Að versla með frumburðarréttinn.

Þegar Sigríður í Brattholti barðist gegn því að Gullfoss yrði seldur var íslenska þjóðin enn meðal hinna fátækustu í Evrópu. Hér voru engir vegir sem gátu staðist samanburð við vegi erlendis og meirihluti sveitabæja voru enn  torfbæir.

Samt fór það svo að frumburðarréttur þjóðarinnar til auðlinda lands og sjávar var ekki seldur í hendur útlendingum.

1920 myndu margir þeirra sem nú mæla því bót að auðlindirnar séu seldar úr landi, hafa sagt að neyð þjóðarinnar og fátækt réttlætti slíka sölu frumburðarréttar henndar, annars yrði þjóðin áfram læst í fátækragildru.

Víst erum við í vanda nú, en við erum ósambærilega skár stödd en við vorum á fyrstu áratugum síðaustu aldar.

Einu gildir í mínum huga þótt sagt sé að eignarhlutur útlendinganna fari ekki yfir 49% eða að með því að skipta úrvinnslu orkunnar í tvennt, framleiðslu og dreifingu, sé allt í lagi að einstök fyrirtæki lendi í höndum erlendra manna.

Ég geri engan mun á landsölu og sölu auðlinda landsins, - vil líka benda á að hlutur sem nálgast helmingshlut í viðkomandi fyrirtæki telst ráðandi hlutur og jafngildir að því leyti algerri sölu.

Þegar Einar Þveræingur mælti því mót að Noregskonungi yrði gefin Grímsey sagði hann þau viturlegu orð að enda þótt þáverandi Noregskonungur væri hinn vænsti maður vissi enginn hvern mann þeir myndu geyma sem tækju við af honum.

Á sama hátt vitum við ekki hverjir kynnu í framtíðinni að ná yfirráðum yfir eignarhlutum hinna vænstu erlendu fyrirtækja sem menn tala nú um að hægt sé að treysta fyrir fjöreggjum þjóðarinnar.

Með viljayfirlýsingu um að Alcoa fái alla þá orku á Norðausturlandi sem hún þarf er fyrirtækinu í raun selt landið eða landshluturinn, sem orkan er unnin í, til eignar og einokunar.

Sjálfstæðisbaráttan hefur sjaldan verið harðari en nú og ástæða við að andmæla kröftuglega og vara við því andvaraleysi og þróttleysi sem virðist vera að heltaka menn í þessum efnum.   


mbl.is Sandgerðisbær selur hlut í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugarnesið, dýrmætur staður.

Undanfarna daga hef ég unnið að gerð tónlistarmyndbands um Reykjavík undir heitinu "Reykjavíkurljóð."

Það byrjar svona: "Ljúf stund, safírblá sund / þegar sindraði á jöklinum glóð. / Tvö ein, - aldan við hlein / söng um ástina lofgerðarljóð.  /  Þau leiddust inn í Laugarnes, - / lögðust þar  / ástfangin og rjóð hið fyrsta Reykjavíkurpar  /  þau Ingólfur og Hallveig. "....

Ljóðið átti að byrja á því að finna stað þar sem fyrsta Reykjavíkurparið hefði getað átt ástarfund við nákvæmlega sömu aðstæður og nú eru og allir hafa þekkt jafn vel í meira en 1100 ár. 

Sem sagt: Sami kossinn á sama stað.  

Enn einu sinni nutum ég og fleiri þess í dag hve dýrmætur staður Laugarnesið er fyrir borgina okkar því það reyndist vera eini staðurinn sem uppfyllti þessar kröfur. .

Í dag fór ég þangað með ljósmyndara og brúðhjónum, sem urðu að flýja rigningu uppi í Mosfellsdal þar sem upphaflega átti að taka af þeim myndir.

Myndin hér er af brúðhjónunum í brúðarbílnum, þeim Silju Edvardsdóttur og Benjamins Mokry.

P1010245

Þarna er eitthvert dýrasta byggingarland borgarinnar látið óhreyft í stað þess að þétta byggðina og reisa 20-30 hæða íbúðablokkir eins og gert hefur verið við Skúlagötu.

Slíkar byggingar eru í anda þekktasta íbúa nessins, sem gerði slík íbúðarháhýsi að einu aðalatriðinu í mynd sinni "Reykjavík í nýju ljósi" þótt hann sjálfur búi þarna meira út af fyrir sig en nokkur annar íbúi nessins sem Reykjavík stendur á milli Skerjafjarðar og Kollafjarðar.

Strandlengja nessins er líkast til á annan tug kílómetra að lengd og á norðurströnd nessins er þetta eina vinin sem eftir er.

Hrafn Gunnlaugsson er einhver frjóasti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst og það hefur verið unun að vinna með þeim manni.

En háhýsablokkir í sunnanverðri borginni sem hann sýndi myndu varpa skuggum á stór svæði fyrir norðan þær.

Háhýsi í Laugarnesi myndu ekki hafa þennan ókost af því að þeim myndi verða raðað meðfram ströndinni og varpa skuggum sínum út fyrir hana.

Ég hygg hins vegar að þrátt fyrir áhuga Hrafns á því að sem flestir borgarbúar búi í slíkum húsum, myndi hvorki honum né mér hugnast að slíkar ofurblokkir risu þar.

Ég hef sjálfur búið um nokkurra ára skeið í háhýsum og átti fyrst heima á tólftu hæð. Mér líkaði það vel. Ég bý nú í blokk og hefði ekkert á móti því að búa í hærra húsi og finnst sjálfsagt að þeir, sem hafa þennan smekk eigi kost á að gera það. 

En það eru takmörk fyrir því hve margt fólk kýs að búa á þennan hátt og þess vegna held ég að hugmyndir um að þetta verði kjarninn í vali fólks á bústað sínum muni ekki verða raunhæfar. 

Ef hugmyndir um þéttingu byggðar með ítrustu hagkvæmni yrðu einráðar yrði Laugarnesinu, síðasta svæðinu í Reykjavík sem tengir saman ósnortið saman allar kynslóðir sem búið Reykjavík frá Landnámi, notað undir háhýsi.

Það vona ég að verði aldrei. Við hljótum að hafa efni á að skilja eitt svona svæði eftir þegar við byggjum upp borgina okkar svo að koss, sem þar var veittur árið 874, verði endurtekinn öld fram af öld á sama stað með sama útsýni.  


mbl.is Kossinn endurtekinn
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

"Eitthvað annað"? Getur það verið ?

Allt frá febrúar 2007 var gert grín að því þegar ég minntist á gagnaver sem álitlegri kost en álver í umræðum fyrir kosningarnar.

Menn ypptu öxlum þegar Íslandshreyfingin benti á að hver megavatt myndi skapa margfalt fleiri og betri störf en álver og að starfsemi gagnaveranna yrði án mengunar.

"Eitthvað annað" var sagt í háðstóni. Þessi söngur hefur hljómað árum saman og talað í fyrirlitningar tóni um fjallagrasatínslu og lopalið.

Þó var kjarninn í umræðunni mjög skýr. Ef öll orka landsins yrði seld til sex risaálvera myndi aðeins 2% vinnuaflsins fá þar vinnu og jafnvel þótt samtals 8% vinnuafls landsins yrði tengt álvinnslu þurfti "eitthvað annað" handa hinum 92 prósentunum.

Af hverju rís ekki gagnaver við Húsavík? Þar er þó stór flugvöllur og skammt til Akureyrar, höfuðstaðar Norðurlands?

Það skyldi þó ekki vera vegna þess að fyrir liggja tvær yfirlýsingar og samkomulag um að Alcoa um að allt rafmagn sem fáanlegt er við virkjunum á Norðausturlandi fari í þessa einu verksmikðju. Það er búið að selja Alcoa öll orkugæði þess landshluta og jafnvel Jöiulsárnar í Skagafirði líka.

Iðnaðarráðherra hefur nú lýst því yfir að það verði að endurnnýja viljayfirlýsingar um álverið og geirnegla þetta til framtíðar. Aðilar vinnumarkaðarins gera þetta að skilyrði fyrir stöðugleikasáttmála. 

Nálægt Blönduósi er 150 megavatta virkjun, Blönduvirkjun. Hins vegar er viðbúið að nú verði sagt að vegna gagnaversins verði að virkja Jökulsárnar í Skagafirði og gefa skít í þá möguleika á nýtingu þeirra, sem þegar hefur komist á legg, flúðasiglingarnar.

Enginn minnist á að náttúra þess svæðis sé krónu virði, allt snýst um stóriðjufíknina.  


mbl.is Talið líklegast að risavaxið gagnaver rísi á Blönduósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul saga og ný.

Stjórnmálaflokkar verða til vegna þess að fólk með líkar skoðanir binst samtökum til að vinna þeim sem best brautargengi. Furðu algengt er einnig að flokkarnir klofni vegna þess að skoðanirnar verða skiptar þegar á hólminn er komið.

Nær allir stjórnmálaflokkar, sem myndaðir hafa verið hér á landi frá 1916 hafa klofnað. Framsóknarflokkurinn klofnaði þegar Tryggvi Þórhallsson og hans skoðanasystkin klufu sig út úr honum og mynduðu Bændaflokkinn. Sá flokkur varð ekki langlífur og leystist upp.

Alþýðuflokkurinn klofnaði 1930 þegar Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður. Seinna varð frekari klofningur þegar Héðinn Valdimarsson og hans menn gengu til liðs við Kommúnistaflokkinn og stofnuðu Sameiningarflokk alþýðu - sósíalistaflokkinn. Í kjölfar árásar Sovétmanna á Finna gekk Héðinn ásamt fleirum úr þeim flokki.

Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði 1953 þegar Lýðveldisflokkurinn var stofnaður og bauð fram en fékk ekki þingmann.

Margir sósíalistar gengu til liðs við Þjóðvarnarflokkinn 1953 en eftir 1959 var ljóst að dagar hans væru taldir.   

Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði 1987 þegar Borgaraflokkurinn var stofnaður. Sá flokkur klofnaði aftur þegar hluti hans gekk til liðs við við vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar. 

Alþýðuflokkurinn klofnaði enn og aftur 1956 þegar Hannibal Valdimarsson og fleiri mynduðu Alþýðubandalagið í samvinnu við sósíalista. Síðan klofnaði Alþýðubandalagið eftir frægan Tónabíósfund og Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru stofnuð.

 

Þau samtök klofnuðu 1974 þegar Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson gengu úr vinstri ríkisstjórn en Magnús Torfi Ólafsson sat eftir í embætti.

Enn klofnaði Alþýðuflokkurinn þegar Vilmundur Gylfason og fleiri stofnuðu Bandalag jafnaðarmanna, sem síðar leystist upp og hver fór sína leið.

Kvennalistinn klofnaði um EES-málið og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk síðar til liðs við Samfylkinguna og varð formaður hennar.

Alþýðuflokkurinn klofnaði enn einu sinni 1994 þegar Jóhanna Sigurðardóttir gerðist formaður í nýjum flokki, Þjóðvaka.

Frjálslyndi flokkurinn klofnaði 2007 þegar hluti hans tók þátt í myndun Íslandshreyfingarinnar og enn klofnaði Frjálslyndi flokkurinn þegar Jón Magnússon sagði sig frá honum.

Af þessari upptalningu sést að stærð flokka skiptir ekki máli þegar um klofning þeirra er að ræða.

Flokkar utan fjórflokksins hafa lifað mislengi óklofnir, yfirleitt haldið saman í nokkur ár áður en klofningurinn varð.

Klofningur Borgarahreyfingarinnar er kannski hraðamet í klofningi nýs flokks og þess vegna þungbærari fyrir þann flokk en ella.   


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengi lifi besta eftirherma sem við höfum átt !

Við erum lánsöm þjóð, Íslendingar, að tveir af okkar fremstu gleðigjöfum, Jóhannes Kristjánsson og Hermann Gunnarsson skuli hafa verið úr helju heimtir eftir að hafa "dáið" hjartadauða.

Ég á sterkar taugar til beggja. Ég "vígði" Jóhannes sjö ára gamlan á skemmtun vestur á Núpi árið 1966 með því að skvetta óvart á hann úr koppi sem ég notaði í einu af atriðunum mínum þar sem ég lék Einar Olgeirsson að tala upp úr svefni.

Í lokaþættinum "Á líðandi stundu" var Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, aðalgestur, og þá sá ég mér leik á borði að fá Jóhannes til að herma eftir Steingrími.

Þarna sá þjóðin fyrst Jóhannes Kristjánsson fara á kostum þegar hann ekki aðeins hermdi eftir Steingrími, látbragði hans og rödd, heldur stældi líka undirskrift hans !

Þar gaf hann tóninn um það sem koma skyldi, því að aðall Jóhannesar hefur alltaf verið að lifa sig svo nákvæmlega og vel inn í þá sem hann er að túlka, að öllum hefur fundist að þeir væru þarna komnir sjálfir.

Jóhannes þarf aldrei að nota nein gervi, hann verður í smæstu smáatriðum að þeim sem hann hermir eftir. 

Það er erfitt að velja úr ef ætti að nefna þá persónu sem Jóhannes hefur náð best, svo vel hefur hann tekið fjöldamarga þekkta Íslendinga.

Ég get þó ekki stillt mig um að nefna það hvernig Jóhannes breytist bókstaflega í Alfreð Þorsteinsson þegar hann bregður sér í gervi hans án þess að nota nokkkuð annað en sig sjálfan.

Ég hef stundum sagt að hann er betri heldur en Alfreð sjálfur !  

Og ógleymanlegt er hvernig hann hermdi eftir Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur á sínum tíma.

Halldór Blöndal, Guðni Ágústsson, Ólafur Ragnar Grímsson, - þannig væri hægt að halda lengi áfram upp að telja, slíkur er fjöldinn sem Jóhannes hefur túlkað af snilld. 

Ég hef unnið með mörgum eftirhermum um tíðina, Allt frá Karli Guðmundssyni á sjötta áratugnum og Karli Einarssyni á þeim sjöunda. Karl Einarsson var gríðarlega góður og líkast til besta eftirherma sem við höfðum átt fram að því. 

En ég hygg að á engann sé hallað þótt ég segi að Jóhannes Kristjánsson hafi lyft þessari listgrein hærra en dæmi eru um. Því segi ég:    

Jóhannes Kristjánsson, - besta eftirherma sem við höfum átt, - hann lengi lifi, húrra ! Húrra ! Húrra !  


mbl.is Heppinn að vera á lífi eftir hjartaáfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er eina leiðin.

Strax í haust var ljóst að eitt meginverkefni ráðamanna Íslendinga og þjóðarinnar sem heildar var að útskýra hinar einstæðu aðstæður sem myndast höfðu í málefnum landsins og áttu sér ekki hliðstæðu að neinu leyti.

Greinar eftir þáverandi og núverandi forsætisráðherra hefðu átt að birtast í erlendum blöðum og full þörf hefði verið og er enn á fundum leiðtoga Íslendinga og nágrannalandanna.

Það hefur gengið allt of hægt að koma þessu af stað og framundan er margra ára öflug barátta í þessum efnum, barátta sem verður að vera í forgangi.


mbl.is Jóhanna á vef Financial Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem fann út að eitthvað væri að.

Á fundi sem ég átti með Viðskiptaráði á útmánuðum 2007 er mér eftirminnilegt þegar fulltrúi frá Marel á fundinum kvaðst hafa farið yfir reikninga Landsvirkjunar á milli tveggja tímapunkta þar sem gengi krónunnar og annað umhverfi fyrirtækisins var svipað.

Á milli höfðu liðið nokkur ár. Niðurstaðan var sú að fyrirtækið væri rekið með tapi og spurt var: Hvernig í ósköpunum má slíkt vera hjá fyrirtæki sem er nánast í einokunaraðstöðu á þessu tímabili og nýtur margs konar hagræðis og fríðinda af því að vera með ríkisábyrgð?

Skömmu áður hafði ég hitt mann með mikla kunnáttu á þessu sviði sem auðvitað vildi ekki láta nafns síns getið, en fullyrti að ef Orkuveita Reykjavíkur væri einkarekið fyrirtæki væri búið að reka yfirmennina.

Þessi lýsing virkar kannski ekki alveg eins beitt nú og þá í ljósi hrunsins en samt er ástæða til að spyrja krefjandi spurninga.

Vonandi verður á ný spurt spurninganna frá 2007 sem aldrei komust í hámæli ein eiga áreiðanlega fullan rétt á sér.


mbl.is Hörður stýrir Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leirhnjúkur og Gjástykki eru ein heild.

Jónína Bjartmarz, þáverandi utanríkisráðherra, og Jón Sigurðsson, þáverandi iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, héldu fjölmiðlafund skömmu fyrir kosningar 2007 og sýnd þar meðal annars þá tillögu sína að ekki yrði hróflað við neinu á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðinu nema að undangenginni ítarlegri og vandaðri rannsókn og sérstakri atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi. 

DSCF0542IMG_0405

 

Tveimur dögum fyrir kosningar (nógu seint til þess að enginn frétti það fyrr en eftir kosningar) gaf Jón Sigurðsson dæmalaust leyfi fyrir könnunarborunum í Gjástykki og nú má sjá þar þrjár holur með tilheyrandi raski og langri vatnsleiðslu.

Myndin hér við hliðina var tekin í Gjástykki í fyrrasumar.  

 

 

 

 

Ég hef margsinnis bloggað um þetta mál og sýnt fram á að nýjustu borholur Landsvirkjunar rétt hjá Leirhnjúki og fyrirætlanir um að fara inn með eldvirka svæðinu úr Kröflueldum í svonefndan Vítismó eru upphafið á harðri sókn Landsvirkjunar inn á þetta svæði, sem getur gefið ósnortið af sér miklu meiri tekjur og heiður fyrir þjóðina af sér heldur en með tvísýnni nýtingu sem í besta falli skapaði sárafá störf í álveri á Bakka.

(Sjá neðstu myndina hér á síðunni) 

 

Ævinlega er talað um Gjástykki eitt í þessu máli, en Leirhnjúkur og Gjástykki eru órofa heild hrauna, gíga og sprungna sem mynduðust í Kröflueldum líkt og Lakagígar eru ein heild, þótt helmingur þeirra sé sunnan við fjallið Laka og hinn helmingurinn fyrir norðan það og að ekki hafi gosið á sama tima á báðum endum.

Á neðstu myndinni sést hvernig sótt er áfram inn á milli hins magnaða sprengigígs Vítis og Leirhnjúks, en hinum megin við Víti er líka sótt fram og ætlunin að umkringja það algerlega inni í miðju iðnaðarsvæði. 

Þetta var aðferð vélaherdeildanna í heimsstyrjöldinni sem sóttu fram og mynduðu tangarsókn sem sem skapaði þeim sigur með því að lokað stóra heri inni og eyða þeim.  

p1010039_893706.jpg


mbl.is Landvernd vill friða Gjástykki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgir ekki línunum vinstri-hægri.

Sífellt koma fram ný og stór mál þar sem afstaða manna mótast ekki af því hvar þeir eru í litrófinu vinstri-hægri heldur af öðrum ástæðum.

Þannig hafa skoðanakannanir sýnt að umhverfismál fylgja ekki þessum línum nema að litlu leyti. Ákveðna umhverfisverndarsinna má finna jafnt yst úti á hægri vængnum sem á vinstri vængnum.

Hið stóra Icesave-mál er nýjasta birting þessa fyrirbrigðis og fundur VG um málið í Kraganum er gott dæmi um það. Skoðanir eru skiptar hjá fylgismönnum allra flokka og því erfitt að henda reiður á því hvaða áhrif þetta mál hefur á flokkakerfið og ríkisstjórnarsamstarfið.


mbl.is Fjölmenni á félagsfundi VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhjákvæmileg endalok?

P1010071P1010042P1010063P1010012

Á merkilegri ráðstefnu á vegum Verkfræðingafélags Íslands fyrir tuttugu árum var fjallað um þróun mála við Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Niðurstaðan var sú að óhjákvæmilegt væri að hin mjókkandi eiði, sem liggja nú orðið að brúnni yfir ána myndu eyðast og lónið breytast í fjörð, fullan af ísjökum, sem yrði mjög í líkingu við firðina á Grænlandi.

 

Ástæðan er sú að eftir að lónið myndaðist fer sá jökulaur, sem áin bar áður til sjávar og hélt þar með við strandlengjunni, sest nú að í lóninu djúpa.

 

 

 Þegar lónið væri orðið að firði yrðu afleiðingarnar tvenns konar:

1. Hringvegurinn rofnaði.

2.Saltur sjór kæmist að jöklinum og bráðnun hans yxi. Ísjakar bærust óhindrað út í sjó í miklu meiri mæli en nú er til trafala og hættu fyrir siglingar.

Það er mikið sjónarspil náttúrunnar sem á sér stað þarna um þessar mundir, og glögglega mátti sjá í ferð að lóninu fyrr í sumar.

Á ráðstefnu Verkfræðingafélagsins var rætt um ráð til að seinka fyrir þessari þróun með því að fylla upp í núverandi útfall og búa til annað austar eða vestar á sandinum, þar sem áin færi lengri leið til sjávar.

 

 

Því lengur sem drægist að gera þetta, því fyrr myndi hin óæskilega en óhjákvæmilega þróun hafa sínar slæmu afleiðingar á þessum stað.

 

Nú er spurningin sú hvort hér sé í uppsiglingu svipað "hrun" og varð hér í bankakerfinu, sem andvaraleysi muni flýta fyrir, rétt eins og þá gerðist.  


mbl.is Mikil átök og ofboðsleg högg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband