"Banvæn blanda: Þreyttir flugmenn og flugumferðarstjórar".

Ofangreind setning var yfirskrift á grein, sem ég las nýlega í erlendu flugblaði. Í henni var greint frá nokkrum tilvikum þar rannsóknarmenn komust að þeirri niðurstöðu, að þreyta flugmanna og flugumferðarstjóra hefðu verið orsakaþáttur varðandi alvarleg flugslys.

Dramatískasta dæmið var það að eftir að flugumferðarstjóri hafði á dimmu síðkvöldi gefið heimild til að aka stórri farþegaþotu út á ákveðna braut og hefja þar flugtak, óku flugstjórarnir henni út á ranga braut sem meira að segja var ekki með flugbrautarlýsingu og reyndu þar flugtak sem endaði með hörmulegu slysi, vegna þess að brautin var ekki nógu löng. 

Þótti með ólíkindum að flugmennirnir gætu gert svona arfavitlaus mistök og ekki síður að flugumferðarstjóranum skyldi líka sjást yfir það hvað var að gerast. 

Rakið var að bæði flugmennirnir og ekki síður flugumferðarstjórinn voru illa upplagðir og þreyttir og rakið hvernig óreglulegar vaktir eða vaktaskipti geta dregið úr getu þessara manna. 

Hvað flugumferðastjóra áhrærði var bent á það hve skipting af dagvakt yfir á næturvakt eða öfugt getur skert hæfni meðan þessi vaktaskipti ganga yfir og hvað flugmenn áhrærði er um að ræða löng flug yfir mörg tímabelti sem riðlar mjög líkamsstarfseminni eins og allir hafa reynt, sem hafa til dæmis flogið frá Ameríku til Evrópu og þekkja það hve mikil áhrif "missir" fjölda klukkustunda hefur. 

Ég hef reynt ýmsar aðferðir til að sjá við þessu, til dæmis að breyta svefntímanum vestra áður en haldið var í flugið og að reyna að sofa á leiðinni en allt án árangurs. 

Breytingar á líkamsklukkunni virðist vera illmögulegt að yfirstíga. 

Mig minnir að á sínum tíma hafi verið settar reglur um aukna hvíld flugmanna, sem Íslendingar tóku strax upp á sama tíma og stórþjóðir í Evrópu knúðu í gegn undanþágur og síðan breytingar vegna mikils þrýsings frá stóru flugfélögunum.

Ég hef gagnrýnt linku þá sem íslenskir embættismenn hafa oft sýnt varðandi það að taka strax upp ýmsar tilskipanir erlendis frá í stað þess að nýta sér heimildir til að leita eftir undanþágum, en nú er svo að sjá að í þessu tilfelli hafi verið þörf á því að taka upp betri hætti varðandi hvíldartíma flugmanna. 


mbl.is Flugmenn mótmæla reglugerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband