8.6.2009 | 19:24
Kynslóðin sem var "hömlulaus."
Ég geymi inni í kápunni í minnisbókinni minni nokkur gullkorn úr viðtölum Krónikunnar sálugu við Sigurjón Þ. Árnason og Hannes Smárason í febrúar og mars 2007, einu og hálfu ári fyrir hrunið.
Sigurjón segir í viðtalinu að hans kynslóð, manna á aldrinum 35-50 ára ráði ferðinni og hann lýsir þessari ráðandi kynslóð svona:
"Sú kynslóð ólst við mikið frjálsræði en einnig mikla vinnusemi. Hún fór út að leika sér á morgnana og var þar allan daginn, kom ekki heim fyrr en hún var kölluð í mat. Hún taldi að allt væri hægt og var að því leytinu hömlulaus."
Verður hinni "tæru snilld" lýst öllu betur? Og það í ofanálag í tímariti sem var talin "tær viðskiptasnilld" en fór á hausinn eftir að þrjú tölublöð höfðu komið út.
![]() |
Hrekkur ekki fyrir skuldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.6.2009 | 11:20
Hámenning eða lágmenning
Það hefur tíðkast lengi að flokka íslenska menningu í svokallaða hámenningu og lágmenningu. Þetta hefur ratað inn í styrkjakerfi listamanna og skipt listamönnum að óþörfu í tvo flokka. Ef einhver annar en Jónas Hallgrímsson hefði ort Enginn grætur Íslending hefði það líkast til flokkast sem lágmenning alla tíð síðan.
Það er gott að við eigum menntamálaráðherra sem hefur greinilega látið sér annt um allar tegundir menningar, líka hina svokölluðu lágmenningu sem dægulagatextar hafa verið taldir vera. Þá gleymist mönnum að skáld eins og Tómas Guðmundsson og Kristján frá Djúpalæk töldu sig ekki yfir það hafna að yrkja svokallaða dægurlagatexta.
![]() |
Dægurlagatextar krufnir til mergjar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.6.2009 | 22:19
Ekkert gat bjargað Þjóðverjum 1944.
Draga má stórlega í efa þá fullyrðingu Obama að Þjóðverjar hefðu haldið velli í stríðinu hefði innrásin í Normandy misheppnast. Þótt Þjóðverjum hefði tekist að reka bandamenn í sjóinn í Normandy hefði það aðeins verið gálgafrestur fyrir Hitler.
Hernaðarsagnfræðingum ber saman um að í júní 1944 höfðu Bandaríkjamenn, Rússar og Bretar svo mikla yfirburði yfir öxulveldin í framleiðslu hergagna og mannafla að stríðið var tapað, hvernig sem einstakar orrustur fóru.
Í júní 1944 sóttu bandamenn hægt en bítandi norður frá Róm eftir að sú börg féll.
Þjóðverjar urðu að hafa 133 herdeildir í löndum Vestur-Evrópu á þessum tíma, allt frá Nordkap til Ítalíu til að vera viðbúnir innrás og verjast á Ítalíu.
Á sama tíma höfðu þeir 192 herdeildir gegn Rússum, sem voru óstöðvandi.
Þjóðverjar hefðu aldrei getað flutt nógu margar herdeildir austur þótt þeir hefðu unnið tímabundinn sigur í Normandy. Þeir urðu að vera viðbúnir annarri innrás úr vestri.
Aðeins í Danmörku og Noregi urðu þeir að hafa 18 herdeildir.
1945 ráðu Bandaríkjamenn yfir kjarnorkusprengjum og hefðu alveg eins getað notað þær gegn Þjóðverjum eins og Japönum.
Yfirburðir Rússa í hergagnaframleiðslu og mannafla gerði þá óstöðvandi á austurvígstöðvunum síðasta ár stríðsins. Fyrst eftir stríðið gerðu Vesturveldin mikið úr hlut sínum í sigrinum og töluðu jafnvel um El Alamein sem orrustuna sem úrslitum hefði ráðið, þótt herafli Þjóðverja þar væri aðeins nokkur prósent af herafla þeirra á austurvígstöðvunum.
Það er El Alamein keimur af yfilýsingu Obama nú því það er löngu viðurkennt að Sovétríkin voru aðalsigurvegarinn í stríðinu í Evrópu þótt fulltingi Vesturveldanna vægi vissulega þungt.
Obama minnist ekki á það, kannski af tillitssemi við Rússa, að gildi innrásarinnar í Normandy fólst fyrst og fremst í því að ef hún hefði misheppnast hefðu Rússar líkast til farið langleiðina vestur að Rín og fengið með því slíka hernaðaryfirburði á meginlandi Evrópu að Sovétríkin væru jafnvel enn ekki fallin.
Sigur í Normandy tryggði það að vestrænt lýðræði hélt velli í Vestur-Evrópu í stað þess að alræði, kúgun og ófrelsi hefði þar tögl og haldir, beint eða óbeint.
![]() |
Innrásin breytti gangi sögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.6.2009 | 21:47
Betra að fjölga "djúpum" mönnum og spila "hátt."
Ég hélt að knattspyrnuvellir væru nokkurn veginn láréttir og að menn spiluðu ýmis framarlega eða aftarlega. En það er greinilega ekki nógu viturlegt af mér að tala svona. Með því að gera það kem ég upp um fáfræði mína í nútimaknattspyrnu.
Í lýsingu og viðtölum vegna leiks Hollendinga og Íslendinga var ítrekað rætt um að aðeins einn leikmaður Íslands hefði verið "djúpur" í fyrri hálfleik og það hefði breytt mjög gangi leiksins í seinni hálfleik að fjölga "djúpum" mönnum og leika með tvo "djúpa" menn í þeim síðari. Síðan var rætt um að spila "hátt" á vellinum.
Greinilega var ekki verið að tala um hávaða í leikmönnum og vegna þess að þeir eru ekki vængjaðir var ómögulegt fyrir vesaling minn að skilja hvað átt væri við.
Ég velti því síðan fyrir mér hvort níu leikmenn Íslendinga hefðu verið "grunnir" í síðari hálfleik, hvort sumir hefðu verið meðaldjúpir og aðrir grunnir og hvort þeir hefðu verið lágt á vellinum eða hátt.
Ég er norður við Mývatn og heyrði þetta í útvarpinu. Þess skal getið að aðalþulur í lýsingunni var Bjarni Felixson sem aldrei talaði um djúpa menn eða grunna og því síður um það að vera hátt eða lágt á vellinum.
Ég þakkaði Guði fyrir að Bjarni er enn að og ber enn höfuð og herðar yfir aðra í knattspyrnulýsingum þótt í þjóðfélagi æskudýrkunarinnar ætti hann að hafa unnið sér það til óhelgis að vera kominn á eftirlaunaaldur.
Bjarni lýsir á kjarnyrtri og góðri íslensku á þann hátt að allir skilja hvað er að gerast á vellinum.
Bjarni notar enn orð eins og "teigur" í staðinn fyrir "boxið", sem aðrir tönnluðust á um skeið og þóttust með því slá um sig og sýna hvað þeir væru fróðir um knattspyrnu og góðir í ensku.
![]() |
Hollendingar á HM eftir sigur gegn Íslandi, 2:1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.6.2009 | 11:45
Frysting næstu árin mikilvægt atriði.
Eitt mikilvægasta atriði samninganna um Icesafe reikninga er það að ekki verði um neinar afborganir að ræða næstu árin. Málið er þannig vaxið að það tekur tíma að vinna að skilningi viðsemjenda okkar á aðstæðum okkar og þessi næstu ár er mikilvægt að nýta af alefli til þess.
Samningarnir núna eru mikilvægt skref en alls ekki lokaskrefið því að nú verður að nota næstu ár ötullega til að ná sem mestu út úr eignum Landsbankans jafnframt því sem nágrannaþjóðum okkar verði gerð grein fyrir því að ósanngjarnt er að ætlast til þess að Íslendingar einir berði byrðar af því sem úrskeiðis fór undir verndarvæng sameiginlegs evrópsks fjármálakerfis.
Það eru til fjölmörg dæmi um að endursamið hafi verið um svipuð málefni.
Samningarnir eru mikilvægir til að endurheimta traust og orðstír okkar en hins vegar verður að kynna málstað okkar betur erlendis og fá viðsemjendur okkar til sýna sanngirni og raunsæi.
Þegar niðurstaðan af sölu eigna Landsbankans liggur fyrir sést hver lokastaðan verður og þá verður að meta málið í ljósi þess og endursemja ef augljós þörf er á því.
![]() |
Gengið frá samkomulaginu í gærkvöldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.6.2009 | 11:35
Lítill snjór víða á hálendinu.
Þegar horft var af Bárðarbungu í vorferð Jöklarannsóknarfélagsins í vikunni mátti sjá að lítill snjór er á mestöllu norðurhálendinu. Lengi hefur verið auð jörð á leiðinni suður í Herðubreiðarlindir.
Flugvöllurinn við Herðubreiðarlindir hefur verið auður í allt vor.
Óvenjulega mikill og nýr snjór hefur hins vegar verið á Brúaröræfum en hann hopar nú hratt í hlákunni.
Eins og oft áður hefur verið minni snjór í Kringilsárrana en umhverfis hann og sannast enn einu sinni ástæða þess að hann og Hjalladalur voru mikilvægt burðarsvæði hreindýra þegar að kreppti annars staðar.
![]() |
Búið að opna í Landmannalaugar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2009 | 11:17
Það sem ekki er til bilar aldrei.
Henry Ford aftók það með öllu að sett yrði vatnsdæla í Ford T þótt þessir bílar væru frægir fyrir að það syði á kælikerfi þeirra. Ekki kom heldur til greina að setja bensíndælu í bílinn. Meðan hann lifði vor allir Ford-fólksbílar með gamaldags einföldum þverfjöðrum og hélst svo í 14 ár eftir að keppinautarnir settu fullkomnari og betri sjálfstæða fjöðrun undir bíla sína.
"Það sem ekki er í bílnum bilar aldrei" sagði Ford.
Flókin tölvukerfi og sjálfvirkni eru dásamlegar uppfinningar, auka stórlega öryggi meðan allt leikur í lyndi, létta vinnuálag og streitu og minnka hættu á þreytu og mistökum.
Sjálfvirka tölvukerfið í Airbusþotum tekur ráðin af flugmönnum sem ætla að fljúga út fyrir öryggismörk vélanna, kemur í veg fyrir að þeir fljúgi of hægt eða of hratt eða ofgeri vélinni á annan hátt.
En þótt allt sé gert sem unnt er til að hægt sé að fljúga vélunum ef kerfin bila segir lögmál Murphys að ef eitthvað geti farið úrskeiðis muni það gerast fyrr eða síðar.
Athyglisvert flugslys varð í Bandaríkjunum á tíunda áratugnum. Douglas- þota sem var í flugtaki náði aldrei flugi og fórst handan við flugbrautarendann. Rannsókn leiddi í ljós að vængflapar voru ekki niðri en án þeirra er útilokað að ná svona þotu á loft. Samt héldu flugstjórarnir löngu flugtaksbruni áfram í opinn dauðann.
Ástæðan reyndist vera lúmsk oftrú á tækninni, sem hafði grópast djúpt í undirmeðvitund flugstjóranna.
Í vélinni var sjálfvirkt kerfi sem setti vængflapana niður fyrir flugtak ef flugstjórarnir gleymdu því. Það var greypt í huga hinna þrautreyndu flugmanna að þetta gæti ekki farið úrskeiði og að vélin leiðrétti þá ávallt ef þeir gleymdu þessu eða gerðu önnur mistök, sem þeir þar að auki voru manna ólíklegastir til að gera.
Þar að auki var þetta á gátlista og í huga þeirra var auk þess útilokað að svo reyndir, góðir og farsælir flugstjórar gerðu slík grundvallarmistök.
Nokkrum dögum fyrir hið örlagaríka flug bilaði þessi sjálfvirki búnaður og flugstjórarnir voru látnir vita af því, en ætlunin var að gera við þessa bilkun síðar, enda vélin vel flughæf.
En hið ótrúlega gerðist að þeir gleymdu að setja flapana niður fyrir þetta síðasta flugtak, og nú var enginn búnaður til að leiðrétta mistök þeirra. Líkurnar á að þetta gæti gerst einmitt þegar svona var ásatt tímabundið voru nær engar en samt gerðist það.
Þegar flugritinn var kannaður eftir slysið heyrðist, að þeir undruðust getuleysi þotunnar í síðari hluta flugtaksbrunsins og leituðu ákaft alls kyns skýringa á því, hvort hreyflana skorti afl, hvort ís væri á vængjum o. s. frv. en fundu ekki hina raunverulegu skýringu.
Það var grópað í undirmeðvitund þeirra að útilokað væri að þeir hefðu sjálfir gert arfamistökin, sem voru orsökin, og sá inngreypti vani að færni þeirra með sjálfvirkni sem bakhjarl tryggði að svona gæti ekki gerst, varð orsök mannskæðs flugslyss og kostaði þá lífið.
Eftir þetta slys var brýnt fyrir flugrekendum að sjá til þess að flugmenn væru reglulega látnir handfljúga flugvélum upp á gamla mátann og forðast hina lúmsku ofurtrú á sjálfvirknina, sjálfvirkni sem myndi aldrei bila ef hún væri ekki til.
![]() |
24 villuboð frá flugvélinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.6.2009 | 21:44
Vorferð á Vatnajökul - þriðji dagur.
Það var byrjað að létta til á hvítasunnudag, einkum á norðaustanverðum Vatnajökli og því ákveðið að fara í Kverkfjöll þar sem fjórir leiðangursmenn ætluðu að vera við mælingar í nokkra daga.
Vélarhlífin var tekin af Súkkunni til að auka kælingu en ég kem að því máli síðar í sérstökum pistli.
1. Færið var gott á miðjum jöklinum og áð þegar komið var inn í heiðríkjuna sem ríkti á norðaustanverðum jöklinum.
(Hægt að stækka myndirnar og láta fylla út í allan skjáinn með því að smella á þær í tveimur áföngum. Númera myndirnar eftir röð, talið að ofan.
2. Brátt blasti "djásnið í kórónu landsins" við, - ekki amalegt að stansa á nokkrum stöðum, bara til að taka myndir og njóta útsýnisins.
Á næsteftstu mynd er stefnt niður að Kverkfjöllum og horft til norðurs yfir Efri-Hveradal með Herðubreið í baksýn.
Kverkfjöll eru þriðja hæsta fjall landsins, rísa 1920 metra yfir sjávarmál.

3. Útsýnið er líka mikið til vesturs yfir Dyngjujökul og Trölladyngju.
4. Skálinn efst í fjöllunum er lítill en stendur á fallegum stað.
Þar var áð og haldið í sleða- göngu- og snjóbílsferðir um nágrennið.
5. Frá skálanum blasir við eystra lónið í fjöllunum, sem hlaut nafnið Gengissig þegar það fór að sýna mönnum kúnstir við ris og sig, líkt og íslenska krónan.
Fyrir tíu árum stóð þannig á að íshrafl var við fjörur og á fjörum vegna íshruns í lónið en innan um íshraflið glytti í sjóðandi hveragöt.
6. Þannig var það ekki núna en samspil íss og jarðhita bauð samt upp á sjónarspil.
7. Gufurnar stíga upp úr hverasvæðinu með Vatnajökul í baksýn.
8. Lónið fylgir íslensku krónunni um þessar mundir og hefur lækkað í því.

9. Farið var til mælinga í Efri-Hveradal sem er stórkostlegur staður að öllu leyti. Horft er til norðurs í gegnum hamrahliðið sem markar skil Neðri- og Efri-Hveraalds. Mælingamenn eru neðst á myndinni.
10. Horft til suðurs eftir Efri-Hveradal.
Fólk stendur í gufunni frá hverunum á botni dalsins en fjær sést í norðurenda lónsins innst í dalnum og Vatnajökull gnæfir yfir í baksýn.
Lónið hvarf alveg í nokkur ár en kom aftur.
Það má kalla Kverkfjöll og Grímsvötn systur að því leyti að hvergi í veröldinni sést eins stórfenglegt sjónarspil átaka elds og íss.
Í ljóðinu "Kóróna landsins" er þetta erindi um Kverkfjöll:

Endalaus teygir sig auðnin, svo víð, -
ögrun við tækniheim mannsins.
Kaga við jökul með kraumandi hlíð
Kverkfjöll í hillingum sandsins.
Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð
við eldsmiðju darraðardansins.
Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð,
djásnið í kórónu landsins.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2009 | 19:25
Flugvélarlagaða bensínstöðin.
Ég man vel eftir því hvað bensínstöðin að Laugavegi 180 var allt öðruvísi og nýtískulegri en aðrar bensínstöðvar þegar hún var reist. Á þeim tíma voru hönnuðir mjög hrifnir af flugvélum og sást það til dæmis vel á bílum fram til 1960.
Þegar horft var á bensínstöðina úr vestri leit hún út eins framendi á flugvél þar sem stöðin sjálf var framendi flugvélarskrokksins með tvo vængi, sem bílunum var ekið undir.
Bensínstöð með þessu lagi hef ég hvergi séð í öðrum löndum.
Illu heilli var þessu gjörbreytt í það horf að gera bensínstöðina sem líkasta öðrum bensínstöðvum í stað þess að endurbæta upprunalegt lag hennar og viðhalda sérstæðu lagi hennar. Þetta hefði aldrei fengið að gerast ef þetta hefði verið kirkja eða opinber bygging og sýnir hvernig menn hafa litið niður á mannvirki á borð við bensínstöðvar sem skjól fyrir óæðri starfsemi.
Hér á landi virðist unnið að því hörðum höndum að gera allar bensínstöðvar og áningarstaði við þjóðvegina eins og gengur og gerist í öðrum löndum. Þetta er orðið þannig að þegar komið er í Staðarskála og helstu bensínstöðvar á Íslandi gæti maður verið í bensínstöð í hvaða landi sem er.
Aðeins einstaka staðir eins og Litla kaffistofan halda velli en hið staðlaða og tilbreytingarsnauða form ryður sér til rúms.
Einhvern tíma rennur upp sá tími að endurnýja þurfi hið 60 ára afmælisbarn dagsins og mig dreymir um að hún verði þá færð í sem líkast form og hún var í upphafi.
![]() |
Fagna 60 ára afmæli bensínstöðvar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2009 | 13:06
Glöggt er gests augað.
Robert Wade hefur nú kveðið upp úr með það sem öllum mátti ljóst vera, að samhliða glýjunni um "Íslenska efnahagsundrið" var jafnve enn meiri blekking og glýja í gangi varðandi það að á Íslandi væri minnsta spilling á byggðu bóli í heiminum.
Wade spyr hvernig í ósköpunum hefði verið hægt að komast að jafn fráleitri niðurstöðu um land þar sem allt væri morandi í spilltum hagsmunatengslum og vinatengslum sem sköpuðu sjálfttöku- og oftökustjórnmál, sjálfa kveikju spilltrar einkavinavæðingu bankanna með tilheyrandi afleiðingum.
Ekki bætti úr skák slímseta tveggja stjórnmálaflokka í ríkisstjórn í áraraðir.
Wade leggur til að færir erlendir vísindamenn rannsaki það hvernig þetta gat orðið. Hann hefur þá væntanlega í huga að hægt verði að koma í veg fyrir að einstakar þjóðir komist framvegis upp með það að gefa öðrum þjóðum alranga mynd af raunverulegu ástandi mála hjá sér.
Ég skal nefna eitt lítið dæmi. Fyrir nokkrum árum var gerð alþjóðleg úttekt á því hvernig umhverfismálum væri háttað í löndum heims.
Ísland komst hátt á blað í þessari könnun og það beint í kjölfar mestu umhverfisspjalla sögunnar við Kárahnjúka. Ísland komst hátt á blað þrátt fyrir hina hrikalegu jarðvegseyðingu sem hér hefur viðgengist og stafar á sumum afréttum landsins af því að þeir eru beittir með sauðfé þótt þeir séu ekki beitarhæfir.
Ég bað um skýrsluna hjá Umhverfisráðuneytinu og þegar ég fór að glugga í hana sá ég að í reitnum "ástand jarðvegs" skiluðu Íslendingar skammstöfuninni "NA", sem sé "not awailable."
Íslendingar sögðu blákalt við alþjóðasamfélagið að ekki lægju fyrir gögn um þetta atriði þótt Ólafur Arnalds hefði nokkrum árum áður fengið Umhverfisverðlaun Norðurlanda fyrir rannsóknir sínar á þessu sviði.
Þegar ég gluggaði betur í skýrsluna sá ég að nokkrar aðrar þjóðir, svo sem Króatía og Ukraina höfðu gert það sama og Íslendingar varðandi upplýsingar um ástand jarðvegs. Sameiginlegt var þessum löndun að vera með allt niður um sig í þessum málum.
Í Ukrainu höfðu til dæmis orðið stórfelld spjöll vegna Chernobyl-slyssins og voru Íslendingar þarna í hinum versta selskap.
Þöggunin á Íslandi um raunverulegt ástand og einstök málefni á sér slæmar hliðstæður erlendis. Nú eru 20 ár frá atburðunum á Torgi hins himneska friðar. Í Kína hefur ríkt þöggun um þennan atburð og allt er gert sem unnt er til þess að viðhalda þeirri þöggun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)