19.6.2011 | 09:39
Ágætis gata.
Við bjuggum í tvö og hálft ár í kjallara í Sörlaskjóli 86. Það voru góð ár. Þegar vil fluttum þangað voru Jónína og Ragnar fædd, og Þorfinnur var þar fyrsta árið sitt.
Það var stutt að fara niður að sjó og börnin nutu þess. Eitt sinn datt þó Þorfinnur í sjóinn en var bjargað.
Hið eina sem ég hafði við staðinn að athuga var kaldur norðanvindurinn sem leikur oft um Vesturbæinn þegar lyngt er og hlýrra í Austurbænum.
Þótt ég væri og sé enn gegnumblár Framari truflaði það mig ekkert að eiga heima í miðju KR-svæðisins.
17. júní 1966 er mér enn minnisstæður. Dagana á undan og sjálfan þjóðhátíðardaginn var einmuna veðurblíða, svo mikil, að ég tók málmblæjuna, sem var á nýja Bronkónum mínum, af honum og ók honum opnum þesssa daga.
Nóg var að gera 17. júní og flugið notað til að komast á milli staða, meðal annars flogið upp á Akranes og lent á Langasandi.
Frábært var síðan að renna yfir miðborgina í bakaleiðinni og horfa í góðviðrinu yfir mannfjöldann.
"Those were the days" var lag þessara ára, eða "Ó þessi ár!" eins og ég þýddi það og setti í fyrrahaust inn á ferilsdiskinn.
![]() |
Sörlaskjól er gata Ellerts B. Schram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2011 | 20:41
Munaði einu marki !
Ó, það munaði bara einu marki! Annað hvort öðru markinu í óþörfum tapleik gegn Hvít-Rússum eða markinu sem lá svo hvað eftir annað í loftinu í þessum frábæra leik U21 landsliðs okkar sem gerði það að verkum að við getum verið stolt af þessu liði.
Ekki var verra að gera erkifjendunum Dönum þann grikk að fella þá út með okkur og það á heimavelli Dana.
Og síðan er á það að líta að það var gríðarlega mikilvægur áfangi fyrir okkur sem knattspyrnuþjóð að fá í fyrsta sinn landslið, sem hefur að baki reynslu af því að komast áfram fyrst allra knattspyrnulandsliða okkar í úrslit í stórmóti. http://omarragnarsson.blog.is/admin/blog/?entry_id=1174675
Það á vonandi eftir að nýtast í því liði fullorðinna sem gekk í gegnum sína eldskírn á þessu móti og tekur við kyndlinum.
Og ekki síður er það mikilvægt að nú sér uppvaxandi kynslóð að þetta er hægt.
Og rúsínan í pylsuendanum: Við skelltum ekki aðeins Dönum, heldur komum þeim niður í neðsta sætið í riðlinum. Það var sætt.
Ó, þetta var svo skemmtilegur leikur að maður var alveg að verða brjálaður heima í stofu.
Takk, takk, strákar ! Við getum verið stolt af ykkur.
![]() |
Dönum skellt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.6.2011 | 16:37
Þarf einu marki fleira nú.
Það eina sem Íslendingar geta gert í leiknum á eftir við Dani er að vinna með fjórum mörkum gegn einu, en úrslitin í hinum leiknum í riðlinum getur íslenska liðið á engan hátt haft áhrif á.
Íslendingar hafa einu sinni unnið Dani í leik U21 í knattspyrnu og voru úrslit þess leiks 3:1.
Nú þurfa Íslendingar því að skora einu marki fleira en þá til að eiga einhverja von og hver veit nema Eyjólfur hressist í þess orðs fyllstu merkingu.
![]() |
Einn sigur á Dönum í átta leikjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2011 | 23:57
Lögmál framboðs og eftirspurnar?
Ekki hef ég séð skýringar á því af hverju mun færri voru á þjóðhátíðartónleikum núna en undanfarin ár.
Varla er slæmu veðri um að kenna því að 14 stiga hiti var síðdegis í dag í Reykjavík og þurrt veður.
Skýringin hlýtur að vera samkeppni við aðrar samkomur og tónleika. Framboð af slíku hefur verið afar mikið að undanförnu með tilkomu Hörpu og síðan má ekki gleyma því að Menningarnótt í Reykjavík er orðin gríðarlega fjölmenn hátíð.
Ofan á þetta bætist að vegna þess þjóðhátíðardagurinn lengdi helgina upp í þrjá daga og það freistar margra að fara út úr bænum og nýta sér hina löngu helgi.
![]() |
Óvenju fámennt á tónleikum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2011 | 22:08
Ánægjuleg hátíð.
Þótt svalt væri í veðri á Hrafnseyri í dag var afar ánægjulegt fyrir okkur, sex fulltrúa úr Stjórnlagaráði, að vera þar og taka þátt í að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar, sem var í forsvari fyrir "stjórnlagaþingið" 1851 sem hlaut nafnið Þjóðfundur og var kosið með sérstöku beinu persónukjöri, aðgreint frá kosningum til Alþingis.
Við flugum þangað á TF-TAL, sex sæta flugvél í eigu Sverris Þóroddssonar, en slíkt sparar mikinn tíma miðað við það að aka fram og til baka.
Með ólíkindum var hve marga maður þekkti þarna og var yfirdrifið nóg að spjalla við fjölmarga á meðan á tæpra fjögurrra stunda viðdvöl okkar stóð.
Sem dæmi má nefna að Kjartan Gunnarsson tók myndina hér við hliðina þar sem vinstra megin eru Þorvaldur Gylfason, Silja Bára Ómarsdóttir og Eiríkur Bergmann Einarsson, en hægra megin Gísli Tryggvason og Salvör Nordal. Í baksýn eru gamli bærinn á Hrafnseyri og kirkjan.
Sýningin nýja um Jón Sigurðsson er aldeilis afbragð og gefur færi á að kynnast lífi hans og starfi á sérstaklega áhugaverðan hátt.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var svo sannarlega í essinu sínu á heimavelli þegar hann flutti afbragðs góða hátíðarræðu.
Ég hef áður verið viðstaddur þegar hann hefur flutt ræðu um Jón sem var snilldarverk. Það var við styttu Jóns í Winnipeg þar sem hann flutti blaðalaust á ensku einhverja bestu tækifærisræðu sem ég minnist.
Eitt af því sem mér líkaði vel var það að hann dró það fram betur, en flestir gera, hve umdeildur Jón var á stundum, svo mjög að hann treysti sér ekki heim til Íslands í sex ár og annar var kjörinn forseti Alþingis en hann.
Sömuleiðis var hann ekki á þjóðhátíðinni 1874.
Ástæðan var sú að Jón var óhræddur við að standa við sannfæringu sína í viðkvæmum deilumálum, þótt ekki væri slíkt til vinsælda fallið þá og þá stundina.
Hugrekki hans, framsýni og stefnufesta voru að mínum dómi langstærstu kostir hans.
En Jón var ekki eina íslenska stórmennið sem þurfti að sæta því að vera settur til hiðar um stund.
Rétt eins og hann var ekki á þjóðhátíðinni 1874 var stórskáldinu Einari Benediktssyni ekki boðið á Alþingishátíðina á Þingvöllum.
Það var ekki fyrr en eftir hans dag sem honum var valinn grafreitur við hlið Jónasar Hallgrímssonar í Þjóðargrafreitnum á Þingvöllum.
![]() |
Menningarsetur á Hrafnseyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.6.2011 | 11:11
Um margt líkur Dynk.
Nýi fossinn, sem fellur niður hamrabelti neðst í Morsárjökli er um margt líkur fossinum Dynk í Þjórsá, sem er flottasti stórfoss Íslands vegna hins óvenjulega lags síns, en hann er samansafn af 12-20 fossa, sem allir falla niður með miklum hávaða í sama fossstæðinu.
Hávaðinn í Dynk og útlit hans, sem hafa leitt til nafngiftarinnar, er mismunandi mikill eftir vatnsmagninu í honum og því miður er búið að taka í rólegheitum með Kvíslaveitu þriðjunginn burtu af vatninu, sem annars félli ótruflað um þennan mikla foss, sem er á stærð við Gullfoss.
En það er að vísu afturkræf aðgerð ef vatninu frá Kvíslaveitu verður einhvern tíma á ný veitt um þennan mikilfenglega foss.
Ég hef áður bloggað um það að nýi fossinn/fossarnir í Morsárdal ættu að heita Morsárfoss/Morsárfossar en líst við nánari athugun betur á heitið Morfoss/Morfossar, sem vísa til þess að allt sé morandi í fosssum í þessu stækkandi fossstæði.
Hann er fjarri því að ná sama mikilleik og Dynkur en svipar á sinn hátt til Hraunfossa, sem eru margir litlir samhliða fossar og kannski merkilegustu fossar hér á landi.
![]() |
Fossafansinn í Morsárjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2011 | 20:58
Mikil aukning í því að fólk er að koma inn með orðið aukningu.
Síðasti sólarhringur hefur verið sérstakur fyrir það að orðið "aukning" hefur verið notað meira og verr en ég man að hafi áður gerst á einum degi.
Í hádeginu heyrði ég þessa setningu: "Það hefur orðið mikil aukning í því að fólk er að koma inn með minni tekjur..." Notuð 16 orð í stað þess að segja einfaldlega: "Fólk hefur minni tekjur." 4 orð.
Síðan hefur í ofanálag blandast saman við þetta á köflum stanslaus notkun sagnarinnar "að vera" bæði í nútíð og þátíð og það gerðist einmitt í setningunni, sem var sögð í hádegisfréttunum.
Í spjalli um EM í knattspyrnu 21. árs og yngri gerðu menn langtímum saman ekki neitt heldur voru þeir sífellt eða eru að gera það. "Liðið var að ná ekki upp samspili" og "þetta lið er ekki að halda boltanum" og "er ekki að eiga góða daga" o. s. frv.
Fyrirsögn þessa pistils væri eins og að ofan greinir ef hann væri í þessum nútíma "kúl-" stíl sem þykir svo "töff".
Í stað þess að segja einfaldlega: "Orðið aukning æ meira notað". En það er auðvitað alltof flatt og gamaldags.
![]() |
Margir vilja nema á Bifröst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2011 | 15:32
Feigðarför.
Barack Obama þarf að huga að endurkjöri sínu eftir rúmt ár og mun því ekki þora að gera neitt varðandi fjárlagahallann bandaríska sem er að óbreyttu tímasprengja, sem ekki er spurning um hvort springi heldur hvenær.
Það verður ekki fyrr en á árinu 2013 sem Obama, ef hann verður endurkjörinn, getur farið að taka á vandanum, sem hann, illu heilli, treysti sér ekki til að taka á strax 2009.
Þá hefur hann vafalaust talið það afsökun fyrir sig að efnahagskerfið hafði riðað og samdráttur haldið innreið sína í kjölfarið.
Því miður er varla hægt að sjá að ástandið verði hótinu skárra eftir eitt og hálft ár en það er nú.
Er þá komið að fyrri hluta þess, sem sagt hefur verið um lýðræðið, að það sé hræðilega gallað en ekkert skárra fyrirkomulag hafi þó verið fundið.
Og einn hræðilegi gallinn á lýðræðinu er sá, að ráðamenn fallast oft hendur við það að taka bráðnauðsynlegar en óvinsælar ákvarðanir og þar með fara hlutir oft á verri veg en vera þyrfti.
![]() |
Hvetja Bandríkin til þess að forðast greiðsluþrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2011 | 14:51
"Banvæn blanda: Þreyttir flugmenn og flugumferðarstjórar".
Ofangreind setning var yfirskrift á grein, sem ég las nýlega í erlendu flugblaði. Í henni var greint frá nokkrum tilvikum þar rannsóknarmenn komust að þeirri niðurstöðu, að þreyta flugmanna og flugumferðarstjóra hefðu verið orsakaþáttur varðandi alvarleg flugslys.
Dramatískasta dæmið var það að eftir að flugumferðarstjóri hafði á dimmu síðkvöldi gefið heimild til að aka stórri farþegaþotu út á ákveðna braut og hefja þar flugtak, óku flugstjórarnir henni út á ranga braut sem meira að segja var ekki með flugbrautarlýsingu og reyndu þar flugtak sem endaði með hörmulegu slysi, vegna þess að brautin var ekki nógu löng.
Þótti með ólíkindum að flugmennirnir gætu gert svona arfavitlaus mistök og ekki síður að flugumferðarstjóranum skyldi líka sjást yfir það hvað var að gerast.
Rakið var að bæði flugmennirnir og ekki síður flugumferðarstjórinn voru illa upplagðir og þreyttir og rakið hvernig óreglulegar vaktir eða vaktaskipti geta dregið úr getu þessara manna.
Hvað flugumferðastjóra áhrærði var bent á það hve skipting af dagvakt yfir á næturvakt eða öfugt getur skert hæfni meðan þessi vaktaskipti ganga yfir og hvað flugmenn áhrærði er um að ræða löng flug yfir mörg tímabelti sem riðlar mjög líkamsstarfseminni eins og allir hafa reynt, sem hafa til dæmis flogið frá Ameríku til Evrópu og þekkja það hve mikil áhrif "missir" fjölda klukkustunda hefur.
Ég hef reynt ýmsar aðferðir til að sjá við þessu, til dæmis að breyta svefntímanum vestra áður en haldið var í flugið og að reyna að sofa á leiðinni en allt án árangurs.
Breytingar á líkamsklukkunni virðist vera illmögulegt að yfirstíga.
Mig minnir að á sínum tíma hafi verið settar reglur um aukna hvíld flugmanna, sem Íslendingar tóku strax upp á sama tíma og stórþjóðir í Evrópu knúðu í gegn undanþágur og síðan breytingar vegna mikils þrýsings frá stóru flugfélögunum.
Ég hef gagnrýnt linku þá sem íslenskir embættismenn hafa oft sýnt varðandi það að taka strax upp ýmsar tilskipanir erlendis frá í stað þess að nýta sér heimildir til að leita eftir undanþágum, en nú er svo að sjá að í þessu tilfelli hafi verið þörf á því að taka upp betri hætti varðandi hvíldartíma flugmanna.
![]() |
Flugmenn mótmæla reglugerð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2011 | 10:32
Valdasókn framkvæmdavaldsins.
Bandaríkjamenn glíma við svipaðan vanda og flest önnur lýðræðisríki, það að framkvæmdavaldið seilist sífellt lengra í því að taka til sín vald, sem það ýmist hefur ekki eða mjög vafasamt er að það hafi.
Að því leyti sýnist mér það hið ágætasta mál að Obama Bandaríkjaforseti geti ekki bara rétt si svona ákveðið án góðs samráðs við þingið að fara út í hernaðaraðgerðir sem í raun hlíta eðli stríðs, þótt ekki sé um landhernað að ræða.
Sjálfsagt er að dómstólar fjalli um þetta mál, hvernig sem málinu lýkur.
Enda þótt Bandaríkjamenn kjósi oddvita framkvæmdavaldsins beint, gagnstætt því sem Íslendingar gera, hafa Kanarnir í lögum sínum ákvæði sem eiga að hamla gegn því að einn hinna þriggja valdþátta verði ekki of valdamikill.
Þess heldur er það slæmt þegar framkvæmdavaldið hér á landi fer offari gagnvart löggjafarvaldinu, eins og gert var í sambandi við innrásina í Írak 2003.
Í þeirri stjórnarskrá, sem Stjórnlagaráð vinnur nú að, er reynt að setja um þetta skýrari ákvæði en verið hafa og sömuleiðis að auka verkefni löggjafarvaldsins og efla stöðu þess gagnvart framkvæmdavaldinu.
![]() |
Obama kærður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)