16.7.2011 | 16:27
Glæsilegt að sjá þetta!
Bráðabirgðabrúin yfir Múlakvísl er einbreið. Ég sé að einhverjir eru að líkja henni við göngubrú.
Engu að síður horfði ég það úr lofti í hádeginu áðan þegar fyrsta rútan fór yfir brúna og það var eftirminnilegt að horfa á brúarvinnuflokkana, verktakana og aðra, sem hafa verið í ferjuflutningum, ganga fyrst yfir brúna og síðan var það í góðu lagi að hafa myndavélar á lofti og taka myndir af því þegar ráðherrann ók yfir og síðan bílalestirnar sitt hvorum megin frá.
Ef tími gefst til bregð ég kannski einhverjum myndum inn í pistilinn og Sjónvarpið fékk frá mér kvikmyndir.
Þetta er ekki glæsilegasta brú á Íslandi, satt er það. En umhverfið er glæsilegt í veðri eins og var í dag og glæsileg sýn sem blasti við ofan úr flugvélinni TF-TAL.
![]() |
Fylktu liði yfir brú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2011 | 21:28
Blóm í hnappagat Vegagerðarinnar.
Öll spjót stóðu á Vegagerðinni þegar brúin yfir Múlakvísl sópaðist í burtu og allt ætlaði vitlaust að verða þegar því var lýst yfir að minnst 2-3 vikur tæki að koma á vegasambandi að nýju.
Enn frekar jókst svartsýnin þegar með fylgdi að nú væri sumarleyfistíminn og erfitt að smala saman mannskap.
Nú hefur komið í ljós að betra var að fara varlega í að gefa áhættusöm bjartsýnissvör en láta heldur verkin tala.
Og það hefur svo sannarlega verið gert.
Opnun brúarinnar fyrir umferð á morgun er rós í hnappagatið fyrir Vegagerðina.
Það er ekki á hverjum degi sem reist er brú, sem er tvöfalt lengri en Ölfusárbrú á aðeins einni viku, jafnvel þótt um bráðabirgðabrú sé að ræða.
Vegagerðin, bravó! Bravó! Bravissimó!
![]() |
Opnað fyrir umferð á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.7.2011 | 21:16
Kóngur vill sigla, en...
"Kóngur vill sigla en byr verður að ráða." Einhvern veginn svona hljóðar gamalt máltæki og það á við um Landeyjahöfn að vetri til.
Og þá er bara að taka því. Höfnin gerir geysilegt gagn að sumarlagi þegar umferð fólks á Suðurlandi er margfalt meiri en að vetrarlagi og fari svo að hún nýtist aðeins á þeim árstíma tel ég að það sé þó nægilega mikið framfaraspor í samgöngum til þess að hægt sé að réttlæta gerð hafnarinnar.
Að þessu leyti samsvarar hún þá fjallvegum fyrri tíma og nokkrum fjallvegum nútímans eins og Hrafnseyrarheiði, Hellisheiði eystri og Öxi.
Varla mun nokkrum manni detta í hug að þessir vegir séu, þrátt fyrir þennan mikla annmarka, réttlætanlegir.
Veðurlag, sjólag, straumar og sandflutningar eru gerólíkir yfir háveturinn eða um hásumar.
Mig hefur allan tímann grunað að menn hafi vanmetið sandburðinn, straumana og öldurótið að vetrarlagi, og að ekki verði mikið lengur hægt að kenna gosinu í Eyjafjallajökli um það að höfninni sé ekki hægt að halda opinni að vetrarlagi.
Við Vík í Mýrdal og við ár um allt land eru reistir grjótgarðar til að safna að sér sandi til að byggja upp strönd eða bakka og garðarnir, sem standa út frá Landeyjahöfn sýnast líklegir til að gera það sama í langvarandi og hörðum austan og suðaustanáttum eða vestan- og suðvestanátt..
![]() |
Hættuleg höfn að vetri til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.7.2011 | 17:07
Umferðarfréttirnar farnar að þyngjast.
Skyldu vera mörg lönd þar sem það eru helstu fréttirnar fyrir hverja sumarhelgi að "umferð sé farin að þyngjast"?
Á útlendu máli er frétt nefnd "news" eða "nyheder." Það þýðir að frétt sé eitthvað sem sé mjög óvenjulegt.
Það getur ekki verið neitt nýtt við það að "umferð sé farina að þyngjast" þegar líður á föstudag um hásumarið.
Umferð þyngist alltaf við þessi skilyrði og það væri frekar frétt ef umferð væri ekki farin að þyngjast þegar helgin hefst.
En þetta helst í hendur við hið árvissa kapphlaup fjölmiðla við að segja frá svona löguðu og nær hámarki um verslunarmannahelgina þegar beinar útsendingar og næstum því bílatalningar eru á leiðum út úr höfuðborginni til að fjalla sem best um það sem gerist fyrirsjáanlega á hverju ári, að í lok föstudags fyrir verslunarmannahelgina sé "umferð farin að þyngjast."
Dag hvern dynja yfir þjóðina "fréttir" af samkomum hér og samkomum þar enda beint og óbeint auglýsingaflóð yfirþyrmandi, og í gangi er nokkurs konar Íslandsmeistarakeppni ífjölmiðla í því að fylgjast með fólksfjölda hér og þar, fylliríi hér og þar og allt að því kapphlaup um fréttir af fíkniefnabrotum, óhöppum, erli lögreglu og fjölda nauðgana.
Áratugum saman tók ég af áhuga þátt í þessu fréttakapphlaupi en hin síðari ár sækja á mig spurningar um það hvort það séu svona miklar fréttir að umferð sé farin að þyngjast eða minnka.
![]() |
Umferð farin að þyngjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2011 | 16:52
Margföldunaráhrif röskunar.
Tölur sem birtar eru um áreiðanleika áætlana flugfélaganna byggja á meðaltölum. Inni í þeim leynast afar óheppileg atvik sem raska áætlunum flugfarþega jafnvel um marga daga.
Dæmi um þetta er að Iðunn dóttir mín og Friðrik Sigurðsson maður hennar voru búin að panta far með flugvél Flugfélags Íslands til London og síðan þaðan með annarri flugvél til Madridar.
Fjögur barnabörn mín voru með þeim í för.
En ferðaáætlunni var rústað með hvorki meira né minna en sólarhrings seinkum á fluginu frá Keflavík.
Þau þurftu því að leita sér að gistingu fyrir þau öll, ekki aðeins þessa einu aukanótt, heldur líka aðra, því að þau þurftu að bíða dag í viðbót eftir því að fá far með flugvél til Madridar, af því ekki var pláss daginn eftir að þau komu til Lundúna.
Þessi kostnaður var alger viðbót, því að í Madrid höfðu þau samið við spánska fjölskyldu um að vera í íbúð þeirra þar gegn því að íbúð Iðunnar og Friðriks yrði til reiðu fyrir spænsku fjölskylduna á sama tíma hér heima.
Fyrir sex manna fjölskyldu munar um svona mikinn aukakostnað sem mér skilst að flugfélagið bæti ekki.
Nú virðist vera að hefjast aftur yfirvinnubann í vinnudeilu flugmanna og varla fækkar það svona vandræða uppákomum eða gerir þær léttbærari.
![]() |
Þriðjungur vélanna á áætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2011 | 23:34
Golfvöllurinn í Avon.
Ungu piltarnir, sem iðkuðu golf inni á götum Kópavogskaupstaðar voru í skökku bæjarfélagi því að í Colorado í Klettafjöllunum er bær sem heitir Avon, og þar liggur golfvöllurinn niður eftir miðjum bænum sem stendur neðst í hlíðum mikils fjalls fyrir ofan hann.
Avon hefur sett sér það takmark að fara fram úr Aspen að vinsældum og er allt gert sem hægt er að hugsa sér til að laða ferðafólk þangað.
Sem dæmi má nefna, að ef menn vilja geta menn farið í skíðalyftu um jarðgöng upp á topp skíðabrautarinnar fyrir ofan bæinn ef þeim finnst of kaldsamt að nota venjulega lyftu.
Þaðan geta þeir svo skíðað niður í bæinn, gengið út úr lyftunni, skipt skíðabúnaðinum út fyrir golfgræjur og byrjað að spila golf niður eftir golfvelli sem nær alveg upp að skíðabrekkunni!
Avon er bara fyrir ríka og fræga fólkið, svo sem krónprinsinní Sádi-Arabíu, sem þangað kemur árlega, tekur meira en hundrað herbergi á hótelinu frá fyrir sig og fylgdarlið sitt og hefur þyrlur og glæsibíla til umráða.
Hætt er því við að Kópavogspiltarnir eigi langt í land með að öngla sér inn fyrir ferð til Avon þar sem þeir geta látið draum sinn rætast.
![]() |
Í golfi í miðjum bænum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2011 | 10:38
Þjóðarharmleikur.
Íslensk saga geymir mörg dæmi um það að í þessu fámenna landi var oft ekki unnt að innlent dómskerfi gæti komist að nógu yfirvegaðri og ótruflaðri niðurstöðu.
Í mörgum tilfellum kom danskur hæstiréttur í veg fyrir að hér yrðu framin dómsmorð og á okkar dögum má finna dæmi á borð við það, þegar mannréttindadómstóllinn í Strassborg dæmdi í máli hjólreiðamanns á Akureyri, sem andmælti því að sami aðili rannsakaði, ákærði og dæmdi í máli hans.
Fram að því höfðu Íslendingar unað réttarkerfi af þessari tegund, en neyddust til að breyta því í samræmi við dóminn.
Aðdragandi Guðmundar- og Geirfinnsmálanna var slíkur að í raun var ómögulegt að hægt yrði að komast að nógu yfirvegaðri sanngjarnri niðurstöðu vegna einstæðs þrýstings samfélagsins á dómstólana.
Áður en þessi mál komu upp höfðu nokkrir menn horfið, sem annað hvort fundust ekki eða fundust ekki fyrr en seint og um síðir.
Í augum þjóðarinnar voru síðustu mannshvörfin dropinn sem fyllti mælinn og þess var krafist að þessi mál yrðu upplýst, morðingjar fundnir og þeir dæmdir.
Ofan á þetta bættist að við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna myndaðist ástand æsinga og hysteríu sem á sér enga hliðstæðu í sögu landsins hinar síðustu aldir.
Stjórnmál og sakamál blönduðust auk þess saman á einstakan hátt og í þjóðfélaginu myndaðist sífellt háværari krafa um að fá "niðurstöðu" í þessum málum.
Þegar lokadómur var kveðinn upp lýsti þáverandi dómsmálaráðherra yfir því að "þungu fargi væri létt af þjóðinni".
Þessi orð segja betur en flest annað í hverju málið var í raun fólgið og lýstu því hugarfari, sem lá að baki og má jafna við nornaveiðar.
Þegar bornir eru saman tveir dómar í "morðmálum" frá þessum árum, sýknudómur vegna morðsins á Gunnari Tryggvasyni og hins vegar sektardómur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, blasir við hrópandi ósamræmi sem sést best með því að bera saman nokkur atriði:
Gunnarsmálið: Fyrir hendi var lík, stolið morðvopn í vörslu sakbornings og hugsanleg ástæða.
Guðm- og Geirfinnsmálið: Ekkert lík, ekkert morðvopn, engin hugsanleg ástæða.
Ofan á þetta bætist að í Gunnarsmálinu var sakborningur ekki beittur neinum þvingunum við yfirheyrslur eða í gæsluvarðhaldi, en sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu voru sannanlega beittir miklu harðræði, sem jafna má við pyntingar auk þess sem spunnar voru upp nýjar og nýjar játningar sem þeir skyldu gera.
Saklausir menn voru settir í löng gæsluvarðhöld og það gert á þann hátt að þeir bíða þess aldrei bætur.
Báðir þeirra lýstu því þannig að á tímabili hefðu þeir verið komnir á fremsta hlunn með að játa á sig sakargiftir til þess að sleppa út, því að hið sanna um sakleysi þeirra hlyti að koma í ljós.
Annar þeirra sagðist á tímabili hafa verið orðinn svo andlega þjakaður að hann hefði verið farinn að trúa því að hann hlyti að hafa drýgt ódæðið sem hann var sakaður um, annars væri hann ekki búinn að vera í gæsluvarðhaldi svona langan tíma!
Það eitt að halda fyrir mönnum vöku, eins og reynt var, er nú viðurkennd sem einhver árangursríkasta pyntingaraðferð, sem völ er á, og sú allra lúmskasta. Um það get ég sjálfur vitnað eftir að hafa vegna ofsakláða af völdum lifrarbrests og stíflugulu verið rændur svefni í þrjá mánuði.
Þetta er aðferðin sem notuð er í Guantanamo og öðrum hliðstæðum fangelsum.
Eftir þá lífsreynslu fann ég til mikillar samkenndar með sakborningunum í Geirfinnsmálinu.
Ég get ekki varist þeirri hugsun, að niðurstaðan í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hafi verið dómsmorð, sem íslenska þjóðin bar í raun ábyrgð á en getur því miður ekki horfst í augu við enn í dag.
Þeim þjóðarharmleik lýkur ekki fyrr en löngu tímabært uppgjör fer fram.
Ég ætla að vona að sá dagur þessa endanlega uppgjörs komi, en því miður virðist það svo, að meðan ég og aðrir eru á lífi, sem voru uppi á tímum Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, sé þjóðinni fyrirmunað að stíga þetta nauðsynlega skref.
![]() |
Sævar Ciesielski látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
13.7.2011 | 23:34
Váboðar. "Látum sem ekkert C"
Váboðar efnahags stórveldanna sitt hvorum megin Atlantshafsins birtast nú einn af öðrum. Samt virðist kjörorð ráðamanna vera í anda nafnsins á plötu bræðranna Halla og Ladda: "Látum sem ekkert C".
Matsfyrirtækjum hefur að vísu verið mislagðar hendur undanfarin ár og er kvartað yfir því þegar þau færa lánshæfi einstakra ríkja niður.
Hið nýjasta þess efnis hjá Moody´s varðandi lánshæfi Bandaríkjanna hlýtur að sæta nokkrum tíðindum vegna þess að um er að ræða mesta efnahagsveldi heimsins og eina risaveldið.
Við Íslendingar kvörtuðum yfir því á sínum tíma fyrir Hrun þegar fyrirtækin fóru að færa lánshæfismat okkar niður og litum alveg fram hjá váboðunum sem við blöstu.
Eftir á að hyggja sést hins vegar að matsfyrirtækin létu á undan þessu blekkjast af "íslenska efnahagsundrinu" þegar þau höfðu gefið Íslandi ágætiseinkunn á sama tíma sem landið stefndi í raun rakleiðis í hrun.
Nú er um að ræða þúsund sinnum stærri þjóð og í þetta sinn er fyrirtækið Moody´s aðeins sendiboði válegra tíðinda, sem verða því miður helsta einkenni heimsfréttanna að minnsta kosti langt fram eftir þessari öld hruns olíualdarinnar.
![]() |
Lánshæfiseinkun Bandaríkjanna hugsanlega lækkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.7.2011 | 14:12
Minnir á slysið við Hólsselskíl.
Þegar nú á að afgreiða óhappið í Múlakvísl með því að færa alla ábyrgðina á einn mann, minnir það á, hvernig farið var með bílstjórann á rútunni sem lenti á handriði mjórrar brúar yfir Hólselskíl á Hólsfjöllum hér um árið.
Ég fjallaði um þetta mál á sínum tíma fyrir sjónvarpið og tók myndir, sem sýndu, að brúarstöplarnir voru þannig málaðir, að brúin sýndist vera upp undir heilum metra breiðari en hún var.
Ekkert tillit var tekið til þessa þegar öll ábyrgð af slysinu var sett á bílstjórann einan.
![]() |
Bílstjórinn ekki rekinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.7.2011 | 12:22
"Gígjubrú" yfir Múlakvísl?
Eftir Grímsvatnahlaupið 1996 var ákveðið að gera svo rammbyggða brú yfir Gígju á Skeiðarársandi að hún hefði staðist hlaup af þessari stærð.
Vegurinn er þannig gerður, að hann er mun lægri en brúin sitt hvorum megin við hana og því myndi hlaup fara þar fyrst í gegn.
Eftir hlaup verður margfalt ódýrara að koma samgöngum aftur á heldur en með því að byggja brú, jafnvel þótt sú brú verði bráðabirgðabrú.
Ástæðan fyrir því að menn þora ekki að gera "Gígjubrú" yfir Múlakvísl er sú, að eldgos í Kötlu muni framkalla svo stórt hlaup að jafnvel svo stór brú muni ekki standast það.
Nú er það svo að eldgos í Kötlu hafa yfirleitt orðið með löngu millibili. Hins vegar gæti verið að færast í aukana að hlaup verði í Múlakvísl vegna aukins jarðhita í Kötlu.
Svo mótsagnarkennt sem það kann að virðast, hefur "töf" á Kötlugosi orðið til þess að menn þora ekki að gera almennilega brú yfir Múlakvísl.
Ef hlaup í ánni eru að verða tíðari en fyrr er íhugunarefni hvort gera eigi mun lengri brú svipaða Skeiðarárbrú eða jafnvel langan vegarkafla með rörum.
Ég bloggaði um það um daginn að ég væri hættur að óska eftir því að Katla lyki því óhjákvæmlega verki af að gjósa.
Í ljósi stöðunnar hef ég nú endurskoðað þessa ósk, svohljóðandi:
Ef þú ætlar, Katla, að gjósa hvort eð er, gerðu það sem fyrst svo að við getum verið í friði fyrir þér út þessa öld.
Vinsamlegast gerðu það þó ekki á háannatíma ferðaþjónustunnar heldur til dæmis í október eins og síðast eða þá síðla vetrar.
Eftir þetta gos væri síðan hægt að gera nýja "Gígjubrú" sem gerði okkur áhyggjulaus gagnvart brúarhruni út þessa öld.
![]() |
Ekkert bendir til þess að gosið hafi undir jökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)