28.7.2011 | 00:47
67 ára gamall draumur rætist.
Þegar núverandi stjórnarskrá var samþykkt á Þingvöllum 17. júní 1944 var hún að stofni til hin sama og stjórnarskráin, sem Kristján 9. færði þjóðinni 1874, sem á hinn bóginn var afsprengi dönsku stjórnarskárinnar frá 1849.
Stjórnarskránni frá 1874 var breytt til samræmis við heimastjórn 1904 og sambandslögin 1918, en 1944 voru gerðar minnstu mögulegu breytingar til þess að fjarlægja konunginn úr stjórnarskránni og setja forseta í staðinn.
Það var yfirlýstur vilji og draumur Alþingismanna og helstu lögspekinga þess tíma, svo sem Bjarna Benediktssonar, Gunnars Thoroddsens og Ólafs Jóhannessonar að gerð yrði algerlega ný, alíslensk stjórnarskrá strax eftir stríðið.
Þá dreymdi um að sú stjórnarskrá yrði í takt við tímann og heildstæð smíð eins og sjá má af ummælum þeirra bæði þá og síðar.
Síðan eru liðin 67 ár og loks nú hefur tekist að vinna þetta verk. Ástæðan fyrir því að fjölmörgum stjórnarskrárnefndum Alþingis á þessum langa tíma hefur ekki tekist að gera þetta er sú, að það stóð þeim greinilega of nærri, - hagsmunir rákust á.
Ég hvet alla til að ná sér í eintak af þessari nýju stjórnarskrá og bera hana saman við gömlu stjórnarskrána.
Þá munu menn sjá umbætur nánast samfellt frá upphafi til enda. Þær hafa ekki komist á fyrir einskæra tilviljun heldur hefur verið leitað víða fanga í erlendum stjórnarskrám og fjölmörgum álitsgerðum margra af okkar færustu fræðimönnum auk umsagna og ábendinga sem skipta hundruðum.
25 ráðsfulltrúar komu úr mörgum ólíkum áttum og skoðanir þeirra spönnuðu nær allan skalann í litrófi stjórnmálaskoðana hér á landi.
Samt náðist einróma niðurstaða, 25-0. Það er því að þakka að allir lögðu sig fram af fremsta megni af eindrægni, heilindum, heiðarleika og sáttfýsi.
Ekki hefur þurft annað en að fara inn á vef Stjórnlagaráðs og kynna sér hann til að sjá ný og árangursrík vinnubrögð sem eru merk nýjung í svona starfi hér á landi.
![]() |
Stjórnarskrárfrumvarp samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.7.2011 | 13:46
Hræðileg staðreynd.
Í frétt á mbl.is um það þegar 16 ára stúlka hringdi á fimm mínútna fresti í móður sína úr helvítinu á Útey kemur fram að hún og fleiri sem földu sig undir kletti við ströndina héldu að þyrlur, sem sveimuðu yfir eyjunni, væru lögregluþyrlur, en það var rangt, þetta voru þyrlur með fjölmiðlamenn.
Þetta er hræðileg staðreynd sem hlýtur að verða til umhugsunar fyrir það, hvernig viðbúnaður lögreglu verður í framtíðinni.
![]() |
Mamma segðu lögreglunni að flýta sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.7.2011 | 11:55
"Hann var illmenni".
Að fornu var stundum ekkert verið að tvístíga í skilgreiningu og lýsingu á persónum. Nú er að vísu alllangt síðan ég las Njálu en mig minnir að ein mannlýsingin hafi verið afar skýr, hnitmiðuð og stutt, einhvern veginn svona í minni mínu: "Mörður hét maður Valgarðsson. Hann var illmenni." Punktur.
Þetta á við um Anders Behring Breivik.
![]() |
Ekki geðveikur heldur illmenni" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.7.2011 | 11:20
Allir máttu vita hvað Hitler ætlaði sér.
Adolt Hitler og Anders Behring Breivik voru firrtir menn sem vissu nákvæmlega hvað þeir vildu og ætluðu sér. Þeir voru svo vissir í sinni sök að þeir leyndu ekkert skoðunum sínum og fyrirætlunum nema að beinlínis væri nauðsynlegt að viðhafa leynd eða blekkingar til að ná markmiðunum fram.
Breivik virðist hafa verið svo sannfærður um réttmæti gerða sinna að hann hirti ekki um að dylja aðild sína að þeim eftir að hann hafði drýgt sitt mikla ódæði.
Hann duldi að vísu fyrirætlan sína, því að annars hefði hann ekki getað framkvæmt hana.
Allir hefðu mátt vita hvað Hitler ætlaðist fyrir. Hann lýsti stefnu sinni og fyrirætllunum í bókinni Mein Kampf næstum áratug áður en hann náði völdum.
Stefnan var skýr og einbeitt. Hún fólst í því að fella Versalasamningana sem "þjóðsvikarar" hefðu gert og krefjast "lífsrýmis" (lebensraum) fyrir Þjóðverja með því að ná yfirráðum yfir hinum miklu kornforðabúrum Ukrainu og Rússlands. Það yrði framkvæmt í "sókn til austurs" (drang nach osten).
Þjóðverjar og "hreinir Aríar" væri yfirburðakynstofn en aðrir kynstofnar óæðri og skyldu því þjóna herraþjóðinni.
Gyðingar væru úrþvætti og höfuðmein mannkyns sem bæri að losa sig við. Hinn "gyðinglegi bolsévismi" væri höfuðóvinurinn. Þetta var einkennilegt að sjá, því að Stalín hafði, eins og Hitler, ímugust á Gyðingum, einkum síðustu árin og fannst hið besta mál að þeir flyttust til Palestínu og síðar Ísraels.
"Aldrei aftur nóvember 1918!" var kjörorð Hitlers, aldrei aftur skyldu Þjóðverjar gefast upp í stríði á jafn smánarlegan hátt og í fyrri heimsstyrjöldinni þegar herir óvinanna voru enn utan landamæra Þýskalands, heldur skyldi berjast til síðasta manns og síðustu stundar.
"Þjóðsvikarar" hefðu staðið fyrir uppgjöfinni 1918 og skyldi slíkt aldrei liðið framar.
Öll atburðarásin frá 1933 til 1945 var staðfesting á því sem Hitler hafði lýst yfir að hann ætlaði sér.
Þess vegna var það svo ótrúlegt, svo hræðilegt, hvernig menn litu fram hjá þessu og reyndu að hafa þennan villimann góðan, fyrst með friðþægingarstefnu (appeasement) Breta og Frakka 1933 og síðar með griðasamningi Hitlers og Stalíns 1939, sem raunar var gerður af illri nauðsyn af hálfu Stalíns, sem treysti ekki lengur yfirlýsingum ráðamanna Vesturveldanna.
Auk þess flækti Rússahræðsla (Russofobia) Pólverja málið, því að eina ráðið til þess að Rússar gætu hjálpað þeim fólst í því að rússneskur her fengi að fara inn á pólskt landsvæði til að berjast við innrásarher Þjóðverja.
Og ofan á allt þetta bættist að þýska þjóðin og allur heimurinn horfðu í raun framhjá voðaverkum Helfararinnar þar til afleiðingarnar blöstu við í stríðslok.
![]() |
Vissu fljótt að Breivik var sekur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2011 | 10:25
Stefnan virðist uppávið.
Þegar skoðuð eru gögn Veðurstofunnar um Kötlusvæðið síðustu vikurnar sést á óróamælum að línurnar liggja í meginatriðum hægt upp á við og að skjálftavirkni er viðvarandi. Það gæti í augum leikmanns bent til þess að hægt og bítandi stefni í eldgos þarna.
![]() |
Kippur undir Kötlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.7.2011 | 17:16
Góð sigling á nýrri stjórnarskrá.
Nú stendur yfir lokaatkvæðagreiðsla hjá Stjórnlagaráði um nýja stjórnarskrá. Síðustu dagar hafa verið krefjandi í starfinu, því að sjónarmið, bakgrunnur og skoðanir okkar eru afar mismunandi.
Segja má að síðustu daga hafi skipið okkar verið á leið gegnum brimgarð í skerjagarði en í atkvæðagreiðslunni, sem nú stendur yfir, virðist fleyið komið í gegnum rótið og nú er svo komið að búið er að samþykkja um helming stjórnarskrárinnar, og eru þar með taldir stórir og mikilvægir kaflar um mannréttindi, náttúru og kosningar, sem geta markað tímamót í íslenskum stjórnmálum, ef ná fram að ganga.
Nú eru að skila sér heilindi, drengskapur, sáttfýsi, samvinnuvilji og ötult starf, sem hefur einkennt starf okkar frá upphafi, raunar allar götur aftur til nóvember síðastliðins.
Atkvæðagreiðslurnar sýna mikla eindrægni, mun meiri en ég átti nokkurn tíma von á, og það, að við ætlum okkur að taka sameiginlega ábyrgð á þessu verki okkar, þótt ekkert okkar hafi að sjálfsögðu fengið sínar ítrustu óskir uppfylltar.
Þetta er eitthvert mest gefandi starf, sem ég hef lent í á alllangri ævi, alveg burtséð frá því hvaða viðtökur þetta plagg okkar fær.
![]() |
Til höfuðs fjölmenningarstefnunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.7.2011 | 15:58
Ótrúleg umskipti.
Það eru ekki mörg ár síðan Fiat var eitt þeirra fyrirtækja í Evrópu sem virtust eiga hvað erfiðasta framtíð framundan ef um nokkra framtíð var þá að ræða, svo illa var komið fyrir fyrirtækinu.
Fiat mátti svo sannarlega muna sinn fegri. Oft á síðustu hálfri öld unnu bílar fyrirtækisins hin eftirsóttu verðlaun "bíll ársins í Evrópu" og má þar sem dæmi nefna Fiat 124, 127 og Fiat Uno.
Þegar svo virtist sem Fiatsamsteypan væri að niðurlotum komin kom síðan þessi stórkostlega endurkoma og upprisa, sem hinn nýi Fiat 500 er gott dæmi um.
Síðustu árin hefur Fiat verið í fremstu röð í gerð dísilvéla og nú síðast í gerð bensínhreyfla með hinum frábæru Twinair-hreyflum.
Þetta gleður mjög mann, sem í gegnum tíðina átt sex gerðir af Fiat og oft dáðst að hönnun fyrirtækisins, allt frá Fiat Topolino Giacosa til hins nýjasta Fiat 500.
![]() |
Chrysler hefur góð áhrif á Fiat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2011 | 13:53
Voru Hitler, Himmler, Göring og kó geðveikir ?
Oft hefur verið minnst á það að skammt geti verið milli geðveiki og annarra þátta í persónuleika og sálarlífi manna.
Anders Behring Breivik er ekki fyrsti eða eini maðurinn sem hefur "lifað í eigin heimi" og skapað sér heilt kerfi ritverka og athafna í samræmi við það.
Adolf Hitler var dæmi um mann sem "lifði í eigin heimi" yfirgengilegra fordóma um fólk og þjóðir.
Hann trúði því að Gyðingum mætti kenna um flest það sem aflaga færi og því þyrfti að útrýma þeim.
Hann setti fram hugmyndir um það "þúsund ára ríkið" þar sem yfirburðakynþátturinn Aríar (tómt bull) ætti að verða herraþjóð í veröldinni og ráða yfir öðrum óæðri kynþáttum sem þjónuðu hinn guðdómlegu yfirþjóð.
Þýskaland skyldi verða miðja hins guðdómlega þúsundára ríkis en hinar slavnesku þjóðir í Austur-Evrópu skyldu sjá herraþjóðinni fyrir matvælum allt austur á sléttur Rússlands og Úkrainu og tryggja "lífsrými" Þjóðverja.
Í stríðglæparéttarhöldunum í Nurnberg kom það ekki til álita að úrskurða að Himmler, Göring, Keitel og allir hinir meðreiðarsveinar Hitlers sem framkvæmdu hin viðbjóðslegu ódæði Helfararinnar væru geðveikir.
Þegar litið er yfir hugmyndafræðina að baki þessum glæpum gegn mannkyni sést að hún var ekki geðveikislegri en það að nasistunum tókst að taka hundruð milljóna manna með sér í þá vegferð fjöldamorða sem Hitler hafði raunar lýst fyrirfram í bók.
Hún var útfærð á kaldrifjaðan hátt af sérstakri og ítarlegri vinnu samkvæmt einhverri nákvæmustu og yfirgripsmesti áætlun sem mannkynssagan kann frá að greina.
![]() |
Segir Breivik vera geðsjúkan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.7.2011 | 23:50
Stalín: "Einn er morð, milljón er tala".
Haft er Jósef Stalín þegar tal barst að múgmorðum: "Að drepa einn mann er morð, - að drepa milljón er tala."
Kannski var eitthvað þessu líkt í huga Breiviks þegar hann þyrmdi einstaklingum, sem báðu sér griða en sallaði niður fjölda fólks með köldu blóði.
Þetta rímar við það að á fyrstu áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina voru sýndar margar heimildarmyndir um Helförina þar sem birtar voru tölur um milljónir fórnarlamba og sýndir haugar af líkum.
Engin þeirra hafði þó viðlíka áhrif og framhaldsmyndaflokkurinn um Helförina þar sem fylgst var með gyðingafjölskyldu. Það höfðaði betur til fólks og var sterkara.
Ég tel að Geysisslysið á sínum tíma hafi haft jafn gríðarleg áhrif á alla þálifandi og raun bar vitni vegna þess að þeir sem týndir voru, voru "hæfilega fáir".
Strax á fyrsta degi þekkti öll þjóðin hina týndu með nafni og í fámennu landi kunningsskapar og vensla orkuðu örlög hvers flugliða um borð í Geysi enn sterkar á fólk.
![]() |
Sá 11 ára dreng biðja sér griða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2011 | 23:35
Sumir hafa þetta, - aðrir ekki.
Adolf Hitler hafði fágæta hæfileika til að gera fólk að máttlausum verkfærum í návist sinni.
Sagt er að Rasputin hafi haft svipuð áhrif á rússnesku keisarafjölskylduna.
Svo mikið var þetta vald Hitlers, að þegar þýska herforingjaráðið sendi Von Brauchitsch á fund Hitler til að tilkynna honum að herforingjaráðið teldi það algert óráð að fara út í stríð, kom Von Brauchitsch út af fundinum sem niðurbrotinn maður, svo gersamlega hafði Hitler valtað yfir hann.
Foringinn sneri taflinu við á augabragði í viðtali þeirra svo að engum vörnum varð við komið og sló öll vopn úr hendi hans.
Von Brauchitsch glúpnaði fyrir hinu dáleiðandi augnaráði og gagnsókn Hitlers sem skall á honum eins og hvirfilbylur.
Dáleiðandi persónutöfrar geta orðið til góðs í höndum góðra manna en að sama skapi falið í sér djöfullegt ægivald eins og hjá Hitler og Breivik.
![]() |
Segir Breivik hafa verið dáleiðandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)