19.3.2014 | 01:59
Stopp! - Gætum garðsins!
Eftirminnilegt síðdegi og kvöld eru að baki, frumsýning á stórmyndinni um Nóa, þar sem íslenskt landslag naut sín vel og síðan glæsilegir tónleikar í Hörpu.
Á slíkum degi hreyfir margt við huga manns og þetta spratt fram:
Stopp! - Gætum garðsins,
grassins og móabarðsins,
blómanna´og yndisarðsins
af útsýni fjallaskarðsins !
Stans! - Gætum fossa og flúða
með fegursta regnbogaúða
sem bylgjast um bergrisa prúða
og breiður af rósanna skrúða !
Djörf - grípum glaðbeitt til varna,
þótt grimm muni baráttan harðna !
Vort líf, það sé leiðarstjarna
landsins framtíðarbarna !
Heyr - Íslands herlúðra gjalla,
sem heita á landvætti alla
og lýð milli fjöru og fjalla
að friða - í stað helgispjalla !
Kom - í dýrð íssins og eimsins
í unaði bláfjallageimsins
og algleymi andlega seimsins
á Íslandi, gersemi heimsins !
![]() |
Sungu fyrir náttúru Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2014 | 14:03
Drap saltið einhverja? Og ef svo var, hve marga?
Um miðja síðustu öld var dánartíðni af völdum magakrabbameins afar há hér á landi. Ég var krakki þegar ég kynntist einu slíku tilfelli, veikindum og banalegu Sigurðar, bónda í Hrafnadal, sem nú er í eyði, en liggur norður af Laxárdalsheiði í Dölum og í vestur frá utanverðum Hrútafirði.
Faðir minn var þar í sveit og var annt um karlinn þegar hann kom suður, fyrst árið 1948 í sína fyrstu ferð til höfuðborgarinnar, og síðar tveimur árum síðar til að fást við magakrabbann og þreyja banaleguna.
Þá strax var faðir minn ekki í vafa um orsakir sjúkdómsins. "Þarna uppi í dalnum átu menn ýmist brimsaltan, kófreyktan eða súrsaðan mat, sem og siginn fisk. Því bragðsterkari, saltari, reyktari eða súrsaðri sem maturinn var, því betri fannst körlunum hann vera. Helst þurfti maturinn að vera svo bragðmikill, að manni fannst eins og úðað væri framan í mann eiturgufu, ef þeir blésu á mann yfir matarborðinu."
Ég hef það fyrir sið að finna bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á hlutunum. Ég er með bakflæði og það eru slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ég reyni að forðast saltað, reykt eða súrsað, því að það fer svo illa í vesalings veika vélindað mitt. Sennilega er það hollt.
Kannski var það reykti maturinn sem átti mesta sök á magakrabbameininu hér í den. En það má líka spyrja um það hvort saltið hafi ekki líka drepið einhverja, og ef svo var, hve marga.
![]() |
Íslendingar borða of mikið salt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.3.2014 | 09:05
Getur hún leynst lengi án þess að hafa farist ?
Svo ótrúlegt sem það virðist kann svarið við þessu að vera: Já. Hvert sem flugstjórinn eða flugstjórarnir báðir, eða þeir tveir í samvinnu við einhverja af farþegunum standi að hvarfi malasísku vélarinnar virðist koma æ betur í ljós að mikla færni og fyrirfram skipulagningu hefur þurft til að gera það sem menn þykjast nú vita að hafi verið gert.
Í ellefu ára gamalli pælingu minni sem ég greini frá í næsta bloggpistli á undan þessum, gerði ég ráð fyrir að sá eða þeir, sem hefðu yfirráð yfir flugvélinni, sem sett var inn í það dæmi, væru búnir að búa svo um hnúta að þeir réðu því sjálfir, hvort og þá hvenæar þeir fyndust.
Þeir tækju að vísu áhættu en ættu samt möguleika á allt að viku langri fjarveru frá umheiminum. Áhættan fælist í því að eitthvað óvænt kæmi upp á eða að vélin fyndist þrátt fyrir allt frekar fljótlega.
Dæmi mitt var sett upp í okkar heimshluta og því var ýmislegt frábrugðið malasíska dæminu, en grunnaðferðin var og er sú sama, að "hverfa." Á jörðu niðri væru þrír samstarfsmenn sem hjálpuðu til.
![]() |
Leit hafin á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.3.2014 | 00:46
Ellefu ára gömul pæling lifnar við.
Ég hef fengið ýmsar hugmyndir um ævina varðandi marga hluti, meðal annars efni í fréttir, sjónvarpsþætti, útvarpsþætti og bækur, og byrjað á svo mörgum en ekki klárað þær, að þær hugmyndir, sem ég hef þó komið í verk, eru aðeins brot af því.
Ég á í fórum mínum handrit og frumhugmyndir að slatta af bókum, mislangt komnar, meira að segja heilt frumhandrit að einni bókinni, sem ég tel þó að ég þurfi að endurskrifa.
Ein hugmyndin, sem ég fékk fyrir ellefu árum, snerist um hvarf flugvélar, sem ekki færist, en yrði þó að umfjöllunarefni í fjölmiðlum heimsins. Ég setti niður "grind" að handriti sem byggðist á miklum tæknilegum rannsóknum og pælingum til þess að módelið gengi örugglega upp.
Ég féll á tíma með þetta, enda skrifaði ég á sama tíma heila handritið, sem ég minntist á áðan og ég taldi þurfa betri athugunar við og endurskrift.
Ég tók þráðinn aftur upp þráðinn varðandi horfnu flugvélina nokkrum árum síðar, en komst ekkert lengra þá vegna annarra verkefna og ýmissa ástæðna og hef geymt þessa hugmynd sem trúnaðarmál með örfáum trúnaðarmönnum mínum, teljandi á fingrum annarrar handar.
Ég er ekki búinn að afskrifa að ljúka þessu verki, og hvorki ég né trúnaðarmenn mínir munu því veita um það meiri upplýsingar að svo stöddu.
Hvarf malasísku flugvélarinnar hefur af þessum sökum vakið meiri athygli mína en ella, og er það meðal annars ástæðan fyrir því hvað ég hef skrifað marga bloggpistla um það undanfarna daga.
Fráfall eða hvarf einstaklinga, einkum frægra einstaklinga, hefur alltaf yfir sér sérstakan blæ. Hér á landi má nefna hvarf séra Odds í Miklabæ og Reynistaðabræðra og mörg önnur mannshvörf allt fram undir okkar daga.
Ekki dregur úr þessu að alls konar getgátur verða jafnan til, þegar svona mál eru óleyst, og að dæmi eru um það erlendis að þeir, sem taldir voru af, komi löngu seinna fram sprelllifandi.
Meira að segja má nefna íslenskt dæmi, Íslendinginn sem sem hvarf sporlaust í Bandaríkjunum hér um árið og var talinn af, en kom mörgum árum seinna fram heill á húfi.
Þannig voru í marga áratugi eftir hvarf Amalíu Erhardts 1937, sögusagnir á kreiki um að hún væri lifandi, hefði verið rænt af Japönum o. s. frv., og eftir lát Marylin Monroe og þó einkum Elvis Presleys voru á sveimi alls konar sagnir um það að þau væru í raun lifandi, auk ýmissa samsæriskenninga.
Setningin "Elvis is in the building" gat haft fleiri en eina merkingu.
![]() |
Dularfull örlög 239 manna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2014 | 21:49
ALMA-verkefnið er líka spennandi.
Útvarpssjónaukaverkefnið á Suðurskautslandinu eru nú að byrja að skila inn byltingarkenndum uppgötvunum eins og sjá má á tengdri frétt á mbl.is.
ALMA stjörnuvísindaverkefnið í Andesfjöllum, sem nýlega er farið í gang er líka gríðarlega spennandi, af því að með því nálgast menn líka Miklahvell meira en áður hefur verið hægt og sjá hvernig vetrarbrautir, sólir og reikstjörnur myndast úr geimryki.
Þar nýta menn sér hið þunna loft í 5000 metra hæð og tækni, sem gerir kleift að nema fyrirbæri sem mannsaugað getur ekki greint og það í miklu meiri fjarlægð en áður hefur verið hægt, en það þýðir að það, sem sést, er nær Miklahvelli en áður hefur sést.
Byltingarkenndar upplýsingar streyma inn í svo miklu magni að vísindafólkið er í kapphlaupi við að vinna út því og sér engan hvergi nærri fyrir endann á því verki.
Það virðist engan enda ætla að taka hvað við lifum á spennandi tímum.
![]() |
Ein mesta uppgötvun stjarnvísindanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2014 | 19:57
Búin að vera líklegust síðustu árin.
Útlendingarnir sem ég hitti og spyrja mig hvar og hvenær ég haldi að gjósi næst á Íslandi fá það svar að Hekla gæti gosið eftir klukkustund en líka eftir mörg ár og að Katla gæti líka tekið upp á ýmsu.
Ekki sé að vænta goss í Grímsvötnum fyrr en eftir fimm til sjö ár.
Síðan koma svipaðar útskýringar varðandi Heklu og hjá Páli Einarssyni jarðfræðingi í samtali við mbl.is.
En ég bæti því líka við að í níu eldgosum og alls fjórtán umbrotahrinum í Kröflueldum 1975-84 hafi landið risið hærra fyrir hvert gos eða umbrot neðanjarðar án goss en það reist hæst fyrir næstu hrinu á undan.
Hekla virðist vera í einhvern veginn svona fasa núna og er því hið mesta ólíkindatól.
Hún gaus með 50-100 ára millibili öldum saman en byrjaði svo allt í einu að gjósa tíðar eftir 1947, fyrst 1970 og síðan 1980-81, 1991 og 2000. Og nú er goshléð hið lengsta síðan á milli gosanna 1947 og 1970.
![]() |
Kvikusöfnun meiri í Heklu en árið 2000 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2014 | 11:29
Matthías Rust lenti á Rauða torginu í miðju Kalda stríðinu.
Flugsagan geymir ekki aðeins dularfull hvörf flugvéla sem aldrei komu fram heldur einnig flug flugvéla, sem tókst að fljúga ólöglega í leyni og lenda klakklaust.
Mathias Rust, þá 18 ára, leigði sér Cessna Skyhawk eins hreyfils vél í Finnlandi og flaug henni þaðan alla leið til Moskvu og lenti rétt við Rauða torgið í maí 1987 þrátt fyrir öflugar loftvarnir og ratsjáreftirlit Sovétmanna.
Að vísu varð vart við flugvélina á leiðinni, en vegna óvissu um það hvort þetta væri einfaldlega vél heimamanns, var ekkert gert í málinu.
Rust kvaðst gera þetta til að að "byggja ímyndaða brú milli austurs og vesturs".
Það var fífldjarft uppátæki en að vissu leyti lagði hann með þessu skerf til þíðunnar í Kalda stríðinu, vegna þess að þetta ótrúlega atvik rýrði myndugleika sovéska hersins og Gorbasjof fékk tækifæri til að reka ýmsa af þeim sem voru honum mótdrægir innan hersins og þar með rýmra tækifæri til að koma á umbótum sínum.
![]() |
Flugvélaverkfræðingur meðal farþega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2014 | 01:50
Í fararbroddi fyrir frelsi og mannréttindum?
Á lokaárum átjándu aldarinnar voru Frakkland og Bandaríkin þau lönd, þar sem helst komu fram nútíma hugmyndir um frelsi, jafnrétti og bræðralag og mannréttindahugsjónin var fóstruð.
Eitt þekktast táknið um þetta er Frelsisstyttan, sem Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum, heilsaði innflytjendum sem komu til New York lengst af og er heimsþekkt tákn sem skapað hefur þakklæti og virðingu fyrir þessum þjóðum, meðal annars hjá mér.
Ég hef áður bloggað um þá hrapallegu mótsögn við hugsjónina um frelsi og mannréttindi, sem bandaríska réttarkerfið hefur fætt af sér. Einnig um metfjölda fangelsaðra og myrtra með skotvopnum, miðað við sambærilegar vestrænar þjóðir.
Sumir hafa snuprað mig fyrir það og sagt mig illviljaðan í garð Bandaríkjamanna vegna þessarar gagnrýni og það að þessi gagnrýni skuli hafa verið endurtekin.
Þetta er afar billeg afgreiðsla á viðleitni minni til þess að leggja mitt á vogarskálarnar til að Bandaríkin rísi undir nafni sem forysturíki í mannréttindum, þjóð sem ól af sér Roosevelt og Martin Luther King.
Baráttan fyrir mannréttindum krefst sífelldrar vöku þeirra, sem vilja veg þeirra sem mestan, og það ekkert síður í okkar eigin heimshluta. Þeir sem benda á það sem hægt er að bæta vilja veg þess heimhluta sem mestan.
Í tveimur fréttum á mbl. is íer fjallað um skuggahliðar bandarísks réttarkerfis, annars vegar um viðbjóðslega aftökur sakamanna og hins vegar um 25 ára dvöl dauðadæmds en saklauss blökkumanns.
Í síðarnefndu fréttinni er fjögurra atriða getið:
1. Ekkert morðvopn fannst. 2. Engin vitni fundust. 3. Hinn ákærði neitaði ávallt sök. 4. Kviðdómurinn var eingöngu skipaður hvítum mönnum.
Bæta mætti einu atriði við: 5. Engin bitastæð ástæða meints morðingja fannst til morðsins.
Þótt 25 ár séu langur tími kom þó að því að menn þarna vestra tóku á sig rögg og viðurkenndu rangan dóm.
Þetta leiðir hugann að íslensku sakamáli þar sem tvö mannshvörf voru spyrt saman í eitt mál, fólk var dæmt í lengri fangelsisdvöl en dæmi eru um hér á landi, en ennþá hafa menn ekki tekið á sig rögg og viðurkennt að rangur dómur hafi verið kveðinn upp. Þar mætti nefna nokkur atriði:
1. Ekkert morðvopn fannst. 2. Engin vitni utan hinna ákærðu fundust. 3. Með ólöglegum aðferðum voru þingaðir fram síbreytilegar og mótsagnakenndar játningar og vitnisburðir ákærðu, sem síðar drógu það allt til baka. 4. Dómurinn var kveðinn upp undir fáheyrðum þrýstingi frá ráðamönnum og almenningi. 5. Engin ástæða til morðsins fannst.
Bæta má við einu aðalatriði: 6. Ekkert lík fannst. Það var þó fyrir hendi í máli hins bandaríska blökkumanns.
Hve mörg ár þurfa að líða í viðbót til þess að við Íslendingar gerum þetta mál upp á þann hátt að við getum talist vera í hópi þeirra þjóða, sem eru fararbroddi í baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum?
![]() |
Saklaus á dauðadeild í 25 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2014 | 18:37
Mistökin að velja versta kostinn á versta tíma.
Viðræður við ESB eru búnar að "malla" í rólegheitum meira en ár. Hjá nokkrum ríkjum í Evrópu, svo sem Sviss og Möltu, hefur slíkt "mallað" mismunandi lengi.
Forystumenn stjórnarflokkanna mátt vita af áratuga langri reynslu í íslenskri og erlendri pólítík, að ástandið í landsmálum getur haft veruleg áhrif á byggðakosningar.
Dæmin frá 1958, 1978 og 1994 hefðu átt að nægja.
Þeir ákváðu hins vegar að fara í hasar í stórmáli í aðdraganda byggðakosninganna nú í stað þess að lofa því máli að malla að minnsta kosti fram yfir kosningar.
Eftir kosningar gátu þeir síðan skoðað í rólegheitum möguleika til þess að hafa tilbúna áætlun um viðræður við ESB, þar sem ópólitískum sérfræðingum yrði falið að leiða þær, líkt og gert var í Icesave samningunum.
Þegar slík áætlun var tilbúin, gátu þeir efnt kosningaloforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu og sömuleiðis staðið við það sem þeir sögðu fyrir kosningar, að enginn "ómöguleiki" þyrfti að koma í veg fyrir svona málsmeðferð.
Þeir misreiknuðu áhrifin af þessu frumhlaupi, vilja þjóðarinnar og það að þeir eru kosnir sem þjónar hennar, en ekki öfugt, og að kröfunni um möguleika á meira beint lýðræði veg ásmegin.
Það ætti enn að vera mögulegt að finna lausn á þessum máli, og hvað stjórnarflokkana snertir, hljóta áhrifin á byggðakosningarnar að vega þungt við að finna slíka lausn sem bjargar því sem bjargað verður.
![]() |
Það hefur ekkert verið ákveðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.3.2014 | 14:47
Stóriðjan þarf sitt.
80% raforkuframleiðslu á Íslandi fer til stóriðju og það veldur því að jafnvel 10% skerðing á raforku til hennar jafngildir hvað orkumagn snertir 40% skerðingu allrar þeirrar orku, sem fer til annars í landinu.
Talað er um að það verði að reisa risaháspennulínur á milli landshluta til þess að auka afhendingaröryggi til okkar sjálfra. Það stenst ekki, því að aðeins vegna hins rómaða "orkufreks iðnaðar" verður að hafa línurnar svona risastórar og umhverfisspjöllin af þeirra völdum svona mikil.
Eftir sem áður héldi áfram vanræksla á héraðslínunum, sem farið hafa verst út úr óveðrum síðustu ára.
Talað er um að sæstrengur til Evrópu myndi hafa breytt stöðunni núna, en þá er því sleppt að svona orkuskortur hér á landi kemur yfirleitt ekki í ljós fyrr en á útmánuðum, en þá er líka mesta orkunotkunin í Evrópu og orkuverðið hæst.
Nú barma íslensk fyrirtæki eins og Frostfiskur sér yfir háu orkuverði vegna orkuskorts, en orkan, sem fengin yrði frá Evrópu um sæstreng, yrði seld hingað á hæsta verði hvers árs ef um algerlega frjálsa orkuverslun yrði að ræða, og einnig á allt að helmingi hærra verði en nú er allt árið.
![]() |
Orkuskortur setur 190 störf í uppnám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)