25.4.2014 | 01:18
Danskir Íslandsvinir.
Í sjálfstæðisbaráttu okkar fyrr á tíð var það hluti af því að blása mönnum baráttuanda í hug að láta ýmislegt flakka í hita leiksins, sem hallaði mjög á Dani. Alhæfingar af slíku tagi geta verið varasamar.
Þannig var það danskur maður, Rasmus Kristján Rask, sem öðrum fremur stóð að því að bjarga íslenskri tungu frá því að fara hallloka fyrir dönsku eða öðrum útlendum málum.
Þótt Rask hefði frumkvæði að þessu var ekki ónýtt fyrir hann að fá Fjölnismenn og Jón Sigurðsson með í baráttusveitina, og var með ólíkindum hvað Jónas Hallgrímsson afkastaði í nýyrðasmíði og snilldartökum á móðurmálinu sem jók veg þess mjög.
Breskur maður gekkst fyrir því að íslenska hundakyninu yrði bjargað frá útrýmingu.
Danskir Íslandsvinir áttu mjög stóran þátt í því að Danir féllust á að íslensku handritin yrðu flutt til Íslands, en sá gerningur á sér enga hliðstæðu í samskiptum þjóða, þvi að bæði Danir og Íslendingar töldu handritin vera mestu gersemar sínar.
Og líklega er það einsdæmi að "herraþjóð" eða nýlenduveldi haldi helstu sjálfstæðishetju ígildi nýlendu uppi fjárhagslega, en Jón Sigurðsson starfaði í Kaupmannahöfn fyrir danska ríkið, og var reyndar ómetanlegur fyrir danska og norræna menningu vegna þekkingar sinnar á því sviði.
Þegar rýnt er aftur í aldir ófrelsis íslensku þjóðarinnar sést að á þeim öldum gat engin örþjóð á borð við okkur verið sjálfstætt ríki, - einvaldskonungar eða valdamiklir aðalsmenn réðu Evrópu.
Spurningin er einungis sú, hvaða þjóð í Norður-Evrópu réðu Íslandi, og ef Bretar eða öflug þjóð á meginlandinu önnur en Danir hefðu ráðið yfir okkur, væri áreiðanlega ekki tölu hér íslenska og ekki einu sinni víst að við hefðum öðlast sjálfstæði.
Rannsóknir sýna, að hvergi í Evrópu réði einvaldskonungur eins litlu og á Íslandi, þannig að Danir voru greinilega skásti kosturinn.
Á Íslandi réðu stórbændur og embættismenn í raun öllu sem þeir vildu og áttu meir en 90% allra jarðeigna á Íslandi.
Þeir voru ígildi íslensks aðals með svipuð réttindi og danski aðallinn varðandi frítt nám fyrir syni aðalsmanna í Kaupmannahöfn en hins vegar enga herskyldu íslensku sonanna eins og þeirra dönsku.
Stundum var það hæstiréttur í Kaupmannahöfn sem kom í veg fyrir dómsmorð eða sektardóma sem spillt íslenskt dómskerfi ól af sér.
![]() |
Verðlaun Jóns Sigurðssonar veitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.4.2014 | 14:27
Snilldardagur hjá forfeðrunum.
Val forfeðra okkar á árstíðaskiptum sumars og vetrar í almanakinu, þar sem þessar árstíðir skiptu árinu í tvennt, var hrein snilld miðað við þau gögn sem þeir höfðu í höndunum.
Þeir höfðu engar veðurfarslegar mælingar en voru komnir ótrúlega langt í stjörnufræði og tímatali að öðru leyti, vissu nokkurn veginn upp á dag hvenær væru vetrarsólhvörf og sumarsólstöður og jafndægri á vori og hausti.
En ótækt var að nota jafndægrin sem tímamörk, því að meðalhitinn við jafndægri á hausti er næstum 4 stig, þótt engar mælingar væru fyrir hendi á tíundu öld.
Það stafar af tregðulögmálinu, sem veldur því að lofthitinn fylgir ekki sólarhæðinni heldur er að jafnaði um einn mánuð á eftir. Hlýjustu dagar ársins að meðaltali eru í kringum 20. júlí, heilum mánuði á eftir lengsta og hæsta sólargangi.
Svipað er að segja um fyrsta sumardag og vetrardag, að meðalhitinn hjá báðum er svipaður, eða 3-4 stig, og báðir dagarnir eru mánuði síðar en jafndægur.
Ef einhver íslenskur hátíðisdagur á skilið að hafa forgang í stað þess að gert sé lítið úr honum, er það sumardagurinn fyrsti. Hann er ekki eini slíki hátíðisdagurinn sem vitað er um í heiminum, heldur er tímasetning hans afrek sem vert er að halda á lofti fyrir okkur sem þjóð og vera stolt af.
![]() |
Eina þjóðin sem á þennan dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.4.2014 | 11:10
Rétt ákvörðun.
Fyrir viku var það reifað hér á bloggsíðunni undir fyrirsögninni "þekkingar er þörf" að mikil áhætta myndi fylgja því fyrir Guðna Ágústsson ef hann færi í fyrsta sætið á lista Framsóknarmanna í Reykjavík og að mér óaði við þeirri áhættu, Guðna vegna.
Pisttillinn fjallaði um nauðsyn þess að fjölga borgarfulltrúum og fá inn í borgarstjórn fólk, ekki síst ungt fólk, sem hefði góða þekkingu á ýmsum sviðum borgarmálefna, svo sem á skipulagsmálum og umferðarmálum. Tvö nöfn voru nefnd í því sambandi um fólk, sem hefði ekki fengið brautargengi.
Nú er það svo að þekkingin ein á sérsviðum segir ekki allt. Fólk þarf einnig að hafa kjörþokka og samskiptahæfileika og þrátt fyrir að búið sé að koma vissu óorði á stjórnmál, þarf líka þekkingu, reynslu og lagni á því sviði.
Borgarstjórn með hæfilega blöndu af báðum kynjum, aldri, mismunandi reynslu og þekkingu, væri æskileg.
Hugsanlega hefði framboðslisti með reynslubolta í fyrsta sæti og unga og efnilega konu með góða þekkingu á mikilvægu sviði borgarmála reynst Framsóknarflokknum vel, - og raunar hvaða framboði sem er,- ef bæði hefðu komist að í fjölmennari borgarstjórn en nú er.
En eitt hefur gleymst í umræðunni: Í síðustu borgarstjórnarkosningum var brotið blað í Reykjavík, á Akureyri og víðar varðandi það að órói og upplausn í borgar- og bæjarmálefnum kjörtímabilið á undan að viðbættu þætti stjórnmálamanna í Hruninu skapaði vettvang fyrir alveg ný öfl að komst til áhrifa og vald.
Ég geri ráð fyrir að kannanir Framsóknarmanna á hljómgrunni meðal kjósenda fyrir uppstillingu lista með gamlan flokkshest í fyrsta sæti hafi leitt í ljós, að bylgjunnar, sem reis 2010 gæti enn.
Hins vegar hefur Guðna og Framsóknarmönnum tekist eitt með því að gera hugsanlegt framboð Guðna að einu helsta fréttaefni liðinnar viku: Þeir hafa, hvort sem sú auglýsing reynist vel eða ekki, tekist að starta kosningabaráttunni og vekja athygli á sínu fólki og málefnum þess.
Framsóknarmenn eiga enn eftir að spila úr stöðunni, sem komin er upp, og þótt þetta líti í augnablikinu klúðurslega út, nánast eins og örþrifaráð, eru enn meira en fimm vikur til kosninga og það er óralangur tími í pólitík.
![]() |
Guðni gefur ekki kost á sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2014 | 00:51
Birnirnir, Boeing B-52 og Boeing 747, ódrepandi jálkar.
Hún virkar gamalkunnug, myndin af Tupolev 95 sprengjuflugvélinni, sem fylgir frétt um flug slíkra véla rétt utan við lofthelgi Bretlands. Þessir jálkar eru búnir að vera eitt af táknum Kalda stríðsins síðan fyrir hálfri öld.
Allt fram yfir miðja síðustu öld urðu griðarlegar og hraðar framfarir í gerð sprengjuflugvéla. Á tímabili úreltust þær á nokkurra ára fresti.
Þannig héldu Þjóðverjar á árunum 1936-38 að Heinkel He-111, Dornier Do-17 og Junkers Ju-88 væri svo hraðfleygar að þær gætu flogið orrustuflugvélar af sér.
Annað kom í ljós í orrustunni um Bretland sumarið 1940 þegar Supermarine Spitfire lék sér að því að fljúga þýsku sprengjuflugvélarnar uppi og Hurricane skaut raunar niður fleiri vélar heldur en Spitfire skaut niður.
Nauðsynlegt varð fyrir Þjóðverja að senda orrustuflugvélar til að verja sprengjuflugvélar sínar og berjast við Spitfire og Hurricane.
Svipað gerðist, en bara með öfugum formerkjum með sprengjuflugvélar Bandamanna gagnvart orrustuflugvélum Þjóðverja, Messershmitt Me-109 og Focke-Wulf Fw 190.
Gagnstætt því sem margir héldu þegar Bandaríkjamenn sendu B-17 "fljúgandi virkin" í árásarferðir á Þýskaland, að árangurinn væri mikill, lét árangurinn á sér standa allt fram til haustsins 1943, þegar loksins var komin til skjalanna North American P-51 Mustang, fyrsta orrustuvélin sem galt fylgt sprengjuflugvélum alla leið til Berlínar.
Hermt er að Hermann Göring hafi fölnað þegar þessar snilldarflugvélar sáust í fyrsta sinn yfir Berlín og gert sér grein fyrir þeirri ógn sem tilvist þeirra táknaði.
Til eru þeir, sem telja að Mustanginn hafi verið besta orrustuflugvél allra tíma miðað við aðrar samtíðarvélar. Það voru til liprari samtíma orrustuvélar eins og Yak 3 og kraftmeiri flugvélar eins og Thunderbolt, en fjölhæfni P-51 var einstök hvað snerti það hve langfleyg hún var, jafnframt því að vera hraðfleyg og hve miklu minna hreyfilafl og eldsneyti hún þurfti en aðrar vélar, miðað við getu, en þetta gerði rekstur hennar afar hagkvæman.
Þegar þotuöldin gekk í garð vaknaði gamalkunnur draumur um að hanna sprengjuþotur sem gætu flogið svo hátt og hratt að orrustuþotur gætu ekki ógnað þeim.
Bandaríkjamenn hönnuðu átta hreyfla þotuna B-52 og Sovétmenn Tupolev 95, "Björninn", sem var og er reyndar skrúfuþota en flýgur samt næstum því jafn hratt og B-52.
Þegar í ljós kom að bæði Rússar og Bandaríkjamenn áttu auðvelt með að smíða orrustuþotur, sem gætu haft við B-52 og Birninum var leitað að þeirri lausn að smíða enn stærri, öflugri, hraðfleygari og háfleygari sprengjuflugvélar og var Valkyrie þota Bandaríkjamanna á sjöunda áratugnum gott dæmi um slíka hljóðfráa stóra sprengjuþotu.
En í ljós kom að þessar "framtíðarsprengjuþotur" voru alltof dýra. Aftur og aftur var "kynslóðaskiptunum" frestað og smám saman kom upp úr dúrnum, að skást væri að halda endurbættum B-52 og Birninum gangandi áfram, en þróa frekar öflugar og hraðskreiðar orrustuþotur, sem fljótlega urðu hvort eð var blanda af smærri sprengjuþotum og orrustuþotum.
Þess vegna er gömlu jálkarnir enn í notkun 60 árum eftir að þær voru hannaðar og sést ekki enn fyrir endann á þjónustu þeirra. Ævinlega er kynslóðaskiptunum frestað.
Það er einnig athyglisvert að Boeing 747 breiðþotan, skuli enn vera samkeppnishæf í flokki stærstu farþegaþotnanna, nærri hálfri öld eftir að hún kom fyrst fram.
Hún var sannkallað risastökk fram á við þegar hún kom fram og undra vel heppnað risastökk þar að auki.
![]() |
Höfðu afskipti af rússneskum herflugvélum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.4.2014 | 20:02
Arabískur Aston Martin Lagonda ?
Það fer ekki mikið fyrir framleiðslu á þekktum bílum í Arabalöndunum í gegnum tíðina. Á sjöunda áratugnum var framleiddur egypski bíllinn Ramses sem var í raun NSU Prinz 4 með sérsmíðuðu grilli á framendanum sem benti til að innan við það væri vatnskassi og vél.
En þetta "grill" gegndi engu öðru hlutverki en útlitslegu, því að vélin var afturí og loftkæld í þokkabót.
NSU Prinz 4 og Ramses voru einhverjir einföldustu, minnstu og ódýrustu bílarnir á markaðnum, en nú, hálfri öld síðar, virðist olíugróðinn gefa tóninn, ef marka má fyrirhugaða framleiðslu á Lykan Hypersport.
Sumt af því sem á að prýða þennan nýja arabíska bíl minnir á breskan bíl, Aston Martin Lagonda, sem var framleiddur á árunum 1974 til 1990 og átti að veita dýrustu gerðum Rolls Royce og Bentley keppni.
Það fór á annan veg því aðeins 645 bílar voru framleiddir eða um 40 á ári að meðaltali.
Sagt er að mælaborðið á Lykan Hypersport eigi að byggja á heilmyndatækni og svo sannarlega skartaði Aston Martin Lagonda spánnýjustu tækni þess tíma.
Mun meiri peningar fóru í að þróa þessa tækni en bílinn sjálfan, en hún byggðist á mikilli tölvustýringu og því að mælaborðið var allt í þeim stíl, með stafrænum og flóknum mælum.
Mér fannst útlit bílsins flott á sínum tíma, með þetta langa, lága og flata vélarhús fremst sem var með einstaklega lágri, þunnri og breiðri frambrún, eins og sést á myndinni.
Bíllinn var með lægstu fólksbílum á þeim tíma og hliðarmynd hans sérstaklega löng og lág, en samt gátu menn setið í góðum þæginum bæði frammi í og aftur í, einkum í lengri gerð bílsins.
Skemmst er frá því að segja að þetta varð einhver mesti "verkstæðisbíll" allra tíma með stjarnfræðilegri bilanatíðni, einkum á öllu tölvu- og stafræna nýjabruminu sem að sögn var nánast aldrei í lagi.
Nú, þremur til fjórum áratugum síðar hafa virt tímarit valið bílnum hinar verstu "viðurkenningar", meðal annars að vera einn af 50 ljótustu bílum allra tíma og einnig einn af 50 verstu bílum, sem framleiddir hafa verið.
Þarf nokkuð til eins og sést á því að í árshefti Auto motor und sport fyrir árgerðina 2014 eru veittar upplýsingar um 3300 mismunandi gerðir bíla, bara af þeirri árgerð!
Ég tel hægt að finna 50 ljótari bíla en Lagonda en miðað við orðsporið gæti hann verið einn af þeim 50 verstu. Samt væri gaman að eiga einn slíkan og hafa hann á "naumhyggju-bílasafni" sem algera andstæðu við hina bílana.
Þar myndi að sjálfsögðu líka tróna Cadillac 1959 við hlið Lagonda, en Zaphoroshets 645 smábíllinn frá Úkraínu og Garant sendibíllinn frá Austur-Þýskalandi frá sjöunda áratugnum yrðu þarna líka sem verstu bílar sem framleiddir hafa verið
Vegna tæknilegra örðugleika get ég ekki sett myndir inn á bloggið um þessar mundir og set þær þess vegna inn á facebook síðu mína.
![]() |
Kostar 380 milljónir, hljómar eins og gömul drusla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.4.2014 | 11:42
Íslendingar verðfella landið sitt.
Okurverð á hótelum og þjónustu hér á landi, miðað við það sem selt er, segir ekkert til um það, hvers virði landið okkar er eða einstæð náttúruverðmæti þess heldur segir það aðeins sögu af þjóð, sem virðist heltekin af gróðafíkn, - segir okkur hins sögu um endurtekna sókn þjóðarinnar eftir skjótfengnum gróða, sem bjó til bankabóluna miklu og Hrunið en hefur nú færst af fullum þunga yfir í ferðaþjónustuna.
Mannasaur og klósettpappír úti á viðavangi á mörgum ferðamannaslóðum, alger skortur á aðtöðu og þjónustu, eða þá að sé einhver þjónusta í boði, er hún verðlögð upp úr öllu valdi, segir þá sögu, að í okkar huga er efst að ná peningunum strax af ferðamönnunum með öllu tiltækum ráðum, en gefa helst ekkert á móti og hugsa ekkert um afleiðingarnar eða framtíðina.
Á Geysissvæðinu hefur aumingjaskapur hins opinbera gagnvart yfirgangi og græðgi landeigenda skapað þjóðarskömm, sem hefur gert þá Íslandsvini djúpri hryggð, sem ég þekki og hafa sýnt landinu og þjóðinni einna mesta tryggð og vinsemd áratugum saman.
Verði svæðið gert að ríkiseign, eins og tíðkast á sambærilegum stöðum í landi einkaframtaksins, Bandaríkjunum, þar sem vel er fyrir öllu séð, er alveg eins viðbúið að áfram ríki sama kæruleysið og slóðaskapurinn og er svo landlægur hér.
Þegar sumir hinna eldri ferðamanna komu fyrst til landsins, voru þeir svokallaður "bakpokalýður" og illa séðir, af því að það var svo erfitt að plokka af þeim peninga.
Í heimsku okkar héldum við að öllu skipti að bægja slíku fólki frá en áttuðum okkur ekki á því að sumir þeirra hafa síðan komið hingað aftur og aftur, nú komnir í góðar og launaðar stöður, en upplifa þá aðrar og jafnvel enn verri hliðar á okkur sem þjóð heldur en þegar þeir voru fyrirlitnir sem óæskilegur bakpokalýður.
Nú erum við að byrja að fá hegðun okkar í bakið á okkur og jafnvel þótt sagt sé að ekki megi rugla saman Íslandi og Íslendingum er samt byrjað að gera það í erlendum fjölmiðlum.
Þar með verðfellum við verðmæti hinnar einstæðu náttúru landsins og stefnum stærsta útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar í hættu.
![]() |
Ísland klárlega ekki best í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.4.2014 | 06:50
Svipað og 18. ágúst, - nema 7 stigum kaldara.
Í dag, síðasta vetrardag, er sólargangur álíka og hann er 18. ágúst. Milli sólarupprásar og sólarlags líða um 16 klukkustundir og sólin kemst upp í 38 gráðu hæð á hádegi.
Samt er enn vetur í dag, en í miðjum ágúst er enn hásumar, því að meðalhitinn þá í Reykjavík er rúmlega 10 stig, hærri en í júní og álíka hár og í júlí.
En meðalhitinn í vetrarlok slefar hins vegar rétt yfir 3 stig.
Hverjar eru þá slæmu fréttirnar varðandi þessar staðreyndir og hverjar góðu fréttirnar?
Slæmu fréttirnar: Meðalhitinn er enn svo lágur að það telst vera vetur.
Góðu fréttirnar: Sólargangurinn gefur okkur álíka tækifæri til að njóta sólar og birtu og um hásumar. Njótum þess og kveðjum veturinn með stæl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2014 | 19:54
Dagur jarðar. Þörf á sjálfbærri þróun.
Í dag er alþjóðlegur Dagur jarðar og þar með dagur jarðargæða.
Ég og ýmsir fræðimenn höfum lengi gagnrýnt rangfærslur, sem Íslendingar halda fram bæði hér heima og einkum gagnvart útlendingum þess efnis að nýting jarðvarmans á Íslandi falli almennt undir skilgreininguna "endurnýjanleg, hrein orka" og sjálfbær þróun og sé því ekki rányrkja.
Nú hafa þrír vísindamenn hjá ÍSOR fengið viðurkenningu fyrir fræðigrein um þetta efni og er það vel.
einn þeirra, Guðni Axelsson, setti ásamt Ólafi Flóvenz í Morgunblaðsgreinum fram þá skilgreiningu, að hægt eigi að vera að nýta jarðvarmann á sjálfbæran hátt ef nógu varlega er farið af stað og niðurstöður rannsókna á ástandi svæðisins notaðar til að draga úr vinnslunni ef sýnt þyki að hún sé of ágeng.
Skilgreiningin var að vísu sett fram í aðeins einni setningu í langri framhaldsgrein og fór því sennilega fram hjá lang flestum lesendum.
En hún sýndi samt hve óralangt frá þessari aðferð nýtingin til raforkuframleiðslu í á flestum jarðvarmasvæðunum hefur verið og er enn hér á landi.
Nefnt er að í stað 50 ára nýtingarendingu, eins og nú er lagt upp með, sé eðlilegra að miða við 100-300 ára endingu.
Í raun er það líka of stutt tímabil nema að menn geri það sem alveg hefur vantað: Ákveði fyrst fyrirfram um öll þau virkjanasvæði sem i pottinum eru, áætli gróft hvernig hægt sé að nýta þau í heild þannig að endingartíminn verði eilífur, því að vitað er að svæði "jafna sig" á ákveðnum tíma eftir að búið er að kreista úr þeim allan varmann.
Frumrannsóknir Braga Árnasonar bentu til þess að sá tími væri tvöfalt lengri en endingartíminn á Nesjavalla-Hengilssvæðinu, en ganga verður miklu lengra í rannsóknum til þess að hægt sé að komast hjá rányrkju.
Miðað við hina stuttu endingu á núverandi jarðvarmavirkjunum ætti skilyrðislaust að hætta við allar áætlanir um frekari jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu og stefna að raunverulegri sjálfbærri nýtingu með því að fara eftir því sem þeir Guðni og Ólafur lögðu til í Morgunblaðsgreinum sínum.
Á allri þessari nýtingu þarf að verða gagnger bragarbót.
![]() |
Áttu bestu fræðigreinar ársins 2014 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2014 | 17:37
Táknræn myndin af vélinni í þokunni: Röng vél.
Hvarf malasísku þotunnar verður æ dularfyllra.
Kannski er myndbirtingin af skugga vélar í þokukenndu umhverfi, sem kemur frá AFP, táknræn, því að hún er af fjögurra hreyfla skrúfuþotu en ekki af tveggja hreyfla þotu eins og Boeing 777 vél malasíska flugfélagsins var.
Undir myndinni stendur: "Hvar er hún", en ætti kannski að standa: "Hver er hún?"
Kannski er verið að leita með röngum aðferðum að rangri vél á röngum stað.
![]() |
Er leitað á röngum stað? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.4.2014 | 07:53
Feluleikurinn og þöggunin varðandi jarðvegseyðinguna.
Um síðustu aldamót var gerð úttekt á vegum Sameinuðu þjóðanna á jarðvegsmálum þjóða heims.
Hér á Íslandi var síðan mikið gert úr því að við hefðum komið afar vel út úr þessari rannsókn og verið meðal efstu þjóða á listanum yfir það að vera umhverfisvæn. Um sama leyti var uppi að framkvæma mestu óafturkræfu neikvæðu umhverfisspjöll, sem möguleg eru í þessu landi.
Þetta kom mér á óvart af því að rannsókn Ólafs Arnalds á ástandi jarðvegsmála á Íslandi, sem hann fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir, sýndi, að hvergi í nokkru landi var og er ástandið jafn slæmt.
Í krafti upplýsingaskyldu stjórnvalda fékk ég að skoða skýrsluna. Þá kom í ljós hver var ástæðan. Örfá lönd, mestu skussarnir, höfðu skilað auðu varðandi jarðvegsmálin og sett stafina NA í dáilkinn sem þau voru í.
Meðal landanna var til dæmis Úkraína með sínar afleiðingar Chernobylslyssins, og fleiri skussalönd Austur-Evrópu höfðu þetta svona.
En Ísland setti líka stafina NA í sinn dálk og komst upp með það að ljúga því upp í opið geðið á umheiminum hvernig ástandi var og er hér, þótt ekkert annað land byggi yfir verðlaunaúttekt á ástandinu.
Þegar Steingrímur Hermannsson tók við embætti landbúnaðarráðherra um hríð lagði hann til að þessi mál yrðu tekin fyrir af festu og bændur í héruðum, þar sem afréttir og lönd voru sannanlega óbeitarhæf, yrðu styrktir til þess að hætta að beita þá, enda mikil önnur atvinnutækifæri í þeim héruðum, en í staðinn fengju bændur á svæðum, þar sem landbúnaður var grunnatvinnuvegur og beitarlönd í þokkalegu ástandi, aukinn kvóta.
Sem dæmi má nefna Vestur-Húnavatnssýslu og Strandir.
Steingrímur segir í ævisögu sinni að bændasamtökin og landsbyggðarþingmenn hafi brugðist ókvæða við og hann hafi ekki þorað að minnast á þetta framar.
Svipað gerðist þegar Hjálmar Jónsson varð formaður landbúnaðarnefndar Alþingis um 20 árum síðar, að hann viðraði þessa hugmynd óvart í viðtali í fjölmiðli og allt varð vitlaust.
Með sömu tímalengd á milli svona umtals má búast við að einhver ráðamaður orði þetta í þriðja sinn í kringum árið 2020, allt verði vitlaust og síðan líði næstu 20 ár til ársins 2040 með sama feluleiknum, fram að næsta upphlaupi og þöggun í kjölfarið.
![]() |
Þörf á breyttu viðhorfi í landgræðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)