6.5.2010 | 00:18
Dásamleg sýning.
Var að koma af dásamlegri sýningu í Þjóðleikhúsinu. Heilmikill söngleikur og allt að 40 manns á sviðinu.
Kannski ekkert nýtt nema fyrir það að á sviðinu var fólk frá ekki stærra samfélagi en Sólheimum í Grímsnesi og varla hægt að trúa því að þetta fólk gæti staðið að svona góðri og vel fluttri sýningu.
Sýningin er sett upp í tilefni af 80 ára afmæli Sólheima og enn og aftur sýnir Sólheimafólkið hvað í því býr.
Ljóst er að Edda Björgvinsdóttir hefur unnið kraftaverk og ekki í fyrsta sinn við það að semja handrit og ná því fram úr leikendum sem raun ber fagurt vitni.

Sýningin er áhugaverð vegna þess að í henni er varpað ljósi á ýmis atriði í lífi hinnar einstöku konu, Sesselju Sigmundsdóttir, og í sögu Sólheima, sem ekki hefur verið mikið fjallað um áður.
Sólheimar eiga sérstakan sess í hjarta allra sem kynnast þessum einstaka stað og fólkinu, sem þar býr.
Það eru engin jól hjá mér nema að hafa fyrst farið og verið á litlu jólunum á Sólheimum til að njóta einstakrar einlægni, lífsgleði og ljúfmennsku fólksins þar.
Læt fylgja með litla mynd sem ég stalst til að taka án flass ofan af efri svölum í kvöld án þess að nokkur yrði þess var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2010 | 08:47
Notadrjúgt fyrir fréttirnar um forsetann.
Nóbelskáldið okkar lýsti því einu sinni vel hvernig Íslendingum takist oft að gera eitthvert eitt tiltölulega lítið atriði að aðal umfjöllunarefni ákveðinna mála þannig að það verði smám saman aðalatriðið og tönnlast er á því eins og síbylju.
Svo er að sjá hvað snertir gosið í Eyjafjallajökli, en með þessum pistli ætla ég að setja inn nokkrar myndir af átökum elds og íss undir Gígjökli.
Gosið í Eyjafjallajökli ætlar að verða notadrjúgt fyrir fréttirnar, sem eru á stundum fluttar daglega um þann skaðvald sem forseti Íslands hafi verið og sé fyrir land og þjóð.

Á sama tíma maður hefur ekki frið fyrir erlendum kvikmyndagerðarmönnum, sem enn streyma til landsins til að þess að fjalla um gosið og Ísland, eru stærstu fréttirnar um það hvernig forsetinn hafi fælt erlenda sjónvarpsmenn og kvikmyndagerðarmenn frá landinu.
Enginn atburður að leiðtogafundi Reagans og Gorbasjofs meðtöldum hefur komið Íslandi eins rækilega á kortið og þetta gos. Nú veit öll heimsbyggðin hvar Ísland er í stað þess að maður sé spurður, til dæmis í Bandaríkjunum þegar maður segist vera frá Íslandi: "Where is that in the states?"
Nú síðast í gær sat ég fyrir framan ástralskar sjónvarpsvélar í viðtali sem tók hálftíma og lunginn úr deginum fór í að undirbúa þetta viðtal og taka það.
Áður höfðu þessir áströlsku sjónvarpsmenn tekið svipuð viðtöl fyrir austan.
Í dag verða það grískir sjónvarpsmenn sem líka hittu mig fyrir austan og þýskir, breskir, bandarískir og menn frá arabískri stjónvarpsstöð hafa verið að gera það sama.
Í viðtölunum hef ég fengið tækifæri til að koma ítarlega á framfæri því að í 23 eldgosum frá 1961 hafi aðeins þetta gos truflað flugsamgöngur og að truflunin hafi orðið minni á Íslandi en í flestum löndum Evrópu. Ekki sé vitund varasamara að koma til Íslands nú en hefur verið síðstu hálfa öld.
Ég hef fengið tækifæri til að lýsa út í hörgul því sem er ekkert skrum og engar ýkjur: Samspil elds og íss og íslensk náttúra er einstæð upplifun sem á sér engan keppinaut í víðri veröld, er í raun dýrgripur alls mannkynsins og það mikilvægasta sem þetta land á og getur gefið af sér fyrir okkur.
Miðað við alla þessa erlendu dagskrárgerð sem hefur verið stanslaust í gangi í þrjár vikur og sér ekki fyrir endann á, hefur gefist aldrei gefist annað eins tækifæri til þess að leggja grunn að nýrri sókn í íslenskum ferðamálum.
En forsíðufréttir og jafnvel daglegar fréttir um þessar mundir segja allt aðra sögu. Auðvitað er slæmt að missa af þeim tekjum, sem fengist hefðu af þeim störfum erlendra kvikmyndagerðarmanna í sumar við gerð auglýsinga.
En stutt atriði í auglýsingum, sem áhorfendur sjá jafnvel ekki hvort teknar eru á Íslandi, eru orðin að aðalatriði í fréttaflutningi og risafyrirsögnum en ekki ítarlegir kynningarþættir um Ísland og Íslendinga sem munu koma í erlendum sjónvarpsstöðvum allt frá Kanada og Bandaríkjunum til Grikklands, Arabalanda, Ástalíu og Japans.
Núna er erlendu kvikmyndagerðarmennirnir farnir að fjalla um ýmis önnur atriði hér en þau sem tengjast beint gosinu til þess að koma með nýja fleti og nýja umfjöllun úr Íslandsferðinni.
Ég hef haft góða aðstöðu til að fylgjast með þessari þróun sem er mjög jákvæð og jafnfram að lesa nær samfelldar svartagallsfréttir hér heima þar sem eldfjallið er ekki aðalatriðið þegar að er gætt, heldur eiga þessar fréttir það allar sameiginlegt að koma sem mestri sök yfir á forsetann, sem alltaf er nefndur.
Enn sannast hið landlæga skammtímaviðhorf hér á landi sem færði okkur hrunið.
Nú er hamast við að færa sönnur á að annað hrun sé í uppsiglingu, ferðaþjónustuhrun.
Sagt er að eins dauði sé annars brauð. Er hugsanlegt að í þessum einhliða fréttaflutningi felist það að á þeim tíma sem eldgosum og forsetanum er formælt daglega muni verða von til þess að sól annarra atvinnugreina og manna rísi?
Og í öllum æsingnum yfir peningum, sem allt snýst um, virðist enginn pæla í því hvílíka nýja möguleika þetta færir okkur upp í hendurnar til þess að stórauka tekjur okkar af landinu.
Nei, af því að sá peningur kemur ekki strax í næsta mánuði er allt ómögulegt.
![]() |
Hætta við kvikmyndatökur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.5.2010 | 22:40
Getur askan úr þessum mekki borist á móti vindinum?
Í dag hefur mátt sjá glögglega á vefmyndavél hvernig gosmökkinn úr Eyjafjallajökli hefur lagt til austurs eða til vinstri á myndinni, sem fylgir frétt mbl.is
Fylgt hafa fréttir af því, að af þessum sökum hafi hann borist til Færeyja og Írlands, en vegna þess að askan sé þyngri en fyrst í gosinu og ekki eins mikil, hafi hún ekki náð það hátt að stöðva flug í hærri hæðum yfir þessi lönd.
Allt virkar þetta rökrétt og fólk skilur þetta.
En þá kemur það allt í einu upp í dag að flugbannsvæðið hér á landi hafi verið stækkað til vesturs frá gosstöðinni, í áttina á móti stífum vestanvindi sem samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar hefur ríkt í 5000 feta, 10000 feta og 18000 feta hæð í allan dag.
Mynd, sem ég er að setja inn í þennan pistli, er tekin frá Múlakoti klukkan átta í kvöld og sést að mökkinn leggur enn til austurs í austurátt frá Suðurlandsundirlendinu, en fólk austan við Suðurjökla, á svæðinu frá Vík og upp í Skaftártungu, hefur orðið vart við öskufall og það er vel skiljanlegt.
Mökkurinn nær ekki einu sinni upp í 18 þúsund feta hæð heldur er hann mun lægri, og því er erfitt að sjá hvernig hann geti komist á móti hinum stífa vestanvindi sem þarna er.
Bannsvæðið hefur náð allt vestur að Þjórsá eða 70 kílómetra upp í vindinn í þá átt, sem er til hægri á myndinni. Af þessum sökum féll allt flug niður til Vestmannaeyja í dag, en þær eru áveðurs frá gosinu og eiga Eyjamenn erfitt með að skilja þetta bann.
Það skýtur skökku við að gefnar eru mjög auðskildar skýringar á því hvernig askan berst til Færeyja og Írlands en hitt ekki útskýrt, hvernig aska geti borist með meira en 45 hnúta hraða á móti 35 hnúta vindi, en það er eina leiðin til þess að askan geti borist til vesturs.
Úr því að verið er að hafa fyrir því að útskýra fyrir okkur Íslendingum hvers vegna askan berist þannig til Færeyja og Írlands að þar sé ekki hægt að fljúga í lægri hæðum heldur hærra uppi hefði maður að útskýra þyrfti hvers vegna flugbannsvæði hér á landi hefur verið stækkað í öfuga átt við það sem vindurinn ber öskuna.
Hvernig kemst askan vestur að Þjórsá?
![]() |
Kolsvartur mökkur frá gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.5.2010 | 13:01
Hvað um breska sjónvarpsmanninn og Leno ?
Mér varð fyrir tilviljun gengið framhjá sjónvarpstæki í fyrrakvöld og sá þá stjórnanda bresks gamanþáttar í sjónvarpi setja höndina þvert fyrir efri vörina og gott ef hann rétti ekki líka út hinn handlegginn þegar hann var að gantast með það að sjálfur Hitler hefði á sínum tíma ekki tekist að koma í koma í veg fyrir flug yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni, en hins vegar hefði Eyjafjallajökull lengst norður í ballarhafi getað gert þetta.
Þessu fylgdi að sjálfsögðu bæði hljóð og mynd og fór því ekki á milli mála um eðli þessa gráglettna gríns.
Ekki hef ég séð bresk götublöð velta sér upp úr þessu sem einhverju hneyksli.
Jay Leno grínaðist með það fyrir þremur árum í sínum sjónvarpsþætti að enda þótt í ljós hefði komið í stöðuleikaprófum að Mitshubishi Pajeru (Shogun í Ameríku ) væri hættulega valtur, gilti um það sú kenning að slæm auglýsing væri betri en engin.
Samkvæmt þeirri kenningu hefði árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941 verið góð auglýsing fyrir Mitsubishi þegar 300 Mithubishi Zero gerðu þessa árás með tilheyrandi mannfalli !
Ekki fór sögum af því að Leno væri tekinn í bakaríið fyrir þetta, þótt fullsannað væri með hljóð og mynd.
Þess vegna er furðulegt að ljósmynd, sem sýnir ekkert nema hljóðlaust augnablik, skuli valda fjaðrafoki í Bretlandi og aðsúg að landa okkar.
![]() |
Eiður Smári á síðum breskra slúðurblaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.5.2010 | 22:40
Orrustan mikla.
"Við berumst öll í átt af sama landi" er upphaf á íslenskum texta við lag Rogers Whittakers, "The last farewell". Sama er hvort við erum hraust og gengur vel eða berjumst við sjúkdóma og erfiðleika, "orrustan mikla" liggur fyrir okkur öllum.
Íslenski textinn við lag Whittakers felur í sér hughreystingu og uppörvun til þess, sem stendur frammmi fyrir stórri orrustu, kannski þeirri stærstu í lífinu, og verður að vera viðbúinn hinu versta en vona það besta.
Hryggjarstykkið í textanum er í þriðja erindinu, "...til jöklanna og himinsins frjáls fer ég. / Þar fegurð ofar hverri kröfu er vís..." og er þar vísað til frægrar setningar Nóbelskáldsins um að þar sem jökulinn og himinninn mætast ríki fegurðin ein ofar hverri kröfu.
1. erindið lýsir förinni upp í brimgarðinn á "ógnarströnd óttans", sem er líking fyrir dauðann, sem okkur er áskapað að óttast og forðast til þess að viðhalda lífinu á jörðinni. En jafnframt er lýst vissunni eða voninni um landið handan brimgarðsins þar sem friðurinn ríkir.
2. erindið snýst um ástvinina og það sem er næst hverjum manni.
3. erindið snýst um fósturjörðina með moldunina sem upphafsorð en síðan andartakinu, sem margir þeir er hafa komist alveg að mörkum lífs og dauða, lýsa sem "eldingu", hinni undrafögru ofurbirtu og sælu þess augnabliks.
Í 4. erindinu er farið á vit "alheimsanda" hinna hinstu raka tilverunnar í hinu fullkomna sköpunarverki.
En hér er textinn og lagið er efsta lagið á tónlistarspilaranum hér vinstra megin á síðunni.
ÞAR RÍKIR FEGURÐIN. (Lag: The last farewell)
Við berumst öll í átt að sama landi /
í ólgusjóum lífs í gleði og þraut. /
Þótt fley okkar á boðum steyti´og strandi /
í stormi fárs á örlagnanna braut /
ég veit að handan ógnarstrandar óttans /
til orrustunnar miklu er ég býst /
þar ríkir fegurðin /
í fullkomnun og sælu, - /
fegurðin sem engin orð fá lýst.
Ég þáði ást og atlot foreldranna /
og ástin stóra kom og gaf mér allt. /
Ef núna skal ég nýjar lendur kanna /
og nístir brotið fley mitt brimið kalt /
ég lít í anda ástvinina kæru /
sem aldrei bregðast, hvernig sem allt snýst. /
Þá ríkir fegurðin /
já, fegurð hreinnar ástar, - /
kærleikans sem engin orð fá lýst.
Af moldu landsins kæra kominn er ég. /
Ég hverf til moldar og af henni rís. /
Til jökulsins og himinsins frjáls fer ég. /
Þar fegurð ofar hverri kröfu´er vís. /
Er jarðlífs hinsta andvarp af mér líður /
og eldingin mig lýstur er það víst: /
Þá ríkir fegurðin, - /
já, fegurð alvalds ástar, -
fegurðin sem engin orð fá lýst.
Ég lyftist upp til andans háu fjalla /
og óma sinfóníu Drottins nýt /
við ljúfan englasöng er lúðrar gjalla /
ég lýt þeim örlögum er taka hlýt. /
Ég fer þangað sem friðurinn mér veitist. /
Til ferðalagsins mikla nú ég býst. /
Þar ríkir fegurðin, - /
já fegurð alheimsandans, /
fegurð Guðs, sem engin orð fá lýst.
Vilhhjálmur Guðjónsson sá um útsetningu og hljóðfæraleik við hina íslensku gerð lagsins.
Halla Vilhjálmsdóttir söng bakraddir.
Góðar stundir.
![]() |
Geðraskanir helsta skýring örorku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.5.2010 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.5.2010 | 08:29
"Öskugangan"? Átök elds og íss.
Ný leið yfir Fimmvörðuháls og ný leið inn í Þórsmörk blasa við á verkefnalista fyrir ferðafólk næsta sumar.
Nú er hægt að breikka markhópinn, sem vill ganga yfir hálsinn, með því að bjóða upp á "survival" öskugöngu yfir hann, þar sem fólk fær að takast á við og upplifa einstæða göngu, sem hvergi annars staðar í heiminum er völ á.
Fór í nótt inn að Gígjökli til að kynna mér átök elds og íss. Var að koma úr þeirri för en ætla að leggja mig (svaf aðeins í eina klukkustund í nótt) og blogga síðan um það með ljósmyndum.
Lét að vísu kvikmyndunina hafa forgang.
Klukkan 19:00: Jæja, þurfti að klára verkefni dagsins áður en ég kæmist í þetta.
Ég áttaði mig ekki á því að tilefni væri til að fara í þessa ferð fyrr en eftir miðnætti, þegar lýst var á mbl. möguleikanaum á því að hraunið kæmi glóandi fram og á hinn bóginn var spáð að myndi þykkna upp og fara að rigna um hádegi.
Fór af stað að heiman upp úr klukkan tvö og kom til baka upp úr sjö.
Í ljósaskiptunum var eins og að aka inn í annan heim að fara upp með Markarfljóti, sem gufan sauð á alla leið, enda fljótið 17 stiga heitt við brúna.
Á myndum er fyrst horft upp til jökulsins, síðan þvert yfir og loks niður með ánni, sem er ekki lengur "jökulsá" heldur heit.
Fljótið hækkar farveg sinn stöðugt og er búið að ónýta nokkra kafla leiðarinnar inn að Gígjökli.
Vitað er að mikið þarf til að gera leiðina yfir aura Jökulsár færa í sumar og líka yfir árnar fyrir innan sem hafa hlaupið.
Þegar ég var þarna var gufan mikil og síðan kom hrun uppi í jöklinum og flóð með boðaföllum, sem Skaftfellingar kalla "drýli" ruddist fram.
Sjónvarpsfólk fór síðan austur um hádegið og þá var skyggnið mun betra heldur en þegar hinn ógnvekjandi gufuheimur brá dramatiskri birtu á þennan vettvang átaka íss og elds, sem í sameiningu er að hlaða upp brattri og hárri aurkeilu þar sem áður var djúpt lón.
Og að koma þangað í ljósaskiptunum í morgun var eins og að ganga í áttina að dyrum vítis.
![]() |
Ætla að marka nýja leið yfir Fimmvörðuhálsinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.5.2010 | 13:47
"Hláturinn lengir lífið / og lyftir geði tregu..."
Í tilefni dagsins set ég hér að ofan á blað fyrstu hendinguna í texta sem ég gerði fyrir margt löngu og margir hafa farið rangt með, - það er að segja síðustu þrjú orðin, - "...lyftir geði tregu."
Textinn er að sjálfsögðu miklu lengri en boðskapur hans kemst þó allur fyrir í þessari einu línu.
Húmor og hlátur flokkast undir geðheilbrigðismál og eru okkur jafn nauðsynleg og að anda og nærast.
Lífið er nógu erfitt og snúið þótt það sé ekki gert í því að gera það erfiðara með leiðindum.
Það er of stutt til þess að eyða því í það að velta sér upp stanslaust upp úr því neikvæða.
Þótt sjálfsagt sé að forðast sóun og bruðl daginn út og daginn inn er samt nauðsynlegt að geta gert sér dagamun.
Það er gert um þessa helgi í Kauptúni í Hafnarfirði þar sem er stórskemmtileg mótorsportsýning.
Til þess að efla fjölbreytnina er fyrir því séð að sýna allt frá því dýrasta og stærsta niður í það ódýrasta og smæsta.
Þannig má sjá þarna "geðveikasta" vélhjól í heimi, Boss-Hoss, 500 kílóa hjól með stórri V-8 vél.
Í vélhjólabókum má sjá að hægt er að kaupa slíkt hjól sem er með 508 hestafla vél og vegna þess að eitt hestafl knýr hvert kíló hjólsins þarf aðeins tveggja þrepa sjálfskiptingu.
Í lægra þrepinu kemst hjólið upp undir 200 kílómetra hraða ef allt er í botni og langt upp undir 300 á hærra þrepinu!
Þetta hjól er eitthvað svo mikið 2007, - myndi kosta 12 milljónir núna!
En var á útsölu í boði stjórnvalda sem héldu uppi óraunhæfu gengi íslensku krónunnar á sínum tíma þegar í gangi var stórkostlegur hvati til þess að íslensku heimilin og fyrirtækin fjórfölduðu skuldir sínar.
Þarna má líka sjá þriggja farþega Vespu-hjól, þ. e. Vespu með hliðarvagni.
Nóg er af öflugum kvartmílubílum og einn Ferrari, en forsvarsmenn sýningarinnar höfðu líka humor fyrir því að bjóða mér að sýna þrjá af naumhyggjubílum mínum, minnsta Mini í heimi, minnsta brúðarbíl landsins og NSU-Prinz 1958, en slíkur bíll í minni eigu var minnsti, sparneytnasti, ódýrasti og umhverfisvænasti bíll landsins á árunum 1959-62.
Auðvelt var að flytja tvo bíla saman á vagni suðureftir, sem hannaður er fyrir einn bíl !
Sá stutti hefur verið og verður sýningargripur á bilasalan.is
![]() |
Hlegið í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2010 | 13:33
Djúpar rætur mótmæla.
Á yfirborðinu virðist ekki rökrétt hjá Grikkjum að mótmæla niðurskurði í ríkisrekstrinum í landinu.
Því að hinn valkosturinn er sá að ríkið verði gjaldþrota og varla getur það verið betra.
Það verður hins vegar að skyggnast aðeins dýpra í málið til að sjá að í raun er verið að mótmæla svipuð og hefur verið uppi á teningnum hér á landi, hinni skaðvænlegu og eitruðu blöndu sem viðskipti og stjórnmál skapa.
Fólkið verður að finna farveg fyrir andmæli sín. Reiðin og óánægjan eru slík að það er gripið sem hendi er næst. Hið "órökrétta" andóf Grikkja er hliðstæða þess að Besti flokkur Jóns Gnarr hefur jafn mikið fylgi fyrir borgarstjórnarkosningarnar nú og "stóru" flokkarnir höfðu áður.
Bæði grískir og íslenskir stjórnmálamenn verða að láta sér skiljast hvílíkt vantraust felst í því sem þjóðir þeirra eru að gera, hvor á sinn hátt.
![]() |
Grísk stjórnvöld samþykkja áætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2010 | 06:25
Gat það líka 1947 og 1970.
Í Heklugosinu 1947 féll aska frá gosinu í Skotlandi. Það kom ekki að sök af tvennum ástæðum.
1. Flug var aðeins brot af því sem það er nú.
2. Bulluhreyflar, knúnir bensíni, knúðu flugvélar þess tíma. Skrúfuþotuhreyflar og þotuhreyflar eru miklu viðkvæmari fyrir ösku.
Í Heklugosinu 1970 féll talsverð aska frá fjallinu til norðvesturs og gerði hlíðar Víðidalsfjalls í Húnavatnssýslu svart og olli þar búsifjum.
Vegna vindáttarinnar varð þá engin röskun á flugi.
Ég flaug yfir Eyjafjallajökul í gærkvöldi og vissulega er mökkurinn svartur.
Í gildi eru takmarkanir á flugi á ákveðnu svæði fyrir flugvélar og þyrlur knúnar skrúfþotuhreyflum.
Engar takmarkanir eru fyrir sjónflug á bulluhreyflavélum en flugmenn bera að sjálfsögðu ábyrgð á því að forðast það að fljúga inn í það mikla ösku að hún geti skemmt framrúður og þá fleti vélarinnar sem askan bylur á við flug.
Að sjálfsögðu flýgur enginn inn í slíkt heldur gætir þess að vera áveðurs. Í fluginu nú sem endranær reyni ég að nýta mér 22ja gosa reynslu við slíkt flug.
Það var aðeins í Eyjagosinu 1973 sem vélin mín skemmdist á jörðu niðri vegna þess að hún stóð á flugvellinum í Eyjum fyrstu nóttina, - ekki var hægt að fljúga í burtu, og gjósandi gígarnir í nokkur hundruð metra fjarlægð.
Flugvélin var flughæf eftir þetta en ég varð að skipta um framrúðu og sprauta hana.
Síðan eru liðin 37 ár og 20 gos án skemmda.
![]() |
Askan getur enn truflað flug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)