11.9.2008 | 20:23
Hvorir höfðu rétt fyrir sér?
Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" færði ég rök fyrir því að forsendur vatns- og orkuöflunar Kárahnjúkavirkjunar væru rangar, - reiknað væri með allt of litlu rennsli. Stíflurnar við Hálslón þyrftu ekki að vera svona háar og með því að hafa lónið svona hátt væri sökkt að óþörfu landi, sem væri tiltölulega flatt og byði upp á mun verri uppfoksvandamál en ef lónið væri lægra.
Ásta Þorleifsdóttir bar fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að borgin beitti sér fyrir lægri hámarkshlónhæð í ljósi þess að augljóslega væri skakkt reiknað. Með þvi væri hægt að þyrma stóru svæði og minnka uppfoksvandanna. Tillagan féll í grýttan jarðveg, - sérfræðingaskari Landsvirkjunar hlaut að hafa rétt fyrir sér.
Í frétt Sjónvarpsins í kvöld viðurkennir Sigurður Arnalds hins vegar að skakkt hafi verið áætlað, enda ekki annað hægt því skekkjan blasir við. Aðeins þurfti að lækka lónhæð Hálslóns síðastliðinn vetur um 25 metra, en reiknað var með að lækka þyrfti um allt að 40-50 metra. Samt kom ekkert vatn úr Jökulsá í Fljótsdal og ánum í Hraunaveitu, því að þær virkjanir voru enn í byggingu.
Jökulsá á Dal og Kringilsá önnuðu orkuþörfinni fullkomlega einar.
Skekkjan virðist svo stór að hugsanlega hefði verið hægt að sleppa því alveg að virkja Jökulsá í Fljótsdal eða að minnsta kosti að sleppa virkjun á Hraununum.
Því miður gagnast þetta mikla vatnsmagn ekki. Það er hvorki hægt að víkka göngin né fjölga hverflunum. Nú, þegar ekki verður aftur snúið með umhverfisskemmdir Hálsóns eða raskið af völdum Hraunaveitu, hefði verið gott að geta bætt við ca 150 megavatta orku og sleppa í staðinn sem því svarar að fara út í stórfelld umhverfisspjöll á Norðurlandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.9.2008 | 19:52
Hræðilegur vegarkafli.
Kom akandi til fundar við aftöku fossanna í Jökulsá í Fljótsdal í nótt og ók í fyrsta skipti í langan tíma um Suðurland. Vegurinn um Öxi var góður og tillhlökkun fylgdi því að koma niður á hringveginn í Skriðdal. En hvílík vonbrigði! Til hreinnar skammar er að svona vegarkafli skuli enn finnast á sjálfum hringveginum, slæmar holur, nybbugrjót og hvassir hryggir á þessum endemis malarvegarkafla.
Tveir hjólkoppar hurfu út í myrkrið en sem betur fer er Fiat-lúsin mín með gamaldags háa hjólbarða en ekki hina flötu og lágu hjólbarða, sem nú tíðkast á bílum. Áreiðanlega hefur sprungið á mörgum nýjum bílum á þessum kafla í sumar.
Valdi koppasali ætti að flytjast austur í Skriðdal og hugsanlega væri góður bísniss í því að setja þar upp hjólbarðaverkstæði því að með ólíkindum er hve lengi það hefur verið látið dragast að koma þessum vegarkafla í nútímalegt horf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2008 | 19:52
Vítaspyrna er fast leikatriði, ekki satt?
Vítaspyrna er eitthvert einfaldasta fasta leikatriðið í knattspyrnu. Maður hefði haldið að varnarmenn röðuðu sér þannig við teiginn að þeir ættu sem mesta möguleika á að ná frákastinu, ef markmaður verði. En, nei, það gerðu varnarmennirnir íslensku ekki nú fyrir fáum mínútum. Þeir stóðu þrír í hnapp öðrum megin í teignum og skildu mestallan teiginn eftir handa Skotum.
Þegar Kjartan Sturluson varði, voru allir íslensku varnarmennirnir víðsfjarri frákastinu og Skotar gátu keppst um það að ná boltanum og skora.
Þetta var grátlegt, fram að þessu hafði íslenska liðið staðið sig mjög vel að mínum dómi og sótt nær látlaust í upphafi hálfleiksins.
![]() |
Skotar unnu nauman sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.9.2008 | 18:52
Gamall draumur að rætast.
Fyrir rúmum þrjátíu árum var hlegið að því þegar ég minntist á þá möguleika sem Ísland býr yfir hvað snertir bílaiðnað og bílaíþróttir heimsins, auk möguleika á öðrum viðburðum sem verða stærri vegna þeirrar umgjörðar sem land okkar getur gefið þeim.
Ég styrktist á næstu árum í þessari trú við að heyra um þau áhrif sem það hafði á erlenda rallökumenn að aka til dæmis í "svörtum snjó" eins og þeim fannst þeir gera vestast á Dómadalsleið, að ekki sé talað um allt hið litskrúðuga og einstæða landslag sem blasti við þeim á leið þeirra.
Alls konar fordómar óðu upp, svo sem þegar við bræðurnir, Jón og ég, tókum þátt í frönsku jepparalli og ég minntist á það að mikið af drullu hefði komið upp á framrúðuna á Kjalvegi. Menn töldu þetta sanna að ég hefði ekið utan vegar.
Sú gagnrýni sýndi hins vegar vanþekkingu á aðstæðum á þessari leið, þar sem það var dauðadómur yfir keppanda að lenda í urðinni utan vegar, ekki hvað síst okkur, sem ókum aðeins á venjulegum Subaru-fólksbíl.
En hvaðan kom þá drullan? Jú, neðst í öllum þeim lægðum, sem Kjalvegur liggur um, liggur mold undir sandinum, - leifar af jarðvegi sem var á Kili áður en hann blés upp og varð að sandauðn, meðal annars fyrir tilverknað sauðkindarinnar, sem öldum saman hafði yfir sér svipaða helgi og kýr á Indlandi.
Í polla, sem lágu á niðurgröfnum veginum í lægðunum, seytluðu leifar að hinni fornu mold, auk þess sem ofan í þessar lægðir barst mold með moldarstormum af þeim gróðurtorfum sem enn voru að blása upp.
Nú er komin nógu löng hefð á röll og aðra svipaða atburði til þess að gömlu fordómarnir hafa vikið fyrir reynslunni. Og nýja fornbílarallið sýnir, hvernig hægt er að auglýsa landið til gagns fyrir ferðaþjónustu og fá jafnframt inn tekjur af þeim, sem hingað koma, annað hvort í slíka keppni eða til að auglýsa bíla eða hvað annað, sem landslagið okkar frábæra getur lyft undir.
Okkar hlutverk er að skapa þá umgjörð sem tryggir að enginn skaði verði og að allt sé þetta undir stjórn og í farsælu hófi.
![]() |
Ísland reyndi á þolrifin í nýjum Golf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2008 | 15:48
Ekki er allt sem sýnist.
Nú er mjög reynt að hrekja niðurstöður Jónasar Haralz og fleiri virtra hagfræðinga þess efnis að áhrif stóriðju og virkjana séu stórlega ofmetin og bjargi í raun engu í efnahagsmálum. Þegar gumað er af útflutningstekjum af áli er þess ekki getið hve mikið útgjöldin vaxa vegna innflutnings á hráefni fyrir álframleiðsluna. Heldur ekki að virðisaukinn af álframleiðslunni, sem skilar sér í þjóðarbúið er allt að þrefalt minni en í sjávarútvegi.
Bendi á góða athugasemd Náttúruverndarsamtaka Íslands um ofmat á störfum sem skapist. Sum af þessum svonefndu "afleiddu" störfum hefðu hvort eð er verið til staðar og ekki er tekið tillit til ruðningsáhrifa af álframleiðslunni sem meðal annars lýsa sér í því að sá sem byrjar að vinna í álveri kann að fara úr öðru starfi til þess.
Það er hægt að stilla þessu enn einfaldara upp. Ef allar atvinnugreinar á Íslandi færu nú í áróðurskapphlaup við álpostulana og reiknuðu gildi sitt á sama hátt og þeir hvað snertir "afleidd störf", þá verður heildarútkoman sú að störf á Íslandi séu rúmlega 500 þúsund eða 200 þúsund fleiri en nemur öllum íbúafjölda landsins!
Allar atvinnugreinar skapa "afleidd störf" og því er skásta samanburðarleiðin sú að taka einfaldlega saman hve margir vinna beint í þeim. Þá er niðurstaðan sú að 0,7% vinnuaflsins er í álframleiðslunni og fer varla yfir 2% þótt sex risaálver yrðu reist á endanum og allri orku landsins fórnað í það.
Svipuð niðurstaða og hjá Jónasi Haralz og kó: Álframleiðsla er ekki framtíðarlausn á atvinnuvanda Íslendinga.
![]() |
Álútflutningstekjur yfir 30% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.9.2008 | 12:41
Minnir á fyrstu keðjuverkunina.
Rökræðan um tilraunina í Genf minnir á svipaða rökræðu þegar vísindamennirnir, sem hönnuðu fyrstu kjarnorkusprengjurnar, hleyptu af stað fyrstu keðjuverkuninni. Til eru þeir sem telja, að sú tilraun hafi verið, miðað við þá vitneskju sem lá fyrir eða öllu heldur lá ekki fyrir, - hættulegasta athæfið í styrjöldinni, verra en sú ákvörðun að nota sprengjurnar.
Tilraunin var rökstudd með því að hvort eð er myndi þetta verða gert og þá af óábyrgari og hættulegri aðilum. Mig skortir þekkingu til að dæma um þetta en það kemur óneitanlega upp í hugann nú.
![]() |
Hátíðarstemmning við hraðalinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.9.2008 | 12:26
Kunnuglegt stef.
Það er kunnuglegt stef að virkjanir stækki, þenjist út og kalli á fleiri virkjanir. Byggjendur Múlavirkjunar á Snæfellsnesi laumuðust til dæmis til að hafa hana mun stærri en fyrirfram var látið í veðri vaka. Svipað fyrirbæri var uppi á teningnum í virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði. Ævinlega er það notað sem ástæða að kostnaður væri þegar orðinn svo og svo mikill vegna rannsókna að það yrði að halda áfram.
Stórkarlalegasta dæmið var Kárahnjúkavirkjun þar sem umhverfisverndarfólki tókst að vísu að bjarga Eyjabökkum, en lá eftir magnþrota og fjárvana þegar dembt var í gegn margfalt stærri virkjun með miklu verri og hrikalegri umhverfisspjöllum. Eftir sem áður var Jökulsá í Fljótsdal virkjuð en Jökulsá á Dal, Kringilsá og Sauðá vestari bætt við.
Upphaflega áttu Hálslón og Eyjabakkalón að vera með 2000 gígalítra miðlun en í staðinn var Hálslón stækkað upp í 2100 gígalítra miðlun.
Meginhugsunin virðist vera að virkja allt sem mönnum detti í hug á þann hátt sem mönnum dettur í hug og rannsaka helst sem minnst. Þannig var því sleppt að rannsaka miðjukafla gangaleiðarinnar milli Kárahnjúka og Fljótsdals þótt það sæist vel úr lofti að þar væri mesta og hættulegasta misgengið á virkjunarsvæðinu.
Þetta var rökstutt með setningunni: "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var." Hún sýnir hugsunarháttinn í hnotskurn. Allt í lagi er að taka óverjandi áhættu og óþarfi að kanna hversu mikil hún sé vegna þess að á endanum borgar þjóðin reikninginn. Aðeins var hægt að fara í þessa virkjun með ríkisábyrgð og styrkjum, beinum og óbeinum, því að ekkert einkafyrirtæki, hversu stórt sem það hefði verið, hefði treyst sér til þess að fara út í þetta hættuspil.
Svona hefur þetta verið og verður væntanlega áfram þegar rökstutt verður hvers vegna þarf að virkja Jökulsárnar á Norðurlandi, Tungnaá, efsta hluta Þjórsár, Skaftá o. s. frv.
![]() |
Margfalt stærri virkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2008 | 01:20
Rio Tinto stenst siðferðiskröfur Íslendinga.
Ein eftirminnilegasta uppljóstrunin í Framtíðarlandinu eftir Andra Snæ Magnason var um bæklinginn, sem íslensk stjórnvöld sendu helstu stóriðjufyrirtækjum heims með tilboði um sölu á "lægsta orkuverði og sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af."
Meðal fyrirtækjanna var Rio Tinto, sem sagt hafði verið um í umræðum í bresks þinginu að væri sóðalegasta og ósvífnasta fyrirtæki í heimi. Og maður hugsaði með sér að mikið væri nú gott að þetta fyrirtæki hefði ekki aumkað sig yfir lítilþæga ráðamenn okkar. Auðvitað væri það fjarlægur möguleiki, sem betur færi, að við myndum eiga viðskipti við það.
Í seinni fréttum Sjónvarpsins í kvöld kom fram að Norðmenn væru sama sinnis um Rio Tinto og kom fram í Framtíðarlandinu. Norski olíusjóðurinn væri nú að slíta öll tengsl við fyrirtækið vegna hinnar miklu mengunar sem það bæri ábyrgð á í Indónesíu. Fyrirsagnir fréttarinnar voru um að Norðmenn vildu ekkert með Rio Tinto hafa og fyrirtækið stæðist ekki siðferðiskröfur þeirra.
En möguleikinn, sem maður taldi sér trú um 2004 að væri fráleitur, er nú staðreynd: Rio Tinto er eigandi að álverinu í Straumsvík og gæti þess vegna eignast öll álver á Íslandi og orkuverin í ofanálag.
Íslendingar gera nefnilega engar siðferðiskröfur til Rio Tinto og heldur ekki kröfur um að vita hverjir þeir huldumenn rússneskir eru, sem sagðar eru 99,9% líkur á að standi að stærstu framkvæmd Íslandssögunnar í olíuhreinsistöð á Vestfjörðum.
Íslendingar gera engar kröfur um að kanna, hvort aðrir möguleikar á nýtingu auðlinda lands og þjóðar geti gefið meiri arð, heiður og ímynd þegar til lengri tíma er litið. Eina krafa okkar felst í orðtakinu: Take the money and run! Skítt með framtíðina og afkomendurna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.9.2008 | 23:13
Nei, stranda olíuskip virkilega?
Innsiglingarleiðin til Ísafjarðar er þröng en þó talin viðunandi örugg á tækniöld. Samt strandar þar skip. Siglingaleiðir við Vestfirði geta á sama hátt verið vandasamar fyrir skipstjórnarmenn í illræmdum fárviðrum, sem þar geta komið, en eru þó taldar viðunandi öruggar á tækniöld. Samt gerast þar óhöpp og slys.
Í júlí 2005 rakst stórt olíuskip á ísjaka norður af Íslandi þótt samkvæmt gervitunglamyndum ætti ekki að vera þar neinn ís. Skipið var lagað í kyrrþey til bráðabirgða hér á landi og laumað til lokaviðgerðar erlendis. Ekki fréttist af þessu fyrr en löngu síðar.
Beina á stórum olíuskipum í hundraðatali til Íslands með tilkomu olíuhreinsistöðva á Vestfjörðum sem taldar eru 99,9% líkur á að rísi. Eitt strand olíuskips getur valdið óheyrilegum skaða á lífríki sjávar, stranda og fuglabjarga. En það skiptir víst ekki máli. Olíuskip stranda ekki, - eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.9.2008 | 13:15
Hvað snertir þetta okkur?
Fyrir fimm árum tóku tveir Íslendingar þá ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar en í óþökk yfirgnæfandi meirihluta hennar við værum í hópu viljugra þjóða í hernaði á hendur fjarlægri þjóð á upplognum forsendum. Nýlega hefur verið varpað ljósi á það að þetta var meðal annars gert í þeirri von að fá að viðhalda hernaðarviðbúnaði á Keflavíkurflugvelli sem var óþarfur.
Já, eins og Andri Snær hefur orðað það: Það var friðvænlegra en áður á norðurslóðum og vá fyrir dyrum. Hundruð manna yrði atvinnulausir og hrun samfélagsins á Suðurnesjum blasti við ef herinn færi. Raunin varð hins vegar sú að atvinnuleysið jókst ekkert eftir að herinn fór og meiri uppgangur varð syðra en þekkst hafði áður.
Afleiðingar hernaðarins í Írak hafa birst í gríðarlegum flóttamannastraumi. Við Íslendingar erum því miður samsek öðrum "viljugum" þjóðum um að hafa valdið þessari miklu fjölgun flóttamanna. Þess vegna snertir það vandamál okkur.
Flóttafólkið, sem nú kemur til Íslands, á það inni hjá Íslendingum að vera fært úr einhverri mestu hugsanlegu mannlegu eymd, sem þekkist í heiminum, hingað norður í faðm þjóðar, sem er ein hinna ríkustu í heiminum en gat samt ekki hugsað sér að hér yrði friðvænlegra því þá væri vá fyrir dyrum.
![]() |
Á ferðalagi í sólarhring |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)