Verða þau Rybek og Jóhanna heitasti dúettinn?

Þau ummæli féllu frá fulltrúum þáttökulanda þegar þeir skýrðu frá atkvæðum landa sinna í Evróvision í kvöld að Norðmaðurinn væri sætasti strákurinn og Jóhanna sætasta stelpan á sviðinu.

DSCF5149

Kornungir fulltrúar frændþjóðanna lyftu löndum sínum upp í kvöld.

Ekki veitti Íslendingum af því. 

Úrslit kosninganna eins og skrifuð af spennusöguhöfundi, þar sem fulltrúi sigurþjóðarinnar, Norðmanna átti síðasta orð kosninganna: "12 stig - til Íslands!"

Loksins glæta í lífi íslensku þjóðarinnar eftir svartnættið sem kom með bankahruninu í kjölfar silfursætisins í handknattleik á Ólympíuleikunum.

Ég spáði því í blogginu á kosninganóttina eftir að hafa heyrt og séð norska lagið í fyrsta sinn að það gæti ekki annað en sigrað, - hafði þó ekki heyrt nema örfá önnur lög.

Óraði þó ekki fyrir mesta yfirburðasigri í sögu keppninnar.                                      

DSCF5153

Mikið má vera ef einhver umbinn sér ekki möguleika í því að þau Rybek og Jóhanna syngi saman lag í náinni framtíð.

Jafnvel fleiri lög á heilum diski.

Það ætti að geta orðið heitasti dúettinn í Evrópu.  

Árlegt Evróvision-partí elsta barns okkar hjóna var dásamlega skemmtileg samkoma.

Myndirnar lýsa fögnuði gestanna í sumarblíðunni á veröndinni við heita pottinn.

Það var sungið og dansað af fölskvalausri fjöri og gleði.   

  

DSCF5148

Þetta er stórfjölskylda og því sést aðeins lítið brot hennar á þessum myndum.  

Sigur Norðmanna gat ekki komið á betri tíma fyrir þá. Rybek og félögum verður fagnað sem þjóðhetjum þegar þau koma heim á sjálfan þjóðhátíðardag Norðmanna. 


mbl.is Ísland í 2. sæti í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sú var góð !

Ég hef hlustað á Evróvisionkeppnina rúmlega tvö kvöld, og bæði í kvöld og í fyrrakvöld kom það iðulega fyrir að söngvarar sungu á köflum dálítið falskt, til dæmis sú rússneska sem var á eftir Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur.

En okkar fulltrúi var gersamlega óaðfinnanleg og stóð sig stórkostlega vel ásamt öllum sem á sviði voru.
Hvernig sem fer gaf þetta fólk tóninn um þá leið sem ein getur leitt okkur upp úr áfalli hrunsins.


mbl.is Jóhönnu vel fagnað í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjun sem lofar góðu.

Það var ánægjulegt að vera í miðborg Reykjavíkur í dag og fylgjast með því hvernig hliðstæða "Þjóðahátíðanna" úti á landi er að festa sig í sessi hér í Reykjavík. Fjölmenningargangan niður Skólavörðustíg og Bankastræti í dag var lítskrúðug og fjörug og ef veðrið verður ámóta gott næsta ár verður gangan þá áreiðanlega enn skemmtilegri.

Svona hátíðir standa hjarta mínu nærri. Á sínum tíma hafði ég ánægju af því að fara vestur á firði til að fylgjast með og fjalla um fjölmenningarhátíð þar, sem ég valdi nafnið Þjóðahátíð til þess að höfða til þess hve nærri svona hátíð ætti að standa Þjóðhátíð Íslendinga. 

Þeir, sem að hátíðinni standa, hafa unnið stórgott starf og höfðu meira að segja látið útsetja og þýða á tvær erlendar tungur lagið Heimsganga sem ég lagði samnefndri göngu í té á dögunum og var spilað og sungið í fyrsta sinn í upphafi göngurnnar í dag. 

Meðfylgjandi eru íslenskur og enskur texti Heimsgöngulagsins og raunar var gerður pólskur texti sem ég birti siðar.

Svona ganga, Þjóðahátíðir, sem og fyrirhuguð Heimsganga eru í þágu friðar eins og textarnir bera með sér.

 

HEIMSGANGA.                                             MARCHING FEET.                 

Gegn stríði og böli blóðs /                             The world has seen its wars 

berumst við, þú og ég, /                               They filled our life with woe

og ætlum að ganga til góðs  /                        And left too many scars. 

götuna fram eftir veg. /                                 So let´s get up and go.

 

Við göngum um götur og torg, /                    We´re marching in every street,

um gresjur og skóga og fjöll, /                       In mountains without pause        

um álfurnar, borg frá borg  /                          And we´ll get the ones we meet

og berum kyndilinn öll. /                               To join our worthy cause.

 

Heimsganga! /                                              Marching feet 

Heimurinn þráir frið !  /                                 We´re marching now for peace.

Heimurinn, - það erum við, -  /                      Wars they have to cease. 

Heiminum gefum grið.                                  We´re marching for world peace. 

 

P.S. Ég gat þess í bloggi í morgun að ég myndi nota daginn í kvikmyndatökuferð austur á hálendi, en veður versnaði og ferðinni var frestað. 

 


mbl.is Stemmning í blíðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki missa af..."

Eitt lúmskasta slagorð auglýsinga á okkar tímum er setningin: "Ekki missa af...", - þ. e. ekki missa af þessum viðburði, þessu tilboði, þessari vöru o. s. frv....

Slagorðið getur verið jákvætt í sjálfu sér. Okkur er ætlaður takmarkaður tími hér í jarðlífi og því mikilvægt að nota þann tíma vel.

Hin neikvæða hlið er hins vegar sú að maður megi ekki missa af neinu, heldur verði að öðlast allt og megi ekki þekkja nein takmörk, - þaðan af síður forgangsraða hlutum.

Þegar sú eftirsókn er orðin algild og ræður öllu fylgir því óþol, streita og óhamingja.

Í dag er dýrðarveður og ég sé fram á það að missa af ýmsum hlutum. Ég hefði viljað þiggja boð um að marsera með Heimsgöngufólki undir tónlist og baráttulagi, sem ég á hlut að.

Ég hefði viljað þiggja boð um að verða viðstaddur opnun sýningar í Listaháskólanum þar sem mynd, sem mér er skyld, er til sýnis.

Ég hefði viljað fara í flugferð yfir Mýrdalsjökul, sem hefur verið lengi í undirbúningi.

Ég gat ekki hugsað mér að missa af endurfundum þeirrra, sem í gærkvöldi minntust þess að tíu ár eru liðin síðan við fórum yfir Grænlandsjökul. Það var yndisleg samkoma og kannski meira virði vegna þess að ég þurfti að hafa svolítið fyrir því að koma austan af austurhálendinu til þess að fara síðan aftur núna þangað og reyna að ná myndum, sem hugsanlega verða ekki teknar aftur vegna þess hve hlutir breytast þar hratt.

Við eigum að gleðjast yfir því að eiga margra kosta völ, þegar svo ber undir, og láta hugsunina "ekki missa af..." ekki gera okkur óánægð með þá stóru gjöf að fá að vera til.

"Ekki missa af..." var hugsunin á bak við "gróðærið" sem leiddi til hruns. Hugsunin var svo alger að það var pottþétt að við "misstum ekki af" hruninu þótt við hefðum viljað.

Kannski vel ég skakkt með því að fara þessa ferð í stað þess að missa af hugsanlegum samverustundum með mínum nánustu. Slíkar stundir eru það dýrmætasta í lífi hvers og eins.

En ferðin austur verður að eiga sér stað. Hún er afrakstur af þeirri hugsun þjóðarinnar að hún "megi ekki missa af" svipuðu fyrirbæri og gróðærið var, - ekki nóg að tvöfalda rafmagnsframleiðsluna og síðan ekki nóg að fjórfalda hana og síðan ekki nóg að tífalda hana.

Einn bankastjóranna lýsti í tímaritsviðtali á meðan allt stóð sem hæst hugsuninni á bak við hegðun þjóðar okkar þannig: "Við, kynslóðin sem ræður nú mestu, - við vorum alin upp við það að þekkja engin takmörk!"


mbl.is Veðurblíða um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins verksmiðjur geta "bjargað þjóðinni."

Það er sama hvar gripið er niður í umræðu um það sem geti "bjargað þjóðinni" eins og það er kallað. Alls staðar eru settar fram þær forsendur að reist verði álver. Annars verður kreppan verri, gott ef ekki óviðráðanleg

Einu virtist gilda þótt strax fyrstu vikuna eftir hrunið opnuðust nýir möguleikar í ferðaþjónustu vegna gjörbreyttra og bættra skilyrða og að eftirspurn eftir Íslandsferðum stórykjust. Þetta virðist ekki koma til greina til að "bjarga þjóðinni" eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði að Siv Friðleifsdóttir hefði gert þegar hún leyfði Kárahnjúkavirkjun.

Á ferðum úti á landi rekst ég á algert vonleysi um neitt nema álver. Sagt er við mig að engir ferðamenn vilji koma hingað vegna kulda og myrkurs á veturna þótt hundruð þúsunda fari í meira myrkur og kulda lengri leið til Lapplands, einmitt til að upplifa myrkur, þögn, kulda og ósnortna náttúru.

"Það rignir stundum í Mývatnssveit og jörð getur orðið auð stundum á veturna" er sagt við mig þar um slóðir.

Ef ég segi að aðeins tíu kílómetra akstur sé eftir heilsársvegi, malbikuðum, upp á hálendið norðan sveitarinnar þar sem snjórinn er, er sagt að þar komi stundum hríð. Rétt eins og aldrei snjói í Lapplandi þar sem landslag er flatt og tilbreytingarsnautt, ólíkt hálendinu norðan Mývatns, sem býður upp á hvers kyns gíga og hraunmyndanir sem fólk getur komist í tæri við í nánast hvaða veðri sem er.

Síðan er því bætt við að það þýði ekkert að reyna ferðaþjónustu úti á landi vegna þess að fyrirtæki í Reykjavík undirbjóði heimamenn og gróðinn fari suður.

Engin áhrif hefur þegar ég bendi á þá mótsögn hvernig "þeir fyrir sunnan" geti "grætt" á undirboðum sem geri starfsemina útilokaða fyrir heimamenn sem maður hefði þó ætlað að hefðu hagræði af aðstöðunni á staðnum.

Ég er búinn að mynda mér tilgátu um það hvers vegna aðeins verksmiðjur komo til greina í hugum þjóðarinnar.

Ástæðan hlýtur að vera sú að kynslóð eftir kynslóð í næstum öld hefur sú mynd orðið einráð í hugum fólks eftir að nógu oft hefur verið staglast á því, að því aðeins sé hægt að "bjarga" landsbyggðinni og þar með þjóðinni, - og því aðeins sé hægt að lifa í landinu, að þingmenn "útvegi" verksmiðjur sem framleiði eitthvað sem hægt er að mæla í tonnum.

Kynslóð fram af kynslóð þekkir ekkert annað en að þingmenn "útvegi" álver, frystihús, rækjuvinnslu, kísiliðju o. s. frv. Allt annað er álitið fyrirfram vonlaust og kemur ekki til greina.

Hagstæðasta gengi í veröldinni fyrir erlenda ferðamenn virðist engu breyta. Þvert á móti verður slíkt tilefni til fyrirsagnar fréttarinnar, sem þetta blogg er tengt við: "Ísland á útsölu." Er það ekki agalegt að slíkur markaður hafi opnast?


mbl.is Ísland á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdið betur til þess sem gaf það.

Lýðræðisþjóðfélagið byggist á því að valdið til að stýra málum þjóðarinnar komi sem beinast frá þjóðinni sem hafi um það úrslitavald í hvívetna hverni valdi hennar sé beitt og hverjir geri það.

Það er rétt hjá forsetanum að fram að þessu hafi mál bjargast að þessu leyti betur en á horfðist.

En úrbóta er þörf því með núverandi ágöllum er ekki eins víst að þetta sleppi eins vel næst.

Það er og verður vaxandi undiralda í þjóðfélaginu og við henni verður að bregðast.  

Jafna þarf atkvæðisrétt og auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna.

Rétta þarf af hallann á milli framkvæmdavaldsins annars vegar og löggjafar- og dómsvaldsins hins vegar, til dæmis með því að ráðherrar megi ekki jafnframt vera þingmenn.

Auka þarf vægi, sjálfstæði  og vald þingnefnda og skýra betur hlutverk og valdsvið æðsta embættis þjóðarinnar. Innleiða siðbót í þjóðfélaginu með skýrum siðareglum á þeim sviðum þar sem valdið liggur.

Síðast en ekki síst þarf að tryggja rétt þeirra milljóna Íslendinga,  sem eiga eftir að lifa í landinu,gegn ofríki núverandi kynslóða sem með óafturkræfum aðgerðum geta gengið stórlega á rétt, frelsi og hag afkomendanna.

Allt þetta var á stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar fyrir tveimur árum en þá ríkti þvílík "gróðæris"-stemning í þjóðfélaginu að ofangreint komst ekki að.  


mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óperuhúsin og Þingvellir.

Nú þarf í eitt skipti fyrir öll að nota rétta tækni til að finna út hvar hinn íslenski allsherjargoði stóð til að segja upp lögin, - og nota það til þess sem kalla mætti hljómburðarfornminjafræði. Það eru nefnilega ófundnar fleiri minjar á Þingvöllum en gripir sem eru að finnast nú.

Hvað tengir óperuhús heimsins við Þingvelli? Jú, á þessum samkomustöðum skiptir það höfuðmáli hvort þeir, sem þar eru saman komnir, heyri í ræðumönnum, heyri og sjái það sem fram fer.

Ég hef komið á hinn forna þingstað Gulaþing við Gulafjörð í Noregi þar sem stóð fyrirmynd hins íslenska Alþingis. Þar komu menn saman í skeifulaga rjóðri sem hallaði í áttina að staðnum, þar sem menn fluttu mál sitt. Aðstæður voru ekki ósvipaðar þeim sem eru í samkomuhúsunum í Stykkishólmi og á Ólafsvík.

Ég er ekki viss um að búið sé að rannsaka nógu vel hvar allsherjargoði stóð á Þingvöllum og hvar áheyrendur hans stóðu þegar hann sagði upp lögin svo að allir heyrðu.

Það var örugglega ekki á þeim stað sem lýðveldið var lögtekið 1944 vegna þess að við þá athöfn voru öll lögmál um hljómburð brotin, forseti Alþingis sneri sér út yfir þingheim á svæði sem hallaði niður frá honum án þess enduróms sem verið hefði ef hann hefði snúið sér í átt til þingheims í brekkunni fyrir ofan hann undir hamravegg Almannagjár.

Lögfesting lýðveldisins fór fram á stað sem hafði enga vörn gegn vindum eða regni, sem taka verður tillit til á Íslandi.

Tillaga mín er þessi: Fáum einn eða fleiri af bestu hljómburðarsérfræðingum heims, söfnum saman fólki sem aðhefst svipað og gerðist á þingi forðum og finnum út hvar og hvernig þing var háð, miðað við þær upplýsingar og rannsóknir sem hægt er að styðjast við.


mbl.is Fornminjar koma í ljós á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarfjallið.

Flaug í dag frá Egilsstöðum um Hraunaveitu, Kringilsárrana til Akureyrar.

 

DSCF5121Fór ekki lengra á FRÚ-nni, reyni að spara hana.

Flaug framhjá Herðubreið, þjóðarfjalli Íslendinga og tók meðfylgjandi myndir, sem njóta má betur með því að tvísmella á þær hvora um sig, fyrst einu sinni og bíða, og eftir að hún hefur birst smella einu sinni aftur til að stækka myndina.

Herðubreið myndaðist eins og fjöldi eldfjalla á Íslandi, undir ísaldarjökli á svipaðan hátt og gerðist í Gjálpargosinu norður af Grímsvötnum 1996, en þar grófst eldfjallið í ís eftir gos.

Herðubreið er það mikið eldfjall að tindur þess stóð upp úr ísnum svo að þar myndaðist fallegur eldgígur í lok myndunar fjallsins. 

Er varla nokkur slík fjöll önnur að finna í heiminum á jafnmiklu sléttlendi og Herðubreið stendur.

Í gróðurvininni Herðubreiðarlindum við hraunjaðar norðaustan fjallsins speglast fjalladrottningin fallega á góðviðrisdögum í lindunum. Þessu er reynt að lýsa í tveimur erindum ljóðsins "Kóróna landsins."

 

Í ísaldarfrosti var fjallanna dís /

DSCF5120

fjötruð í jökulsins skalla /

uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís, /

öskunni spjó og lét falla. /

Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís, /

svo frábær er sköpunin snjalla. /

Dýrleg á sléttunni draumfögur rís /

drottning íslenskra fjalla.

 

Að sjá slíkan tind /

speglast í lind /

og blómskrúðið bjart /

við brunahraun svart!

 

Ég er að klára vorferðir á tvö svæði, sem ég vil þyrma og varðveita ósnortin, Þótt þegar sé búið að vinna mikil spjöll á þeim báðum. 

Annars stækkun Kelduárlóns sem verður gersamlega óþörf, enda lónið óþarft. 

Hins vegar að bjarga heimsundrinu Leirhjúki-Gjástykki.

Jakob Björnsson orðaði draumsýn sína um virkjanir á gervallri orku landsins þannig, að óþarfi væri að láta neina á eða hver óhreyfðan, því að menn gætu verið ánægðir með að fjöllin yrðu áfram hin sömu, Bláfjall, Búrfell og Herðubreið, þótt Skjálfandafljóti yrði veitt í Kráká og Laxá, Laxárdal sökkt og nú síðast öll hverasvæðin færð í búning Heillisheiðarvirkjnar, 6-7 að tölu. 

Mikið eigum við nú ótrúlegum rausnarskap og örlæti virkjanafíklanna að þakka að þeir skuli lofa okkur að halda Herðubreið ósnortinni ! 

ara verið?


Norðmenn gátu gert þetta.

Þaulsætnasti stjórnmálaflokkur landsins er óvanur öðru en að ríkisstjórnin afgreiði mál á fundum og síðan eru þingflokkarnir "handjárnaðir", eins og þa er kallað, - til að fylgja málum fram.

Ráðherraræðið eins og það hefur tíðkast hér á landi.

Ég er sammála Þór Saari að lýðræðislegra sé að leysa flokksbönd og leyfa þingmönnum að vera frjálsum um að taka afstöðu til mála. Komið mál til enda þetta mál búið að flækja íslensk flokkastjórnmál og haldið þeim í gíslingu og pattstöðu.

Þegar Norðmenn sóttu um aðild að ESB var Verkamannaflokkurinn, sem var í stjórn, klofinn um málið. Verkalýðshreyfingin norska var á móti aðild, enda voru flestir flokkar þar meira eða minna klofnir í málinu.

Gro Harlem Brundtland sendi stutt 26 orða bréf til Brussel og síðan var sótt um aðild og greitt um hana þjóðaratkvæði.


mbl.is Afstaðan lýsir skilningsleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tímabundin höft", - gamalkunnugt stef.

Þegar Íslendingar höfðu sólundað feiknarmiklum gjaldeyrisinnistæðum sínum erlendis á mettíma 1947 þurfti að setja á "tímabundin gjaldeyrishöft" á meðan þjóðin væri að komast í gegnum vandræðin sem hún hafði komið sér í.

Næstu fimm ár á undan varð krónan alltof hátt skráð rétt eins og í "gróðærinu" 60 árum síðar og haldið uppi fölskum lífskjörum og neyslu í kjölfar stríðsins.
Þrátt fyrir mestu hlutfallslegu Marshallaðstoð, sem nokkur þjóð fékk, voru gjaldeyrishöftin slík 1948-1959 að höftin nú blikna í samanburðinum.

Lungann af tímabilinu fram yfir 1990 voru hér meiri höft en í nágrannalöndunum enda krónan lengst af skráð of hátt á sama tíma og verðbólgan gerði íslensku krónuna 2200 sinnum minni miðað við danska krónu en hún hafði verið 1920.

Margt var reynt. 1959 var reynt að fara niðurfærsluleið, lækka allt verðlag í landinu, en auðvitað hélt það ekki nema eitt á, það varð að fella gengið. 1961 hækkaði kaup eftir verkföll um 13% og stjórnin felldi gengið um 13% á móti.

1967 var gengið fellt tvisvar. Hannibal Valdimarsson forseti ASÍ missti út úr sér að gengið hefði verið fellt "hreint og drengilega" og í framhaldi af því söng ég lag úr söngleiknum Mary Poppins:

"Fella gengið hrika-ganta-gríðaryndislega /
gæti kannski sumum fundist hljóma ruddalega /
en Hannibal vill gera þetta hreint og drengilega: /
Fella gengið hrika-ganta-gríðaryndislega!"

Á áttunda áratugnum færðist gengisskrípaleikurinn í vöxt með alls konar tilbrigðum, reynt að fela gengisfallið með því að láta gengið "síga", og nefndist það "gengissig".

Halldór E. Sigurðsson reyndi að breiða yfir gengisfellingar með því að segja að nefna þær "hratt gengissig" eða "gengissig í einu stökki."

Þjóðarsáttin 1989 skapaði fyrsta tækifærið til að koma þessum málum í alemnnilegt horf með því að kæfa verðbólgudrauginn.

Nú er enn erfiðara fram undan en oftast fyrr en hins vegar aldrei eins áríðandi að við Íslendingar komum okkur loksins á svipað ról og aðrar þjóðir með stöðugt efnahagslíf og gjaldmiðil.

Gaman væri ef okkur tækist það á aldar afmæli viðskilnaðarins við dönsku krónuna og upphafs vandaræðagangsins með gjaldmiðilinn.


mbl.is Þaulsetin gjaldeyrishöft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband