BENSÍNLYKT AF MÁLINU.

Það er langt gengið þegar á að reyna að telja manni trú um að það sé sérlega umhverfisvænt að aka á átta gata Jeep Wrangler og raunar öllu snúið á haus. Átta strokka vél er augljóslega flóknari og eyðslufrekari en fjögurra strokka. Jeep Wrangler er einstaklega kassalagaður og sjá nýjasti er með loftmótstöðustuðulinn 0,49 ef ég man rétt sem eykur bensíneyðsluna stórlega með auknum hraða. Flestir nýjustu fólksbílarnir eru með stuðul í kringum rúmlega 0,30.

Jeep Wrangler 2007 er meira en 1800 kíló og knúinn er sex strokka vél sem gefin er upp með 13 - 15 lítra eyðslu á hundrað kílómetra

Rýmisnýting í Jeep Wrangler er einstaklega léleg, - hann tekur aðeins fjóra í sæti og er með farangursrými af svipaðri stærð og 40 prósent léttari fólksbílar sem eyða tvöfalt til þrefalt minna eldsneyti.

Vitað er að dísilvélar endast betur en bensínvélar og eyða mun minna eldsneyti. Helsti bílvélasérfræðingur Fiat-verksmiðjanna spáir því að næsta kynslóð bensínvéla muni eyða mun minna en þær bestu núna, en þegar í dag er hægt að kaupa bara þokkalega rúmgóðan fimm manna bíl með dísivél sem eyðir í kringum fimm lítrum á hundraðið.

Forsendurnar sem gefnar eru fyrir því að tvinnbílarnir séu svona fjandsamlegir umhverfinu sýnast mér stórlega skakkar en ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun minni að vegna þess hve þeir bílar eru flóknir og dýrir í framleiðslu séu þeir ekki eins umhverfisvænir og af er látið og því eigi að leggja aukna áherslu á dísilbíla að svo stöddu.

Ég hef fengið bréf frá konu sem kvartar yfir ofnæmi gegn útblæstri dísilvéla, en miklar framfarir eru í gangi gagnvart útblæstrinum og leggja ber áherslu á nýjustu og bestu vélarnar.

Það getur ekki verið umhverfisvænt að snatta um í borgarakstri á 1800 kílóa þungum eyðsluháki sem hefur ekki meira rými fyrir farþega en minnstu smábílar. Engu er líkara en að meðmælendur stóru drekanna séu að storka mönnum með því að taka 8 gata Jeep Wrangler sem dæmi um umhverfisvænt farartæki.

Meira en 90 prósent af akstri fólks fer fram í borgarumferð og fráleitt að mínu mati að það þurfi 1800 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti um göturnar. (Meðalfjöldi í bíl er rúmlega einn maður)

Stóru og ríku fyrirtækin sem hafa hag af óbreyttu ástandi og sem mestri sölu á bensíni hafa ráðið til sín vísindamenn til að rífa niður niðurstöður umfangsmestu vísindarannsóknanna sem sýna ástand lofthjúpsins.

Það kæmi mér ekki á óvart að eitthvað svipað geti legið að baki "vísindalegum rannsóknum" á borð þær sem skila Wrangler og Land Rover á topp umhverfisvænna farartækja.

Það er ekki aðeins skítalykt af málinu, það er bensínlykt af því líka.


mbl.is Jeppar umhverfisvænni en tvinnbílar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Er það svo að 90% af akstri fólks sé í borgarumferð? Hvað með okkur sem búum úti á landi? Ég hélt að ég væri einn af fólkinu. Kannski misskilningur?

Sigurður Sveinsson, 9.9.2007 kl. 04:50

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við erum ekki fólk, sem búum á landsbyggðinni

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2007 kl. 05:01

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Skemmtilegt hvernig hægt er að snúa út úr hverju sem er. Ég geri ráð fyrir að fólk skilji að hér sé átt við borgarbúa. Fólk sem býr á afskekktum stöðum úti á landi hefur að sjálfsögðu meiri þörf fyrir jeppa en þeir sem búa í Reykjavík og skreppa á jeppanum útí sjoppu að kaupa sígó.

Þetta var augljóst og ég vona það Sigurðar og Gunnars vegna að þetta hafi verið misskilningur en ekki kjánalegur útúrsnúningur.

Villi Asgeirsson, 9.9.2007 kl. 11:10

4 identicon

Ómar sér eins og flestir sem eitthvað vita að þessar rannsóknir eru bull. Stórfyrirtækin eru enn eina ferðina að rugla í okkur.

..og þið þarna landsbyggðar menn, svona viðkvæmni er bara hlægileg.

Hans Magnússon (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 12:10

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hans, þú mátt ekki setja alla landsbyggðarmenn undir sama hatt, þessi kjánalegi útúrsnúningur eða viðkvæmni sem hér kemur fram, á bara við örfáa okkar, trúi ég.

Það er ljóst að það er bæði bensín-og skítalykt af málinu, eins og svo mörgum öðrum.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 9.9.2007 kl. 12:27

6 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Það er mikil bensínlykt af málinu. Það seigir sig sjálft að því stærri sem bíllinn er því meiri mengun er frá honum.  Ég bý á landsbyggðinni og er með bíl sem er 2.5 tonn Ég hef ekki litið á þennan bíl sem umhverfisvænan fyrir utan það að hann er disel sem er skára en bensín bíll.  En það sem ég er ánægður með í þeim bíl að hann er ekki að eyða nema 9.3/100 og miðað við þessa rannsókn þá er ég á mjög umhverfisvænum bíl

Þórður Ingi Bjarnason, 9.9.2007 kl. 12:34

7 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Helstu rök þessara "vísindamanna" voru þau að mengunin við að framleiða og síðan farga Hybrid bílunum væri svo miklu meiri heldur en þegar um "einfaldan" jeppa væri að ræða.  Ég er ekkert vidd um það að ég kaupi þau rök. 

En þetta er reyndar eitt sem við horfum of lítið á þegar mengun og annað í þeim dúr er rætt, það er heildarmyndin.

Ég á tildæmis gamlan dísiljeppa árgerð 1989 og hann er ekki neyslugrannur né léttur, og farin að þreytast töluvert, en ég kem til með að keyra á honum þó nokkur ár í viðbót og ég tel það umhverfisvænt, vegna þess að ef ég farga þeim gamla og kaupi nýjan þá veldur það mengun, bæði að farga þeim gamla og að framleiða þann nýja.

Eiður Ragnarsson, 9.9.2007 kl. 14:01

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég viðurkenni það alveg að þetta var kjánalegur útúrsnúningur en Ómar hefur ýmislegt látið flakka um Austfirðinga, t.d. sagt að það hafi verið ausið fé í þá og gert grín að því að hann sé óvinur Austfirðinga no. 1.

Svo er hann óþreytandi að finna "eitthvað annað" fyrir okkur að gera á landsbyggðinni en á sama tíma er hann að afla sjálfum sér lífsviðurværis á Kárahnjúkavirkjun (sem er gott hjá honum)

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2007 kl. 14:53

9 Smámynd: Einar Karl

Maður veltir því fyrir sér hvort "rannsóknin" hafi ekki bara verið vísvitandi hundalógík-brandari. Blaðamenn ættu nú að geta séð í gegnum svona bull. Hér með er Moggi hvattur til að bæta við svo sem eins og einum ritfærum blaðamanni með BS-próf í raunvísindum, til að fjalla af meira viti um vísindi.

Hvað tvinnbílana varðar er það hárrétt að nýir dísilbílar virðast alveg jafngóður kostur, eða þar til almennt verður hægt að fá tengiltvinnbíla, sem stungið er í samband (með tengli) á nóttunni og hægt að keyra í vinnu á rafmagni eingöngu. Svo er það nú óttaleg hræsni að setja á markað tvinn-ofursportlúxusjeppa (Lexus, Q7) sem eyða 9.5 á hundraði og kalla þá umhverfisvæna!

Að  lokum, passa þarf betur uppá sótmengun og vanstillingu dísilbílanna, alltof margir dísiljeppar (ekki bara gamlir, t.d. 5-7 ára patrólar og pajeróar) skilja eftir sig sótsvört ský þegar þeir gefa í. Er þetta ekki mælt í árlegri bílaskoðun??

Einar Karl, 9.9.2007 kl. 16:32

10 identicon

Það er nú svo að sjaldan er bara einn flötur á málunum,  okkur er hollt að hugsa um aðra möguleika,  vega og meta síðan sjálf niðurstöður.

Hins vegar skil ég ekki hvað það kemur landsbyggðinni við hvort V8 bíll mengi minna en minni vél,  er ekki hægt að vera á eiðslugrönnum bíl út á  landi?  Er það ekki bara enn ein vitleisan sem við teljum sjálfum okkur trú um,  til að réttlæta gjörðir okkar,  eða það sem okkur langar til að gera?

Sjálfur bý ég  út á landi og ætlast til að geta ekið um á eins bíl og væri ég  á höfuðborgarsvæðinu.  Ek reyndar um á disel fólksbíl, til þess liggja tvær ástæður:

1.  Kemur betur við budduna.

2.  Mun skemmtilegri en sami bíll bensín,  aflmeiri og sneggri.

Margir dæma diselvélina, að óreyndu,  eftir þessum gömlu reykspúandi,  hávaðasömu jálkum.  Þetta er bara allt annað dæmi í dag,  prófið!!.

Hins vegar skil ég  ekki þennan áróður sem  fer í gang árvisst gegn diselvélinni,  nú síðast um daginn,  þar sem sérvitringar héldu varla vatni yfir rykmengun hennar.  Ekki nenni ég að  velta mér upp úr niðurstöðum misgáfulegum rannsóknum,  það á að treysta þeim sem ráða stefnu stjórnvalda til að leita sér hlutlausra ráðlegginga um hvað á að stiðja við.

En.... það er til athugunar,  hvað diselbílar hér á landi eru lagðir í einelti,  miðað við það sem gerist í nágrannalöndum.  Þar á ég við skattlagningu,  hérna kostar olían nánast sama og bensín,  en í nágrannalöndum okkar finnst stjórnvöldum ástæða til  að hvetja til notkunar olíu í stað bensíns.  Hvað veldur?  Gilda hér önnur lögmál?

Etv. rétt að hafa í huga,  þegar skoðaðar eru svona athuganir sbr. Wranglerinn,  söguna um forstjórann sem ætlaði að ráða til sín hagfræðing:   Tók umsækjendur einn og einn inn í einu og  spurði:  Hvað eru tveir plús tveir?  Hver af öðrum svöruðu fjórir.  Þar til inn kom einn,  sem var umsvifalaust ráðinn.  Hann svaraði:  Hvað þarft þú að fá. 

Höfundur ekur um á BMW disel og er þeirrar skoðunar að: " Ekki sé til svo hár múr,  að það sé ekki hægt að teyma yfir hann asna klyfjaðann gulli. "

Guðjón Guðvarðarson (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 16:41

11 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég viðurkenni glæp minn. Maður á ekki að snúa útúr orðum jafn ágæts manns og Ómars. Bið afsökunar á því.Ég á nú öflugan bensínjeppa, 330 hestöfl. Keyri hann frekar lítið og hef lítinn japanskan fólksbíl með. Líka bensínbíl. En umræðan hefur alltaf snúist um hvað dieselvélin sé miklu umhverfisvænni. Þó er vitað að örsmáu sótagnirnar sem hún gefur frá sér eru mjög hættulegar mönnum. Og það hefur verið landlægur ósiður hérlendis í áratugi að drepa helst ekki á þessum vélum fyrr en að kvöldi. Líklega er það arfur frá því í gamla daga þegar oft reyndist erfitt að koma þeim í gang. En nú hefur þessu fleygt fram og ástæðulaust að drepa ekki á bílnum þegar nemið er staðar. Það er þó sennilegt að eitthvað hafi dregið úr þessu eftir að skattlagningunni var breytt og það hefur líka dregið úr akstri dieselbílanna. Hér á Selfossi er reiðhjólið líka kjörið farartæki. Og reyndar víðast annarsstaðar.  Ef við notuðum það meira græða allir. Nema kannski olíumafían.Minni mengun, betri heilsa og minni fjárútlát.

Sigurður Sveinsson, 9.9.2007 kl. 17:28

12 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þessi aukaskattur sem lagður var á disel bíla þegar olíugjaldið fór í díselverðið voru mistök.  Eitt af því til að draga úr mengun er að lækka þessa olíuskatta og hvetja bíleigendur til að vera á diselbíl frekar en bensín bíl.  Þó svo að diselbíll sé ekki 100% umhverfisvænn þá er hann skárri en bensínbíll.

Þórður Ingi Bjarnason, 9.9.2007 kl. 17:41

13 Smámynd: Guðjón Guðvarðarson

Ég er einhvern veginn hálf hræddur um,   ef ég  fer að hjóla allra minna ferða þá verði fótstigin skattlögð.  Þetta eru peningar sem þarf í eyðslu misvitra ráðherra,  svo sem Grímseyjaferju/Héðinsfjarðarganga  fyrirgreiðslu.  Viðurkenni alla kosti hjólreiðanna,  nýti mér kosti þess að  búa í sveit og hjóla stundum mér til heilsubótar þegar ég held að enginn sjái til,  þori ekki að nota það til sparnaðar.

Ég er alltaf tilbúinn með samsæriskenningar:   Held að málið sé það,  stjórnvöld vilja ekkert endilega minnka eyðslu/notkun eldsneytis,  þetta er einfaldlega of mikill skattstofn til þess,  ríkissjóður má ekki við því að hann rýrni.

Það er allt í lagi að þykjast,  og stiðja við þessa "tvin,  vetnis" og hvað það  nú heitir nú allt saman.  Þetta eru fá eintök og sundurleitur hópur,  ekki vitað hvað,  eða hvort nokkuð af þessu kemur til með að verða ráðandi.  Hins vegar ef skattar og gjöld yrðu lækkuð af olíu og olíubílum að ráði,  væri mjög líklegt að miklu fleiri færu þá leið,  sem  aftur leiddi til minnkandi skatttekna.

Því miður,  hafa þessar samsæriskenningar mínar oftar en ekki reynst réttar,  þar með kennir reynslan mér að efast um allt,  og ekki er allt sem sýnist.

Óska þess svo sannarlega að ég hafi  rangt fyrir mér í þessu tilfelli.

Enn hefur ekki verið reystur svo  hár múr , að ekki sé hægt að  teyma asna yfir hann, klyfjaðann gulli. 

Guðjón Guðvarðarson, 9.9.2007 kl. 20:12

14 identicon

Ég ætla mér að keyra áfram á 8 cylendra 2.7 tonna jeppanum mínum sem eyðir 22 L innanbæjar. Og mig langar til að gefa öllum umhverfisráðherrunum falleinkunn fyrir að lækka ekki tolla á díselbílum. Og svo auðvitað fá þeir aðra falleinkunn ásamt olíufélögunum fyrir okrið á díselolíunni. Ekki glæta að ég fái mér díselbíl ofurskattlögðum af ríkinu.

Þröstur Halldórsson (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 22:06

15 identicon

Sæll, Ómar.

Ég vildi bara láta þig vita að rafmagnsbíllinn (Reva) sem þú varst búinn að sjá bæklingana fyrir kemur til landsins í vikunni og verður frumsýndur hjá Perlukafaranum við Holtasmára 1 um helgina. Ég vonast til að sjá þig!

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband