17.6.2008 | 00:10
Góðar fréttir, - tvennir tímar.
Viðbrögðin við þessum birni lofa góðu. Við lifum á tímum þar sem Íslendingar telja sig með útgjöldum til varnarmála getað stuggað árásum stórvelda frá landinu og ætttu því að geta ráðið við einn hvítabjörn. Tengdasonur minn, sem var þarna í sveit, sagði mér frá því að þegar hann var þar voru sagðar sögur af ógn bjarnanna. Þeirra á meðal var frásögn ömmu hans, ef ég man rétt, sem átti fótum fjör að launa á sinni tíð þegar hungraður björn kom að henni.
Hún var svo heppin að geta hlaupið í burtu á meðan björninn gæddi sér á tveimur lömbum. Ótti fólks á þessum slóðum, þar sem sögur af líkri lífsreynslu hafa lifað öld fram af öld, er skiljanlegur.
Sjónvarpsfréttakona fallbeygði orðið björn í kvöld í frétt sinni: "björnsins", - talaði um ferðir björnsins eða eitthvað í þeim dúr. Önnur ljósvakamiðlakona talaði um daginn um lömb áarinnar. Íslenskukunnátta langskólagengis fólks er á stundum orðin minni en hjá sjö ára sveitabörnum.
![]() |
Reynt að ná birninum lifandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.6.2008 | 17:25
Hversu lengi á þetta að ganga svona?
Sagan endurtekur sig, aftur og aftur. Ef eitthvert sveitarfélag er svo óheppið að byggja upp góða hátíð sem dregur að sér fólk, leitar fyllerís-, slagsmála-, og óeirðaliðið þangað og endar með því að eyðileggja viðkomandi mót, mótshöldurum, heimamönnum og þeim sem vilja skemmta sér vandræðalaust, til mikils ama. Ekki skiptir máli hvort hátíðin heitir Halló Akureyri, Ein með öllu, Írskir dagar eða Bíladagar, - villimannaherinn fer sínu fram.
Athygli vakti í Moskvu á úrslitaleiknum í fótboltanum hér um daginn, að innan tveggja kílómetra radíuss frá leikvanginum voru allir þeir, sem áfengisneysla sást á, fjarlægðir, og Rússum tókst þannig að halda þennan mikla viðburð þannig að öllum var til ánægju og sóma.
Það þýðir ekki að láta þetta halda svona áfram hér heima öllu lengur. Því miður virðast sektir og hörð löggæsla vera eina ráðið. Það á ekki láta lítinn minnihluta vandræðaseggja og óeirðafólks komast upp með það að eyðilegga fyrir öllum hinum.
![]() |
Erfið nótt á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
14.6.2008 | 01:07
Eftirminnileg ferð um norðausturhálendið.
Var að koma fljúgandi til Mývatns nú rétt fyrir miðnætti eftir erfið en eftirminnilegt ferðalag um norðausturhálendið. Þegar ég kom fljúgandi frá Reykjavík í gær gat ég lent á flugvellinum mínum á Sauðármel norður af Brúarjökli, en svo snemma hef ég aldrei getað lent þar. Gerði völlinn kláran i gær og í dag með því að valta allar brautirnar, en sú stærsta er 1400 metra löng og gæti Fokker-vél notað hana ef nauðsyn krefði.
Það gæti verið mikið öryggisatriði og flugvöllurinn er eini lendingarstaðurinn sem eftir er á um 5000 ferkílómetra svæði fyrir austan Jökulsá á Fjöllum, því fjórum lendingarstöðum var tortímt með Kárahnjúkavirkjun, veitt vatni yfir þrjá og sá fjórði tættur í sundur af stórvirkum vélum.
Völlurinn á Sauðármeð er eini öruggi lendingarstaðurinn á hálendinu norðan Vatnajökuls því brautirnar eru þrjár og tvær þeirra nothæfar fyrir Fokker 50 og engin hindrun eða fjall er nálægt vellinum.
Herðubreiðarlindarbrautin er styttri og í hvössum s-v-áttum er völlurinn ófær vegna misvindis.
Ég fór bæði fljúgandi og á á landi að Töfrafossi og breytingarnar á landinu eru meiri en mig óraði fyrir, slíkt er magn leirs og sands sem Jökla og Kringilsá skilja eftir á landinu, sem kemur undan lóninu þegar lækkar í því fyrri part árs.
Búið var að spá því að leirinn myndi síga niður halla sem væri meiri en 7 gráður og mikið af honum því ekki sjást á fjörum, en það er nú eitthvað annað. Meðan leirinn er blautur er hann eins og kítti eða klístur og er sem límdur við jörðina.
Um leið og hann þornar er eins og hann breytist í kítti í hveiti og í gær var leirfok í aðeins rólegri golu. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með framvindu þessara mála næstu misserin og allt verður þetta efni í myndina um Örkina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.6.2008 | 23:58
Álið fram úr fiskinum? Nei, og á langt í land.
Fjölmiðlar éta nú hver upp eftir öðrum í stórum fyrirsögnum að álið sé komið fram úr fiskinum og jafnvel þótt menn lesi áfram um það að átt sé við tekjur af í útflutningsverðmæti er með þessu verið að gefa í skyn að álið vegi þyngra en fiskurinn í þjóðarbúskapnum. En það er alrangt. Þvert á móti er virðisaukinn fiskinum meira en tvöfalt meiri en af álinu og það er það, sem skiptir máli, ekki það bókhaldsatriði hve mikið fæst fyrir álið af gjaldeyri.
Álframleiðslan byggist á því að flytja inn hráefni yfir þveran hnöttinn og umbreyta því til að flytja aftur út. Fiskinn þarf ekki að flytja inn, - hann fáum við í lögsögu landsins.
Jónas Kristjánsson hefur notað orðið kranablaðamennsku yfir það fyrirbæri þegar fjölmiðlar fá fréttatilkynningar og birta þær nær óbreyttar og athugasemdalaust án þess að útskýra málið frekar né kafa niður í málið.
Lesandi sem sér nánast sömu fyrirsögnina í hverjum fjölmiðlinum af fætur öðrum um dýrð álsins sem komið sé fram úr fiskinum er fóðraður aftur og aftur á hálfsannleik, sem getur verið verri en lygi, ekki hvað síst þegar hamrað er á honum aftur og aftur og ekkert annað kemst að.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
11.6.2008 | 22:16
Dapurleg iðja.
Ég var við dapurlega iðju nú rétt áðan þegar ég skilaði til Fréttablaðsins umbeðnum ábendingum um þrjá fáfarna "leynistaði." Einn þeirra er gilið Sogin við Tröladyngju, svo fallegt, að fara þarf í Kerlingarfjöll eða Landmannalaugar til að finna annað eins.
Þegar ég sýndi þau fyrst fyrir 25 árum var fólk mjög þakklátt. Ekki lengur, vegna þess að þarna á að virkja og þá vill fólk hafa sig afsakað með því að vita sem minnst. Þegar hafa verið unnin þarna mikil spjöll vegna "rannsókna." Enn er þó hægt að horfa yfir gilið austan frá ósnortið.
Ég valdi Leirhnjúk og Gjástykki því að ég hef enn ekki fundið Íslending sem hefur skoðað það svæði. Íslendingar skoða Kröfluvirkjun og Víti en útlendingar hið enn ósnortna svæði fyrir norðan sem senn verður umturnað í virkjanasvæði þótt þar sé sá staður þar sem rek Ameríku frá Evrópu sést best, m. a. sprungur sem myndir eru til af hvernig rifnuðu upp fyrir 25 árum, hraun kom upp og rann aftur niður. Einnig ummerki eftir fjórtán eldgos á árunum 1975-84.
Einnig má enn skoða þarna fyrirhugað æfingasvæði fyrir marsfara, sem verður hætt við ef virkjað verður.
Áætlað er að gufuafl í Gjástykki muni skapa 40 störf í álverinu á Húsávík. Glæsilegur ávinningur við að fórna svæði jafnmerkilegu og sjálfri Öskju.
Ég valdi líka Sönghofsdal í Krepputungu. Kannski hann verði einn ósnortinn af þessum þremur stöðum, - og þó. Ef illa gengur um orkuöflun við Mývatn gæti Jökulsá á Fjöllum orðið þrautalendingin. Sagði ekki Valgerður Sverrisdóttir að friðun hefði ekkert gild, - það mætti alltaf aflétta henni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.6.2008 | 20:13
"Það var miðað rétt, - en skotmarkið hreyfðist."
1955 var sala á meðalstórum fólksbílum í miklu vexti í Bandaríkjunum. Markaðssérfræðingar Ford-verksmiðjanna létu því hanna nýjan bíl af millistærð, Ford Edsel. Vestra líða þrjú ár frá ákvörðun til framleiðslu og þegar Edsel kom á markað 1958 var sala meðalstórra bíla í frjálsu falli og bíllinn var nær óseljanlegur.
Síðan þá er Ford Edsel oft nefndur sem dæmi um hrikaleg mistök í markaðssetningu. Einn sérfræðingur kafaði aðeins lengra niður í málið og fann út að ákvörðunin 1955 hefði verið rétt miðað við þær forsendur sem þá lágu fyrir. "The aim was right, but the target moved", sagði hann með dæmigerðri bandarískri byssulíkingu, þ.e. "það var rétt miðað, - en skotmarkið hreyfðist."
Starf íslenskrar nefndar um verðlagningu eldsneytis er dæmi um þetta. Miðað við forsendurnar á starfstíma nefndarinnar var rétt að hækka álögur á eldsneyti. Á örfáum mánuðum hefur þetta gjörbreyst. Það breytir því ekki að rétt er að huga að samsetningu opinberra álaga á bifreiðaeigendur. Meira um það seinna.
![]() |
Bensínhækkanir hafa áhrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.6.2008 | 22:54
Að hafa aðgang að kerfinu.
Það virðist ekki sama hver í hlut á þegar leitað er til ríkisins vegna hinna skyndilegu og ófyrirséðu eldsneytishækkana. Þannig hafa verktakar nú náð hljómgrunni hjá Vegagerðinni um verðtryggingu á tilboðum í verk. Hins vegar voru flutningabílstjórar ekki virtir viðlits af ráðamönnum þegar þeir leituðu ásjár hjá þeim vegna þess að þeir fóru miklu verr út úr hækkununum en aðrir.
Þeir voru bundnir við samninga um flutningsverð sem miðaðist við miklu lægra eldsneytisverð en skyndilega var komið upp.
Í erlendum fréttaskeytum um mótmæli flutningabílstjóra er aðstöðu einyrkjanna meðal flutningabílstjóranna gerð góð skil strax í upphafi. Á það skorti í upphafi fréttaflutnings hér heima af mótmælum flutningabílstjóra.
![]() |
Eldsneyti hækkar um 6-7 krónur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.6.2008 | 18:51
Mikilvægur áfangi.
Það var ánægjulegt að vera viðstaddur stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs að Skaftafelli í gær. Nú er liðinn meira en áratugur síðan ég sneri mér að gerð þátta um svæðið með samanburði við þau svæði erlendis, sem telja mátti hliðstæð, þótt ekkert þeirra jafnist á við Vatnajökul og ríki hans frá strönd til strandar. Fékk ég bágt fyrir hjá mörgum og var sakaður um brot í starfi en sérstök rannsókn á vegum útvarpsráðs hreinsaði mig af þeim ásökunum.
Gaman var að sjá Hjörleif Guttormsson njóta þessarar stundar, en langt á undan samtíð sinni hefur hann verið brautryðjandi á þingi og annars staðar í að vinna hugmyndum um jöklaþjóðgarð eða jöklaþjóðgarða. Það sést alltaf betur og betur hve mikilsvert hlutverk Hjörleifs hefur verið í náttúrverndarbaráttunni á Íslandi.
Þetta er stærsti áfanginn í sögu náttúruverndar á Íslandi, en rétt að staldra við orðið áfangi, því mikið verk er óunnið við að stækka þjóðgarðinn allt til Eyjafjallajökuls og Heklu í suðvestri og norður um víðernið norðan Vatnajökuls í gegnum Leirhnjúk og Gjástykki allt til sjávar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.6.2008 | 23:45
Öruggi aksturinn í Kömbunum.
Á leið austur í Skaftafell til að vera viðstaddur stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs varð ég vitni að enn einu dæminu um það hvernig lúshægur akstur í Kömbunum getur skapað hvert hættuástandið af öðru. Bíl var ekið niður Kambana á 60 km hraða á beinu köflunum á 50 kílómetra hraða hvenær sem minnsta beygja var á veginum.
Ökumaður bílsins hefur líklegast talið að með þessu væri hann að stuðla að öruggum akstri en það var nú eitthvað annað. Með þessu háttalagi bjó hann til röð svekktra bílstjóra á eftir sér í hugarástandi sem Vátryggingarfélagið fjallaði um fyrir nokkrum dögum og veldur stórum hluta umferðarslysa.
Þetta gerist allt of oft á þessum vegarkafla og afleiðingin verður sú að sumir bílstjórarnir verða svo illir og svekktir að þeir grípa til alls konar lögbrota, bæði til að láta ekki tefja sig og einnig til að veita reiði sinni útrás. Hvert hættuástandið skapast af öðru.
Þeir fara fram úr yfir heilar línur og taka óheyrilega áhættu í framúrakstri. Neðst í brekkunni í dag ók bílstjóri fram úr silakeppnum yfir tvöflalda heila línu!
Nú er það þannig að töf manna þegar svona stendur á er vart meira en ein til tvær mínútur á þessum vegarkafla og því óþarfi að skapa hættuástand út af ekki stærra tilefni.
En silakeppirnir verða með hegðun sinni til þess að ergja samferðamenn sína og þá sýnir bitur reynsla að fjandinn verður laus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.6.2008 | 18:56
Áfram, Björk og Sigurrós!
Fyrir stuttu bar bloggpistill minn yfirskriftina "Áfram, Lára Hanna!" og var vísað til frábærrar baráttu áður óþekktrar konu gegn Bitruvirkjun, sem með framtaki sínu varð þjóðþekkt og sýnd hverju einstaklingurinn getur áorkað. Nú er komið að frægasta Íslendingnum og frægustu hljómsveitinni að leggja þung lóð sín á vogarskálarnar. Frábært, Björk og Sigurrós!
![]() |
Ísland verði áfram númer eitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)