30.3.2014 | 04:13
Hvað sögðu ekki Norðmaðurinn og Svisslendingurinn hér um árið?
Eftir að snjóflóð féll í Seljalandsdal við Ísafjörð 1994 voru fengnir tveir erlendir sérfræðingar til að veita ráðgjöf, annar frá Noregi og hinn frá snjóflóðavarnastöðinni í Davos í Sviss.
Ég var fréttamaður Stöðvar 2 á þessum tíma og reyndi að fylgjast með, og man að ein setning Norðmannsins fól í sér aövörun: "Þar sem getur fallið þykkur snjór í hallandi landi getur fallið snjóflóð."
Þetta fannst mér útskýra hvers vegna snjóflóð féll í tiltölulega lágri brekku á Blönduósi 1993 og "kom mönnum að óvörum" eins og snjóflóðið, sem nú hefur fallið í Bláfjöllum.
Ég hafði af því spurnir að svissneski sérfræðingurinn hefði aðvarað vegna þeirra byggða á Vestfjörðum þar sem hættulegar aðstæður væru, en verið sagt að hann hefði aðeins verið fenginn til að líta á snjóflóðið sem féll niður Seljalandsdal og niður í Tungudal, en ætti ekki að vera að skipta sér af öðru.
Mér tókst ekki að fá þetta staðfest hér heima, því miður, og hefði betur farið þá til Davos og fengið þetta staðfest hjá honum og flutt um það sjónvarpsfréttir.
Menn uggðu ekki að sér, vegna þess að ekki voru sagnir um sérstaka mannskaða af völdum snjóflóða í gegnum aldirnar, hvorki á Blönduósi, Seljalandsdal, Súðavík eða Flateyri.
Ég tók fréttauppistand á Urðarvegi á Ísafirði þar sem ég sýndi, hvernig annar fótur minn væri á skilgreindu snjóflóðahættusvæði en hinn ekki og fékk mjög bágt fyrir.
Fólk hringdi í mig og spurði sárt og reitt hvort ég væri ekki ánægður með að hafa eyðilagt ævistarf þess með svona fréttaflutningi, sem verðfelldi húsin þeirra, og áhrifamenn vestra reyndu að stöðva hann með því að þrýsta á fréttastjórann.
Það sem menn áttuðu sig ekki á þá og ekki heldur fyrir snjóflóðin í Neskaupstað 1972 var það, að ef snjóflóð hefðu fallið áður á þessum stöðum meðan ekki var þar byggð, þóttu þau auðvitað ekki sæta tíðindum þá. Þess vegna "komu þau að óvörum."
Þó mátti sjá í jarðabók frá 18. öld að fé væri hætt við flóðum í fjörubeit í Súðavík og hefði það átt að hringja bjöllum.
Eftir snjóflóðið á Flateyri hitti ég þann, sem heitast hafði fordæmt fréttaflutning minn og þegar ég bað hann afsökunar á því að hafa valið ranga götu, Urðarveg, í stað þess að standa á Ólafstúni á Flateyri, varð fátt um svör hjá honum.
Ég fór síðan sérstaka ferð til Davos til að ræða við sérfræðinginn, sem hafði verið á Ísafirði 1994 og koma heim með fréttaskýrslu um verkefnið sem hlaut að bíða varðandi snjóflóðavarnir á Íslandi.
Sú ferð gerði mig enn daprari yfir því að hafa ekki farið þangað tveimur árum fyrr.
Ekki fannst mér þó að hér heima væru skoðaðar nógu vel ýmis ódýrari ráð og einfaldari svissnesk ráð en hér hefur verið ráðist í.
Svissneski sérfræðingurinn sagði að miða þyrfti við langan tíma í hættumati og að eitt snjóflóð á 100 ára fresti ætti að vera nóg til að setja ekki niður byggð á því svæði án nægilegra varna.
Þegar menn verða hissa á snjóflóðum hér og þar, svo sem í Bláfjöllum, gleyma menn því að hafi snjóflóð fallið þar á árum áður, hafa þau ekki komist í fréttir af því að enginn var þar þá, á slóðum þar sem oft er krökkt af fólki nú.
![]() |
Snjóflóðið kom að óvörum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
29.3.2014 | 21:29
Ögmundur er ekki tímaskekkja, ástandið hér á landi er það.
Spurt er í athugasemd við fréttina um fyrirætlan Ögmundar Jónassonar að fara inn á Geysissvæðið á morgun án þess að borga landeigendum fyrir það, hvort Ögmundur sé tímaskekkja.
Skoðum málið og berum ástandið hér á landi saman við ástandið í Bandaríkjunum, en þar í landi telja menn sig forystuþjóð fyrir frelsi, einkaframtaki og markaðshyggju.
Flest helstu náttúruverðmæti Bandaríkjanna eru í þjóðareigu og hafa verið það allt frá stofnun Yellowstone-þjóðgarðsins fyrir 140 árum.
Rukkaður er aðgangseyrir inn í þjóðgarðana, en það er meðvituð stefna að aðgangseyririnn nægir hvergi nærri til að borga fyrir kostnaðinn við viðhald og þjónustu í þeim, vegna þess að annars yrði aðgangseyririnn svo hár, að það yrði ekki fyrir hina tekjulægri að borga fyrir hann.
Þetta er í samræmi við einkunnarorð, sem standa letruð stóru letri yfir inngangshliðinu: "Til yndisauka og ánægju fyrir fólkið/þjóðina".
Hér rekum við okkur strax á algera andstæðu við gróðahyggjuna og sérhagsmunaákafann, sem ríkir hér á landi og er hreint ótrúleg tímaskekkja og hneisa.
Þar að auki fær hver þjóðgarðsgestur í Bandaríkjunum strax í hendur við innganginn vandaðan leiðbeininga- og upplýsingabækling og sér um leið og hann kemur inn í garðinn fyrir hvað hann er að borga, - og hann sér meira en það, - hann sér að það sem gert er í garðinum er miklu dýrara en hann hefur borgað fyrir, - þetta eru reyfarakaup.
Þetta er alger andstæða þess, sem nú er að gerast hér á landi.
Bandaríkjamenn skoða þetta út frá miklu víðara sjónarhorni en við. Þeir telja að um heiður, sóma, stolt og þar með viðskiptavild þjóðarinnar sé að ræða en ekki um þröng einkasjónarmið eða staðbundin sjónarmið. Þeir telja sig ekki eiga náttúruverðmætin, heldur hafa þau að láni frá afkomendum sínum og vera vörslumenn gersema fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt.
Þeir vita að óbeinar tekjur af þjóðgörðunum streyma inn þjóðfélagið um allt landið. Þeir vita til dæmis, að þær 1,5 milljónir ferðamanna á ári, sem koma til Yellowstone, þurfa að fara langa leið til þess og að mest af þeim tekjum fellur til víða um Bandaríkin.
Hvergi í þeim 28 þjóðgörðum sem ég hef komið í víða um lönd hef ég séð neitt í líkingu við ruglið og óreiðuna sem hefur viðgengist á Geysissvæðinu og víðar í áratugi með ástandi, sem er fyrir löngu orðið þjóðarskömm.
Þess vegna verður för Ögmundar og vonandi sem flestra fleiri inn á svæðið á morgun ekki tímaskekkja, heldur er fyrir langalöngu orðið tímabært að hreinsa þessi mál upp og það sem fyrst.
![]() |
Líkir gjaldtökunni við þjófnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.3.2014 | 13:06
Þarf að gera úttektir víða um land.
Þegar Öræfajökull gaus 1262 lagðist hin blómlega byggð, Litla-Hérað, í auðn. Bæir grófust í þykkt öskulag og hamfaraflóð geystust niður frá fjallinu.
Mjög líklegt er að margir hafi farist. Fjallið er hugsanlega hættulegasta eldfjall á Íslandi, bæði vegna þess að það er býsna virkt, getur búið yfir mannskæðum ógnum og er nálægt byggð.
Hvergi nærri hefur verið veitt nógu miklu fé til rannsókna á vá vegna eldvirkni á landinu og viðbrögðum við slíku.
Til dæmis var hætt við að útfæra áfram áhættumat vegna eldsumbrota á norðaustanverðun Reykjanesskaga fyrir 20 árum, en frumathuganir leiddu skuggalegar staðreyndir í ljós.
Gera verður betur í því efni bæði í byggð og óbyggð, þótt ekki væri nema bara vegna stóraukinnar umferðar ferðamanna.
Má þar nefna svæðið norðan Vatnajökuls sem er fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims og stór hluti þess afar afskekktur.
Á myndinni eru dyngja, (Kollóttadyngja) móbergsstapi (Herðubreið) móbergshryggur, gígaröð mynduð undir jökli (Herðubreiðartögl) , og stórt eldfjall (Snæfell).
Gerð og viðhald Sauðárflugvallar á Brúaröræfum (eldstöðin Kverkfjöll í baksýn) hefur að minni hálfu verið hugsað sem öryggisatriði ef mikið eldgos kæmi úr eldstöðvunum í nágrenni hans, Kverkfjöllum, Öskju, svæðinu við Upptyppinga eða Álftadalsbungu, svo að dæmi séu tekin af ótal eldstöðvum á þessu svæði.
En engin viðbragðsáætlun er til fyrir þetta svæði, þar sem tilvist flugvallar, sem nothæfur kynni að vera fyrir flugvélar á borð við Fokker F50, Dash 8, Lockheed Hercules eða Boeing C-17 Globemaster gæti skipt sköpum fyrir björgunaraðgerðir og annað viðbúnað vegna stórs eldgoss.
Og einnig ef stórslys eða vandræði bæri að höndum.
Þetta er eini flugvöllurinn á öllu hálendinu sem er nothæfur fyrir svo stórar flugvélar.
![]() |
Flóð myndi geysast niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
29.3.2014 | 02:08
Hvílikar framfarir !
Á þeim tíma sem ég var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu hér um árið hefði ég látið segja mér það margsinnis án þess að trúa því að íslenskar fimleikakonur yrðu jafn snjallar og árangur og raun ber vitni. Lengi vel sást munurinn á bestu erlendu fimleikakonunum og þeim íslensku langar leiðir.
En það er liðin tíð.
Svipað má segja um skyldar íþróttir eins samkvæmisdansa og margar aðrar íþróttir sem halda hefði mátt að fámennið og fjarlægðin frá öðrum löndum myndi koma í veg fyrir að þróuðust jafn glæsilega og blasir við.
Þetta er gleðilegt, einkum vegna þess, að í mörgum afreksíþróttum líður margt afreksfólkið fyrir það að fjárráðin eru hvergi nærri þau sömu og margfalt fjölmennari þjóðir hafa ráð á að veita sér.
Útlendingar dást til dæmis að þvi, hvernig íslensku handboltalandsliðsmennirnir sætta sig miklu lakari kjör en erlendir, við miðað við það hve miklu er dælt í erlenda atvinnumenn, sem gefa kost á sér í landslið sinna þjóða.
Á móti kemur, að íslenska liðið vinnur hug og hjörtu áhorfenda á stórmótum fyrir það hvernig það leikur með hjartanu og af hugsjón.
Það er mikils virði fyrir alla.
![]() |
Fáránlega flottar fimleikastelpur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2014 | 00:24
Vonandi meira að marka loforð Pútíns en Hitlers.
Byrjum á þessu: Adolf Hitler var fádæma illmenni og fyrirætlanir hans um að útrýma heilum kynþætti 10,5 milljóna manna voru einstæðar í veraldarsögunni sem og fyrirætlanir hans um heimsveldi þar sem "Aríar" væru æðri öðrum og aðrar þjóðir undirokaðir þrælar "ofurmennanna.
Burtséð frá þessu voru kröfur Þjóðverja 1938 um að þýskumælandi fólk í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu við landamæri þess ríkis og Þýskalands að mörgu leyti hliðstæðar við kröfur Rússa um að rússneskumælandi Krímverjar fái að sameinast Rússlandi.
Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta veifaði samningsblaði þegar hann sté út úr flugvélinni sem kom með hann heim frá Munchen 1. október 1938 eftir hina illræmdu samninga sem hann og Daladier forsætisráðherra Frakka höfðu gert við Adolf Hitler um að Súdetahéruð Tékkóslóvakíu yrðu innlimuð í Þýskaland.
"Friður á okkar tímum," sagði Chamberlain. "Herra Hitler er sannur séntilmaður og hefur lofað að gera ekki frekari landakröfur" sagði hann líka, enda bar flestum saman um það að á svona fundum væri Hitler afar kurteis og aðlaðandi maður.
Kröfur Þjóðverja voru sanngjarnar í augum margra, af því að þegar þjóðir og þjóðarbrot fengu sum hver að kjósa um framtíð sína eftir lok Heimsstyrjaldarinnar höfðu sigurvegararnir neitað þýskumælandi íbúum Súdetahéraðanna um slíkt vegna þess að þeir gátu ekki afborið það að Þjóðverjar græddu neitt á styrjöldinni sem þeim var kennt um að hafði byrjað.
Nú voru liðin tæp 20 ár og því hægt að slaka aðeins á í þágu friðar og lausn deilumála með samningum.
"Það er fráleitt að við förum að setja á okkur gasgrímur og fara í hernað vegna fólks í fjarlægu landi, sem við þekkjum ekki neitt" sagði Chamberlain.
Loforð Hitlers um engar frekari landakröfur reyndust ekki pappírsins virði því að hann þurrkaði Tékkóslóvakíu út af landakortinu með hervaldi aðeins fimm og hálfum mánuði síðar og hóf þá landakröfur á hendur Pólverjum, sem leiddu til nýrrar heimsstyrjaldar.
Vonandi verður meira að marka loforð Pútíns en Hitlers. En miklu veldur líka hvernig allir aðilar að spennunni í Úkraínu halda á sínum málum.
![]() |
Hyggst ekki beita frekara hervaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
28.3.2014 | 20:20
Bubbi í Bítlum síns tíma: Jón frá Ljárskógum.
Það liðu ekki mörg ár frá stofnun Ríkisútvarpsins þar til hér á landi kom til sögunnar nokkurs konar ígildi Bitlanna að vinsældum, söngkvartettinn M.A. kvartettinn, skipaður kornungum mönnum, rétt eins og Bítlarnir voru 30 árum síðar.
Bítlarnir höfðu Lennon og Mc Cartney og 50 árum síðar höfðu Utangarðsmenn Bubba, en M.A. kvartettinn hafði Jón frá Ljárskógum, skáld, þýðanda og þrumugóðan bassasöngvara, ekki bara vegna þess hve fallega röddin hljómaði þegar hann söng einn, heldur ekki síður hvernig hún "klæddi og umvafði þann hljóm sem kom úr þessum frábæra sönghópi.
Í dag eru hundrað ár frá fæðingu Jóns, sem fékk skæða berkla aðeins 28 ára gamall og lést 31. árs, mikill harmdauði öllum Íslendingum.
Mínar fyrstu bernskumininngar tengjast Jóni, sem var frændi minn í föðurætt, og Bjarna Runólfssyni í Hólmi, sem var ömmubróðir minn, en minningin er klökk, því að báðir létust þeir langt um aldur fram, Bjarni árið 1938 og Jón árið 1945, og báðar ættirnar voru enn í sárum þegar ég man fyrst eftir mér.
Jón tengist mér enn frekar vegna þess að ég var ekki nema 3ja til 4ra ára gamall þegar fullorðna fólkið hafði af því skemmtan að setja mig upp á stól eða borð og láta mig syngja fyrsta lagið mitt sem skemmtikraftur, en það var lagið "Rokkarnir eru þagnaðir".
Að því leyti byrjaðí ég ferilinn sem nokkurs konar "rokk"-söngvari.
Kannski var lagið um rokkana svo hugstætt fyrir mig fyrir ljóðlinurnar sem móðir mín hafði dálæti á, annars vegar "..og láttu þau ekki sjá / hve augun þín eru / yndisleg og blá.." og "bráðum kemur dagurinn með birtu og stundarfrið. / Þá skal mamma syngja um sólskinið."
Ég man varla eftir þessu, því að ég gerðist alveg fráhverfur svona upptroðslum fyrir fimm ára aldur, var mjög feiminn þótt einhverjum kunni að finnast það ótrúlegt nú.
Með ólíkindum er hve mikið liggur eftir Jón frá Ljárskógum frá jafn stuttri ævi, og margt af því er gott og hefur staðist vel tímans tönn. Þegar ég las ljóðmæli hans öll fyrir nokkrum árum varð ég hrifinn af því hve fjölbreytt þau eru, því að flestir kannast aðeins við sígildu söngvana sem enn eru sungnir.
Til dæmis er ljóð hans um Heimsstyrjöldina síðari sérstaklega vel ort og meitlað.
Ég hneigi höfuðið djúpt í þökk fyrir að hafa átt svo stórkostlegan frænda og þökk til þeirra sem minnast hans á ýmsan veg þessa dagana, þótt ekki gefist mér tækifæri vegna fermingar dóttursonar, til að fara vestur í Búðardal á morgun og hitta ýmis skyldmenni mín og vini.
Sendi þeim mínar bestu kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2014 | 13:08
"Ég var í báli´og blossa..."
"Ég var í báli´og blossa /
á bak við háa krossa, /
hann kyssti mig átján kossa /
í kirkjugarðinum..."
Þessar ljóðlínur úr gamanbragnum "Ó vertu´ei svona sorró.." söng Alfreð heitinn Andrésson gamanleikari af ógleymanlegri snilld fyrir sjö áratugum í gervi ófríðu nýtrúlofuðu stúlkunnar sem allt í einu gekk út með tilkomu 50 þúsund manna herliðs stríðsáranna.
Þótt kirkjugarðar séu að sjálfsögðu helgir reitir friðar og dýrmætra minninga og eftirsóknarvert að virða helgi þeirra, getur ýmislegt misjafnt átt sér það stað eins og annars staðar.
Svavar heitinn Gests sagði einu sinni gamansögu tengda kirkjugarði á Kútmagakvöldi Lionsklúbbsins Ægis:
"Þeir Pétur og Óli voru aldavinir og miklir gleðimenn en aldurinn fór að sækja að þeim. Einn dag sagði Pétur við Óla: Nú fer að styttast í þessu hjá mér svo að ég ætla að biðja þig einnar bónar: Ef ég fer á undan þér, viltu gera það fyrir vináttu okkar og ógleymanlegar minningar og þakkir fyrir ótal gleðistundir okkar að laumast út í kirkjugarð að gröf minni að lokinni jarðarförinni, eftir að allir eru farnir, og hella úr vískíflösku yfir leiðið mitt ?"
Óli svaraði: "Já, þetta skal ég gera með ánægju en væri þér nokkuð á móti skapi þótt ég renndi innihaldi flöskunnar fyrst í gegnum nýrun?
![]() |
Gómaðir við fíkniefnaviðskipti í kirkjugarði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.3.2014 | 02:11
Hvað um stefnuljósin ? "Friðhelgi einkalífsins".
Líklega eru ein tvö til þrjú ár síðan lögreglan í Reykjavík gerði smá rassíu part úr degi vegna þess ástands, sem ríkir varðandi stefnuljós hjá ökumönnum. En síðan hefur ekki orðið vart við slíkt en miklar fréttir hins vegar fluttar af hraðamælingum, sem er svosem gott og þarft framtak út af fyrir sig.
En stefnuljósarugl og vanræksla í notkun þeirra, of hægur akstur og önnur atriði sem benda til mikillar áherslu okkar Íslendinga á að njóta lögverndaðrar friðhelgi einkalífsins í umferðinni, virðast fá að blómgast í friði.
Á hverjum degi veldur ruglingur og kæruleysi um notkun stefnuljósa töfum, vandræðum og hættu í umferðinni því að þetta blasir við á hverjum degi um alla borg í hvert skipti sem ekið er í umferðinni.
Nú síðast í dag beið röð bíla eftir því að taka beygju til vinstri á fjölförnum gatnamótum, sem ég var staddur á. Á móti bílaröðinni kviknað heilt grænt ljós til merkis um að taka mætti beygjuna að því tilskildu að umferðin beint á móti hefði forgang.
Þeir ökumenn, sem komu úr þeirri átt og ætluðu að beygja í sömu átt, gáfu hins vegar ekki stefnuljós heldur héldu bílunum, sem biðu, í gíslingu, algerlega að ástæðulausu, því að um tvær akreinar var að ræða á götunni sem beygt var inn á og því auðvelt að láta umferðina blandast þar.
Enginn í fyrrnefndri röð, sem beið, komst því yfir. Nú kviknaði grænt beygjuljós með ör við hliðina á heila græna ljósinu sem gaf til kynna að bílaröðin fyrrnefnda ætti forgang í að beygja til vinstri.
En ökumaður fremsta bílsins nýtti sér það ekki heldur stóð kyrr hélt allri röðinni fyrir aftan sig þangað til rautt ljós var komið, þannig að bæði grænu ljósin voru einskis virði !
Erlendis, þar sem ævinlega eru gefin stefnuljós, hefðu minnst tveir bílar komist yfir á heila græna ljósinu í þessu tilfelli og minnst fimm á ljósinu með örinni, eða alls sjö. En á Íslandi enginn !
Ökumenn virðast vera hver með sína reglu um það hvenær eigi að gefa stefnuljós og hvenær ekki.
Tvívegis hef ég alveg nýlega ekið á eftir bílum á leið frá Vesturlandi til Reykjavíkur þar sem ökumennirnir gáfu alltaf stefnuljós til vinstri þegar þeir óku inn í hringtorgin. Í sum skiptin gerðu þeir þetta svo snemma, að engu var líkara en að þeir ætluðu að beygja strax til vinstri og aka á móti umferðinni öfugan hring.
Í fyrra skiptið gaf ökumaðurinn sex sinnum stefnuljós til vinstri í röð og virtist með því vera að gefa til kynna að hann ætlaði ekki að beygja til hægri inn á fyrstu götuna sem lá út úr torginu. Samt var hann á innri akrein og í innri hring í torginu!
Síðan gaf hann aðeins þrisvar sinnum stefnuljós til hægri þegar hann beygði út úr torginu til að halda áfram, en þrisvar sinnum gaf hann ekkert stefnuljós í þá átt þótt hann gætti þess vel að gefa alltaf stefnuljós til vinstri þegar hann kom inn í torgin!
Í síðara skiptið sem ég ók á eftir svona bílstjóra á þessari leið, gaf hann fimm sinnum stefnuljós í röð til vinstri þegar hann kom inn í torgin, en í síðasta torginu gaf hann ekkert stefnuljós og beygði þá til hægri út úr torginu !
Þessir bílstjórar eru greinilega ósammála þeirri skilgreiningu á hringtorgi, að meðan ekið er inni í hringtorgið og ekki skipt um akrein né ekið út úr torginu, jafngildir það því að aka á beinum vegi án akreinarskipta og því þarf ekki og er raunar algerlega órökrétt að gefa stefnuljós til vinstri.
Að gefa stefnuljós til vinstri á vinstri akrein inni í hringtorgi jafngildir því að viðkomandi ætli að beygja upp á eyjuna, enda sér maður svona notkun hvergi erlendis.
Allt þetta rugl veldur öryggisleysi, töfum og óhöppum í umferðinni en virðist ætla að lifa góðu eilífu lífi hér á Klakanum. Enginn græðir á þessu, allir tapa og allir eru óöruggir, ringlaðir og pirraðir, en samt heldur það áfram.
![]() |
Myndaði brot 139 ökumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.3.2014 | 19:09
11. leyndarmál farþegaflugsins: Þykkt ytra byrðis skrokksins.
Þegar setið er í flugvél sem miklir sviptivindar og ókyrrð hrista og svipta í allar áttir og vængirnir sjást sveiflast upp og niður, undrast farþegar það eðlilega hve sterk þessi farartæki eru.
Ekki síður er það undrunarefni hve örþunnir vængirnir eru á mörgum af öflugustu orrustuþotum heims.
En sjaldan hef ég orðið meira hissa en þegar hópur Íslendinga fékk tækfæri til að skoða Airbus-verksmiðjurnar í Toulouse í Frakklandi, meðal annars stóra Airbusþotu, sem var í smíðum.
Svo örþunnur er byrðingur svona þotu að það minnir meira á pappír en byrðing. Þá rifjast upp fyrir manni að byrðingurinn á Comet 1, fyrstu farþegaþotu heims, var aðeins 0,5 millimetra þykkur.
Að vísu var hann styrktur í kjölfar þess að fjórar þotur af þessari gerð fórust vegna málmþreytu í honum en engu að síður er ytri byrðingurinn í þotunum, sem við fljúgum í, þunnt skæni.
Aðalástæðan fyrir styrk byrðingsins er hringlagið á skrokknum og svonefnt monocoque byggingarlag skrokksins í heild, sem gerir hann að sjálfberandi heild af ytra byrði og hringlaga bitum og styrkingum innan á því.
Þetta byggingarlag ruddi sér til rúms á fjórða áratug síðustu aldar og olli byltingu í flugvélasmíði.
Minna má á, að einhvern tíma las ég um það hve mikinn ytri þrýsting venjulegt fuglsegg þyldi ef álagið á ytra byrði þess dreifðist alveg jafnt á það allt. Niðurstaðan kom mjög á óvart. Það var með ólíkindum hvað eggið þoldi mikinn þrýsting, en ekki man ég nánar hve mikill hann var.
![]() |
10 leyndarmál farþegaflugsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.3.2014 | 14:48
Hvaða máli skiptir það ?
Enn leggja sumir kollhúfur yfir því þegar heimsfrægt fólk lýsir yfir aðdáun á landinu okkar og má sjá í bloggpistlum að þetta skipti engu máli en sé bara dæmið um snobb og útlendingadekur okkar.
Þeir sem líta svona á málin hafa margir hverjir hamast árum saman gegn því sem þeir kalla "eitthvað annað" í lítilsvirðingarskyni sem andstæðu þeirrar dýrðar sem stóriðja geti fært okkur.
Á næsta ári verður áratugur síðan ég flutti fréttir af því í sjónvarpi að til Lapplands kæmu fleiri ferðamenn á veturna en kæmu til Íslands allt árið, og að af Lapplendingum gætum við lært margt.
Fyrir 20 árum hafði ég verið með svipaðar fréttir af ferðamannaslóðum á suðvestanverðu Írlandi, þar sem Írar nýttu sér hryssingslegt loftslagið til að laða að sér ferðafólk frá Miðjarðarhafslöndum.
Skemmst er frá því að segja að þessar og fleiri fréttir af svipðuðu tagi hafa fallið í grýttan jarðveg hér á landi öll þessi 20 ár.
Bandarískur ferðamálaprófessor, sem hingað kom, var dæmdur ómerkingur af því að þar var um að ræða "gamla kerlingarsnift".
Á ferðum mínum um sveitir landsins heyrðist ekkert annað en vonleysistal um þetta.
Nú síðast á málþingi Orkustofnunar var sú staðreynd, að ferðaþjónustan væri kominn fram úr sjávarútvegi og stóriðju um gjaldeyrissköpun, slegin köld niður á þeim rökum að ferðaþjónustan skapaði aðeins láglaunastörf og væri árstíðabundin.
Þetta átti sem sagt að hrinda þeirri staðreynd að á ári hverju kæmi meiri gjaldeyrir frá ferðaþjónustunni en frá nokkrum öðrum atvinnuvegi á landinu.
Hér á bloggsíðunni var fullyrðingin um láglaunastörfin hrakin og loksins núna eru ýmsir úti á landi, svo sem Mývetningar, loks að vakna til vitundar um möguleikana sem hér gefast til vetrarferðamennsku.
![]() |
Anthony Hopkins mærir Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)