26.9.2011 | 21:56
Af hverju ekki tveir jafn réttháir samningsaðilar?
Það verður ekki af forsætisráðherra Ísraels skafið að flutningurinn á ræðu hans á allsherjarþingi Sþ var afar glæsilegur og margt af því sem hann sagði athyglisvert, til dæmis um lagalegan rétt minnihlutahópa í landinu, svo sem milljón Araba.
Ísrael er vestrænt lýðræðis- og menningarríki þar sem margt er vel gert.
Hann var harður á því að ekki væri hægt að viðurkenna sjálfstæði Palestínu nema á undan færu fram samingaviðræður á milli deiluaðila um það mál. Á þessum grunni lýsti hann yfir af mikilli sannfæringu að því er virtist hvað varðaði, að friðar- og samningavilji hans væri mikill og aðeins stæði á Abbas að taka í útrétta sáttahönd.
Þetta er svolítið einkennilegur málflutningur, því að hann stangast á við það, sem var uppi í byrjun Palestínudeilunnar, þar sem Sþ bauð Gyðingum og Palestínumönnum upp á að sjálfstæði tveggja aðskildra sjálfstæðra ríkja í landnu yrði viðurkennt.
Gyðingar þáðu boðið að sjálfsögðu en skiljanlegt var að á þessum tíma gætu Palestínumenn það ekki.
Að vísu er það rétt að það voru ekki Gyðingar einir sem höfðu flutt til landsins á þessum tíma, en innflutningur Gyðinganna var mun stórtækari og öðruvísi að því leyti að þeir töldu sig vera að endurheimta land, sem forfeður þeirra hefðu verið reknir frá fyrir 1800 árum.
Þetta er svona álíka og að þeir 14 milljón Þjóðverjar, sem voru fluttir nauðugir frá landsvæðum í Evrópu í stríðslok 1945, þar sem forfeður þeirra höfðu búið öldum saman allt fram að því, flyttu nú í stórum stíl inn í Pólland, Súdetahéruð Tékklands og Kaliningrad og krefðust þess nú að stofna þar sérstök þýsk ríki.
Engan þyrft að undra þótt Pólverjar, Tékkar og Rússar ættu erfitt með að samþykkja uppskiptingu þessara landa nú.
Samt er stóri munurinn sá að aðeins 66 ár eru síðan Þjóðverjar voru reknir af þessum landsvæðum, en 1800 ár síðan Gyðingar lentu í herleiðingunni frá landinu, sem þeir hafa alla tíð talið sig eiga sem guðsútvalin þjóð.
Í ræðu Netanyahu kom Zíonisminn afar glöggt fram og var settur fram eins og ekkert hefði verið sjálfsagðara en að Gyðingar yfirtækju helming Palestínu 1948.
Athyglisvert er að þeim tókst að ná þessu fram með hermdarverkum sem náðu hámarki með drápi Folke Bernadotte fulltrúa Sameinuðu þjóðanna.
Á þessum tíma voru Evrópuþjóðir með móral vegna Helfararinnar og hefðu þá átt að friðþægja Gyðingum með því að leyfa þeim að setjast að í löndum Evrópu, en í staðinn var þægilegra að láta það eftir þeim að leggja undir sig land í annarri heimsálfu.
Stalín hafði andúð á Gyðingum og var feginn að leyfa rússneskum Gyðingum að fara til Palestínu.
Þetta voru afleiðingar striðsins og leiðtogar þjóðanna, sem samþykktu þetta, báru ábyrgðina, rétt eins og á hinum miklu nauðungarflutningum á Þjóðverjum í Evrópu.
Þjóðverjar voru með móral eftir stríðið og hvorki þá né síðar hafa þeir heyrst möglað yfir nauðungarflutningunum miklu, enda vitað mál að það hefði enga þýðingu.
Íbúar Palestínu, sem boðið var að stofna sjálfstætt ríki við hlið Ísraelsríkis, voru hins vegar í annarri aðstöðu en Þjóðverjar og nágrannar þeirra, því að þeir höfðu enga þörf fyrir að hafa móral yfir því að búa í landinu. Þess vegna höfnuðu þeir boðinu en áttuðu sig ekki á því, að við ofurefli var að etja.
Ef þeir hefðu tekið boðinu og tvískipting landsins heppnast með tveimur jafn réttháum og álíka stórum friðsamlegum ríkjum, væri ástandið annað nú.
Nú, um síðir, óska Palestínumenn eftir því að stofna sjálfstætt ríki og taka í raun því boði, sem rétt var að þeim 1948.
En nú bregður svo við að allt ætlar vitlaust að verða.
Netanyahu nefndi í ræðu sinni að víða um lönd væru herstöðvar, sem útlendingar hefðu til að gæta friðar.
Bretar hefðu enn herstöð á Kýpur, Frakkar í Afríku og ekki þyrfti að fjölyrða um bandarískar herstöðvar víða um heim. Þessi ríki væru þó öll talin sjálfstæð ríki.
Þetta var greinilega sett fram til að réttlæta varðstöðvar og hernám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum.
En samkvæmt þessari lýsingu ísraelska forsætisráðherrans yrði það eðlilegt að Ísraelsmenn hefðu herstöðvar í sjálfstæðu ríki Paelstínumanna. Að minnsta kosti skil ég það sem svo.
Ef ráðherrann telur það ekki á skjön við sjálfstæði Palestínuríkis að Ísraelsmenn hafi þar herstöðvar, af hverju er hann þá á móti því að Palestína verði sjálfstætt ríki?
Og er ekki eðliegra að tvær jafn réttháir aðilar semji um frið heldur en að annar aðilinn sé rétthærri en hinn?
Er það ekki í anda þess Salómonsdóms SÞ sem kveðinn var upp 1948?
Þótt rétt sé að nágrannaþjóðir Ísraelsmanna hafi hafið stríðin 1948, 1967 og 1973, blasir hitt við að í öll skiptin hafa Ísraelsmenn lagt undir sig meira og meira land, þannig að mikil misskipting er orðin.
Þeir nýta öll færi til að ná undir sig eigum Palestínumanna í Jerúsalem og víðar, og "landnemabyggðirnar" eru dæmi um það hvernig sífellt er vegið í sama knérunn.
Jerúsalem er bæði helg borg Gyðinga og Múslima en samt ljá Ísraelsmenn ekki máls á því að henni verði skipt í samræmi við það.
Það var áhrifamikið á horfa á "útrétta sáttahönd" Netanyahus í ræðu hans, en spurningin er: Sáttahönd um hvað?
![]() |
Lýsti yfir stuðningi við Palestínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.9.2011 | 20:48
Því ekki það ?
Ég hef nú fylgst með Skaftárkötlunum í 45 ár og tekið af þeim myndir á meðan á hlaupum hefur staðið og strax eftir þau.
Aldrei hef ég þó séð "ísfall" líkt því sem sjá mátti í einum sigkatlannna í Kötlu í sumar. Þess vegna finnst mér tilgáta Ekinars Kjartanssonar ekki fráleit né heldur tilgátur um örgos við Hamarinn fyrir 15 árum eða gos heldur norðar nú í sumar.
En það er erfitt að sanna nokkuð og þess ber að geta að í undanfara Gjálpargossins 1996 sást ekkert "ísfall" (samanber jarðfall) á borð við það sem sást í Kötlu í sumar.
![]() |
Lítið eldgos í Kötlu í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.9.2011 | 19:10
Eru hólar nú orðnir fjöll ?
Borgarhólar heita lágir hólar efst á bungu Mosfellsheiðar. Hólarnir rísa í mesta lagi um tuttugu metra yfir sléttuna í kring eða álíka hátt og Landakotshæðin eða Valhúsahæð.
Engum hefur dottið í hug að kalla þessar hæðir fjöll eða að kalla Rauðhólana fjöll.
En nú er þetta breytt ef marka má tengda frétt á mbl.is, því að þar segir að á Mosfellsheiði sé "fjallið" Borgarhólar.
Ef þeir eru orðnir að fjöllum er næsta stig að segja að Reykjavíkurflugvöllur sé fyrir vestan "háfjallið" Öskjuhlíð !
![]() |
Maðurinn ekki alvarlega veikur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2011 | 18:54
Hinir fátæku hjálpi þeim ríku !
Ekki þarf annað en að líta á hagtölur til að sjá að Kinverjar eiga enn langt í land með að koma á svipuðum almennum lífskjörum tíðkast á Vesturlöndum.
Þótt æ fleiri Kínverjar hafi það gott og séu ríkir og með svipuð lífskjör og ríkja á Vesturlöndum, er það aðeins tiltölulega lítill hluti kínversku þjóðarinnar sem nýtur slíks.
Kínverjar eru, þegar á heildina er litið, fátæk þjóð á vestrænan mælikvarða, þróunarland eins og það er kallað.
Þess vegna er það dálítið skondið þegar vesturlandabúar heimta að Kínverjar hjálpi þeim út úr skuldavanda og kreppu, sem er algerlega heimatilbúin í kjölfar græðgi og ábyrgðarleysis.
![]() |
Rætt um Kína sem bjargvætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 14:18
Sama og um sjávarútvegsfyrirtæki ?
Í íslenskum lögum er útlendingum ekki heimilt að eiga meira en 49% hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hvers vegna? Væntanlega vegna þess að við viljum ekki að sjávarauðlindin komist í hendur útlendinga. Ég er þeirrar skoðunar og tel raunar að 49% sé skuggalega há prósenttala.
Ég hef hvergi séð gefið upp hve stóran hlut útlendingar eiga í sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Ef farið er að reglunum um eignarhald virðist það vera stefnan að það sé af hinu góða í mörgum tilfellum að fá erlenda fjárfestingu inn í greinina til að örva hana og íslenskt efnahagslíf.
Svo er að skilja að sama reglan um eignarhald í sjávarútvegsfyrirtækjum nái yfir fjárfesta innan EES og utan þess.
Svo er að heyra að Huang Nubo hafi í gegnum kynni sín af Íslendingum kynnst þeim möguleikum, sem einstök náttúra Íslands gefur fyrir ferðaþjónustu á öllum árstímum. Íslendingar sjálfir virðast annað hvort ekki hafa trú á þessu eða geta sinnt því.
Íslendingar hafa frekar vilja selja útlendingum orkuauðlindir á þann hátt að álver og stóriðja í eigu útlendinga eignist í raun heilu landsvæðin í gegnum orkusölusamninga sem fórna miklum náttúrverðmætum í þeirra þágu.
Meðan Alcoa á álverið á Reyðarfirði hefur virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar í raun verið afsalað til þessa erlenda stórfyrirtækis með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem hægt var að valda á Íslandi.
Rétt eins og við ömumst ekki við því að útlendingar eigi hæfilega stóran eða öllu heldur lítinn hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum virðist liggja nokkuð beint við að svipað eigi við um hugmyndir Nubos um að leggja fé í ferðaþjónustu á Íslandi.
Hann ætti að geta gert það með því að leigja það land, sem til þarf, en skiljanlegt er ef hann vill frekar vera eigandi þess.
Liggur þá ekki beint við að hann fái að eignast hlut í landi Grímsstaða sem nemi ekki meira en 49% eignarhlut?
Ég fæ ekki séð að hann þurfi svo stóran hlut en segjum að hann keypti 49%, þá gæti íslenska ríkið, sem á þegar 25% keypt 26% eða meira eftir atvikum þannig að jörðin væri áfram að meirihluta til í eigu Íslendinga.
Eins og er geta erlendir aðilar innan EES-svæðisins keypt land á Íslandi að vild. Þetta var mjög umdeilt þegar við gengum inn í EES og margir óttuðust stórfelld uppkaup útlendinga á íslensku landi.
Sem betur fer varð sú ekki raunin, en á sama hátt og Danir, sem eru innan ESB, hafa í lögum sínum stórfelldar takmarkanir gegn uppkaupum útlendinga á sumarhúsum ættum við að huga að því að taka upp varnir gegn þeirri hættu að við missum land og auðlindir í hendur útlendinga.
Aðstæður gætu breyst sem yrðu til þess að þarna þyrfti að hafa varann á.
Sá misskilningur er útbreiddur að Grímsstaðir séu hluti af ósnortnum víðernum Íslands. Það eru þeir ekki.
Þetta er bújörð inni í bæjaröð, sem endar suður í Möðrudal. og jörðin er mun lengri á vestur-austur veginn en norður-suður. Hún nær að Jökulsá á fjöllum en ekki lengra í vestur, og suður að Grímsstaðanúpum og Núpaskoti, sem eru um tíu kílómetrum fyrir sunnan bæinn.
Á þessari landareign hefur verið mikill uppblástur, sem hefur að mestu leyti stafað af ofbeit sauðfjár af mannavöldum.
Þegar horft er yfir Grímsstaði í átt til Herðubreiðar og Kverkfjalla, víðernanna norðan Vatnajökuls, er 65 kílómetra bein loftlína til Herðubreiðarlinda, og bærinn Möðrudalur er 40 kílómetrum sunnar en Grímsstaðir.
Það svæði, sem þarf að vera innan Vatnajökulsþjóðgarðs, ætti að mínum dómi að skilgreina sem ævarandi þjóðareign sem aldrei megi selja né veðsetja. Þetta svæði þyrfti að ná ákveðinn kílómetrafjölda inn á austurbakka Jökulsár á fjöllum, sem yrði friðuð um aldur og ævi.
Ósnortin íslensk víðerni með öllum sínum miklu náttúruverðmætum ætti að skilgreina á sama hátt og Þingvellir eru skilgreindir í Þingvallalögunum frá 1928, sem ævarandi eign þjóðarinnar, sem aldrei megi selja né veðsetja. Þannig er reyndar ætlunin að það verði samkvæmt frumvarpi Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.
Af þeim sökum þarf að skilgreina jörðina Grímsstaði minni en hún er nú, sem nemur því svæði sem verði skilgreint svona.
Ef Huang Nubo eignast hlut í jörðinni sem er örugglega minna en helmingshlutur er vandséð af hverju það ætti ekki að nægja bæði honum og sömuleiðis ætti það að nægja okkur Íslendingum að eiga örugglega góðan meirihluta í þessari sameign.
Eða hvað? Á að gilda annað um þetta en sjávarútvegfyrirtækin? Á að gilda annað um fjárfesta utan EES-svæðisins en innan þess?
![]() |
Fær svar innan fárra vikna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.9.2011 | 23:34
Snilld forfeðra okkar.
Víkingaskipin til forna og skip margra svonefndra frumstæðra þjóðflokka voru í raun vísindaleg snilldarsmíð þannig að betur verður ekki gert í tölvulíkönum nútímans. .
Lag langskipanna var háþróað með tilliti til lágmarks mótstöðu þannig að ræðarnir gátu róið þeim á ævintýralegum hraða.
Þegar Thor Hayerdal lét smíða Kon-tiki flekann til siglingar yfir Kyrrahaf þótti honum skrýtið að samkvæmt fyrirmyndinni áttu stögin, sem héltu flekanum og mastri hans saman, að vera afar slök og sama var að segja um festingarnar og bindingarnar sem bundu trjábolina saman.
Heyerdal lét því stögin og festingarnar vera stinn svo að flekinn hefði nægan styrk og gæfi ekkert eftir.
Þegar byrjað var að sigla flekanum kom hins vegar í ljós, að þegar hann var kominn út á sjávaröldurnar, nögðu stögin og bindingarnar sig smám saman inn í trjábolina og eyðilögðu flekann.
Fornmennirnir höfðu nefnilega get ráð fyrir því að flekinn gæti verið sveigjanlegur á öldunum og höfðu slakann á stögunum og bindingunum í samræmi við það.
Eftir að nýr fleki hafði verið gerður eftir þessari fyrirmynd gekk allt upp og flekinn hreyfði sig og vatt upp á sig eins og lifandi vera á öldum Kyrrahafsins án þess að stögin nöguðu hann í sundur.
Sumir flugvélahönnuðir á liðinni öld eins og hönnuður ítölsku Partenavia flugvélanna þurftu ekki vindgöng til að prófa flugvélarnar sem þeir hönnuðu til þess að þær flygju eins og best yrði á kosið.
Eitt besta dæmið um það var Partenavia Victor sem var búin tveimur 200 hestafla hreyflum. Hún var með fastan hjólabúnað, sem ekki var hægt að taka upp, en flaug samt hraðar með hjólin niðri en jafnstór bandarísk vél af gerðinni Piper Seneca af sömu stærð með sömu hreyfla, sem tók hjólin upp.
![]() |
Stærsta víkingaskip í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.9.2011 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.9.2011 | 19:54
"Hamarinn sem hæst af öllum ber."
Hornbjarg er kannski stærsta fuglabjarg landsins en Látrabjarg er mun aðgengilegra og auðveldara fyrir ferðamenn. Látrabjarg á sérstakan sess í huga mínum síðan ég gerði fyrstu heimildarmynd mína fyrir Sjónvarpið, en hún var um Látrabjarg og bar nafnið "Hamarinn, sem hæst af öllum ber" var um Látrabjarg.
En mestu varðar þá að konan mín frá Vesturbyggð og sú byggð mér sérlega hugstæð eins og sést af lagi og ljóði sem ég samdi á sínum tíma í oðastað hennar:
BYGGÐIN MíN.
Langt í vestri vakir byggðin mín
vinaleg í faðmi brattra fjalla.
Unaðsleg hún ól upp börnin sín
er þau hlupu´um strönd og græna hjalla.
Roðagylltur Rauðisandur er.
Rís úr hafi landsins ysti vörður.
Ævinlega´er efst í huga mér
æskubyggðin kæra, Patreksfjörður.
Fyrir 25 árum krækti ég mér í firmanafnið "Hugmyndaflug" og hugðist fara út í það að bjóða ferðamönnum, einkum erlendum, að kaupa sér eins dags ferð, þar sem þeim væri tryggt einstætt ferðalag.
Staðirnir, sem í boði væru, yrðu Látrabjarg, Hornvík og Hornbjarg eða Kverkfjöll og færi eftir veðri hvert haldið yrði. Ef ekki væri flugfært til neinna þessara staða fengju þeir endurgreitt verð ferðarinnar.
Flogið yrði frá Reykjavík og lent á gömlum lendingarstað í fjörunni við Hvallátra, þaðan gengið um gömlu verstöðina Brunna að Bjargtöngum. Frá Bjargtöngum er stutt ganga upp aflíðandi bjargbrúnina að Ritugjá, þar sem bjargið er 60 metra hátt og fuglalífið í algleymingi.
Því miður láta alltof margir þetta nægja, en það er ótal margt að sjá ef menn halda áfram upp eftir aflíðaindi bjargbrúninni alla leið upp, þar sem bjargið er rúmlega 440 metra hátt.
Mesta ævintýrið er þó að fara niður svonefnda Saxagjá um snarbratta urð og ganga þaðan til vesturs út á svonefnda Saxagjárvöllur, en í þar slógu menn fyrrum gras með orfi og ljá, heyjuðu í bratta, sem er ávið bröttustu húsþök og drógu síðan eða báru heyið alla leið upp á bjargbrún.
Hér er aðeins fátt nefnt, en að mínum dómi eru möguleikar þessa svæðis stórlega vannýttir.
Á sínum tíma ræddi ég þessi áform við þáverandi flugmálastjóra, Pétur Einarsson, sem leist mjög vel á þær. Þegar til átti að taka var skriffinnskan í kringum þetta hins vegar svo mikil að ég hætti við, enda nóg að gera við önnur viðfangsefni.
![]() |
Mikilvægt að vernda svæðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2011 | 12:29
Enn einn bullarinn ?
Það hefur farið eins og mig grunaði í upphafi að gosið í Eyjafjallajökli myndi laða til landsins fjölda erlendra ferðamanna, sem annars hefðu ekki komið hingað. Einkum væri það mikilvægt að hingað myndu koma þeir útlendingar sem helsta hafa áhrif á grundvelli þekkingar og reynslu víða um lönd.
Sjálfur hef ég unnið með fjölmörgum af þessu mönnum, sjónvarps- og útvarpsmönnum frá öllum heimsálfum, rithöfundum, blaðamönnum, ljósmyndurum og stjórnmálamönnum.
Álit þeirra er einróma og í samræmi við það sem ég hef haldið fram hin síðari ár, að náttúra Íslands, einkum á hinum eldvirka hluta landsins, sé eitt af helstu undrum heims og standi framar ýmsum þeim svæðium, sem hingað til hafa verið talin merkilegust, svo sem frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone.
Sú skoðun mín hefur verið staðfest í útttektum virtra vísindamanna og ferðafrömuða.
En hér heima er oft eins og maður sé að klappa í stein varðandi þetta mál, menn láta sér fátt um finnast og tala með lítilsvirðingu um "eyðisanda, grjót og urðir."
Ástæðan er einföld: Menn eru enn fastir í þeirri sýn að náttúran sé einskis nýt nema á mælikvarða megavatta og tonna af málmum, sem hægt sé að kreista út úr henni.
Það truflar nefnilega hríslandi fögnuðinn yfir stjótfenginni þenslu og gróða við undirskrift verktakasamninga og orkusölusamninga ef bent er á gildi íslenskrar náttúru ósnortinnar, hvað þá ef því er haldið fram að til lengri tíma litið gefi það meira af sér fjárhagslega að nýta sér gildi hennar öðruvísi en með því að gera sem mest af henni að virkjana- og iðnaðarsvæðum.
Hamrað er á því stanslaust að virkjanir og lón séu aðeins á eyðisöndum og urðum, þótt vitað sé, til dæmis, að í flestum tilfellum er sökkt landi undir miðlunarlón, sem er grænt og gróið í lægðum og vinjum hálendisins.
40 ferkílómetrar af grónu landi fóru undir Hálslón og næstum því svo mikið undir Blöndulón. Gróðurlendisvin mun fara undir lón vegna virkjunar Skjálfandafljóts og gróðurlendi verður sökkt undir lón Búlandsvirkjunar, svo að dæmi séu tekin.
Í augum margra Íslendinga eru þeir útlendingar bullarar og vitleysingar, sem sjá möguleikana og gildið, sem ósnortin íslensk náttúra felur í sér, - vita ekkert hvað þeir eru að segja, því að auðvitað vitum við þetta allt best sjálf.
Jean De Lafontaine, sem komið hefur til 62ja landa og segir íslenska náttúru taka öllu fram sem hann hafi áður séð, er þar af leiðandi enn einn bullarinn sem kemur hingað til lands, með jafn vitlausar hugmyndir um land okkar og kínverjinn Huang Nubo.
![]() |
Náttúran er hreint út sagt ótrúleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.9.2011 | 23:57
"Kjörið alræði"?
Ég hef verið að glugga í bókina "Rússland Pútíns" sem rússneska blaðakonan Anna Politkovskaja skrifaði eftir að Pútin var endurkjörinn forseti fyrir sjö árum.
Skrautsýningin og tilstandið, sem nú er haft í frammi í tenglsum við það að Medvedev ætlar að víkja á næsta ári fyrir Pútín úr forsetaembætti passar algerlega inn í þá lýsingu, sem Politkovskaja gefur í sinni bók á aðferðum Pútíns og hans manna við að nota öll meðöl nútíma áróðurstækni til að upphefja þennan raunverulega einvald Rússlands.
Þetta eru aðferðir sem þekktar hafa verið hjá einvöldum að Stalín og Hitler meðtöldum.
Politkovskaja var myrt í október 2006 og á sömu lund hefur farið fyrir mörgum þeirra, sem dirfst hafa að kasta rýrð á einvaldinn, sem hefur bæst við röð hinna fjölmörgu einvalda, sem hafa stjórnað Rússum með harðri hendi um aldir.
Í bók sinni gagnrýnir Politkovskaja þjóð sína fyrir það að hún skuli leyfa honum að komast upp með ofríki sitt og ótal pretti og blekkingar sem því fylgir. En smám saman hefur færst yfir hana doði og uppgjöf sem veldur því að Pútín getur fengið meirihluta í "frjálsum" kosningum. Yfir slíkt hefur Sigurður Líndal prófessor sett fram hugtakið "kjörið alræði."
Politovskaja bendir til dæmis á það að Pútín hafi aldrei tekið þátt í stjórnmálalegum kappræðum í sjónvarpi heldur sett eigið sjónarspil á svið með dyggri aðstoð ríkissjónvarpsstöðvanna í Rússlandi.
Ég kom til Rússlands fyrir nokkrum árum, og þótt ég væri aðeins í landinu í þrjá daga, var það nógur tími til þess að heyra heimamenn lýsa því hvernig tveir helstu bölvaldar þjóðarinnar, fátækt og spilling, þrífast og nærast undir einvaldsstjórn Pútíns.
Spillingin gegnsýrir allt þjóðfélagið, ekki síst réttarkerfið.
Nómenklatúran hvarf ekki með falli kommúnismans heldur skipti bara um föt og gerðist nómenklatúru-gróðapungar.
Politkovskaja játar í bókinni að kommúnisminn hafi farið illa með Rússland en sýnist það sem nú er að gerast þar vera orðið jafnvel enn verra. Það eru sannarlega stór orð, einkum vegna þess að vesturlandabúar láta sér það vel líka að rússneska samfélagið sé sveipað í Pótemkimtjöld yfirborðslýðræðis og markaðssamfélags.
![]() |
Fögnuðu framboði Pútíns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2011 | 18:28
Bara byrjunin ?
Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur eru ekki að leika sér þegar þeir dæla jarðhitavatni niður um borholur.
Þvert á móti er hér um afar nauðsynlegar aðgerðir að ræða vegna þess að annars rennur afgangsvatn frá Hellisheiðarvirkjun út í umhverfið og verður smám saman til vandræða. Auk þess er vonast til að hægt sé að búa til nokkurs konar orkuhringrás, sem geti aukið nýtingu svæðisins, en eins og nú er fara tæp 90% orkunnar ónýtt út í loftið.
Þetta er ekki eina virkjunin, þar sem fást þarf við affallsvatn. Í Svartsengi er þetta vandamál og um tíu kílómetrum fyrir sunnan Kröflu er stækkandi tjörn, sem þar er að verða að stöðuvatni, en vatn í það rennur alla leið þangað ofan frá virkjanasvæðinu.
Á mynd hér að ofan er horft yfir þetta stækkandi vatn og sjást gufustrókarnir frá Kröfluvirkjun í fjarska.
Þetta vandamál á eftir að þrefaldast þegar búið verður að stækka Kröfluvirkjun eins og ætlunin er að gera, og eins og er yppta menn bara öxlum, þegar minnst er á þetta og segja að þetta verði leyst með niðurdælingu.
En þetta er ekki verst þarna heldur við Bjarnarflag. Þar er aðeins 3ja megavatta virkjun en samt er affallsvatnið farið að renna í gegnum Jarðböðin í átt að Mývatni, sem er aðeins um rúmlega þriggja kílómetra fjarlægð.
Á myndinni er horft í áttina að Námaskarði og Bjarnarflagi en nær sjást Jarðböðin og affallsvatnið frá þeim.
Affallsvatnið er þegar komið í Grjótagjá, sem er ekki lengur með tært vatn eins og áður, heldur gruggugt.
Þarna stendur til að gera þrjátíu sinnum stærri virkjun og erfitt að sjá annað en að allt hið stóraukna grugguga affallsvatn hennar fari beint ofan í Mývatn, sem er aðeins þrjá kílómetra í burtu og landslag hallar þangað.
Engar áhyggjur virðast menn hafa af því, framleiðslan á Bakka mun væntanlega fá forgang yfir lífríki Mývatns ef á þarf að halda.
Síðan yppta menn bara öxlum og segja: Það verður allt í lagi, affallsvatninu verður komið fyrir kattarnef með niðurdælingu þegar þar að kemur.
Niðurdælingin á Hellisheiði er enn á tilraunastigi og styrkt af þeim sökum. Nú hafa þegar komið fram ófyrirséðar afleiðingar af henni varðandi jarðskjálftamælingar og tilrauninnni að öðru leyti ekki lokið né liggur fyrir árangur af henni.
Samt er búið að slá því föstu að reisa í Bjarnarflagi stórvirkjun, 50% stærri en núverandi Kröfluvirkjun er, rétt við Mývatn og láta virkjunina njóta vafans, - ekki náttúruna eins og við skuldbundum okkur til að gera með því að undirrita Ríósáttmálann 1992.
Náttúra Mývatns er ekki aðeins eitthvað loftkennt fyrirbæri í sjálfu sér og áhugamál "Lattelepjandi kaffihúsafólks í 101 Reykjavík", heldur undirstaða undir ferðaþjónustunni á þessum slóðum og þeim miklu tekjum, sem fólk hefur af henni.
Veitt eru þau svör varðandi það, sem þarna á að gera, að vöktun verði viðhöfð varðandi þetta atriði.
Og hvenær byrjar hún? Svar: Þegar virkjunin hefur tekið til starfa ! Þá munu menn standa frammi fyrir því að hafa selt orkuna frá henni langt fram í tímann svo að í raun verður þessi vöktun jafn óþörf og það þegar læknir tekur púlsinn á látnum sjúklingi.
![]() |
Manngerðir skjálftar trufla vöktun Kötlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.9.2011 kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)