10.9.2009 | 15:45
Friðun Leirhnjúks, Vítismós og Gjástykkis.

Svæðið frá brekkubrúninni fyrir norðan Kröfluvirkjun og norður um Leirhnjúk, Vítismó og Gjástykki þar sem gaus í 9 eldgosum 1975-84 með tilheyrandi gjósandi sprungum og gígum er ein órofa heild, og hana verður að friða alla.

Á myndinni hér við hliðina er borsvæði Landsvirkjunar í forgrunni, rétt við hinn magnaða sprengigíg Víti, sem tekur nafna sínum í Öskju fram um það að vera tvöfaldur eins og sést.
Fjær eru Vítismór og Leirhnjúkur, en það er suðurendi svæðisins sem gaus á í Kröflueldum.
Ég hygg að engum myndi detta í hug að leyfa svona umhverfisspjöll við Kerið í Grímsnesi, sem stenst þó engan samjöfnuð við Vítin í Kröflu og Öskju.
Síðan þessi mynd var tekin eyðilagði Landsvirkjun milljarðs króna fjárveitingu til djúborana með því að bora í Vítismó mili Vítis og Leirhnjúks að því er virtist eingöngu tll þess að sækja með bora sína norður Vítismó í hernaðinum gegn Leirhnjúk og Gjástykki.
Á mynd nr. 2 er horft af barmi Vítis yfir nýju borholuna sem var boruð svo nálægt eldstöðinni frá 1975 að borinn kom auðvitað niður á bráðna kviku!
Næstu borholur eiga síðana að koma í röð meðfram eldgosasvæðinu.
Auðvitað hefði átt að bora þessa holu, sem gat gefið grundvöll fyrir þúsunda milljarða króna framförum, á öruggari stað, t. d. við Nesjavelli eða á Reykjanesi.

Hvergi í heiminum er hægt að finna svæði í líkingu við þetta.
Á mynd nr. 3 er horft yfir Leirhnjúk, en á mynd nr. 4 er horft yfir svæði við Sandmúla sem Alþjóðasamtök áhugafólks um ferðir til mars hefur valið sér sem æfingasvæði fyrir marsfarana, líkt og Askja varð fyrir valinu fyrir tunglfarana 1967.
Tunglfararnir og það, að mörgum finnst þeir komast í snertingu við sköpun jarðar í Öskju, skapar aðdráttarafl hennar.


Svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki skapar jafnvel enn sterkari upplifun, vegna þess að á einum stað, sem ég vil kalla Nýja-Ísland, er hægt að ganga eftir sprungu, sem er tveggja mannhæða djúp, þar sem Ameríka rifnaði frá Evrópu 1984 og upp úr sprungunni gaus eins og í gosbrunni hraun sem breiddist um landið og rann jafnvel niður í sprunguna og upp úr henni á víxl.
Í Öskju liggja ekki fyrir neinir vitnisburðir eða myndir um það sem gerðist þar.
Af atburðunum í Kröflueldum er þetta hins vegar fyrir hendi og getur skapað grundvöll að stofnun miðstöðvar svipaða Skógareldasetrinu i Yellowstone, þar sem er safn og bíóhús helgað skógareldunum miklu 1988.
Það auðveldar ferðamönnum að fara á vettvang og upplifa eldana og afleiðingar þeirra.
Safnið gæti borið nafnið "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars."
Fagna ber því að umhverfisráðherra hafi farið í Gjástykki þótt hún virðist hafa getað fengið betra veður.
Hvort hún hefur gengið norður að sprungunni neðstu myndinni er óvíst. Ég hef ekki enn hitt neinn sem hefur gengið þangað nema með mér í ferðum mínum í sumar.
Það á ekki að leyfa Landsvirkjun að fara lengra með bora sína. Þeir geta vel efnt loforð sín hér um árið að hægt sé að skábora inn undir svona svæði.
![]() |
Gaumgæfir friðun Gjástykkis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.9.2009 kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.9.2009 | 09:41
Meira fjölbreytni og frelsi.
Fyrir kosningarnar 2007 var það eitt af stefnumálum Íslandshreyfingarinnar að auka frumkvæði, fjölbreytni og frelsi í landbúnaði og störfum á landsbyggðinni. Slíkt getur ekki aðeins örvað viðskipti og eflt val og kjör neytenda heldur einnig virkað örvandi fyrir ferðaþjónustu.
Sem dæmi má nefna að neytendur kunna að gera sér ferð til að versla uppi í Kjós í stað þess að fara eitthverja aðra og hefðbundnari leið í frístundaakstri sínum.
Ekki væri það amalegra ef viðkomandi bóndi ættti heima nærri sjávarþorpi þar sem hægt væri að fá nasasjón af einfaldri smábátaútgerð og kaupa fiskinn, sem þar er á boðstólum.
Möguleikarnir eru miklu fleiri en sýnist í fljótu bragði og margt smátt gerir eitt stórt, hvað sem líður hæðnistali sumra um "eitthvað annað" vegna þess að aðeins stóriðja geti bjargað atvinnumálum þjóðarinnar.
Í sex risaálverum sem nota alla fáanlega orku landsins gætu aðeins 2% vinnuaflsins fengið atvinnu og jafnvel þótt menn gæfu sér að þau störf og tengd störf yrðu alls 8% vinnuaflsins, þarf að finna störf handa 92% við "eitthvað annað."
![]() |
Hrein og ómenguð nautasteik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2009 | 00:21
Of lengi óeðlilegt ástand.
Ég hef áður sagt frá hinum óeðlilega ástandi sem ríkt hefur í Reykjavík lengi og varðar síendurtekin innbrot og bílþjófnaði. Dæmi eru um að meðan maður einn skrapp í Bónus að versla komu þjófar á stórum sendiferðabíl, brutust snarlega inn hjá honum, hreinsuðu innbúið út með látum og hurfu á brott.
Ástandið í umræddi hverfi var orðið sjúklegt. Vonandi láta aðgerðir lögreglunnar nú á gott vita.
![]() |
Lögregluaðgerðir gegn þjófahópum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2009 | 17:50
"Take the money and run" - heilkennið.
Ofangreint heilkenni hefur verið meginstefið í orkustefnu Íslendinga. Forskrift Guðmundar Pálmasonar um að gæta skyldi öryggis og framsýni við nýtingu jarðhitasvæða var kastað fyrir róða fyrir 30 árum og síðan hefur æðibunugangurinn ráðið ríkjum.
Sé tekið mið af rannsóknum, kenningum og athugunum helstu fræðimanna okkar á þessu sviði, Guðmundar, Braga Árasonar, Sveinbjörns Björnssonar, Stefáns Arnórssonar og fleiri hentar jarðvarmavinnsla best markvissri og öruggri aukningu raforkuframleiðslunnar þar sem þess er gætt að ekki sé fram úr þolmörkum svæðisins, þannig að orkuvinnslan sé sannanlega endurnýjanleg til framtíðar.
Þess vegna hentar best að fá hæfilega stór fyrirtæki sem orkukaupendur og fjölga þeim smám saman, ef þess er kostur.
Í staðinn hefur verið tekin sú stefna að risaálver eigi að kaupa orkuna, en það þýðir að þvílík býsn þurfa að vera tryggð í upphafi, að orka heilu andshlutanna sé í boði og þar með engin leið til að fara eftir forskrift okkar bestu manna í þessu efni.
Úr því að Alcoa þarf þessi býsn af orku fyrir álver á Bakka er það eðlilegt að sýslað sé við alla orkuna sem þarf á einu bretti svo að hægt sé að hafa yfirsýn yfir verkið.
Kröfur um að ákveða strax álver, helst í gær, og að vaða jafnframt sem hraðast inn á öll möguleg virkjanasvæði til að taka þau í nefið án heildaryfirsýnar eða vinnubragða, sem viðurkennd eru við vinnslu úr jörðu á alþjóðavísu, eru skýr dæmi um þá græðgi og ábyrgðarleysi sem veður uppi í þessum málum.
![]() |
Engar tilraunaboranir eftir allt saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.9.2009 | 12:54
Gott er að heyra.
Hvarvetna í heiminum er í gangi viðleitni til að hefta fjölmiðla í nauðsynlegu upplýsingarhlutverki sínu. Misjafnlega hart er gengið til verks en um tilganginn þarf ekki að efast.
Því ber að fagna því að bægt hefur verið frá fjölmiðlamönnum þeirri atlögu sem gerð var fyrir meint brot þeirra á bankaleynd.
Framundan er tími þar sem upplýsingarhlutverk fjölmiðla verður gríðarlega mikilvægt og brýnt að hlutverki þeirra verði sem best sinnt, hvernig sem á það verður litið.
![]() |
Öllum kærum á hendur blaðamönnum vísað frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.9.2009 | 23:25
Sveppir af ýmsu tagi.
Sveppir eru mögnuð fyrirbæri eins og kemur fram í frétt á mbl.is. Stundum er eins og einhver skilyrði myndist fyrir þá á svæðum þar sem annars sjást sjaldan eða aldrei sveppir.
Þegar ég var í sveit í Langadal gerðist það eitt sumarið túnið fylltist allt af sveppum. Þetta gerðist aðeins einu sinni þau fimm sumur sem ég var þar.
Húsfreyjan, frænka mín, var ekki viss um hvort óhætt væri að tína sveppina og var ekki alveg með gagnsemi þeirra á hreinu.
Svo vel vildi til að erlendir gestir, Toft-hjónin frá Reykjavík, (margir muna vafalaust eftir versluninni H. Toft á Skólavörðustíg), höfðu komið í heimsókn og virtust vita allt um sveppi og nýtingu þeirra til matar.
Við tíndum því sveppina og gæddum okkur þeim í nokkra daga.
Fyrir nokkrum árum fór ég með Paul Cox, heimsfrægan læknavísindamann, inn í Kringilsárrana.
Þar, í 650 metra hæð yfir sjó, rákumst við á sveppi. Ég var smeykur um að þeir gætu verið eitraðiir og spurði Cox hvort hægt væri að éta þessan sveppi.
"Já", svaraði hann, - "að minnsta kosti einu sinni."
Allir kannast við Sveppa, gamanleikara. Hitt vita færri að löngu á undan honum var einn skemmtilegur vinur Ragnars, sonar míns, kallaður Sveppi og aldrei neitt annað.
Sá heitir Sveinbjörn Gröndal, einn af aðal sprautunum í "Hreystimannafélaginu" sem svo var kallað.
![]() |
Sveppatínsla frábært fjölskyldusport |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2009 | 14:51
Nei, hvað segið þið? "Eitthvað annað"?
Djúpivogur liggur utan við áhrifasvæði álversins á Reyðarfirði og ruðningsáhrifin af framkvæmdunum fyrir austan voru neikvæð fyrir Djúpavog og fleiri byggðarlög.
Ruðningsáhrif er það kallað þegar mikill fjáraustur og einblíning á eina risastóra fjárfestingu ryður öllum öðrum fjárfestingarmöguleikum í burtu.
Þeir sem að slíku stóðu töluðu síðan í fyrirlitningartóni um "eitthvað annað" þegar færð voru rök að því að fénu hefði verið betur varið á annan hátt.
Það hefur lengi verið lenska fyrir austan að tala niður til fólksins á Djúpavogi. Auk hæðnitónsins um "eitthvað annað" kölluðu sumir Hornfirðingar Djúpavog Kongó og átti sú líking líklega að tákna hvað þorpið væri lítið og afskekkt, útundan og vanþróað.
En nú hefur fólkið þar sýnt að "eitthvað annað" er bæði til og auk þess raunhæft.
Auk vatnsútflutnings er verið er að leggja að því drög að skemmtiferðaskip hafi þar viðkomu, enda er það stórlega vanmetin auðlind sem felst í því að laða ferðamenn að fallegum stöðum, þar sem hægt er að kynnast merkilegum lífsháttum og atvinnuháttum heimamanna.
Ég hef margbent á gildi strandveiðanna í þessu efni og mun blogga von bráðar um það sem ég kalla "sjortara-ferðamennsku" eða "skammdvalar-ferðamennsku" sem er að mínum dómi of mikið ráðandi hér á landi utan þjónustunnar við skemmtiferðaskipin.
Hún miðast fyrst og fremst við þrönga hagsmuni sterkra aðila á höfuðborgarsvæðinu og hamlar meiri fjölbreytni sem getur komið sem viðbót við "skammdvalarferðamennskuna".
![]() |
Djúpavogshreppur í vatnsútflutning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
7.9.2009 | 23:38
Stærðin skiptir víst máli !
Mál Frakklandsforseta varðandi það að reynt sé að láta hann sýnast sem hæstan er ekki út í loftið.
Eitt af lögmálum fréttaviðtala í sjónvarpi tengist hæð viðmælenda. Þetta lögmál lærði ég af reynslunni og ég hef sett það fram svona:
Þegar tekið er sjónvarpsviðtal skal þess gætt að sá sem talað er við, þurfi ekki að horfa upp á við, til dæmis ef fréttamaðurinn er hávaxinn. Ef viðmælandinn þarf að horfa upp á við minnkar áhrifavald /myndugleiki/ traust á honum. (Authoritet).
Best er að viðmælandinn horfi aðeins niður á við og tali þannig niður til fréttamannsins í bókstaflegri merkingu. Við það eykst áhrifavald hans.
Þið skulið ekki gera grín að þessu lögmáli. Manneskjurnar eru ekki fullkomnari en það að þessi sjónrænu sjónrænu, sálrænu áhrif eru í fullu gildi.
Fréttamaðurinn á að beygja sig, lækka eða standa fyrir neðan tröppu til þess að viðmælandinn fái að njóta sín.
Þetta minnir mig á gamla sögu af Jónasi Þorbergssyni, útvarpsstjóra og Helga Hjörvari útvarpsmanni, en þeir áttu í harðvítugum deilum og voru litlir vinir.
Helgi var þá feikna vinsæll og með afbragðs karlmannlega og þróttmikla útvarpsrödd, og vegna þess að fólk aðeins heyrði í honum en sá hann ekki, héldu flestir að þetta væri maður mikill vexti.
Gamall sveitungi Jónasar, Framsóknarbóndi framan úr afdal, kom til Reykjavíkur og var á gangi með honum nálægt Alþingishúsinu í átt að bækistöðum RUV, sem þá voru í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll.
Þá mættu þeir nokkrum þingmönnum, fyrstum Ólafi Thors. "Hver er nú þetta?" spurði dalabóndinn.
"Þetta er Ólafur Thors" svaraði Jónas.
"Já, þetta grunaði mig, nógu er hann nú spjátrungslegur en samt nokkuð reffilegur," sagði bóndinn.
Þegar næsti þingmaður kom út, spurði bóndinn: "Hver er nú þetta?"
"Þetta er Hermann Jónasson," svaraði Jónas.
"Já, það er ekki að spyrja að því hvað hann er myndarlegur og glæsilegur" sagði bóndinn.
Í þeim svifum gekk þar út Helgi Hjörvar. "Hver er nú þetta?" spurði bóndinn.
"Þetta er nú Helgi Hjörvar," svaraði Jónas.
"Helgi Hjörvar?" spurði bóndinn forviða. "Er hann virkilega svona lítill?"
"Nei," svaraði Jónas, "hann er miklu minni."
Ég þekki leigubílstjóra sem í gamla daga var dálítið gassafenginn í akstri og lenti stundum í því að lögreglan stöðvaði hann.
Hann sagði að það hefði munað miklu í orðahnippingum sínum við lögguna að láta hana ekki koma að bílnum og standa og horfa niður á sig í gegnum framgluggann, heldur hefði hann alltaf flýtt sér að opna dyrnar og standa uppi á þröskuldinum og horfa niður á lögregluþjóninn.
Í fyrsta þættinum "Á líðandi stundu" fór Agnes Bragadóttir niður í Íslensku óperuna og tók fyrsta sjónvarpsviðtal sitt, sem var við Jakob Frímann Magnússon.
Hún sagði þegar hún kom til baka: "Guð, þegar ég stóð andspænis honum fékk ég í hnén."
![]() |
Stærðin sögð skipta máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.9.2009 | 20:09
Mannréttindi og kristni.
Við sem teljum okkur til kristinna manna stærum okkur oft af því að þessi trúarbrögð hafi öðrum fremur átt í því að útbreiða mannréttindi í heiminum. Ég tel að í þeirri kröfu felist að við 18 ára aldur hafi hver manneskja um það sjálfval, hvaða sáttmála hún virði gangast undir, sem á annað borð eiga að vera háðir frjálsu vali.
Í þessu landi er trúfrelsi. Minn skilningur á því er sá að Helgi Hóseasson hafi haft til þess fullan rétt að ákveða sjálfur hvaða trúarsáttmála hann væri háður eða óháður.
Ég bendi á að Kristur lét sjálfur ekki skírast fyrr en hann var orðin sjálfráða, fullorðinn maður.
Ég teldi æskilegt að kirkjan breyti skírn og fermingu að því leyti að í þessum athöfnum felist fyrirbæn og staðsetning viðkomandi barns undir verndarvæng kirkju og kristni en einstaklingurinn geti síðar, þegar hann er orðinn sjálfráða, ákveðið að leysa sig undan öllum tengslum við kirkju og kristni ef hann kýs svo.
Barátta Helga minnir um margt á baráttu Muhammads Ali fyrir því að fá sjálfur að ráða nafni sínu, rifta skírnarsáttmálanum, gerast Múslimi og neita að gegna herþjónustu af trúarástæðum.
Hann vildi fá að ákveða sjálfur nafn sitt, kasta þrælsnafninu Cassíus Clay og taka upp nafnið Muhammad Ali. Þetta var ekkert áhlaupaverk.
Honum var bannað að stunda íþrótt sína í 3 og hálft ár, kostaði hann heimsmeistaratitilinn í hnefaleikum og áralanga baráttu fyrir dómstólum og í fjölmiðlum.
Fræg voru ummæli hans um herþjónustuna: "Af hverju ætti ég, svartur maður, að fara og drepa gulan mann fyrir hvítan mann sem rændi landi af rauðum manni? "
Í einum af frægustu bardögum sínum, þegar hann sameinaði tvo heimsmeistaratitla, kallaði hann í sífellu til andstæðings síns: "Hvað heiti ég?"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.9.2009 | 19:43
Löngu tímabært.
Það er löngu tímabært að bæta merkingar vega á Íslandi. Fyrir nokkrum árum var einkum pottur brotinn á þremur sviðum.
1.
Merkingar vegna vegaframkvæmda. Á þessu hefur verið sérstaklega mikill brestur um allt land.
Síðast bloggaði ég um það þegar verktaki við nýjan veg sunnan við Bifröst breytti ekkert 30 km hámarkshraðamerkingum um helgar þótt vegurinn væri þá beinn og breiður og engar framkvæmdir eða vinnuvélar í gangi. Þetta skapaði óvissu og hættu.
Meðan ég var fréttamaður fjallaði ég nokkrum sinnum um fádæma tillitsleysi verktaka gagnvart borgarbúum við merkingar vegna framkvæmda.
Þar var til dæmis í eitt skiptið látið vita að bílar í 700 manna hverfi yrðu lokaðir inni fram eftir degi.
Verkstjórinn hellti sér yfir mig þegar ég benti honum á þetta og sagði að ég vissi greinilega ekki hvað ég væri að frekjast yfir, - slagurinn um að ná verkefnum með lágum tilboðum væri svo harður að enginn peningur væri til að standa í merkingum.
Í samtali mínu við skrifstofu Gatnamálastjóra kom í ljós að merkingarnar voru inni í útboðsskilmálum. En einnig það að það væri í verkahring borgaryfirvalda að fylgjast með því að verktakar færu eftir skilmálum.
Í annað sinn skapaði það umferðaröngþveiti dögum saman þegar ekki var látið vita af framkvæmdum innarlega á Suðurlandsbraut fyrr en bílar voru komnir á skurðbarminn.
Í mörg skipti eru ökumenn ekki látnir vita um það í tíma að aksturleiðir hafi breyst og að þeir geti komist hjá óþægindum áður en í óefni er komið.
2.
Leiðbeinandi hraðamerkingar. Ég gerði nokkrar fréttir um þetta og sýndi dæmi bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum. Loks tók Vegagerðin við sér og þetta er nú komið á góðan rekspöl og er það vel og þakkarvert.
3. Merkingar á hættulegum stöðum á fjölförnum fjallvegum.
Sorglegasta dæmið um afleiðingar skorts á slíkum merkingum var dauðaslys við Kólkustíflu við Blöndulón fyrir nokkrum árum. Vegagerðin ber því við að allt of dýrt væri að fara að merkja eftir sömu reglum og í byggð. Á móti því mætti hugsa sér að á upplýsingaskilti við endamörk slíkra vega yrði tiltekið að merkingarnar væru ekki eins ítarlegar og í byggð og aðeins varasömustu staðirnr merktir.
![]() |
Vegmerkingar stórbættar með nýrri reglugerð Vegagerðarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)