Eggin í sjoppunni.

Eitt skondnasta dæmi sem ég man eftir varðandi æsing og rifrildi sem olli árekstri gerðist á Lönguhlíð 1974. Ég ók á bíl mínum í norðurátt frá Þóroddsstöðum í átt að Miklubraut. Á undan mér var fólksbíll. Á móts við söluturn við götuna gerist það fyrirvaralaust að bílstjórinn í bílnum fyrir framan mig nauðhemlaði algerlega að ástæðulausu að því er virtist því hann var inn við miðju þessarar breiðu götu og langt frá gangstéttinni.

Þótt ég nauðhemlaði líka tókst mér ekki að stöðva bílinn að fullu og rakst því aftan á bílinn fyrir framan, að vísu nær því stöðvaður.

Ég fór út til að tala við bílstjórann í bílnum, sem ég hafði snert, en komst ekkert að til að tala við hann því að hann var í hörkurifrildi við konu sína, sem sat við hlið honum. "Ókey, farðu þá út og gáðu sjálf hvort það séu seld egg í sjoppunnni!" hrópaði hann.

"Þú þurftir nú ekki að stöðva svona skyndilega, "æpti hún á móti. "Ekki í fyrsta skipti sem við lendum í árekstri út af æsingnum og skapvonskunni í þér!"

"Þetta hefurðu upp úr frekjunni í þér," svaraði hann. Það varst þú sjálf sem heimtaðir að við stoppuðum til að kaupa eggin, sem ég veit vel að eru ekki seld í þessari sjoppu!" svaraði hann.

Það leið talsvert langur tími sem ég varð að hlusta á þetta ákafa rifrildi áður en þau fengust til að ræða við mig til að útkljá okkar mál. Loksins tókst það og ég ók í burtu. Bíllinn minn hafði ekkert skemmst en dæld var á þeirra bíl og við sættumst á að hittast aftur um kvöldið og afgreiða málið.

Ekki veit ég hvort egg voru seld á þessum tíma í sjoppunni en þegar ég kvaddi og fór heyrði ég álengdar að rifrildið um það blossaði upp sem aldrei fyrr hjá hinum skapstóru hjónum.

Sjálfur hef ég ekki hugmynd um enn þann dag í dag hvort þeirra hafði rétt fyrir sér.


mbl.is Gefðu þér tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítabjarnarmálið skýrist.

Í fréttum kvöldsins og myndum af atburðunum á Þverárfjalli hefur hvítabjarnarmálið skýrst. Sú röksemd að dýrið hafi ógnaði fólki fær ekki staðist. Einn viðmælandi sagði að björninn hefði þefað út í loftið og sýnt með því að það væri í árásarhug. Hvílík della!

Menn eru líka tvísaga þegar þeir segja að það hafi stefnt inn í þokuna og líka stefnt í átt að fólkinu. Vel sést af myndum að björninn kom ekkert nálægt fólkinu og engum í lögreglunni virðist hafa dottið í hug að ef tvö fyrirbæri teljast of nálægt hvort öðru, í þessu tilfelli dýrið og fólkið, nægði að færa fólkið frá dýrinu.  

Auðvitað átti að að loka veginum strax og þá gátu veiðimennirnir skipt liði, helmingur farið upp fyrir dýrið til að bægja því frá þokunni og hinn niður að þeim stað, nógu langt í burtu, þar sem fólkinu hafði verið skipað að vera.

Myndirnar, sem sýna hreykna veiðimenn stilla sér upp til myndatöku við hið fellda dýr segja sína sögu. Ekki ónýtt að bæta þeim við í safnið til viðbótar myndum af veiddum hreindýrum og löxum.

Það vantaði ekkert nema Ladda í hlutverki hins veiðiglaða norðlenska bónda, að koma inn á svæðið og hrópa á ýktri norðlensku: "Hér er ekki um annað að ræða skjóTa helvíTis kviKindið! Já, bara skjóTa helvíTið!" 

 


mbl.is Einmana og villtur hvítabjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaust "vitur eftir á"?

!988 sást bjarndýrshúnn á ferð í Fljótum. Það var eins og við manninn mælt að upphófst mikið kapphlaup um að fella dýrið. Þá var rætt um að hægt væri að standa öðruvísi að málum og læra af þessu. Gagnrýni var vísað á bug, m.a. með því að segja að það væri alltaf hægt "vera vitur eftir á."

Nú, tuttugu árum síðar, gerist nákvæmlega það sama, - menn hafa ekkert lært,  og aftur er gagnrýni svarað með því að segja að "alltaf sé hægt að vera vitur eftir á."

Miðað við þetta er ekki að efa atburðarásin og rökræðan verði nákvæmlega hin sama hér eftir sem hingað til í hvert skipti sem bjarndýr sést hér á ferð.  


mbl.is „Hefði átt að loka veginum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrynur ýsan næst?

Athyglisvert var að hlusta á ræðumann á Sjómannadeginum í Reykjavík sem lýsti því skilmerkilegan hátt hvernig stækkun ýsukvótans og minnkun þorskkvótans verður til þess að brottkast á þorski eykst vegna þess að báðar þessar fisktegundir eru á svipuðum slóðum, aukin ýsuveiði þýðir að meira af þorski kemur um um borð og verður að henda honum.

 Einnig eru athyglisverðar hugleiðingar Einars Júlíussonar sem færir að því rök í Morgunblaðinu í dag að vegna þess að ýsukvótinn hefur verið aukinn of mikið muni það leiða til stórfelldrar minnkunar stofnsin á næstu árum.


mbl.is Ekki forsendur til að greiða skaðabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seyðisfjarðarslys í M.R.?

Í heimsókn í gamla íþróttahús M.R. fyrir tveimur árum heyrði ég að til stæði að breyta húsinu í bókasafn. Ég hélt að þetta væri grín og gerði ekkert með það. Á útskriftarhátíð í fyrradag, þar sem dótturdóttir mín var meðal þeirra sem útskrifuðust, tilkynnti rektor þetta hinsvegar og það var staðfest í frétt Morgunblaðsins.

Húsið er elsta íþróttahús landsins, þar starfaði einn af fyrstu sérmenntuðu íþróttakennurum landsins og þar var vagga handboltans.

Flestir helstu íþróttagarpar landsins stæltu þar líkama sín langt fram eftir síðustu öld sem og helstu ráðamenn þjóðarinnar. Nú stendur hið sama til þarna og á Seyðisfirði í fyrra, þar sem litlu munaði að innréttingar áfengisútsölunnar þar yrðu eyðilagðar þótt ytra byrði hússins fengi að standa.  

Það er ævintýri að koma inn í íþróttasalinn, sem er aðeins um 16 metra langur og 9 metra breiður, eða 144 fermetrar og ímynda sér hvernig hægt var að spila þar handbolta. Um salinn leikur sami ilmur merkilegrar fortíðar og í skólanum öllum.  

Alls er húsið um 25 metra langt og því rúmlega 200 fermetrar eða líkast til um 2% af flatarmáli skólalóðarinnar. Það hlýtur að vera hægt að finna bókasafni stað á skólalóðinni án þess að ráðast á íþróttahúsið. 

Án innréttinganna er húsið ekki meira virði en elsta kirkja landsins myndi vera ef henni yrði breytt í pakkhús.

Á skólalóðinni má sjá möguleika til að koma bókasafni fyrir neðanjarðar, til dæmis á milli Íþöku og íþróttahússins eða jafnvel undir bílastæðinu eða túninu fyrir framan skólann.

Á Seyðisfirði var komið í veg fyrir menningarslys. Frá upphafi hefur það verið sérstaða M.R. að standa vörð um góð gildi, venjur og hefðir og þess vegna er það enn sárara en ella ef þar verður nú staðið að menningarslysi fyrir fljótræði.

Þess vegna get ég ekki annað en endað þennan pistil á því að spyrja: Et tu, M.R.?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband