Verður að taka afleiðingunum.

Ef eitthvað er er ég Pool-ari en eingöngu vegna þess að mér finnst þeir vera með besta einkennislagið.

Engu að síður finnst mér að Joe Cole og félagið eigi að taka afleiðingunum af algerlega misheppnaðri tæklingu hans í leiknum í dag. 

Og raunar er ég þeirrar skoðunar að verði leikmaður fyrir meiðslum af völdum brots og verði frá keppni af þeim sökum eigi sá, sem braut á honum,  að fá jafn langt leikbann, þó ekki meira en sex vikur, sem er sá tími sem tekur menn að jafna sig eftir flest slæm meiðsli eða beinbrot. 

 


mbl.is Liverpool hyggst áfrýja rauða spjaldinu hjá Cole
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistarar augnabliksins. Besti kynnir heims?

Ljósmyndara, sem ná myndum sem skapa meiri hughrif en kvikmynd af viðkomandi atburðum, má kalla meistara augnabliksins.

Kvikmyndargerðarmönnum kann að þykja þetta ósanngjarnt en langoftast eru ljósmyndirnar afrakstur samblands af hæfileikum og mikilli vinnu. 

Nokkrar ljósmyndir má nefna, en myndin af því þegar sjóliðar reisa bandaríska fánann á efsta tindi Iwo Jima og myndin af Muhammad Ali þar sem hann stendur yfir Sonny Liston og manar hann til að standa upp eru ágæt dæmi. 

Þetta leiðir hugann að öðrum meisturum sem njóta sín á stuttum stundum sem einstaka sinnum eru nánast augnablik. 

Í nótt var hnefaleikakvöld í beinni útsendingu frá Montreal í Kanada sem stóð í margar klukkustundir. 

Einn maður var ómissandi á þessu kvöldi, kynnirinn Michael Buffer sem fengið hefur viðurnefnið "gullbarkinn". 466px-michael_buffer_fight_for_children_washington_dc_nov_2007.jpg

Hann hefur halað inn milljarða fyrir að segja nokkrar setningar á kvöldum eins og þessum.

Þar af hefur hann grætt meira en 50 milljarða bara fyrir einkaréttinn á einni fimm orða setningu.

Buffer er 66 ára gamall en lítur á skjánum út fyrir að vera miklu yngri. 

Við Bubbi komumst í námunda við hann fyrir bardagakvöld í Manchester fyrir allmörgum árum og í návígi er hann hvergi nærri eins flottur og á skjánum.

Það stafar mest af því að þegar hann er ófarðaður sést að hann er með grófa húð sem virðist vera afleiðing af gelgjubólum fyrr á tíð. 

En fas hans og útlit eru með þeim hætti að upp úr þrítugu fór hann að stunda módel-störf. 

Mörgum kann að finnast ósanngjarnt að maður, sem eitt sinn var bílasali, og hefur aldrei lært framsögn eða leiklist, skuli geta haft milljarðatekjur af því að segja nokkrar setningar í hljóðnema.

Það hlýtur að vera auðvelt líf og þægilegt að ferðast um til að gera ekki meira viðvik og vera heimsfrægur og góðkunningi þekktasta fólksins. 

En þetta er ekki svona einfalt. Buffer, "gullbarkinn" hefur að vísu einstaklega góða rödd, en margir fleiri hafa góðar raddir.  Og margir fleiri líta vel út.

Yfirburðir hans byggjast hins vegar á því að hvert orð, allt frá fyrsta orði, sem hann mælir af vörum, til hins síðasta, er afrakstur mikillar pælingar og úthugsaðrar nákvæmni. 

Snilldin er ekki aðeins flóð orða úr gullbarkanum heldur má segja að hún komi innan úr heilabúinu sem er á bakvið. 

Þar að auki eru höfuðhreyfingar og fas Buffers þannig að betur verður ekki gert. 

1984 fór Buffer að nota setninguna "let´s get ready to rumble!" og 1992 hafði hann fengið lögvarinn einkarétt á henni sem hefur fært honum miklar tekjur. 

Þegar maður hlustar á hann tala bæði á ensku og frönsku eins og í gær og íhugar hrynjandina, tónhæðina, áherslurnar og öll smáatriðin sem gerir framsögn hans að snilld, er ekki hægt annað en dást að því sem Buffer gerir svo vel, að mér er til efst að nokkurn tíma hafi verið uppi betri og flottari kynnir en hann. 

Að minnsta kosti hef ég heyrt í hundruðum þeirra í meira en hálfa öld og enginn þeirra kemst í námunda við gullbarkann. 

Sugar Ray Leonard hefur sagt að eingöngu það að vera kynntur af Michal Buffer vegi þyngra en flest annað til þess að fá upp bardagagleðina.

Og ekki spillir hvatningarhrópið fræga:  "...and now for the thousands in attendance and the millions watching around the world, - ee...let´s get ready to rumble...eeee!"

Lífskjör og hlutskipti fólks eru kannski ekki alltaf sanngjörn en á það verður líka að líta að ein kynning sem framkvæmd er af þessum meistara vegur þyngra allar hinar til samans. 

Hún mun lifa um aldir á þegar allar hinar verða löngu gleymdar. 


mbl.is Þvílíkur koss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldur er afstæður.

Akstur Magnúsar Þórs Helgasonar hringinn sýnir að aldur er afstæður og að það fer meira eftir hugarástandi hvers og eins en líkamlegu ástandi í hvaða formi þeir eru.

Af fréttum af akstri hans og líferni öllu að dæma leggur hann mikið upp úr því að vera í akstursþjálfun og notar öll tiltæk ráð til að halda heilbrigðri og ungri sál í hraustum líkama.

Því miður verður ekki það sama sagt um alla í umferðinni. 

Nú nýlega átti ég leið suður til Keflavíkur og lenti þá í halarófu á eftir lestarstjóra sem ók á 60 kílómetra hraða þar sem 90 km hraði er leyfilegur. Allan kaflann, sem vegurinn var einbreiður, hélt þetta andlega gamalmenni þessum lága hraða, greinilega ófær um að stjórna bíl í umferðinni. 

Ekki datt honum í hug að hnika bílnum til út á vegöxlina til að liðka til fyrir þeim sem á eftir honum fóru. 

Hann var á nýlegum jeppa og greinilega ekkert að bílnum.

Það er sérlega bagalegt þegar svona gerist á þessum vegarkafla því að um hann eiga leið á ákveðnum tímum sólarhrings rútur og bílar með fólki sem þarf að komast á tilsettum tíma suður á Keflavíkurflugvöll.

Þarna er það fjölfarið á álagstímum að engin leið er að fara fram úr, einkum ef við stýrið á bíl númer tvö í röðinni er álíka örvasa bílstjóri, einn af þessum sem hægir ferðina niður í 40 í aflíðandi beygjum Kambanna og stendur á bremsunni allan tímann. 


mbl.is Ók hringinn á tíræðisaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkindareikningur.

Á hverjum degi lýstur niður milljónum eldinga í heiminum. Það sem er að gerast á jörðinni er byggt upp á trilljónum eða nánast óteljandi einstökum atvikum sem um gilda lögmál líkindareiknings.

Frægt er þegar sjóliði á herskipi stillti sér strax upp í gati á skipinu, sem kúla frá skipi andstæðinganna hafði myndað, á þeim forsendum að líkindin á því að önnur kúla hitti skipið á sama stað væru svo sáralítil. 

Sömuleiðis fögnuðu sumir félagar mínir í rallnu því þegar ég kom heim frá HM í ralli í Svíþjóð 1981 og greindi þeim frá því að ég hefði fengið upplýsingar um útreiknaða hættu í ralli sem svaraði til þess að á Íslandi gæti orðið eitt banaslys í ralli á öld. 

Fögnuðurinn minnkaði þegar ég benti á að þetta dauðaslys gæti alveg eins orðið í næsta ralli eins og etir 100 ár. 

Fyrir um þrettán árum náði ég myndskeiði af hruni úr Kverkjökli yfir stað sem ég stóð á nokkrum mínútum fyrr og hægt var að reikna út að líkurnar á því að ná þessu myndskeiði var einn á móti mörgum tugum milljóna. 

Engu að síður náðist þetta myndskeið sem og svipað myndskeið af hruni ísturns í Grímsvötnum 2004. 

Ótal svona tilviljanir sanna ekki neitt út af fyrir sig, hvort sem það er byggt á svonefndri hjátrú eða öðru. 

En þær geta samt fengið okkur til að íhuga hvort um tilviljanir hafi raunverulega verið að ræða. 

Ég hef verið beðinn um að koma í rannsókn til að varpa ljósi á það af hverju lifrin geti skaðast og brugðist þegar gefin eru sterk lyf.  Þetta er gert í framhaldi af lifrarbresti hjá mér með stíflugulu sem olli ofsakláða og svefnleysi í þrjá mánuði 2008. 

Í bréfinu til mín er sagt að þetta sé afar fátítt. 

Mér finnst hins vegar einkennileg tilviljun að á örfáum vikum sem liðu frá því ég varð fyrir þessu kom í ljós að fjórir einstaklingar úr hópi nánustu vina og kunningja minna í kringum mig höfðu orðið fyrir þessu.  

Okkur Helgu var sagt þegar við eignuðumst son með klofinn hrygg 1967 að það væri alger tilviljun. 

Samt hafði elsti bróðir hennar fæðst fatlaður af því að einn hryggjarliður var opinn. 

16 árum síðar eignaðist dóttir okkar son með klofinn hrygg sem dó eftir nokkra daga. 

Þar með gat þetta varla lengur verið tilviljun og rannsókn leiddi í ljós tvær andvana fæðingar bróðurdætra Helgu og hugsanlega eitt fósturlát vegna klofins hryggjar. 

Nokkrum árum síðar var stofnuð sérstök erfðafræðirannsóknarstofa í Bretlandi og voru Helga og synir okkar Örn og Þorfinnur viðstödd þegar Sara Ferguson opnaði hana. 

Þar voru stundaðar erfðafræðirannsóknir sem voru undanfari hins stórmerka starfs Kára Stefánssonar. 

Líkindareikningur er heillandi og nauðsynlegur til þess að átta sig á heiminum og fyrirbærum hans.

Líkurnar á því að nákvæmlega sú sæðisfruma, sem varð helmingurinn af okkur við getnað yrði sú sem síðan stóð fyrir fjölguninni sem gerði okkur að því sem við erum, var einn á móti tugum milljarða. 

Miklu skiptir að greint sé á milli hvort um hreinar tilviljanir er að ræða sem sanna ekkert eða hvort um raunverulegt orsakasamhengi sé að ræða. 

Í lífi mínu hefur ýmislegt gerst sem erfitt er að flokka undir tilviljanir þótt ekkert verði sannað í því efni.

Það gæti orðið efni í annan pistil. 

 

 


mbl.is Varð fyrir eldingu klukkan 13:13 föstudaginn 13.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannanöfn og mannréttindi.

Það er furðu algengt að foreldrar telji það aðeins vera sitt einkamál hvaða nafn þeir velja á afkvæmi sín.

Allt of oft gleymist að það eru mannréttindi hvers barns að heita nafni sem ekki gerir því lífið erfitt eða allt að því óbærilegt. 

Afkáraleg eða sérkennileg nöfn geta orðið tilefni til eineltis og stríðni sem misjafnt er hvernig ungar og viðkvæmar sálir þola.

Ég verð til dæmis ævinlega þakklátur foreldrum mínum að skíra mig ekki Ólaf og til stóð vegna þeirrar áhættu að ég yrði kallaður Óli rauði. 

Enginn átti von á því að ég yrði rauðhærður, hvað þá með eldrautt passíuhár sem eitt út af fyrir sig skapaði talsvert áreiti. 

Í stað þess var ég skírður Ómar en það var svo sjaldgæft nafn þá að mér fannst á barnsaldri viðbrögð margra við því vera óþægileg og óskaði þess jafnvel stundum að ég héti algengari nafni.

Þetta lagaðist fljótlega eftir því sem fleiri fengu þetta nafn.

Þess utan er hinn íslenski mannanafnasiður að kenna fólk við foreldri fremur en ætt nokkuð sem margir útlendingar öfunda okkur af og er mikilvægur hluti íslenskrar menningar og sjálfstæðis. 


mbl.is Hvernig er hægt að skíra barnið sitt þetta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risinn er veikur.

Bandaríkin hafa borið ægishjálm yfir önnur ríki heims hvað snertir framleiðslu og stærð hagkerfis í hátt í eina öld.

En margt af því sem hrjáir bandarískt hagkerfi nú minnir á ástand stórvelda fyrri alda sem áttu sér sögu ris, veldistíma og falls. 

Margir hagspekingar hafa séð hvernig veldi BN byggist á brauðfótum skuldasöfnunar og annarra atriða sem sýna gerviveldi. Þeir hafa spáð að ekki verði í hið óendanlega frestað hnignun hins mikla risaveldis og nú er að sjá hvort þessar spár muni rætast. 


mbl.is Efnahagslægð yfirvofandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfar var magnaðri.

Sagan af norska lækninum sem stakk af frá læknavakt til að fara á rokktónleika minnir á söguna af Úlfari Þórðarsyni augnlækni sem var vinsæll og eftirsóttur sem augnlæknir á sinni tíð. 

Afar fjörugur, lífsglaður og skemmtilegur maður Úlfar.

Hann hafði gaman af því að spila badminton en eitt sinn vildi svo illa til að mikilvæg viðureign var á sama tíma og viðtalstíminn á biðstofunni hjá honum.

Úlfar dó ekki ráðalaus en hafði með sér íþróttatöskuna á biðstofuna.

Þegar tíminn var kominn tók hann einn viðskiptavininn inn á stofuna, læsti henni og bauð manninum samkomulag sem hann gæti ekki hafnað um að vera inni í herberginu þangað til hann kæmi aftur eftir að hafa skroppið frá smástund.

Skyldi maðurinn gæta þess að opna ekki fyrir neinum en fengi í staðinn vildarmeðferð ókeypis.

Smeygði Úlfar sér síðan samkvæmt sögunni eldsnöggt út um gluggann, þeysti til íþróttasalarins þar sem hann tók spilaði leikinn og kom síðan til baka sömu leið og hann hafði farið.

Þá kláraði hann að skoða undrandi manninn, sem spurði hvernig honum hefði dottið í hug að komast upp með þetta.

Svar Úlfars var víst svipað og hins norska starfsbróður hans. "Þetta er nú einu sinni biðstofa og fólk er því vant því að bíða." 


mbl.is Hvort eð er alltaf biðröð á læknavaktinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að láta sem ekkert C.

"Látum sem ekkert C" var heiti á plötu Halla og Ladda á sinni tíð. Þetta er ein af mörgum merkingm ensku sagnarinnar ignore og nafnorðsins ignorance en á íslensku vantar orð sem hefur svipaða merkingu.

Þrátt fyrir allt tal um upplýsingaöld og tíma gegnsæis virðist lítið breytast. Ignorance er og verður ávallt dýrmætt haldreipi ráðamanna og ráðandi afla, sem kjósa fáfræði,  að þykjast ekki vita, vilja ekki vita, þagga niður, fela, láta sem ekkert sé, vikja til hliðar, stinga undir stól o. s. frv.

Á því sviði sem ég hef mest kynnt mér á fréttamannsferli mínum, virkjanamálunum,  hefur ignorance, þöggun og upplýsingaleynd verið drýgsti þátturinn fyrir ráðandi öfl til að koma málum sínum fram. 

Höfuðatriðið hefur verið að leyna náttúruverðmætum sem fórna þarf vegna virkjana.

P1012677

Nú síðast í gær fór ég í ferð með tveimur af landeigendum Reykjahlíðar við Mývatn til að sýna þeim helstu náttúruundur Gjástykkis, sem þeir höfðu aldrei litið augum, hvað þá venjulegir ferðamenn við Kröflu sem bægt er frá aðgengi með læstu keðjuhliði.

Sjálfur uppgötvaði ég ekki staðinn sem myndin er af fyrr en fyrir þremur árum.

Þarna kom upp nýtt land í september 1984 þegar Ameríka, til vinstri á myndinn, og Evrópa, til hægri, færðust hvort frá öðru og var færslan nokkrir metrar. 

Við það óx land Reykjahlíðar um ca 60.000 fermetra eða sex hektara ! 

 Ignorance virðist vera smitandi og þeir sem þeir sem hagnast á fáfræði vita að flestum finnst best að vísa frá sér óþægilegri vitneskju og skáka í skjóli fáfræðinnar.

Kristur sagði: "Fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera."  

Á timum upplýsinga myndi hann segja: "Fyrirgef þeim þótt þeir vilji ekki vita hvað þeir gjöra." 

 


mbl.is Upplýsti yfirmenn sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur lengi loðað við.

Það hefur lengi loðað við ferðir landans inn í óbyggðir að það slaknar á aðhaldi hvað snertir neyslu áfengis.

Um það þekkjast mörg dæmi og er skemmst að minnast þegar Ferozajeppi, sem ég átti og stóð inni á Brúaröræfum í snjó í apríl-maí 2006 var stórskemmdur með grjótkasti og barsmíðum. 

Ég á erfitt með að ímynda mér að allsgáðir menn hafi gert það, en þó veit maður það svosem ekki. 

Þeir sem á annað borð finna afslöppun í því að fá sér neðan í því finnst þeir vera frjálsari og óhultari fjarri byggðum en í byggð.

Raunar er þetta fyrirbrigði þekkt allt frá árdögum bílaaksturs þegar það þótti ekkert tiltökumál að fá sér "hressingu" fyrir vandasaman akstur yfir ár eða um krókótta bratta og mjóa vegarkafla eins og Kambana. 

Það var bara eðlilegt framhald af því að gera svipað á slarksömum hestaferðum um landið um aldir.

Það er hins vegar sjálfasagt mál að láta þetta ekki viðgangast lengur heldir gildi svipað um akstur vélknúinna tækja um óbyggðir og í byggð. 

Það kostar að vísu meira að nota þyrlu í þessu skyni eða senda lögreglumenn um langan veg til eftirlits en rétt er að eitt gangi yfir alla. 


mbl.is 36% ökumanna undir áhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spánska veikin drap meira en þúsund sinnum fleiri.

Í ljós hefur komið að það var vægast sagt hæpið að nefna svínaflensuna og spönsku veikina í sömu andrá eins og gert var í upphafi faraldursins.

Spánska veikin drap fleira fólk en féll í fyrri heimsstyrjöldinni, svo skæð var þessi drepsótt. 

Þótt skæður sjúkdómsfaraldur sé aldrei smámál hefur komið í ljós að lyfjaframleiðendur nýttu sér hræðslu fólks við svínaflensuna langt úr hófi fram og græddu á því. 

Kannski var skárra að of en van í því efni en alnæmi og fleiri sjúkdómar, sem hrjá mannfólkið, eru mun alvarlegri vandamál en svínaflensan varð nokkurn tíma. 

Slæmu fréttirnar voru að þessi faraldur reyndist óstöðvandi. En það á alltaf að líka líta á björtu hliðarnar. Góðu fréttirnar voru þær að þessi tegund flenstu reyndist langt frá því eins hættulegur og menn óttuðust og ekki mikið skæðari en margir faraldrar svipaðrar gerðar sem farið hafa um heiminn hinn síðari ár. 


mbl.is Svínaflensufaraldrinum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband