21.4.2013 | 22:00
Þrjóskan varðandi Draugahlíðabrekkuna.
Þegar ákveðið var að taka í burtu mesta slysakafla Suðurlandsvegar, sem fólst í tveimur beygjum austast í Svínahrauni hefði verið skynsamlegast að fara með veginn norður fyrir Draugahlíðar í stórum sveig þannig að vegurinn hefði orðið beinn fyrir vestan Hveradali í stað þess að þar væri enn beygja við minnisvarðann um Karl Sighvatsson.
Eini ókostur þessa vegarstæðis hefði verið að vegamót Þrengslavegar og Suðurlandsvegar hefðu komið um 500 metrum norðar en nú.
En kostirnir voru margir.
Með því að fara fyrir norðan Litlu Kaffistofuna losnuðu menn við hina leiðu, bröttu og hættulegu brekku upp Draugahlíðar þar sem bílar lenda oft í vandræðum vegna hálku en ekki síður vegna mikilla sviptivinda í hvassri sunnan og suðsuðaustanátt.
Ég gerði um sérstaka sjónvarpsfrétt um þetta og byggði bæði á eigin reynslu en einnig viðtölum við kunnuga, svo sem Ólaf Ketilsson, en fékk ekkert nema úrtölur hjá Vegagerðinni, meðal annars það, að þetta yrði dýrari kostur en að nota áfram Draugahlíðarbrekkuna og næstu tvo kílómetra fyrir austan hana.
Ég hygg að nú þegar sé kostnaður vegna slysa á þessum kafla orðinn meiri samanlagt en nam þessum sparnaði.
![]() |
Versti vegkaflinn er á Suðurlandsvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2013 | 17:41
Einstæðar 23 sekúndur.
Síðustu 23 sekúndurnar í leik Fram og FH nú áðan verða lengi í minnum hafðar. Fram var með boltann eftir leikhlé sem þjálfari þeirra bað um, og í slíkri aðstöðu er verkefnið einfalt: Að halda boltanum í 20 sekúndur og þruma á markið á lokasekundunum.
En Framarar misstu strax boltann og skyndilega jöfnuðu FH-ingar og allt stefndi í framlengingu. Robert Aron Robert Hostert, sá, sem missti boltann, stefndi í að verða "skúrkurinn" í Framliðinu.
En Framarar geystust fram, skoruðu þegar tvær sekúndur voru eftir og voru þar með komnir í úrslit í fyrsta sinn í 13 ár.
Og "skúrkurinn" Robert Aron, breyttist í "hetju" Framliðsins á örfáum sekúndum!
![]() |
Róbert Aron: Fylgdi bara skotinu vel eftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2013 | 17:24
Gula bókin, kaupfélagsstjórinn á Fáskrúðsfirði og lendingarstaðir.
Oft er engin leið að átta sig á því hvaða mál ber hæst á góma allra síðustu dagana fyrir kosningar.
Rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1958 var því slegið upp í Morgunblaðinu að nefnd á vegum vinstri stjórnarinnar, sem átti að gera úttekt á húsnæðismálum, hefði í gulri skýrslu viðrað stórvarasamar hugmyndir sem ógnuðu frelsi fólks í húsnæðismálum.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 10 menn kjörna af 15 í borgarstjórn í stórsigri, en ekkert hefur frést af Gulu bókinni síðan og hvar hún af sjónarsviðinu eftir kosningar jafn skjótt og hún hafði birst.
Þessa síðustu daga fyrir kosningar fékk plaggið nafnið "Gula bókin" og kemur hún við sögu í laginu "Bjargráðin", sem var sungið siðar.
Bjarni Benediktsson var þá ritstjóri Morgunblaðsins og í í bragnum er þessu lýst svona.
Ég leitaði að Bjarna Ben sem best veit hlutina
og brátt ég fann hann rétt við sorpeyðingastöðina, -
hann var að fara með gömlu, góðu Gulu bókina...
Viku fyrir alþingiskosningarnar 1967 fóru málefni kaupfélagsstjórans á Fáskrúðsfirði á forsíður Morgunblaðsins varðandi uppsögn hjá kaupfélaginu eða eitthvað svipað, sem enginn maður mundi síðar eftir þegar kosningum lauk.
Svo mikilvægur varð Fáskrúðsfjörður vegna þessa að bæði Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn fengu mig með nokkurra daga millibili til að koma austur og skemmta á heitum baráttusamkomum, svo mikið þótti liggja við.
Sjálfur hef ég lent í því að slegið var upp stórfelldu afbroti mínu á Kárahnjúkasvæðinu í beinni útsendingu í Sjónvarpinu í kosningavikunni, hæfilega stuttum tíma fyrir kosningarnar til þess að ekki yrði hægt að verjast atlögunni.
Átti ég að hafa framið þar umhverfisspjöll sem gætu varðað allt að 2ja ára fangelsi og væri búið að kæra mig fyrir þetta til lögreglunnar.
Fólust meint afbrot mín í því að ég hefði lent flugvél ofan í Hjalladal, sem reyndar var búið að fylla af vatni og drullu þegar þessu var slegið upp.
Einnig á stað fyrir vestan Hálslón, sem hefur haft örnefnið "flugvöllur" í 75 ár frá því að Agnar Koefoed-Hansen lenti þar 1938 og falaðist eftir leyfi landeiganda til að merkja þar lendingarstað.
Í sjónvarpsfrétt um málið var sýnd mynd af afbroti mínu, og sást ég lenda þar flugvélinni TF-FRÚ og út steig Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra! Síðar hafði Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra, einnig gerst meðsek á sama hátt.
Málareksturinn vegna flugvallarmálsins tók heilt ár og eftirtaldir málsaðilar voru dregnir inn í þetta mál: Náttúruverndarráð, Umhverfisstofnun, landeigandinn á Brú, skipulagsnefnd, sveitarstjórn og sveitarstjórn Norður-Héarðs, rannsóknarlögreglan á Egilsstöðum, Vegagerðin, Impregilo, Landsvirkjun, Landmælingar Íslands, Flugmálastjórn Íslands og sýslumaðurinn eystra.
Sýslumaðurinn vísað að lokum kærunni frá á þeim forsendum að ekki fyndist neitt saknæmt athæfi.
Í túni kærandans mátti sjá á þriðja tug bílhræja!
Sem sagt: Engin leið að spá fyrir um uppsláttarmál fyrir kosningar!
![]() |
Sömu kosningaloforðin í áratugi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.4.2013 | 18:55
Hrímfaxi. Slysið gleymda?
14. apríl fyrir hálfri öld var flugvélin Hrímfaxi í aðflugi að Fornebuflugvelli í Osló. Um borð voru tólf manns, þeirra á meðal hin ástsæla íslenska leikkona Anna Borg Reumert, sem hafði gifst Paul Reumert, einum helsta leikara Danmerkur.
Það var leiðinda veður og flogið blindflug síðasta hluta aðflugsins.
Skyndilega heyrði fólk á jörðu niðri mikinn hávaða í hreyflum vélarinnar, sem kom bratt niður úr muggunni, skall hart í jörðina og gjöreyðilagðist. Allir um borð fórust samstundis.
Þetta voru mikil sorgartíðindi heima á Fróni á árum margra stórslysa, enda fá ár síðan 30 sjómenn höfðu farist á Nýfundnalandsmiðum.
Níu árum síðar fórust tólf manns í snjóflóðum í Neskaupstað.
Vickers Viscount skrúfuþoturnar voru að vísu ekki stærstu islenskku flugvélarnnar en hins vegar þær fullkomnustu og hraðfleygustu; - einu skrúfuþoturnar.
Tímamót urðu í íslenskum flugmálum þegar þær komu til landsins 1957. Vegna þess að þær höfðu fjóra hreyfla nutu þær sín sérstaklega vel á flugvöllum, þar sem fluggeta með einn hreyfil óvirkan skiptir miklu máli, en skiljanlega munar minna um það þegar einn af fjórum hreyflum bilar en þegar annar af tveimur bilar.
Þess vegna nutu Viscountarnir sín til dæmis mjög vel á hinum erfiða og nýja Ísafjarðarflugvelli.
Ég hef kynnt mér slysasögu þessara véla og af henni má ráða, að koma hefði mátt í veg fyrir slysið í Osló ef nógu vel og fljótt hefði verið farið erlendis ofan í saumana á svipuðum slysum á undan.
Þegar Hrímfaxaslysið og önnur svipuð voru rannsökuð komu tveir gallar í ljós, sem báðir gátu valdið alvarlegum óhöppum. Annars vegar líklegasta orsökin í Osló, að hreyflarnir gátu dottið inn í nauðbeitingarfasa, en hins vegar gat ísing á stélflötum valdið því að vélin yrði stjórnlaus.
Ég man að síðara tilfellinu fannst mönnum það nöturleg skýring með tilliti til nafns vélarinnar.
Ef annað hvort af fyrrnefndu gerðist í of lítilli hæð gátu flugmennirnir ekkert gert til að afstýra slysi.
Til voru flugmenn á þessum tíma sem voru ekki spenntir fyrir að fljúga Viscont vélunum, þótt afköst þeirra væru mikil og góð og þetta væri brautryðjendavél, fyrsta skrúfuþotan í farþegaflugi.
Ég minnist enn þessa hörmulega slyss með döprum huga og drúpi höfði þegar ég minnist þeirra,sem þar létu líf sitt.
Einhvern veginn virðist þetta slys vera gleymt og það hafi farist fyrir hjá mér að minnast þess á réttum tíma, þótt sú væri ætlunin fyrr í vetur.
![]() |
Fjöldi látinna enn óljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.4.2013 | 22:42
Meira en 80 ára hefð.
Það er meira en 80 ára hefði fyrir því að forystumenn stjórnmálaflokka séu þingmenn fjarri heimahögum og uppeldisstöðvum.
Tryggi Þórhallsson formaður Framsóknarflokksins var biskupssonur úr Reykjavík sem varð þingmaður Strandamanna og féll þar í kosningunum 1934 fyrir Skagfirðinginum Hermanni Jónassyni, sem eftir það varð þingmaður Strandamanna, formaður Framsóknarflokksins og síðar þingmaðurVestfjarðakjördæmis þótt hann hefði allt frá unglingsárum verið í Reykjavík.
Sú hefð að formenn Framsóknarflokksins séu þingmenn úti á landi helgast af því, að fylgið i Reykjavík hefur löngum verið tæpt og þar féll Jón Sigurðsson, formaður flokksins, 2007.
Þegar Sigmundur Davíð ákvað að taka slaginn og fara fram í Norðausturkjördæmi leit dæmið ekki vel út hér í Reykjavík eftir slæma útreið Framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum 2010 og illindi og flokkadrætti.
Þetta var hárrétt ákvörðun hjá Sigmundi Davíð þegar hún var tekin og sýndi kænsku hans í klækjum stjórnmálanna auk þess sem það er ekki verra að eiga lögheimili úti á landi og fá styrk til að fara frá heimili sínu þar til þingstarfa í Reykjavík.
Steingrímur Hermannsson ólst upp sem forsætisráðherrasonur við Tjörnina í Reykjavík og átti síðan heima í Arnarnesinu en varð þingmaður Vestfirðinga.
Fyrsti Framsóknarmaðurinn, sem náði kjöri sem þingmaður í Reykjavík, var Rannveig Þorsteinsdóttir 1949 og var slagorð hennar og loforð að "segja fjárplógsöflunum stríð á hendur."
En flokkurinn fór í ríkisstjórn með þeim sömu "fjárplógsöflum" og fréttist ekkert til Rannveigar eftir það, sem sat aðeins þetta eina kjörtímabil og við tók Framsóknarþingmannslaus höfuðborg að nafninu til næsta áratug.
Gunnar Thoroddsen var 23ja ára gamall sendur til framboðs í Mýrasýslu, þar sem hann þekkti ekkert til. Komst ekki að en þótti samt eðlilegt að hann byrjaði stjórnmálaferil sinn þarna.
Árni Mathiesen er og hefur verið eðal Hafnfirðingur en fékk sér lögheimili fyrir austan fjall þegar hann varð þingmaður Suðurkjördæmis og með því fylgdi styrkurinn góði.
Það, að þingmenn séu fluttir út á land við það að fá sér lögheimili þarf ekki að þýða að þar með séu þeir orðnir utanbæjarmenn og sestir að fjarri höfuðborginni. Fyrir því er 80 ára hefð að haga seglum eftir vindi í þessu efni.
![]() |
Sigmundur Davíð fluttur til Austurlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.4.2013 | 19:46
Áratuga gísling á enda.
Reykjavíkurflugvöllur hefur verið í gíslingu í áratugi vegna óvissu um framtíð hans og hatrammrar baráttu gegn tilvist hans.
Nú liggur fyrir að í skoðanakönnunum fær völlurinn ítrekað og vaxandi fylgi landsmanna, bæði þeirra, sem eiga heima í Reykjavík og fólks úti á landi.
Það er því með ólíkindum hvernig hægt hefur verið að halda vellinum í þvílíkri gíslingu, að meira að segja hefur verið komið í veg fyrir það að hægt væri að malbika malarsvæði þar sem flugfarþegar hafa lagt bílum sínum.
En sem betur fer hefur Ögmundur Jónasson nú séð til þess að höggva á þann skammarlega hnút, sem hefur reyrt flugvöllinn og starfsemi við hann niður og staðið eðlilegum notum hans og starfsemi við hann fyrir þrifum.
Ég tel höfuðatriði að þegar hin nýja flugstöð verður byggð, verði haldið opnum þeim möguleika að hafa öryggissvæði það stór sitt hvorum megin við vestari hluta austur-vestur-brautarinnar að hægt verði að lengja þá braut og gera hana nothæfa sem varabraut fyrir millilandaflug.
![]() |
Engin samgöngumiðstöð í Vatnsmýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
19.4.2013 | 11:00
2003 og 2007 komin aftur: Take the money and run!
2003 og 2007 eru komin aftur. 2003 var því lofað að miklir peningar væru handan við hornið í formi húsnæðislána og þenslu vegna virkjana- og stóriðjuframkvæmda.Kunnáttumenn vöruðu við þessu en voru afgreiddir sem "úrtölumenn"
Og peningarnir komu og loforðin gengu eftir. Heimilin i landinu fengu meiri peninga næstu árin en dæmi voru um áður, því að há skráning krónunnar gerði fólki kleift að fjárfesta í neyslu þar sem bílar og hvers kyns varningur fengust fyrir allt að 30-40 prósent lægra verð en ella.
Gjöldum var meira að segja létt af stórum amerískum pallbílum svo að hægt væri að moka þeim til landsins.
Skuldir heimilanna fjórfölduðust í þessu mesta "gróðæri" allra tíma.
Lars Christensen varaði við bankabólunni. Íslensku þenslu- og hagvaxtarpostularnir afgreiddu hann og fleiri "vitleysinga" léttilega. "Öfundsjúkiur Dani." Um annan erlendan sérfræðing var sagt: "Þarf að fara í endurhæfingu."
Mestu náttúrufórnir Íslandssögunnar á kostnað komandi kynslóða voru dásamaðar og þeir sem andæfðu voru afgreiddir sem "öfgamenn" og "menn sem eru á móti atvinnuuppbyggingu og á móti rafmagni, - vilja fara aftur inn í torfkofana."
Svo fuðraði þetta allt upp í Hrunbálinu en samt er 2003 komið aftur. Lars Christensen er aftur orðinn öfundsjúkur Dani, en verra skammaryrði er varla hægt að finna um nokkurn mann.
Allir útlendingar sem eiga í eignum föllnu bankanna, líka erlendir lífeyrissjóðir, eru afgreiddir sem "hrægammar". Þeir sem við lokkuðum til að fjárfesta í "íslenska efnahagsundrinu" voru kallaðir dæmi um nauðsynlega erlenda fjárfestingu þá en eru núna hrægammar.
Þeir sem andæfa eyðileggingu náttúruverðmæta frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið eru áfram, alveg eins og 2003, "öfgamenn, sem eru á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vilja fara aftur inn í torfkofana."
"Hófsemdarmennirnir" eru þeir sem vilja að við framleiðum tíu sinnum meiri orku en við þurfum sjálf fyrir iinnlend fyrirtæki og heimili, og þeir eru miklir hófsemdarmenn, sem vilja erlenda fjárfestingu hvað sem það kostar, jafnvel þótt það kosti að fara sömu leið og 2005 og bjóða orkuna á gjafverði.
Take the money and run! Það er kjörorð þessara daga. 2003 og 2007 eru komi aftur nema að slagorðið er örlitið breytt frá 2007. Þá var það: "Árangur áfram, - ekkert stopp!"
"Nú er það: "Árangur aftur! Ekkert stopp!"
Nema að 2008 varð stopp. En það er gleymt.
![]() |
Kosningaloforð gleðja ekki fjárfesta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
19.4.2013 | 00:04
Aukið óorð bakpoka?
2004 fórum við Haukur Heiðar Ingólfsson ásamt eiginkonum okkar frá Íslandi til Los Angeles til að skemmta á þorrablóti Íslendingafélagsins þar.
Við tókum með okkur 80 kíló af þorramat og kviðum mikið fyrir því að burðast með hann í gegnum tollinn, þrátt fyrir vottorð í bak og fyrir, vegna þess að daginn áður hafði verið framið mikið hryðjuverk á Spáni, þar sem sprengjum var komið fyrir í bakpokum.
Kvíði okkar vegna þorramatarins reyndist ástæðulaus. Hann flaug í gegn. Hins vegar var ég einn um það af ferðafélögunum að vera með bakpoka og það kostaði mig mikla rekistefnu og óþægindi, vegna þess hvernig hann var næstum tættur í sundur og allt sem í honum var.
Nú má hugsanlega búast við svipuðu enda er miklu auðveldara að vera með þungan farangur í bakpoka en í tösku, sem borin er í annarri hendi.
![]() |
Myndir af grunuðum sprengjumönnum birtar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.4.2013 | 20:01
Vanmetnustu framleiðslustaðirnir?
Hvað skyldu þeir vera margir að meðaltali, bílskúrarnir, sem eru í raun einhverjar afkastamestu menningarframleiðslustöðvar á landinu hverju sinni. Hve margar "bílskúrshljómsveitir"? Hve mörg hljóðver? Hve margir samkomustaðir fyrir skapandi fólk?
Þegar þess er gætt að tónlist og menning, sem eiga rætur eða uppruna í bílskúrum, eru orðin að sívaxandi framleiðslugrein, sem skapar verðmæti bæði innanlands og síðustu árin ekki síður erlendis í formi útrásar og auglýsingar á landinu sem ferðamannalands með áhugaverða og aðlaðandi menningarstarfsemi.
Þessi "framleiðslugrein" er þegar komin vel fram úr grónum atvinnugreinum eins og landbúnaði hvað snertir hlutdeild í þjóðarframleiðslunni, hvað þá í gjaldeyrisöflun, þannig að kannski eru bílskúrarnir vanmetnustu framleiðslustaðir landsins.
![]() |
Byrjaði í bílskúrnum fyrir 10 árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2013 | 09:27
Ekki langt síðan svona hætta var hér.
Sú var tíð að íbúar í Grafarvogshverfi þurftu að berjast fyrir því að losa byggðina við þá hættu sem var fólgin í því að hafa heila áburðarverksmiðju í nokkur hundruð metra fjarlægð.
Þegar hún var upphaflega reist kom Örfirirey til greina, en hætt var við það vegna of mikillar nálægðar við byggð.
En 40 árum síðar var verksmiðjan, sem reist var, jafn nálægt eða jafnvel nær byggð!
Og það kom fyrir að litlu munaði að verr færi, þegar óhapp varð í verksmiðjunni.
![]() |
Gríðarleg sprenging í Texas |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)