Færsluflokkur: Bloggar
18.1.2022 | 19:33
Margir gætu lært af íbúum Venhorst í Hollandi.
Brothættar byggðir og draugabæi er að finna um alla Evrópu og er draugabærinn Doel í Belgíu aðeins einn af mörgum þúsundum slíkra bæja.
Í nokkrum bæja hafa íbúarnir þó afrekað það að snúa vörn í sókn með athyglisverðum árangri, sem hefur verið kynntur og ræddur á fjölmennum þingum og ráðstefnum sem haldin voru á tveggja ára fresti áður en covid farsóttin skók heimsbyggðina.
Samtök, sem nefna sig Dreifbýlisþing Evrópu, ERP, European Rural Parliament, og meira en 40 þjóðir eiga aðild að, hafa staðið að þessu áhugaverða starfi.
Þingin hafa verið haldin í Brussel, Scharding í Austurríki, Venhorst í Hollandi og Candás á norðurströnd Spanar.
Afraksturinn hefur meðal annars verið sérstök stefnuyfirlýsing, sem send hefur verið helstu valdastofnunum Evrópu.
Einna athyglisverðastur hefur árangur framtaks íbúa bæjarins Venhorst í Hollandi verið, en þar bjuggu á sínum tíma hátt í tvö þúsund íbúar í líflegum bæ með líflegu menningarlífi og starfsemi.
En á síðustu árum varð þetta hálfgerður draugabær fyrir nokkrum árum, öll verslun dauð, og flutt til stórverslana í borgum í landshlutanum, félags-og menningarlíf svipur hjá sjón og skólahaldið í vandræðum.
Þá varð til sjálfsprottið fjöldaframtak bæjarbúa, þar sem fólkið ákvað að ráðast sjálft til atlögu við doðann og dauðann, úr því að einhliða bænakvak til stjórnvalda bar engan árangur.
Í samtökunum voru meðal annars eftirlaunafólk og lífeyrisþegar, sem bjuggu enn að nægu þreki, sem fékk fram að þessu litla eða enga útrás.
Íbúasamtökin söfnuðu einfaldlega fé til að kaupa og reka grunnverslunina í bænum og endurreisa verslun og þjónustu, og einnig var farið í að endurvekja menningarstarfsemi og stofna til nýrrar.
Meðan á þinginu stóð var efnt til glæsilegra og fjölbreytilegra fjöldasýninga, sem nutu sín til dæmis vel á aðaltorgi bæjarins.
Af þessu er ljóst að dreifðar og brothættar byggðir Evrópu eiga mun fjölbreyttari og fleiri möguleika til að bregðast við hinum hefðbundnu vandamálum dreifbýlis en margir hafa haldið hingað til.
Íbúar Doel og fleiri þorpa og bæja geta kannski lært eitthvað af íbúum Venhorst.
![]() |
Draugabær í Belgíu berst fyrir lífi sínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.1.2022 | 12:56
Eins konar þjóðernishreinsanir hér vegna þess að allt "er í messi"?
Sjá má í pistli hér á Moggablogginu í dag að vegna þess að útlendingar séu komnir í meirihluta í Mýrdal þurfi að bregðast við því og sporna við áhrifum útlendinga hér á landi á íslenska tungu og menningu.
Við þeirri tengingu, sem er í pistlinum á milli búsetu innflytjenda hér á landi og versnandi stöðu íslenskrar tungu og menningar verður að gera athugasemdir.
Strax fyrir um tuttugu árum var ástandið í atvinnumálum víða um landið orðið þannig, að útlendingar, til dæmis við hafnir úti á landi, voru það innflytjendur sem unnu störfin.
Það var af einfaldri ástæðu: Íslendingar fengust ekki til að vinna þessi störf.
Gamla mýtan um það, hvernig ætti að útvega innfæddum atvinnu hélt ekki, til dæmis við smíði Kárahnjúkavirkjunar, þar sem ætlunin var að 80 prósent starfsmanna yrðu Íslendingar, en 20 prósent útlendingar.
Þetta varð í raun öfugt, 80 prósent urðu farandverkamenn, þar af stór hluti Kínverjar.
Ef "hreinsað hefði verið til" á þessum tíma, hefði öll framleiðsla og atvinna á fjölmörgum stöðum um allt land lagst niður.
Í umræddum pistli er í sömu andrá rætt um hina óæskilegu útlendinga og slæma stöðu íslenskrar tungu og menningar.
En það blasir hins vegar við að við Íslendingar sjálfir höfum einir og óstuddir reynst einfærir um að sækja æ harðar að íslenskri tungu og það úr verstu átt; því að langoftast er um einskonar snobb fyrir ensku að ræða af hendi vel menntaðra Íslendinga.
Nýjasta dæmið um ótal ensk orð, sem nú leysa íslensk orð af hólmi, mátti heyra í útvarpi í fyrradag þegar Íslendingur gekk fram hjá því að nota eitthvað af íslenskum orðum, "klúður, rugl, ólestur" og notaði staðinn enska orðið "mess" með því við að segja því því að í ákveðnu máli "væri allt í messi" og átti þá ekki við argentínska knattspyrnusnillinginn.
Á þessari bloggsíðu hefur verið lýst hinni skefjalausu sókn enskunnar, bæði orða og hugsunar, inn í mál fjölmiðlafólks og álitsgjafa, nafnháttar- og nafnorðasýki og rökleysu.
Einn álitsgjafinn hefur tvinnað saman enskum orðum og hugtökum á borð við level, þegar lýst er mismunandi gæðum, og gekk svo langt nýlega að tala um að landsliðsþjálfarinn þyrfi að "kópa við" landsliðshópinn.
Meðan staða íslenskunnar er í þessum ólestri; - afsakið, í þessu messi, eru eins konar þjóðernishreinsanir og leit að erlendum blórabögglum ekki það sem málið snýst um.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hlutur evrópsku stórveldanna Englands, Frakklands og Þýskalands hefur verið stór á mismunandi tímum í sögu okkar, talað um þýsku öldina á Norðurlöndum á tímum Hansakaupmanna, síðan ensku öldina þar á eftir, og í kringum aldamótin 1900 voru Frakkar umsvifamiklir og skildu eftir sig miklr minjar.
Síðuhafi var í gagnfræðaskóla í húsi, sem var upphaflega franskur spítali nálægt Frakkastíg, og las á æskuárum endurminningar Hendriks Ottósonar um "allabaddarí-fransí" og það að rauðhærðir drengir þyrftu að gæta sín á því að Frakkarnir rændu þeim ekki til að hafa í beitu.
Útgerð þessara þjóða hér á landi og veiðar í íslenskri landhelgi hurfu með Þorskastríðunum og nú er það salla á fiski héðan til Evrópu, sem skapar fiskitengsl milli okkar og þeirra.
Eins og sést á áhrifamiklum línuritum í viðtengdri mbl.is frétt er magnað hvað Frakkar hafa sótt fram í þessu efni.
![]() |
Frakkar sækja á Breta sem kaupendur íslensks fisks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2022 | 12:33
Hver og hvernig verður toppurinn og hvenær verður hann?
Smám saman dregst það æ meir á langinn að svonefndum "toppi" verði náð í kðrónuveikifaraldrinum.
Sjö mánuðir eru síðan gefið var út að aflétt væri öllum sóttvarnatakmörkunum. Ástæðan var einkum tvíþætt, að smit og veikindi voru í lágmarki og að aflétting gæti gefið árangur á mikilvægasta tíma ársins fyrir ferðaþjónustuna.
Nýtt og meira smitandi afbrigði veirunnar hratt hins vegar af stað Ómíkrón-bylgju um allan heim sem enn hefur ekki náð hámarki, til dæmis í Bandaríkjunum.
Þessi sjö mánaða langa framvinda veldur því, að nú eru sóttvarnayfirvöld hér á landi og víðar að endurmeta það, hvenær bylgja af þessu tagi nær raunverulegum toppi þegar á allar hliðar málsins er litið með samanburði með fyrri toppa veikinngar.
![]() |
Toppnum ekki náð í Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2022 | 22:29
Eins og vel skrifuð spennusaga.
Tveir sigrar í tveimur fyrstu leikjunum á EM gefa vonir um að kannski fáum víð nú enn eitt stórt ævintýr hjá íslenska landsliðinu í handbolta, sem skiljanlega hefur átt erfitt með að komast á ný í þær hæðir sem það komst með silfrinu í Peking hér um árið.
Leikurinn í kvöld hafði flest það að bjóða, sem felst í góðri sjónvarpssýningu, og var þar ekki aðeins um gott framlag íslensku leikmannanna að ræða og grípandi atburðarás, heldur ekki síður hins fyrrverandi landsliðsmanns Einars H. Jónssonar, sem lýsti honum.
EM-stofan er vel skipuð, og ástæða til að þakka fyrir sig.
![]() |
Ísland með fullt hús eftir mikla spennu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2022 | 15:13
15 klst ferð Reykjavík-Akureyri-Reykjavík: Allar tegundir vetrarveðurs.
Í upphafi búsetu hvers þess, sem býr á Íslandi, þarf að negla strax niður einfalda veðurfræðilega staðreynd: Að meðaltali í janúarmánuði er lægsti loftþrýstingur á jörðinni fólginn í lægð skammt suðvestur af landinu, en skammt norðvestur af landinu er önnur af tveimur hæstu hæðunum, Grænlandshæðin.
Afleiðing: Gríðarlegur þéttleiki þrýstilína á veðurkortum, mestu vindar og umhleypingar jarðar.
Í gær ókum við Friðþjófur Helgason frá Reykjavík til Akureyrar og til baka aftur í tilefni af opnun heilmikillar myndasýningar þar, sem Ólafur Sveinsson stendur fyrir, og Friðþjófur á drjúgan hlut í.
Vegna covid er sýningin þrískipt á milli Glerártorgs, Hofs og Amtbókasafnsins.
Þetta býður upp á þægilegan sunnudagstúr til að njóta sérstæðrar og eftirminnilegrar blöndu af ljósmyndasýnningu og kvikmyndasýningu á því ári, þegar liðin verða rétt tuttugu ár síðan gerðir voru samningar um stærsta mannvirki Íslandssögunnar, sem jafnframt hafði í för með sér mestu mögulegu óafturkræf og neikvæð umhverfisáhrif.
Á leiðinni norður og til baka bauð veðurfræðidild íslenskrar náttúru upp á stórbrotið sýnishorn af íslensku vetrarverð.
Kvöldið fyrir brottför var raðað í bílinn og gert klárt.
Það tók tæpa klukkustund, og var sjö stiga hiti og úrhellisrigning þegar verkið hófst en komið niður undir frostmark í slydduhríð í lokin klukkustund síðar!
Afsakið upphrópunarmerkið, því þetta er fullkomlega eðlilegt íslenskt janúarveður.
Á leiðinni norður byrjaði ferðin á flughálku, en þegar komið var norður fyrir heiðar tók við frost og heiðríkja með dásemdar fegurð, hvert sem litið var.
Myndin var tekin út um bílglugga á löngu færi vestast í Línakradal.
Síðar á leiðinni var ekið í skafrenningi um Öxnadalsheiði.
Á Akureyri var flughálka en það tók að hvessa á bakaleiðinni með fjúki og léttum lausasnjó.
Allt í einu bar svo við, að komið var inn á alveg úrkomulaust svæði með marauðri jörð og logni og blíðu.
Á leiðinni frá Staðarskála suður yfir Holtavörðuheiði var "hvíta kafald" eins hún Manga gamla hefði lýst því hér um árið og sáust oft ekki handaskil og ökuhraðinn hvað eftir annað á núlli, einkum þegar mætt var stórum flutningabílum.
Rauð tala var komin á vindmælinum undir Hafnarfjalli og hríðin hafði breyst í slyddu og rigningu í lokin með hálku, sem hefur sent meira en fimmtíu manns á bráðamóttöku í Reykjavík.
![]() |
Hálka víða um land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2022 | 09:01
"...við öndum öll að okkur sama loftinu..."
Meitluð setning John. F. Kennedys eftir Kúbudeiluna í einni af síðustu ræðum hans eru fyrir löngu orðin sígild: "Við lifum öll á sömu plánetunni, öndum öll að okkur sama loftinu, er öllum annt um afkomendur okkar og öll erum við dauðleg."
![]() |
Höggbylgjan mældist á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2022 | 18:49
Til baka til 1950?
Nú lítur ekki vel út fyrir þorrablótum stóru og fjölmennu vegna veirunnar.
Í fljótu bragði virðist þar með verið farið aftur fyrir sjötta áratuginn þegar þessi samkomusiður ruddi sér til rúms hér á landi.
En það virðist augljóslega alrangt ef marka má þá miklu umferð og umsýslu með þorramat hjá einkaaðilum sem hefur þróast með áratuga reynslu og mun vonandi bjarga þorranum í horn.
![]() |
Þorrabjór með taðreyktum langreyðar-eistum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Margar eftirminnilegar setnningar voru sagðar í kvöld um leikinn sæla við Portúgali. Ein sú besta kom frá Loga Geirssyni ef rétt er munað, þegar honum varð að orði að varla væri nokkur leikmaður í portúgalska landsliðinu, sem Gísli Þorgeir Kristjánsson hefði ekki farið illa með eða leikið grátt."
Eitt magnaðasta skiptið þar sem slikt gerðist, var þegar Gísli Þorgeir prjónaði sig á slíkum geimhraða í gegnum portúgölsku vörnina að hann fór fram úr þeim hraða, sem dómararnir og leikmennirnir réðu við að átta sig á, svo að enginn vissi sitt rjúkandi ráð.
Í gamla daga náði Haukamaðurinn Stefán blómaskeiði, sem varð til þess að hann hlaut viðurnefnið "Tætarinn", og þá var einnig um tíma Jóhann Ingi Gunnarsson leikmaður hjá Val á árum "mulningsvélarinnar", sem bjó yfir fágætum hraða og lipurð og fékk viðurnefni, ef ég man rétt, þótt ég sé búinn að gleyma því.
Kannski var þetta "býflugan".
Þótt Gísli Þorgeir sé alinn upp í FH en ekki Haukum, mætti alveg hugsa sér að smella á hann titlinum "Tætarinn." Að minnsta kosti yrði titillinn þó áfram límdur við Hafnarfjörð.
![]() |
Sigvaldi valinn maður leiksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2022 | 16:07
Einstakt samband Margrétar Danadrottningar við Íslendinga.
Á æskuárum Margrétar Danadrottningar voru dönsk vikublöð mjög mikið seld og lesin á Íslandi, enda Danakonungur líka konungur Íslands allt til 1944.
Þar skipaði danska konungsfjölskyldan stóran sess og íslenskir jafnaldrar Margrétar fylgdust af áhuga með þessum jafnaldra sínum í Kaupmannahöfn.
Í augum íslenskra drengja rifjaðist það upp aftur og aftur við lestur ævintýra þess tíma, að Margrét var dóttir ríkisarfa Íslandskonungs allt til 1944.
Þótt sambandið við Dani litaðist lengi af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga voru sum samskipti þjóðanna einstök á heimsvísu.
Enginn maður lét lífið í sjálfstæðisbaráttunni og helsti leiðtogi Íslands var á launum hjá danska ríkinu vegna gríðarlegra þekkingar hans á norrænum menningararfi.
Friðrik Danakonungur kom í vel heppnaða opinbera heimsókn til Íslands 1955 og dóttir hans í enn glæsilegri heimsókn þegar hún gat orðið ríkisarfi Danmerkur.
Í tengslum við þá heimsókn var ákveðið að gefa hinni nýju Drottningarbraut sitt nafn.
Annað íslenskt fyrirbæri er varð líka nefnt í tengslum við opinbera heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur til Danmerkur, en það er heitið "Kryddsíld" á áramótaspjallþætti Stöðvar tvö.
Því heiti fylgir ákveðinn húmor, því að í kynningu á sérstökum fundi Margrétar og Vigdísar þar sem sagt var myndu fara fram fjörlegar og hreinskiptar umræður.
Notað var orðið "krydsild" um það efni, en íslenskur blaðamaður misskildi orðið og greindi frá því að kryddsíld yrði á borðum!
![]() |
Margrét Þórhildur drottning í 50 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)