RAMMSKAKKUR!

George Michael hefur annað hvort aldrei heyrt minnst á AA-samtökin og tólf spora meðferðina eða að hann bæir niður alla þá vitneskju sem hann gæti haft um það að þegar menn hafa ekki stjórn á neyslunni er ekki um annað að ræða en að fara í meðferð og hætta henni alveg. Fáfræði um jafn mikilvægt mál og fíkn er sorglega mikil. 
mbl.is George Michael segist vilja nota minna marijúana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RAUÐKU-HÚSIÐ SEM FÓR FORGÖRÐUM.

Ýmsir dragbítar hafa verið á það hér á landi að menn reyndu að átta sig á því hvað séu merkar minjar. Oft verða slys á þessu sviði vegna þess að ekki er nægur skilningur á því að um síðir verða allir hlutir fornminjar og að tímabil með hápunkti á miðri síðustu öld er einstakt í Íslandssögunni vegna þess að á þeim tíma urðu fleiri "kynslóðaskipti" í hlutum en höfðu átt sér stað á þúsund árum á undan.

Sem dæmi má nefna hvernig heyvinnutæki breyttust úr tækjum, knúnum af hestum í bensínknúin og síðan dísliknúin tæki.

Hvað bíla snertir hefur mér fundist mönnum sjást yfir þann hluta þeirra sem Íslendingar sjálfir smíðuðu.

Hreintrúarmenn um fornbíla meta að sjálfsögðu mest þá bíla sem eru nákvæmlega eins og framleiðendurnir gengu frá þeim en þá vill gleymast að t.d. yfirbyggingar og breytingar á bílum eru íslenskar menningarminjar.

Fyrir 24 árum lá við að Ford A-módel sem hafði verið sem afgreiðsluborð í Karnabæ yrði á glæ kastað en mér tókst að krækja í hann og nú er hann í eigu ágæts manns í Árnessýslu sem vonandi tekst að gera hann upp í upprunalegt "íslenskt" horf fyrir árið 2013 þegar öld er liðin frá því að hin raunverulega samfellda bílaöld hófst á Íslandi.

Það sem var merkilegt við þennan Ford var húsið, en það var svokallað hálfkassahús, þ.e. byggt var stutt hús ofana á grindina en síðað settur lítill pallur fyrir aftan það. Þetta var nokkurs konar íslenskur Toyota Hi-lux síns tíma. 

Þegar ég var að sinna Skíðalandsmótinu á Siglufirði 1973 hafði ég til umráða Willys-jeppa með svonefndu Rauðkuhúsi, - nafnið auðvitað borið fram á hánorðlenskan hátt: Rauð-ð-ð-ðku-hús!

Þetta var dásamleg útfærsla. Bíllinn hafði verið lengdur og smíðað yfir hann hús, en í stað þess að lengingin væri notuð með því að hafa farangursrými aftan við aftursætið, - var aftursætið fært langt aftur að gafli og sömuleiðis hægra framsætið, þannig að stórt, autt rými myndaðist fremst hægra megin í bílunum.

Þar gengu farþegar inn í hann eins og rútu, fóru fram hjá hægra framsætinu og settust aftur í.

Þetta yndislega frumlega hús hefði skilyrðislaust átt að varðveita og á sama hátt sem ég er ánægður með það að hafa bjargað Karnabæjarbílnum skammast ég mín mikið fyrir það að hafa látið jeppann með Rauð-ð-ð-ku-húsinu fara forgörðum.

Vel á minnst, Rauðka var gælunefni á Síldarverksmiðjunni á Siglufirði hér í den en þar voru þessi hús víst smiðuð.

Nú þarf að gera úttekt á þeim tréhúsum sem byggð voru yfir bíla og varðveita helst eitt stykki af hverju.

Á jeppunum voru þetta hús gerð hjá Agli Vilhjálmssyni, Kristni Vagnasmið, Stilli og ýmsum fleirum.

Undanfarin ár hef ég átt Willys 67 sem bíl til að grípa í við Akureyrarflugvöll. Ekki er alveg ljóst hver smíðaði húsið á hann, þótt Egill Vilhjálmsson sé líklegastur. Þessi bíll er nú hér fyrir sunnan Hafnarfjörð með bilaðan startara og líklega einn útblásturventi óvirkan en að öðru leyti gangfær. 

Þótt það virðist kannski ekki ýkja dýrt að varðveita fornbíla safnast sá kostnaður þegar saman kemur, einkum ef bílarnir eru fleiri en einn. Ég ætla því að nota þetta tækifæri og spyrja hvort einhver hafi áhuga á að taka þennan bíl að sér þangað til séð verður hve mikils virði hann er.  

Ég má til með að minnast á bíl sem ég tel að alls ekki megi fara forgörðum: Broncó-jöklajeppi Birgis Brynjólfssonar, "Fjalla" er einstök smíð sem ekki má fara á vergang þegar fram líða stundir. Hann leikur aðalhlutverkið í nokkrum af sjónvarpsþáttum og fréttum, t.d. þættinum "Fólk og firnindi, - Flökkusál."  

 

 


mbl.is Soffíu bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á RÉTTRI LEIÐ.

Fréttin um jarðvarmaverkefnið í Afríku er einhver ánægjulegasta frétt sem ég hef lengi heyrt því að svona útrás var eitt helsta áhersluatriði Íslandshreyfingarinnar frá upphafi. Þegar ég flaug lágt á lítilli flugvél yfir þvera og endilanga Eþíópíu á sínum tíma opnaði það mér alveg nýja sýn. Við blasti að þetta örfátæka land býr yfir mikilli orku sem hægt yrði að nýta með miklu minni umhverfisáhrifum en hér á landi. 

Að meðaltali hefur hver Eþíópíubúi aðeins 0,5 prósent af meðaltekjum hvers Íslendings. Hungur, fátækt og misskipting auðs eru í raun stærsta vandamál og skömm mannsins. Um allt landið mátti sjá fólk í strákofum þar sem reykurinn stóð upp úr eldstæðum bláfátæks fólks. 

Hvert megavatt sem virkjað er í þriðja heiminum skilar fólkinu þar svo margfalt meira verðmæti á hvern mann en hér á landi að ekkert getur að mínum dómi réttlætt þá sjálfhverfu hugsun sem falist hefur í ríkjandi stóriðju- og virkjanastefnu.

Þessi útrás til hjálpar þurfandi heimi og til gagns fyrir baráttuna gegn afdrifaríkum loftslagsbreytingum gerir margt í senn. Hún verður okkur til sóma og gagnast þeim þjóðum sem mest þurfa á því að halda  að njóta nýrrar orkuöflunar. Hún færir okkur þakklæti og virðingu. Auk þess munum við sjálfir hagnast ríkulega.

Íslensk náttúra hefur svipaða sérstöðu gagnvart náttúru annarra landa og frægustu myndastytturnar hafa gagnvart hversdagslegri hlutum úr sama efni, - eða til dæmis hvolfþök frægustu bygginga hafa gagnvart hversdagslegri munum úr kopar.

Ef skortur væri á kopar í heiminum, myndu menn þá byrja á því að taka koparinn úr hvolfþökum frægustu kirknanna og bræða hann?

Eða bræða fyrst frægustu stytturnar? 

Því hefur verið haldið á lofti að við verðum að virkja af kappi hér heima til þess að viðhalda tækniþekkingunni og bæta hana. Þetta hljómar í mínum eyrum líkt og að segja, að ef lækni í Grímsey hafi tekist að finna upp nýja aðferð við skurðlækningar þá verði hann að viðhalda þessari þekkingu með því að  hamast  fyrst og fremst á fólki þar, - annars missi hann tæknilegt forskot sitt. 

Auðvitað er þetta öfugt, - og tækniforskotinu í virkjun jarðvarma verður best viðhaldið með því að reyna aðferðina sem víðast við mismunandi aðstæður þar sem þörfin er líka mest.

 


mbl.is REI hyggst verja níu milljörðum til jarðvarmaverkefna í Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VÖNDUM OKKUR GAGNVART ÞINGVALLAVATNI.

Sú meginregla í umhverfismálum var tekin upp á Ríó-ráðstefnunni 1992 að þegar vafi léki á um umhverfisáhrif framkvæmda ætti náttúran að njóta vafans. Fimmtán árum síðar virðist það sjaldgæft að þetta gildi hér á landi. Álit fremstu sérfræðinga um Þingvallavatn hringir Ríó-bjöllum hjá mér og mér finnst að horfa eigi aðeins lengra fram í tímann, þó ekki sé nema örfá ár, áður en farið er út í gerð hraðbrautar úr austurhátt inn í þjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO. 

Talað er um hagsmuni tveggja eða þriggja skólabarna sem eigi að valta yfir náttúruverndarsjónarmið sem varða eina heimsminjasvæðið á Íslandi.

Mín tillaga er þessi: Föllum frá gerð þessa vegar og endurbætum Kóngsveginn gamla heldur hæfilega mikið.  Hægt er að hækka hann lítillega á þeim stuttu köflum sem snjór sest í á vetrum svo að hægt sé að halda honum opnum allt árið án þess að þar verði um þunga hraðkeyrslu i gegn að ræða.

Útsýnið af þessum vegi er miklu betra en af hinum nýja vegi.

Hröðum framkvæmdum við tvöföldun Suðurlandsvegar og notum féð sem hefði farið í nýjan veg um norðanverða Lyngdalsheiði til gerðar 2 - 1 vegar frá Selfossi í Grímsnes.

Skólabörnin munu áfram komast stystu leið í skólann, hæfilega hröð ferðamannaleið verða árið um kring eftir Kóngsveginum og hröð, greið og örugg umferð tryggð frá uppsveitum Árnessýslu til Reykjavíkur.

Látum Þingvallavatn njóta vafans og skilum því til kynslóða framtíðarinnar með öryggi og sóma.   


mbl.is Beiðni um endurupptöku kærumáls vegna Gjábakkavegar synjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BJÖRN BJARNASON, ÞÓRUNN OG ÁRÓSASAMNINGURINN.

Á fundi Framtíðarlandsins um Árósasamninginn í gær kom fram hve við Íslendingar séum miklir eftirbátar nágrannaþjóða okkar í virku lýðræði varðandi umhverfismál og að einstakir ráðherrar eins og Björn Bjarnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir geti ráðið miklu þar um, til dæmis með því að beita sér fyrir fullgildingu svonnefnds Árósasamnings og að endurbæta íslenskan efnisrétt um umhverfismál.

Í fyrirlestri Aðalheiðar Jóhannsdóttur kom fram að þær reglur ESB sem séu hliðstæðar og undanfari Árósasamningsins hafi meðal annars verið settar til að knýja fyrrum austantjaldsþjóðir til að bæta úr skorti á lýðræði í þessum málum og auðvelda ráðamönnum þar að skipa málum þannig að lokaákvarðanir þeirra byggist á bestu fáanlegu upplýsingum og skoðanaskiptum. 

Nú er staðan hins vegar þannig að Íslendingar draga lappirnar í þessum málum á sama tíma og allar aðrar Norðarlandaþjóðir og jafnvel austantjaldsþjóðir hafa samþykkt svona ákvæði. Alls 41 þjóð hefur fullgilt Árósasamninginn. 

Hér heima skortir að dómi Aðalheiðar mikið á að svonefndur efnisréttur sé virkur. Þess vegna verði að fara dómstólaleið á fleiri málum hér en erlendis og þar sé mikið ójafnræði með aðilum því að stjórnvöld og ráðamenn hafi þar yfirburði.

Í Árósasamningum eru ákvæði um að ríkisvaldinu sé skylt að styrkja fjárhagslega viðurkennda andmælendur í álitamálum og þar er kannski um að ræða mikilsverðasta efni samningsins. 

Þess vegna eru margföld ástæða til að velta vöngum yfir afstöðu Björns Bjarnasonar í þessu máli. Vitað er um áhuga í röðum Samfylkingarfólks um að fullgilda samninginn en á sama hátt virðist Björn ekki hrifinn af því að sauðsvartur almúginn hafi sig mikið í frammi. Hvers vegna segi ég það?

Jú, á fundinum í gær kom fram í máli pallborðsmanns að Björn hefði þrengt ákvæði um gjafsókn en það gerir samtökum, félögum og einstaklingum erfiðara að leggja út í dýr dómsmál, - einnig að það væri fyrst og fremst Björn sem drægi lappirnar í því að fullgilda Árósasamninginn.

Björn er dómsmálaráðherra og hefur því talsvert um þetta mál að segja. Í nágrannalöndum okkar er svonefndum efnisrétti mun betur fyrir komið en hér, - þar eru ákvæði um efnistök, skilyrði, málsmeðferð og úrskurðarnefndir sem auðvelda miðlun upplýsinga og skoðana áður en koma þurfi til kasta dómstóla.

Maður hefði ætlað að dómsmálaráðherra væri því fylgjandi að létta álagi af dómstólum landsins og stuðla að lagabreytingum sem efla lýðræði og möguleika á niðurstöðum í erfiðum málum áður en í óefni er komið.

Björn var einn harðasti gagnrýnandi alræðis og ofríkis miðstjórnarvaldins í Austur-Evrópu á tímum kalda stríðsins og ætti því að fagna umbótum á íslensku réttarkerfi í anda lýðræðishugmynda sem eiga uppruna sinn í landi frelsisins, Bandaríkjunum. 

Ég á erfitt með að trúa því að hann dragi lappirnar gagnvart nútíma hugmyndum um upplýsingu, lýðræði og umhverfsmál sem jafnvel fyrrum austantjaldsþjóðir hafa tekið upp.

Ég lýsi því eftir afstöðu Björns Bjarnasonar í þessu máli svo að það liggir fyrir hvar hann stendur.   


HVAR LIGGJA ÞRÁHYGGJAN OG ÓHÓFIÐ?

Í gær var liðið rétt ár frá því að Jökulsárgangan var farin um Reykjavík. Síðan þá hafa sumir talað um þráhyggju mína varðandi Kárahnjúkavirkjun og önnur virkjanamál. Þessir menn ættu frekar að huga að stanslausum fréttum daglega um þessi mál sem ég stjórna ekki. Í kvöld var til dæmis rakið í Sjónvarpsfréttum að tólf stóriðju og hátæknifyrirtæki stæðu í viðræðum um kaup á orku.

Fyrr í dag var fjallað í fréttum um vatnalögin og eignarhald orkulindanna, - í gærkvöldi kom í ljós í viðurkenningu sérfræðings hjá Veðurstofunni það sem menn áttu erfitt með að trúa úr bloggi mínu á dögunum um það að Hálslón kæmi af stað skjálftum og kvikuhreyfingum við Upptyppinga, - daglega hafa verið fréttir um vandræði vegna lögleysu sem erlendir starfsmenn við Kárahjúka hafa verið beittir, - daglegar fréttir hafa verið af því hvernig kostnaður við Kárahnjúkavirkjun fer sífellt meira fram úr áætlun og verkið tefst meira og meira.

Þeir sem kvarta yfir "þráhyggjunni" sem birtist í þessu gera það vegna þess að þeim er illa við að upplýst sé um gang þessara mála, - þessi veruleiki er óþægilegur fyrir þá, sá veruleiki að stefnt er að því að fórna ómælanlegum náttúruverðmætum landsins fyrir þessi tólf fyrirtæki sem bíða eftir því að nær allri virkjanlegri orku landsins verði sóað á tiltölulega stuttum tíma. 

Það er sá veruleiki sem smám saman birtist varðandi það að Kárahnjúkavirkjun verður byrði á kynslóðum framtíðarinnar og að 130 milljörðum króna hefði verið betur varið í annað.

Ég vitna í svar mitt hér að neðan við athugasemdum um það hvort við sem andæfum gætum ekki hófs. 

Það sem hefur áunnist á því ári sem liðið er frá Jökulsárgöngunni er það að smám saman er að varpast á það ljós hvernig í pottinn er búið í virkjana- og orkumálum.

Í stað þess að þeir sem hafa yfirburðastöðu í þjóðfélaginu hvað varðar völd, áhrif og fjármagn til þess að keyra virkjanafíknina í botni geti ráðið því hvað fólk veit eða talar um hefur verið haldið á lofti eins mikilli upplýsingagjöf og umræðu um þessi mál og vanburða samtök náttúruverndar- og umhverfisverndarfólks hafa getað staðið að.

Tilviljanir ráða oft um hlutina. Í veðri eins og var í gærkvöldi hefði að öllum líkindum færra fólk farið í gönguna miklu en var í blíðunni fyrir réttu ári.

Á hinn bóginn hefði gangan fengið meiri athygli og umfjöllun á sínum tíma ef ekki hefði viljað svo til að sama dag var það endanlega tilkynnt að varnarliðið færi af landi brott og í dag var a. m. k. einn fjölmiðill með frétt í tilefni af þessu ársafmæli brottfararinnar.

Framundan er hörð barátta og erfið því að liðsmunurinn er mikill. Framtíðarlandið ætlar einmitt að fjalla um eina hlið þess máls á fundi á morgun, þá staðreynd að Íslendingar hafa einir þjóða í þessum heimshluta ekki staðfest Árósasamkomulagið um stuðning við þá sem þurfa að heyja kostnaðarsama baráttu til að verjast ofurefli valda og fjármagns þeirra sem keyra áfram stóriðjustefnuna.

Það er af nógu að taka í þessum málum og umhverfismálin verða ekki þögguð niður þótt margir eigi þá ósk heitasta að það verði gert.  

 


ÓNOTAÐIR MÖGULEIKAR DAGSINS Í DAG.

Við ættum að fara að hugsa til útrásar í norðurátt ekki síður en til annarra átta. Fleira getur hangið á spýtunni en olíuvinnsla og nýjar siglingaleiðir sbr. næstu bloggfærslu á undan þessari: "200 mílna ferðamannaandhelgi?" 
mbl.is Eru norðurslóðir land tækifæranna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

200 MÍLNA FERÐAMANNALANDHELGI?

Ég hef stundum sagt í gamni að við Íslendingar ættum að taka upp nokkurs konar 200 mílna ferðamanna"landhelgi" og opna þar með stórkostlegt ferðamannasvæði handan við Grænlandssund, - að sjálfsögðu í samvinnu við Grænlendinga og í mesta bróðerni. Ég hef þrisvar farið í ferðir yfir að Blosserville-ströndinni sem er aðeins rúmlega 280 kílómetra frá Hörnströndum og hrifist ákaflega af landslagi sem er svo hrikalegt að þegar komið er til baka segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís - hvað?" 

Fyrir innan Blosserville-ströndina rísa fjöll til himins sem eru allt að 3700 metrar yfir sjó eða sjö sinnum hærri en Hornbjarg, nær fjórum sinnum hærri en hinir svonefndu "Vestfirsku Alpar", næstum tvöfalt hærri en hæstu fjöll Íslands og Skandinavíu og banka í sjálf Alpafjöllin. 

Firðirnir eru jafningjar norsku fjarðanna að hrikaleik og hafa, ásamt sæbrattri strönd, stórbrotið landslag hafíss og jökla fram fyrir íslenska og norska firði.

Ég hef einnig farið landleið yfir Grænlandsjökul og óravíddir hans eru ólýsanlegar. Miðað við hann er Vatnajökull nánast eins og skafl, - 200 sinnum minni að flatarmáli og með þúsund sinnum minna rúmmál. 

Sá markhópur ferðamanna sem stækkar mest í heiminum eru þeir sem sækjast eftir lífsreynsluferðum undir kjörorðinu: "Get your hands dirty and your feet wet."

Eini raunverulegi keppinautur Grænlands er Suðurskautslandið sem er margfalt fjarlægara.

Þegar dregin er lína leiðar evrópskra ferðamanna til þessa hluta Grænlands liggur hún yfir Ísland. Frá Ísafirði eru aðeins rúmlega 300 kílómetrar að Grænlandsströnd. Frá Nuuk eða Narsassuak eru meira en 1200 kílómetrar og það úr öfugri átt ef miðað er við ferðamenn frá Evrópu.

Flugvélum er hægt að lenda á tvennan hátt Grænlandsmegin, - skíðaflugvélum uppi á jöklinum og landflugvélum í Sördalen sem er við suðurmörk Blosserville-strandar.

Snjallir flugmenn á Akureyri hafa reynslu af að lenda 19 farþega Twin Otter skíðaflugvélum á jöklinum en einnig hafa bandarískir herflugmenn æft lendingar á stórum Herkúlesvélum við yfirgefna ratsjárstöð sunnar á miðjum jöklinum.

Á sínum tíma notuðu Loftleiðir fragtflutningagerð af Canadair CL-44 skrúfuþotum til farþegaflugs og voru eina flugfélagið í heiminum sem gerði það. Tæknilega ætti að vera hægt að útbúa vélar á stærð við Herkúles til að lenda með farþega á jöklinum.

Grænland er í bókstaflegri merkingu stærsti og nálægasti leyndardómur mögulegs ferðaþjónustusvæðis fyrir íslenska útrás.

Ef farið verður að bora eftir olíu undan ströndum Austur-Grænlands mun það beina ljósinu betur að þessu svæði sem sefur við bæjardyr okkar.

Í raun er það aðeins í þrjá mánuði  á veturna sem myrkur kemur í veg fyrir ferðir að ströndinni. Fyrir nokkrum árum flaug ég á einshreyfilsvél í nóvember upp að Blosserville-ströndinni og það er einhver eftirminnilegasta flugferð sem ég hef farið.- slíkir voru ógnvekjandi töfrar heims hafíss, stórhrikalegra fjalla og jökla, rökkurs og kulda sem er nánast steinsnar undan Hornströndum.

Þetta er upplifun sem bíður þess að vera nýtt sem öðruvísi og einstök ferðamennska. 

 

 

 


ÍSLENSK BELGÍA Í FRAMTÍÐINNI?

Það yrði stórt skref aftur á bak í menningarsögu Íslands ef framkvæmd yrði sú hugmynd sem komið hefur fram að stjórnsýsla verði hér með tveimur jafn réttháum tungumálum, ensku og íslensku. Með því yrðí gengið  lengra en Dönum tókst meðan einvaldskonungur þeirra réði hér ríkjum. Mikill munur er á því að sýna erlendu afgreiðslufólki virðingu og skilning þótt það kunni ekki íslensku eða að gera Ísland að eins konar nýlendu Englendinga á tungumálasviðinu líkt og landið hefði orðið ef þeir hefðu ráðið hér á öldum áður.

Ég segi Englendingar, ekki Bretar, því að Englendingar náðu að valta yfir tungumál Íra, Skota og íbúa Hjaltlands og Orkneyja.

Í stóru svæði í suðvesturhluta Írlands eru vegaskilti á tveimur tungumálum, ensku og gelísku, enda eru íbúar Cork stoltir af gamalli írskri arfleifð og tala sumir um Cork sem hina raunverulegu írsku höfuðborg vegna þess hve Dublin er ensk.

Viljum við stefna í þá átt að enska verði jafn rétthá íslensku í stjórnkerfinu? Þurfum við þess? Þurfum við að stefna að því sama og er uppi á teningnum í Sviss eða á Niðurlöndum þar sem ekkert eitt tungumál er öðrum rétthærra?

Er enska orðin að stjórnsýslutungumáli í Finnlandi og öðrum ríkjum þar sem töluð eru tungumál sem mjög fáir tala miðað við fjöldann sem talar tungumál stórþjóðanna?

Er ekki alveg nóg að þurfa að meðtaka lög og reglugerðir frá ESB, reyna að þýða textann og sætta sig við að ágreining verði að jafna með því að skoða erlenda lagatextann?  

Er ekki nóg að þurfa að syngja framlag Íslands í Evróvision á ensku?

Hvenær gera þeir Bubbi og Megas enskuna jafnréttháa íslenskunni í ljóðagerð sinni?  

Fræg er sagan af Grími Thomsen sem á fundi diplómata frá ýmsum þjóðum lenti á tali við belgískan fulltrúa og var að segja honum frá Íslandi. Hugsanlega hefur viðmælanda Gíms þótt lítið til þessa fjarlæga, kalda og ósjálfstæða útskers koma þegar hann spurði: "Og hvaða tungumál tala svo innfæddir þarna?" "Belgísku" svaraði Grímur að bragði. 

Framasögð orð mín eru ekki til að gera lítið úr því að í harðnandi samkeppni þjóða verður að leggja aukna áherslu á kunnáttu Íslendinga í ensku og öðrum mikilvægum tungumálum svo að þeir standi jafnfætis öðrum þjóðum í því efni. 

Full þörf er lika á að líta raunsæjum augum á það ástand sem þegar ríkir hér og ekki verður breytt. 

Ég hef heyrt að í bekk í grunnskóla einum hafi kennarinn spurt börnin: "Hvað er það dýrmætasta sem Ísland á? " Ein stúlka rétti upp hönd og svaraði: "Pólverjarnir."

Bragð er að þá barnið finnur. Við Íslendingar eigum nú gullið tækifæri til að nýta okkur ómetanlegt framlag útlendinga til þjóðarbúskaparins með því að byggja á reynslu annarra þjóða og læra af reynslu þeirra.

Hornsteinar Íslands eru þjóðin, landið og tungan, þ. e. mannauðurinn, einstæð náttúra og menningararfurinn. Hve langt á að ganga í því að skauta fram hjá tveimur þessara hornsteina, náttúrunni og menningararfinum?

Ég hef kynnst tveggja tungumála kerfi vel á tveimur sviðum, - í flugi og rallakstri. Allar þjóðir heims verða að beygja sig undir ensku í fluginu og frönsku í rallakstri. 

Þetta er meira áberandi í fluginu og þar hafa Íslendingar fetað góða og raunsæislega leið. Í flugi innanlands gildir íslenskan á meðan enginn erlendur flugmaður er á ferð í viðkomandi flugstjórnarsviði.

Þegar útlendingur kemur inn í umferðina breytist þetta yfir í ensku af augljósum öryggisástæðum.

Í rallakstrinum beygja allar þjóðir sig undir franska textann í reglum um aksturinn ef upp kemur ágreiningur um túlkun laga og reglna.

Svæði þar sem keppnisbílar eru "frystir" áður en þeir fara inn á sérleið er kallað "park ferme" alls staðar í heiminum, líka hér heima.

Ég sé ekki ástæðu til að amast við einu slíku heiti sem undantekningu frá reglunni um að íslenska sem flest.  Það er engin ástæða til að óttast áhrif frönsku á íslensku á sama hátt og hin yfirþyrmandi áhrif enskunnar, heldur tilbreyting að eitt franskt heiti skuli frá að þrífast.

Á sínum tíma voru áhrif dönskunnar yfirþyrmandi en nú stafar íslenskunni engin hætta af henni. Á sama hátt og heitið "park ferme" má mín vegna gjarnan vera notað má vel nota áfram danska slettu sem aðeins Bjarni Fel hefur haft þor til að viðhalda en það er danska orðið að "kikse" sem lýsir því þegar maður ætlar að spyrna vel og fast þegar hann skýtur en skotið geigar illilega.

Ekkert íslenskt orð nær merkingu slettunnar "að kiksa" sem sumir knattspyrnumenn hafa afbakað í sögnina að "kingsa" sem hefur yfir sér enskan áhrifablæ enda þá orðið að orðskrípi.

Mín vegna má vel varðveita sögnina að kiksa sem nokkurs konar minjar um þá daga þegar Danir höfðu allra þjóða mest áhrif á Íslandi.

Þegar fulltrúar íslensku þjóðarinnar gæta íslenskra hagsmuna í viðræðum við útlendinga hefur að mínum dómi verið of mikil minnimáttarkennd á ferðinni þegar Íslendingar veigra sér við að tala íslensku og reyna í staðinn að nota annað tungumál en móðurmál sitt.

Þegar staðið er í viðkvæmum og mikilvægum viðræðum hefur sá fulltrúi sem talar eigið móðurmál augljósa yfirburði yfir hinn, sem talar ekki sitt móðurmál. Íslendingar eiga ekki að horfa í þann kostnað sem getur fylgt því að hafa túlk meðferðis þegar mikið liggur við og minnimáttarkennd á ekki að koma í veg fyrir að stefnt sé að jafnræði með samningsaðilum. 

Auðvitað getur túlkum mistekist. Frægasta dæmið er líklega þegar Krústjoff reitti Bandaríkjamenn til reiði með því að segja þegar talið barst að samkeppni þjóðanna: "Við munum jarða ykkur". 

Bandaríkjamenn túlkuðu þetta sem ósmekklega hótun um að nota eldflaugar og kjarnorkusprengjur til þess að eyða Bandaríkjunum.  

Túlkurinn þýddi þarna algenga rússneska myndlíkingu hrátt og beint í stað þess að leita að hinni raunverulegu merkingu sem var meira í ætt við það þegar við Íslendingar segjum: "Við eigum eftir að salta ykkur, - við eigum eftir að baka ykkur", en þetta orðalag hefur fyrir löngu fengið á sig góðlátlegan blæ þegar um er að ræða keppni.  

Þótt rússneskur ráðamaður hafi gott vald á ensku talar hann rússnesku í viðræðum við bandarískan ráðamann og skammast sín ekkert fyrir það. Sama á að gilda um íslenskan ráðamann.

Látum aldrei henda okkur að líta niður á íslenskuna heldur þvert á móti.  

Stígum varlega til jarðar þegar um er að ræða það eina sem Grímur Thomsen gat verið stoltur af á niðurlægingartíma Íslendinga.  

 

 


"AUKNING Á VÖRN ÍSLENSKUNNAR."

Ég heyrði í gær íþróttafréttamann hjá sjálfu ríkisútvarpinu beygja orðið dóttir vitlaust tvisvar sinnum á sömu mínútunni. Hann talaði um íþróttamann sem hefði "sigrað margar keppnir". Talsmenn lögreglu tönnluðust á að svo og svo margir "aðilar" hefðu verið handteknir hér og þar. Skammt er sennilega þar til 315 þúsund "aðilar" eiga heima á Íslandi.

Þetta eru dæmi um sömu ambögurnar sem vaða uppi ár eftir ár. Þær virðast ódrepandi, - "ég vill" og "mér langar" lifa góðu lífi. 

Einn linmæltur og hraðmæltur íþróttafréttamaður skautar svo yfir orðin sem hann mælir af munni fram að erfitt er að skilja hann. Dæmi: "Estelgvenna" = Efsta deild kvenna. "Misirnum..." = Með sigrinum... "Lini úrsdildini" = Liðin í úrvalsdeildinni. 

Hjá nágrannaþjóðunum líðst ekki svona meðferð á móðurmálinu í fjölmiðlum enda er það lágmarkskrafa að þeir sem hafa atvinnu af því að tala í útvarpi og sjónvarpi séu sæmilega skiljanlegir.

Slappleikinn er smitandi. Umsjónarmaður þáttarins "Orð skulu standa lauk þættinum nýlega með orðunum: "Við erum að renna út á tíma", sem er bein þýðing úr ensku: "We´re running out of time."

Hingað til hefur verið sagt á íslensku: "Við erum að falla á tíma", en líklega er skammt þess að bíða að skákmenn falli ekki á tíma heldur renni út á honum, - þá væntanlega á rassgatinu.

Nafnháttarsýkin heltekur okkur öll meira og minna. "Þeir voru ekki að spila vel og voru ekki að láta boltann ganga, - voru ekki að standa sig..."  Þetta eru setningar sem stundum koma í löngum bunum í frásögnum og lýsingum.

Það er skondið að ýmis svona tískufyrirbæri stytta ekki málið og einfalda heldur lengja það og flækja. Einfaldara er að segja: "Þeir spiluðu ekki vel, - létu boltann ekki ganga og stóðu sig ekki."

Orðin "koma til með að" eru í tísku og bæði lengja og flækja það sem segja á, auk þess sem þetta er mjög óíslenskulegt orðalag. Dæmi hjá veðurfréttamönnum: "Það kemur til með að myndast lægð á Grænlandshafi og hún mun koma til með að fara yfir landið."  

Miklu einfaldara væri að segja: "Það myndast lægð á Grænlandshafi sem fer yfir landið."

Í stað orðanna "kemur til með að" má oftast segja: "mun", - "það mun myndast lægð..."o. s. frv.

Undarlegt er að öllum finnst sjálfsagt að reyna að tala og rita rétta ensku þótt sömu villurnar virðist fá að vaða uppi óáreittar í íslensku.

Sífellt eru notuð orðin "á meðan" þegar gerður er samanburður. "Hitinn komst yfir tíu stig í Reykjavík á meðan hann komst ekki nema í tvö stig á Akureyri.

Orðið aukning smeygir sér alls staðar inn. "Mikil aukning hefur verið á fjölda nemenda" er sagt í stað þess að segja einfaldlega: "nemendum hefur fjölgað", og orða hugsunina þannig skýrar með helmingi færri orðum. Þess vegna hef ég þennan pistil á orðum manns sem hefði getað sagt að íslenskan færi halloka en sagði í staðinn:  "Það er aukning á vörn íslenskunnar."

Vestfirskur þingmaður sagði eitt sinn: "Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum." Það sem hann meinti var: Fólki hefur fækkað á Vestfjðrðum.   

Enskan er mun flóknara mál að tala og skrifa en mörg önnur, t.d. þýska. Samt finnst fólki það sjálfsagt að vanda sig við að tala og skrifa ensku.

Snobbið fyrir enskunni er barnalegt. Útilokað virðist að nokkur kvikmynd sé sýnd í kvikmyndahúsum nema að nafnið sé enskt. Í gamla daga var talað um Steina og Olla og Abbott og Costello. Nú er það Chuck and Larry. 

Þegar Simpsonfjölskyldan fer úr sjónvarpi í kvikmyndahús verður hún að The Simpsons.  

Fleiri tungumál líða fyrir þetta en íslenskan. Enn sér maður skrifað Turin í staðinn fyrir Torino og Cologne í staðinn fyrir Köln.

Fólk er hætt að fara suður þegar það er erlendis, - það fer niður. Menn fara niður til Eþíópíu þótt landið sé fjallaland. 

Ég hef af því fregnir að á leikskólum hafi orðið að ráð erlent fólk til starfa. Ef það færist í vöxt er lagður grunnur að því að börnin verði ekki mælandi á neina tungu.

Íslenska er ekkert ómerkilegra mál en enska þótt færra fólk tali hana. Ef virðing tungumála eða "gæði" fara eftir því hve margir tala þau væri mest snobbað fyrir kínversku því nær þrefalt fleiri tala hana en ensku. 

Pétur Pétursson heitinn þulur hringdi stundum í mig og fleiri sjónvarpsmenn og skammaði okkur fyrir málvillur. Hann og Emil Björnsson höfðu óbrigðula málkennd.

Nú nýtur þeirra ekki lengur við og er þar skarð fyrir skildi. 

Þótt þeirra jafnokar finnist kannski ekki lengur megum við ekki láta hugfallast. Okkur er hollt að aga okkur í sameiningu í merðferð móðurmálsins og rökrænni og skýrri framsetningu hugsana okkar og skoðana.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband