Náðargáfa.

Suma hluti er ekki hægt að ávinna sér eða kenna þá. Þetta á oft við í íþróttum. Það er til dæmis útilokað að ég geti orðið góður fimleikamaður eða sundmaður. Er sennilega lélegasti sundmaður Íslands.

Þetta er vel þekkt í hnefaleikum. Kannski finnst mörgum að ekki sé rétt að nota orðið "náðargáfa" um það að ákveðinn hnefaleikari geti beitt vinstri krók betur en aðrir, en þá er á það að líta að á upphafsárum nútíma hnefaleika lýstu forgöngumenn hennar sem "the noble art of self-defense" þ. e. hin göfuga íþrótt sjálfsvarnarinnar.

Kona Murdoch var að verja mann sinn gegn árás, sem á því augnabliki var ekki hægt að sjá hvort yrði með beitingu líkamlegs ofbeldis eða á annan hátt og því var það í þágu sjálfsvarnar þeirra hjóna sem hún greiddi árásarmanninum hinn skæða vinstri krók, sem breskur þingmaður lýsti svo vel.

"Smoking" Joe Frazier bjó yfir einsum skæðasta vinstri króki allra tíma en meðal annarra sem höfðu þessa "náðargáfu" voru Tommy Morrison og David Tua.

Allir mótherjar þeirra vissu af þessu en flestum þeirra tókst samt ekki að verjast króknum.

Frazier var að því leyti til einstæður, að þrátt fyrir það að hann gæti hvergi nærri notað hægri höndina eins og þá vinstri, var hann í hópi allra bestu þungavigtarhnefaleikara sögunnar þegar hann var upp á sitt besta.

Vinstri krókurinn sem hann felldi Ali með í 15. lotu fyrsta bardaga þeirra var hrein snilld og sumir hafa sagt að Frazier hafi verið besti "einhenti" hnefaleikari sögunnar.

Meðal annarra frægra vinstri króka má nefna vinstri krókinn sem felldi Razor Ruddock í bardaga hans við Tommy Morrison, en það var í fyrsta skipti sem Ruddock var felldur.

David Tua felldi John Ruiz með vinstri krókum í hæsta gæðaflokki í dramatískum endi bardaga þeirra.

Sömuleiðis má nefna hinn skæða og óvænta vinstri krók sem Ali notaði í 15. lotu til að fella Bonavena í fyrsta sinn, sem hann var settur í gólfið, og "draumahöggið" svonefnda þegar meistarinn mikli Sugar Ray Robinson felldi heimsmeistara sem aldrei hafði fyrr lotið í striga.

Á YouTube má finna myndskeið sem sýna öll þessi atvik með því leita að bardögunum, t. d. með því að smella inn "Joe Frazie vs. Muhammad Ali 1" eða "John Ruiz vs. David Tua", eða jafnvel "Best left hooks".


mbl.is Höggþung eiginkona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve lengi sleppum við?

Það er ekki á almanna vitorði, að ég held, að vegna fjarlægðar Íslands frá öðrum löndum og afar ákveðinna viðbragða íslenskra sóttvarnarlækna, höfum við hingað til nær alveg sloppið við svonefndar MOSA smit, sem fara hraðvaxandi í öðrum löndum.

Þessi smit, sem hafa tífaldast í Danmörku, hafa ekki numið land hér, þótt vitað sé um einstaka tilfelli.

Til dæmis fékk dótturdótir mín svona smit og var umsvifalaust sett í sóttkví heima hjá sér en ekki á sjúkrahúsi, því að mikið er lagt upp úr því að koma í veg fyrir að þessir sýklar sleppi og leiki lausum hala á sjúkarhúsum.

Aukið ónæmi sýkla gegn sýklalyfjum tengist öðru heilbrigðisvandamáli, fíkniefnaneyslu.

Enginn hópur þjóðfélagsþegnanna veldur jafn miklu tjóni á þessu sviði vegna þess að það er helst þegar fíkniefnaneytendur fá sýklalyf, sem misbrestur verður á því að taka þau samfellt þann tíma sem læknar fyrirskipa.

Í vímunni vill þetta gleymast og við þessar aðstæður drepast sýklarnir ekki, heldur lifa af og ávinna sér ónæmi gegn sýklalyfjunum.

Önnur stór ástæða er tilhneiging margra til að taka sýklalyf í tíma og ótíma, en þessi ofnotkun hefur líka hraðað styrkingu sýklanna.

Sýklarnir efla mátt sinn að þessu leyti hraðar en læknavísindin, sem reyna að elta þá, en verða fyrir bragðið að hanna æ sterkari lyf, sem reyna mun meira á sjúklinginn sjálfan en gömlu lyfin.

Æ oftar gerist það að líffæri sjúklingsins sjálf þola ekki lyfin og get ég þar talað af reynslu. Þegar ég fékk sýkingu á leið til Bandaríkjanna, sem óx afar hratt, átti ég um tvo kosti að velja: Að leggjast inn á sjúkrahús þar og taka áhættuna af því að verða þar innlyksa vikum saman með tilheyrandi kostnaði, því að ef um MÓSA smit var að ræða var ekki um það að ræða að koma aftur heim fyrr en sýkingunni væri að fullu eytt.

Ég ákvað að taka áhættuna af því að fara undir hnífinn hér heima og tapa tveimur dögum fyrir bragðið þar sem sýkingin gat grasserað á fullu.

Ekki reyndist um MÓSA smit að ræða en þó afar illvíga sýkla sem aðeins sterkasta sýklyf dugði við.

Læknirinn sem skar mig var hreinn snillingur en ef ég hefði verið skorinn í Bandaríkjunum hefði sýkingin verið mun minni og viðráðanlegri og á þorrablótinu, sem ég var að skemmta á, var einn gesta Örn Arnar læknir, sem hefði vafalaust fengið handa mér topp lækni.

Hugsanlega gerði ég mistök þarna miðað við það sem á eftir fór en þetta dæmi sýndi mér hve vandasöm glíman við skæðar sýkingar er orðin.

Vonandi verður sú staðreynd að Ísland er eyja langt norður í höfum til þess að auðvelda okkur að halda þessari vá frá okkur.


mbl.is MÓSA smitum fjölgar í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarfangelsi með múra á hafi úti.

Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sþ bar upp þá tillögu að samtökin samþykktu stofnum Ísraelsríkis.

Íslendingar eru því guðfeður þess ríkis.

En hvorki hann eða aðrir þálifandi Íslendingar hefðu getað látið sér detta í hug að 63 árum síðar héldu Ísraelsmenn Palestínumönnum í þjóðarfangelsi, brytu gegn samþykktum Sþ og að fangelsið næði út á alþjóðlegt hafsvæði.

Ísraelsmenn kvarta yfir því að guðfeðurnir séu ekki ánægðir með þetta og gefa í skyn að þeir líti á okkur sem óvini Ísraelsmanna af því að við sýnum Palestínumönnum ekki fjandskap, heldur teljum að þeir eigi sama rétt og Ísraelsmenn höfðu 1948 til þess að stofna sitt eigið ríki.

Það er afar dapurlegt hvernig þessum málum er komið en Ísraelsmenn ættu að líta sér nær til að finna það sem er að fyrir botni Miðjarðarhafsins.


mbl.is Fékk ekki að fara til Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cadillac desert.

Einhver áhrifamesta bók um umhverfismál sem ég hef lesið er bókin "Cadillac desert" eftir Marc Reisner.

Hún fjallar um inngrip manna í náttúrufar í suðvesturríkjum Bandaríkjanna og opnaði fyrir mér nýjan heim í þessum málum.

Einkum var það sagan af Glen Canyon virkjuninni og baráttuna um hana sem sýndi glögglega að við Íslendingar erum því miður 40 árum á eftir Bandaríkjamönnum í umhverfismálum af þessu tagi, bæði hvað varðar umræðu alla og framkvæmdir.

Í einum af ritdómunum um bókina á sínum tíma var sagt að hún ætti að vera skyldulesning.

Atburðarásin varðandi Eyjabakka og Kárahnjúka hér heima var endurtekning á því sem gerðist varðandi Echo Park og Glen Canyon í Bandaríkjunum.

Athyglisvert er að nöfnin Echo park og Eyjabakkar byrja bæði á stafnum E.

Á sínum tíma barðist bandarískt umhverfisfólk harðar fyrir því að bjarga Echo park af því það þekkti þann stað vel en vissi lítið um Glen Canyon.

Því tókst að bjarga Echo park og gáfu Glen Canyoon eftir en þegar menn uppgötvuðu betur gildi Glen Canyon við upphaf framkvæmda þar kom í ljós að gerð höfðu verið arfamistök, - ef um eftirgjöf var að ræða hefði frekar átt að setja Glen Canyon í forgang.  

Þetta fékk svo mjög á David Brower, forystumann náttúruverndarfólks, að á tímabili vöktuðu vinir hans hann vegna þess að hann íhugaði sjálfsmorð.

Hér heima gerðist hliðstæða. Fólk þekkti Eyjabakka betur en Hjalladal og eðli Kárahnjúkavirkjunar, og eftir að náttúruverndarsamtök voru örmagna að lokinni baráttunni um Eyjabakka, var gengið á lagið og ekki aðeins virkjuð Jökulsá á Dal heldur líka Jökulsá í Fljótsdal með tilheyrandi stíflum og lónum austan Snæfells.

Virkjanamenn fengu í lokin jafnvel meira miðlunarvatn en þeir hefðu fengið ef þeir hefðu virkjað fyrst með því að sökkva Eyjabökkum og síðar með því sökkva Hjalladal í samræmi við fyrstu áætlanir þar um.

Nú er hliðstætt í pípunum. Í bili var fallið frá því að virkja Jökulsá á Fjöllum en nú er sótt ákaft eftir því að taka hana með í framkvæmd hinnar gömlu LSD-áætlunar um virkjun allra jökulfljótanna á norðausturhálendinu eftir endurbættri formúlu.

Í Bandaríkjunum átti að fylgja Glen Canyon eftir með því að virkja Coloradoána neðar á tveimur stöðum með virkjunum, sem voru meira en ígildi Kárahnjúkavirkjunar.

Byrjað var á borunum og framkvæmdum en þær stöðvaðar og slegnar af í eitt skipti fyrir öll, þótt sagt væri að þær hefðu lítil umhverfisáhrif.

Hér heima virðist hins vegar brautin greið og í fullri alvöru stefnt að því að stýfa Dettifoss undir því yfirvarpi að aðeins sé tekinn helmingurinn af vatnsafli hans en samt því haldið að útlendingum að fossinn sé sá aflmesti í Evrópu.


mbl.is Sandbylur huldi Phoenix á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lá strax ljóst fyrir.

Þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst og flug var lamað í stórum hluta Evrópu benti ég á það í pistlum mínum að nú væri Ísland í fyrsta skipti orðið heimþekkt í alvöru og að í því landi væri frægasta eldfjall heims.

Þetta yrði ómetanlegt aðdráttarafl til að laða vaxandi fjölda ferðamanna til landsins. Sú hefur orðið raunin.


mbl.is Góð áhrif á ferðaþjónustuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Símafrekjan".

Langt er í land að komnir séu á eðlileg samskipti fólks varðandi notkun á farsímum. Svo virðist sem flestir láti símann hafa forgang yfir fólk, sem það er í viðræðum við augliti til auglitis.

Það er í raun hin argasti dónaskapur gagnvart þeim, sem hafa haft fyrir því að hitta viðkomandi símaeiganda.

Maður er kannski að ræða við manneskju og allt í einu hringir farsíminn og viðmælandi manns svarar og sekkur sér niður í samræður við þann sem hringdi, jafnvel í langan tíma.

Þetta er ekki aðeins röng forgangsröðun heldur líka alger óþarfi eftir að símar urðu þannig útbúnir að hægt er að sjá á birti þeirra eftir að hinu persónulega viðtali var lokið, hver var að hringja.

Ég kýs að kalla þessa áráttu og það hve frekur síminn er til fjörsins, "símafrekju".

Hún er bæði hvimleið, uppáþrengjandi, tillitslaus og óþolandi.  


mbl.is Ekki skylda að svara í síma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútímaleg stjórnarskrá en þó sígild.

Allar stjórnarskrár endurspegla samtíma sinn þótt í þeim sé að finna grundvallaratriði, sem aldrei falla úr gildi.

Stjórnarskráin, sem nú er í smíðum hjá stjórnlagaráði ber merki þessa.

Í henni er ekki aðeins að finna síendurtekin og sígild ákvæði eins og varðandi eignarétt og meginreglur réttarríkis, heldur einnig ákvæði sem breikka og bæta við grundvallaratriði mannréttinda sem felast í frelsi, jafnrétti og lýðræði sem eru forsenda þess þjóðfélags sem við viljum lifa í og stjórnarskráin á að spegla.

Síðan verður að huga að nýjum aðstæðum eins og byltingu í samskipta- og upplýsingatækni og nefna hlutina sínum réttu nöfnum.

Í umræðum um opna og upplýsta umræðu var farið í saumana á orðalagi í þessu efni, svo sem það hvort ætti að nefna netið sérstaklega.  Hugsanlega yrði fljótlega enn ein byltingin í því efni í formi nýrrar tækni og því réttara að tala um samskipta- og upplýsingatækni í stað þess að nefna netið sérstaklega.

En þótt stjórnarskráin þurfi að vera nútímaleg og taka mið af aðstæðum samtímans verður um leið að leitast við að hún verði sígild eftir því sem unnt er.

 


mbl.is Óheftur aðgangur að netinu verði tryggður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri best að hún hagaði sér?

Katla er ein af mikilvirkustu eldstöðvum landsins og hefur hingað til gosið stórum gosum með hálfrar til heillar aldar millibili, líkt og Hekla gerði þangað til fyrir rúmri hálfri öld.

Með hegðunarbreytingu sem fólst í smærri gosum á áratugs fresti sinni dró stórlega úr áhrifum Heklugosa sem betur fer og stórgos með hrikalegum afleiðingum víða um land eins og 1104 eru úr sögunni í bili.

Afleiðingar Kötlugosa hafa oft verið slæmar, bæði vegna öskufalls og einnig vegna hamfarahlaupa niður Mýrdalssand. Gosin 1660, 1755 og 1918 eru góð (slæm) dæmi um það.

Nú er spurningin hvort Katla hafi breytt um hegðun eins og Hekla. Hafi hún gert það verður auðvelt að leysa samgönguvandann yfir Mýrdalssand í kjölfar smágosa með því að reisa stórar og sterkar brýr yfir Múlakvísl og Skálm og láta hlaupin taka veginn á völdum stöðum.

Gallinn er bara sá, að vegna hins langa hlés frá 1918 vitum ekki nema að næsta Kötlugos verði stórgos.

Ef það verður þannig, er frekari bið eftir því afar óheppileg, því að á meðan heldur Katla smíði sterkra brúa á Mýrdalssandi í gíslingu.

Miðað við það að Hekla gaus stórgosi 1947 eftir 103ja ára bið sýnist líklegra að næsta Kötlugos verði stórt, jafnvel þótt 1955 og nú hafi orðið flóð vegna hitans í þeirri gömlu.

Sé óhjákvæmilegt að næsta gos verði stórt væri því illskárra að það gerðist frekar fyrr en síðar, til dæmis í október eins og síðast eða á útmánuðum.

Eftir slíkt gos væri auðveldari sú ákvörðun að reisa rammgerðar brýr á sandinum, því að þá myndi taka marga áratugi fyrir eldstöðina að safna í stórgos.

 


mbl.is Skjálftahrina í Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir úr ferðinni í gær.

Ég gat þess í gær að ég myndi skella inn einhverjum ljósmyndum af ferðalagi mínu í gær yfir opnunarathöfnina við Múlakvísl og síðan yfir Kötlu.

img_0270.jpg

Hér koma þær fyrstu, af fögrum sigkatli þar sem lítil tjörn í botninum fer smám saman stækkandi. 

Þar fyrir neðan er stórt op í jöklinum skammt frá sigkatlinum.

Tjörnin í honum hefur stækkað smátt og smátt að undanförnu og er líkast til mynduð af leysingavatni.  

Aðrar myndir sem ég vonast til að koma inn á síðuna eru af Kötlujökli, jakahrönninni við útfallið og af opnum Múlakvíslarbrúar. 

img_0248.jpg

Þar á eftir vonast ég til að koma inn myndum af opnun Múlakvíslarbrúarinnar. 

Hún var í áföngum.

Fyrst gengu starfsmenn yfir brúna, því næst ók Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra yfir hana og síðan fóru bílar að streyma yfir.

Það var áfangi útaf fyrir þegar fyrsta rútan fór yfir og ekki verður því neitað umgjörð brúarinnar er 

glæsileg í veðri eins og í var í gær. 

 

img_0245.jpgimg_0254.jpg
mbl.is Fagna nýrri brú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti hafa verið "bilun" í skrifræði.

Skrifræðið, sem smám saman hefur verið innleitt í viðhaldi flugvéla, er þess eðlis, að í viðhaldi lítilla flugvéla eins og TF-FRÚ fara tveir þriðju hlutar viðhaldsvinnunnar í að útfylla pappíra og liggja yfir smáatriðum í skrifræði.

Það þýðir, að hjá litlu fyrirtæki á stærð við Mýflug, þar sem áður nægði að hafa tvo flugvirkja í vinnu, þarf nú sex, og taka þá fjórir þeirra aldrei upp verkfæri, heldur vinna í fullri vinnu við að halda þannig skriffinnskunni til haga að ekki uppgötvist "bilun" í henni. 

Mér þætti fróðlegt að vita hvers konar "bilun" það var sem eftirlitsmenn uppgötvuðu í Iceland Express vélinni við það að fara um borð. 

Ég vona bar að það hafi verið raunveruleg bilun en ekki bilun, sem fólst í því að einhverjir pappírar eða áletranir hafi verið "bilaðar". 

Ég skal nefna nýlegt dæmi: Ég hef nú verið án flugvélar minnar í bráðum fjóra mánuði að mestu vegna þess skrifræðis, sem leggst eins og dauð hönd yfir viðhald flugvéla með innleiðingu hinna nýju siða. 

Fyrsta mánuðinn var flugvélinn óflughæf vegna þess að ljós kom, að lítið merkisspjald á hreyfli hennar var ekki með réttri áletrun. 

Gerð hafði verið sú breyting á hreyflinum, að þjappa hans hafði verið aukin úr 7,5 í 8,6 og þar með urðu hestöflin 160 í stað 150 sem var auðvitað til bóta. 

Sami snúningshraðAð öðru leyti var engin breyting á hreyflinum.  i, allt eins og áður var. 

Þess má geta í þessu sambandi að í bráðum 13 ár hefur enginn flogið þessari flugvél nema ég. 

Vegna þess að afl hreyfilsins hafði aukist var gerð krafa um að það sæist í áletrun á réttu spjaldi,  hið gamla dygði ekki. Einnig var um það talað að skipta þyrfti um flugtímateljara, en eins og áður sagði, er snúingshraði hreyfilsins er nákvæmlega sá sami og fyrr og engin breyting þar að lútandi. 

Það reyndist ekki hlaupið að því að fá hið rétta upplýsingaspjald í Bandaríkjunum og þess vegna varð flugvélin óflughæf. 

Raunar er upplýsingaspjaldið fest á mótorinn inni undir vélarhlífinni, hefur ekki minnstu áhrif á fluggetu vélarinnar eða hreyfilinn sjálfar, og til þess að sjá, hvort rétt spjald sé þar, þarf mikla fyrirhöfn, sem venjulegur flugmaður myndi aldrei fara út í.

Ég hafði til dæmis aldrei í þessi 13 ár tekið eftir þessu spjaldi og engin krafa gerð um það að ég skoðaði það enda engin þörf á því.

Látum vera, ef afl hreyfilsins hefði verið minnkað, og að það væri talið öryggis vegna gott að á þessum óaðgengilega stað væri að finna áletrun um það, ef flugmaður, sem ókunnugt væri um minna afl, flygi vélinni. 

En það er þveröfugt. Aflið hefur aukist og þar með geta og öryggi vélarinnar. Sjálfur pungaði ég út á sinum tíma hátt í tveimur milljónum króna til þessarar breytingar og ætti því að vita hvaða getu hreyfillinn hefur. 

Nei, formsatriðin blíva, því að nú á dögum er komið svipað ástand og ríkti í skrifræði Danaveldis á tímum Jóns Hreggviðssonar og speglaðist í orðum Nóbelskáldsins: "Hefðurðu bréf upp á það? Þú verður að hafa bréf upp á það." 

Dæmin um skrifræðishugsunina hrannast upp. Fyrr í sumar starfaði ég við það í tvo daga að fljúga TF-TAL með sérsmíðuð mælitæki fram og til baka um svæðið frá Selfossi og Reykjanesskaga allt til Ísafjarðar til þess að hægt væri að prenta út "bréf upp á það" að nær engin aska væri í loftinu. 

Ef ekki barst til London "bréf upp á það" að loftið væri laust við ösku, hefði öllum flugvöllum á þessu svæði verið lokað. 

Auðvitað hefði verið hægt að senda ljósmyndir af 150 kílómetra skyggni í hreinu lofti, eða þó ekki væri annað en að lofa möppudýrunum í London að sjá í gegnum farsíma heiðríkjuna á Íslandi. 

Nei, það varð að senda "bréf upp á það." 

Ef ekki hefði komið til hugvit og dugnaður tveggja manna, Jónasar Elíassonar og Sverris Þóroddssonar og aðstoðarmanna þeirra, þar sem ekki var aðeins þeir leystu málið með fyrirhöfn, heldur urðu að yfirvinna alls konar hindranir í formi formsatriða, vottana og prófana, hefðu  flugsamgöngur á Íslandi og til og frá landinu legið niðri í einn og hálfan sólarhring af því að ekki rétt "bréf upp á það" fyrir hendi til þess að sanna það sem 200 þúsund manns voru vitni að, að hvergi var að sjá öskukorn í lofti. 

Yfirgengilegt skrifræði skapar að vísu fjölda fólks atvinnu. En tjónið af völdum þess er allt of mikið. 


mbl.is Á heimleið eftir langa bið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband