8.7.2010 | 12:01
Sem sagt: Útlendingar mega eignast alla orku landsins.
Seljum fossa og fjöll.
Föl er náttúran öll.
Og landið mitt taki tröll.
Þessar ljóðlínur Flosa Ólafssonar eiga vel við þá stefnu sem rekin hefur verið leynt og ljóst hér á landi síðustu fimmtán ár varðandi orkuauðlindir þjóðarinnar og nú birtist í úrskurði nefndar um erlenda fjárfestingu.
Þrátt fyrir allt sjálfstæðiskvakið á hátíðastundum er raunin sú að með tangarsókn erlendra aðila ná þeir yfirráðum yfir öllum orkuauðlindum landsins á næstu árum verði ekkert að gert.
Tangarsóknin felst í því að fyrst er risafyrirtækjum afhent orka heilla landshluta í formi orkusölu til álvera. En til þess að gulltryggja erlend yfirráð eru orkufyrirtækin líka seld útlendingum og hringurinn lokast. Tröll hafa tekið landið.
Þegar þessu ferli lýkur og álver hafa fengið alla virkjanlega orku landsins í sínar hendur munu 2% vinnuafls þjóðarinnar hafa vinnu í þessum álverum.
Jafnvel með ítrustu reiknikúnstum um "afleidd störf" getur þessi tala aldrei orðið hærri en 8%.
Miðað við þær óskaplegu fórnir á náttúruverðmætum, sem stefnt er að, sýna þessar nöktu tölur hve glötuð þessi atvinnustefna er.
Gumað er af því hve þessi verksmiðjustörf séu góð þótt í öðrum löndum sé þessi atvinnustefna talin úrelt og aðir kostir mun vænlegri.
En jafnvel þótt störfin væru góð" eru feitir þjónar ekki miklir menn, hvorki nú né á tímum Árna Magnússonar.
![]() |
Má eiga 98,5% hlut í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.7.2010 | 08:55
Sendiboðanum kennt um.
Það er gömul saga og ný að sendiboða válegra tíðinda er refsað grimmilega. Þegar eitthvað misjafnt "lekur" úr stofnunum eða fyrirtækjum snýst spurningin oft ekki um mikilvægi þess sem lekið var heldur það hver hafi lekið því.
Fjölmiðlamenn eru sendiboðar tíðinda og fá oft að kenna á því að flytja skilaboð sín. Ég finn því til talsverðrar samkenndar með kolkrabbanum Páli.
Páll naut hylli meðan skilaboð hans voru eigendunum þóknanleg og fólk lét sér vel líka þegar ég ferðaðist um og sýndi athyglisverð landsvæði og fólk.
Gamanið fór hins vegar að kárna þegar á skjánum birtust myndir af illa förnum afréttum og umdeildum virkjanasvæðum.
Steininn tók úr þegar ég tók upp á því að sýna Eyjabakka úr lofti og taka tvo daga til að ganga um svæðið og taka myndir af því.
Fjölmenni krafðist þess að ég yrði rekinn úr starfi með skömm fyrir þá ósvinnu og allt varð aftur vitlaust þegar ég fór í fyrsta skipti ofan í Hjalladal og sýndi myndir af örlitlum hluta þess svæðis þar sem nú er botn á aurflykkinu Hálslóni.
Ungur sjómaður sem sagði mér í sjónvarpsviðtali í Kaffivagninum vorið 1986 frá brottkasti á fiski fyrstur manna var látinn taka pokann sinn strax morgunin eftir.
Mér láðist að fylgjast með afleiðingum frásagnar hans og harma það æ síðan að hafa ekki staðið vaktina nógu vel.
Í síðasta þorskastríðinu lögðum við Guðjón Einarsson það til við fréttastjóra okkar að fara til Hull og Grimsby og sýna kjör þess fólks þar sem átti allt sitt undir veiðum á Íslandsmiðum.
Það fengum við ekki í gegn.
Virkjanastefnan íslenska hefur byggst og byggist enn á því að halda frá fólki vitneskju um þau náttúruverðmæti sem í húfi eru.
Stefnan er sú að helst engir komist á þessi svæði fyrr en eftir að fossar hafa verið þurrkaðir upp, svæðum sökkt eða jarðvarmasvæðum umturnað og er þá Landsvirkjun þakkað fyrir að hafa gert þau aðgengileg.
Meira að segja byggjast niðurstöður eins vinnuhóps Rammaáætlunar á því að meta mikilvægi svæða til ferðamennsku eftir því hvað margir hafa séð þau hingað til.
Þar með fæst sú niðurstaða að tveir stórfossar á stærð við Gullfoss í Efri-Þjórsá hafi lítið gildi fyrir ferðamennsku af því að svo lítið af fólki hefur séð þá vegna þess hvað þeir eru óaðgengilegir!
Einnig Gjástykki vegna þess hve fáir hafa komið þangað, enda er slóða þangað frá Kröflu lokað með keðju að boði landeigenda.
Kolkrabbinn Páll fær ígildi þessa framkvæmt á sjálfum sér ef hann verður gerður að hluta af sjávarréttahlaðborði.
Sendiboðinn var drepinn forðum tíð og það mun því miður ekki breytast.
![]() |
Páll fallinn í ónáð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.7.2010 | 22:56
Stóðust álagið.
Spánverjar eiga ekki sömu hefð á HM og Þjóðverjar og margir óttuðust að þetta lið, sem leit svo vel út á pappírnum, myndi ekki standast álagið sem fylgir því að fara alla leið.
En það stóðst prófið með prýði og í kvöld sannaðist hið fornkveðna að enginn er betri en mótherjinn leyfir.
Spánverjar voru betri liðsheild og fyrir því urðu jafnvel Þjóðverjar að beygja sig.
Nú er spurningin hvort Hollendingar, sem ég spáði að myndu fá uppbót fyrir það þegar Þjóðverjar "rændu" þá sigri 1974 og færu nú alla leið.
Munurinn kann hins vegar að vera sá að 1974 var hollenska liðið það besta í heimi en á góðum degi, eins og í dag, er það spænska best.
![]() |
Spánn leikur til úrslita |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2010 | 12:52
3% af yfirborði leirlagsins.
150 hektarar af jarðvegi, sem nú hafa verið bundnir við Hálslón, eru um3% af því svæði sem leir fýkur úr á hverju vori.
Rétt er að taka fram að þau svæði, sem leirinn fýkur inn á út fyrir útlínur lónsins, eins og það verður stærst, eru svæðin sem Landgræðslan á að vernda frá því að blása upp þegar leir fýkur inn á þau af fjörum lónsins meðan það er ekki fullt.
Eftir standa enn um 30-40 ferkílómetrar lands, sem er þakið nýjum leir á hverju vori.
Aðgerðirnar koma því alls ekki í veg fyrir leirfokið, sem ég sýndi myndir af nýlega og ég fæ ekki séð hvernig nokkur möguleiki sé til þess að koma í veg fyrir það.
Fyrirsögnin með orðunum "vel gengur að binda jarðveg..." er því villandi hvað varðar leirfokið.
Ætla að skoða þetta um helgina ef færi gefst.
![]() |
Vel gengur að binda jarðveg við strendur Hálslóns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.7.2010 | 11:02
Ýmsar hliðar á málinu.
Í tímum gróðærisbólunnar virtist engu skipta þótt verðmæti útflutnings ykist, lánamokstur sem skóp allt að þriðjungs hærra virði krónunnar umfram raunvirði, eyðsla landsmanna og kaupæði skóp hér heimsmets viðskiptahalla ár eftir ár.
Ég sé að til eru bloggarar sem harma að lítið skuli nú vera keypt af dýrum vörum frá útlöndum og tala með fyrirlitningu um bíl"dollur" sem fólk neyðist til að kaupa í stað "alvöru" bíla.
Sumar af þessum bíl"dollum" hafa reyndar komið betur út úr árekstraprófum erlendis en "alvöru" bílarnir og bandarísk könnun sýndi að lang hættulegustu bílarnir voru sumar tegundir tískubílanna, sem þá voru, jepplinga og jeppa.
Það er eins og sumir geti með engu móti lært af reynslunni, heldur óski sér að hér verði sem fyrst farið út í bruðl og óráðsíu og stefnt rakleiðis í annað hrun.
Tölur vöruskiptajafnaðar segja ekki alla söguna. Þannig er sjávarútvegur sem er vel rekinn, með nær þrefalt meiri virðisauka fyrir þjóðarbúskapinn en stóriðjua. Ástæðurnar eru meðal annars þessar:
Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja rennur til eigendanna sem eru íslenskir. Hagnaður stóriðjufyritækjanna rennur allur til útlanda.
Hráefni sjávarútvegsins kemur úr auðlindalögsögu landsmanna en er ekki innflutt. Hráefni fyrir stóriðjuna verður að flytja yfir þveran hnöttinn.
Stóriðjan krefst mikilla fórna náttúruverðmæta vegna þess að hún er mesta orkubruðl, sem til er og því þarf að sækja meira í að umturna og eyðileggja náttúruperlur en þarf fyrir önnur fyrirtæki, sem kaupa orku og skapa fleiri störf á orkueiningu.
Verðið fyrir orkuna er þar að auki allt of lágt.
Hrunið varð vegna þess að Íslendingar kunnu ekki að sníða sér stakk eftir vexti.
Það orðtak er dásamlega rökrétt því að það er svo augljóst hvaða óhagræði er að því að vera í allt of stórum sjóstakki.
Sjóstakkur okkar nú eru allt of stórir bílar, hús og hvaðeina sem við töldum okkur trú um að myndi færa okkur hamingjuna á tímum gróðærisbólunnar, sem sprakk framan í okkur.
![]() |
Nærri 9 milljarða afgangur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2010 | 23:16
Hundur var félagsmálaráðherra.
Hundar hafa komið alloft við sögu í sambandi við bifreiðar og er mér minnisstætt atvik í fréttum Sjónvarpsins haustið 1995 þegar birt var frétt mín af smölun Húnvetninga á Auðkúluheiði.
Í miðri fréttinni hófst viðtal við Pál Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, og var gert ráð fyrir að í útsendingunni birtist nafn hans á skjánum þegar viðtalið hæfist.
Fyrir slysni dróst það í tíu sekúndur að birta nafnið en þá var komin á skjáinn mynd af hundi, sem sat undir stýri á bíl og undir þessari mynd af hundinum birtist nafnið "Páll Pétursson, félagsmálaráðherra".
Var mönnum ýmist skemmt eða urðu leiðir vegna þessara mistaka sem ekki urðu aftur tekin.
Myndirnar með þessum bloggpistli tók ég við Einimel í Reykjavík á dögunum en engu var líkara en að hundur væri þar bílstjóri.
![]() |
Hundurinn læsti bílnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.7.2010 | 00:17
Alltaf jafn gaman!
Ég fór á völlinn eftir mjög langt hlé í kvöld með tengdasonum mínum og dóttursyni til að sjá mína menn.
Þeir unnu ekki í kvöld. Þeir lentu 0:2 undir snemma í fyrri hálfleik og fengu á sig víti sem þó var varið glæsilega. En það var samt ógurlega gaman því að það er svo magnað hvað rígfullorðnir menn sleppa sér alveg aftur og aftur á svona leikjum og verða frá sér numdir af tilfinningum af ýmsu tagi, hrifningu, fyrirlitningu, æsingi, dofa, reiði, vorkunn, andúð, aðdáun, von og vonleysi til skiptis.
Það er hrópað og dómarinn verður fljótlega óvinsælasti maðurinn á vellinum og fylgjendur beggja liða sammála um það.
Það er rifist úm atvik, leikaðferðir, leikmenn, þjálfarana og hvað sem er.
Síðan skora mínir menn í uppbótartíma í lok fyrri hálfleiks og gerast síðan betri aðilinn á vellinum í síðari hálfleik, alveg að gera mann vitlausan af spenningi og ótta við að andstæðingarnir skori og vinni sigur.
Þegar jöfnunarmarkið kemur verður allt vitlaust og enn vitlausara þegar okkar maður er rekinn útaf og hægt að rífast um það atvik jafn lengi og um gatmarkið fræga á Melavellinum fyrir meira en hálfri öld sem menn rífast enn um.
Ég hélt þá með Skagamönnum og fannst boltinn lenda réttu megin inni í markinu hjá þeim, en gamlir Valsmenn, vinir mínir, eru enn jafn sannfærðir um að boltinn hafi gert gat á fúið þaknetið og farið þar í gegn.
Mínir menn sóttu stíft þótt þeir væru einum færri síðasta kafla leiksins og maður var haldinn mörgum sterkum tilfinningum í leikslok, vonbrigðum um að þeir skyldu ekki uppskera meira úr öllum færunum, óánægju með útafreksturinn og hrifningu á strákunum hvað þeir börðust allt til leiksloka eins og ljón.
Ég fór með peysu með mér á völlinn ef það skyldi verða of kalt að sitja og horfa á, en var svo sjóðheitur allan leikinn af æsingi að peysan var óþörf.
Aldeilis makalaust hvað eltingarleikur 22jaa manna við leðurtuðru getur skapað mikið tilfinningarót og haldið á manni hita þótt maður sitji allan tímann nema þegar allir rísa upp í æsingi og hrópa sig hása þegar mörkin og marktækifærin koma.
Alltaf jafn gaman! Alveg eins og á Melavellinum í gamla daga! Alveg eins og var alltaf og verður alltaf!
Lifi knattspyrnan! Áfram Fram! Áfam Ísland! Áfram íþróttirnar!
![]() |
Gunnlaugur: Þetta var mjög sérstakur leikur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.7.2010 | 09:07
Milljónatuga kostnaður vegna reglugerða.
Íslandsmótið í svifflugi er ekki það eina í fluginu sem hefur orðið fyrir barðinu á nýjum evrópskum reglum um loftför. Allt flug á litlum flugvélum á Íslandi hefur verið sett í uppnám vegna þessa allt frá síðastliðnu hausti þegar þetta dundi yfir.
Kostnaður vegna reglubundinna skoðana margfaldaðist við að innleiða nýjar Evrópureglur og hefur valdið mér og öðrum ómældum vandræðum og kostnaði. Þannig varð siðasta ársskoðun á FRÚ-nni sjöfalt dýrari en ég hafði búið mig undir.
Enginn fjölmiðill virðist hafa áhuga á þessu máli því að öllum er skítsama um smáfuglana. Flugfélagið Ernir, Flugfélag Vestmannaeyja og Mýflug eru þó dæmi um flugrekstur sem hefur tekjur af ferðamönnum en hefur nú verið settur í uppnám og gerður mun dýrari en áður af þessum sökum.
Mér skilst að hið nýja reglugerðarfargan miðist við flug yfir þéttbýlum svæðum Mið-Evrópu og að þess vegna séu sömu kröfur settar um litlu flugvélarnar og breiðþotur stóru flugfélaganna !
Hins vegar hafi Svíar nýtt sér það að þeir búa í dreifbýlu landi á jaðri álfunnar og fengið undanþágu frá því að innleiða reglurnar ! En ekki Íslendingar !
Ég hef ekki gefið mér tíma til að kynna mér þetta út í hörgul því að reynslan kennir mér að það er tilgangslaus fyrirhöfn.
Reglurnar sjálfar eru um margt fáránlegar. Þannig gilda þær ekki um sumar eins hreyfils flugvélar í flotanum, sem innleiddar voru fyrir 1955.
Dæmi: Cessna 170 er undanþegin reglunum af því að hún var hönnuð og byrjað að framleiða hana árið 1948.
Cessna 172, sem er sama flugvélin en með nefhjól í stað stélhjóls fellur hins vegar undir reglugerðina af því að byrjað var að framleiða hana árið 1956 !
Piper Super Cub fellur ekki undir reglurnar af því að sú tegund Piper Cub kom fram um 1950.
Af því leiðir að vélar, sem síðar voru framleiddar, sleppa við farganið, jafnvel þótt framleiðsluárið sé 1990 á sama tíma og vélar eins og mín, framleiddar 30 árum fyrr, lenda í klóm hins gríðarlega skrifræðis.
Þessi ósköp ásamt því að flugbensín er nú orðið allt að 100 krónum dýrara hver lítri en bílabensin hefur gerbreytt aðstæðum til reksturs lítilla flugvéla á Íslandi til hins verra og þess sér þegar stað.
Vilmundur heitinn Gylfason fann upp hið frábæra nýyrði möppudýr og skilgreindi snilldarlega á hverju tilvera þeirra og endalaus fjölgun byggist.
Svipað hafði Parkinson gert aldarfjórðungi fyrr með útgáfu bókar sinnar um Parkinsonlögmálið.
Eitt dæmið sem hann tók var Nýlendumálaráðuneytið breska. Þegar breska heimsveldið var stærst og náði í kringum jarðarkringluna þannig að sólin settist þar aldrei, unnu þar nokkrir tugir manna.
Þegar lönd heimsveldisins voru orðin sjálfstæð og það nánast alveg úr sögunni unnu hins vegar 4000 möppudýr í ráðuneytinu !
Það væri hollt fyrir okkur á krepputimum að huga að kenningum þessara manna.
![]() |
Flugmóti aflýst vegna reglugerðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.7.2010 | 08:43
Það var þoka og það var útkall.
Ég sé á blogginu að menn efast um hvort þoka hafi verið á Fimmvörðuhálsi í gærkvöldi og hvort nokkur ástæða hafi verið til að senda út fréttatilkynningu um að björgunarsveitir hafi verið kallaðar út.
Hvað þokuna snertir þá fylgdist ég grannt með Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi í gærkvöldi, bæði með því að horfa beint á jökulinn frá Hvolsvelli og nágrenni og líka með því að skoða vefmynd ítrekað á mila.is
Þarna skall yfir þoka í gærkvöldi að því er ég fæ best séð.
Sú skoðun er viðruð á bloggi að Landsbjörg eigi ekki að senda út fréttatilkynningar um leitir að fólki fyrr en þeim sé lokið.
Þetta hefði verið gott og gilt sjónarmið fyrir 40 árum en er löngu orðið úrelt á tímum farsíma og fullkominna og mikilla fjarskipta. Svona lagað fréttist út samstundis, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
Að fenginn reynslu vegna dauðaslyss í vor er skiljanlegt að viðbúnaður sé hafinn þegar í stað og miðaður við að það versta geti gerst, jafnvel þótt vant fólk eigi í hlut, sem leitað er að, og jafnvel þótt það sé í farsímasambandi og telji sig vera á réttri leið.
![]() |
Tveir týndir á Fimmvörðuhálsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2010 | 20:57
Svar við gátunni um nakta manninn á puttanum.
Vangaveltur og getgátur hafa verið á kreiki um furðufréttina af nakta manninum "á puttanum" á Suðurlandsvegi.
Ef maðurinn hefur fengið far er skýringin á þessu líkast til þessi:
Um nakinn mann á ferð ég frétti
og finn við gátu svarið:
Einn hann lim sinn upp þar rétti
og út á hann fékk farið.
![]() |
Tilkynnt um nakinn mann á puttanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)