15.9.2007 | 02:11
REVA, VALKOSTUR SEM EKKI FÆR AÐ NJÓTA SÍN.
Litli rafbíllinn Reva sem kynntur verður um helgina geldur þess að hann nýtur þess í engu hve lítið rými hann tekur í gatnakerfinu. Ef þetta væri annar af tveimur bílum í fjölskyldunni myndi losna gríðarlegt pláss á götunum og því vil ég enn og aftur benda á tillögur mínar um lengdargjald á bíla. Venjulegt fólk getur ekki keypt bílinn vegna þess að það verður að eiga annan bíl með honum. Reva hefur of lítið drægi til þess að hægt sé að fara á honum út af höfuðborgarsvæðinu nema menn hafi tíma til að stansa og bíða eftir því að hlaða batteríin.
Bíllinn tekur þrjá í sæti, en þó varla fullvaxinn í aftursætið. Hann hefur minnsta beygjuhring í flotanum og er 20 sentimetrum mjórri en Smart. Báðir þessi bílar ættu að njóta þess hve lítið rými þeir taka. Ég hef reynslu af því að aka minnsta bílnum í íslenska flotanum og kostirnir eru yfirgræfandi í þrengslunum í borgarumferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2007 | 00:20
SAMBAND Á MILLI SKJÁLFTANNA OG FYLLINGAR HÁLSLÓNS?
Það vekur athygli þegar skoðaðir eru skjálftarnir sem voru við Upptyppinga síðsumars að fylgni virðist á milli þeirra og fyllingar Hálslóns. Þegar lónið fylltist hraðast voru skjálftarnir mestir en dró úr þeim þegar hleypt var úr lóninu svo að hækkaði hægar í því. Nú er lónhæðin nokkuð kyrr og líka rólegt á mælunum. Ef þetta er svona er ljóst að farg Hálslóns hefur áhrif á hraunkviku djúpt í jörðu og komið af stað skjálftum sem vísindamenn sögðu vera einstæða, því þeir væru "á ónvenjulega miklu dýpi".
Þess ber að gæta að Hálslón er á sprungusveim Kverkfjalla, sem er það breitt að það nær vestur að Upptyppingum og að Askja er vestan við þennan sprungusveim. Sprungusveimar geta vafalaust verið flókin fyrirbæri. Þannig voru hræringar í Hamrinum og Bárðarbungu undanfari eldgosa og umbrota í Gjálp og Grímsvötnum.
Það er álíka langt frá Bárðarbungu í Gjálp og Grímsvötn og frá Upptyppingum til Kárahnjúka.
Í ljóðinu Áfangar nefnir Jón Helgason "Kverkfjallavættir reiðar". Mann dettur helst í hug skáldlegt innsæi varðandi skjálfta og kvikuhreyfingar á miklu dýpi nú, því Kverkfjöll-Upptyppingar-Kárahnjúkar, þetta er allt á sprungusvæði Kverfjallasveimsins.
Áður en lónið kom gat maður horft yfir berggang á botni Hjalladals sem stefndi þráðbeint á Kverkfjöll og sama var að segja um sprungurnar sem liggja undir Kárahnjúkastíflu og Sauðárdal og eru nú undir fargi Kárahnjúkastíflu og Hálslóns.
Vitað er að þegar ísaldarjökullinn bráðnaði fyrir 11000 árum hafði létting fargsins þau áhrif á svæðið norðan Vatnajökuls að þar jókst eldvirkni þrítugfalt, - endurtek, þrítugfalt, fyrst á eftir meðan landið var að jafna sig.
Þá, eins og nú, hefur þessi fargbreyting haft áhrif langt niður í jarðskorpuna, "óvenju djúpt" eins og jarðfræðingar höfðu á orði um skjálftana við Upptyppinga.
Mikið væri nú gott ef sérfræðingar hefðu eitthvað um þetta að segja því að framansagt eru aðeins hugleiðingar leikmanns, að vísu byggðar á samneyti og samtölum við jarðvísindamenn í áratugi.
Guðmundur Sigvaldason heitinn lagði áherslu á það hve þunn jarðskorpan væri á þessu svæði og byggði varnaðarorð sín á því.
Í vændum er starfstími Kárahnjúkavirkjunar með allt að 50 metra árlegri vatnsborðssveiflu Hálslóns þar sem um er að ræða "miðlunarrými" upp á 2100 gígalítra. 180 metra djúpt lón er gríðarlegt farg, ekkert síður en 180 metra þykkur jökull.
Það má spyrja vísindamenn margra spurninga:
Munu aftur hefjast skjálftar þegar farg lónsins minnkar hvað hraðast á næstu útmánuðum?
Verður aftur skjálftahrina þegar fargið eykst hvað hraðast síðsumars 2008?
Til er sú vísindakenning að hæðar/fargbreyting vatns í Grímsvötnum sem nemur miklu minna magni en hækkun Hálslón geti hleypt af stað eldgosum. Hvað um Hálslón?
Auðvitað var farg ísaldarjökulsins miklu víðfeðmara en farg Hálslóns er nú. Á móti kemur að farg jökulsins minnkaði hægt og bítandi jafnt og þétt á mörgum öldum en farg Hálsóns mun sveiflast upp og niður með hröðum breytingum tvisvar á ári.
Hraðasta breytingin er hækkunin frá júlí til miðs septembers.
Er hægt að spá eitthvað í það hvaða áhrif þessar árlegu fargsveiflur geti haft þegar til lengdar lætur?
Eða verður að bíða og fagna þeirri tilraun sem þarna er verið að gera um áhrif mikils fargs á þunna og sprungna jarðskorpu eldfjallasvæðis vegna þess hve mikið vísindagildi hún hefur, burtséð frá hugsanlegum afleiðingum?
Ég veit að það er líklega ekki vinsælt hjá öllum að ræða þetta af því að þetta mál er "viðkvæmt".
Ég tel hins vegar að málið sé viðkvæmt af því að það sé svo stórt á alla lund og þess vegna eigi frekar að ræða það en smærri mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.9.2007 | 23:49
RÉTTLÁT REFSING?
Refsingin sem alþjóða bílaíþróttasambandi hefur dæmt Mc Laren liðið í er ekkert smáræði. Ýmsar spurningar vakna. Ef iðnaðarnjósnirnar sköpuðu bílunum þær endurbætur að þess vegna vegnaði þeim svo vel, - hvers vegna fá þá ökumennirnir að aka áfram? Þeir hafa þá væntanlega hagnast alveg eins og liðið í heild? Eða hvað?
En það má líta á þetta frá annarri hlið. Iðnaðarnjósnirnar hafa væntanlega ekki skapað Mc Laren forskot vegna þess að þær upplýsingar sem þeir fengu frá Ferrari snerust um atriði sem Mc Laren hefur væntanlega ekki getað fullkomnað eða gert neitt betri en Ferrari.
Líklegast liggur að baki sektinni og refsingunni að sá sem brýtur af sér verði að gjalda fyrir það, jafnvel þótt það hafi ekki skapað honum forystuna í keppninni. Af því leiðir að ökumennirnir halda sínu.
Síðan má þá deila um það hvort refsingin hefði frekar átt að felast í hærri fjársekt og að stigarefsingunni hefði verið sleppt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 23:07
JÓN ÞÓRARINSSON NÍRÆÐUR, EINN AF BRAUTRYÐJENDUNUM
Jón Þórarinsson tónskáld getur litið stoltur yfir farinn æviveg sem einn af brautryðjendunum í íslensku tónlistarlífi. Það gildir ekki aðeins um mörg frábær tónverk og útsetningar heldur einnig fórnfúst starf hjá Tólistarfélaginu á sínum tíma sem meðal annars skilaði sér í byggingu Austurbæjarbíós. Það hefur nefnilega gleymst að það hús var ekki aðeins hugsað sem bíóhús heldur ekki síður sem tónleikahús og þannig gegndi það á sínum tíma sama hlutverki hvað flutning tónlistar og leiklistar snerti og Háskólabíó, Laugardalshöll og Egilshöll gera nú.
Jón varð síðar um skeið dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins og þá kynntist ég vel ýmsum hliðum hans eins og góðri kímni sem hann lumaði á. Hann var traustur og vandaður og fyrir þessi ánægjulegu kynni er gott að geta þakkað og óskað þessum aldna jöfri allra heilla á þessum stóru tímamótum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2007 | 15:00
VÍST VARAÐI ÍSLANDSHREYFINGIN VIÐ SÖLU ORKULINDA
Þorsteinn Pálsson skrifar athyglisverðan leiðara í Fréttablaðinu í dag og færir að því gild rök að skipulag orkumála á Íslandi sé í uppnámi. Hann segir m.a.: "Enginn stjórnmálaflokkur hefur í reynd litið á slíka sölu sem grundvallarmál eða stefnufrávik..." Þetta er ekki rétt. Í öllum yfirlýsingum sínum, jafnvel þegar þurfti að greypa áhersluatriði í örfáar setningar á dreifimiðum, lagði Íslandshreyfingin þunga áherslu á það sem gæti gerst ef ekki yrði spyrnt við fótum í þessu efni.
Við vöruðum aftur og aftur við því, síðast í ályktun stjórnar sem send var öllum fjölmiðlum eftir kosningar, að andvaraleysi kynni að leiða til svipaðrar niðurstöðu um orkulindirnar og auðlindir hafsins, að örfáir aðilar, jafnvel erlendir, eignuðustl þessar auðlindir allar.
Síðan er smám saman að koma fram það sem við vöruðum svo sterklega við. Nýjasta dæmið er kaup erlends banka á þriðjungs hlut í íslensku fyrirtæki sem á þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja.
Þótt Íslandshreyfingin kæmi ekki vegna ranglátra kosningalaga, ólikum þeim sem eru í nágrannalöndum okkar, þeim tveimur mönnum á þing sem hún hafði atkvæðafylgi til, - er í fullu gildi það sem segir í fyrrnefndri ályktun stjórnarinnar frá því snemmsumars, að hreyfingarinnar verður þörf áfram og að því verður stefnt að hún starfi áfram og sé tilbúin í slaginn um þessi mál, hvenær sem þess verður þörf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.9.2007 | 20:23
EYJÓLFUR AÐ HRESSAST!
Fyrr á þessu ári spurði ég í bloggi hvort möguleiki væri á að Eyjólfur hresstist, þ. e. landsliðsþjálfarinn. Ég minnti á að ferill hans sjálfs sem leikmanns hefði alla tíð haft á sér yfirbragð dugnaðarforks sem aldrei gæfist upp og berðist til síðasta blóðdropa, hvert sem mótlætið væri. Þessir eiginleikar eru nú að skila sér hjá landsliðinu þótt sigurinn í kvöld hafi einkennst af dálítilli heppni.
Svo virðist sem Eyjólfur sé að skila frá sér baráttuanda til strákanna en það var hann sem fyrst og fremst skóp sigurinn í kvöld. Strákarnir helguðu leikinn minningu Ásgeirs Elíassonar og kannski var andi hans með í för.
Það var ákaflega ánægjulegt að sigur skyldi vinnast í minningu hins frábæra þjálfara og góða drengs.
Eyjólfur og þið allir! Til hamingju! Þið eruð heldur betur að hressast í síðustu tveimur leikjum. Áfram svona!
![]() |
Ísland sigraði Norður-Írland 2:1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2007 | 12:29
"VARÚÐ OG VIRÐING"
Síbyljan um forystu Íslands í umhverfismálum hefur slævt umhverfisvitund okkar og breiðir yfir bresti í þeim málum.Talsmenn Samfylkingar eru nú byrjaðir að nota sömu orðin og Framsókn gerði þegar umhverfisröskun var í undirbúningi. Katrín Júlíusdóttir segir að fara verði með "varúð" við virkjanir í Þjórsá, en þær felast meðal annars í því að drekkja einstæðum fornminjum undir fyrirhuguð lón virkjana. Ráðamenn Framsóknar tönnluðust á "varúð og virðingu" fyrir hinni einstæðu íslensku náttúru þegar virkjun neðst í Þjórsárverum og fleiri virkjanaáform voru á dagskrá.
Valgerður Sverrisdóttir sagði að Kárahnjúkavirkjun hefði staðist "ströng" íslensk lög um mat á umhverfisáhrifum!
Þau voru ekki strangari en það að þessi mestu óafturkræfu umhverfisspjöll Íslandssögunnar fengu grænt ljós hjá Siv Friðleifsdóttur.
Talsmenn álvers á Reyðarfirði tönnlast á því að verksmiðjan verði með "fullkomnasta hreinsibúnað í heimi" þótt fyrir liggi að hreinsibúnaður Norsk Hydro hefði sleppt tuttugu sinnum minna brennssteinsdíoxíði út í loftið en sá ameríski.
Ég frétti af því að á ráðstefnu um gufuaflsvirkjanir á dögunum hefði ræðumaður, sem talaði mjög fyrir umhverfisvernd, eingöngu talið hana felast í því að ganga sem "snyrtilegast" frá virkjunarsvæðunum. Í hans huga virtist ekki inni í myndinni að nokkurt jarðhitasvæði yrði látið ósnert.
Nær allt sem við Íslendingar höfum gert í virkjun umhverfisvænni orkugjafa en olíu hefur verið með sem skjótastan gróða í huga. Þegar við byrjuðum að nýta jarðhitann í stórum stíl í olíukreppunni um 1980 var það eingöngu vegna þess að sú orkuöflun var ódýrari en hin dýra olíunotkun.
Nú hömumst við við að virkja allt sem hægt er að virkja fyrir mengandi álver og réttlætum það með því að annars yrðí virkjað með kolum annars staðar. Þau rök standast ekki því jarðhiti og vatsnafl Íslands er langt innan við eitt prósent af slíkri orku í heiminum.
Neðri-Þjórsá var ekki á listanum sem birtur var í "Fagra Ísland" yfir þá virkjanakosti sem ætti að víkja til hliðar. Þess vegna virðist stefna í það að hið eina sem Samfylkingin geti lagt til málanna sé að fornminjunum hjá Þjótanda sem og þeim lendum sem fara undir vatn verði sökkt með "varúð". Búðafoss og Urriðafoss verða væntanlega þurrkaðir upp gætilega og með varúð.
Vonandi verðu það ekki þannig að Samfylkingin fari svona undan í flæmingi varðandi aðrar virkjanir sem hinn allsráðandi meirihluti Sjálfstæðismanna stefnir að að knýja í gegn.
![]() |
Ekkert íslenskt sveitarfélag tilnefnt til umhverfisverðlauna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.9.2007 | 11:44
FEÐGAR Í TVEIMUR LÖNDUM GÁTU SÉÐ BRÓÐUR FARAST Í ÞVÍ ÞRIÐJA.
11. september 2001 var ég á götu í Kaupmannahöfn þegar Örn sonur minn hringdi frá Íslandi og benti mér á að horfa á beina útsendingu frá New York eftir flug þotu á annan tvíburaturninn. Síðan kom önnur þota og flaug á hinn. Annar sonur minn, Þorfinnur, var þennan morgun á ferð í Boston ásamt Friðriki Þór Friðrikssyni og þeir breyttu ferðaáætlun sinni á vesturleið. Hann hefði þess vegna getað verið um borð í annarri þotunni.
Þetta er 21. öldin: Maður getur verið staddur erlendis og horft ásamt syni sínum á Íslandi á það þegar bróðir hans ferst í þriðja landinu.
Hrollvekjandi. Þess vegna hófst 21. öldin í raun á þessum degi fyrir sex árum.
![]() |
Boðað myndskeið með Osama bin Laden birt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.9.2007 | 23:15
MINNIR Á CONAN DOYLE EÐA AGÖTU.
Sherlock Holms notaði stundum útilokunaraðferð til að leysa morðgátur. Ef nítján voru grunuð og eitt þeirra það allra ólíklegasta kom stundum að því að þegar útilokað var að þessi nítján væru sek hlaut sá tuttugasti að vera sekur. Foreldrar Madeleine voru að sjálfsögðu ólíklegust þeirra sem gruna mátti um hvarf stúlkunnar. En þegar nokkurn veginn var orðið útilokað að neinn annar gæti hafa átt þátt í hvarfinu hlaut einnig að fara svo að ferill þeirra væri rannsakaður.
![]() |
Portúgalska lögreglan segir DNA-sýni afdráttarlaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2007 | 00:13
GUÐLAUGUR ÞÓR FRÁ VINNU Í SEX VIKUR?
Guðlaugur Þór Þórðarson verður frá vinnu í minnst sex vikur ef ekki lengri tíma vegna brjóskloss í baki því að mjög seinlega gengur að koma honum að í skoðun. Þetta sem ég var að segja er tilbúningur hvað snertir nafn svo dýrmæts starfskrafts, - en virðist vera í fullu gildi um nær alla aðra, - líka fólk sem vinnur dýrmæt og hátt launuð störf, - þannig er nú ástandið á sumum sviðum í málaflokknum sem Guðlaugur Þór hefur nýtekið við.
Ég vísa til tveggja blogggreina Kristbjargar Clausen sem lýsa ástandinu í þessum málum. Maður hennar er byggingarfræðingur sem var á kafi í krefjandi og dýrmætum verkefnum þegar brjósklosið gerði hann skyndilega óvinnufæran.
Mér er kunnugt um verkefnin sem hann vann að og önnur sem til stóð að hann tæki að sér og get fullyrt, að ekki einasta verður hann fyrir miklu tekjutapi vegna þess mikla dráttar sem er á því að hann fái einfalda úrlausn í heilbrigðiskerfinu, - heldur gjalda verkefnin og þeir sem að þeim standa fyrir þetta og allt þjóðfélagið þarf að borga þann brúsa á endanum.
Það er víst kvóti á aðgerðum í þessum tilfellum, - væntanlega til að spara fé í hinu dýra heilbrigðiskerfi, en hefur einhver reiknað það út hve miklum fjármunum er sóað með því að halda vel menntuðu fólki á besta aldri frá vinnu vikum saman?
Þá er ekki verið að tala um þjáningar viðkomandi og vandræði hinna nánustu í kringum þá.
Guðlaugur Þór hefur nýtekið við þessum málaflokki og verður því ekki sakaður um þetta ástand, heldur er honum óskað allra heilla í því að taka til hendinni eins og hans ætti að vera von og vísa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)