Þarf að virkja frumlega sköpunargáfu ungs fólks.

Það er fagnaðarefni að þátturinn Orðbragð verði aftur á dagskrá næsta vetur og að keppikefli stjórnendanna verði að ná til unga fólksins.  

Í hagstæðu umhverfi elskar ungt fólk með frjóa hugsun að skapa íslensk nýyrði og þessi sköpunarmáttur er eitt af því sem auðgað getur hvað mest íslenska tungu.

Ég minnist þess að þegar ég var ungur var það yngra fólkið sem bjó til orð og orðtök eins og nafnorðin "tryllitæki",  "kaggi","fjögurra/sex/átta gata", "spyrna" "fýsa" (kvk.nafnorð, hún, fýsan, sú sem er fús), "lús", samanber örsmá Fiat-lús, "sleikur", "skutla", "Hallærisplanið", skemmtilegar nýjar merkingar orða eins og "glataður", "pottþéttur" og einnig hljóðlíkingar eins og "skvísa", "töffari", "rokk", "Bítlar", "hippar", "spes".

Það fer í taugarnar á mér þegar kollegar mínir bílablaðamenn tala um bílar séu svo og svo margra sílindra eða cylindra í stað þess að nota hið miklu styttra íslenska heiti að þér séu þetta margra gata eða þetta margra strokka.

Það er engu líkara en mörg nýyrði spretti upp innan úr fjöldanum án þess að vitað sé hver það var sem fyrstur sagði þau eða skrifaði. Hver skyldi til dæmis hafa verið fyrstur til að nota hið frábæra nýyrði "handrukkari"?  


mbl.is Orðbragð aftur á skjáinn næsta vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vantar djúpstæða rannsóknarblaðamennsku.

Eitt af afleiðingum Hrunsins var stórskerðing á getu fjölmiðlanna.

Þeir töldu sig tilneydda að segja reynsluboltum upp, fækkað starfsfólki mikið og ráða ódýrari starfsmenn. Afleiðingin er vaxandi kranablaðamennska og sár vöntun á djúpri og vandaðri rannsóknarblaðamennsku því að óskiljanlegar mótsagnir blasa við í fréttum af sjávarútveginum.

Þrátt fyrir stórlækkað veiðigjald eru sagðar fréttir af því að hætta verði við útgerð stærstu og öflugustu skipanna hér við land.

Sagt er að minni útgerðirnar þoli veiðigjaldið verst en samt koma svona fréttir frá stórútgerðum.

Á sama tíma eru dæmi um að eigendur stórra útgerðarfyrirtækja úthluti sjálfum sér hundruð milljóna króna í árlegan arð og það úr fyrirtækjum, sem fengu afskrifaða milljarða eftir Hrunið.

Á sama tíma má víða þekkja það hverjir eiga þessi fyrirtæki á stórum villum þeirra í viðkomandi plássum með jafnvel mörgum bílskúrum og stærstu glæsijeppunum.

Sagt er að útgerðin við Afríku borgi sig betur en á Íslandsmiðum.

Fregnir berast af rányrkju á þessum fjarlægu miðum, jafnvel verri en stunduð var af Englendingum við Ísland þegar landhelgin var lítil og að við förum verr með fátækar þjóðir í Afríku en Englendingar fóru með okkur.  

Nú vantar djúpa, mikla og vandaða rannsóknarblaðamennsku til að útskýra þessu mótsagnarkenndu mynd.


mbl.is „Það halda allir að útgerð sé djók“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æskuminnning úr Reykjavík 1945, óhugsandi nú.

Ég minnist þess úr barnæsku minni haustið 1945, þegar fjölskylda foreldra minna var nýflutt í Stórholt, sem þá var gata við austurjaðar borgarinnar, að ég sá í fyrsta sinn heiðan stjörnuhimininn með sinn herskara af stjörnum fyrir ofan mig og spurði föður minn margra spurninga sem hann reyndi að svara.

Hverfið á Rauðaárholti stóð eitt og sér fyrir austan Norðurmýri, því að braggar Bandaríkjahers stóðu enn auðir þar sem nú eru vestasti hluti Skipholts, Stangarholts og Stórholts.

Göturnar voru malargötur og ljósastaurar ekki komnir. Þessi ógleymanlega sýn væri óhugsandi á okkar tímum á sama stað, svo mjög hefur ljósmagnið margfaldast með aukinni lýsingu og stækkandi borgarsamfélagi.

Iðunn, dóttir mín, flutti með Friðriki Garðari Sigurðssyni og börn sín austur í Vík í Mýrdal fyrstu árin sem þau störfuðu sem kennarar.

Þegar þau komu til baka voru eftirminnilegustu stundirrnar þarna fyrir austan ekki fegurstu sumardagarnir heldur dimmir og kyrrir vetrardagar með heiðum himni, stjörnuhvelfingunni með óteljandi stjörnum sínum og norðurljósum, þegar hægt var að hlusta á brimhljóðið, sem barst í þögninni alla leið frá Reynisdröngum og horfa á hafið, sindrandi í birtu mánans.

Bæði voru þau borgarbörn og höfðu farið á mis við upplifun, sem þeim fannst sú magnaðasta í lífi þeirra fram að því.

Ísland býr enn að hluta til yfir víðernum og óbyggðum, fyrirbærum sem eru alveg að hverfa eða gersamlega horfin í öðrum löndum.

'Í skefjalausu kapphlaupi okkar eftir efnislegum gæðum er það heitasta áhugamál margra að njörva landið allt niður í mannvirki af öllum mögulegum toga til þess að land okkar verði sem allra líkast hinum þéttbýlu löndum Evrópu.

Í skipulagi miðhálendisins er þegar gert ráð fyrir svonefndum "mannvirkjabeltum" þvert yfir hálendið, bæði um Kjöl og Sprengisand. Mikill þrýstingur "áhugamanna" er á upphleyptan trukkaveg eftir endilöngu hálendinu norðan Vatnajökuls.

Mannvirkjabeltin, sem þegar eru komin á blað, verða vegir, háspennulínur af stærstu gerð og raðir af virkjunum með öllum sínum borholuhávaða, brennisteinsvetnismengun, gufustrókum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum, stíflum og miðlunarlónum. Virkjanahugmyndirnar á hálendi Íslands skipta mörgum tugum.  

Draumsýnin er að við framleiðum minnst tíu sinnum meiri raforku en við þurfum til eigin þarfa, helst 15 til 20 sinnum meiri, og seljum hana til orkufrekustu stóriðju sem heimurinn þekkir og gernýtum afganginn í gegnum sæstreng til Evrópu.

Ég er ekki að grínast, - þetta er allt á teikniborðinu og tímanna tákn, að allar fjárveitingar til friðunar svæða hafa verið aflagðar, öllu fólkinu sem vann að þeim sagt upp störfum, og rætt í fullri alvöru um að leggja umhverfisráðuneytið í núverandi mynd niður og færa verkefni þess inn í deild í atvinnuvegaráðuneyti.   


mbl.is Ljósmengunin hér á við stærri borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkufylleríð er óstöðvandi.

Á sama tíma og Helgi Björnsson fjallar um afleiðingar loftslagshlýnunar á ráðstefnu um íslenska jökla og minnkun þeirra mátti sjá í sjónvarpsfréttum í kvöld hvernig Kanadamenn eru að ganga af göflunum í sístækkandi tjörunámum sínum til olíuvinnslu.

Og eins og jafnan, þegar slík græðgi er á ferðinni, eru glæstar framtíðarhorfur settar fram með tölum sem eru með veldisvöxt, það er, tvöföld vinnsla eftir tíu ár, fjórföld eftir 20 ár og svo framvegis.

Skógar eru ruddir og gróðurlendi eytt til þess að komast að þessum tjörulögum og Ameríkanar, bæði Kanadamenn og Bandaríkjamenn, eru á fullu við að vinna gas úr jarðlögum með stórvirkri aðferð, sem hjálpar þeim til að verða minna háðir olíu Sádi-Araba.

Kanadamenn fá kanadískradollaraglampa í augun við tilhugsunina um það að landið er eitt ríkasta land heims varðandi jarðefnaeldsneyti og þegar íbúarnir eru tíu sinnum færri en Bandaríkjamenn, verður gróðinn meiri á hvern íbúa.

Ábyrgðarleysi Kana er algert. Tilraunir til alþjóðlegs samstarfs til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis fara jafnan út um þúfur vegna andstöðu þeirra.

Ekki bætir sívaxandi orkufyllerí Kínverja, Indverja og fleiri þjóða úr skák né framferði Rússa.

Og íslenskir ráðamenn iða í skinninu eftir því að Ísland geti orðið mesta olíuríki heims miðað við íbúafjölda, enda hefur hálfrar aldar síbylja um dýrð "orkufreks iðnaðar" gert það að verkum að Íslendingar slefa eins og hundar Pavlovs við það eitt að heyra þessi tvö dýrðarorð, sem eftir orðanna hljóða mesta mögulega orkubruðl og eins mikla stóriðju og orkulindir landsins geta fullnægt.    


mbl.is Við erum öll að glíma við ísinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrfti að kortleggja flutning verslunar- og þjónustufyrirtækja.

Eitt lögmál ræður mjög ríkjum um staðsetningu frjálsrar verslunar- og þjónustu: Hún leitar í áttina að þungamiðju byggðar og stórum krossgötum.

Þungamiðja byggðar á höfuðborgarsvæðinu er innarlega í Fossvogi Kópavogsmegin og skammt austan við hana eru stærstu krossgötur Íslands.

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með flutningi verslunar- og þjónustufyrirtækja í átt að þessari þungamiðju, stundum í áföngum. Nafnið Bankastræti þarfnast nú sérstakrar söguskýringar við og gamli miðbærinn stefnir í það að vera hverfi hótela og verslunar og þjónustu í kringum ferðamenn og stjórnsýslustofnanirnar sem þar eru.

Landsbankinn er farinn af Laugavegi 77, Arion banki þar skammt fyrir austan er líka á förum og meira að segja Landsbankinn við Austurstræti heitir ekki lengur aðalbanki heldur útibú og höfuðstöðvarnar eru á förum austur í Borgartún.  

Á göngu meðfram röð stórra bakhúsa við Suðurlandsbraut sést að mörg þeirra eru auð, en áður var þar iðandi líf ýmissa verslunar- og þjónustufyrirtækja.

Þau fyrirtæki eru komin upp á Ártúnshöfða og suður í Garðabæ.  

Gaman væri ef einhver tæki sig nú til og kortleggði þessa flutninga verslunar- og þjónustufyrirtækja síðustu ár eða áratugi og sömuleiðis væri æskilegt að hætta að líta alltaf á Reykjavík eina þegar svona er ígrundað, heldur skoða í staðinn allt höfuðborgarsvæðið.

 


mbl.is Banka breytt í veitingastað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nikótín og heróín, hæstu prósenttölurnar.

Hér um árið voru birtar áætlaðar tölur um það hve ávanabindandi fíkniefni væru, þ. e. hve mörg prósent þeirra sem byrjuðu neyslu, misstu stjórn á henni.

Hæstu tölurnar þá voru: Áfengi 13%, kókaín 18%, heróín 23% og nikótín 33%. Öll efnin fela í sér hættu á dauða af völdum neyslunnar en þó ekki á sama hátt.

Sumir geta nefnilega misst neyslu úr böndunum og verið fíklar með stórskertri heilsu og lífsgæðum áratugum saman. Neyslan er líka nokkuð persónubundin og þol gegn afleiðingunum, þótt skaðsemin sé ævinlega svipuð.

Munurinn á heróíni og nikótíni er sá að heróínið drepur yfirleitt fyrr en nikótínið. Þó eru til dæmi um að menn á miðjum  aldri hafi dáið af völdum reykinga en oftast hefna tóbaksreykingar sín síðar á ævinni.

Frægasti og jafnframt illræmdasti heróínfíkill sögunnar var sennilega Hermann Göring yfirmaður flughers nasista. Hann særðist í fyrra stríðinu, var gefið heróín á sjúkrahúsinu til að lina þjáningarnar og losnaði aldrei úr viðjum þess.

Neyslan háði honum áreiðanlega og kom (sem betur fer) niður á hæfni hans til að stjórna þýska flughernum. Luftvaffe hafði í upphafi stríðs alla burði til að færa Þjóðverjum enn betra gengi í stríðinu en raun varð á.

En óhæfir stjórnendur eins og Göring og Ernst Udet drógu úr getu hans auk skilningsleysis Hitlers á því láta flugherinn fá meiri vigt en fólst í því að styðja landherinn í leiftursóknum hans. Dæmi um mistök Hitlers var það að leggja ofuráherslu á að fyrsta orrustuþotan, Messerschmitt Me 262, ætti að verða sprengjuflugvél frekar en orrustuflugvél.

Þegar það uppgötvaðist að Me 262 var frábærasta orrustuflugvél stríðsins var það of seint.

Eini tíminn eftir að Göring varð "hreinn" eftir að hafa verið forfallinn heróínfíkill í 25 ár, var þegar hann var í fangelsi eftir stríðið áður en hann tók sjálfur líf sitt rétt fyrir fyrirhugaða aftöku vegna stríðsglæpa. 

Sonny Liston, besti þungavigtarhnefaleikari heims 1960-64 fannst dauður á hótelherbergi í Las Vegas 1970 og taldi lögregla dánaarorsökina vera ofneyslu heríóíns.

Þótt heróínið geti verið blekkjandi fíkniefni er talið miklu líklegra að glæpasamtök hafi drepið Liston en hann sjálfur, því að enda þótt hann væri vínhneigður var hann sjúklega hræddur við nálar og nálarstungur. Rannsóknin á dauða hans var meiriháttar klúður og sumir ýjuðu að því að löggan hefði verið í vitorði í því máli.

Liston var á sigurbraut og stefndi að því að keppa um heimsmeistaratitilinn þegar hann tapaði óvænt fyrir rísandi stjörnu, Leotis Martin. Það hefur áreiðanlega veikt stöðu hans í hugsanlegum tengslum hann við undirheimana, en orðróminn um þau gat hann aldrei hrist af sér.

 


mbl.is Heróín þýðir dauði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kerfisbreytingar m.a. stytting náms" gefa ekkert núna.

Menntamálaráðherra treystir sér eðlilega ekki til þess að véfengja þær tölur um meiri kjararýrnun framhaldsskólakennara en sambærilegra stétta, sem þeir hafa sett fram.

Sú rýrnun hefur staðið undanfarin ár og nú er svo komið að langvarandi þolinmæði kennaranna er auðvitað á þrotum.

Svo er að heyra að ráðherrann ætli að leysa þessa kjaradeilu með því að slengja framan í kennara frösum eins og "kerfisbreytingar, þar á meðal stytting náms" og fá þá til að trúa því að þessir fuglar í skógi séu ígildi tafarlausra launaleiðréttinga.

Það er þar að auki meira en að segja það og breyta því með einu prennastriki að stytta námstímann.

Er sérkennilegt að ráðherra flokks, sem segist berjast fyrir frelsi, setur fram hugmyndir um harða miðstýringu til að þvinga fólk til að beygja sig undir slíkar ráðstafanir, sem munu auka hættuna á brottfalli úr skólanámi, sem þegar er meira hér á landi en í öðrum löndum.

Það hefur löngum verið kostur við íslenskt skólakerfi að nemendur hafa fengið færi á því að kynnast íslensku atvinnulífi til sjávar og sveita um sumartímann og í skólaleyfum.

Hversu mjög sem miðstýringartrúaður menntamálaráðherra vill, mun hann til dæmis ekki breyta þeirri staðreynd að stóraukinn straumur kallar á aukið vinnuafl á aðal ferðamannatímanum.

Nemendur í framhaldsskólum auka við færni sína í erlendum tungumálum og kynnum við erlenda menningu auk betri innsýnar í íslenskt atvinnulíf og þjóðlíf með því að taka að sér aukastörf, sem skapast um sumartímann. Þeir auka einnig tekjur sínar og þar með möguleika á að geta haldið áfram námi eftir að framhaldsskólanámi lýkur.

Aðalatriðið er hins vegar það, að kennurunum dugar ekki slagorð um styttingu náms nemenda sem mörg ár tæki að framkvæma og er þar að auki tvíbent aðgerð sem við íslenskar aðstæður er óvíst að skili árangri.

Launadeiliur leysast ekki með því að lofa upp í ermina á sér hugsanlegum launahækkunum eftir mörg ár.


mbl.is Skapi svigrúm til launahækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það kemur að því að konur bjarga heiminum - með hjálp karla."

Vigdís Finnbogadóttir var rétt í þessu að segja þessi orð, sem voru lokaorðin í viðtali hennar við Evu Maríu Jónsdóttur í eftirminnilegu viðtali í Sjónvarpinu: "...Það kemur að því að konur bjarga heiminum - með hjálp karla."  

Aðdragandinn að þessum orðum var ekki síður athyglisverður,  - um skarðan hlut kvenna í heiminum og vaxandi skilning á óréttinum sem viðgengst gagnvart þeim og ekki síður því tjóni, sem hlýst af því að hæfileikar þeirra fái ekki að njóta sín.

Þessi lokakafli viðtalsins á það skilið að vera birtur opinberlega okkur öllum til umhugsunar, þótt ég hafi hann ekki fyrir framan mig né muni hann orðrétt akkúrat núna.  

Takk, Vigdís. Takk.  


Koma óorði á andóf.

Um daginn sást á netinu mynd af því þegar æstir ofstopamenn úðuðu úr úðabrúsum framan í Vitaly Klitschko þegar hann var að reyna að koma í veg fyrir að átök lögreglunnar við bullur þessar færu úr böndunum.

Þetta minnti á svipað atvik í Búsáhaldabyltingunni hér heima í janúar 2009 þegar hluti mótmælenda snerist til varnar lögregluþjónum gegn bullum, sem réðust að lögreglunni á ruddalegan hátt.

Með því var komið í veg fyrir að ástandið færi algerlega úr böndunum.

Nefna má mörg svona dæmi um það að þegar mótmælaaðgerðir eru í gangi virðist vera til hópur manna, sem fær mikið út úr því að beita grófum meðölum til að magna átök og komast í hrein slagsmál, svo að ekki sé nú talað um grjótkast og notkun barefla.

Þetta bitnar á andófinu en ekki þeim, sem andófið beinist gegn, og kemur óorði á hófstilltar andófsaðgerðir.

Ummæli Viktors Janúkóvitsj forsta Úkraínu, þar sem hann alhæfir um mótmælendur og er á mörkum þess að líkja þeim við nasista, eru dæmi um það þegar ofstopamenn koma óorði á andóf, þótt ekki nema bara vegna þess að með hegðun sinni gefa þessar bullur valdsherrum færi á að alhæfa um andóf og gera það tortryggilegt.

Ég man þá tíma þegar hópur manna gerði á hverju gamlárskvöldi aðsúg að lögreglustöðinni í Reykjavík og braut þar meira að segja rúður með grjótkasti. Í þessu braut sér leið ákveðin skrílmenning og þörf fyrir "hasar" og óeirðir sem setti leiðinlegan svip á hátíðahöld áramótanna.

Eftir að byrjað var að hafa stórar áramótabrennur í helstu hverfum borgarinnar dró úr þessu og Áramótaskaup Sjónvarpsins drap þessar óeirðir endanlega, sem betur fór.  


mbl.is Segi nei við öfgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert fyndið, - dauðans alvara.

Það virðist nokkuð ljóst að tilkynningin um sökkvandi bát og menn í gær hafi verið gabb. Ef þeir, sem að slíku og þvílíku standa finnst það fyndið, er það svo sannarlega ekki þannig, heldur dauðans alvara.

Ekki aðeins vegna margra milljóna króna kostnaðar, líkast til hátt á annan tug milljóna, heldur bæði vegna þess, að meðan svo stór óþörf aðgerð er í gangi rýrist getan til að sinna öðrum verkefnum og einnig vegna þess, og að meiri hætta geti orðið á því síðar að óskýrt en raunverulegt neyðarkall verði í í ljósi þessa atviks síður tekið alvarlega.

Í fluginu er talið mikilvægt að þegar flogið er sé alltaf einhver aðili á jörðu niðri eða á flugi, sem hafi vitneskju um viðkomandi flug og helstu atriði þess, hvaðan, hvert, hvaða leið, hve lengi, hve mikið flugþol, hverjir um borð, hvaða farsímanúmer.

Þetta er gert til að tryggja, að fari eitthvað úrskeiðis, vitnist sem fyrst um það, jafnvel þótt hvorki flugstjórinn né farþegar hafi ráðrúm eða aðstöðu til að gera viðvart.

Sama gildir í raun um allar ferðir fólks á sjó, landi og í lofti. Ef svona kerfi er í gangi, vitnast fljótlega um það ef eitthvað fer úrskeiðis, og strax síðdegis í gær fór það að verða grunsamlegt, að þrátt fyrir ítarlegan fréttaflutning af neyðarkallinu og leitinni, saknaði enginn neins.  

 


mbl.is Mikill kostnaður við leitina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband