Silfurmaðurinn, kóngarnir og Lindberg lentu í Reykjavík.

Ég undrast að menn skuli fetta fingur út í það að silfurstrákarnir lendi í Reykjavík. Vilhjálmur Einarsson, silfurmaðurinn frá ÓL í Melbourne lenti í Reykjavík og Brusselfararnir lentu með tvo Evrópumeistara í Reykjavík. Fyrsta flug á Íslandi var í Reykjavík og Nelson, Lindberg og Balbo lentu á Reykjavíkurhöfn. Bobby Fisher lenti á Reykjavíkurflugvelli og Friðrik 9. Danakóngur sömuleiðis.

Friðrik 8. og Kristján 10. stigu á landi í Reykjavík sem og Nóbelskáldið Halldór Laxness. Íslensku handritin komu á land í Reykjavík og fyrsta millilandaflugvél Íslendinga og fyrsta þota Íslendinga lentu á Reykjavíkurflugvelli. Þannig mætti lengi telja þjóðhöfðingja og frægt fólk, sem lenti í Reykjavík en ekki á Miðnesheiði.

Ég sé fyrir mér aðstöðu í framtíðinni þar sem góðir gestir geta gengið eftir rauðum dregli fá sérvöldum stað við austanverðan völlinn upp í Perluna.

Með lendingu silfurmannanna frá Peking og Melbourne í Reykjavík er að myndast hefð fyrir því að slíkir lendi í Reykjavík. Megi svo verða um alla framtíð.


mbl.is Flogið beint til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stórasta land í heimi!" "We wus robbed!"

Stundum verða mismæli eða skökk orðanotkun fleygari en ef setningarnar hefðu verið rétt sagðar. Þetta á við um upphrópun forsetafrúarinnar í hita leiksins sem enn var ekki kólnaður eftir frækilegan sigur sem tryggði íslenska handboltalandsiðinu silfurverðlaun á Ólympíuleikunum. En meiningin var góð og falleg, hrifningin fölskvalaus og einlæg.

Alþýðleiki, hlýhugur, hreinskilni og einlægni eru aðalsmerki Dorritar og hafa hrifið íslensku þjóðina og þess vegna þykir okkur vænt um þetta atvik eins og hana sjálfa.

Svipað hefur gerst áður. Eftir bardaga Max Schmeling og Jack Sharkey um heimsmeistaratitilinn í hnefaleikum 1932 var mjótt á munum í úrskurði dómaranna þriggja. Tveir dæmdu Sharkey sigur en einn Schmeling. Joe Jakobs, snjall umboðsmaður Schmelings, varð æfareiður og hneykslaður þegar úrskurðurinn var kveðinn upp,- fannst hann greinilega lyikta af hlutdrægni gagnvart hinum þýska umbjóðanda sínum sem þarna hefði verið rændur sigri.

Jakobs hrópaði svo hátt að heyrðist í beinni útvarpsútsendingu beggja vegna Atlantshafsins: "We wus robbed!" sem hægt væri að þýða með orðunum "við var rændir!" "

Þetta urðu einhver fleygustu ummæli íþróttasögunnar og er oft vitnað til þeirra og þau jafnvel hrópuð upp enn í dag þegar úrskurðir þykja byggjast á hlutdrægni, svikum eða spillingu. Þau hefðu aldrei orðið svona fleyg ef Jakobs hefði einfaldlega hrópað: "We were robbed!"

Og hugsanlega hefðu ummæli Dorritar ekki náð því flugi sem þau hafa náð ef hún hefði hrópað: "Ísland er stærsta land í heimi!"

Hvort sem það er rétt eða rangt eru orðin "til Akureyris" eignuð Björgvini Halldórssyni og notuð á svipaðan hátt og setning Hallbjarnar: "Hér á landi á."

Þegar Marínó heitinn Ólafsson, stórskemmtilegur hljóðmaður Sjónvarpsins hér í den, vildi leggja áherslu á að eitthvað væri brallað í hljóðsetningu sem sjónvarpsáhorfendur gætu með engu móti fundið út að væri fólgið í tæknibrellu, sagði hann í hálfkæringi: "Það grunar engum neitt" með sérstakri áherslu á "engum".

Ég hef oft notað þetta síðan að gamni mínu en ævinlega greint frá uppruna notkunar þágufallsins til að útskýra notkun þess.


Fyrst REI-klúðrið og svo þetta.

Klúðrið vegna fyrirhugaðra kaupa OR á hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesjar lyktar af því sama og gerst hefur áður í rekstri orkufyrirtækja. Tekin er áhætta með fjármuni og eignir almennings þar sem mál geta endað með vandræðum. Orkuveita Reykjavíkur er ekki fyrsta fyrirtækið sem sett hefur verið í þessa stöðu.

Þegar ákveðið var að rannsaka ekki fyrirfram með borunum það sjáanlega misgengissvæði, sem bora þurfti jarðgöng í gegn milli Kárahnjúka og Fljótsdals, var það að sögn fjölmiðlafulltrúa virkjunarinnar látið ógert vegna þess "að við ætluðum þarna í gegn hvort eð var."

Þetta reyndist langdýrasti, erfiðasti og tafsamasti hluti gangagerðarinnar og munaði litlu að það tækist ekki. En í undirmeðvitund þeirra sem réðu ferð blundaði áreiðanlega vissan um það að þjóðin myndi borga hvert það tjón sem af þessu hlytist. 

Ég hafði um það heimildir á sínum tíma um að á tíunda tímanum einn morgun á árinu 2005 hefði þurft að koma með hraði á neyðarsímafundi milli fjármálaráðuneytisins og Landsvirkjunar til að ganga frá því fyrir klukkan tíu að redda sjö milljörðum króna með bankaláni sem bauðst á ofurvöxtum.

Í kosningabaráttunni 2007 gafst mér tækifæri til að sitja fund Viðskiptaráðs þar sem einn ræðumanna rakti með óhrekjandi tölum hvernig Landsvirkjun hefði sannalega verið rekin á gersamlega óviðunandi hátt árin á undan. Fjölmiðlafulltrúi Landsvirkjunar sat líka fundinn en gat ekki svarað þessari ádeilu.  


mbl.is Um milljarður í dráttarvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi hins persónulega.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fær rós í hnappagatið frá mér og fleirum fyrir það hvernig hann hefur tekið á máli Pauls Ramsesar. Ráðherra hefur vafalaust haft það í huga í upphafi að lögin eru fyrir fólkið en ekki öfugt.

Þetta mál hefur orðið svo stórt í hugum fólks vegna þess að það er svo persónulegt, - við þekkjum öll orðið þessa fjölskyldu, - þau eru "hæfilega fá". Kann að hljóma ankannalega en það er ekki trygging fyrir því að við skynjum mikilsverð mál að það séu margir sem þeim tengist, einhver nafnlaus fjöldi.

Til dæmis var vitað að sex milljónir Gyðinga hefðu verið drepnir í Helförinni en við gátum ekki skynjað það til fulls fyrr en gerð var sjónvarpsþáttaröð um afmarkaða fjölskyldu, sem lenti í Helförinni og við kynntumst fjölskyldumeðlimunum persónulega á skjánum heima í stofum okkar og voru sett í þeirra spor.

Annað dæmi er Geysis-slysið. Hvers vegna er það enn svo ljóslifandi í hugum þeirra sem fylgdust með því? Ég var aðeins níu ára en þetta slys er mér efst í huga af atburðum þessara ára nær 60 árum síðar.

Ég hygg að svarið liggi í því að þau, sem saknað var og jafnvel talin af en síðar bjargað á dramatískan hátt, voru "hæfilega fá", - nógu fá til þess að allir lærðu nöfn þeirra og kynntust kjörum þeirra hvers um sig og vandamanna þeirra. Þar með var þetta mál orðið eins og eigið fjölskyldumál.

Björn Bjarnason er maður skipulagðra vinnubragða og afkasta, en jafnframt vandvirkni. Hann hefur vafalaust lagt talsverða vinnu í þetta mál sem á yfirborðinu virðist aðeins snerta tvær manneskjur.

Björn þarf ekki að sjá eftir því að hafa lagt vinnu og tíma í það því að það eykur okkur öllum skilning á því að rétt eins og við skynjum heiminn út frá okkur sjálfum sem eintaklingar, snerta öll mál fjöldans hvern og einn einstakling sem því tengist og að því leyti skiptir fjöldinn ekki máli.


mbl.is Grátið af gleði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta líst mér vel á.

Við eigum ekkert að vera feimin við að læra af reynslu annarra þjóða við það að taka á móti hetjum sem koma frá útlöndum eftir frækin afrek. Þetta hafa New York búar gert með stæl t. d. þegar Charles Lindberg kom heim eftir flug sitt yfir Atlantshaf.

Vestur-Íslendingar í smábænum Gimli eru með skrúðgöngu á Íslendingadaginn sem slær öllu við hér á landi. Gleðigangan Gay Pride er að vísu á góðri leið með að verða að slíkri göngu hér heima en ég lýsi enn og aftur eftir almennilegri skrúðgöngu 17. júní.


mbl.is Ekið á vagni niður Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kofasósíalismi?

Jón Magnússon kallaði húsaverndarstefnuna "kofasósíalisma" fyrir nokkrum dögum þegar hann var að skilgreina stefnu Ólafs F. Magnússonar í málefnum húsa í Reykjavík sem líkjast Hótel Akureyri í og deilt hefur verið um syðra og nyrðra. Skoðun nánar hverjir "sósílistarnir" eru, sem fylgja húsaverndunarstefnu þeirri sem Jón kallar kofasósíalisma.

Í tólf ár barðist Ólafur F. gegn eyðileggingu húsa sem Sjálfstæðismaður og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem friðaði Hótel Akureyri, er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nefndarmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í nýjum meirihluta hans og Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Sigmundur Davíð hefur lýst því mjög skilmerkilega og sannfærandi sem byggingahagfræðingur að húsaverndarstefna sú sem rekin hefur verið með góðum fjárhagslegum árangri í fjölmörgum borgum Evrópu skilar ávinningi samkvæmt lögmálum vestrænnar hagfræði.

Síðan kemur Jón Magnússon, sem lengst af sínum pólitíska ferli var í forystusveit ungra Sjálfstæðismanna og kennir hagfræði Sigmundar Davíðs við sósíalisma. Hvernig má það vera?

Skýringin er kannski sú að öll meðöl séu leyfileg þegar Jón reynir allt hvað hann getur að deila á þá sem halda fram umhverfisverndarstefnu nýrra tíma. En Jón virðist auk þess vera einn af þessum mönnum sem eru enn fastir í gömlu fari og virðast ekki hafa áhuga á að endurmeta neitt eða læra neitt nýtt.

Jón er ekki einn um þetta heldur á þetta við um fjöldann allan af mætu og góðu fólki sem á erfitt með að endurmeta hlutina í samræmi við nýjar aðstæður, nýjar upplýsingar og ný viðhorf.


mbl.is Alhvítt á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Geir Haarde genginn í Vinstrigræna?

Sá í gær í 24 stundum brot úr bloggpistli Sigurjóns Þórðarsonar þar sem spurt var hvort ég væri genginn í Samfylkinguna. Ég var úti á landi þegar bloggpistill þessi birtist upphaflega og sá hann ekki fyrr í gær, þegar hann þótti svo merkilegur að hann dúkkaði upp í 24 stundum.

Þetta er furðuleg spurning, einkum vegna þess að Íslandshreyfingin getur sem stjórnmálaflokkur með ekki talist eiga svipaða aðild að meiri- og minnihlutum í Reykjavík eins og til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn á að bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Samkvæmt áliti lagaprófessors, sem ég leitaði til, á Íslandshreyfingin ekki lagalega aðild að F-listanum í Reykjavík vegna þess Íslandshreyfingin var ekki til þegar kosið var og listinn borinn fram. Prófessorinn sagði að ef laganemi spyrði sig nánar um álit á þessu myndi hann ráðleggja honum að bera þessa spurningu upp í guðfræðideild!

Ég gekk því ekki í Samfylkinguna við það að Ólafur F. og Margrét gengu til samstarfs við Dag, Svandísi og Óskar í Tjarnarkvartettinum og ég varð hvorki félagi í Sjálfstæðisflokknum né í Samfylkingunni þegar Ólafur F. gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta og Margrét hélt áfram samstarfi sínu við Samfylkinguna í minnihlutanum.

Geir Haarde gekk ekki í flokk Vinstrigrænna vegna samstarfs Sjálfstæðismanna við Vinstrigræna í Mosfellsbæ og á sama hátt gekk Steingrímur J. Sigfússon ekki í Sjálfstæðisflokkinn.

Er þetta ekki nógu skýrt? Þarrf að spyrja frekar og þurfti yfirleitt að spyrja?


Bakgrunnur sem ekki má gleymast.

Kínverjar sýndu mátt sinn og megin sem þeir byggja á metnaði fjölmennustu þjóðar heims sem reist hefur veldi sitt á grunni stórfenglegrar fornaldar frægðar. Sem merk þjóð áttu þeir það skilið og þjóðarstolt þeirra og samheldni vegna leikanna er skiljanleg.

En athyglin að því sem þessi uppgangur byggist á má ekki slævast. Í lítilli frétt að morgni s.l. fimmtudags greindi frá því að í Kína væri leyfilegt að mótmæla, - allir gætu sótt um leyfi til þess.

Slík leyfi væru hins vegar nær aldrei veitt heldur væri viðkomandi kippt út úr samfélaginu. Tugþúsundir slíkra væru á "endurhæfingarhælum." Mótmælendur væru einfaldlega sviptir því litla frelsi sem þeir höfðu og þeir fjarlægðir.

Þetta má ekki gleymast. En það má heldur ekki gleymast hvernig við Íslendingar tókum þátt í þessu með Kínverjum á sínum tíma þegar Falun Gong-fólk vildi komast til Íslands.

Á Íslandi var gengið enn lengra en í Kína að því leyti til að því var slegið föstu fyrirfram að þetta fólk myndi mótmæla. Enn auðveldara var fyrir Íslendinga en Kínverja að fjarlægja þetta fólk og koma í veg fyrir hugsanleg mótmæli þess með því einfaldlega að meina því að koma til landsins. Samkvæmt landslögum okkar hafði það leyfi til að mótmæla en í raun var því bannað það fyrirfram.

Endurhæfingarhælin voru flugstöðvarnar í Evrópu þar sem það var stöðvað og endurhæfingarmeðferðin fólst í þeim lærdómi sem það átti að draga, - að kúgunin á sér engin landamæri.


mbl.is Ólympíuleikunum slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekning á Kennedy/Johnson - Nixon.

Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 1960 háði John F. Kennedy harða baráttu í forkosningum við Lyndon B. Johnson og hafði betur. Kennedy þótti glæsilegur og aðlaðandi boðberi nýrra tíma og kynslóðaskipta en Nixon hafði verið varaforseti Eisenhowers, fulltrúa hins gamla tíma.

Johnson var alger refur og snillingur í að nota þingið sér og sínum málum til framdráttar.

Reynsluleysi Kennedys í utanríkismálum þótti hans helsti veikleiki en baráttan við Johnson hafði hins vegar verið hörð og gagnkvæm andúð ríkti alla tíð á milli Kennedybræðra og Johnsons.

En þrátt fyrir þetta bað Kennedy Johnson um að verða varaforsetaefni sitt og réði þar mestu að reyndari og öflugri mann í viðskiptum við þingið var ekki að fá.

Kennedy var, eins og Obama nú, ásakaður um að hafa með þessu vali dregið úr trúverðugleika þess að hann væri sannur boðberi nýrra tíma. En hann var líka tortryggður vegna reynsluleysið og dæmið með Johnson gekk upp, - naumlega þó. Nixon gat ekki lengur hamrað eins og áður áhættunni sem væri fólgin í því að velja reynslulítinn forseta.

Reynsla Johnsons í þinginu kom sér vel eftir kosningar, en þó aldrei eins vel og þegar hann varð sjálfur forseti, því að það má þessi refur eiga að hann kom mun fleiri mannréttinda- og réttindamálum í gegn á sinni forsetatíð en nokkrum forseta Bandaríkjanna hefur tekist.

Nú er bara að sjá hvort svipað gerist nú þegar æskan og glæsileikinn taka höndum saman við reynsluna og yfirvegunina.


mbl.is Obama leiðir naumlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin skömm að tapa fyrir svona liði.

Enginn er betri en mótherjinn leyfir. Þetta orðtak á við um íslenska liðið. Það er enginn skömm að tapa fyrir franska liðinu, sem var einfaldlega besta liðið á leikunum.Íslenska liðið gerði sitt besta og aðeins betur ef það var það sem þurfti og ekki er hægt að ætlast til meira.
mbl.is Töpuðum ekki gullinu heldur unnum silfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband