10.5.2010 | 18:45
Líst illa á gíginn núna.
Ég hef verið að fljúga yfir Eyjafjallajökul í dag og mér líst satt að segja ekki á gíginn.
Mér sýnist hann þrengri en hann hefur verið áður og stórvaxandi sprengingar í honum þar sem hundruð stórra hraunbjarga þeytast mörg hundruð metra upp í loftið og virðast svífa svo ógnarhægt af því að þeir eru svo stórir.
Sendi Sjónvarpinu og Morgunblaðinu myndir af þessu. Ef gígurinn er að þrengjast er auðskilið af hverju krafturinn í sprengingunum verður mun meiri en fyrr eins og sést vel á efstu myndinni.
Þess ber að geta að myndirnar eru aðeins af allra neðsta hluta makkarins og stærð bjarganna sem þeytast allt upp í 500 metra hæð hefur sést best af myndum teknum á jörðu niðri þar sem þau hafa komið niður.
Það sem ég óttast er að komi gígurinn ekki nógu miklu af hraunkvikunnni frá sér muni kvikan skjóta sér annað og þá gjósa annars staðar.
Katla yrði ekki verst heldur ekki síður sigið, sem hlaupið í Svaðbælisá kom úr í upphafi goss.
Sá farvegur er nú barmafullur af aur og tekur ekki við neinni viðbót.
Afar sjaldgæft er að stíflun gígs endi með því að toppurinn springi af fjallinu í heilu lagi eins og gerðir í Vesúvíusi og á eyjunni Martinique þar sem bæirnir Pompei, Herkulanum og St. Pierre eyddusty. Munu Snæfellsjökull og Öræfajökull vera hættulegustu eldfjöllin hér að þessu leyti og eyðingarmáttur hins síðarnefnda mikill í gosinu8 1362.
Ég tel að viðbúnaði hafi verið öfugt háttað hvað varðar breytingar á gosinu fram að þessu. Hingað til hafa allir farið á límingunum þegar byrjað hefur að gjósa á nýjum stað með stórauknum boðum og bönnum en ég tel hins vegar að hættulegasta stigið sé þegar gos er að deyja út eins og gerðist á Fimmvörðuhálsi.
Þá eiga menn fyrst og fremst að vera á tánum og hafa á sér djúpan vara.
Ég get ekki komið myndum inn á bloggið hér fyrir austan þótt þær fari greiðlega héðan úr afgreiðslunni á Hótel Rangá til Reykjavíkur. Ef ég fer heim í kvöld til að slá á slæmt kvef, sem ég hef, skutla ég þeim inn.
![]() |
Dökkur mökkur eftir skjálfta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.5.2010 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
9.5.2010 | 19:51
Hvaða þrír ráðherrar vilja missa stólinn sinn ?
Fækkun ráðuneyta var eitt af stefnumálum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007. Þetta hefur svo sem oft verið rætt en ekki þarf annað en líta yfir þróun ríkisstjórna frá 1917 til dagsins í dag til að sjá að útilokað virðist að fækka ráðherrum.
Þeim hefur hins vegar fjölgað jafnt og þétt og virðist ómögulegt að fækka þeim. Ástæðan er auðvitað mannleg og skiljanleg: Ef fækka á ráðherrum úr tólf í níu, hvaða þrír vilja missa stólinn sinn?
![]() |
Ríkisstjórnin fundar enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.5.2010 | 19:42
Flókið mál.
Ég fór austur að Rangá í dag til að sinna gosinu. í ljós kom að það var til lítils því að norðvestanáttin, sem ríkt hefur, hefur minnkað svo mkið að upphitun Suðurlandsundirlendisins tekur af henni ráðin fyrir neðan 5000 feta, eða 1500 metra hæð.
Þegar hringt var í veðursímann 9020600 var gefinn upp um 10 hnúta norðvestanvindur í 5000 feta hæð í stað 30-35 hnúta að undanförnu.
Og í loftlögum þar fyrir neðan var komin austanátt sem bar öskuna vestur fyrir Gunnarsholt og Landvegamót um tvöleytið og glögglega mátti sjá hvernig þetta öskumettaða loft barst vestur með suðurströndinni í átt til Reykjanesskagans.
Þegar sólin lækkkaði á lofti í kvöld tók norðvestanáttin aftur völdin, en loftið var þó áfram aðeins mettað og örþunn öskuslikja hafði sest á rúður og þök bíla.
Útbreiðsla öskunnar er flókið mál, því að eins og þessi lýsing sýnir geta loftstraumar verið mjög mismunandi eftir hæð frá jörðu og áhrifum upphitun jarðarinnar.
![]() |
Háloftin áfram öskusvört |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.5.2010 | 22:55
Konur laðast að mönnum í einkennisbúningum.
Ofangreint var niðurstaða djúprar könnunar hóps líffræðinga, mannfræðinga og dýrafræðinga, sem greint var frá í aðalgrein Time fyrir mörgum árum.
Einkennisbúningur og vopn eru tákn um vald og kvendýrið leitar að karldýri sem á mesta möguleika til að verja það og börnin. Skiptir engu hvað karldýrið er gamalt.
Er þetta skýring á því fyrirbæri þegar konur laðast að sér eldri mönnum, en í nýyrðasafni okkar Sigmundar Ernis Rúnarssonar fyrir 20 árum var slík kona kölluð gráfíkin.
Þetta útskýrir líka Hljómskálafarganið svonefnda þegar ítalskir hermenn, sem stóðu vart út úr hnefa og fengu landgönguleyfi af herskipi sínu, voru umsetnir af íslenskum stúlkum og mikið fjör var í runnum Hljómskálagarðsins.
Sjálfur áttaði ég mig á því aðdráttarafl einkennisbúninga hafði einnig gilt í eigin fjölskyldulífi.
Fimm af börnum okkar hjóna fæddust að hausti, um það níu mánuðum eftir að ég hafði klæðst jólasveinabúningi dag hvern í hálfan mánuð um jól og nýjár! Já, konur laðast að karlmönnum í einkennisbúningum !
Könnunin, sem Time greindi frá, leiddi í ljós, að karldýrin laðast helst að ungum kvendýrum sem geti alið hraust börn og átti þetta að útskýra gráa fiðringinn svonefnda !
Í umræðu um þetta í gærkvöldi við kvöldverðarborð fyrir austan sagði konan, sem sat við borðið, að þarna væri greinilega um að ræða könnun karlmanna sem reyndu að réttlæta verstu eigileika þess kyns, valda- og peningafíkn og framhjáhald á miðjum aldri.
Ekki verri kenning en hvað annað.
![]() |
Stal erótískum lögreglubúningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.5.2010 | 22:39
Góð auglýsing ?
Kannski er það bara góð auglýsing fyrir Ísland að besta flugleiðin yfir Atlantshafið liggi yfir Ísland, ef á annað borð við höldum þessu á lofti.
Ég var austur við Hvolsvöll mestan part dagins og sá mun fleiri þotur fljúga hátt yfir í heiðríkjunni en vanalegt er.
Gaman hefði verið að ná mynd af slíkri þotu og sýna afstöðuna til gossins en það tókst ekki.
Hér eru hins vegar tvær myndir frá því í morgun.
Á þeirri efri sjást Fimmvörðuháls til hægri en Eyjafjallajökull til vinstri.
Á neðri myndinni er horft úr vestri yfir tind Eyjafjallajökuls, sem fer mikinná sviðinu, en í baksýn horfir Katla gamla á, kolsvört og kannski til í tuskið sem forðum?
![]() |
Gífurleg flugumferð við Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.5.2010 | 23:13
Hraunið og jökullinn, - einstæð orrusta.
Ég er nú staddur austur í sveitum og get ekki komið ljósmyndum inn á bloggið mitt.
Lenti við Hótel Rangá, sem er eina hótelið, sem ég veit um á Íslandi þar sem hægt er að aka flugvél nánast í hlað og þar tókst Friðriki Pálssyni og hans fólki að senda myndir til Morgunblaðsins af Gígjökli og hraunstraumnum, sem hefur átt í skæðri orrustu við hann að undanförnu.
Þessum myndum náði ég þegar einna léttast var af skýjum á jöklinum í dag, en í kvöld hreinsaði hann allt af sér og var ógnarlegur að sjá í kvöldsólinni og mistrinu spúandi þessum öskustrók upp í heiðloftið.
Myndirnar sýna að engin leið er fyrir hraun að renna um íshelli niður í gegnum skriðjökul vegna þess hve bræðslumark hrauns er hátt og tiltölulega litla kælingu þarf til að að storkni og hætti að renna.
Þetta kom vel í ljós í gosinu í Heimaey þar sem Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor sýndi fram á að það sem sýndust bara vera vatnssprænur andspænis hraunflykkinu, sem valt fram, kældi massann nógu mikið til að hægja á honum og stöðva svo að hann færi ekki út í höfnina.
Neðsti hluti Gígjökuls er alveg óhaggaður og jafnvel þótt hraun hefði haldið áfram að renna hefði það tekið meira en nokkra daga fyrir hraunið að komast niður á aurkeiluna þar sem áður var Jökulsárlónið.
Og það hefði ekki tekist fyrr en að hraunið hefði alveg brætt jökulinn ofan af sér eins og hann hefur gert langleiðina þarna niður eftir.
Átök íss og elds gerast vart sérstæðari og flottari en þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2010 | 11:42
Mótsagnirnar varðandi gosið.
Það er fullt af mótsögnum umhverfis gosið í Eyjafjallajökli og öskufallið frá því.
Áður hefur verið fjallað um þá mótsögn að þrátt fyrir tímabundin neikvæð áhrif á ferðaþjónustu verði áhrifin jákvæð til lengri tíma litið.
Önnur mótsögn er sú að enda þótt þetta gos kunni með tímanum hafa reynst þjóðinni í heild happadráttur hvað það snertir að koma landinu og einstæðri náttúru þess loksins á landakortið um allan heim, þá bitna afleiðingar gossins mjög óþyrmilega á fólkinu sem býr næst fjallinu fyrir sunnan og austan það.
Þetta fólk á skilið alla samúð, hjálp og aðstoð þjóðarinnar í heild þannig að takmarkið verði það að því ekki aðeins bættur allur þess skaði, heldur gert enn betur en það.
Þriðja mótsögnin er sú að sú leið, sem askan fer nú yfir landið er sú stysta sem möguleg er og að askan fellur á eins lítið landssvæði og hugsanlegt er.
Fleir mætti nefna en læt þetta nægja.
Tjónið yrði kannski enn meira ef öskumökkinn legði vestur yfir hinar blómlegu sveitir stærsta landbúnaðarhéraðs landsins.
Þess heldur eigum við að koma fram af myndarskap við að hjálpa þeim sem gosið bitnar á.
![]() |
Fólk haldi sig innandyra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.5.2010 | 23:01
Áhrif Evu Joly ?
Athygli mína vöktu þau ummæli hins bandaríska sérfræðings í fjármálaafbrotum í Silfri Egils, að vafasamt væri að rannsókn sérstaks íslensks saksóknara hefði borið árangur hefði ráða og áhrifa Evu Joly ekki notið við.
Hvort sem þetta er rétt eða rangt mat er ástæðulaust að taka neitt frá þeim sem stóðu að skýrslunni miklu eða að því sem nú er að gerast í málefnum grunaðra í fjársvikamálum.
Satt að segja var ég í hópi þeirra sem efaðist um að koma myndi til þeirra atburða sem orðið hafa í dag.
![]() |
Skýrslutökum lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.5.2010 | 15:33
Verður slysaaldurinn færður upp um eitt ár ?
Á milli mín og föður míns var það kynslóðabil að hann varð að bíða til 18 ára aldurs til þess að fá ökuréttindi en ég til 17 ára aldurs.
Þegar aldurinn var færður niður um eitt ár gafst það ekki verr en svo að þeirri breytingu var við haldið.
Ég set spurningarmerki við það að slysum muni fækka við það að lækka aldurinn úr 18 í 17.
Ég hygg að svipað gildi um akstur og flug að slysatíðnin sé hærri hjá óvönum stjórendum bíla og flugvéla en hjá vönum og aldurinn skipti miklu minna máli.
Sem sé að eitt ár í aldri til eða frá skipti ekki máli eftir að fólk er orðið 16 ára.
Ég dreg því í efa árangur þess að færa aldurinn upp um eitt ár því að slysatíðnin á fyrsta ári ökuprófs muni einfaldlega færast upp um eitt ár.
Skynsamlega hefði verið að þrengja skilyrðin fyrir ökuréttindum fyrsta árið eftir að ökuréttindi eru veitt, til dæmis með takmörkunum á stærð, vélarafli og hraðagetu bíla, sem nýliðar megi aka á fyrsta árið.
Jafnvel að þeir megi ekki hafa farþega með sér. Þannig er það í fluginu hvað snertir réttindi til þess að taka farþega með. Menn taka fyrst svonefnt sólópróf og síðar réttindi til að taka fólk með sér.
![]() |
Ökuleyfisaldur hækki í 18 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.5.2010 | 09:53
Miðja villimennskunnar.
Miðja villimennskunnar á Íslandi þegar ég var ungur var í miðbænum á gamlárskvöld. Þangað safnaðist óknyttalýður, lét öllum illum látum, kastaði grjóti í rúður í lögreglustöðinni og lét eins og bavíanar.
Svonefnt skemmtanalíf á nýjársnótt byggðist á nýjársdansleikjum og fylliríi, - stemningu sem svipar um margt því sem nú viðgengst í miðborginni allar helgar.
Þessu tókst að breyta smátt og smátt með áramótabrennum og síðar Áramótaskaupi Sjónvarpsins.
Á sama hátt verður nú að leita lausna sem geta bægt frá okkur þeirri villimennsku sem látin er viðgangast í miðborg Reykjavíkur og er fyrir löngu komin út fyrir mörk eðlilegs skemmtanalífs.
Þegar ég sá fyrirsögnina hér að ofan hélt ég að hún ætti við hávaðann frá gosinu í Eyjafjallajökli.
Svo reyndist ekki vera, og mér liggur við að segja, því miður.
![]() |
Óbærilegur hávaði um nætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)