Kolbrúnn og ægilegur.

Öskumökkurinn úr Eyjafjallajökli hefur verið kolbrúnn og ógnvekjandi í dag. Ekki örlar lengur á neinum öðrum lit í mekkinum og ljósir litir sjást ekki lengur.

Nú síðdegis var mökkurinn eins og vængjaður ofurþurs að sjá þar sem hann reis upp úr gígskálinni, sem rétt teygði sig upp úr skýjahulunni eins og sést á myndunum, sem voru teknar nú í kvöld. p1011724.jpg

Öskuna lagði beint í norður og mátti Hekla láta sér lynda að vera kaffærð af dökkum öskublönduðum skúraskýjum í allan dag sem og hálendið þar austur og suður af. 

Aðeins þrjú stór og há eldfjöll rísa við strönd Íslands, Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull og Öræfajökull. 

Snæfellsjökull nær 1446 metra hæð, Eyjafjallajökulll 1666 metrum og Öræfajökull 2110. p1011732.jpg

Þessi fjöll eiga stærð sína og hæð að þakka framleiðslu hrauns og Eyjafjallajökull, sem hingað til hefur þótt frekar meinlítið fjall miðað við stærð sína, hefur nú minnt óþyrmilega á að stærð hans er engin tilviljun.

Hann er nú búinn að stimpla sig inn í flokki með mikilvirkustu eldstöðvum á borð við Heklu, Öskju og Kötlu. 

Á neðri myndinni er horft hátt úr vestri til eldfjallsins og sést Markarfljót á milli skýjabreiðanna sem eru sitt hvorum megin við dalinn milli Eyjafjallajökuls og Tindfjalla. 

 


mbl.is Mikið sprengigos í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland sér á parti? Gengur ekki upp.

Á fundum hjá 4x4 og Slóðavinum hef ég lýst í fyrirlestrum því hvernig akstri á torfærutækjum utan vega er háttað hjá þjóðum austan hafs og vestan.

Langflestir fundarmanna hafa sýnt skilning þeim sjónarmiðum sem ég hef lýst.

Í Noregi, landinu, sem mest svipar til Íslands, er allur akstur utan vega bannaður, líka á snjó yfir veturna. 

Þar yrði jeppa á stórum dekkjum ekki einu sinni leyft að fara eftir GPS-mælingu að vetrarlagi ofan á snjóþekjunni sem liggur á malbikaða veginum yfir Harðangursheiði.

Miðað við Noreg er Ísland gósenland slíkra ferða og getur verið það áfram ef tillit er tekið til annarra hópa fólks, sem sækist eftir kyrrð, friði í hinni ósnortnu náttúru. 

Margir halda að ríkin í og við Klettafjöllin í Bandaríkjunum, sem eru jafnvel dreifbýlli en Ísland, séu dýrðarland fyrir torfærutæki í líkingu við það sem halda mætti af lestri blaða og tímarita um þau efni, sem seld eru hér á landi.

Þetta er alrangt og af þeim 25 þjóðgörðum sem ég hef skoðað í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er aðeins leyfður torfæruakstur í þjóðgarðinum Giljalandi skammt frá Mekka torfæruaksturins sem er bærinn Moab við Coloradofljótið.

Í þeim þjóðgarði eru 1600 kílómetrar af merktum jeppaslóðum en að öðru leyti er allur akstur bannaður utan þessara merktu slóða og þung viðurlög við brotum á því í þessum jeppaþjóðgarði.  Punktur.

Ákveðin tiltölulega lítiil, afmörkuð svæði eru í nágrenni Moab fyrir keppnis- og æfingaakstur.

Í vesturríkjunum eru einstakar afmarkaðar leiðir ætlaðar til torfæruaksturs svo sem Rubicon og akstursleiðirnar í Baja-akstrinum. 

Á öllum þeim svæðum, sem ég hef skoðað erlendis sem keppa við Ísland um ferðamenn sem vilja njóta náttúrunnar er hvergi að finna það takmarkalitla frelsi sem sumir eigendur torfærutækja hafa tekið sér hér á landi.

Alls staðar er keppst eftir því að laða til ferðalaga fólk, sem vill njóta útivistar og náttúrufegurðar í ósnortinni náttúru fjarri vélaskarkala nútímans. 

Við munum tapa þessum stóra markhópi milljóna manna frá okkur ef við friðum ekki stór svæði fyrir torfærutækjaeigendum sem halda að þeir eigi að geta spænt eftir gönguslóðum og kindagötum eins og sumir þeirra telja eðlilegt. 

Dæmi: Göngustígurinn Árnastígur liggur frá Grindavík í norðvestur í átt til byggðanna á Rosmhvalanesi. Hann liggur um harðar klappir og á fundinum með Slóðavinum voru menn sem töldu sjálfsagt að torfærutæki mættu þeysa um stíginn af því að þau mörkuðu ekki í klappirnar. 

Göngufólk sem gengur þennan stíg gerir það til þess að setja sig í spor vermanna og gangandi fólks fortíðarinnar sem gekk svo oft þennan stíg að hraunklappirnar eru ljósari á litinn en hraunið í kring.

Þessi upplifun gangandi fólks er eyðilögð ef torfærutækjum er leyft að fara þarna um að vild á þeim forsendum að allar göngu- og kindagötur á Íslandi séu þeim opin.

Ísland er nefnilega ekki stórt, heldur lítið miðað við það ferðafólk með ólíkar áherslur, sem fer sífjölgandi.   

Öræfajökull hefur þegar verið friðaður fyrir vélknúinni umferð og hafa jeppamenn yfirleitt ekkert við það að athuga. 

Ég er í hópi þeirra sem hrífst af fjölbreytileika í ferðum um hálendið og fólkvangana, gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi og hef notið allra þessara ferðamáta. En mér kemur ekki til hugar að hægt sé að viðhalda því taumleysi sem sumir eigendur torfærutækja og hesta virðast halda að hér eigi að ríkja. Því verður að linna.

Staðreyndin er sú að hver fyrrnefndra hópa er orðinn það stór að það geta ekki allir verið alls staðar heldur verður að fara skipta landinu upp og gera það í skynsamlegri sátt.

Eigendur torfærutækja eru svo heppnir hér á landi að hafa mestallt hálendið undir þegar þykkur snjór liggur yfir því á veturna.

Að öllu samanlögðu eru meiri tækifæri hér á landi en nokkurs staðar annars staðar til að hægt sé að taka torfærutæki til kostanna án þess að það skaði landið eða spilli fyrir göngufólki. 

Ásókn í takmarkalitla umferð torfærutækja er hluti af því hömluleysi og frekju sem leiddi þjóðina í efnahagshrun.

Þetta er þjóðarlöstur. Að auglýsa Ísland sem land hins algera frelsis í torfærutækjaumferð eins og heimasíður ýmisssa gefa í skyn gengur ekki upp.

Nema að á þessu sviði eins og fleirum sé okkur orðið sama um allt nema hugarfarið "take the money and run!" , "...á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint...!"  

 


mbl.is Nauðsynlegt er að taka á vanda vegna torfæruaksturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðvörunarorð sanna gildi sitt, því miður.

Fyrir kosningarnar 2007 varð Íslandshreyfingin fyrst framboða til að andmæla harðlega þeirri þróun sem þá hófst til að selja auðlindir landsins. Þetta var eitt aðal mál flokksins fyrir kosningar en flestir létu sér fátt um finnast og fannst allt of djúpt í árina tekið. 

Nú er hins vegar því miður að koma fram að þessi aðvörunarorð áttu fullan rétt á sér og að þróunin í þá átt að þjóðin afsali sér auðlindum sínum í hendur útlendinginum er enn hraðari og róttækari en flesta óraði fyrir. 

Geir Haarde orðaði það eitt sinn svo kotroskinn eftir kosningarnar að málefni Íslandshreyfingarinnar hefðu "ekki fengið hljómgrunn" vorið 2007. 

Þeirra á meðal var hið stóra mál um yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum til lands og sjávar. 

Efnahagshrunið er smámál miðað við að það auðlindirnar verði erlendum auðfélögum að bráð. 

Ef þær fara úr okkar höndum er til lítils að guma af sjálfstæði okkar á hátíðarstundum og illa komið fyrir Íslendingum að glata því sem vannst í harðri sjálfstæðisbaráttu fyrir öld. 

Finnum tókst að tryggja sjálfstæði sitt með því að leggja hart að sér við að borga skuldir sínar. 

En afsal eignarréttar yfir auðlindum landsins verður mun erfiðara viðfangs að fást við fyrir afkomendur okkar.

Í þessu birtist enn og aftur fádæma tillitsleysi núlifandi kynslóða gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. 

 


mbl.is Magma samningur fari fyrir dómstóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og hveiti.

Askan sem hefur fallið úr Eyjafjallajökli að undanförnu er að hluta til svo fín, að hún er hveiti líkust og fýkur í minnsta vindi.  Þetta er bæði kostur og galli. 

Það er kostur að góður strekkingur geti feykt öskunni í burtu eins og gerðist nú seinnipartinn í Vestmannaeyjum. 

Hins vegar er hugsanlegt að svona örfín aska geti smogið í gegnum filtera í hreyflum og inn í viðkvæm tæki. Þarf að hafa vel varann á. p1011699.jpg

Á túninu þar sem ég er með flugvél mína, þyrlast upp ryk í hverju spori, jafnvel þótt stigið sé ofur varlega til jarðar. 

Ef ég hins vegar ek bílnum í hringi í kringum hana getur það eitt feykt öskunni í burtu og sama gerir hreyfilskrúfan. 

Það kostar talsverða útsjónarsemi að aka flugvélinni þannig um túnið að skrúfan þyrli ekki ryki inn í filterinn. 

Hef ég tekið til þess bragðs að lenda eins stutt og hægt er á enda túnsins og fara á loft í beinu framhaldi án þess að snúa við. 

Það góða við strekkingsvind á þessu svæði um miðjan dag í dag var að talsvert af öskunni fauk í burtu. 

Þótt það væri næsta hvimleitt meðan á því stóð var hreinsun að þessu þegar leið á daginn. 


mbl.is Askan þyrlast upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf mælingar í viðbót við spár.

Lokun íslenskra flugvalla síðan gosið hófst í Eyjafjallajökli er ekki byggð á mælingum á ösku í andrúmsloftinu hér heldur á spám, sem gerðar eru í tölvulíkönum.

Þegar haft er í huga hið mikla fjárhagstjón sem lokanirnar valda og er miklu meira en nemur tapi flugrekenda og ferðaþjónustu er augljóst að hér verður að verða breyting á. p1011574.jpg

Á dögunum var fengin hingað í snögga ferð sérsmíðuð þota sem annast mælingar í Evrópu og tók hún einhver sýni hér.  Ekki hefur fylgt sögunni hver árangur eða niðurstaða þeirra mælinga var og finnst mér það undarlegt á öld upplýsinga og fjölmiðlunar. 

Ljóst er að það er allt of dýrt að fá slíkan grip alla leið hingað til mælinga. En hvers vegna neyðast menn til að setja flugbönn á borð við þau sem hér hafa gilt?

Jú, ástæðan er sú hve margir aðilar tengjast flugi flugvéla. Tryggingafélög vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og lögum samkvæmt er óheimilt að fljúga ótryggðri flugvél, hversu lítil sem hún er.

Íslensk tryggingarfélög endurtryggja hjá stærri félögum erlendis og ráða þessu því ekki sjálf.

Svipað er að segja um framleiðendur flugvéla og þó einkum flugvélahreyfla.

Framleiðendur hreyflanna hætta að veita ábyrgð á endingu hreyflanna ef minnsti vafi er á að þeir séu notaðir við viðurkenndar aðstæður. Ef ábyrgðin er felld niður skelfast flugvélaeigendur. 

Það ríkir sem sagt ákveðið hjarðeðli í þessum bransa sem hefur valdið því að allir hrökkva undan.

Ég get nefnt dæmi um fáránlegt flugbann sem sett var á vestur af gosstöðvunum hinn 4. maí síðastliðinn og hefur síðan valdið þyrluflugrekendum og fleiri flugrekendum miklu tjóni. 

Ég get líka staðfest á hinn bóginn eftir meiri og minni stanslausa viðveru á þessu svæði síðan, að einstaka daga hefur aska borist með vindum í lægstu eða efstu hæðum til vesturs og því verið ástæða þá daga að hafa varann á.

Askan sem féll í Fljótshlíð og í Austur-Landeyjum í gærmorgun og síðdegis í gær er gott dæmi um það. 

 En mælingar hefur skort og ég er jafnvel farinn að halda að hugsanlega hafi aldrei verið þörf á að loka neinum flugvelli hér á landi.  

En um það þýðir ekki að fást á meðan framleiðendur flugvélahreyfla, tryggingarfélög og aðrir telja sig tilneydda til að túlka allan vafa á annan veginn. 

Ég veit að hér á landi er að finna vísindamenn sem gætu þróað mælingabúnað er koma má fyrir á lítilli bulluhreyflaflugvél, sem hefur getu til að komast upp í 20 þúsund feta hæð, flugvél, sem er hvergi nærri eins næm fyrir ösku og skrúfuþota eða þota. 

Með því að nota slíka flugvél til mælinga mætti taka sýni í þeim flughæðum sem notaðar eru í innanlandsflugi hér fyrir brot þeirrar upphæðar sem þota, sótt til Evrópu kostar,  og jafnvel leyfa flug út frá alþjóðaflugvöllum okkar í lægri hæðum. 

Hægt væri að kaupa hingað til lands í þessu skyni bulluhreyflavél sem næði 25 þúsund feta hæð eða jafnvel enn hærra. Ég átti eitt sinn slíka vél en varð að selja hana til Bandaríkjanna.  

Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær. Það gamla máltæki á líkast til við í þessu efni. 

 

 

 

 


mbl.is Flug samkvæmt áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Askan er ekki yfir alveg öllu.

"Á þetta að vera á Listahátíð í Reykjavík?" spurði Egill Eðvarðsson þegar hann gekk fram hjá mér uppi í Sjónvarpi í dag og sá myndir sem ég var að skoða á skjá myndavélar minnar. p1011698.jpg

"Nei," svaraði ég, "en gæti kannski einhvern tíma orðið að sýningaratriði á Hvolsvelli". 

Myndirnar eru þær sem sjá má í þessari bloggfærslu síðdegisins þegar þær verða allar komnar inn.

Þær sýna að 25 fermetrar af túni bóndans að Vestra-Garðshorni rétt vestan við Hvolsvöll höfðu sloppið algerlega við öskufall þótt svart lag af ösku væri allt í kring. p1011700_990412.jpg

Engin furða að Egill yrði hissa þegar hann sá þessar myndir á færi, því að engu er líkara en að stað hvítrar flugvélar, sem varpaði dökkum skugga á jörðina, væri kominn ljós skuggi sem svartur hlutur, flugvélin, varpar á jörðina.

Efsta myndin er tekin eftir að flugvélin hefur verið færð fram fyrir staðinn þar sem hún stóð þegar askan féll lárétt af himnum. 

Titill myndarinnar gæti verið "Aska-flug-landbúnaður"  "Ash-Aviaton-Farming".

Myndirnar voru teknar strax eftir að askan féll í morgun og Frúin síðan færð hið snarasta í gott bað á hlaðinu á Vestra-Garðshorni, komið með hana aftur og hún sett á sama stað. p1011690.jpg

Ef ég hefði haft flugvélina á túni Lambhaga rétt hjá Hótel Rangá, eins og hún hefur líka verið að undarförnu, hefði hú hún sloppið nær alveg við öskufalli, svo skörp voru skil mesta öskufallsins við Eystri-Rangá í morgun.

En þá hefði ég aldrei getað tekið svona mynd. 

Og mestu af þessu rigndi sem svartri drullurigningu á aðeins 20 mínútum.

Öskufallið í morgun sýnir að enda þótt miklar búsifjar hafi orðið undir Eyjafjöllum og í Mýrdal af völdum öskufalls hefur þó verið lán í óláni ef heildarmyndin er skoðuð, að mikið af öskunni hefur borist stystu leið á haf út. 

Það hefur verið ljóstýra í öllu öskumyrkrinu að mun verra hefði verið að fá hana allan tímann yfir Suðurlandsundirlendið sjálft og samanlagt tjón mun meira.  

P. S.  Með bloggpistlinum á undan þessum birtast loksins myndirnar, sem voru teknar uppi við gíginn í fyrradag og ég ætlaði alltaf að birta með þeim pistli. 

Sú neðsta er hin sama og birtist í Morgunblaðinu. 


mbl.is Aska yfir öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur ekki á óvart.

Það kemur ekki á óvart fyrir þann sem hefur fylgst með gosinu úr lofti í gærkvöldi, morgun og í kvöld að öskufall sé mikið undir Eyjafjöllum.

Efri myndin er tekin á túninu á Vestri-Garðsauka við Hvolsvöll í kvöld áður en birti til á jöklinum, en á þessu túni eða túninu í landi Lambhaga við Hótel Rangá hef ég verið að vappa á flugvél og bíl að undanförnu og skotist inn á þessum stöðum til að senda myndir eða blogga. p1011388.jpg

Á ellefta tímanum í gærkvöldi sá ég mikilfenglegustu eldgusuna, sem ég hef séð um langt skeið, koma upp úr gígnum og var einn glóandi klumpurinnn líkast til á stærð við heila íbúðablokk. p1011626.jpg

Kolsvartur mökkurinn steig hátt upp í kvöld. 

Í könnunarferð yfir jökulinn á ellefta tímanum, þegar birti til á honum, sást að aukinn kraftur hefur færst í hraunframleiðsluna með tilheyrandi eldi í gígnum og stóraukinni gufumyndun í hraunrásinni, sem liggur niður um hina mikilfenglegu ísgjá í Gígjökli.

Set hér með eina af myndunum, sem ég ætlaði að hafa með blogginu í fyrradag þegar fólk var uppi við gíginn.

Ef þið stækkið þessa mynd með því að smella tvisvar á hana sjáið þið eins og örlítil korn fólkið, sem gengur eftir klettarimanum Goðasteini andspænis gosinu, og þó sést aðeins allra neðsti hluti gosmakkarins. 

Vel sést hvernig öskureyk leggur upp af bjargi sem fellur niður í mekkinum. Skutla kannski fleiri myndum inn við tækifæri.  p1011643.jpg

Í dag hefur þoka legið á jöklinum niður í miðjar hlíðar og lýsingin frá blogginu hér á undan um það að opið hefði átt að vera fyrir ferðalög inn á hann hefði því alls ekki átt við. 

Hún átti bara við á miðvikudag, en daginn þar áður lá hins vegar þoka á jöklinum. p1011623.jpg

Flestir ferðamenn hér dvelja hér í nokkra daga og þess vegna nægir einn góður dagur alveg til þess að gefa fólki kost á að kynnast nánar fyrirbæri, sem hvergi er að sjá í heiminum, svo sem ísgjánni mikilfenglegu, fyrirbæri sem aðeins finnst á Íslandi. 


mbl.is Kolniðamyrkur við jökulinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt í gærkvöldi, - grátlegt ástand.

Eldgosið var glæsilegt í gærkvöldi þótt skýjahula væri í hlíðum Eyjafjallajökuls. Ef einhver hefði staðið á Goðasteini og horft til gossins, þar sem engin björg hafa fallið í marga daga, og jafnvel staðið enn fjær, þótt enn fjær, langt frá því svæði þar sem glóandi björg geta komið niður, hefði hann getað öðlast alveg einstaka upplifun. 

En enginn var á ferð, enda leiðinni upp á fjallið lokað í 16 kílómetra fjarlægð. Í 16 kílómetra fjarlægð færðu að vita það að þú sért við mörk hættusvæðis þótt hvergi sé neitt athugavert að sjá næstu 16 kílómetrana framundan. Og þessi frétt berst út, frétt um ógn og skelfingu gossins. 

Hér á landi eru staddir tveir jarðfræðingar, sem hafa rannsakað eldgos um víða veröld, Haraldur Sigurðsson og svissneskur jarðfræðiprófessor sem fór upp að eldstöðinni í fyrradag.

Ekkert virðist farið að þeirra áliti varðandi það hvernig háttað er aðgengi að þessu gosi og hefur Haraldur þó látið sína skoðun i ljós.

Við eigum líka fleiri frábæra jarðfræðinga svo sem Magnús Tuma Guðmundsson, sem hefur yfirgripsmikla þekkingu, þótt ekki hafi hann komist í návígi við jafn mörg eldgos og tveir fyrrnefndir menn.

Í gær stóð vindurinn úr vestri að gígnum og leiðin upp frá Hamraendum var algerlega hrein og fullkomlega hættulaus.

Samt var hún lokuð.

Þegar lögfsóknafarganið var sem mest í Bandaríkjunum á sínum tíma voru gestir í afmælispartíum látnir undirrita yfirlýsingu um það að þeir gengju þar um sundlaugarbarminn á eigin ábyrgð svo að gestgjafinn þyrfti ekki að óttast skaðabótamál ef einhver hrasaði.

Auðvelt er að koma á slíku fyrirkomulagi hér á mun hættuminna svæði en sleipur sundlaugarbarmur er. Líka hægt að hafa þarna mannskap til eftirlits og þjónustu, sem hefur aðgang að nýjustu upplýsingum, sem gefnar eru frá mælum jarðvísindamanna í Reykjavík. 

Ég hef þegar hitt ferðafólk sem er komið gagngert til landsins til að kynnast gosinu þrátt fyrir margfaldan hræðsluáróður um það hve ógurlega hættulegt það er allt frá Keflavíkurflugvelli og norður í land.

Ekkert er fjallað um það heldur eingöngu um þá sem hafa hætt við ferðir.  

Framundan er sumar þar sem uppgrip gætu orðið vegna þess aðdráttarafls sem svona eldgos getur verið.

Ég var áðan á spjalli við fulltrúa frá Ferðamálasamtökum Suðurlands, sem eru samtök utan um milljarða tekjur af ferðamönnum.

Þeir eru svo blankir að þeir komast ekki inn í Þórsmörk nema að reyna að "fljóta með" einhverjum til þess að fara að huga að möguleikum til þess að ferðamenn geti notið svæðisins frá Landmannalaugum að Skógum í sumar, svæði sem er eitt hið fjölsóttasta sinnar tegundar. 

Það er eitthvað verulega mikið að þegar ástandið er svona og menn sjá ekkert nema svartnætti framundan og virðist fyrirmunað að sjá möguleikana sem hið stórkostlega sjónarspil náttúrunnar gefur nú á mikilfenglegast hátt sem hugsast getur og fært bæði heimamönnum og öðrum miklar tekjur.

Það væri hægt að veita góða og örugga þjónustu á leiðinni upp fjallið og hafa af því tekjur í stað þess að einu fréttirnar sem berast eru um það hve hættulegt og varasamt land okkar sé.   


mbl.is Styrkur eldgossins óbreyttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegaframkvæmdir nútímans.

Viðleitnin til að jafna aðstöðu fólks hvar sem það á heima er nauðsynleg og tekur aldrei enda. 

Fyrir hundrað árum var lagning síma, vega og rafvæðing sveitanna af þessum toga, sem og að koma á aðstæðum fyrir móttöku sjónvarpssendinga.

Ein helsta ástæða kröfunnar um íslenskt sjónvarp á sjöunda áratugnum snerist um þetta jafnræði í stað þess misræmis sem var fólgið í því að aðeins væri hægt að horfa á sjónvarp á suðvesturhorninu og þá eingöngu sjónvarps fyrir erlenda hermenn.

Forsenda fyrir því að möguleikar og not byggðar um allt land séu í samræmi við hagmuni þjóðarinnar er að tryggja að unga fólkið og konurnar fáist til að eiga þar heima, en mest hefur skort á að þessir tveir þjóðfélagshópar hafi haldið sínu í dreifbýlinu.

Dreifbýli þar sem karlar við aldur er uppistaðan er dæmt til að veiklast og líða undir lok.

Háhraðanettenging er að ekki aðeins brýnt beint hagsmunamál fyrir fólkið sem býr í dreifbýlinu heldur ekki síður hagsmunamál fyrir þá þéttbýlisbúa sem þar eru á ferð.

Þannig væri ég hvorki að blogga þetta né senda myndir til Reykjavíkur ef ekki væri þessi möguleiki nútímans, þar sem ég er nú staddur.

  


mbl.is ADSL í Mývatnssveit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttablandin ást.

Ég var fyrst sendur í sveit fimm ára gamall að Hólmaseli í Flóa, sem stendur á vesturbakka árinnar.

Út um stofuglugganna heima hér í Stórholtinu hafði Esjan blasað við út um stofu/svefnherbergisgluggann, því að foreldrar mínir leigðu út öll herbergi hæðarinnar og rissins nema þetta eina þar sem við, sex manna fjölskyldan, voru. 

En frá Hólmaseli blasti miklu flottara fjall við á austurbakka árinnar, en mér sem barni sýndist hann standa þar í allri sinni stórkostlegu tign og fegurð, baðaður kvöldsól á kyrrum og björtum sumarkvöldum. 

Mér fannst þetta fjall svo miklu flottara en Esjan og hafði orð á því. Fólkið á bænum útskýrði það þannig að þetta væri eldfjall sem væri með gíg á toppinum sem spúði eldi upp í loftið og glóandi hraun rynnu út frá því . 

Ég átti erfitt með að skilja það af hverju það væri svona hvítt en var þá sagt að enda þótt fjallið væri fullt af eldi væri svo kalt þar uppi að þetta væru ís og snjór. Samt gæti komið aska upp úr fjallinu sem gæti borist um allt og gert all landið svart. 

Ég fylltist óttablandinni virðingu gagnvart svo óskiljanlegu fyrirbæri sem þó var svona guðdómlega fallegt.

Síðan þá hefur Eyjafjallajökull átt óttablandna ást mína sem hefur skerpst enn frekar síðustu daga við það að gosið er komið í frekar ógnvænlegan fasa.

Ég er enn ekki kominn til Reykjavíkur til þess að setja á þessa bloggsíðu myndir sem ég tók í dag af fólki, sem stóð uppi á Goðasteini, kletti á vesturbrún gígskálar jökulsins með súlur af ösku og glóandi björgum í návígi.

Má sjá á myndunum, einkum þegar þær eru stækkaðar með því að tvísmella á þær,  hvernig svartur jökulllinn milli flugvélarinnnar minnar og fólksins er þakinn gígum eftir glóandi björg sem hafa fallið niður úr mekkinum og gert gíga, allt að tíu metra í þvermál. 

Þetta gerðist á fyrstu dögum gossins þegar það var miklu kröftugra en það hefur verið síðustu daga, enda ekki að sjá að neitt bjarg eða steinn hafi fallið þarna síðustu daga. 

En fróðlegt er að sjá stærðarhlutföllin. 

 

P. S. Kl. 12:00  12. maí. 

Ég hætti við að fara til Reykjavíkur og hef því ekki verið í aðstöðu til að koma myndunum yfir á bloggsíðuna. Vísa til ljósmyndar sem ku vera í Morgunblaðinu í dag og er ein af myndum sem og myndskeiðs, sem Sjónvarpið hefur fengið frá mér.  Bendi síðan á blogg mitt á eyjan.is um "útreiknaða áhættu."

 


mbl.is Gosvirknin helst stöðug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband