DANSKUR PRÓFESSOR RANNSAKAÐI ÞETTA BEST

Grímseyjarferjan og Kárahnjúkavirkjun, sem næstu blogg á undan þessu fjalla um, eru ekki fyrstu verkefnin á vegum hins opinbera sem fara fram úr áætlun. Rannsóknir Bent Flyvbjergs, prófessors í Árósum hafa varpað skýru ljósi á þetta í bókum hans og ritgerðum. Þær lágu fyrir við upphaf Kárahnjúkaframkvæmdanna og hefðu átt að vera mönnum vegvísir. 

Í stuttu máli var meginniðurstaða Flyvbjergs sú að stærstu og flóknustu opinberu verkefnin færi oftast mest fram úr áætlun og skekkjurnar væru skuggalega háar, að meðaltali tugir prósenta og ævintýrlegar fjárhæðir.

Oft var um svokallaða "minnismerkisáráttu" stjórnmálamanna að ræða, - manna sem gátu ráðskast með opinbert fé í trausti þess að almenningur borgaði brúsann seinna.

Ég hafði samband við Flybjerg á sínum tíma og kynnti mér rit hans lauslega, - fór meira að segja sérstaka ferð til Árósa til að ná hafa við hann viðtal sem ég gæti haft í heimildarmynd minni um Kárahnjúka.

Því miður fórum við á mis í Álaborg og ég hafði aðeins upp úr þeirri ferð myndir af háskólanum og brú og göngum undir Limafjörð sem ég á enn án þess að hafa fengið tækifæri til að nota þær.

Nú er verið að pæla í því hvernig Sundabraut skuli vera og því kannski einhver lærdómur af því hvernig þessar tvær lausnir hafa gefist í Árósum.  


mbl.is Flest verkefni fram úr áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GOTT HJÁ ÞÉR, KRISTJÁN MÖLLER!

Hve oft hafa þeir sem ábyrgð bera ekki færst undan því að kannast við að þeim hafi orðið á? Þetta hefur verið íslenskur plagsiður og nánast hefð sem Kristján Möller hefur rofið og á skilda þökk og virðing fyrir að biðja Einar Hermansson afsökunar. Í bloggi mínu hér á undan er fjallað um það gagnstæða, hvernig stöðugt hefur verið reynt að breiða yfir það að fyrirsjáanlegt var að ekki yrði hægt að klára Kárahnjúkavirkjun á réttum tíma.

Enginn er fullkominn og öllum verður á. Kristján Möller hefur vonandi sett nýtt viðmið með afsökunarbeiðni sinni.


mbl.is Kristján biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TVEGGJA ÁRA BLEKKING OG AFNEITUN.

Fyrir tveimur árum var ljóst að það myndi dragast allt að ári að hægt yrði að hleypa vatni frá Hálslóni til stöðvarhúss Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Allan þennan tíma hafa talsmenn virkjunarinnar verið í afneitun og yfirhilmingu í líkingu við það sem gerist hjá áfengissjúklingum og komið með nýjar og nýjar dagsetningar og spuna um það hvernig hægt yrði a gera hið ómögulega, þ. e. að láta dæmið ganga upp á tilsettum tíma.

Upphaflega var gert ráð fyrir að heilt ár liði frá því að lokið yrði að bora göngin frá Hálslóni austur um og þar til að þau yrðu fullgerð. En Landsvirkjunarmenn fundu ráð við því: Það átti bara að klára frágang ganganna si svona á helmingi styttri tíma, meðal annars með því að ganga frá ýmsu í göngunum nokkurn veginn samtímis því sem verið var að bora. 

Nú kemur auðvitað í ljós að þetta gengur ekki upp en til að reyna að friða menn og róa er notuð sama aðferðin og notuð var þegar verið var að bora. Með því að fylgjast með hraða borananna mátti snemma á ferlinum að það verk myndi tefjast stórlega.

Það var ekki fyrr en ég birti útreikning minn í sjónvarpsfrétt sem ekki var hægt að hrekja að loksins var viðurkennt hve seint verkið gekk raunverulega. Sú sjónvarpsfrétt fór í loftið í febrúarbyrjun 2006 en í maí áttaði minn ágæti kollega, Kristján Már Unnarsson á Stöð tvö á því, að upplýsingar Landsvirkjunar höfðu afvegaleitt hann og þá loks kom hjá honum frétt um það hvernig mál voru raunverulega vaxin. 

Þessa þrjá mánuði fjölluðu fréttirnar, sem fjölmiðlamenn voru mataðir á, um "hraðamet" hjá borum og þeim jákvæðu molum, sem hægt var að finna til að fóðra fjölmiðlana á.  

Það sem ég setti fram strax í júlí 2004 í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" um seinkun á  virkjuninni hefur smám saman verið að koma fram og fleira á eftir að koma fram þótt síðar verði.

Það hefur stundum verið sagt um alkóhólista að sjúkleiki þeirra segi ekkert um gáfur eða góðsemi þeirra, - hinnir skörpustu og mætustu menn geti lent í þeirri afneitun og sjálfsblekkingu sem þessi sjúkdómur hefur í för með sér.

Svipað má segja um þá góðu góðu og gegnu menn sem hafa verið í forsvari fyrir þeim undanslætti og yfirhilmingu sem hefur falist í því að breiða yfir hina raunverulegu stöðu mála við virkjanaframkvæmdirnar eystra, - því miður.   


ORKUVANDINN, - EKKI EINFALT MÁL

Um nokkurt skeið hefur verið fjallað mikið um orkuvandann og velt upp lausnum sem eigi að leysa hann. Nefnd hafa verið nokkur atriði: Etanól, vetni, vatnsafl, jarðvarmaorka, vindorka, rafbílar. Engin ein þessara lausna leysir vandann og ekki einu sinni allar samanlagt. Allt vatnsafl heimsins skilar aðeins um 6% af núverandi orkuþörf mannkyns og jarðvarminn líklega ekki mikið meira. Íslenski hlutinn af þessari orku er svo lítill að hann mælist varla á heimsvísu.

Í bandarísku tæknitímariti sá ég nýlega úttekt á þessu og þar voru vatnsafl og jarðvarmi ekki nefnd, sennilega vegna þess hvað þau vega enn létt. Enginn veit nú hvaða árangur muni nást af djúpborunum.

Etanól var á blaði bandaríska tímaritinu en stóri ókostur þess er sá að til þess þarf lífræn efni m.a. maís, sem sár vöntun er á í sveltandi heimi. Í bandaríkjunum þyrfti akra að flatarmáli upp á heilu fylkin. Skógar heimsins eiga undir högg að sækja.

Vetni er ekki orkulind heldur orkuberi og við notkun þess fer mikil orka í súginn og mengunin frá orkuöfluninni er aðeins flutt til, - úr samgöngutækjunum og húsahituninni í orkuver sem myndu flest brenna kolum eða olíu.

Í Bandaríkjunum eru kolabirgðir til nokkurra alda og menn skyggnast til tækni til að binda útblástur þeirra í bergi. Hún er ekki ekki fyrir hendi enn sem komið er.

Vindorkan krefst slíks skógar af vindmyllum að þekja myndi svæði á stærð við heilu fylkin í Bandaríkjunum. Af vindmyllum er mikil sjónmengun en á móti kemur að þær eru afturkræfar, - hægt að rífa þær niður eða fjarlægja.

Rafbílar geta aðeins leyst þarfir í borgarumferð og bíll eins og Reva er lítt nothæfur fyrir neytendur nema sem annar bíll af tveimur sem til brúks er. Ég hitti menn sem aka um á þriggja tonna sex metra drekum í borgarumferðinni með þeim rökum að þeir eigi hesta eða hjólhýsi.

Ef Reva væri ódýrari myndu þessir menn geta notað bíl með dráttargetu aðeins þegar þess er þörf, - ekki í innkaupaferðum frúarinnar í Kringluna.

Þá er eftir einn orkugjafi sem sjaldnast er minnst á vegna hinnar miklu andstöðu sem hann hefur fengið hjá umhverfisverndarfólki, - en það er kjarnorkan.

Í fróðlegri grein í Newsweek nýlega er greint frá minnkandi andstöðu við kjarnorkuna. Hún fékk á sig vont orð vegna tveggja stórra kjarnorkuslysa á níunda áratugnum en síðan þá hafa öryggismál verið bætt stórlega.

Úrgangurinn er einnig þyrnir í augum en líkt með kolefnisbindingu í kolavinnslunni er nú verið að kanna hvort hægt sé að "hraðbrenna" kjarnorkuúrgangi.

Finnar eru að reisa 1600 megavatta kjarnorkuver, enda er það fljótleg lausn á orkuvanda og sendir engar gróðurhúsalofttegundir út í loftið.

Svo kann að fara að kjarnorkuverin muni fá minni andstöðu umhverfissamtaka og almennings en áður, - ekki vegna þess að þau séu enn fullkomin umhverfislega, heldur einfaldlega vegna þess að aðrir kostir eru of seinlegir og hafa enn sem komið er fleiri ókosti en kjarnorkuverin.

Síðan er hin hliðin á orkuvandanum, - að minnka orkunotkunina með sem flestum tiltækum ráðum.

Þótt lausn orkuöflunarvandans sé ekki einföld og endanleg lausn sé ekki í sjónmáli er kannski skynsamlegast í stöðunni að sjá til hvernig sókn á öllum fyrrgreindum sviðum færir mannkyn nær því að leysa þetta tröllaukna viðfangsefni.

Dýrast af öllu væri að leggja árar í bát og gefast upp.


"BÚIÐ OG GERT" - HEILKENNIÐ.

Ofangreint heilkenni er eitt sterkasta vopnið sem virkjanafíklar Íslands hafa beitt og beita enn. Upptalningin er löng: Of stór Múlavirkjun,  of stór Fjarðarárvirkjun, stórfelld óbætanleg spjöll vegna rannsóknaborana við Trölladyngju, rannsóknarleyfi í Gjástykki, - Hraunaveita, þar sem unnið er að á fullu með byggingu tveggja stórra stíflna og greftri ganga og á eftir varða mynduð tvö miðlunarlón og þurrkaðir upp fossar í tugatali.

Í einni af athugasemdunum við næstu bloggfærslu mína á undan þessari er talað um "þráhyggju" mína út af verki eins og Káranhjúkavirkjun þar sem allt sé búið og gert. Nú fer því fjarri að sú virkjun sé það eina sem ég fjalla um og hún er ekki "búin og gerð", - Hraunaveita og fleiri verkefni allt frá Reykjanesi til Gjástykkis eru í fullum gangi.  

"Búið og gert" - aðferðin hefur svínvirkað og gerir það enn. Iðnaðarráðherra vill ekki afturkalla siðlausa og löglausa veitingu rannsóknarleyfis fyrrverandi iðnaðarráðherra tveimur dögum fyrir kosningar, - það er búið og gert.

Ég nota orðin siðlausa veitingu því að í alvöru lýðræðisríkjum taka menn ekki svona afgerandi ákvarðanir rétt fyrir kosningar. Í Bandaríkjunum tala menn um "lame duck-president", - að forsetinn sé eins og lömuð önd að því leyti að honum beri að binda ekki um of hendur eftirmanns síns.

Hér keppast ráðherrar oft við að ráðstafa afgerandi málum rétt fyrir kosningar og komast upp með það. 

Þáverandi umhverfisráðherra afþakkaði boð mitt um að eyða hálftíma í að skoða spjöll verktakanna við Trölladyngju,  - það var búið og gert.

Þau spjöll voru margfalt verri en spjöll eftir vélhjólastráka í grenndinni sem fjallað var ítarlega um af okkar beggja hálfu..  

Engu virðist ætla að verða um þokað við Múlavirkjun og Fjarðarárvirkjun, - þetta er búið og gert.  

Haustið 2003 var vísað frá ályktun á landsþingi VG um að ítreka andstöðu við Kárahnjúkavirkjun, - þetta var búið og gert og formaðurinn talaði um það fyrir kosningar að við þyrftum að "lifa með" virkjuninni.  

Virkjanamenn æða áfram á mesta mögulega hraða og treysta á það að ekki komist upp um það hvernig raunverulega er í pottinn búið fyrr en allt er búið og gert.

Viljayfirlýsingar og samningar út og suður varðandi ný álver eru hluti af þessu heilkenni, - fyrr en varir er allt búið og gert.

Nú er bara að vona að einhver fyrirstaða verði hjá þeim sem stór hluti kjósenda hélt að meinti eitthvað meira með Fagra Íslandi en að gefa út fallegan bækling.  


MÓTSAGNIR UM VINNUAFLIÐ HJÁ ALCOA.

Um nokkurra missera skeið hafa verið fluttar síbyljufréttir um hina miklu aðsókn Íslendinga að störfum í álveri Alcoa á Reyðarfirði. Á sama tíma hefur blasað við sú mótsögn sem felst í endurteknum heilsíðuauglýsingum eftir starfsfólki sem ekki virðist sjá fyrir endann á. Það er einkennileg notkun á fjármunum að auglýsa að óþörfu. Núna er verksmiðjan aðeins keyrð á fimmtungi af afköstum hennar en samt vinna þar um 100 útlendingar, mest Pólverjar.

Í kvöld voru fluttar þær skýringar á þessu að þetta væri aðeins tilfallandi, - þessir starfsmenn myndu ekki vinna þar áfram og brátt stefndi í að færri Íslendingar kæmust að en vildu. Sem sagt, - sami söngurinn er kyrjaður og fyrr um eftirspurn eftir störfum þótt útlendingafjöldinn og auglýsingarnar eftir starfsmönnum segi allt annað. Og fullyrt að þegar framleiðslan fimmfaldast muni það hafa þær afleiðingar að verksmiðjan verði fullmönnuð með Íslendingum og færri komist að en vilji!

Á sínum tíma var Kárahnjúkvirkjun gyllt fyrir verkalýðssamtökunum með því að fullyrða að 80 prósent vinnuaflsins við virkjanirnar yrðu Íslendingar en aðeins 20 prósent útlendingar.

Raunin varð hins vegar sú að þetta varð öfugt, - 20 prósent voru Íslendingar og 80 prósent útlendingar. Þess vegna verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvenær mótsögnunum linnir hjá Fjarðaráli.


VIÐ ELSKUM ÞIG, KRISTJÁN!

Það eru góðar fréttir að undirtektir hafi verið afar góðar á tónleikum Kristjáns Jóhannssonar á Akureyri þar sem forsetafrúin var ófeimin við að sýna hrifningu sína.  Hallgrímskirkjumálið frá því fyrir tveimur árum er þá vonandi grafið og gleymt enda var þar um að ræða klaufaskap í yfirlýsingum sem getur komið fyrir alla menn. Í því máli hafði Kristján talsvert til síns máls og þess þarf að minnast.

Það sem mestu skiptir er hjartalag Kristjáns sem ævinlega er bundið æskustöðvum hans, landi og þjóð. Kristján er hreinskinari en flestir menn og kemur til dyranna eins og hann er klæddur, stór í sniðum þótt ekki sé hann hávaxinn. Sami gamli góði litríki og fjörmikli Konnarinn skín í heiði þótt það komi fyrir að einstaka skúradropar detti.

Undir gustmiklu yfirborði býr afar hlýr persónuleiki sem yndislegt er að hafa fengið að kynnast.

Stundum er sagt um suma menn að menn annaðhvort elski þá eða hati þá. Þetta á oft við um mikla listamenn og þá sem eru stórir í sniðum. Ég held að þeir sem hata segi meira um sjálfa sig en þá sem þeir hata. Kristján Jóhannsson hefur lífgað upp íslenskt menningarlíf og þjóðfélag í aldarfjórðung á einstakan hátt.

Lítið þjóðfélag eins og Ísland þarf á slíkum mönnum að halda og Kristján á að mínum dómi ekkert annað skilið en að vera elskaður, þótt hann sé ekki gallalaus fremur en aðrir menn. Ég vona að sem flestir geti tekið undir með mér þegar ég segi við þennan stórbrotna listamann: Við elskum þig, Kristján!


mbl.is Frábærar undirtektir á tónleikum Kristjáns: "Ég elska þig, mamma"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVENÆR ER AÐ MARKA FORSTJÓRANN?

í heilsíðufyrirsögn byggðri á viðtali við forstjóra Landsnets í Morgunblaðinu 13.febrúar segir að aðeins loftlínur geti tryggt afhendingaröryggi háspennulína. Ef þessi ummæli forstjórans áttu að þrýsta á Sandgerðinga að hverfa frá höfnun þeirra 7. febrúar á línum í gegnum sveitarfélag þeirra til Helguvíkur, - þá tókst sú ætlun forstjórans ekki því að sveitarstjórn Sandgerðis ítrekaði höfnun sína 14.mars. Í kjölfar samskonar höfnunar Grindavíkur 13. sept dregur forstjórinn nú í land og segir að þessar hafnanir komi ekki í veg fyrir lagningu línanna og þar með álver í Helguvík heldur skapi aðeins óvissu.

Rökstuðningurinn gegn línum í jörð, sem var að baki fyrri yfirlýsingu forstjórans, var öflugur. Fyrir línur yfir 200 kílóvolt er slík lausn fimmfalt dýrari en loftlína og nífalt dýrari fyrir línur yfir 400 kílóvolt. Jarðrask á yfirborði er mun meira en við jarðlínu en loftlínu og ekki hægt að sveigja þetta jarðrask eftir landslaginu eins og með línuvegi.

Mun meiri hætta er á bilunum í línum í jörð á skjálftasvæðum og jarðhitasvæðum, svo sem á stæði fyrirhugaðrar línu um Sveifluháls og margfalt lengri tíma tekur að finna bilun og gera við ef línan er í jörðu.

Það gæti skapað óbærilega hættu á stórfelldu tjóni í álverum.

Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar tók ekki dýpra í árinni í svo um ummæli forstjórans 13. febrúar að hann vitnaði í þau og fyrirsögn Morgunblaðsins með orðunum: "Ef marka má orð forstjóra Landsnets...."

Nú kemur í ljós að miðað við nýjustu ummæli forstjórans var ekki að marka orð hans 13. febrúar og fróðlegt væri að vita hve mikið er að marka orð hans nú. Hvenær er yfirleitt að marka forstjórann?

Vitna að öðru leyti til heimasíðu Landverndar um frekari upplýsingar um þessi mál, svo sem um höfnun sveitarfélagsins Voga á því að taka afstöðu til tillagna um línulögn í landi þess sveitarfélags vegna þess að upplýsingar skorti.

Verður þá mikið að marka þær upplýsingar sem berast kunna?

Maður heyrir raddir sem segja að andóf gegn virkjanaæðinu sé lítilvægt kvak öfgafólks byggt á tilfinningum en ekki rökum. Ekki er svo að sjá í þessu tilfelli og ég minni á næsta blogg mitt á undan þessu um verðmæti tilfinninganna.


VERÐMÆTI TILFINNINGANNA.

Veldi tilfinninganna heitir stórgóður pistill Davíðs Þórs Jónssonar í fréttablaðinu. Hann leiðir hugann að verðmæti tilfinninganna sem margir vilja oft gera sem minnst úr. Þessir menn tefla þeim gegn peningalegum verðmætum, - tala niðrandi um þá sem telja verðmæti ekki eingöngu felast i mælanlegum verðmætum. Oft vill gleymast að velsæld snýst um tilfinningar, - um öryggistilfinningu eigin húsnæðis og góðrar arvinnu, - um vellíðan og lífsnautn sem peningar geta keypt.

Þegar menn gera lítið úr þeirri lífsnautn sem felst í að varðveita stórbrotið umhverfi og náttúru eru þeir að leggja mismunandi mælikvarða á tilfinningar, hefja hluta þeirra upp til skýjanna en tala með lítilsvirðingu um aðrar.

Sem dæmi um verðmæti tilfinninga má nefna að nú er hlutur lista, tónlistar, kvikmynda, bókmennta o. s. frv. orðinn stærri í þjóðarframleiðslunni en landbúnaður.

Hér er um hreina framleiðslu á fóðri fyrir tilfinnigar að ræða svo notað sé efnishyggjulegt orðalag, og tilvist Bjarkar, Sigurrósar, íslensku kvikmyndanna, Gullfoss, Geysis, Vatnajökuls, Öskju og einstæðra náttúru er hægt að meta til gríðarlegra fjármuna ekki síður en tonna af áli og þorski.


ÚTSVAR FER VEL AF STAÐ.

Nýi spurningaþátturinn Útsvar fer vel af stað að mínum dómi. Sigmar sjóaður og pottþéttur og Þóra Arnórsdóttir er einhver skærasta vonarstjarnan í íslensku sjónvarpi. Mjög góð byrjun hjá henni.

Byrjunarhnökrar eins og að sýna ekki báða "hlauparana" samtímis þegar þeir nálgast bjölluna verða væntanlega sniðnir af.

Mér finnst ekki að það eigi að þyngja spurningarnar um of því að það er gott að þeir sem heima sitji geti svarað stórum hluta þeirra. Þannig dragast áhorfendur óbeint betur inn í þáttinn og lifa sig inn í hann.

Í beinni útsendingu getur orðið tímapressa hjá þáttastjórnendum í lokin og kannski var það ástæða þess að spyrlarnir ýttu að mínum dómi ekki nóg undir spennuna á lokasprettinum með því að gefa sér tíma til að pæla í stöðunni og koma þvi yfir til áhorfenda.

Allt í einu var þátturinn búinn.

En þetta eru smávægileg atriði miðað við allt það sem fórst vel úr hendi og ég óska þættinum og aðstandendum hans velgengni og vinsælda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband