9.5.2011 | 08:53
Risaeðlur bílanna.
Á árunum 1955-1970 var blómatími kraftakagganna, aflmikilla, stórra amerískra bíla. Fyrsti bíllinn, sem nota má þetta heii um, var Chrysler 300, en síðan tók hver við af öðrum allt fram yfir 1970, þegar mengunin frá hinum stóru bílvélum var orðin svo mikil, að taka varð í taumana.
Síðan kom olíukreppan fyrri 1973 og aftur enn verri olíukreppa 1979 og tími taumlausrar kraftakeppni var liðinni í bili.
Það er í góðu lagi þótt varðveittir séu nokkur hundruð svona bílar hér á landi. Þeim er aðeins ekið á hátíðarstundum og eyðsla þeirra eins og dropi í eyðsluhaf næstum 200 þúsund bíla, sem eru hér á landi.
Þeir voru eins og risaeðlurnar í sögu jarðarinnar, - áttu blómaskeið sem byggðist á utanaðkomandi aðstæðum og endaði vegna utanaðkomandi aðstæðna.
Í framtíðinni verða þeir enn magnaðra tákn en nú um skammsýnt bruðl þeirrar jarðarbúa, sem lifðu á hinni skammvinnu olíuöld en líka heillandi á sína vísu, alveg eins og það væri, ef haldin væri sýning á lifandi risaeðlum.
![]() |
Kraftalegir kaggar á rúntinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2011 | 23:13
Vetur og sumar bresta á
Í október í fyrra brast veturinn á á nokkrum dögum einmitt á þeim tíma sem í almanakinu stendur að vetur sé að ganga í garð. Þar á undan hafði verið einmuna hlýindatíð og hitatölurnar með tveimur tölustöfum.
Svipað gerist nú, nema að þetta bar ekki alveg upp á sumardaginn fyrsta.
Fyrir nokkrum dögum var miðbærinn alveg steindauður þegar farið var um hann en í fyrradag iðaði allt af lífi.
Þegar ég var í Yellowstone í Klettafjöllunum í lok september 2008 las maður úr veðurupplýsingum að veturinn kæmi þar á einni til tveimur vikum á sama tíma á hverju hausti.
Það gekk eftir.
Nú er það ekki aðeins sumarið sem brestur hér á með meginlandssvip, eins og Einar Sveinbjörnsson bendir á, heldur brast veturinn á í fyrrahaust á svipaðan hátt.
![]() |
Man ekki önnur eins umskipti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2011 | 20:45
Hvað mega eftirhermur þá segja ?
Eftirhermur lifa fyrst og fremst og nærast á því að herma eftir fólki, sem er áberandi í þjóðfélaginu og allir þekkja. Líf þessa fólks og það, að það sé áfram áberandi, er því mikið hagsmunamál fyrir eftirhermur og skemmtikrafta.
Eitt sinn, þegar Hannibal Valdimarsson sat í sminkherbergi í sjónvarpinu fór ég að gantast með þetta og sagði að kannski kæmi að því að ég og fleiri keyptum okkur líf- og gengistryggingu fyrir helstu persónurnar, sem við lifðum og nærðumst á.
Ég man að Hannbal fannst þetta ekki fyndið og ég sá strax af hverju - hann hafði nýlega orðið aldursforseti Alþingis.
Stundum hverfa persónur það mikið úr umræðunni að það hið hefur ekki sama gildi að herma eftir því og áður var.
Þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra varð það mikill happafengur fyrir mig að geta "grafið hana upp" ef svo má að orði komast, dustað af henni rykið, sem sest hafði á hana frá því fyrir 15 árum, og gera mér mat úr því að hún hafði þeyst fremst fram á orrustuvöll stjórnmálanna.
Sér þessa stað á tónlistarspilaranum hér til vinstri á bloggsíðunni.
Ég hitti Jóhannes Kristjánsson eftirhermu fyrir skömmu og hann ljómaði yfir því að Ari Teitsson var orðinn varaformaður Stjórnlagaráðs og Þorvaldur Gylfason áberandi.
En frægðin er fallvölt og því verða eftirhermur að sæta því að taka við áföllum af því tagi, að þeir, sem helst er hermt eftir, eigi sér blómaskeið umtals, sem geta stundum orðið endasleppt.
Hugmyndin um að tryggja sig fyrir slíku gengur ekki upp og varla heldur sú ætlan Nicolette Sheridan að fá bætur fyrir að handritshöfunar skrifuðu konuna, sem hún lék, út úr þáttunum með því að láta hana deyja.
Flosi heitinn Ólafsson sá húmorinn í því að hann var æ ofan í æ látinn leika menn, sem voru drepnir, og fann það góða út úr því þegar þessar persónur voru drepnar snemma í leikritunum því að þá var hann fyrr laus úr vinnunni, - það er að segja ef hann þurfti ekki að koma fram í framkallinu í lokin.
![]() |
Vill endurlífga Edie Britt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2011 | 20:28
Sjúkt ástand.
Ástandið í Írak fyri 2003 var sjúkt. Grimmur einvaldur hélt öllu þjóðfélaginu í heljargreipum og skirrðist einskis til að halda völdunum. Hann sæti þar líkast til enn að völdum ef hann hefði ekki farið út af þeirri braut sem Bandaríkjamenn ætluðu honum að feta með því vera mótvægi við Írani og þyggja fyrir vopn og stuðning.
Raunar fór Saddam ekki út af sporinu hvað það varðaði að hann væri að koma sér upp gereyðingarvopnum, því engin slík fundust í landinu eftir innrásina í það.
Hefði hann verið "þægur" að öllu leyti hefðu Bandaríkjamönnum verið slétt sama um ógnarstjórn hans, - aðalatriðið að olían streymdi frá landinu öruggt og jafnt.
Innrásin í Írak var gerð á þeim forsendum að "koma á frelsi og friði" og stöðva illvirki Saddams Husseins.
En mannfórnirnar, sem þetta hefur kostað, eru vafalítið miklu meiri en orðið hefðu ef Saddam hefði ríkt áfram. Þær taka engan endi enda er það sjúkt ástand að erlendur her sitji þar til eilífðarnóns.
Bandaríkjamönnum sjálfum myndi ekki þykja það eðlilegt ástand ef nokkurra milljón manna arabískt herlið hersæti landið og ráðskaðist með hvaðeina sem því þóknaðist.
![]() |
Mannskæð fangauppreisn í Írak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2011 | 20:36
"...ástir, slagsmál og vín!"..."
Ef einhverjir halda að það sé einsdæmi að lofa fíkniefni í söngvum og tónlist eins og dæma á menn fyrir í Mexíkó, hefur sá hinn sami ekki kynnt sér mörg af þeim dægurlögum, sem vinsæl hafa verið á Íslandi.
Tilvitnanirnar geta orðið ótal margar, allt frá "...látum því, vinir, vínið andann hressa..." hjá Jónasi Hallgrímssyni í Vísum Íslendinga.
Hægt er að bæta nokkum við: "Það var karl sem að kunni að / kyssa, drekka og slást!"
"Enda sagði´hann það oft: Það er ánægjan mín / ástir, slagsmál og vín."
Skipstjóravalsinn er gott dæmi:
"Oft er vandi að verjast grandi / ef víðsjál reynist dröfn.
Þá fæ ég mér snabba ef karlarnir kvabba / og keyri sem hraðast í höfn.
Þar fæst dans og glens og gaman,
gleðin hýr úr augum skín.
Við dönsum og syngjum þar saman
við seiðandi meyjar og vín."
Svo held ég aftur á hafið,
í hættunni búinn til alls.
Við rattið þá í rokinu stend ég
og raula minn Skipstjóravals."
Lýsingin er opinská. Draugfullur skipstjóri lætur kvabb skipverjanna engin áhrif hafa á sig, heldur stýrir skipinu rallhálfur til hafnar, lendir þar á kvennafari og fylleríi og fer jafn brattur út aftur í hættulega siglingu.
Prófið þið að setja flugstjóra í staðinn fyrir skipstjóra og þotu í stað skips í þessum texta og þá sjáið þið hvað ég meina.
![]() |
Bannað að syngja um dóp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.5.2011 | 13:49
Þriðja heims þjóð?
Ég er að lesa kafla í bók Eiríks Bergmanns Einarssonar sem heitir "Sjálfstæð þjóð" og fjallar um það hvernig Íslendingar fóru með himinskautum í aðdraganda Hrunsins, töldu sig nánast yfirburðaþjóð, sem landshagir og saga hefðu lyft upp í atgervi svo að annað eins þekktist ekki í heiminum.
Í þessum bókarkafla er, eðli máls samkvæmt, raðað helstu einkennum, ummælum og gerðum okkar frá þessum árum og fyrir bragðið verður hann svo fáránlegur, svo hlægilegur og grátlegur í senn að maður kemst hreinlega við sem Íslendingur.
Svo er að sjá af þessum ummælum að umsvif Íslendinga í Danmörku væri hugsuð sem hefnd fyrir alda langa kúgun, maðkað mjöl og hvaðeina með því að kaupa það upp í Danmörku, sem okkur sýndist, enda værum við yfirburðaþjóð, einstæð í verlöldinni og segðum það hver upp í annan ogSem dæmi má nefna að þegar Íslendinga hugðust hefna fyrir 14:2 hrakfarirnar á Parken 2006 en hinir íslensku áhorfendur sáu fram á enn einn niðurlægjandi ósigurinn á leikvellinum, fóru þeir að syngja einum rómi: "Ve vil köbe Parken!"
Það átti að segja Dönum, að við myndum hefna líka öllum, hvar sem við kæmum, allt frá forsetanum til áhorfenda að knattspyrnuleikjum á erlendri grund.Í bókinni er rakin söguskoðun Jóns Jónssonar Aðils sem skipti þjóðarsögunni í fjóra kafla, gullöldina til 1262, hnignunarskeiðið 1262-1550, niðurlægingarskeiðið 1550-1750 og endurreisnarskeiðið eftir það.
Á gullöldinni voru Íslendingar með glæsilegustu þjóðarhagi og atgervi sem þekkst hafði allar götur til Rómaveldis og Forn-Grikkja, síðan komu hnignunarskeið og niðurlæginartímabil, að mestu að kenna vondum útlendingum, og loks endurreisnarskeiðið þar sem framsækin þjóð barðist við erlenda kúgara.
Þegar farið er hratt yfir árin 2003-2009 liggur við að þjóðin hafi farið í gegnum þrjú fyrstu skeiðin á ljóshraða og sé nú á niðurlægingarskeiði, sem speglast í fréttum hvers einasta dags, svo sem eins og í dag: Læknaskortur og íslendingar meðhöndlaðir eins og þriðja heims þjóð á skipi, sem heldur uppi samöngum við landið.
Spurningin er hins vegar, burtséð frá réttmætri andspyrnu við illa framkomu við íslenska farmenn, hvort við getum í þetta skipti reynt að líta aðeins meira í eigin barm og skoðað, hvort við vorum og erum slík yfirburðaþjóð, sem við höfum talið okkur hafa verið á Þjóðveldisöld og Gróðabóluárunum eða hvort við ætlum nú loks að læra eitthvað af þeim ósköpum sem þjóðarsagan fyrr og síðar á að geta kennt okkur.
Hvort eigum framvegis kost á því með því að líta í eigin barm að komast hjá því að lenda í aðstæðum, sem þriðja heims þjóðir svokallaðar þurfa að sætta sig við.
![]() |
Mótmæla lægra kaupi Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
7.5.2011 | 00:13
Aldahvörf óhjákvæmleg.
Velsæld olíualdar hefur náð hámarki og leiðin liggur aðeins niður á við. Ef reynt er að fresta því verður fallið niður á við aðeins hraðara og afleiðingarnar verri þegar ósköpin dynja yfir.
Mikilvægasta verkefni hagvísindanna verður því að finna aðra leið en endalausan hagvöxt til að tryggja hamingju jarðarbúa.
Ráðamenn í lýðræðisríkjum er um megn að grípa til raunsærra ráða því að þeir horfa aðeins fjögur ár hið mesta fram í tímann.
Það á líka við um íslenska ráðamenn, sem eru enn fastir í gróðasókninni sem skóp Hrunið í stað þess að setja af stað markvissa umbreytingu í orkubúskap og þjóðlífi sem nýtir sér þá einstöku stöðu sem við höfum varðandi innlenda og endurnýjanlega orkugjafa, sem hægt er að nýta án þess að fórna fyrir það ómetanlegum náttúruverðmætum landsins og bera hagsmuni komandi kynslóða fyrir borð.
![]() |
Eldsneytisverðið lamar efnahag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.5.2011 | 14:06
Leiðir hugann að víetnömsku munkunum.
Viðbúnaður Bandaríkjamanna í Suður-Vietnam í kringum 1960 var ekki meðal helstu heimsfrétta lengi vel. Var þó ýmislegt við hann að athuga.
Það var ekki fyrr en víetnamskur munkur kveikti í sér og brenndi sig til bana á almannafæri sem athyglin beindist fyrst að því sem var að gerast í landinu.
Þetta var alveg dæmalaust atvik á þeim tíma og oft þarf slík atvik til svo að svipt sé hulu af einhverju máli, sem er miklu stærra og alvarlega en almennt er haldið. Enda kom í ljós í Vietnam að svo var.
Ljósmyndirnar af brennandi munknum og síðar af brennandi fólki, sem flýði eftir árás Bandaríkjamanna á vietnamskt þorp höfðu meiri áhrif á almenningsálit í Bandaríkjunum og um allan heim en langar fréttaskýringar á hernaðinum í landinu.
Nú liggja ekki fyrir hvaða aðstæður drógu hinn íranska hælisleitanda til þess örþrifaráðs sem hann greip til í morgun og best að fullyrða ekkert þar um.
Það er ekki nýtt að svona mál komist fremst í umræðuna. Mál Patricks Gervasonis fyrir þremur áratugum komst fremst í fréttir vegna þess að einn stjórnarþingmanna hótaði að láta af stuðningi við þáverandi stjórn ef hann fengi ekki landvist.
Að öðrum kosti er alls óvíst hvort það mál hefði vakið nokkra umtalsverða athygli.
![]() |
Mikil hætta skapaðist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.5.2011 | 13:56
Aðdáendurnir eldast.
Þótt sagt sé: "Elvis lifir!" eða "Elvis is in the building" og að aðdáun á honum hafi gengið í bylgjum og átt ný blómaskeið nokkrum áratugum eftir að hann var á tindi ferils síns, vinnur tímans tönn hægt en örugglega á stöðu hans.
Nú fækkar þeim aðdáendum hans sem eru á barneignaaldri og því er það í sjálfu sér engin frétt þótt nafnið Elvis sé ekki lengur í hópi 1000 vinsælustu nafnanna sem foreldrar gefa börnum sínum.
Þegar ég var skírður var hægt að telja þá Íslendinga, sem hétu Ómar, á fingrum sér, svo fáir voru þeir og ungir.
Þegar nafn mitt komst í símaskrána 1959 var aðeins einn annar Ómar þar, litlu eldri en ég.
Ómarsnafnið fékk nýjan byr á síðustu árum heimsstyrjaldarinnar þegar nafn Ómars Bradleys, hershöfðingja, var í fréttum dögum, vikum og mánuðum saman.
Rithöfundurinn Ómar Kayam var vinsæll á tímabili og síðar leikarinn Ómar Shariff.
Nafnið fékk því meðbyr á tímabili sem skilaði sér uppi á klakanum.
Sum nöfn eru einfaldlega háð tískustraumum og umtali og öðlast vinsældir eða tapa þeim í samræmi við það.
![]() |
Vinsældir kóngsins dvína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.5.2011 | 21:35
Dýrara að gera þetta ekki.
Á öllu öðru þurfum við Íslendingar að halda nú heldur en að hér skelli á verkföll og óöld. Vel má vera að 20 milljarðar á ári í kostnað vegna kjarasamninganna sé þungbær kostnaður, en ekki er að efa, að ef sá kostnaður hefði verið reiknaður út sem það hefði kostað að gera þetta ekki, þá hefði hann orðið miklu hærri.
Fagna ber því að þetta skuli nú vera afstaðið enda kalla verkefnin á úr öllum áttum til að fást við vandamálin, sem framundan eru í efnahagsmálum þjóðarinnar.
![]() |
60 milljarðar á samningstíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)