AÐ LOKA SJOPPUNNI Í JANÚAR.

Ég hef stundum sagt í hálfkæringi að það besta sem Íslendingar gætu gert væri að "loka sjoppunni" hér heima frá þrettánda fram á þorra og að sem allra flestir færu þá til suðrænna stranda í þrjár vikur til að hressa upp á sál og líkama í mesta kuldanum, myrkrinu og rokinu. Þetta myndi skila sér í auknum afköstum og lífgleði aðra tíma ársins.
Því miður hafa ekki allir efni á þessu en margir þó.

Jón Baldvin Hannibalsson er maður sem er gæddur þvílíku andlegu þreki og frískleika að það er synd að hér heima skuli slíkt mannlegt náttúruafl ekki nýtast. Ég kynntist því mjög vel í fyrravor að hann var bókstaflega að springa af lífsorku og var í betra formi en ég hef kynnst hjá honum í áratugi.

Minnisstæð er frábær ræða sem hann flutti í Bæjarbíói í Hafnarfirði í baráttunni vegna álversins. Betri ræða var að mínum dómi ekki flutt um orku- og umhverfismál á þeim tíma. Ég hafði hitt hann nokkrum sinnum áður og hann var undra fljótur að átta sig á helstu atriðum þessara mála og flytja um þau þessa mögnuðu ræðu.

Ekki þurfti að spyrja að flutningum og kraftinum sem reif þessa ræðu upp í hæðir. Gott er að þau Bryndís skuli njóta lífsins og láta þá drauma sína rætast sem mögulegt er.


mbl.is Jón Baldvin og Bryndís Schram láta gamlan draum rætast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AF HVERJU ER ALLTAF SVONA HVASST?

Svar við ofangreindri spurningu er einfalt. Á öllum kortum sem sýna meðaltöl í veðurfari fyrir janúar, þ. e. meðaltalsveðurlagið á veturna, er annars vegar næsthæsta hæð loftþrýstings á norðurhluta jarðar yfir Grænlandi, og hins vegar LÆGSTI MEÐALLOFTÞRÝSTINGUR JARÐAR sunnarlega á Grænlandshafi fyrir suðvestan Ísland. Meðan Grænlandsjökull er við líði verður þetta svona og vegna þess hve stutt er á milli hæðarinnar og lægðarinnar er mesti og samfelldasti meðalvindstrengur jarðarinnar við Ísland að vetrarlagi.

Þetta er meðaltal, en í raunveruleikanum eru þetta lægðirnar sem fara hver af annarri oftast í norðausturátt við Ísland, "Íslandslægðin" eins og nágrannaþjóðir okkar kalla þetta fyrirbæri stundum.

Algengasti vindgangurinn er þessi: Fyrst hvöss suðaustanátt meðan lægðin nálgast, síðan hvöss suðvestanátt meðan hún er að fara hjá og síðast hvöss norðanátt þangað til hæðarhryggur milli lægðarinnar og næstu lægðar fer yfir landið og nýja lægðin tekur við.

Á sumrin er meðallægðin grynnri og sömuleiðis Grænlandshæðin og vindar og veður draga dám af því. 


SONUR LÆRÐI EKKI AF FÖÐUR.

George Bush eldri fór að ráðum góðra ráðgjafa og lét her sinn ekki halda áfram til Bagdad og steypa Saddam Hussein af stóli eins og honum hefði verið í lófa lagið. Ráðgjafarnir sögðu að það hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. Bush eldri gætti þess að hafa alþjóðlega samstöðu um hernaðinn og fara að alþjóðalögum. Sonur hans gerði flest öfugt við föður sinn í hefnd sem byggð var á uppspuna um gerðeyðingarvopn sem reyndust ekki vera til.

Þakka má forsjóninni fyrir að Bush yngri var ekki forseti þegar misvitrir hershöfðingjar lögðu til að varpa kjarnorkusprengju á Kyoto en Stimson hershöfðingi lét það vera eitt sitt síðasta verk að fá Truman forseta á sitt band og grípa ekki til slíks óyndisúrræðis.

Bush yngri hefði vafalaust hent hugmynd Mac Arthurs hershöfðingja á lofti um að beita kjarnorkuvopnum gegn Kína, en Truman setti hins vegar Mac Arthur af.

Ólíkir forsetar, annars vegar Truman, fyrrum vefnaðarvörukaupmaður frá Missouri, sem eyddi 15 árum ævi sinnar í að vinna sig upp úr gjaldþroti og komast til æðstu metorða á eigin verðleikum og heilbrigðri skynsemi, og hins vegar pabbasonurinn sem fór í misskilda hefndarherför og er nú Guði sé lof er nú senn að enda forsetatíð sína.

Hvað verða margir látnir í Írak þegar þessi ósköp enda, ef þau gera það þá nokkurn tíma?


JÚ, 30 PRÓSENT, EN EKKI ÉG.

Mér skilst að rannsókn hafi leitt í ljós að óviðráðanlegt þunglyndi herji á 30 prósent fólks einhvern tíma á ævinni. Þar sem tíu manns koma saman ættu því að meðatali þrír að geta stigið fram og sagt: Ég er einn af þeim. En það gerist ekki. Hver og einn getur svo sem fallist á að þetta séu 30 prósent, - en, - ekki ég. Enda einkamál.

Ég er einn af þeim sem hef haft það sem einkamál mitt og minna nánustu að ég fékk þunglyndisköst sem gátu enst í allt að 1-2 daga á aldrinum 9-21 árs. Þá hvarf þetta, ég fékk síðasta kastið 1962 og síðan ekki söguna meir.

Lýsingin á þessum krankleika er einföld í mínum huga. Í tilfelli svipuðu mínu er viðkomandi sem lamaður, getur ekkert gert- horfir á sjálfan sig þjást í einrúmi líkt og aðra persónu og veit af reynslunni að vegna þess að kastið muni hvort eð er líða hjá væri best að stytta það strax en að láta það halda áfram. En það er ekki hægt frekar en að maður geti ákveðið að láta flensu eða lungnabólgu á hverfa á stundinni, bara rétt si svona.

Þetta er ótrúlegt fyrir þá sem ekki hafa reynt það. Þetta er sjúkdómur sem getur staðið mislengi alveg eins og aðrir sjúkdómar. Líka komið í mislöngum köstum eins og bakveiki, flogaveiki eða mígreni. Þetta gerðist misjafnlega oft hjá mér og stundum var langt á milli, margir mánuðir. 

Enginn utanaðkomandi hefði getað trúað því að ég glímdi við þetta á fyrstu árunum sem ég fór um allar byggðir landsins sem skemmtikraftur með grín og glens. Allir hefðu hins vegar getað trúað því að ég fengi bakveikisköst eða hálsbólguköst.  Fólki er hættara við þessum einkennum á unglingsárum og síðan eldist það af því. Ég reikna með því að vegna þess hve ég var bráðþroska hafi þetta komið svona snemma fram hjá mér. Ég ólst upp á heimili áfengisvandamála foreldra minna og stormasamrar sambúðar þeirra, ég var elstur systkinanna og tók þessi vandamál inn á mig.

Sjúkdómar há okkur öllum í mismiklum mæli. Sjúkdómar geta hamlað getu okkar tímabundið til lengri eða skemmri tíma. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort sjúkdómurinn herjar á höfuð, herðar, hné eða tær, tennur, heila eða innyfli.

Ég gat ekki um þennan kvilla minn í bók sem ég skrifaði á sínum tíma um bernskuminningar mínar en sagði hins vegar frá því í bókinni því að ég lagðist alvarlega veikur með óráð og háan hita sex ára gamall og lá rúmfastur í nokkrar vikur.

Mér fannst þessi þunglyndisköst mín svo fá og tiltölulega stutt að ég sleppti því að segja frá þeim í bókinni þótt ég liti nákvæmlega sömu augum á þau og hin veikindin, sem lögðu mig í rúmið svo að ég var lengi að jafna mig.

Nú greini ég frá hvoru tveggja til að leggja mitt af mörkum til raunsærrar umræðu um sjúkdóma og heilsu sem við ættum öll að geta lært af og miðlað hvort til annars.

Heilsufarið skiptir auðvitað máli fyrir líf, starfsþrek og traust hvers manns. Það hefur verið gert óspart grín að því að Guðni Ágústsson henti á lofti þau ummæli þekkts manns að það væri betra að hafa góðar hægðir en góðar gáfur. Ég hef sjálfur fengið ristil- og meltingarfærakrampa sem hefur gert mig óvinnufæran í allt að sólarhing og á meðan slíkt gengur yfir afkastar maður ekki miklu í vinnu. Þetta er oft viðkvæmt, - benda má á nýlegar áhyggjur verkalýðssamtaka vegna heilsufarsupplýsinga um fólk sem gætu ratað inn í fyrirtæki og stofnanir. Ég held að það sé hollt fyrir okkur öll að íhuga þessi mál og ýmsar hliðar þess af yfirvegun og fordómalaust. Skyldi sá dagur koma að stofnuð verði samtök fyrrverandi og núverandi þunglyndissjúklinga svipuð samtökum um áfengissýki, sykursýki og Parkinsonveiki?

FJÖLMIÐLAR - SJÁLFHVERFUR SPEGILL?

Þegar menn gagnrýna að fjölmiðlar og fjölmiðlafólk fjalli um það sem er að gerast í þeim og þar með fjölmiðlafólkið og séu því alltof sjálfhverfir er fyrri helmingnum af ákveðnu ferli sleppt en hann er sá að langoftast eiga aðrir upptökin að því að umræða fer inn á ákveðið plan, - oftast fólk í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu. Frá því eru komin orð eins og "hnífsstunga", "hnífasett", "óheilindi", "trúnaðarbrestur" o. s. frv. Þessi orð falla eðli málsins samkvæmt í fjölmiðlum og eru þar með orðin efniviður í fjölmiðlaumfjöllun.

Sú fjölmiðlaumfjöllun getur síðan orðið tilefni til umræðna og skiptra skoðana, sem fjölmiðlar verða að sinna.

Orð og atburðir skapa mikla umræðu í þjóðfélaginu og áhuga fólksi. Hún fer fram í fjölmiðlum sem oft henda á lofti það sem sagt er og gert. Að þessu leyti eru fjölmiðlarnir spegill þjóðfélagsins þótt þeir séu líka gerendur við að miðla vitneskju um málin.

Það er hins vegar krafa sem á fullan rétt á sér að mínum dómi að fjölmiðlar reyni að gera eitthvað meira en að fiska á yfirborðinu. Þeir eiga að kafa ofan í málin og leitast við að "lyfta málinu á örlítið hærra plan" svo að vitna sé í fleyg orð Nóbelskáldsins.

Það er hins vegar mikil einföldun að mínum dómi að skrifa á fjölmiðlana allt sem mönnum finnst fara aflaga í umræðunni. Þá er verið að skjóta sendiboðann sem á að sinna þeirri skyldu sinni að miðla upplýsingum og mismunandi skoðunum.


ÓÞARFA GALLAR Á KOSNINGALÖGUM.

Úrslit síðustu alþingiskosninga sýna að þörf er á umræðum og tillögum á Alþingi um lagfæringar á kosningalögunum. Vonandi verður tillaga Marðar Árnasonar um að sameina Reykjavíkurkjördæmin til þess að að minnsta kosti tvær lagfæringar fáist fram: 1. Reykjavík verði eitt kjördæmi. 2. Þröskuldur fyrir atkvæðamagn verði færður í svipað horf og er hjá næstu frændþjóðum okkar, úr 5% niður í 2,5%

Fróðlegt er að sjá hvað útreikningar, sem kunnáttumaður hefur gert fyrir mig í sambandi við tillögu Marðar, leiða í ljós að gerst hefði ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi í síðustu kosningum. Nefnum þrjú þeirra.

1. Jón Sigurðsson hefði komist á þing og væri því sennilega enn formaður Framsóknarflokksins því að hann sagði að ástæða þess að hann hætti formennsku í Framsóknarflokkum væri sú að hann teldi sér ekki fært að gegna því utan þings.

2. Íslandshreyfinguna skorti aðeins 61 atkvæði til að koma kjördæmakjörfnum manni á þing í Reykjavík.
Á þýðingarmiklu tímabili í kosningabaráttunni sýndu skoðanakannanir 0 þingmann þótt fylgið í Reykjavíkurkjördæmunum væri nægt til að koma einum manni á þing í sameinuðu kjördæmi. Það er mikill sálfræðilegur munur á að sjá töluna 1 eða töluna 0 og ekki er vafi á í mínum huga að að minnsta kosti í Reykjavík hefðu kjósendur ekki hræðst að kjósa I-listann vegna þess að hætta væri á að atkvæðin dygðu ekki til að koma manni á þing.

3. Þingmaður VG í Reykjavík hefði færst til Norðausturkjördæmis.

Það hefur verið upplýst að það hafi verið að kröfu landsbyggðarþingmanna að Reykjavík var skipt í tvö kjördæmi. Það var auðvitað alveg á skjön við þau rök sem færð eru fyrir kjördæmaskiptingu að rétt sé að kjósendur sem eigi svipaða hagsmuni vegna landfræðilegrar legu og aðstæðna í kjördæminu eigi að vera saman í kjördæmi.

Ef samræmi hefði verið í þessu hefði verið nær að skipta Reykjavík í austur og vesturkjördæmi þar sem úthverfin hefðu þá verið talin eiga að einhverju leyti aðra hagsmuni en eldri hverfin.

Aldeilis fráleitt er að skipta Reykjavík eins og gert er. Íbúar í húsaröðinni við sunnanverða Hringbraut eiga enga aðra hagsmuni en íbúarnir í húsaröðinni hinum megin við götuna og því síður gengur það upp að skipta upp einu af austasta hverfi borgarinnar eftir því endilöngu.

Raunar er fráleitt að skipta Reykjavík, einu sveitarfélaga landsins, upp. Það er svona álíka fráleitt eins og að skipta Eyjafjarðarsvæðinu á milli Norðvestur- og Norðausturkjördæmis þannig að línan liggi eftir endilangri Akureyri.

Í skoðanakönnunum í kosningabaráttunni kom í ljós að það var forsenda þess að stjórnin félli að Íslandshreyfingin kæmi mönnum að í samræmi við fylgi sitt og það kom enn einu sinni í ljós í kosningunum sjálfum.

Af þessu ættu menn að læra, ekki vegna Íslandshreyfingarinnar, heldur vegna lýðræðisins og komandi kosninga og framboða til þeirra.


FAÐERNI, - GRUNDVALLAR MANNRÉTTINDI.

Það kunna að vera skiptar skoðanir um þetta mál en mér finnst það vera grundvallarmannréttindi að hver maður geti fengið að vita um kynföður sinn ef þess er óskað. Þetta er auðvitað ekki einfalt mál og gagnvart kynfeðrunum þurfa að vera ákvæði sem koma í veg fyrir að þeir beri af því skaða þegar og ef að því kemur að börn þeirra vilja fá að vita hverjir þeir eru. Þótt þessir kynfeður kæri sig kannski ekki um að vita um afkomendur sína þegar gjöfin á sér stað er aldrei að vita nema að þeim snúist hugur síðar.

Hins vegar verða þeir að gera sér grein fyrir því að þeir geti ekki ruðst inn í líf óviðkomandi fólks hvenær sem er. Barninu verður að vera tryggt öruggt, friðsælt og gott uppeldi hjá fósturföður, einstæðri móður eða fósturmóður ef um lesbíska sambúð er að ræða.

Annars hef ég ekki pælt eins mikið í þessu flókna máli og ef til vill þarf til að komast að óyggjandi niðurstöðu. Set þetta því fram með þeim fyrirvara að áskilja mér rétt til að skipta um skoðun í þessu máli ef ný sjónahorn eða upplýsingar koma fram.


mbl.is Eftirspurn eftir dönsku sæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓÐINN, LIFANDI SAFNGRIPUR.

Allar þjóðir, sem hafa staðið í hernaðarátökum, geyma skip, flugvélar, landfarartæki, hús og aðrar minjar til að minnast þeirra. Þrjú þorskastríð Íslendinga voru ekkert annað en hernaðarátök, því að varðskipin voru vopnuð og ekki þarf að spyrja um eðli herskipa Breta. Þótt Týr lenti í mestu og frægustu átökunum og hefði kannski þess vegna átt að varðveita hann lentu hin varðskipin líka í árekstrum og átökum. Óðin hefur sérstöðu að einu leyti.

Það er sú staðreynd að eini heimildarmyndarþátturinn af lífinu um borð í herskipunum í leiðangri út á vígstöðvarnar fjallar um Óðin og var tekin um borð í skipinu í nokkurra daga leiðangri ca 15-20 desember 1975. Skipið lenti í návígi gagnvart breskum herskipum og rætt var við skipverja og fylgst með þeim við skylduströrfin.

Leiðangurinn endaði á óvæntan hátt, því að vegna eldgoss við Leirhnjúk var því snúið til Húsavíkur til að vera þar til taks.

Þátturinn hét "Heimsókn. Á vígstöðvum þorskastríðsins." Ég held að upplagt væri að láta þessa mynd malla í borðsalnum um borð eða á öðrum heppilegum stað í skipinu sem partur af stemingunni og einnig er spurng hvort aðrar heimildarmyndir um þorskastríðin gætu verið þar á boðstólum. Að sjálfsögðu þarf að safna saman eins mörgum ljósmyndum og öðrum gögnum um þorskastríðin og unnt er. Einnig að spila þau tvö lög sem þrjú lög sem gefin voru út á plötum um þau.

Eitt óvenjulegt atriði í myndinni af ferð skipsins er fólgið í því að vélin í vélarsalnum spilar með takti sínum lagið "La danza". Litlu munaði að klipping þessa atriðis klúðraðist því að nóttina fyrir útsendingu þegar verið var að klippa það til að skila því í hljóðsetningu morgunin eftir kom í ljós að skipsvélarnar gengu ekki á jöfnum hraða heldur á misjöfnum hraða eftir því hvort skipið var á leið nður í öldudal eða upp úr honum.

Ég sendi klipparann heim um miðja nótt og hélt einn áfram að reyna að leysa málið alveg fram á morgun. Vandamálið fólst í því að takmörk voru fyrir því hve mikið og oft var hægt að klippa filmuna niður. Loksins tókst það þó.

Þorskastríðin eru einu hernaðarátökin sem Íslendingar hafa lent í. Sem betur fór varð ekki mannfall eins og í öðrum hernaðarátökum og ber að þakka forsjóninni og ábyrgum skipherrum fyrir það.


HVAÐ ER OG HVAÐ ER EKKI?

Ef Helgi Pjeturs hefði haldið því fram fyrir 60 árum að til væri svarthol og að hugsanlegt væri að hægt sé að fara í gegnum feril á þann hátt að maður drepi langömmu sína hefði hann verið talinn geggjaður. Hann hélt hins vegar fram fjarhrifakenningu sem fékk menn til að efast um að hann væri með öllum mjalla. Hvert okkar mun nokkurn tíma vita hvað er og hvað er ekki.
mbl.is Gríðarstórt svarthol fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SIGRAR SYÐRA OG NYRÐRA.

Það blés ekki byrlega síðla sumars í fyrra fyrir gömlum húsum við Hafnarstræti á Akureyri og Laugaveg í Reykjavík. Allt stefndi í niðurrif. Nú er það þannig að flestir hlutir þurfa endurnýjun og borgin okkar er í sífelldri umsköpun. En hið óstöðvandi niðurrifsstarf hefur hins vegar verið með þeim hætti, að sagt var og vísað í það ástand sem orðið var:  Nú er hvort eð er búið að rífa svo mikið að það tekur því ekki að vera að varðveita  hús sem hvort eð er eru ónýtt kofadrasl.

Svipuð rök eru óspart notuð víðar. Það er hvort eð er búið að virkja svo sundur og saman á Hengils- og Hellisheiðarsvæðinu að það tekur því ekki að friða þar neitt. Það er hvort eð er búið að virkja svo mikið af Þjórsá að það tekur því ekki að þyrma neinu af henni. 

Úr því að Kárahnjúkavirkjun fékkst í gegn með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum sem hægt var að framkvæma á Íslandi er fánýtt að berjast gegn virkjunum, sem valda mun minni spjöllum.

Ég hældi Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir það að bjarga Hótel Akureyri og er ánægja að endurtaka þakkir til hennar fyrir að upplýsa að úrslitin við Laugaveg væru henni að skapi.

Það kom þó ekki til hennar kasta í því tilfelli heldur borgaryfirvalda og sá sigur er einkum að þakka þrotlausri baráttu Ólafs F. Magnússonar, Margrétar Sverrisdóttur og samherja þeirra í þessu máli. Fyrir góða baráttu Torfusamtakanna og fleiri s. s. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fjölgaði húsverndarfólki á síðustu stigum þessa máls.  

Ég hef áður rökstutt það hvers vegna ég taldi rétt að falla frá því sem ætlunin var að framkvæma á lóðum Laugavegar 4 og 6.

Ég skokka og hraðgeng með reglulegu millibili upp og niður Laugaveg mér til heilsubótar og ánægju og hugnaðist það ekki þegar ég tók eftir því, einkum á austurleið, að skyndilega var ég kominn á kafla götunnar sem ég kannaðist ekki lengur við. 

Ekki það að úr því sem komið er sé í lagi að hafa þessa kafla svona áfram, heldur hitt, að það blasti við að með sama áframhaldi myndi þessi einstæða gata á Íslandi glata algerlega sjarma sínum og hlýlegu og vinalegu yfirbragði.

Þeir sem vilja ryðja öllu gömlu miskunnarlaust burt átta sig ekki á því hvers virði það er fyrir tengsl og menningu kynslóðanna að til séu svæði og griðareitir sem gerbreytast ekki með hverri kynslóð.

Mér er það mikils virði að ganga og upplifa sama Laugaveg og foreldrar mínir og afar og ömmur gerðu og vita að börn mín, barnabörn og afkomendur þeirra muni upplifa þennan sameiginlega menningararf og söguslóðir á sama hátt og lifa sig inn í kjör og þann rarf sem þarf að ganga kynslóð fram af kynslóð til þess að auðga líf og tilfinningar þeirra allra og ímynd og sjálfsvitund borgarbúa og landsmanna allra.

Menn eru að býsnast yfir kostnaði við að koma húsaröðinni frá horni Laugavegar og Skólavörðustígs í skikkanlegt horf. Þessi kostnaður getur orðið á við verð nokkurra einbýlishúsa í Fossvogsdal.

Meðal nágrannaþjóða okkar horfa menn ekki í slíkan kostnað. Með skynsamlegri endurgerð húsanna neðst við Laugaveg verður ekki tjaldað til einnar nætur heldur til allrar framtíðar og hægt að nota þau til nytsamlegra hluta. 

Má þar benda á tillögu Björns Björnssonar um að í öðru húsinu verði leikmunasafn, steinsnar frá Þjóðleikhúsinu.  

Í þessum málum þarf að horfa langt en ekki skammt. Á sínum tíma voru byggingarnar í Viðey að grotna niður. Margir býsnuðust yfir kostnaðinum við það að koma þeim í skaplegt horf og held ekki að neinn geti verið annað en stoltur yfir því í dag hvernig þar var staðið að verki.  

 


mbl.is Borgin kaupir Laugaveg 4 og 6
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband