13.7.2011 | 11:54
Annað hæsta eldfjall landsins, Bárðarbunga.
Bárðarbunga er ekki annað hæsta fjall landsins fyrir tilviljun. Bárðarbunga er annar endinn á öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn, en þessi öxull er miðja uppkomu annars stærsta möttulstróks heims.
Hinn möttulstrókurinn er undir Hawai.
Það kann að virðast að hlaup undan Köldukvíslarjökli sem liggur til vesturs frá suðurenda Bárðarbungu sé ekki merkilegt mál.
Á hinn bóginn er vitað, að hamfaraflóð, sem hafa farið til norðurs frá Bárðarbungu eru einhver hin mestu sem vitað er um, jafnvel stærri en Kötluhlaup eða Grímsvatnahlaup.
Þegar Hágöngulón var gert var alveg horft framhjá því, að hamfarahlaup úr Köldukvíslarjökli í framhaldi af eldsumbrotum í Bárðarbungu myndi geta rutt burtu Hágöngustíflu og vatnið í lóninu því ruðst fram í viðbót við hlaupvatnið í Köldukvísl og Sveðju.
Þegar Hágöngulón var myndað var einstöku hverasvæði með tilheyrandi gróðri sökkt og valtað yfir öll sjónarmið náttúruverndarfólks sem taldi gildi svæðisins meira sem ósnortið svæði heldur en sem virkjanasvæði.
Ef / þegar flóð mun rjúfa fyrirstöðuna og valda enn meiri usla neðan stíflu en verið hefði að óbreyttu verður fróðlegt að reikna út hvernig reikningar þessarar virkjunar muni standa þegar upp verður staðið.
![]() |
Hlaup undan Köldukvíslarjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.7.2011 | 10:01
Valdastéttin streitist við.
Í flestum löndum er ákveðin valdastétt við völd, beint eða óbeint. Oft er það hin eitraða blanda fjármagns og stjórnmála sem bindur valdastéttina saman og í sumum löndum er herinn hluti af blöndunni.
Þannig hefur það verið í Egyptalandi og hefur ekki skipt máli hvort æðsti valdamaðurinn hefur heitið Nasser, Sadat eða Mubarak, þegar einn hefur horfið af sjónarsviðinu hefur annar tekið við.
Valdastéttin egypska stefnir að sjálfsögðu að því að þannig verði þetta áfram og þess vegna mun hún streitast við að viðhalda völdum sínum með því að tefja fyrir og hindra breytingu með öllum þeim ráðum sem hún finnur.
"Egypska byltingin" er að vísu fædd en er ennþá aðeins lík smábarni sem aðeins getur grátið til að láta langanir sínar og óánægju í ljós en er eftir sem áður háð vilja þeirra sem hafa valdið.
Herópið "lifi byltingin!" er því aðeins ósk um líf og þroska lýðræðis í landinu sem leiði af sér nýja og betri tíma, en að öðru leyti er allt í raun við það sama og verið hefur, því miður.
![]() |
Reiði í Kaíró |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2011 | 21:13
Gleymda bensínlokið.
Gleymda barnið á norskri bensínstöð minnir mig á atvik á norskri bensínstöð fyrir þrjátíu árum.
Þegar við Jón bróðir minn vorum á leið frá Osló til Karlstad til að keppa í heimsmeistarakeppninni í ralli í febrúarbyrjun 1981 áttum við leið um lítið þorp Noregsmegin við landamærin.
Þar uppgötvaði ég að ég hafði týnt bensínlokinu á bílnum og sá fram á að kaupa nýtt bensínlok.
Ég fór því inn í bensínstöð sem við komum að og bað um bensínlok en afgreiðslumaðurinn skildi mig ekki.
Ég reyndi nú, auk dönskunnar, að nota ensku og þýsku en ekkert gekk.
Þetta þótti mér alveg óskiljanlegt og var farinn að halda að eitthvað vantaði í þennan Norðmann.
Bað hann að koma út með mér sem hann gerði.
Þegar ég benti á opinn áfyllingarstútinn, birti yfir andliti Norðmannsins þegar hann sagði: "Ja, benzinlok!"
Það var þá eftir allt sama orðið sem frændþjóðirnar tvær notuðu um þennan hlut !
Hvernig í ósköpunum átti mér að detta það í hug?!
![]() |
Gleymdi barninu á bensínstöð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2011 | 20:57
Minnir á ferðirnar á sjöunda áratugnum.
Á síðari hluta sjöunda áratugarins voru vinsælar rútuferðir farnar í apríl yfir Skeiðarársand.
Rútur frá Guðmundi Jónassyni og Páli Arasyni gátu komist yfir árnar, því að á þeim árstíma er einna minnst í þeim.
Til er upptaka á texta um þetta sem ég söng við lagið "Yellow Submarine" undir heitinu "Glöð við hristumst í gamla kagganum.
Í Yellow Submarine er millikafli þar sem eru talstöðvarskipti um borð í kafbátnum, og auðvitað notfærði ég mér það í íslenska textanum og bjó til skopstælingu af íslenskum talstöðvarsamtölum þess tíma: "Gufunes radíó! Gufunes radíó! R-7670 kallar, - ég skipti!" o. s. frv.
Nú er komin svipuð staða á Mýrdalssandi en nú er ekki lengur kallað á Gufunes radíó, heldur á þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Baslið í ferðunum fyrir rúmum 40 árum höfðu aðdráttarafl, en kannski er atburðurinn í dag of mikið af því góða.
![]() |
Auðvitað var fólk hrætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2011 | 15:42
Múlakvísl er háð leysingu á jöklinum.
Múlakvísl er jökulá. Það þýðir að lofthiti hefur mikil áhrif á vatnsmagn og framburð auk þess sem úrkoma hefur svipuð áhrif á vatnsmagnið og í bergvatnsám.
Nú er að koma hlýr loftmassi upp að landinu sem færi með sér bæði hærri lofthita og úrkomu í ofanálag.
Það þýðir að vatn í ánni getur vaxið allmikið yfir daginn, þegar lofthitinn er mestur.
Að undanförnu hefur verið mikill munur á hita dags og nætur og loft frekar svalt.
Á landinu hefur frostmarkshæð verið á bilinu 900 til 1500 metrar en stór hluti Mýrdalsjökul er í þeirri hæð og því engin snjóbráð þegar loft er svo svalt.
Af framangreindum sökum má leiða líkur að því að í eðlilegum sumarhita verði erfitt að nota miðjan daginn til aksturs yfir ána og frekar að sæta færis á þeim tíma sólarhringsins sem hitinn er minni.
![]() |
Lokað yfir Múlakvísl til 18 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2011 | 10:27
Leiðir hugann að Skaftárkötlum.
Ísbráðnunin í Kötlu er eitt af nokkrum dæmum um það að jarðfræðingar hafa velt vöngum yfir því hvort eldsumbrot hafi valdið stórum jökulhlaupum.
Þetta hefur verið í umræðunni eftir hlaupið í Múlakvísl 1955 og einnig 1999, en hefur jafnvel komið upp varðandi hlaup úr Skaftárkötlum.
Í einum katlinum í Kötlu er vatn í botninum og botn hrunsins líkist hringlaga strompi. Í Skaftárkötlum er líka lítil tjörn í botninum eftir hvert sig, en þar hef ég ekki séð hringlaga strompa.
Helgi Björnsson telur þennan mismun benda til þess að kvika hafi komist upp á yfirborðið.
Ég sem leikmaður velti því þó fyrir mér hvort þessi mismunur geti stafað af mismunandi landslagi en ætli það verði ekki að fallast á skýringu sérfræðingins og þar með að telja afar ólíklegt að kvika hafi komist upp undir Skaftárkötlum.
og að þess vegna standist það ekki að eldsumbrot geti hafa valdið hlaupi úr Skaftárkötlum.
![]() |
Katlarnir benda til kvikuinnskots eða lítils eldgoss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2011 | 10:15
Leiðir af sjálfu sér en þarf samt auglýsingu.
Fjallabaksleið nyrðri liggur í 700 metra hæð yfir sjó þar sem vegurinn fer hæst. Þegar ekið er inn á leiðina að vestanverðu blasir strax við ökumönnum að vegurinn er niðurgrafinn troðningur eða slóð en ekki venjulegur vegur.
Þetta kemur ekki alveg eins fljótt í ljós þegar ekið er í hina áttina upp úr Skaftártungu, en gamanið tekur fljótlega að kárna.
Blindhæðirnar eru margar alveg sérstaklega krappar og þröngar og verður að fara þar fetið.
Ef vegagerðartæki verða á ferð á leiðinni gætu óheppnir ökumenn ekið fram á þau á afar hættulegum augnablikum.
Eins og vegurinn er nú er hann víða alveg sérstaklega holóttur svo að ökumenn á bílum með lága hjólbarða verða að aka mjög hægt til að eiga ekki á hættu að sprengja hjólbarða.
Fólk verður því að taka sér afar góðan tíma til að fara þessa leið og reynslan sýnir, að enda þótt leiðin sé merkt með bókstafnum F á kortum sem hálendisvegur, er fáfræði stórs hluta þjóðarinnar um landið okkar stundum með ólíkindum og full ástæða hjá Vegagerðinni að benda fólki á þetta.
Sem dæmi má nefna að í spurningakeppninni "Gettu betur" var spurt um skriðjökul, sem lægi austan við Öræfajökul.
Svöruðu nemendur því til að þetta væri Mýrdalsjökull. Verður að ætla að fáfræði af þessu tagi sé útbreidd fyrst nemendur sem taldir eru búa yfir mestri þekkingu í framhaldsskólum vita ekki meira um landið.
![]() |
Fjallabaksleið er hálendisvegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2011 | 10:30
Aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Stórir trukkar að ferja bíla yfir Múlakvísl, ég tala nú ekki um ef þeir geta ferjað rútubíla, væri stórkostleg upplifun fyrir erlenda ferðamenn.
Enn og aftur sjáum við dæmi um að glíma Íslendinga við óblíð náttúruöfl getur verið "söluvara" og orðið mótvægi við alla þá röskun sem hlaupið hefur valdið.
P. S. Eftir að hafa séð ýmislegt í bloggi og athugasemdum um það að áhyggjur ferðaþjónustufólks á sunnanverðu landinu sé "væl", má benda á, að á Hornafirði eru 40% af öllum gistinóttum ársins í júlímánuði einum og missir þessa háannatíma er hliðstæður við það að tvær vikur fyrir jól yrði hliðstæð röskun á jólaversluninni í Reykjavík.
![]() |
Trukkur sá um ferjuflutningana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.7.2011 | 10:20
Of seint að fara í það að nota rör?
Ég var að koma út úr viðtali við þáttinn "Í Býtið" í morgun þegar Elías Sveinsson koma þar að, en hann vann á sínum tíma í Ameríku og kynntist vel "ameríska hraðanum" sem þar var stundum talin nauðsynlegur hugsunarháttur þegar mikið lá við.
Elías benti á þá leið að leggja Múlakvísl í mörg rör með því að fikra sig yfir hana á þann hátt, að leggja fyrst niður eitt stórt rör við vesturbakkann og nota krana til þess, bæði til að leggja rörið þannig niður að það snúi rétt í straumnum.
Nota síðan stórvirk tæki og malarflutningabíla til að fylla upp yfir rörið.
Þegar áin er farin að renna þar í gegn, sé uppfyllingin yfir rörið notuð til að leggja niður næsta rör við enda hennar og endurtaka leikinn.
Þegar komið er á þennan hátt langleiðina yfir ána, verður svo mikið af henni farið að renna í gegnum rörin, að fljótlegt verður að klára verkið.
Ég get vel ímyndað mér að þessi aðferð sé miklu fljótlegri en brúargerð, teiknaði þetta upp og fór með Ella upp á fréttastofu Stöðvar tvö þar sem við skildum teikninguna eftir.
Fór síðan á á fund hjá Stjórnlagaráði en ætla að slá á þráðinn til fréttastofuna.
Nú virðist Vegagerðin hafa ákveðið að fara af stað í brúargerðina og kannski ekki hægt "að skipta um hest í miðri á" í þessu efni.
![]() |
Byrja á brúargerð í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2011 | 09:54
Lúlli Karls flaug líka á gaddavírsgirðingu.
Það eru fleiri en keppendur í frönsku hjólreiðakeppninni sem hafa "flogið á gaddavírsgirðingu" og það í bókstaflegri merkingu.
Í tilefni af Íslandsmeistaramóti í svifflugi, sem nú er að ljúka á Hellu, rifjast upp saga af Lúðvíki heitnum Karlssyni, sem lenti á gaddavírsgirðingu á sínum tíma í aðflugi að lendingarstað á svifflugu sinni.
Lúlli var látinn gefa skriflega skýrslu um óhappið en var síðan kallaður á teppið vegna þess að skýrslan stæðist ekki.
"Hvað stenst ekki?" spurði Lúlli.
"Þú segir hér í skýrslunni að þú hafir verið í vinstri beygju en rekið hægri vænginn í girðinguna. Það er ekki hægt, - vinstri vængurinn liggur neðar í vinstri beygju og útilokað að taka hana slíka beygju öðruvísi."
Lúlli lét sér hvergi bregða og svaraði um hæl: "Jú það stenst einmitt, því að ég flaug svo lágt að ég rak hægri vænginn upp undir girðinguna!"
Lúðvík Karlsson var mesti sagnasnillingur sem ég hef kynnst og var jafnvel meiri sagnameistari á ensku en íslensku.
Af honum á ég margar óborganlegar sögur.
![]() |
Flaug á gaddavírsgirðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)