Þekktur bíll, "Skuggi", genginn aftur ?

Þekkt er sagan um Kristínu (Christine), Plymouth 58, sem gekk aftur, ók mannlaus og gerði heilmikinn usla. Í morgun fékk ég óvenjulega upphringingu lögreglunnar, sem minnir á þessa mögnuðu sögu, ekki hvað síst vegna þess að hin nýja sögupersóna ber hið skuggalega heiti, "Skuggi".

Málavextir eru þessir: Klukkan þrjú síðastliðinn föstudag varð það harður árekstur á Sæbrautinni að lögregla var kölluð til. Vitni bar að bláleitur Suzuki Samurai með númerinu KF-416 hefði valdið árekstrinum.

Svona jeppar eru orðnir afar fátíðir og ætti því að vera auðvelt að hafa upp á Suzuki Samurai með númerinu KF-416 og eiganda hans.

Lögreglufulltrúi, sem hefur svona flott gögn í höndum, hlýtur að vera ánægður með það. 

Að minnsta kosti myndi ég vera það í sporum hans.   

"Ertu með pappír upp á það?" var spurt í sögu Laxness. Hér á eftir verða atriði, sem skjalfest pappírsgögn eru yfir, skáletruð. 

Þannig vill til að ég er eigandi Suzuki Samurai árgerð 1986 sem hefur fastanúmerið KF-416 og berast böndin því heldur betur að mér og þessum jeppa. Óvenju rakið mál, afar fágætur bíll og eigandinn þekktur. Samurai við Lindur

Umræddur smájeppi varð reyndar þekktur á sínum tíma fyrir það að í stórri grein í tímaritinu National Geographic var sagt frá því að hann hefði árum saman verið farartæki mitt og gististaður víða um land,  einkum á norðausturhálendinu, á öllum árstímum.

Ég byrjaði að nefna hann nafninu "Skuggi" fyrir nokkrum árum.

Við leit að myndum af Skugga finn ég bara þrjár, sem voru teknar í 15 stiga frosti af honum sem gististað við svonefndar Lindur, heitar laugar, sem sökkt var í Hálslón.

Þessar myndir vekja upp góðar minningar frá samskiptum okkar Skugga, sem hófstu fyrst árið 2002, þegar ég keypti hann fyrir 80 þúsund kall. Sagði frá honum í bloggpistli 17. desember 2009, sem bar heitið: "Skuggi", nútíma Ford T."

Samurai við Lindur, frammi í

Hvað um það, öll rök hnigu að því að ég hefði verið á þessum bíl á Sæbrautinni klukkan þrjú á föstudaginn, valdið þar árekstri, en stungið af.

En ég lenti strax í vandræðum í morgun með að staðfesta þetta við lögregluna með óyggjandi gögnum og játa.

Og ég ætti raunar afar erfitt með það vegna þess að ég er það þekktur, að erfitt er fyrir mig að fara huldu höfði og því fullt af vitnum sem sáu mig allt annars staðar á meintum afbrotstíma.

Ég var nefnilega í Hafnarfirði klukkan þrjú á föstudag að sinna nokkrum erindum þar. Samurai við Lindur, inni

Hafði verið á pústverkstæðinu BJB um klukkan tvö á bíl mínum, rauðum Daihatsu Cuore árgerð 1988 með númerinu A-467 og var sagt að koma aftur klukkan þrjú.

Hringdi í konu mína og sagðist myndu sinna erindum í Hafnarfirði fram eftir degi, fór í Landsbankaútibúið og átti þar viðskipti og fékk kvittun um þau.  

Keypti eina pylsu fyrir utan, ók í geymslusvæðið í Hafnarfirði og síðan þaðan til baka og kom í afgreiðslu BJB klukkan nákvæmlega þrjár mínútur yfir þrjú. Man það vel, af því að ég var þremur mínútum of seinn.Daihatsu Cuore ´88

Og allan tímann var ég á litla Cuore fornbílnum, sem er sá eini gangfæri af þessari gerð hérna megin á landinu (annar er á Akureyri) og gerólíkur Suzuki Samurai.  

Ég hringdi í Geymslusvæðið og bað vin minn þar um að taka til sín litla ljósmyndatösku, sem ég hafði gleymt þar.

Dvaldi í húsakynnum BJB fram yfir klukkan fimm og tók þar meðal annars myndir af Suzuki Coolcar, sem ég birti um kvöldið á blogginu.

En hvað um bláleitan Suzuki Samurai árgerð 1986 með númerinu KF-416?  

Jú, þannig vill til að stutt er siðan ég gætti að þessum bíl mínum þegar ég var á ferð á Selfossi. Hann er reyndar kolsvartur með gulleitum brettaköntum en ekki bláleitur. Skráður svartur í gögnum og einmitt núna var ég að finna mynd af honum, tekna á Egilsstöðum árið 2007. Suzuki Samurai  

Fyrir nokkrum árum fór ég á Selfoss  til fyrirlesturs á klúbbi einum á þessum bíl, en það kviknaði í greyinu í Ölfusinu á bakaleið, rafleiðslur og kúplingsbarki brunnu, konan mín sótti mig þangað úr Reykjavík, og ég skildi bílinn eftir. 

Vinur minn eystra tók að sér daginn eftir að fara með bílinn að verkstæði á Selfossi og númerin á honum voru lögð inn, en ekki man ég hvort ég gerði það í Reykjavík eða vinur minn eða ég gerði það á Selfossi. Bíllinn var tekinn úr tryggingu.

Það langt er síðan að búið ætti að vera að farga númerunum.  

Skuggi hefur síðan verið á sama stað á Selfossi í öll þessi ár að því er ég best veit. Fljótlega voru hjólin tekin af honum og stendur hann í því ástandi þar enn,hjólalaus. Ég hef fylgst reglulega með honum og einnig þeir, sem vinna þar hjá.

Stutt er síðan ég leit síðast á hann.

Nú er spurningin þessi:

Úr því að þessi fágæti bíll olli árekstri á Sæbraut síðastliðinn föstudag, hvernig komust hjólin undir hann, hvernig komust númerin á hann, hvaðan komu þau númer, hver ók honum til Reykjavíkur og olli usla á Sæbrautinni ?

Þegar ég lagði bílnum voru allir gírarnir ónýtir nema fjórði gír. Ég ók honum af stað í fjórða gír í lága drifinu og skipti síðan með tvíkúplingu yfir í háa drifið og notaði þessi tvö hraðastig, "high and low" eins og gert var á gamla Ford.  Þeir eru orðnir býsna fáir, þessir af gamla skólanum, sem gætu ekið þessum bíl. Hver skyldi hafa getað gert það?

Var bíllinn sprautaður með nýjum lit? Var gert við kúplingsbarkann, rafleiðslurnar og gírkassann? Suzuki Fox

Ég á reyndar rauðan ökufæran Suzuki Fox árgerð 1986 með núminu IB 327, sem hefur staðið kyrrstæður á stæði fyrir utan Fróðengi 7 síðustu vikur. Erfitt er að flækja honum inn í áreksturinn á Sæbrautinni.    

Ég átti ljósbláan Fox fyrir 12 árum sem ég seldi og hef ekki séð síðan.

Þess má geta að "Læðan" í þáttunum "Næturvaktin" er af þessari gerð, er blá að lit, þannig að vitni gæti hafa látið lit þess þekkta bíls villa um fyrir sér og sýnst hann vera bláleitur þótt liturinn hafi verið annað.

Nú er spurningin: Er svarti Suzuki Samuraiinn "Skuggi" genginn aftur eins og Christine og byrjaður að haga sér eins og hún? Langar hann til að komast aftur á síður National Geographic?   

Ég bíð spenntur eftir svarinu. Kannski einhver lumi á gagnlegum upplýsingum.  

 


mbl.is Nýrri bíla og hærra skilagjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendiboðinn er skotinn.

Það er þekkt fyrirbæri frá öllum tímum, að valdhafar láti skjóta sendiboða, sem flytur slæm eða óþægileg skilaboð. Hver sá sem gengur blaðamennsku á hönd verður að vera viðbúinn því að reynt sé að refsa honum og "gera hann óskaðlegan" á allan hátt, ef upplýsingarnar, sem hann veitir eru ekki þóknanlegar þeim sem valdið hafa. 

"Ég er kominn til að bera sannleikanum vitni", sagði Kristur þegar Pílatus spurði hann lykilspurningarinnar um það hvað hann væri að gera. Og Kristur var "skotinn", þ. e. krossfestur.

Er hollt að íhuga það nú þegar páskar fara í hönd og hafa í huga að svona viðbrögð gegn sendiboðum eða "whitle blowers" birtast í bæði stóru og smáu. Enn er mér í minni "litli Landssímamaðurinn" og sjómaðurinn, sem var látinnn taka pokann sinn morguninn eftir að hann kom fyrstu manna í sjónvarpsviðtal til að tala um áhrif kvótakerfisins.   

Ég hef verið þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna með sjónvarpsmönnum al-Jazeera og sjá hve hve alvarlega þeir taka hið mikilvæga hlutverk þess, sem þarf að flytja skilaboð.

Þessi sjónvarpsstöð gerir miklar kröfur til starfsmanna sinna um að þeir leggi sig fram um það að vera í allra fremstu röð.

Líklegast er það ástæðan fyrir því að starfsmenn stöðvarinnar hafa lent í fangelsi í Egyptalandi. Valdhafarnir þar sjá ekkert annað ráð til að þagga niður óþægilegar staðreyndir en að taka sendiboðana úr umferð.

Líkingin um sendiboðann er algild og fyrirbrigðið þekkt í öllum löndum á öllum timum.

Sjálfur lenti ég í slíku fyrir 15 árum og það var dýrmæt lífsreynsla.   


mbl.is Blaðamennska er ekki glæpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvæg iðnaðarsvæði í austanverðri Úkraínu.

Í Seinni heimsstyrjöldinni lögðu báðir stríðsaðilar sig fram um að ná þrennu í Úkraínu, í 1. lagi kornræktarsvæðunum, í öðrulagi iðnaðarsvæðunum í Donetsk og austanverðu landinu og í þriðja lagi Krímskaga með sínum ómetanlegu flotastöð, Sevastopol.

Til þess að ná Sevastopol notuðu Þjóðverjar meðal annars langstærstu fallbyssu, sem smíðuð hefur verið í heiminum, "Gústav", en það þurfti 1500 hermenn til þess eins og skjóta úr henni.

Nú eru um 70 ár síðan Þjóðverjar neyddust loks eftir afar harða bardaga að fara á svipaðan hátt frá Krímskaga og Bretar fóru frá Dunkirk um mánaðamótin maí-júní 1940.

Munurinn var sá, að Bretar björguðu nær öllu herliði sínu en Þjóðverjar misstu meira en 100 þúsund menn í lok bardaganna um Krím.

Það er því ekkert grín fyrir Úkraínumenn að missa austustu héruð landsins í hendur Rússum og að sama skapi akkur fyrir Rússa að ná þeim á sitt vald. Meðal iðnaðarborga er Zaphorozets, þar sem hafa verið stórar bílaverksmiðjur.  

 


mbl.is „Donetsk er rússnesk borg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nígería, - Ísland - nýlendustefnan lifir.

Nígería býr yfir stærsta hagkerfi Afríku, rétt er það, en enda þótt landið sé ekki lengur nýlenda, er stundað þar svipað arðán af hendi erlendra auðhringa og stundað var á nýlendutímanum. Það eina sem hefur breyst er að stað ríkisvalds í ríkustu löndum heims, sem stundar arðránið beint, eru komin risavaxin auðfyrirtæki og auðhringar sem gera það.  

Fyrir nokkrum árum sá ég áhrifamikið myndband um hið raunverulega ástand í Nígeríu, þessu landi mikilla orkuauðlinda, sem ættu að geta fært landsbúum öllum betri kjör en í flestum öðrum Afríkuríkjum. Í staðinn lifir þorri þjóðarinnar við mikla fátækt og skort.

Erlendir auðhringar hafa stundað þar nýlendustefnu, sem er fróðleg fyrir okkur Íslendinga.

Hún felst í því sama og við Íslendingar höfum gert að trúaratriði þess eina sem geti "bjargað þjóðinni" eins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði á sínum tíma að Siv Friðleifsdóttir hefði gert með því að leyfa mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöll á Íslandi.

Þetta eina, sem þá og síðar hefur verið talið geta "bjargað þjóðinni", er þar sama og hefur verið gert í Nígeríu og öðrum fátækum löndum, erlend fjárfesting auðhringa, sem byggist á því að þeir kaupi af okkur orku fyrir slikk með ómældu umhverfistjóni, eigi framleiðslufyrirtækin og flytji ágóðann úr landi.

"Frumbyggjar" fá náðarsamlegast tiltölulega fá störf í kringum þetta og selja orkuna fyrir óviðunandi arð, sem í raun er arðrán, þótt mesta arðránið felist í því að langmestur hluti heildarafrakstursins, flyst úr landi.

Í Nígeríu lifir um 1% þjóðarinnar í miklum vellystingum en 99% er fátækt fólk og stærsti hluti þess örfátækt fólk.

Þess vegna gat snjöll bandarísk kona keypt hér um árið íslenska skreið, flutt hana til Bandaríkjanna, verkað hana þar og sett í góðar umbúðir og selt hana ríka fólkingu í Nígeriu á 100 sinnum hærra verði á stórum markaði, því að 1% Nígeríubúa var þá ein milljón manna en er nú nær tveimur milljónum.

Með hinu dæmalausa ákalli íslenskra stjórnvalda 1995 til auðhringa heimsins, um að bjóða þeim "lægsta orkuverð í  heimi" settu þeir Íslendinga á bekk með vanþróuðu þjóðum heims og í samkeppni við þær um orkusölu.

Þótt Íslendingar búi við mun jafnari kjör en Nígeríubúar og að hér ríki ekki hið skefjalausa misrétti og örbirgð, sem þorri Nígeríubúa býr við, er ömurlegt til þess að vita að við skulum hafa gengið á hönd ígildi nýlendustefnu, sem nú er rekin í krafti vestrænna auðhringa og risafyrirtækja og fljótlega einnig í krafti kínversks og rússnesks auðvalds.

  


mbl.is Nígería er stærsta hagkerfi Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvísandi fréttir. Blönduð orsök?

Misvísandi fréttir birtast þessa dagana af rannsókninni á hvarfi malasísku þotunnar, sem orðið er það sérstæðasta í sögu nútíma flugs farþegaþotna.

Fyrir tveimur dögum var sagt að búið væri að útiloka að einhver um borð í vélinni hefði "rænt" henni eð átt þátt í að hún hvarf, en núna birtist frétt sem talin gefa vísbendingu um að vélinni hafi fyrst eftir að hún hvarf verið flogið þannig í áttina suður á Indlandshaf, að hún væri utan við ratsjársvið Indónesíu.

Hvaða ályktun er hægt að draga af þessu? Kannski enga, og orsök hvarfsins þannig gersamlega óupplýst, eða að um misheppnað flugrán eða viljandi flugs vélarinnar utan ratsjársviðs hafi verið að ræða, eitthvað sem síðan fór úr böndunum eða skóp nýtt ástand í flugi vélarinnar.  


mbl.is Vélinni ekki flogið yfir Indónesíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskuldaður og eftirminnilegur sigur.

Þegar Sara Pétursdóttir steig á sviðið í söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi átti maður ekki von á neinu sérstöku. Þarna stóð hún, alein og hreyfingarlaus á stóru sviðinu og á undan henni höfðu verið svo góð og vel útfærð atriði, að maður var búinn að ákveða, hverjum greidd yrði atkvæði.

Svo byrjaði hún að syngja, hófstillt og yfirlætislaus, og myndavélin nálgaðist hana í mestu rólegheitum.

Þetta var svo einfalt allt og látlaust, - engir stælar, aðeins örlitlar hreyfingar það litla, sem það var, og aðeins eitt myndklipp í öllu laginu, smekklegt og eðlilegt.

Og smám saman sogaðist maður inn í einfaldasta galdur allrar túlkunar, sem kalla má "áhrifin maður á mann", - að ekkert tekur fram því allra einfaldasta, einlægri, djúpri, hreinni og beinni túlkun.

Það eru lögmálin KISS, "keep it simple, stupid",  og "less is more."

Þegar hún lauk sínum yfirlætislausa söng játaði ég mig sigraðan mann af þessum eftirminnilegu töfrum fullkominnar túlkunar.

Til hamingju, Sara Pétursdóttir, og þið öll hin, framtíð Íslands, sem kepptuð í gærkvöldi, fyrir  eftirminnilegt sjónvarpskvöld, sem kom svo sannarlega á óvart.  

 


mbl.is Sara vann fyrir hönd Tækniskólans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland, viðundur á vesturlöndum.

Yfir aðalfundi Landverndar í dag grúfðu óverðurský í umhverfis- og náttúruverndarmálum, sem hrannast upp á himininn, ekki aðeins vegna nýrrar stórsóknar í hernaðinum gegn landinu í formi stórfjölgunar virkjunarhugmynda, heldur einnig á flestum öðrum sviðum í þessum málaflokki. Dæmi:

Íslendingar undirrituðu Ríó-sáttmálann 1992. Sem dæmi um höfuðáherslurnar í sáttmálanum voru sjálfbær þróun (þ.e. að stunda ekki rányrkju), varúðarreglan gagnvart náttúrunni (að náttúran njóti ávallt vafans, ef einhver er) og verndun mikilsverðra vistkerfa og landslagsheilda.

Undirritun Íslendinga hefur ekki reynst pappírsins virði. Við bæjardyr höfuðborgar Íslands er stunduð rányrkja á jarðvarmaorku og varúðarreglan, sem snýr að því að náttúran njóti vafans, var túlkuð öfugt þ. e. virkjununum í vil. Fullyrðingar virkjanaaðila um lausnir varðandi loftmengun stóðust ekki.

Núverandi valdaöfl reyna fyrir hvern mun að koma varúðarreglunni út úr nýjum náttúruverndarlögum.

Stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, sem inniheldur ákvæði um sjálfbæra þróun, hefur verið vikið til hliðar, þrátt fyrir eindregna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, frumvarpínu í vil.   

Evrópuþjóðir staðfestu svonefndan Árósasáttmála um síðustu aldamót, nema Íslendingar.

Síðan dröttuðumst við til þess að lögfesta sáttmálann, en í Gálgahraunsmálinu hefur komið í ljós, að höfuðatriði sáttmálans, um lögaðild náttúruverndarsamtaka með fleiri en 30 félagsmenn að ákvörðunum, sem snerta umhverfi og náttúru, er túlkuð ógild hér á landi.

Dómskerfið, frá héraðsdómurum til Hæstaréttar, snýr þessu öllu á haus.

Afleiðingar úrskurða dómskerfisins í Gálgahraunsmálinu eru þær, að Vegagerðin og aðrir sambærilegir aðilar geta vaðið af stað í framkvæmdir, án þess að hafa gild leyfi, svo sem framkvæmdaleyfi eða mat á umhverfisáhrifum og notfært sér þá viðundurs sérstöðu að Árósasáttmálinn sé einski virði hér á landi, þannig að almannasamtök þúsunda fólks, sem á hagsmuna að gæta varðandi útivist, ferðamennsku og umgengni við náttúruna eru afgreidd út af borðinu og réttur þeirra einskis metinn.  

Nú virðist komin upp sú staða að í öllu valdakerfi Íslands, hjá löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu ríkir fyrirlitning á umhverfisverndar- og náttúruverndarfólki á sama tíma sem vilji er til að gefa hvers konar framkvæmdaaðilum veiðleyfi á landið og einstæða náttúru þess.

Þrátt fyrir þær ógnanir, sem nú hrannast upp í náttúruverndarmálum, ríkti mjög gefandi baráttuandi á aðalfundinum í dag. Maður kom endurnærður heim af því að ekkert er eins gefandi og sannfæringarkraftur og baráttuvilji hugsjónafólks.     

 


mbl.is Ísland krepptur hnefi um posa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Órofa samstaða er forsenda árangurs.

Samvinna og samtakamáttur útivistarsamtaka og náttúruverndarsamtaka er fagnaðarefni. Með því er útvíkkaður sá vettvangur sem skapast hefur undanfarin ár með samvinnu umhverfis- og náttúruverndarsamta landsins, sem meðal annars skilaði af sér vandaðri vinnu 13 samtaka við að gera athugasemdir við meira en 60 virkjanakosti í rammaáætlun 2011.

Nú skellur á bylgja virkjanahugmynda sem krafist er að verði framkvæmdar með ómældu og óafturkræfu tjóni fyrir þau einstæðu heimsverðmæti sem íslensk náttúra, einkum á hinum eldvirka hluta Íslands, býr yfir.

Þar með eru nýju virkjanirnar orðnar meira en 90, í viðbót við þær 30 stóru virkjanir, sem þegar eru í landinu, eða alls meira en 120 stórar virkjanir um landið þvert og endilangt, frá ystu útnesjum inn í hjarta landsins, víðerni miðhálendisins.

Flutt eru nær daglega tíðindi af fjölda erlendra fyrirtækja sem falla undir trúboðið um dýrð "orkufreks iðnaðar" sem vilja bætast við þá tröllauknu stóriðju, sem lýst hefur verið yfir að sé "einhuga vilji" núverandi valdhafa að rísi í Helguvík.

Laxárdeilan 1970 kenndi náttúruverndarfólki í Þingeyjarsýslu þá grimmilegu lexíu, að valdið sem býr yfir stórvirkum vélum og sprengiefni, varð ekki stöðvað nema með dínamiti og órofa samstöðu andófsfólksins.

Órofa samtakamáttur þeirra sem vilja andæfa "hernaðinum gegn landinu" er grunnforsenda þess að einhver árangur náist.

Þess vegna er samstöðuyfirlýsing útivistarsamtakanna og náttúruverndarfólks gott veganesti inn í aðalfund Landverndar, sem verður haldinn í húsakynnum Ferðafélags Íslands nú eftir hádegið.  

 


Þetta er alvöru árangur.

Sjöunda sæti á heimsvísu er sæmilegur árangur í hvaða íþróttagrein sem er.

Einhverjum kanna að láta sér fátt um finnast gagnvart "lítt þekktri" grein, en risahöll í London, troðfull af fólki, sem viðstatt var þegar Gunnar Nelson hlaut verðlaun fyrir bestu frammistöðu kvöldsins, segir okkur, að hann er að keppa í alvöru íþróttagrein og sé að ná alvöru árangri.


mbl.is Gunnar Nelson meðal 10 bestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, hættið þið nú alveg !

Kona "léttist um 27 kíló án þess að fara í megrun" segir í frétt um það, hvernig kona nokkur ákvað að fara í megrun og gefur eftir á fjölbreytileg ráð, já heila uppskrift í sjö býsna flóknum liðum um það hvað eigi að gera skipulega til að ná svona árangri "án þess að fara í megrun."

Ég segir bara fyrir mig að ég verð alveg ruglaður við að sjá lesa þetta. Ég get ekki betur séð en að þetta sé eitt af ótal dæmum um það að fólk hafi gert það sem hingað til hefur verið lýst með orðunum "að fara í megrun"

Og meira að segja eftir nokkuð flókinni uppskrift.

Er hægt að létta sig án þess að megra sig?   

Hvað næst?  Að komast í gott úthald án þess að auka þolið ?


mbl.is Léttist um 27 kíló án þess að fara í megrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband