér þótt stundum sé það erfitt vegna þess hve Vegagerðin sinnir lítið um vegaxlirnar, sem víða eru illfærar og hættulegar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2010 | 22:11
Aðferð sem svínvirkar.
Þegar Geysir Green ferlið hófst vorið 2007 var þess vandlega gætt að láta sem ekkert væri.
Við, sem höfðum grunsemdir og mæltum gegn því sem þá var hafið, vorum talin öfgafull.
Skyndilega vakna menn nú upp við það að kanadiskt fyrirtæki á mestalla orku Reykjanesskagans og er ekkert að fara í felur með það núna, þótt sagt væri áður að sænskt fyrirtæki væri á ferð.
Í upphafi var sagt að aðeins yrði um 120 þúsund tonna álver að ræða á Reyðarfirði og allur áróður fyrir virkjun eystra miðaðist við það. Fyrr en varði var þetta orðið 346 þúsund tonna álver og umhverfisspjöll vegna virkjunar marfölduðust.
Sama aðferð var notuð á Bakka og hún er einnig notuð í Helguvík.
Allt í einu kemur upp að búið er að leita samninga við sveitarstjórnir og landeigendur varðandi virkjanir í Kerlingafjöllum og Skaftá. Samt er reynt að breiða yfir hinn raunverulega tilgang að útlendingar eignist bæði auðlindirnar og vinnsluna og flytji stórfelldan arð úr landi eins og raunin hefur orðið varðandi Kárahnjúkavirkjun og fyrri virkjanir.
Aðferðin svínvirkar. Þegar upp verður staðið verður ekkert ósnortið eftir líkt og gerðist þegar uglan skipti ostbitanum í dæmisögunni forðum.
![]() |
Fjarlæg Búlandsvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2010 | 06:52
Mætti skoða "lestarstjórana".
Þyrla gæti nýst við við þá þörfu nýjung að fylgjast með því fyrirbæri sem kalla má "lestarstjóra", en það eru bílstjórar sem í sumum tilfellum virðast vart færir um að aka í þjóðvegaumferð vegna hægagangs í akstrinum.
Þá má oft þekkja á hægum akstri þar sem þeir lötra áfram á allt niður í 50 kílómetra hraða við bestu aðstæður þar sem leyfður er 90 km hámarkshraði.
Fyrir aftan þá myndast oft langar raðir bíla og í þéttri umferð skapa þessir ökumenn hættu vegna þess að þeir lokka aðra til að reyna framúrakstur við erfiðar aðstæður.
Sumir þessara ökumanna aka afar skrykkjótt og er oft næstum því fyndið að sjá hvernig þeir virðast vera að fara á límingunum við það að taka beygjurnar í Kömbunum í þurru sumarveðri af "öryggi" með því að hægja á sér allt niður í 40 km hraða algerlega að aðstæðulausu.
Ég hef oft verið að reyna að rýna í það hvaða bílstjórar eru hér á ferð og reynist oft vera um gamalt fólk að ræða sem augljóslega er búið að missa hæfni til aksturs í þjóðvegaumferð en er samt á ferli og heldur að það skapi mikið öryggi fyrir það og aðra vegfarendur að aka sem allra hægast.
Þetta fyrirbæri er lygilega algengt en ég minnist þess aldrei að hafa nokkurn tíma séð lögreglu stöðva slíka bílstjóra.
![]() |
Gómaðir úr þyrlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.5.2010 | 17:21
Ekkert kemur upp.
Mér tókst að ná mynd á ellefta tímanum í morgun sem er líklega eina myndin, þar sem efsti hluti ísgjárinnar í gegnum Gígjökul með nýrunnu hrauni í, gígurinn sjálfur og gufumökkurinn upp úr honum sjást greinilega og ekkert ský hindrar útsýnið.
Niðurstaða: Engin gosefni koma upp, aðeins gufa. Sendi myndina til ruv og Stöðvar 2.
Ég var núna um fjögurleytið að koma úr flugi með Magnús Tuma Guðmundsson, jarðeðlisfræðing, sem tók bæði ljósmyndir, kvikmyndir og hitamyndir af gosgígnum í Eyjafjallajökli.
Mesti hitinn sem mældist í gígnum voru 100 stig sem óravegu frá bræðslumarki hrauns. Niðurstaða: Ekki kemur vottur af kviku upp.
Þar með er ekki sagt að gosinu sé lokið, sé miðað við fyrri gos. Þvert á móti ætti einmitt nú að hafa sérstakan vara á varðandi það að það taki sig upp á nýjum stað.
![]() |
Eldgosinu ekki lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.5.2010 | 00:18
Glæsilegt fólk framtíðarinnar.
Nú er sá tími þegar glæsilegt ungt fólk framtíðarinnar útskrifast úr framhaldsskólum landsins, fólkið sem þar að taka til eftir okkur, sem búin eru að klúðra svo mörgu.
Einn nemandinn í Íslandsmetshópi Verslunarkonan er stórglæsileg bróðurdóttir mín, Mist Edvardsdóttir, sem samfagnaði með fjölskyldu og vinum í kvöld í föðurhúsum.
Mist er flottur fulltrúi hinnar nýju kynslóðar sem getur gengið út í lífið með opnari sýn á sig og þjóðfélagið en flestar kynslóðir á undan henni.
Stúlkurnar eru óhræddar við að feta nýjar slóðir og Mist er gott dæmi um það, - er harðsnúin og kappsöm knattspyrnukona sem stefnir hátt á mörgum sviðum.
Eini erfiðleikinn varðandi föðurbræður hennar, sem eru forfallnir Framarar, er að hún spilar fyrir KR svo að það yrðí dálítið erfitt fyrir okkur að hrópa "áfram KR!" ef til þess kæmi.
En að baki þessum orðum mínum býr auðvitað engin alvara, heldur stolt yfir því að unga fólkið sé óhrætt fyrir að fara sínar leiðir og stefna hátt.
Og Mist er ekki eina systkinadætrunum sem lætur til sín taka við markaskorun í efstu deild knattspyrnunnar, því að hún og Margrét Ólafsdóttir, sem var landsliðskona á á sinni tíð og ein allra besta knattspyrnukona landsins þá, eru systkinabörn.
![]() |
Tæplega 300 útskrifaðir frá Verzlunarskólanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2010 | 00:07
Vindakerfið og staðbundnar aðstæður ráða oft.
Ég varð var við þetta fína duft í dag við Hótel Rangá en ekki þurfti að undrast það eftir flug þaðan til Vestmannaeyja og síðan í átt að Múlakoti og til baka á upphafsstað.
Þótt það væri róleg vestanátt í 1500 metra hæð gaf Veðurstofan upp breytilegan vind í 3000 metra hæð og greinilega mátti auk þess sjá hvernig loftið ofan af jöklinum skreið í neðri loftlögum niður hlíðar hans og sogaðist þaðan inn að lítilli hitalægð, sem myndaðist yfir austanverðu Suðurlandsundirlendinu.
Suðurlandsundirlendið er stærsta undirlendi landsins og þar valda landfræðilegar aðstæður því að oft myndast þar sérstakar veðurfræðilegar aðstæður á sama hátt og jökulskjöldur Vatnajökuls myndar oft sitt eigið veðurkerfi.
Ég efast um að þetta komist alltaf inn í tölvulíkönin í London þar sem spár eru gerðar fyrir öskufall og tel því mikilvægt að reynt sé hér heima að finna út raunverulegar aðstæður fyrir hvern tíma frekar en að treysta eingöngu á spá í tölvulíkani.
![]() |
Fín aska fellur á Hvolsvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)