Hvernig er þetta í "landi frelsisins og kapítalismans"?

Aðeins sá hluti hins eldvirka hluta Íslands, sem er á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum er fjölbreyttasta og magnaðasta eldfjallasvæði heims. Við erum að tala um eitt af 40 merkustu náttúrufyrirbærjum veraldar, og sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum kemst ekki í þann flokk.

Það varð mikið fjaðrafok í kringum Grímsstaði á Fjöllum í fyrra. Sú jörð er þó örreytiskot miðað við Reykjahlíð við Mývatn, sem að mörgu leyti hefur algera sérstöðu sem landareign, löngum talin langstærsta jörð landsins og ná allt upp í Vatnajökul með innifaldar Herðubreiðarlindir, Öskju og jafnvel Kverkfjöll.

Ekki einasta eru innan jarðarmarkanna fleiri náttúruundur en í nokkurri annarri landareign, svo sem Hverarönd, Leirhnjúkur, Gjástykki, Dettifoss o.s.frv., heldur er landið sem Reykjahlíðarþorpið stendur á, einnig í einkaeigu, líkast til eina þéttbýlið á Íslandi, sem þannig háttar um.  

Hvernig er þá staðið að umgengni við þau svæði í Bandaríkjunum, sem líkja má við náttúruundur Íslands?

Hvað gera menn í þessu "landi frelsisins", "höfuðvígi kapítalismans og hins frjálsa framtaks"?  

Jú, svona svæði hafa verið gerð að þjóðgörðum eigu bandaríska alríkisins, felld undir Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna. Á hinum stóru hliðum við inngangana í Yellowstone og fleiri svipaða þjóðgarða standa einkunnarorðin: "For the joy and benefit of the people !" "Til yndis hagsbóta fyrir þjóðina/fólkið!"

Gestir þjóðgarðanna borga hóflegan aðgangseyri en geta líka keypt sér aðgangskort sem gildir í mörg skipti eða langan tíma og þá fyrir miklu minni upphæð fyrir hvert skipti um sig.

Auk þess fá þeir þá þjónustu og aðstoð sem nauðsynleg kann að reynast, og þrifnaður og umgengni eru í gæðaflokki, sem er óþekktur hjá okkur. 

Gestir fá í hendur vandaðan bækling með kortum og hagnýtum upplýsingum um þjóðgarðinn og þær reglur sem þar gilda til þess að vernda verðmæti hans en fá þó sem mesta ánægju út úr ferðinni um hann.

Í landi kapítalismans eru þjóðgarðarnir ekki ríkisreknir með hagnað þeirra sjálfra sértaklega fyrir augum heldur er tilgangurinn sá einn að hámarka ánægju fólks af dvölinni í þeim og varðveita náttúrufyrirbærin fyrir komandi kynslóðir.

Talið er að aukinn ferðamannastraumur og ferðamannaþjónusta í kringum þjóðgarðana geri miklu meira en að vega upp tapið á rekstri þeirra og að unaðs- og hrifningarstundir þjóðgarðagestanna verði ekki metnar til fjár. Þjóðfélagið nýtur góðs af í heild.

Fyrir 14 árum sýndi ég í sjónvarpi hvernig þessu er háttað vestra og hvernig umgengni öll og aðstaða í þjóðgörðunum þar tryggir að ekki verði náttúruspjöll eða vandræði, jafnvel þótt milljónir manna komi árlega á suma staðina.

Meðferðin og umgengnin um náttúruperlur Íslands er að verða vaxandi þjóðarskömm. Hér ræður ríkjum sérstök blanda af nísku, græðgi, rányrkju, ringulreið og ómenningu sem ekki þekkist á hliðstæðum svæðum í helsta landi kapítalismans og frelsisins.  


mbl.is Stjórnvöld sjái um gjaldtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2011 en garðurinn var stofnaður árið 1872.

Yellowstone National Park

Þorsteinn Briem, 15.5.2013 kl. 23:13

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Helmingurinn af gestum garðsins kemur frá öðrum heimsálfum en Ameríku. Evrópumenn fara þrefalt lengri leið en ef þeir færu til Íslands til að sjá sambærilega náttúru. *

Samt hefur verið klifað lengi á því hvað Ísland sé langt í burtu frá markhópunum.

Ómar Ragnarsson, 16.5.2013 kl. 00:19

3 identicon

Sammála þér með gjaldið til að vernda og bæta aðkomu ferðafólks. Það er líka umhugsunarefni hvers vegna Íslendingar séu svona miklir sóðar. Við innganginn til Íslands, þ.e. Leifsstöð fær maður vægt sjokk, er maður lítur á tjörnina  þar sem eggið er í það er fullt af bréfadrasli og síkarettustubbum. Svona lagað sér maður alldrei þegar maður kemur t.d til Ameríku.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.5.2013 kl. 06:44

4 identicon

http://www.ncsl.org/issues-research/env-res/states-with-littering-penalties.aspx

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.5.2013 kl. 10:30

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Menn verða að skilja muninn á því að taka gjald til að takmarka ágang og að taka gjald til að græða peninga.

Í Yellowstone er tekið gjald fyrir aðgang og þannig er álagi á staðin stýrt.

Hér á ísland kemur nú þegar miklu meira af túristum en landið og efnhagslífið þolir. Allir ætla að græða á því að skeina túristum og í stað þess að takmarka aðgnag með gjaldtöku eða bönnum þá á að að rukka túrista og nota svo peningin til að breyta landinu í eitt risstórt kamarsvæði fyrir túrista.

Þetta er hin göfuga framtíðarsýn íslenskra nátturverndarsinna,

Það sem við erum að gera á íslandi varðandi túrista er með öfugum formerkjum í samanburði við Yellowson.

Guðmundur Jónsson, 16.5.2013 kl. 10:42

6 identicon

Í hagtölum ferðaþjónustunnar má sjá að tekjur ríkisins af vsk og vörugjöldu ferðaþjónustunnar eru rúmir 15 milljarðar. Í þessa tölu vantar allan vsk sem ferðaskipuleggjendur og þeir sem ekki beinlínis innheimta vsk greiða aðilum sem ekki er skráðir í ferðaþjónustu s.s. húsaleiga, auglýsingakostnaður, matvæli sem ekki eru keypt af veitingastöðum, skrifstofukostnaður og aðkeypt þjónusta önnur en bílaleiga, gisting og veitingar.Ætla má að þessi upphæð sé amk 1/3 af 15 milljörðunum sem birtar eru í opinberum hagtölum.

Sambærilegar greiðsur stóriðju og sjávarútvegs eru ENGAR! -allur vsk fæst endurgreiddur við útflutning afurðanna og vörugjöld til þessa rekstrar eru engin. Reyndar þarf útgerðin að greiða allt að 10 milljarða í veiðigjöld í ár (ef það verður ekki afnumið af silfurskeiðungunum)en á móti kemur að útvegurinn hefur í áratugi haft afnot af stærstu rannsóknarbatteríum landsins, hafnir hafa verið greiddar niður af opinberum aðilum og stjórnvöld staðið vaktina fyrir útgerð og stóriðju, nótt sem nýtan dag, áratugum saman og háð stríð gegn Bretum og og "hernað gegn landinu".

Ríkið hefur EKKERT gert til að stýra álagi á ferðamannasvæði og lítið lagt til uppbyggingar. Þetta er ekki spurning um það hvort Ríkið "eigi að gera e-h fyrir ferðaþjónustuna" -þetta er spurningin um það hvort ríkið ætli sér eingöngu að vera óvirk afæta á þessari atvinnugrein eða hvort ríkið sinni þeim verkefnum sem tryggja því áfram þessa "easy money" sem það fær ár hvert frá ferðaþjónustunni.

Hingað koma ekki margir ferðamenn. Vandinn felst í óheftri gjaldtöku ríkisins án þess að því hafi fylgt ábyrg uppbygging innviða sem tryggja þessar skattekjur um ókomin ár.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 16.5.2013 kl. 10:43

7 identicon

Hélt að ferðamennirnir sem kæmu til Íslands væru að leita eftir friði og ró og að geta verið á ferð án kapitaliskrar stýringar á öllu. það er allavega með þá frönsku túrista sem ég þekki til. Það er kyrrðin, fámennið og auðnirnar sem heilla og að get verið eitt án áreitis sölufólks.

Þessi markaðstúrismi sem Samfylkingin hefur staðið fyrir er afspyrnu vont átak.

Kári (IP-tala skráð) 16.5.2013 kl. 10:49

8 identicon

Kári, meginhluti landsins er með öllu mannlaus. Þangað kemur enginn vegna ónógra samgangna, skorts á þjónustu og vegna þess að megnið af landinu er án kynningar á meðan Þingvellir, Geysir og Mývatn hafa 100 ára forskot í kynningu.

Vð breytum ekki miklu á nokkrum árum en brýnt er að marka stefnuna og byrja. Fjöldinn er ekki vandamál, -skipulagið er hinsvegar ekkert.

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2013/05/16/velja_stadi_sem_vid_viljum_ferdamenn_a/

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 16.5.2013 kl. 11:57

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi.

Hér á Íslandi eru þrír íbúar á hvern ferkílómetra og hingað til Íslands kemur nú um hálf milljón erlendra ferðamanna á ári.

Miðað við að hver erlendur ferðamaður dveljist hér á Íslandi í eina viku eru hér að meðaltali um tíu þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.

Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands árið 2009 og gistu þá að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.

Að meðaltali voru því um
ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum innanlands á degi hverjum árið 2009.

Að meðaltali voru því FLEIRI ÍSLENDINGAR á ferðalögum hérlendis en erlendir ferðamenn á degi hverjum árið 2009.

Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu. Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.

Langflestir menga því mun meira í sínum heimabæ en utan hans, hvort sem þeir búa hérlendis eða erlendis.


Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.
Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum.

Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.

Þorsteinn Briem, 16.5.2013 kl. 12:36

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég vissi ekki að gjald væri tekið fyrir aðgang gesta að Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum til að sem fæstir kæmu þangað.

Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.

Yellowstone National Park


Yellowstone National Park Service - Fees and Reservations


Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi var
um 8.400 árið 2007 (fyrir fimm árum) og þar af voru 5.400 störf í einkennandi ferðaþjónustugreinum, til dæmis gisti‐ og veitingaþjónustu, farþegaflutningum og ferðaskrifstofum.

Um þrjú þúsund störf voru þá í tengdum greinum, til dæmis smásölu, afþreyingu, verslun, menningu, tómstundum og þjónustu tengdri farþegaflutningum.

Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010


Þar að auki er ferðaþjónusta í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Stóriðja er hins vegar einungis á örfáum stöðum á landinu.


7.3.2012:


"Þrjú álver eru rekin á Íslandi og hjá þeim starfa um tvö þúsund manns en þegar bætt er við þeim sem tengjast álverunum teljast um 4.800 starfa í áliðnaði og tengdum greinum.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Samtök álframleiðenda."

Þorsteinn Briem, 16.5.2013 kl. 13:17

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef því miður ekki hugmyndaflug til þess að samþykkja það sem Guðmundur Jónsson heldur fram, að núverandi ástand sé "hin göfuga framtíðarsýn náttúruverndarsinna" á borð við mig til þess "að gera landið að einu risastóru kamarsvæði fyrir túrista."

En þetta er svo sem ekki nýtt þessa dagana. Þanngi hefur mér verið kennt um það ítrekað að leggja mitt af mörkum til þess að Bjarnarflagsvirkjun verði reist með því að hafa steinþagað um það mál !

Ómar Ragnarsson, 16.5.2013 kl. 23:46

13 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég tel þig tilheyra hópi hinna raunverulegu náttúrverndarsinna Ómar. Þessu vara ekki beint til þín. Afsakaðu það.

Ég setti þetta hér inn til að árétta að hinir sem eru nátturuvermdrsinanr vegna þess að þeir kunna ekki ekkert annað að skeina útlendingum, og eru háðir þeim vegna sinnar afkomu eru farnir að benda á Yellowstone til að réttlæta meiri uppbyggingu. Ég sem vil vera raunverulegur nátúrvermdarsinni vil fækka túristunum.

Guðmundur Jónsson, 17.5.2013 kl. 17:30

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur Jónsson er sem sagt illa skeindur á ferðalögum hérlendis og erlendis.

Ómar Ragnarsson hefur ekki hvatt hér til þess að sem fæstir erlendir ferðamenn komi hingað til Íslands.

Ómar hefur vegar hefur bent á að íslenskir og erlendir ferðamenn eigi að fá hér góða þjónustu, greiða fyrir hana sanngjarnt verð og ferðamannastaðir hérlendis verði að sjálfsögðu að vera í góðu lagi, eins og til að mynda Yellowstone-þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum.

Þorsteinn Briem, 17.5.2013 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband