BENSÍNLYKT AF MÁLINU.

Það er langt gengið þegar á að reyna að telja manni trú um að það sé sérlega umhverfisvænt að aka á átta gata Jeep Wrangler og raunar öllu snúið á haus. Átta strokka vél er augljóslega flóknari og eyðslufrekari en fjögurra strokka. Jeep Wrangler er einstaklega kassalagaður og sjá nýjasti er með loftmótstöðustuðulinn 0,49 ef ég man rétt sem eykur bensíneyðsluna stórlega með auknum hraða. Flestir nýjustu fólksbílarnir eru með stuðul í kringum rúmlega 0,30.

Jeep Wrangler 2007 er meira en 1800 kíló og knúinn er sex strokka vél sem gefin er upp með 13 - 15 lítra eyðslu á hundrað kílómetra

Rýmisnýting í Jeep Wrangler er einstaklega léleg, - hann tekur aðeins fjóra í sæti og er með farangursrými af svipaðri stærð og 40 prósent léttari fólksbílar sem eyða tvöfalt til þrefalt minna eldsneyti.

Vitað er að dísilvélar endast betur en bensínvélar og eyða mun minna eldsneyti. Helsti bílvélasérfræðingur Fiat-verksmiðjanna spáir því að næsta kynslóð bensínvéla muni eyða mun minna en þær bestu núna, en þegar í dag er hægt að kaupa bara þokkalega rúmgóðan fimm manna bíl með dísivél sem eyðir í kringum fimm lítrum á hundraðið.

Forsendurnar sem gefnar eru fyrir því að tvinnbílarnir séu svona fjandsamlegir umhverfinu sýnast mér stórlega skakkar en ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun minni að vegna þess hve þeir bílar eru flóknir og dýrir í framleiðslu séu þeir ekki eins umhverfisvænir og af er látið og því eigi að leggja aukna áherslu á dísilbíla að svo stöddu.

Ég hef fengið bréf frá konu sem kvartar yfir ofnæmi gegn útblæstri dísilvéla, en miklar framfarir eru í gangi gagnvart útblæstrinum og leggja ber áherslu á nýjustu og bestu vélarnar.

Það getur ekki verið umhverfisvænt að snatta um í borgarakstri á 1800 kílóa þungum eyðsluháki sem hefur ekki meira rými fyrir farþega en minnstu smábílar. Engu er líkara en að meðmælendur stóru drekanna séu að storka mönnum með því að taka 8 gata Jeep Wrangler sem dæmi um umhverfisvænt farartæki.

Meira en 90 prósent af akstri fólks fer fram í borgarumferð og fráleitt að mínu mati að það þurfi 1800 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti um göturnar. (Meðalfjöldi í bíl er rúmlega einn maður)

Stóru og ríku fyrirtækin sem hafa hag af óbreyttu ástandi og sem mestri sölu á bensíni hafa ráðið til sín vísindamenn til að rífa niður niðurstöður umfangsmestu vísindarannsóknanna sem sýna ástand lofthjúpsins.

Það kæmi mér ekki á óvart að eitthvað svipað geti legið að baki "vísindalegum rannsóknum" á borð þær sem skila Wrangler og Land Rover á topp umhverfisvænna farartækja.

Það er ekki aðeins skítalykt af málinu, það er bensínlykt af því líka.


mbl.is Jeppar umhverfisvænni en tvinnbílar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRÁ PAVAROTTI TIL KRISTINS SIGMUNDSSONAR.

Andlát Pavarottis hefur hleypt af stað vangaveltum um tenórsöngvara sem varpa ljósi á þann mátt sem spilun af diskum og í útvarpi og sjónvarpi hefur á mat nútímafólks á söngvurum. Það væri synd ef frammistaða stórsöngvara í óperuhúsum án hljóðnema fengi engu að ráða um þetta mat. Pavarotti var jafnvígur á hvort tveggja og enginn söngvari hefur leikið það eftir honum að syngja hljóðnemalaus í Laugardalshöll og fylla hana af beljandi rödd sinni en þó svo undursamlega fagurri.

Frábær lýsing Stefáns Jóns Hafsteins daginn eftir á einstæðum fagnaðarlátum gesta á þessum tónleikum og frammistöðu Pavarottis er mér enn í fersku minni.

Ég missti af tónleikunum, - var þetta sama kvöld upptekinn ásamt Guðjóni Einarssyni við að yfirheyra frambjóðendur til embættis forseta Íslands í sjónvarpinu.

Þegar The Telegraph nefnir fjóra söngvara sem hugsanlega arftaka Pavarottis, þeirra á meðal Garðar Þór Cortes, þá er það gríðarleg upphefð fyrir þennan frábæra íslenska söngvara. Hann á ekki langt að sækja það, - faðir hans hefur alla tíð sungið sérstaklega vel.

Frammistaða Garðars yngri gefur ástæðu til að hrósa honum sérstaklega fyrir það hve vel hann spilar úr sínum spilum, enda unun að hlusta á hann.

Björninn er samt ekki unninn, - hann á eftir að sanna sig í frægustu óperuhúsunum áður en endanlegum sigri er fagnað. Þar þarf hann ekki síður á raddstyrk og fyllingu raddar að halda en frábærri túlkun og fagurinn rödd.

Í mínum huga er Jussi Björling álíka jöfur meðal tenóra liðinnar aldar eins og Pavarotti en mér er ekki eins ljóst hve voldug rödd hans var í óperuhúsum án hljóðnema.

Jussi Björling kom að vísu til Íslands að mig minnir 1954 en olli miklum vonbrigðum í Þjóðleikhúsinu, þreyttur og timbraður eftir erfitt flug og farinn að dala eftir margra ára óreglu.

Því er ég að tala um þetta að eitt sinn fórum við Helga með alla fjölskyldu okkar, alls níu manns, á óperettuna Leðurblökuna í Íslensku óperunni. Þar sungu meðal annarra Garðar Cortes og Júíus Vífill Ingvarsson eins og englar.

Í Leðurblökunni kemur jafnan fram gestasöngvari í hvert sinn og kvöldið sem við vorum þarna kom Kristján Jóhannsson þarna fram, þá á hátindi getu sinnar.

Þá fannst það vel hvernig þessi volduga og hljómmikla rödd fyllti salinn út í öll horn svo að það varð eftirminnilegasta atriði þessa kvölds.

Þarna kom í ljós að þessi helsti kostur Kristjáns gat ekki notið sín á hljómdiskum og því er það borin von að kynslóðir framtíðarinnar muni geta metið Kristján með því að hlusta á upptökur af söng hans, því að hljómstyrkur raddarinnar er sterkasta hlið hans.

Á sínum tíma var rætt um það að Mario Lanza gæti orðið annar Caruso eftir frammstöðu hans í kvikmynd um Caruso. Lanza naut sín að sjálfsögðu best á hljómplötum og fljótlega kom í ljós að miklu nær væri að Benjamino Gigli væri nefndur í þessu sambandi.

Ekki get ég fjallað hér um íslenska stórsöngvara án þess að minnast á þann söngvara íslenskan sem best hefur sungið að mínu mati, - Kristin Sigmundsson.

Bara eitt dæmi varðandi það. Kristinn fékk stutta umsögn í einu virtasta tónlistarblaði Evrópu um flutning óperunnar Töfraflautunnar í sænskri óperu. Umsögnin um túlkun og söng Kristins á sínu stóra hlutverki í verkinu hljómaði svona ef ég man rétt: "Kristinn Sigmundsson söng hlutverk sitt svo að betur verður ekki gert."

Ég get ekki ímyndað mér að neinn annar íslenskur söngvari hafi fengið slíka umsögn um frammistöðu sína á óperusviði í jafn virtu tímariti.

Kristinn er hins vegar ákaflega yfirlætislaus og hógvær maður sem ekki þarf að hreykja sér eða trana sér fram og þessi frétt um umsögnina lofsamlegu var flutt í útvarpsfréttatíma klukkan 16:00 og síðan ekki söguna meir.

Þar að auki geldur Kristinn þess að vera ekki tenór.


HVAÐ VERÐUR "FRESTURINN" MÖRG ÁR?

Það eru liðin meira en fjögur ár síðan ástandið skapaðist sem Guðmundur Gunnarsson lýsir og aðeins einu sinni hefur vinna verið stöðvuð á afmörkuðu svæði eystra í nokkra daga, en þá þurfti banaslys til. Þess vegna er ólíklegt að rútuslysið núna nægi til annars að vera annað en óheppilegt í hugum þeirra sem brjóta stanslaust á erlendum launamönnum og voru svo óheppnir að bilun í hemlum einnar rútu afhjúpaði ástandið.

Hvað skyldu hafa verið gefnir margir "frestir" í öll þess ár og hvers vegna skyldu þeir frekar virka nú en endranær? Minni á fyrra blogg mitt um þetta efni hér fyrir neðan og athugasemdir við það.


mbl.is Formaður Rafiðnaðarsambandsins gagnrýnir Vinnumálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓHEPPILEGT RÚTUSLYS

Var að koma að austan og ók þrisvar í dag og í gær niður Bessastaðabrekku í Fljótsdal. Vonandi verða allir heilir sem slösuðust í rútuslysinu þar á dögunum. Þessi brekka og brekkan niður Hellisheiði eystri á suðurleið eru með mikilli fallhæð og því áríðandi að hemlum sé ekki ofgert. En að allt öðru. Rútuslysið var líka óheppilegt vegna þess að ef það hefði ekki átt sér stað hefði ekki komist upp hvernig komið er fram við erlent verkafólk. Hægt hefði verið að halda áfram til síðustu verkloka á Kárahnjúkasvæðinu án þess að upp kæmist um eitt eða neitt. Sem virðist hafa verið og verða stefnan í þessum málum.

En auðvitað leysist þetta deilumál með því að aldrei verður staðið við hótanirnar um stöðvun vinnu, heldur haldnir nauðsynlegir sex stunda samningafundir eftir því sem tilefni gefast til. Þótt 1-2000 manns séu við vinnu hér á landi utan kerfis og réttinda samkvæmt nýjustu fréttum sýnist málið vera komið í þann farveg sem félagsmálaráðherra vill beina því í, - að Vinnumálastofnun setji fram tillögur um fyrirkomulag mála.

Svo er bara að sjá hvort útkoman verði enn ein opinbera nefndin sem tekur sér góðan tíma. Þá geta allir beðið rólegir á meðan og setið samningafundi svona tvisvar í mánuði til að komast hjá vandræðum.


mbl.is Samkomulag um undirverktaka Arnarfells
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HVERNIG FORGANGSRAÐA RÁÐHERRAR VERKEFNUM?

Sturla Böðvarsson sagði á dögunum að Grímseyjarferjumálið hefði verið svo stórt og flókið að hann hefði sem ráðherra ekki getað kynnt sér það nægilega vel til að koma í veg fyrir hvernig fór. Þetta er magnað svar. Samkvæmt því ættu ráðherrar að forðast að setja sig inn í stærstu málin en taka í staðinn hin minni fram fyrir og setja sig inn í þau. Við höfum mýmörg dæmi um að ráðamenn erlendis hafa reynt að forðast ábyrgð á klúðurs- og hneykslismálum með því að segja að mál hafi verið svo lítil að þeir hafi ekki haft tök á því að vera með nefið ofan í hvers manns koppi.

Samt hafa margir þeirra orðið að segja af sér vegna hinnar endanlegu ábyrgðar sem yfirmenn bera þótt undirmenn hafi framkvæmt klúðrið.

Í huga Sturlu er þetta öfugt, - þegar mál er stórt og flókið verður að láta það óskoðað að mestu ef ég skil orð hans rétt.

Það er rétt hjá Sturlu að auðvitað getur enginn yfirmaður stórs málaflokks sett sig í smáatriðum inn í hvert mál og líklega er það einnig rétt að eðli máls ráði miklu um hina endanlegu ábyrgð. En hér á landi virðist þessi ábyrgð miklu minni en erlendis.

Síðan er það atriði út af fyrir sig að sumir færa reyndar að því gild rök að Grímseyjarferjumálið hafi verið smámál miðað við stærri mál í samgönguráðuneytinu.

Sé svo hefði Sturla samkvæmt eigin skilningi einmitt átt að fylgjast það vel með framvindu þessa máls að hann gæti gripið í taumana ef þörf krefði.

Skilningur Sturlu er hliðstæður því sem einn þáverandi stjórnarþingmaður sagði um frumvarp VG að láta kjósa um Kárahnjúkavirkjun sértaklega samhliða Alþingiskosningunum 2003. Hann sagðist leggjast gegn þessu þjóðaratkvæði vegna þess að að Kárahnjúkamálið væri svo stórt að það myndi skyggja á önnur málefni í kosningunum og trufla þau.

Þið fyrirgefið, - mér finnst skrýtið sá skilningur að forgangsraða eigi málum þannig að hin smærri séu tekin fram yfir þau stærri.

Annars er sérkennileg tilviljun hvernig Grímseyingar komast nú aftur inn í hringiðu klúðursmáls.

Fyrir um fjórum áratugum var gerður forláta varnargarður við höfnina í Grímsey þvert ofan í aðvaranir heimamanna sem vildu ekki þennan garð vegna þess að hann væri vonlaust dæmi. Svo fór að garðinum skolaði komplett í hafið í einu illviðri.

Enginn virtist taka ábyrgð þá á þessari meðferð opinberra fjármuna.

Nú virðist garðurinn genginn aftur í formi Grímseyjarferjunnar. Í annað sinn báðust Grímseyingar undan vondri sendingu frá þeim sem ferðinni réðu en fengu því aðeins ráðið að reynt væri að lappa upp á ónýtan dall með ærnum kostnaði, - sem sagt að gera málið enn kostnaðarsamara.

Ábyrgðarmenn málsins að vegamálastjóra undanskildum sjá ekki að þeir hafi gert neitt vitlaust og nú virðist engu líkara en að stefni í það að með vífilengjum þeirra sem réðu ferðinni muni þessu ferjumáli skola í haf hneykslismála án þess að nokkur beri á því ábyrgð eða séð verði hvað fór í raun úrskeiðis.

Ekki dæmigert íslenskt?


HÓTEL AKUREYRI, FÁFRÆÐIN OG SINNULEYSIÐ.

Ég var að uppgötva það fyrir tilviljun í gær að til standi að rífa Hótel Akureyri. Það sýnir fáfræði mína sem verður eitt sandkornið í því afskiptaleysi fólks sem tryggir að þetta verði að veruleika að ég nú ekki tali um ef ég nenni ekki að gefa því gaum hvort eð er og rækti hið þægilega sinnuleysi sem manni finnst stundum að geri hversdagslífið þægilegra. Þar með bætist ég í þann stóra hóp landsmanna sem nennir ekki að nálgast málið og gefur þar með lausan tauminn öllum þeim fyrirætlunum sem byggjast á því að nógu margir séu haldnir þessu tvennu: sinnuleysi og fáfræði.

Ein afsökunin fyrir því að eyða þessu húsi er sú að það sé í slæmu ástandi. Þetta var líka sagt um Bernhöftstorfuna, ekki hvað síst eftir að eldur stórskemmdi hana. Samt tókst að bjarga henni með því að gera áhlaup á fáfræðina og sinnuleysið. Nú er þetta notað á Laugavegarhúsin tvö sem stendur til að rífa.

Hótel Akureyri mun vera eitt þriggja samliggjandi húsa sem skapa heillega og fallega götumynd ef þeim er sómi sýndur. Þau eiga saman sem heild eins og Kasper og Jesper og Jónatan.

Já, en Hótel Akureyri var alltaf svo slappt, einfalt og frumstætt hótel ef miðað er við Hótel KEA, segja sumir, en átta sig ekki á því að einmitt það gefur Hótel Akureyri gildi að þangað leitaði maður ef maður vildi spara peninga. Að þessi hús kallist á og haldi áfram að gegna hlutverkum sínum er svona álíka og að hafa bæði Puntilla og Matta á sviðinu, ekki bara þann ríkari.

Hótel Akureyri er ekki einkamál Akureyringa fremur en hliðstæð hús í Reykjavík, já eða húsin í Prag sem Evrópubúar þakka fyrir að tókst að forða frá glötun.

Margar sögur og margar minningar fólks frá ýmsum heimshornum tengjast hótelum og því ætti að fara sérstaklega varlega í það að rífa slík hús.

Það glyttir nánast alls staðar í fáfræðina og sinnuleysið þegar litið er á þær framkvæmdir sem nú er þrýst á að koma í gegn hér á landi. Þetta tvennt eru bestu bandamenn þeirra sem vilja skjóta fyrst og spyrja svo.

Við blasir eitt gott nýtt dæmi: Rannsóknarleyfi í Gjástykki. Gjástykki? spyrja menn. Hvað er nú það? Leirhnjúkur? So what?

Og önnur dæmi eru legíó. Þar er af nógu að taka.


HVERS VEGNA AÐ "HARMA" AÐ HIÐ RÉTTA KOMI Í LJÓS?

Í tilkynningu Landsvirkjunar er harmað að beðið sé um opinbera rannsókn á útgáfu rannsóknarleyfis á Gjástykkissvæðinu án þess að kynna sér málavexti. Ég hef ekki fyrr reynt Landvernd að öðru en að kynna sér vel staðreyndir þeirra mála sem tekin hafa verið til athugunar þar á bæ. Raunar má spyrja á móti hvort Landsvirkjun hafi kynnt sér hvaða heimavinna hefur verið unnin hjá Landvernd varðandi þetta mál og hver þau gögn eru sem ég hef birt um nýjar framkvæmdir á þessu svæði.

Ég mun við fyrsta tækifæri birta fleiri myndir af framkvæmdum í Gjástykki en þá sem birt er í næsta bloggi á undan þessu, en þær sýna að full ástæða er að fylgjast með eðli þessara framkvæmd. Ég hef fengið þá skýringu að þarna sé verið að taka efni til að bera ofan í veginn sem liggur þvert yfir Gjástykkishraunið.

Myndirnar sýna vel óafturkræf áhrif þess að ryðja svæði með vinnuvélum alveg við gossprungu frá Kröflueldum 1975-84 og sú afsökun að annars staðar hafi ekki verið hægt að fá samlitt efni í veginn gengur ekki upp.

Áhrif þess að bera efni með öðrum lit ofan í veginn eru afturkræf, - það er hægt að fjarlægja þetta efni. Áhrif þess að skrapa með vinnuvélum svæði eru óafturkræf, svo einfalt er það.

Framkvæmdar geta verið af ýmsum toga og hafa mismunandi mikil óafturkræf áhrif.

Yfirboðsrannsóknir eiga að hafa engin óafturkræf áhrif og einnig er hægt að leggja veg með því að setja aðeins efni í veginn beint ofan á hraunið sem vegurinn liggur um.

Kjarnaboranir hafa miklu minni röskun í för með sér en rannsóknarborholur á borð við þá sem boruð var við Sogin hjá Trölladyngju með gersamlega óþörfum og miklum umhverfisáhrifum.

Það er full ástæða til að skoða betur á hvaða grundvelli svona röskun fer fram, því að leyfi og skilyrði til rannsókna og vegagerðar geta verið mismunandi eftir eðli rannsókna og vegagerðarinnar.

Það eitt hvernig framkvæmdirnar líta út nú, hvað þá síðar, er að mínu mati full ástæða til að biðja um frekari skýringar og hafi Landsvirkjun hreinan skjöld er vandséð af hverju hún "harmar" að hið rétta fái að koma fram.


mbl.is Rannsóknarleyfi gefið út á grundvelli laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband