28.9.2010 | 10:47
Það var mikið !
Áratugum saman hafa íslenskir ráðamenn farið í kringum heitasta mál okkar samtíma, framferði Ísraelsmanna, eins og kettir í kringum heitan graut, þegar þeir hafa haft aðstöðu til að segja eitthvað bitastætt erlendis um þetta eitraða peð í skák alþjóðastjórnmála.
Þessa hefur alla tíð gætt þegar utanríkisráðherrar okkar hafa talað á erlendri grund, svo sem á Allherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Þess hefur verið vandlega gætt að ekkert orð gæti styggt Bandaríkjamenn og þá fyrst og fremst verið að huga að því að fæla þá ekki burtu með varnarliðið frá Keflavíkurflugvelli.
Þjónkunin hefur verið alger og náði hámarki þegar tveir menn ákváðu vorið 2003 að Íslendingar skyldu vera beinir aðilar að ólöglegri innrás í fjarlægt ríki á upplognum forsendum.
Síðan fór herinn samt sem áður 2006 og allt flaðrið var til einskis.
Það hefði verið gott ef einhver utanríkisráðherra hefði löngu fyrr gert það sem Össur gerir núna en betra er seint en aldrei.
![]() |
Össur fordæmir Ísraelsstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2010 | 23:06
Tveggja strokka bylting.
Þegar flett er vélhjólablöðum sést glögglega að tveggja strokka vélar eru lang algengastar. Þær væru það ekki ef þær skorti endingu eða kraft.
Á fyrstu tveimur áratugunum eftir stríð voru tveggja strokka bílar vinsælir. Má þar nefna Citroen 2CV, Fiat 500, NSU Prinz, Panhard, Fiat 126 o. fl.
Líkast til hafa verið framleiddir allt að 14 milljónir bíla með svona vélum.
Á árunum 1959-65 átti ég tveggja strokka bíla og ek lengstum innan bæjar hin síðari ár á einu bílunum hér á landi sem eru með tveggja strokka vélar.
Slíkar vélar geta vel verið þýðgengar ef vel hefur tekist til í smíði þeirra og festinga þeirra við bílinn.
Upp úr 1980 fóru japanskir bílar með þriggja strokka vélum að taka við hlutverki ódýrustu bílvélann a. Mér hefur alltaf þótt skrýtið að tveggja strokka vélar skyldu hverfa. Þær eru einfaldlega helmingi einfaldari en fjögurra strokka vélar og léttari, og vegna færri slitflata ættu þær líka að skila meiri nýtingu afls.
Fyrir þremur árum las ég það haft eftir yfirmanni þróunardeilda bílvéla hjá Fiat að eftir 3-4 ár myndu koma á markað bensínknúnar bílvélar sem skiluðu 30-40% meira afli en fyrirrennarar þeirra og eyddu þar að auki allt að 30% minna bensíni.
Og vegna þess að bensínknúnar vélar væru léttari og ódýrari en jafnstórar dísilvélar myndi upp renna nýtt dýrðartímabil tveggja strokka bensínknúinna bíla.
Nú er þetta að verða að veruleika með svonefndri Twin-Air vél frá Fiat.
Fiat, sem var á fallanda fæti fyrir áratug, er nú á hraðri uppleið. Það sést til dæmis á því að í nýja Ford Ka bílnum eru vél, driflína, undirvagn og megingerð yfirbyggingar hin sama og í Fiat Panda og Fiat 500.
Hinn nýja Fiat 500 má sjá hér að ofan en fyrir neðan hann set ég gamla Fiat 500, módel 1972, sem ég á.
Ford Ka er meira að segja settur saman í Fiat-verksmiðju í Póllandi eins og Fiat 500 og Fiat Panda.
Með nýju Twin-Air vélinni á Fiat 500 að eyða aðeins um fjórum lítrum af bensíni á hundrað kílómetrum eða 25% minna en fjögurra strokka vélin, sem er núna ódýrasta vélin í þeim bíl.
Aðalgaldurinn við nýju vélina er innspýting sem er raf- og vökvastýrð og nefnist MultiAir.
Hana verður hægt að fá 65, 85 og 105 hestafla, og vegna þess að vélin er 20% léttari en sambærilegar vélar skilar hún bílnum hraðar í upptaki og á meiri hámarkshraða en vélar sem eru meira en tvöfalt stærri að rúmtaki.
Á Indlandi er einn af hornsteinum langódýrasta bíls heims tveggja strokka vélin, sem knýr hann.
Í þeirri vél eru fjórum sinnum færri ventlar en eru í flestum bílvélum nútímans.
KISS, Keep It Simple, Stupid ! á vel við þegar tveggja strokka byltingin gengur í garð.
Ef ég á eftir að hafa efni á því hefði ég ekkert á móti því að eiga Fiat 500 með þessari nýju vél sem er með 30% minni útblástur af koltvísýringi en það lægsta sem þekkst hefur hingað til .
Fiat er nú sá bílaframleiðandi heims sem er með minnst mengandi bílaflotann á boðstólum.
Líka kæmi til greina, ef buddan leyfði, að fá sér Smart dísil sem eyðir aðeins 3,4 lítrum á hundraðið.
Fiatinn tekur hins vegar fjóra í sæti en Smart bíllinn aðeins tvo. Og munur á eyðslu upp á einn lítra á hundraðið getur ekki talist mikill munur.
Þar að auki fékk Fiat 500 fimm stjörnur fyrir öryggi og var valinn bíll ársins þegar hann kom fram.
Vegna tæknilegra mistaka eru tvær myndir á síðunni af gamla Fiat 500, sem er með minnstu bílvél landsins, aðeins 499cc sem skilar 18 hestöflum, en það er nóg til að komast á tæplega 100 kílómetra hraða og lenda í Blönduóslöggunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2010 | 13:35
Afturför um hundrað ár.
Fyrir tæpri öld var landlægur á Íslandi óþrifnaður í formi notkunar neftóbaks og munntóbaks.
Þegar leið á öldina fór þessu að linna en sígarettureykingar jukust í staðinn.
Ádrepa Halldórs Laxness í Alþýðubókinni og annað í þeim dúr gerði þessa tóbaksnotkun ekki eins fína og áður hafði verið heldur þvert á móti frekar hallærislega enda fylgdi þessu oft nokkur óþrifnaður.
Nú er eins og að sæki í svipað ástand og var fyrir hundarð árum og annar Laxness muni kannski spretta upp og taka málið til umfjöllunar á eftirminnilegan hátt.
Það er stundum sagt að sagan gangi í hringi. Svo virðist vera í þessu efni.
![]() |
20% stráka taka í vörina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.9.2010 | 09:10
Mikið flot í stórum hjólbörðum.
Þegar ekið er yfir á á jeppa myndast lyftikraftur vatnsins í ánni á tvennan hátt.
Í fyrsta lagi virkar lyftikrafturinn undir gólfið þegar vatnið fer hærra en það og nær upp á miðjar hurðir.
Meira að segja myndast flotkraftur þegar gírkassar og drifbúnaður fer á kaf.
Í gamla daga sáu menn við þessu með því að sitja í bússum í sætunum og opna dyrnar svo að vatn fengi að flæða inn í bílinn svo að hús hans virkaði ekki lengur eins og bátur.
En síðan er annað fyrirbæri sem er lúmskara, en það er hinn mikli flotkraftur í stórum jeppadekkjum.
44 tommu dekk er 1,12 metrar í þvermál og hálfur metri á breidd. Einfalt reiknisdæmi sýnir að fjögur slík dekk mynda lyftikraft upp á tæpt tonn samtals ef þau fara alveg á kaf.
Bílstjóri á slíkum jeppa á möguleika á að nota hið gamla ráð að hleypa vatni inn í bílinn til að minnka flotkraft gólfsins á bílnum en hann á ekkert ráð við flotkrafti dekkjanna nema að hleypa lofti úr þeim og minnka þannig rúmmál þeirra að hluta, en þá lækkar bara bíllinn sem því nemur og tekur á sig meiri straum.
Oftrú á getu jeppa á stórum dekkjum olli slysi á hálendinu fyrir tveimur áratugum sem færði mönnum dýrmætan lærdóm í þessu efni.
![]() |
125 strandaðir í Þórsmörk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.9.2010 | 17:37
Clinton ruglaði meira.
![]() |
Ruglaði saman verðbólgu og munnmökum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2010 | 17:23
Er virkilega verðmæti í óbeisluðum fossum?
Sigríður frá Brattholti var sannarlega "á móti rafmagni" , "vildi að við værum áfram í torfkofum", kom í veg fyrir stórfelldustu atvinnuppbyggingu Íslandssögunar á þeim tíma sem landið var vegalaust og meirihluta landsmanna hafði ekki rafmagn.
Hún sá verðmæti í Gullfossi sem enginn annar sá.
Nú sjá menn ekkert annað verðmæti í tveimur samliggjandi fossum á stærð við Gullfoss í efsta hluta Þjórsár nema að þeir verði þurrkaðir upp og áin tekin fyrir ofan þá og veitt í Þórisvatn.
Þetta er talið nauðsynlegt og þeir sem vilja annað taldir vera á móti því að þjóðin noti rafmagn.
Framleiðir þjóðin þó þegar fimm sinnum meira rafmagn en hún þarf til eigin nota.
Þess vegna kemur það á óvart að hægt væri að selja myndir af fossum fyrir hundruð milljóna króna.
Að ekki sé nú talað um það að Ólafur Elíasson telst vera í hópi þeirra sem eru "á móti atvinnuuppbyggingu".
![]() |
Íslenskir fossar á uppboði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2010 | 17:14
Lifnar í gömlum glæðum.
Fyrir 25 árum rann það fyrirbæri sem kallað var héraðsmót með gamla laginu og Sumargleðin var tákn um, sitt lokaskeið og tíu árum síðar fór að draga mjög af sveitaböllunum með tilheyrandi sætaferðum.
Þess vegna fer smá straumur um það sem muna þessa tíð þegar fréttist af stóru sveitaballi á borð við það sem haldið var í reiðhöllinni á Sauðárkróki í gærkvöldi.
Það kom nokkrum sinnum fyrir að Sumargleðin skemmti í íþróttahöllum, en yfirleitt var það um miðjan dag.
Þeir dagar koma varla héðan af að flokkur hljóðfæraleikara og skemmtikrafta haldi allt að 50 skemmtanir um allt land frá júnílokum fram á haust en það má alltaf rifja upp eitt og eitt sveitaball af svipaðri gerð og áður var.
![]() |
Þúsundir á sveitaballi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2010 | 07:30
1964, 1965 og 1990.
Það hefur áður blásið á móti í viðleitni manna til að ná fram lausn í kjaramálum.
Vorið 1964 "ríkti frost" í samskiptum verkalýðssamtakanna og þáverandi ríkisstjórnar svo notað sé orðalag frétta um ástandið nú.
Eftir langt allsherjarverkfall 1961 þar sem laun hækkuðu um 13% felldi ríkisstjórnin einfaldlega gengið um 13% !
Á vordögum 1964 myndaðist trúnaðarsamband milli Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, og Eðvarðs Sigurðssonar, formanns Dagsbrúnar, og í kjölfarið tókst svonefnd júnísamkomulag.
Ég minnist stjórnmálasyrpu sem ég söng á skemmtunum á vordögum 1965 þar sem ég spáði öðru júnísamkomulagi í hálfkæringi í háðútgáfu af barnalaginu bimbam, bimbam þar sem samskipti stjórnmálamanna voru sýnd í því ljósi hve barnaleg þau gætu oft orðið.
Og viti menn: Þeir gerðu annað júnísamkomulag ! Þetta var þá hægt eftir allt saman.
1990 er merkisár í sögu íslenskra kjara- og efnahagsmála. Þá sat ríkisstjórn sem hafði einhvern veikasta þingmeirihluta sögunnar á þingi og enn einu sinni stefndi allt í þrot eins og jafnan allar götur frá upphafi óviðráðanlegrar verðbólgu árið 1942.
Þá risu þeir Guðmundur J. Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson upp úr hjólfari skotgrafahernaðarins og tókst með hjálp góðra manna og atbeina ríkisstjórnar að stöðva það sem áður hefði verið óviðráðanlegt böl íslenskra efnahagsmála í nær hálfa öld.
Skýringin á þessu er flókin, en meðal annars má nefna aukna skuldsetningu heimilanna, sem gerði verkföll erfiðari en fyrr.
![]() |
Sjá bara eina og illfæra leið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2010 | 07:16
Flestir kusu Hauk Morthens.
Það er ekki nýtt að sérkennileg útkoma fáist úr vinsældavali. Ég minnist þess að einhvern tíman á árabilinu 1952-1954 voru nemendur í skóla einum beðnir um að rita á blað nöfn þeirra Íslendinga sem þeir teldu merkasta í sögu þjóðarinnar.
Ekki man ég nákvæmlega hvernig atkvæði féllu en man þó að Haukur Morthens, sem þá var feykivinsæll fyrir dægurlagasöng sinn, fékk yfirburðakosningu og helstu íþróttastjörnur þjóðarinnar komu næstir á eftir.
Jón Sigurðsson komst varla á blað í þessari kosningu.
Þetta minnir á fleiri hliðstæð tilvik. Í skoðanakönnun fyrir nokkrum árum um það, hverjir hefðu verið mestu íþróttamenn Íslendinga lenti Örn Clausen í 14. sæti en Jón Arnar Magnússon var hins vegar við toppinn.
Var Örn Clausen þó í hópi þriggja bestu tugþrautarmanna heims í þrjú ár, 1949, 1950 og 1951 en Jón Arnar komst í hóp tíu bestu í aðeins eitt ár.
Í ársbyrjun 2003 gekkst Fréttablaðið fyrir vali helstu poppsérfræðinga landsins á besta dægurlagasöngvara Íslendinga fyrr og síðar.
Ellý Vilhjálms varð efst á blaði og fast á eftir fylgdu Björk, Vilhjálmur Vilhjálmsson og frændurnir Haukur og Bubbi Morthens.
Nefndir voru hátt í þrjátíu söngvarar og virtist nokkuð góð sátt um röðina. Athygli mína vakti þó að nafn Ragnars Bjarnasonar sást hvergi. Voru þó bæði ég og Jón Ólafsson frá Bíldudal á listanum !
Virtust poppsérfræðingarnir algerlega setja til hliðar þá staðreynd að á blómatíma Hauks Morthens barðist hann við Ragnar Bjarnason um það að vera vinsælasti dægurlagasöngvari þjóðarinnar og hafði Ragnar lengst af betur.
Í ljósi verðskuldaðrar virðingar og vinsælda Ragnars nú lítur niðurstaða poppsérfræðinganna 2003 einkennilega út. En svona getur nú skammtímaminnið leikið marga.
![]() |
120 kusu Andrés Önd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2010 | 21:47
Hið sígilda lögmál þöggunarinnar.
Það er nánast sama hvar borið er niður í aðdraganda Hrunsins og einnig í eftirmálum þess. Með fáum undantekningum þráir fólk að vita sem minnst um það sem óþægilegt er og víkur því frá sér.
Það er með ólíkindum að hvorki ráðamenn né fjölmiðlar létu þjóðina vita af hinum tryllta ofvexti bankanna fyrr en um mánuði áður en allt hrundi.
Og nú stendur yfir mikil barátta um það hvar draga skuli línuna á milli þeirra sem teljist hafa brugðist skyldu sinni og hinna sem ýmist geti fríað sig eða sloppið vegna fáránlega stutts tíma sem svona mál fyrnast.
Og þöggunin heldur áfram. Í kosningabaráttunni 2007 marg endurtók ég þá staðreynd að jafnvel þótt öll orka og náttúra landsins yrði lögð undir fyrir álver myndu aðeins 2% vinnuafls landsmanna fá vinnu í þeim sex risaálverum sem þá var rætt um.
Þetta fór inn um annað eyrað og út um hitt, - áfram var tönnlast á því að það yrði allsherjar lausn á atvinnuvanda landsmanna að reisa eins mörg álver og við yrði komið.
Með einfaldri samlagningu fæst út samkvæmt upplýsingum sérfræðinganna, sem Tryggvi Þór Herbertsson vitnaði sífellt í í Kastljósi nýlega, að 370-390 megavött fáist í besta falli út úr Þeystareykjum, Gjástykki-Leirhnjúki, Kröflu og Bjarnarflagi.
Samt liggur fyrir að 650 megavött þarf fyrir álver á Bakka.
Það er eins og að ekkert geti stöðvað þessa vitleysu eða fengið menn til að leysa einföld læknisdæmi.
Annað hvort hefur Tryggvi Þór ekki nennt eða talið ástæðu til að fara út í hið sáraeinfalda reiknisdæmi eða treystir því að þeir sem heyra hann tala trúi honum eða nenni ekki að leita hins sanna.
![]() |
Sagði þingmönnum frá fundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)