19.11.2014 | 00:58
Afneitun á niðurstöðum rannsókna.
Alþjóðlegar rannsóknir á vegum Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðastofnana hníga allar í þá átt að áfengisneysla og vandinn vegna hennar aukist með bættu aðgengi að áfengi.
Þetta lögmál er einnig viðurkennt í meðferð áfengissjúklinga.
Framhjá þessu ganga þeir sem fyrr og síðar hafa æ ofan í æ lagt fram frumvörp um það á Alþingi að færa áfengissölu inn í verslanir til þess að auka aðgengi að því sem mest.
Rétt eins og fjársvelt heilbrigðiskerfi þurfi á aukinni áfengisneyslu og afleiðingum hennar að halda nú og á næstu árum.
![]() |
Lagt til að borgin styðji áfengisfrumvarpið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.11.2014 | 19:51
Bara vandamál, - engar lausnir.
Flestir kannast við auglýsingarnar, sem Egill Ólafsson les fyrir Toyota, þar sem hann segir með sinni þýðu röddu: "...engin vandamál, - bara lausnir".
Ef Egill væri fenginn til þess að lesa megininntakið í stefnu íslenskrar stjórnvalda varðandi meðferð og verndun helstu náttúruverðmæta landsins fyrir ágangi ferðamanna og ásókn mannvirkjafíkla, myndi textinn hins vegar vafalaust verða: "...bara vandamál, - engar lausnir."
Hraðvaxandi ferðamannastraumur síðustu sjö ár hefur engu breytt varðandi óreiðuna, ráðaleysið og lítilsvirðinguna sem hefur síðustu tvo áratugi birst í umgengni um svæði eins og Geysisvæðið og hefur fengið erlenda Íslandsvini, sem hingað hafa komið árlega, til þess að lýsa því yfir að þetta ástand hafi verið þjóðarskömm.
Enda þótt farið sé að telja gjaldeyristekjur landsmanna af ferðaþjónustu í hundruðum milljarða króna á ári eru upphæðirnar, sem menn tíma að eyða í að forða undirstöðum ferðamannastraumsins og teknanna frá skaðlegum skemmdum aðeins broti úr einu prósenti, varla að þau slefi yfir einn þúsundasta af ferðamannatekjunum.
![]() |
Hrópandi stefnuleysi í ferðamálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.11.2014 | 13:34
Tvö aðalatriði: Bann og veðuraðstæður.
Tvö aðalatriði blasa við varðandi lendingu þyrlu á bannsvæði við Holuhraun í haust.
1. Brot gegn banni.
2. Veðuraðstæður, hvort hætta var á staðnum.
Fyrra atriðið er aðalatriði. Hvort þyrluflugmanninum hafi verið kunnugt um bannið þegar hann lenti.
Seinna atriðið skiptir ekki beinu máli, en í umræðum um atvikið var það orðið að aðalatriði að fólkið, sem sást á myndinni, hefði verið í bráðri lífshættu.
Í því efni skipta veðurskilyrðin höfuðmáli. Hafi verið stífur og stöðugur vindur, sem stóð frá fólkinu og feykti gufum frá hrauninu í áttina frá því, var fólkið tæknilega séð ekki í neinni hættu.
En þar skiptir máli, hvort treysta mætti því að vindurinn væri stöðugur. Til þess að komast að því þarf að skoða hvenær atvikið átti sér stað og hver veðurskilyrðin voru þá.
Hafi vindurinn verið stöðugur og nóg mikill svo að engin hætta var á því að uppstreymi heits lofts frá hrauninu truflaði loftstreymið eins og stundum gerist á þessu svæði þegar sólarhiti hitar svartan sandinn og uppstreymið býr til hringrás og lokað veðurkerfi á sléttunni milli Dyngjuháls að vestan, Öskju og Vaðöldu að norðan og Kverkfjalla og Dyngjujökuls að sunnan, - hafi vindurinn sannanlega verið hinn sami á öllu svæðinu þegar atvikið átti sér stað og þyrluflugmaðurinn metið aðstæður rétt, er ekki hægt að ásaka hann fyrir að stofna lífi sínu og farþeganna í hættu.
Þá stendur eftir spurningin um brot á banni, sem taka verður afstöðu til.
Að lokum má geta þess að þyrlufyrirtækið mun ekki vera íslenskt heldur danskt, þótt það sé kennt við Reykjavík.
![]() |
Þyrluflug við Holuhraun enn til rannsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.11.2014 | 18:26
Rithöfundar í sérflokki varðandi höfundarrétt.
Af kynnum mínum af höfundarrétti varðandi tónlist, kvikmyndir og ritverk, er það ljóst, að réttindamál rithöfunda eru í sérflokki.
Rithöfundar eiga fullan rétt á 22,5% af nettósölu bóka sem lágmarks ritlaun.
Ef útgefandinn gerir ekkert meira með bókina innan fimm ára, fellur útgáfurétturinn alfarið til rithöfundarins.
Bókaútgefendur og rithöfundar standa mjög vel vörð um höfundar- og útgáfuréttinn varðandi bann á afritun verkanna án leyfis, sem samsvarar ólögulegu niðurhali á tónlist og kvikmyndum en virðist vera miklu betur varið.
Þetta er aðeins ein birtingarmynd þess hve hið ritaða orð er enn í miklu meiri metum varðandi varðveislu og vernd en aðrar listgreinar.
![]() |
Þetta er bara pjúra þjófnaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2014 | 13:17
Vandamál fíkilsins.
Efnahagslíf heimsins hefur mörg einkenni fíkilsins sem getur ekki verið án fíkniefna.
Fíkniefni mannkynsins, sem ekki er hægt að neita sér um, nefnist "hagvöxtur" sem aðallega er knúinn áfram af tvennu:
1. Neyslu á kostnað komandi kynslóða með rányrkju á takmörkuðum auðlindum jarðarinnar.
2. Lánum á borð við þau sem settu efnahagskerfið á hliðina 2008 eða lánum á borð við þau sem viðhalda fjárlagahalla í Bandaríkjunum.
Hvort tveggja, rányrkjuneyslan og lánin, eru hliðstæð vaxandi fíkniefnaskömmtum til að viðhalda vímunni, sem fíkillinn getur ekki verið án.
Þegar ekki er hægt að halda vímunni uppi koma slæmir timburmenn, fráhvarfseinkennin í formi stöðnunar til sögunnar og þá stefnir í áfall skjálfandi fíkils, sem hrynur saman ef hann fær ekki skammtana sína áfram. Áfallið felst efnahagslega í auknu atvinnuleysi, samdrætti og jafnvel verðhjöðnun.
David Cameroun varar við slíku áfalli en bendir ekki á neinar lausnir, því að innspýting í formi aukinnar rányrkju er ávísun á ennþá stærra hrun, fyrr eða síðar.
![]() |
Óttast að nýtt hrun nálgist óðfluga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.11.2014 | 01:17
Margnota kistur og smærri leiði?
Skoðanir fólks á greftrunarsiðum eru mismunandi. Fyrir nokkrum árum minnir mig að ég hafi viðrað nýja hugmynd um eitt atriði greftruna, sem kemur aftur upp í hugann þegar lesin er tengd frétt á mbl.is um Hólavallarkirkjugarð.
Kannski ekki úr vegi að rifja það upp. Málavextiri eru þessir:
Við fáum öll við fæðingu úthlutað íverustað fyrir anda okkar og sál í efnislegum líkama, sem, sem við verðum að skila til baka þegar við deyjum.
Flestir láta leggja þennan jarðneska efnislíkama í trékistu og setja niður í gröf í kirkjugarði, en aðrir láta brenna hann eftir að hann hefur verið notaður.
Persónulega finnst mér að ráðstöfun þessa efnislega líkama eftir notkun hans eigi að vera í sem bestu samræmi við umhverfissjónarmið í anda hinna þekktu greftrunarorða: "Af moldu ertu komin/n og að moldu skaltu aftur verða."
Þess vegna myndi ég ekki vilja láta eyða í það hitaorku að brenna þessar jarðnesku leifar, heldur að láta þær samlagast moldinni á sem allra náttúrulegastan, einfaldastan, og vistvænastan og ódýrastan hátt.
Trékistan í núverandi formi er á skjön á þetta. Hún er einnota og sóun á verðmætum en auðvelt ætti að vera að breyta því og minnka eitthvað í leiðinni það rými sem hver gröf tekur.
Það fælist í því að hafa botn kistunnar á hjörum, sem hægt væri opna með því að kippa í spotta, sem festur væri í læsingu á botninum, þannig að hægt sé að opna kistuna að neðanverðu eftir að hún er komin í jörðina með því að láta þennan spotta liggja upp á grafarbarminn þegar kistan er sett niður.
Líkið yrði í sérstökum poka úr lífrænum efnum.
Þegar allir jarðarfarargestir eru farnir kippa grafararnir í spottann þannig að botninn verði laus á hjörunum. Kistan er þá hífð upp úr gröfinni, pokinn með líkinu í, verður eftir á botni grafarinnar með líkinu í og gröfin er síðan fyllt af mold.
Eftir þetta yrði hægt að nota kistuna aftur og aftur eins oft og mönnum þætti hentugt í því skyni að spara það efni, vinnu og fjármuni, sem felst í kistusmíði.
Einnig mætti að endurvinna tréð eða efnið, sem í kistunum er í stað þess að skilja þær allar eftir í jörðinni.
Og þá er spurningin: Hvernig líst fólki á þessa hugmynd á þeirri öld í sögu mannkynsins þegar umhverfismál verða æ mikilvægari? Fróðlegt væri að vita það. Þetta kann að virðast smávægilegt atriði þegar miðað er við ógnarstærðir neyslu og bruðls okkar á mörgum sviðum, en fátt er eins táknrænt og ráðstöfun þess eina, sem við fengum til leigu við fæðingu og skilum til baka að leiðarlokum.
![]() |
Einn sá indælasti í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.11.2014 | 21:52
Betra liðið vann á ódýru marki.
Í lok leiks Íslendinga og Tékka birtist tafla yfir hornspyrnur, tíma með boltann, heppnaðar sendingar o. s. frv. voru allar tölurnar áberandi Tékkum í vil.
Það var því betra liðið sem vann, á því er ekki vafi, þótt sigurmark þeirra væri ákaflega ódýrt og að með smá heppni hefði jafntefli verið mögulegt, einkum þegar sams konar atvik kom upp hinum megin á vellinum og boltinn hefði getað hrokkið af tékkneska markverðinum inn í markið eins og hjá Hannesi.
Strax eftir að Íslendingar höfðu skorað mark var áberandi hvað íslenska vörnin var opin gegn sóknum Tékka upp vinstra megin og það átti eftir að verða lykillinn að sigri þeirra.
Lið okkar er komið niður á jörðina og í þetta langri keppni eru allir möguleikar enn opnir.
![]() |
Grátlegt sjálfsmark felldi íslenska liðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2014 | 14:01
Tvö nýyrði í púkk dagsins: "Sjálfviti". "Sárhnjáður".
Eitt af því sem eykur bjartsýni um framtíð íslenskrar tungu á þessum degi hennar er máttur "ástkæra ylhýra..." til endurnýjunar og nýsköpunar. Enginn einn Íslendingur hefur sennilega lagt þar meira af mörkum en Jónas Hallgrímsson.
Mörg nýyrða hans eins og "samúð"og "ljósvaki" eru þess eðlis, að manni finnst þau hafa verið til í meira en þúsund ár.
Í tilefni dagsins er við hæfi að kynna tvö nýyrði og hið fyrra þeirra sannar, að á góðum degi getur íslenskt nýyrði yfir erlent hugtak gefið miklu betri lýsingu á því sem felst í því hugtaki en hin erlenda tunga gerir.
1. "Sjálfviti".
Íðilsnjallt nýyrði Sigmundar Ernis Rúnarssonar yfir hið erlenda hugtak "besserwisser". Lýsir eðli þess mun betur, því að í fyrri hluta orðsins, "sjálf.." felst að sjálfvitinn telur yfirleitt sjálfur að hann viti betur en aðrir. Þar að auki rímar orðið vel við orðið "hálfviti" og getur vísað til þess í einstökum tilfellum að "besserwisserinn" sé í krafti eigin ofmats ekki aðeins jafn erfiður við að eiga og hálfviti heldur jafnvel verri viðfangs.
2. "Sárhnjáður."
Með öldrun þjóðarinnar og fjölgun aðgerða á liðamótum í fótum og mjöðmum vex þörf á orðum, sem lýsa ástandi þeirra sem eiga við eymsli, þjáningar og óþægindi að stríða vegna ónýtra eða slitinna liðamóta. Mér finnst mér beri skylda til að leggja þetta nýyrði í púkk dagsins til að lýsa líðan þeirra, sem eru með sködduð eða ónýt hné af þvi að sjálfur hef ég farið í þrjá uppskurði á hnjám og er oft á tíðum með mjög sár hné. Helsti kostur nýyrðisins er að staðsetja eymslin eða verkina, en einnig hefur það reynst mér vel að hugsa um nýyrðið þegar hnén eru óvenju aum, því að við það kemst ég yfirleitt í betra skap.
![]() |
Börn og unglingar tefla í ráðhúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.11.2014 | 00:30
Eitthvað nýtt fyrir Íslendinga?
Oft er talað um að ein helsta ástæða þess Norðmennirnir, sem fóru til landnáms á Íslandi, rifu sig upp og héldu í langa siglingu út á úfið Atlantshafið, hafi verið að þeir vildu þoldu ekki agavald Haraldar hárfagra.
Og að andúð á aga og undirgefni hafi æ síðan verið þjóðareinkenni Íslendinga.
Þetta kann að vera hæpin kenning en engu að síður ber nýrra við þegar útlendingar lýsa yfir aðdáun á einstökum aga, skipulagi og liðsanda hjá íslenska landsliðinu í fótbolta, svo að varla hefur annað eins heyrst nema þá í hefðbundnum aðdáunaryfirlýsingum varðandi aga og skipulag hjá Þjóðverjum.
Agaleysi hefur verið og er oft okkur Íslendingum fjötur um fót á mörgum sviðum, en á hinn bóginn geta ofstrangur agi, undirgefni verið vandamál og leitt í ógöngur, ef hún bælir niður réttlætiskenndi og viðleitni til fjálsrar sköpunar og hugkvæmni.
Vandfetaður meðalvegur hlýtur hins vegar að verða keppikefli og áskorun á flestum sviðum þjóðlífs okkar.
Þess vegna er það fagnaðarefni þegar íslenskur agi dúkkar allt í einu upp sem útskýring á góðu gengi okkar, sem vekur aðdáun og hrifningu erlendis.
![]() |
Varla kynnst öðrum eins aga og hjá Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2014 | 17:01
Farinn að hafa áhyggjur af orðsporinu?
Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum með efndir eða réttara sagt skort á efndum Baracks Obama á helstu kosningalofurðum sínum.
Um of mörg þeirra gildir að "Yes, we can!" hefur breyst í annað hvort "no, we can´t!" eða "let me sleep on it".
Nú hefur Obama aðeins tvö ár til að reyna að breyta þessu og í raun aðeins rúmt ár til þess, því að hefðin hefur verið sú að síðasta ár hvers kjörtímabils er Bandaríkjaforseti það, sem kallað er "lame duck", lamaður vegna þess að nýr forseti er senn að taka við.
Ofan á þetta þarf Obama að kljást við meirihluta Republikana á þinginu og getur nagað sig í handarbökin yfir því að nota ekki betur þau sex ár sem hann var þó með meirihluta Demokrata í öldungadeildinni.
Hvað um það, nýjustu fréttir af vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem styrkja málstað Obama, kunna að vega þarna eitthvað á móti og fyrir orðspor forsetans til framtíðar er ekki seinna vænna en að taka á sig rögg, þótt seint sé.
![]() |
Obama tekur loftslagsslaginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)