Kunnuglegt stef.

Það er kunnuglegt stef að virkjanir stækki, þenjist út og kalli á fleiri virkjanir. Byggjendur Múlavirkjunar á Snæfellsnesi laumuðust til dæmis til að hafa hana mun stærri en fyrirfram var látið í veðri vaka. Svipað fyrirbæri var uppi á teningnum í virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði. Ævinlega er það notað sem ástæða að kostnaður væri þegar orðinn svo og svo mikill vegna rannsókna að það yrði að halda áfram. 

Stórkarlalegasta dæmið var Kárahnjúkavirkjun þar sem umhverfisverndarfólki tókst að vísu að bjarga Eyjabökkum, en lá eftir magnþrota og fjárvana þegar dembt var í gegn margfalt stærri virkjun með miklu verri og hrikalegri umhverfisspjöllum. Eftir sem áður var Jökulsá í Fljótsdal virkjuð en Jökulsá á Dal, Kringilsá og Sauðá vestari bætt við.

Upphaflega áttu Hálslón og Eyjabakkalón að vera með 2000 gígalítra miðlun en í staðinn var Hálslón stækkað upp í 2100 gígalítra miðlun.

Meginhugsunin virðist vera að virkja allt sem mönnum detti í hug á þann hátt sem mönnum dettur í hug og rannsaka helst sem minnst. Þannig var því sleppt að rannsaka miðjukafla gangaleiðarinnar milli Kárahnjúka og Fljótsdals þótt það sæist vel úr lofti að þar væri mesta og hættulegasta misgengið á virkjunarsvæðinu. 

Þetta var rökstutt með setningunni: "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var." Hún sýnir hugsunarháttinn í hnotskurn. Allt í lagi er að taka óverjandi áhættu og óþarfi að kanna hversu mikil hún sé vegna þess að á endanum borgar þjóðin reikninginn. Aðeins var hægt að fara í þessa virkjun með ríkisábyrgð og styrkjum, beinum og óbeinum, því að ekkert einkafyrirtæki, hversu stórt sem það hefði verið, hefði treyst sér til þess að fara út í þetta hættuspil.

Svona hefur þetta verið og verður væntanlega áfram þegar rökstutt verður hvers vegna þarf að virkja Jökulsárnar á Norðurlandi, Tungnaá, efsta hluta Þjórsár, Skaftá o. s. frv. 


mbl.is Margfalt stærri virkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og staðan er í dag þá er það bara svo einfalt að það verður eitthvað að gera til að fólkið í landinu hafi eitthvað að gera, þarf alltaf ástandið að verða svo slæmt að það er orðið 10% atvinnuleysi til þess að fólk geti sætt sig við að auðlyndirnar eru til þess að nýta þær?

 En sérstaklega varðandi þetta dæmi, þá er þetta fólk sem er að virkja í sínu eigin landi, og það er alveg gersamlega óþolandi að mega ekki framkvæma það sem maður vill á sinni eigin landareign sem maður hefur unnið að því að eignast, án þess að eiga það á hættu að einhver sem á leið hjá geti ollið manni 15millj.kr kostnaði við framkvæmdina. Þetta er upphæð sem er álíka og maður þarf að borga fyrir ágætis íbúð í Rvk. Ég hugsa nú að hörðustu umhverfisverndarsinnar yrðu ekki kátir ef maður kæmi til Rvk og kærði þá fyrir að vera að athafast eitthvað inni í garði hjá sér sem maður væri ósammála.

Bjarni Benedikt Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 15:11

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bjarga Eyjabökkum! Huh... það var nú meiri björgunin!

"Allt í lagi er að taka óverjandi áhættu"...."á endanum borgar þjóðin reikninginn". Aðeins var hægt að fara í þessa virkjun með ríkisábyrgð og styrkjum,, því að ekkert einkafyrirtæki, hversu stórt sem það hefði verið, hefði treyst sér til þess að fara út í þetta hættuspil".

Ég hefði nú getað copy/paste-að þetta allt hjá þér, en ég ákvað að spara blekið. Er þetta ekki taktíkin: "Segja þetta nógu oft, þá endar með því að þessu verður trúað".

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.9.2008 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband