21.5.2013 | 01:45
"Dautt nafn á blaði eða exelskjal" varð að lifandi manneskju.
"Dautt hafn á blaði eða exelskjal frekar en lifandi manneskja" voru orð, sem hrutu af mér í bloggpistli um uppsögn Láru Hönnu Einarsdóttur í gær.
Ég hef verið í langri og strangri hálendisferð í dag og frétti því fyrst nú að í raun hefði þetta gerst í máli hennar, - framkvæmdastjórinn kveðst ekki hafa vitað um veikindi hennar og stöðu og nafn hennar hefði þar með verið eitt af mörgum á blaði.
Það er gott að vita af því að brugðist hafi verið rétt við og að nú hefur "dautt nafn á blaði eða exelskjal" breyst í lifandi manneskju, sem eftir áratuga farsælt starf og þjónustu fannst það ósanngjörn höfnun hvernig komið var fram við hana beint í kjölfar strangrar veikindameðferðar og hygg ég að fáir lái henni það.
"Aðgát skal höfð í nærveru sálar" kvað skáldið, og lærdómurinn af þessu máli og viðbrögð og vinnubrögð verða vonandi öllum til góðs.
![]() |
Uppsögn Láru dregin til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2013 | 10:53
Aldur er huglægur og afstæður.
Þegar ég var yngri var ég viðbúinn því að elliárin yrðu grá, guggin og leiðinleg. Það yrði dapurleg hugsun að vera á "síðasta snúningi", farinn af kröftum til sálar og likama.
En þetta er afstætt. Ég hef alltaf haft gaman af að hreyfa mig og tók þátt í íþróttum ungur, þótt ég gæfi mér ekki nema nokkrar vikur árin 1964 og 196 til að æfa frjálsar þrisvar í viku.
Þegar ég var kominn yfir fimmtugt fann ég hins vegar út að ánægjan af því að hreyfa sig væri afstæð.
Þótt tímarnir í 100 og 200 væru ekki hinir sömu og fyrr, voru þeir þó góðu lagi fyrir minn aldursflokk.
Síðast hljóp ég 100 sumarið 2006 á 15 sekúndum og huggaði mig við það að það væru ekki margir 66 ára sem það gerðu.
Það er búið að skera hnén á mér þrisvar en það er líka hægt að finna djók út úr því, sem sé nýyrði yfir það að vera aumur og með verki í hnjánum: "Að vera sárhnjáður."
Og er ánægður með það að þótt læknirinn bannaði mér að hlaupa, bannaði hann mér ekki að læðast hratt, sem þýðir að hlaupa upp stigana í Útvarpshúsinu frá kjallara upp á 5. hæð á 30 sekúndum.
Samt nauðsynlegt að vilja gera betur og oftar, ná af sér tíu kílóum og bæta tímann um nokkrar sekdúndur.
Og ég get, vegna hnjánna, ekki ætlast til að geta rennt mér á skíðum framar og verið að því fram undir tírætt eins og Stefán Þorleifsson.
Án þess að hafa búist við fæ ég heilmikið grín út úr ellinni. Til dæmis þessi djúpu sannindi, sem ég fattaði ekki fyrr en komið var á áttræðisaldurinn: "Því lengur sem maður lifir, því meiri líkur eru á því að maður drepist."
Gamla fólkið, sem söng " DAS, DAS,DAS! og aftur DAS!" 70 sinnum í röð á einum degi fyrir sjónvarpsauglýsinguna var að vonum orðið þreytt og þá fórum við að gantast með fleiri útgáfur, t. d. þessa fyrir þá sem væru í dópinu á Hrafnistu: "Gras, gras, gras og aftur gras!", - nú eða fyrir þá sem væru veikir fyrir víni: "Glas, glas, glas og aftur glas!"
Engu var líkara en að Sjómannadagsráð tæki okkur á orðinu, því ekki var liðið nema hálft ár þangað til það var kominn vínbar á Hrafnistu!
En auðvitað er ekki hægt að plata lífsklukkuna, sem er í genunum okkar og er stillt á ákveðinn árafjölda og hann mismunandi fyrir hvern og einn.
Og ekki heldur hægt að plata arfgenga veikleika fyrir ákveðnum sjúkdómum, öldrun eða kvillum nema kannski með því að haga sér í samræmi við það eða með dramatískum aðgerðum eins og leikkonan fræga greip til.
En ég held að við getum samt bætt líf okkar að einhverju marki eða eða lengt það með hegðun okkar og þó fyrst og fremst með hugsun okkar, sem má halda ferskari með því að þjálfa heilann á hverjum degi.
Fyrirmyndin okkar, þegar allt er sem erfiðast, ætti að vera hetjan, "sprengjumaðurinn", sem fótalaus og blindur, eigandi eftir aðeins fjóra lífdaga, hékk í rúminu í heimildamyndinni "Hvellur" og var spurður hvernig hann hefði það.
Svarið var í Íslendingasagnastíl: "Ég hef það eins gott og ég get ætlast til."
Flottasta tilsvar sem ég hef lengi heyrt.
Þetta er stóra hetjan, sem við ættum að hugsa til þegar alvarlega gefur á bátinn.
![]() |
Skíðar og golfar á 97. aldursári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.5.2013 | 00:07
Grimm höfnun; - eitt það versta sem hægt er að gera einni manneskju.
Það veitt mér nýja innsýn inn í mismun á rekstrarformum að vinna fyrst í 19 ár hjá Sjónvarpinu, síðan í sex og hálft ár á Stöð 2 og svo aftur hjá Sjónvarpinu.
1988 réði enn talsvert ríkjum svonefndur "unionismi" hjá RUV; - einn maður var í flestum tilfellum ráðinn til að gegna einu ákveðnu starfi og engu öðru.
Eitt lítið en lýsandi atvik sýndi þetta vel. Eitt sinn þegar ég kom inn í förðun hjá Heiði Ósk Helgadóttur um sexleytið sagði hún við mig: "Ég er alveg að gefast upp á þessu starfi."
"Af hverju?" spurði ég.
"Ég er búin að vera hérna frá því klukkan níu í morgun," svaraði hún,"og hef aðeins farðað einn haus. Svona aðstæður drepa hverja manneskju niður".
Þessi ósveigjanleiki kerfisins var ein af ástæðum þess að ég ákvað að breyta til og fara upp á Stöö 2 og var svo lánsamur að geta gert það án þess að leiðindi hlytust af. Áttaði mig ekki til fulls fyrr en síðar hve mikið lán þetta var.
Uppi á Stöð 2 blasti við gerólkt ástand, að vísu mikil baráttugleði, en ekki síður gríðarlegt vinnuálag, streita og ákveðinn ótti við afar ótryggar viinnuaðstæður og hættu á uppsögnum vegna þess að hagur fyrirtækisins var árum saman á ystu nöf, líkt og í öndunarvél, enda fór fyrirtækið í þrot tveimur árum eftir að ég byrjaði þar, en nýir eigendur lífguðu það við.
Ég sá marga starfsmenn keyra sig út, til dæmis tæknimenn, sem hlupu á milli mismunandi tækja og verkefna myrkranna á milli eins og hrædd dýr, en það var eins alger andstæða við tilfelli sumra hjá Sjónvarpinu og hægt var að hugsa sér.
Nokkur ár liðu og þá gerðist eftirminnilegur atburður, sem risti djúpt.
Einn af millistjórendum fyrirtækisins hafði kvöld eitt í lok janúar haldið uppörvandi "brainstorm" fund fyrir sína undirmenn í húsnæði úti í bæ, sem var afar uppbyggjandi og skemmtilegur.
Ákveðið var að endurtaka þetta í janúarlok árið eftir. En þegar fólk kom á fundinn dundi áfallið yfir.
Eigendurnir höfðu skipað millistjórnandanum með engum fyrirvara að nota fundinn til að afhenda stórum hluta undirmanna sinna uppsagnarbréf á þessum fundi með stysta mögulega uppsagnarfresti, af því að daginn eftir væri 1. febrúar og það mætti ekki bíða með þetta deginum lengur.
Allir urðu niðurbrotnir við þetta, ekki síst millistjórnandinn, sem átti ekki um neitt annað að velja en að hlýða skipunum ef hann vildi halda starfinu og vissi þar að auki, að ef hann gerði þetta ekki, yrði fólkinu samt sagt upp.
Fundurinn breyttist í martröð þar sem fólki voru afhent umslög og vissi ekki fyrr en það kom út þessari snubbóttu byrjun og endi fundarins, hvort í umslaginu væri uppsagnarbréf eða ekki.
Ég minnist þess enn hve mér þótti þetta ferlegar og mannskemmandi aðfarir.
Síðar kom í ljós að eigendurnir höfðu farið á taugum og hægt var að ráða megnið af fólkinu aftur, misjafnlega fljótt þó.
Eftir á að hyggja hefðu þessar harkalegu fjöldauppsagnir aldrei þurft að eiga sér stað.
Uppsagnir, sem svona eru framkvæmdar, fela í sér eitthvert mesta andlegt ofbeldi, sem hægt er að beita fólk og nefnist höfnun.
Svo er stundum að sjá að til séu þeir, sem ráða fyrirtækjum og líti á fólkið, sem vinnur hjá þeim, eins og nöfn á blaði, dauð exelskjöl, en ekki lifandi fólk sem hafi tilfinningar, búi við misjöfn kjör og heilsu eftir atvikum, og eigi rétt á því sem stendur í 8. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár:
8. grein.
Mannleg reisn.
Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
Ég tel mig hafa verið aðnjótandi mikillar heppni og gæfu að öll samskipti mín við yfirmenn mína á Stöð 2 og hjá Sjónvarpinu voru á þann veg að aldrei bar skugga á, og að ég fékk að flytjast á milli stöðvanna fram og til baka í tvígang án þess að nokkur leiðindi yrðu.
Þegar ég sagði upp á Stöð 2 og fór aftur niður á Sjónvarp gerðist það á þann einstaka hátt, að uppsagnarfresturinn var sex mánuðir, en samt vitnaðist þetta ekki fyrr en eftir að fimm mánuðir voru liðnir af honum, svo orðheldnir voru þeir sem að því stóðu.
Ég verð ævinlega þakklátur fyrir öll árin sem ég fékk að vinna hjá báðum þessum fyrirtækjum og þess vegna verð ég þeim mun daprari sem ég heyri af tilfelli eins og nú blasir við hjá Láru Hönnu Einarsdóttur.
![]() |
Sagt upp eftir 25 ára starf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2013 | 13:56
Munurinn á Afríku og Íslandi.
Í því Afríkulandi, sem ég þekki best til, eru þjóðartekjur á mann 300 sinnum minni en á Íslandi. Íslendingur hefur sem sé um það bil jafn miklar tekjur á degi hverjum og meðaljóninn í Eþíópíu hefur allt árið.
Þegar flogið er yfir landið blasa við óteljandi strákofaþorp og bæir þar sem reykur stígur upp úr strákofunum þegar fólk er að elda mat eða hita á næturna.
Í landinu blasa við gríðarlegir virkjanamöguleikar í bæði vatnsfafli og jarðvarma.
Ég hef ekki séð í neinum handbókum að í þessu landi sé að finna svæði, sem sé í flokki mestu náttúruundra heims. Hinn eldvirki hluti Íslands er hins vegar í hópi 40 mestru undranna, þar sem sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn kemst ekki á blað.
Inga fossarnir í Kongó eru ekki fossar í þeim skilningi, sem við Íslendingar notum í því orði, heldur ógnarlangar flúðir sem samanlagt gera þær að vatnsmestu flúðum heims. Að því leyti eru þær merkar, þótt ekki falli þær í sama flokk og til dæmis Viktoríufossarnir og aðrir frægustu fossar heims og komist á blað í flokki mestu náttúruundra heims.
Þótt Íslendingar væru fátækir þegar virkjun Gullfoss og annarra fossa komst á dagskrá fyrir 100 árum, var fátæktin ekki slík sem hún er í Afríku. Við fórnuðum fossum og flúðum þegar við rafvæddum landið til að koma rafmagni inn á hvert heimili, hvern bæ og í hvert fyrirtæki.
Við þurrkuðum upp Ljósafoss, Írafoss, Tröllkonuhlaup, Þjófafoss, Hrauneyjafoss, Mjólkárfossa, Skeiðsfoss, Lagarfoss o. s. frv.
Þar með þurftum við ekki að kvíða rafmagnsleysi, kvíða þeim skorti og skerðingu grundvallar lífsgæða, sem stendur milljörðum jarðarbúa fyrir þrifum.
Með uppþurrkun fossanna í Þjórsá og Tungnaá var hins vegar gengið lengra og virkjað fyrir erlend stóriðjufyrirtæki. Um það var þó sæmileg sátt í þjóðfélaginu og ég var í hópi þeirra sem taldi það nauðsynlegt til að minnka einhæfni útflutnings okkar.
Einnig lagði ég trúnað á loforðin um stórfelldan innlendan iðnað við að framleiða vörur úr áli, - loforð, sem, eftir á að hyggja, voru barnaleg.

Með Kárahnjúkavirkjun var hins vegar farið út á alveg nýja braut, þ. e. að framkvæma mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöll sem möguleg voru á Íslandi og það á svæði, sem var eitt hinna 40 merkustu á jörðinni.
Með þeirri virkjun einni voru aflífaðir margir tugir fossa, þeirra á meðal þrír af tólf stórfossum landsins, Töfrafoss, Kirkjufoss og Faxi, en þó voru þau spjöll og dráp lífrikis Lagarfljóts smámunir einir miðað við spjöllin af völdum Hálslóns.
P.S. Í athugasemd hér fyrir neðan er því enn einu sinni haldið fram, að ef hleypt yrði úr Hálslóni myndi Hjalladalur og landslag hans verða eins og áður var.
Þó var vitað, áður en farið far út í virkjunina, að ofan í þennan 25 kílómetra langa og 200 metra djúpa dal steypast 10-20 milljónir tonna af jökulauri á hverju sumri og að dalurinn verði orðinn hálffullur af auri, leir og sandi, á þessari öld.
Spáð var fyrir virkjun, að aur myndi fylla gilið Stuðlagátt, sem þveráin Kringilsá fellur um, og hylja Töfrafoss efst í því á 100 árum. Myndin hér að ofan sýnir þetta 150 metra djúpa gil aðeins tveimur árum eftir að virkjað var og í stað þessa gils eru nú á hverju vori, þegar lægst er í lóninu, sléttar jökulleirur og stuðlabergsgilið með fossum sínum komið á 100 metra dýpi i aurnum.
Því var líka haldið fram að Töfrafoss myndi standa hálfur upp úr lóninu þegar það er fullt. Í staðinn er það svo að lónið fer meira en kílómetra upp fyrir fossinn þegar það er fullt og að allt svarta landið, sem blasir við, eru dökkar leirur framburðar Kringilsár, sem kaffært hafa land, sem áður var grænt og gróið 2ja- 3ja metra þykkum jarðvegi.
Af hverju halda menn að fagfólk rammaáætlunar hafi úrskurðað að þessi virkjun fæli í sér mestu "óafturkræfu" umhverfisspjöll Íslands? Bara út í loftið?
![]() |
Heimsins stærsta vatnsaflsvirkjun í Kongó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.5.2013 | 21:54
"Jesús minn, hvað hann er flottur!" "Negldi þetta!"
Eyþór Ingi fór ekki aðeins afburða vel með lagið sem við sendum í Evrovision að þessu sinni, bæði með söng, framkomu, túlkun og útliti. Hann höfðaði til gamalla tilfinninga í undirmeðvitundinni varðandi það hvernig Jesús Kristur leit út og heillaði alla með útgeislun og töfrum fyrir næstum 2000 árum.
Þegar Eyþór Ingi rétti út hendurnar var hann þar að auki kominn i krossfestingarstellinguna og manni datt í hug hvernig Kristur hefði litið út á krossinum í svona flottum nútíma samkvæmisklæðnaði, ekki hvað síst þegar hann kreppti hnefann í lokin í svipaða stellingu handarinnar og er á öllum myndum af Kristi á krossinum.
Og þegar maður talar og skrifar svona er maður kominn á hálar og varasamar slóðir þar sem má misskilja það sem sagt er og skrifað.
Ég er staddur í árlegu Evróvision-teiti fjölskyldunnar í húsakynnum elsta barnsins okkar og manns hennar og þegar kallað er upp "Jesús minn, hvað hann er flottur!" er það svolítið glannalegt.
Og enn glannalegra getur það virst þegar sagt er í fyrirsögn mbl.is "Eyþór Ingi negldi þetta!" og maður les þetta á sama tíma og á skjáinn kemur mynd af Eyþóri Inga í krossfestingarstellingunni.
Nú er talningin nýhafin og eins gott að láta staðar numið með því að segja að þátttaka okkar að þessu sinni var með miklum sóma, hver sem stigatalan verður að lokum.
![]() |
Eyþór Ingi negldi þetta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.5.2013 | 08:06
Hinir "frumstæðu" og "vanþróuðu" þjóðflokkar.
Þegar Evrópubúar komu til Ameríku uppgötvuðu þeir það, sem við köllum "frumstæða" og "vanþróaða" indíánaþjóðflokka.
Þessir vesalingar leituðust við að horfa sjö kynslóðir fram í tímann þegar þeir ákváðu hverju sinni hvernig nýta skyldi gæði jarðarinnar.
Þeir töldu sig ekki hafa burði til að sjá lengra fram en um það bil 200 ár, en á móti kom, að við hver kynslóðaskipti, féll elsta kynslóðin frá og við það færðist viðmiðið einni kynslóð lengra fram í tímann.
Þessir "vanþróuðu" og "frumstæðu" þjóðflokkar lifðu þar með í samræmi við kröfur Ríósáttmálans 1992 um sjálbæra þróun, það er, nýtingu jarðarinnar gæða án rányrkju. Kröfur, sem við undirrituðum að hlíta en höfum nær ekkert farið eftir.
Berum þetta nú saman við kröfur hins "háþróaða" samfélags okkar. Nú er eina ferðina enn verið að setja saman stjórnarsáttmála, sem horfir fjögur ár fram í tímann. Mikil framsýni þar.
Höfð er hliðsjón af sjónarmiðum "aðila vinnumarkaðarins". Þau sjónarmið miðast við næstu kjarasamninga, þ. e. eitt til tvö ár. Framsýnin er í tímalengd aðeins 1% af framsýni "vanþróuðu" indíánanna.
Valdamennirnir gera þá einu aðalkröfu að hagvöxtur aukist upp í 3,5% hið snarasta. Þessi krafa er algild og víkur öllu öðru til hliðar. Annars verða allir svo óhamingjusamir.
Eða er það? Hagvöxtur síðustu 60 ár hefur víst verið slíkur að samsvarar því að hagkerfið okkar hafi tífaldast að minnsta kosti. Sjást þess einhver merki að vellíðan og hamingja okkar hafi tífaldast líka?
Ef gerð verður krafa um að hagkerfið tífaldist á hverjum 60 árum, verður það orðið þúsund sinnum stærra eftir sjö kynslóðir en það er nú. Er líklegt að afkomendur okkar eftir 200 ár verði þúsund sinnum hamingjusamari en við?
Hinir "vanþróuðu" og "frumstæðu" indíánar hefðu auðvitað aldrei látið sér detta neitt slíkt í hug, vegna þess að þeir hefðu haft nógar upplýsingar til að sjá að auðlindirnar sem þeir lifðu á, væru víðsfjarri því að geta staðið undir slíkum kröfum.
Nú sjá ráðandi öfl í þjóðfélagi okkar engin ráð til að uppfylla kröfuna um tafarlausa hagvaxtarþenslu nema að ráðast í öflun 625 megavatta orku á annan tugs virkjana allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið til þess að gefa 0,3 % íslensks vinnuafls atvinnu til frambúðar í einu stykki risaálveri.
Að vísu eiga 2% vinnuafls landsmanna að fást við virkjanaframkvæmdir fyrir álverið en það gleymist að þegar þeim lýkur eftir nokkur ár, verða þessi 2% vinnuaflsins atvinnulaus og margt af þessu fólki hefur þá vanrækt að mennta sig á dýrmætum æviárum.
Raunar sýnir reynslan af Kárahnjúkavirkjun, að mestallt vinnuaflið var innflutt og flutti síðan aftur úr landi. En það skiptir ekki máli í huga hinna "háþróðuðu" valdamanna, sem hugsa aðeins 1-4 ár fram í tímann og verða að uppfylla kosningaloforðin strax.
Og það skiptir heldur ekki máli þótt helmingur orkunnar, sem afla á, muni verða uppurin eftir nokkra áratugi og eftir standa ónýt og orkulaus svæði þar sem miklum náttúruverðmætum hefur verið fórnað.
Það eru bara "vanþróaðir" og "frumstæðir" þjóðflokkar sem pæla í slíku.
![]() |
Vestrænt stjórnkerfi úrelt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.5.2013 | 00:25
Leggur og skel ?
"...Drottinn leiði drösulinn minn,
drjúgur verður síðasti áfanginn..."
Nei, afsakið. Bráðum, á ekki einn einasti Íslendingur eftir að skilja þessar ljóðlínur og eins gott að fara að breyta þeim.
Áfangi er nefnilega ekki nógu fíint orð, heldur verður að nota enska orðið "leg" til að færa málið í nothæft horf, það er, sem líkast ensku, helst alveg enskt.
"Goddi lídi gæðinginn minn,
greit verður lastasti leggurinn...
Þetta er allt annað. Haldið þið að það sé munur!
![]() |
Guðni Páll orðinn sár í lófum eftir róður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.5.2013 | 10:34
"Fólk er fífl" 2: Þarf að skoða vel hið keypta.
Þessi bloggpistill er eiginlega framhald af pistli frá í gær með heitinu "fólk er fífl" um það hvernig maður getur verið "fífl" árum og áratugum saman.
Dæmi frá því í fyrradag.
Ég kynnti mér lauslega laglegan átta ára gamlan japanskan 4x4 bíl af smærri millstærð , sem var auglýstur til sölu og myndi kannski henta konu minni. Í stórri handbók um alla bíla heims var gefið upp að hægt væri að fá bíla af þessari gerð og þessari árgerð bæði sjálfskipta og beinskipta, og að þessi var sjálfskiptur.
Gefið er upp í öllum bestu handbókunum um þetta módel að sjálfskiptingin sé svonefnd CVT-skipting, sem er stiglaus án gíra og velur sjálf óendanlega mörg þrep. Gefin upp sem sparneytnari skipting en þessar venjulegu.
En þegar litið var á bílinn kom hins vegar í ljós að svo var ekki, heldur var þetta venjuleg sjálfskipting og ekki aðeins það, heldur af afar einfaldri, ódýrri og leiðinlegri gerð sjálfskiptinga með aðeins tveimur þrepum, efri stig og neðra stig, sem Japanir hafa lengi vel framleitt fyrir allra ódýrustu og einföldustu bíla sína.
Einhvern veginn hefur skolað þarna til landsins bíl með öðruvísi sjálfskiptingu en gefin er upp fyrir Evrópumarkað.
Í handbókum er gefið upp að þetta sé svonefndur "jepplingur" með 17 sm veghæð.
Þegar bílstjórinn er sestur upp í bílinn lækkar hann niður í 15-16 sm og þegar hann er fullhlaðinn er veghæðin orðin 12 sm og bíllinn auðvitað þá ekki jeppi frekar en hvaða fólksbíll, sem er. Auk þess er hann ekki með háu og lágu drifi eins og sannir jeppar verða að hafa.
Í gangi er nefnilega alheims blekkingaleikur varðandi veghæðir bíla sem byggist á því að ljúga engu en segja aðeins hálfan sannleikann, sem getur verið verri en lygi.
Í þessum leik taka allir þátt, framleiðendur, bílablöð og bílablaðamenn, að mér sjálfum meðtöldum, því að enginn þorir að taka sig út úr og fara að leggja fram önnur gögn en orðin eru að staðli til samanburðar. Það var fyrst í gær sem ég gaf mér tíma til að framkvæma mælingar sjálfur á veghæð "jepplings" til að sannreyna það sem ég hef vitað í hálfa öld.
Hér áður fyrr var oftast gefin upp veghæðin þegar bíllinn er fullhlaðinn. Gamla Bjallan var gefin upp með 15 sm veghæð, en var óhlaðin með veghæð, sem nú yrði talin vera veghæð "jeppa".
Fyrir 15 árum var eitt bandarískt neytendatímarit sem mældi þetta sjálft en hætti því síðan af ókunnum orsökum, enda voru veghæðartöliurnar hjá flestum "jeppunum" og "jepplingunum" aðeins 11-14 sm og öll hin blöðin héldu sig við veghæð á bílnum, sem enginn maður ók og hældu jafnvel torfærueiginleikum þeirra í umsögnum !
En aftur að "jepplingnum" sjálfskipta. Ekki gafst tími til að athuga hvort skipt hefði verið um tímareim við 100 þúsund kílómetra á þessum bíl, en bíllinn var ekinn 130 þúsund kílómetra.
Bíllinn seldist nefnilega á augabragði. Nýr eigandi trúir því væntanlega að hann aki um á jeppa eða jepplingi með fullkomnustu og nýtískulegustu sjálfskiptingu sem völ er á og hefur sennilega engar áhyggjur af því þótt tímareimin geti farið hvernær sem er með minnst 100 þúsund króna kostnaði en hugsanlega margfalt meiri kostnaði.
Í skilmálum vegna sölu á bílum segir að kaupanda sé skylt að kynna sér hvað hann kaupir og ef hann gleymir að athuga hvort skipt hafi verið um tímareim á réttum tíma, ber hann ábyrgð á því.
Veghæðina og að bíllinn sé sjálfskiptur "jepp"lingur getur seljandinn auglýst með góðri samvisku.
Eitt umboðið auglýsir nú að nýr 4x4 bíll, sem það selur, sé "jeppi" með 21 sentimetra veghæð.
Þegar fjórir hafa sest upp í "jeppann" með sinn farangur er veghæðin sennilega 14 sentimetrar og nef bílsins skagar flatt langt fram úr honum og er líkara tönn á veghefli en framenda á "jeppa".
Ekkert lágt drif er á þessum "jeppa" frekar en öðrum svipuðum. Hátt og lágt drif er reyndar til frekar lítils á "fullkomnum jeppa" sem er aðeins með 12-13 sm veghæð, þegar hann er fullhlaðinn.
Hvernig stendur á því að við tökum öll þátt í þessum leik? Svarið er einfalt: Kannanir sýna að meira en 95% þeirra, sem kaupa þessa svonefndu "jeppa", "jepplinga" eða "sportjeppa" aka bílnum aldrei um slóðir, sem krefjast jeppaeiginleika. Bílarnir eru í raun tískufyrirbrigði og stöðutákn hjá flestum og rokseljsast sem slíkir.
Og slíku verður að viðhalda vegna þess að þar með erum við komin að einum helsta drifkrafti guðs okkar tíma, "hins veldisvaxandi hagvaxtar" og "aukningar neyslu og framleiðslu" sem verður að þenja áfram af vaxandi hraða, hvað sem það kostar, jafnvel þótt það kosti "hrun" þegar auðlindir jarðar þverra.
Þjóð sem ekki þenur hagvöxt, er ekki samkeppnisfær.
Ég hef orðið vitni að og heyrt margar sögur af atvikum, þar sem ferðafólk lenti í vandræðum á óbyggðaslóðum á Íslandi vegna þess að það trúði því að það væri að ferðast um á "jeppa".
En slíkar sögur liggja yfirleitt í þagnargildi því að enginn vill viðurkenna að um svona lagað gildi setningin "fólk er fífl".
![]() |
Vandræði fylgja rafbílum frá Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.5.2013 | 14:24
"Fólk er fífl" ?
Ofangreind setning er höfð eftir manni, sem var á fundi, sem ku hafa snúist um það hvernig hægt væri að lokka neytendur og kemur í hug þegar alls konar afslættir eru sagðir veittir tímabundið á vörum eða þjónustu .
Þetta blasir við okkur á hverjum degi. Dæmi: Maður kaupir sér rafknúið tæki eins og ódýran farsíma en týnir hleðslutækinu. Þegar á að kaupa þann hlut, sem augljóslega er margfalt einfaldari og ódýrari en síminn bregður svo við að verð þess slagar hátt upp í verð símans eða tækisins, að hleðslutækinu meðtöldu.
Hafi maður verið svo óheppinn að týna rafhlöðunni líka, er verðið á henni og hleðslutækinu komið upp fyrir verð símans með rafhlöðu og hleðslutæki.
Dæmi um hliðstæður þessa eru endalaus. Allt er gert, sem hugsanlegt er til að fá fólk til að kaupa hin og þessi tæki og búnað, fá það til að bíta á krókinn, með því að selja þau á kostnaðarverði eða jafnvel undir kostnaðarverði, en ná síðan inn miklu meiri peningum ef kaupa þarf hluta þeirra eða víðbótarhluti. "Fólk er fífl", - eða öllu heldur, "fólk er fíflað."
Síðan er undravert að sjá hve litla endingu sum nýjustu tækin eins og til dæmis tæki, sem flestir tölvu- og nettengdir verða að kaupa og mér skilst að heiti "vafrari" á íslensku.
Sá fyrsti, sem ég keypti, entist í aðeins tvö ár, svo að ég fór með hann til viðgerðar og til þess að fá útskýringar á þessu.
Sölumaðurinn var ekkert hissa á því að hlutur gerður á 21. öld entist svona illa, - sagði að þessi tæki entust jafnvel enn skemur. Já, maður heldur að tækninni hafi ekki aðeins fleygt fram sem slíkri, heldur einnig gæðum tækjanna. Nei, það "fólk er fífl" sem trúir slíku skilyrðislaust, að minnsta kosti er ég alltaf að uppgötva hvílíkt fífl og einfeldningur ég geti verið í þessu tilfelli og mörgum öðrum hliðstæðum.
![]() |
Hafður að fífli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.5.2013 | 23:00
Hvernig er þetta í "landi frelsisins og kapítalismans"?
Aðeins sá hluti hins eldvirka hluta Íslands, sem er á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum er fjölbreyttasta og magnaðasta eldfjallasvæði heims. Við erum að tala um eitt af 40 merkustu náttúrufyrirbærjum veraldar, og sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum kemst ekki í þann flokk.
Það varð mikið fjaðrafok í kringum Grímsstaði á Fjöllum í fyrra. Sú jörð er þó örreytiskot miðað við Reykjahlíð við Mývatn, sem að mörgu leyti hefur algera sérstöðu sem landareign, löngum talin langstærsta jörð landsins og ná allt upp í Vatnajökul með innifaldar Herðubreiðarlindir, Öskju og jafnvel Kverkfjöll.
Ekki einasta eru innan jarðarmarkanna fleiri náttúruundur en í nokkurri annarri landareign, svo sem Hverarönd, Leirhnjúkur, Gjástykki, Dettifoss o.s.frv., heldur er landið sem Reykjahlíðarþorpið stendur á, einnig í einkaeigu, líkast til eina þéttbýlið á Íslandi, sem þannig háttar um.
Hvernig er þá staðið að umgengni við þau svæði í Bandaríkjunum, sem líkja má við náttúruundur Íslands?
Hvað gera menn í þessu "landi frelsisins", "höfuðvígi kapítalismans og hins frjálsa framtaks"?
Jú, svona svæði hafa verið gerð að þjóðgörðum eigu bandaríska alríkisins, felld undir Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna. Á hinum stóru hliðum við inngangana í Yellowstone og fleiri svipaða þjóðgarða standa einkunnarorðin: "For the joy and benefit of the people !" "Til yndis hagsbóta fyrir þjóðina/fólkið!"
Gestir þjóðgarðanna borga hóflegan aðgangseyri en geta líka keypt sér aðgangskort sem gildir í mörg skipti eða langan tíma og þá fyrir miklu minni upphæð fyrir hvert skipti um sig.
Auk þess fá þeir þá þjónustu og aðstoð sem nauðsynleg kann að reynast, og þrifnaður og umgengni eru í gæðaflokki, sem er óþekktur hjá okkur.
Gestir fá í hendur vandaðan bækling með kortum og hagnýtum upplýsingum um þjóðgarðinn og þær reglur sem þar gilda til þess að vernda verðmæti hans en fá þó sem mesta ánægju út úr ferðinni um hann.
Í landi kapítalismans eru þjóðgarðarnir ekki ríkisreknir með hagnað þeirra sjálfra sértaklega fyrir augum heldur er tilgangurinn sá einn að hámarka ánægju fólks af dvölinni í þeim og varðveita náttúrufyrirbærin fyrir komandi kynslóðir.
Talið er að aukinn ferðamannastraumur og ferðamannaþjónusta í kringum þjóðgarðana geri miklu meira en að vega upp tapið á rekstri þeirra og að unaðs- og hrifningarstundir þjóðgarðagestanna verði ekki metnar til fjár. Þjóðfélagið nýtur góðs af í heild.
Fyrir 14 árum sýndi ég í sjónvarpi hvernig þessu er háttað vestra og hvernig umgengni öll og aðstaða í þjóðgörðunum þar tryggir að ekki verði náttúruspjöll eða vandræði, jafnvel þótt milljónir manna komi árlega á suma staðina.
Meðferðin og umgengnin um náttúruperlur Íslands er að verða vaxandi þjóðarskömm. Hér ræður ríkjum sérstök blanda af nísku, græðgi, rányrkju, ringulreið og ómenningu sem ekki þekkist á hliðstæðum svæðum í helsta landi kapítalismans og frelsisins.
![]() |
Stjórnvöld sjái um gjaldtöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)