Færsluflokkur: Bloggar

Þegar Torfi Bryngeirsson var spurður að því af hverju hann væri aldrei nervös.

Torfi Bryngeirsson lét falla mörg athyglisverð tilsvör á litríkum ferli, en líklega er tilsvar hans þegar hann varð Evrópumeistari í langstökki þekktast. 

Torfi var annar besti stangarstökkvari Evrópu þegar hann fór á sitt fyrsta stórmót á EM 1950. 

En hann var líka skráður til keppni í langstökki þar sem hann var þó ekki á topp tíu listanum. 

Það er einstakt að stökkvari sé í fremstu röð í þessum tveimur greinum, og svo illa vildi til fyrir Torfa, að keppt var samtímis í þessum greinum. 

Honum tókst þó að komast í úrslit í báðum greinum, en varð því miður að velja á milli þeirra af því að úrslitakeppni í þeim var á sama tíma. 

Torfi íhugaði stöðu sína og tók þá furðulegu ákvörðun að flestra mati, að sleppa stangarstökkinu með tilheyrandi einvígi við Ragnar Lundbergog en fara í langstökkið, sem var miklu lakari grein fyrir hann. 

Torfi svaraði snöggt: Ég er búinn að skoða keppendurna og sjá að Ragnar Lundberg er í stuði en langstökkvararnir virðast bara vera kettlingar. 

"Þeir eru með miklu betri skráð afrek en þú" andmæltu menn. 

"Já, en þeir vinna keppnina hér á þeim afrekum" svaraði Torfi. 

Hófst nú keppnin voru aðstæður mjög erfiðar vegna misvindis sem gerði keppendum einstaklega erfitt fyrir. Þeir bestu fóru alveg á taugum en Torfi var hinn sperrtasti, geislaði af hugarstyrk, sjálfsöryggi og krafti, auk þess sem ekki vottaði fyrir neinum taugaóstyrk hjá honum þótt vindurinn blési sitt á hvað.

Þegar kom að honum í stðkkrðinni gekk hann sperrtur um og bar sig mannalega á tærri íslensku: "Sjáið þið, hér kem ég og skal sýna ykkur hvernig á að gera þetta; strákurinn frá Búastöðum, sem er sko enginn lopi!" 

Fór svo að Torfi stökk tvö bestu stökk sín á ferlinum á sama tíma og hinir voru allir langt frá sínu besta. 

Eftir keppnina þyrptust blaðamenn að hinum nýja og gersamlega óþekkta Evrópumeistara, sem hafði nákvæmlega enga reynslu að baki á stórmótum Evrópu og spurðu hann hvernig stæði á því að hann hefði náð þessum frábæra árangri. 

"Það var vegna þess að ég var sá eini sem var ekki vitund nervös," svaraði Torfi, "á sama tíma og hinir brotnuðu niður af taugaóstyrk." 

"En hvernig gast þú einn ráðið við þetta?" var spurt.

"Það er af því að ég er aldrei nervös," svaraði Torfi. 

"Af hverju ertu aldrei nervös?"

"Af því það er verra" svaraði Torfi.

 

Þetta svar er gullkorn, því að það lýsir alveg einstöku æðruleysi og hugarstyrk, sem getur orðið til bjargar þegar menn standa frammi fyrir því að láta ótta og panik ná tökum á sér. 

 


mbl.is „Til hvers þá að vera að þessu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig voru Ólafur Thors og Bjarni Ben og Hermann og Eysteinn sem tvíeyki?

Íslensk og erlend stjórnmálasaga geyma fjölmörg dæmi um það, að tveir sterkir menn í forystu flokka, tvíeyki á borð við Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson hjá Sjálfstæðisflokknum og Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson hjá Framsóknarflokknum, reyndust þessum tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins svo vel, að þeir voru í stjórn, annar hvor eða báðir, í þrjá ártatugi frá miðjum fjórða áratugnum. 

Ólafur var formaður Sjalla og Bjarni varaformaður fram yfir 1960 og allan þann tíma hafði Bjarni svo mikil áhrif og var svo öflugur, að hann og Ólafur stóðu í stafni hjá flokknum og í ríkisstjórnum eins og tveir jafnstórir og samhentir foringjar, en þó nógu ólíkir til þess að sterkustu hliðar hvors um sig vógu upp veikustu hliðarnar hjá hinum. 

Þegar Ólafur dró sig í hlé og féll síðan frá, tók Bjarni við forystunni. 

Og hið sama gerðist þegar Hermann dró sig í hlé og Eysteinn tók við. 

Haraldur Benediktsson virtist í fyrstu ekki hafa skoðað vel þetta fordæmi úr sögu flokks síns og fleiri flokka þegar hann sýndist ætla að hverfa af þeim vettvangi, sem hafði valið sér fyrir nokkrum árum. 

Nú virðist hann hafa náð áttum og séð að Áslaug Arna verður með mikið í fanginu meðan hún er bæði varaformaður flokksins og ráðherra, og að fyrir bragðið verður margt annað eftir til að sýsla við fyrir hvern þann í því tvíeyki sem tveir efstu skipa. 


mbl.is Haraldur þiggur annað sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrifin um landráð í bólusetningum horfin en önnur tekin við.

Þegar bólusetningar hófust hér í fyrrahaust og tekin sú stefna að nýta samflot með Norðurlöndum og ESB ráku margir upp ramakvein og hömuðust gegn þessu á samfélagsmiðlum af fádæma hörku. 

Notuð voru orð eins og undirlægjuháttur og landráð og nefnd fjölmörg lönd utan Evrópu, sem frekar ætti að leita til og tryggja þannig forystu okkar í fjölda bólusetninga. 

Nú eru komnir nokkrir mánuðir síðan þessar raddir þögnuðu. 

En þá bregður svo við að aðrar og jafnvel enn illyrtari ásakanir fara nú sem eldur í sinu um samfélagsmiðla og fjölmiðla þess efnis að með bólusetningum sé í gangi harðsvírað samsæri á heimsvísu um að drepa sem flesta!

Þessu til sönnunar eru birtar daglega hrikalegar og hrollvekjandi tölur um fólk, sem bólusetningarnar drepi með afleiddum sjúkdómum, svo sem blóðtöppum og hjartaáföllum. 

A bak við þessi skrif virðist liggja mikil vinna, því að til þess að birta þessar tölur þarf að fylgjast dag frá degi með þeim sem fá þessa svonefndu afleiddu sjúkdóma og skoða jafnframt hvort þeir séu nýlega bólusettir. 

Síðan virðast þessir andstæðingar bólusetninganna gefa sér það, að allir sem deyja eftir að þeir hafi verið bólusettir, hafi dáið af völdum bólusetninganna, en hinir hins vegar dáið eðlilegum dauðdaga. 

Raunar er ekki erfitt að stunda svona vinnubrögð, því að enda þótt engar væru bólusetningarnar deyja þúsundir manna að jafnaði úr sjúkdómum á borð við blóðtappa og hjartaáfalla og hefur það ætíð verið svo.  


mbl.is Ísland í fremstu röð í bólusetningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumargleðin prófaði að vera með jólasvein (júlísvein) í fullum skrúða.

Þótt spurning sé nú sett fram um það hvort hægt sé að halda jólatónleika í júlí hefur hliðstæð tilraun verið gerð áður hér á landi, nánar tiltekið fyrir 40 árum. 

Það var þegar þeir Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson urðu liðsmenn skemmtanahópsins Sumargleðinnar sem þá fór skipulega um landið frá júní og langt fram á haust í lokin. 

Hlutverk Þorgeirs var aðallega á sérsviði hans, sem sneri að algerri uppstokkun á fjögurra til fimm klukkustunda samfelldu fjöri, tveggja klukkustunda skemmtidagskrá og dansleik á eftir þar sem innifalið yrði besta diskótek landsins. 

Allir Sumargleðimennirnir sungu frá upphafi til enda og Magnús var ekki aðeins öflugur söngvari, heldur góður gamanleikari. 

Nú þurfti að skapa hentuga gamanþætti þar sem hæfileikar hans nytu sín, og vorið 1980 var tíminn naumur. 

Síðuhafi fékk þá hugdettu, meðal annars, að Magnús færi í jólasveinabúning og færi um salinn gefandi sælgæti úr poka og kætti samkomugesti. 

Ragnar Bjarnason studdi þessa tillögu, en við tók mesta basl við að útfæra þetta atriði, þar sem jólasveinsafbrigðið júlísveinn yrði kynnt fyrir landsmönnum. 

Svo fór, að þrátt fyrir að atriðið gerði fyrir tilviljun stormandi lukku á einni skemmtun voru undirtektir annarsstaðar svo misjafnar, að júlísveinninn lifði sumarið ekki af. 

Það væri alveg efni í ítarlegri frásögn ef út í slikt er farið. 


mbl.is Landsmenn tísta: „Má halda jólatónleika í júlí?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afvegaleiddar umræður um vísindalegar staðreyndir.

Upplýsingar Sigurðar Steinþórssonar prófessors emeritus um eðli eldgossins í Geldingadölum er gott dæmi um það, hve við Íslendingar eigum vel mannaða sveit góðra vísindamanna á þessu sviði sem standa í fararbroddi á heimsvísu í rannsóknum í eldfjallafræði og jarðfræði. 

Þess dapurlegra er að sjá stanslausa afvegaleidda umræðu andstæðinga orkuskipta þar sem rökræðan er stórlega afvegaleidd í því skyni að gera Íslendinga eina allra þjóða stikkfrí í því að leggja sitt af mörkum í þessu efni. 

Málflutningur þessi felst í því, að vegna þess hve útblástur af völdum notkunar jarðefnaeldsneytis Íslendinga sé lítill hluti af útblástri jarðarbúa, og einnig vegna þess að útblástur íslenskra eldfjalla sé stórfelldur, eigum við kröfu á að skerast úr leik á þeim forsendum að það muni ekkert um okkur á heimsvísu. 

Þetta er ömurlegur málflutningur því að svo að dæmi sé tekið, er útblástur hvers meðalstórs íslensks bíls sem brennir jarðefnaeldsneyti álíka mikill og útblástur hvers svipaðs bíls annars staðar á jörðinni. 

Ef röksemdir Páls Vilhjálmssonar í dag um þetta mál væru gildar, ættu þær líka að gilda um allar þær þúsundir borga og byggða um allan heim, sem eru álíka fjölmennar og Ísland. 

Síðan er þessi málflutningur kórónaður með því að fella íslensk eldfjöll inn í útblásturstölur jarðarbúa og Íslendinga. 

Það er einstaklega ósanngjörn þröngsýni að færa óviðráðanlega þætti í náttúru jarðar til bókar hjá einstökum þjóðum eins og Íslendingum og blása það út hvað þessar tölur séu háar í samanburði við útblástur, sem þjóðin veldur sannanlega sjálf og getur minnkað, ef vilji er fyrir hendi. 

Raunar er leitun að þjóð sem hefur eins mikla og nærtæka möguleika í því efni og við Íslendingar. 


mbl.is Eldgamalt vatn veldur sprengingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunsæi hjá ungum norrænum.

Félag ungra norrænna, sem var að breyta heiti félagsins, vill heildarendurskoðun á dönskukennslu hér á landi. 

Þegar ályktunin er skoðuð nánar sést, að þetta virðist ekki tákna það að leggja þessa kennslu niður, heldur gera hana betri og notadrýgri. 

Þetta sýnir visst raunsæi hjá þessu unga fólki, því að áratugum saman hefur mátt heyra það hjá mörgum Íslendingum að brýnt sé að kennslu í dönsku í íslensku skólakerfi sé hætt.

Rökin hafa verið mörg fyrir þessu sjónarmiði, hér verða nokkur nefnd ásamt andsvörum við þeim. 

1. Það eru alltof fáir sem tala dönsku til þess að kunnátta í henni skili árangri. Íslenska og danska eru tvö útnáratungumál örþjóða.

Andsvar: Íslenska og danska eru einfaldlega skyld norræn tungumál, sem eru töluð á samfelldu svæði sem nær frá Grænlandi um Ísland, Færeyjar, Danmörku og Noreg til Svíþjóðar og Finnlands að hluta til, nákvæmlega þess heimshluta sem við tilheyrum. Sá Íslendingur, sem kann skil á þessum norrænu málum hefur forskot í að taka þátt í atvinnulífi og menningu á þessu svæði, miðað við þann, sem ekki hefur vald á þeim. 

 

2. Ef á annað borð er verið að eyða fé og fyrirhöfn í kennslu erlends tungumáls, á enskan alveg að nægja, og ef endilega þurfi að bæta þriðja tungumálinu við íslensku og ensku, væri nær að velja tungumál eins og spönsku, sem mörg hundruð milljóna manna tala. Því færri tungumál sem kennd eru, þvi betra. 

Andsvar: Kannanir sýna, að þetta er rangt. Þeim þjóðum, sem læra mörg tungumál vegnar yfirleitt betur en hinum. Gott dæmi er Sviss þar sem kunnátta í mörgum tungumálum er skylda. 

3. Það er niðurlægjandi fyrir Íslendinga að vera eina þjóðin í heiminum, þar sem skylt er að læra dönsku og þess vegna er það sjálfstæðismál, fullveldismál og framfaramál að leggja þessa kennslu niður. 

Andsvar: Löngu liðin fortíð milliríkjatengsla, sem hafa breyst, skiptir ekki lengur máli í þessu sambandi. Gamlar nýlenduþjóðir hafa til dæmis yfirleitt ekki farið þessa leið gagnvart tungumálum fyrrum nýlenduvelda eða herraþjóða.     


mbl.is Vilja heildarendurskoðun á dönskukennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nefnd tvö "möguleg" alvarleg slys. Bætum tveimur raunverulegum við.

Í viðtengdri frétt er greint frá því, að hvernig ökumanni bifhjóls tókst að koma í veg fyrir tvö "möguleg" alvarleg slys á þjóðvegi fyrir austan fjall, vegna þess hvernig ökumenn eru gjarnir á að vera að lesa á snjallsíma sína undir stýri. Geirsnef reiðhjól

Saga þessa bifhjólamanns er áreiðanlega rétt miðað við reynslu síðuhafa á síðustu sex árum, sem eru liðin síðan breytt var yfir í það að hámarka not rafknúinna farartækja og eiga þrjú hjól til mismunandi ferða í samræmi við lengd ferðaleiðir og hraða. 

Í óteljandi skipti hefur mátt sjá af hjólinu í návígi við gatnamót hvernig margir bílstjórar hafa verið niðursokknir við að grúfa sig yfir snjallsíma í akstrinum. 

Og það, sem meira er: Síðuhafi hefur tvívegis lent í beinbrotsslysum á rafreiðhjóli vegna hliðstæðrar hegðunar. Náttfari við gangstétt

Í fyrra skiptið vegna þess að ökumaður bíls var að hægja á bíl sínum til þess að hleypa mér á rafreiðhjólinu Náttfara eftir gangbraut yfir aðrein að Miklubraut. 

Hann leit snöggt til hliðar og sá útundan sér að ef hann gæfi hressilega inn, gæti hann smollið inn í autt bil á milli bíla á Miklubrautinni. Hann gaf því inn þótt hann væri á þessu augnabliki blindaður af lágri kvöldsól og sæi því ekki rafreiðhjólið sem var þá komið hálfa leið yfir aðreinina. 

Ég var kominn það langt að ég sá hann ekki þegar hann ók harkalega aftast á hjólið hjá mér og henti mér og hjólinu upp á framgluggann, sem hlífðarhjálmurinn braut í högginu. 

Þá snarhemlaði hann, en við það hélt flug hjólsins og knapans áfram upp á þak og í glæsilegum boga yfir húddið til árekstar við gatnakerfi Reykjavíkur. 

Afleiðingin varð slæm lemstrun á báðum ökklum, báðum hnjám, öðrum olnboganum og öxlinni. 

Í fyrstu leit út fyrir að ég hefði beinbrotnað á öllum sex stöðunum, en sem betur fór var aðeins hægri ökklinn.

Hitt beinbrotsslysið vegna aflestrar ökumanns á farartæki varð á hjólastígnum á Geirsnefinu, því að ökumaðurinn, sem horfði niður fyrir sig og var að lesa, var á rafreiðhjóli!

Það var hálfrökkur og hann var að reyna að sjá á orkumælinum, hve mikið rafmagn væri eftir. 

Þegar hann horfði niður á mælinn sá hann móta dauft fyrir hvítu merkingunum á hjólabrautinni sem hjólinu var hjólað meðfram

Á mynd efst á síðunni er nýbúið að mála línurnar á honum, en vegna viðhaldsleysis á þessum línum árum saman, voru þær horfnar á köflum þegar slysið varð í ársbyrjun 2019, svo að hann varð að gera aðra tilraun þegar línurnar komu aftur í ljós. 

En þá gerðist aftur það sama, að línurna hurfu, en í þetta sinn var auði kaflinn mun lengri en áður svo að hann sveigði óvart yfir á rangan stígshelming í veg fyrir mig, sem gat með engu móti varast hann, heldur skullu ystu hlutar stýranna á hjólunum saman með þeim afleiðingum að þau steyptust bæði í kollhnísum til jarðar. 

Lesandi hjólreiðamaðurinn slapp við beinbrot, en ég fékk slæmt axlarbrot. 

Eftir þessi tvö slys spurði einn vinur minn hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta að nota hjólin. 

Svarið var einfalt: Málið snýst um ökumenn, sem sjá sér ekkert ekki fram fyrir sig við stýrið. 

Það er allt vaðandi af þeim í umferðinni og oft engin leið að varast þá eða sleppa við það að lenda í árekstri. 

Ef ég á að velja um það á rafreiðhjólinu að lenda í áresktri við annan mann á reiðhjóli á 20 km hraða - eða - að vera undir stýri á bíl og lenda framan á öðrum bíl á 80 km hraða,-  þá vel ég manninn á rafreiðhjolinu.  


mbl.is Kom í veg fyrir tvö mögulega alvarleg slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskan útlæg í móttöku topphótels. Hugsað á ensku, sem "lúrar okkur inn."

Er hugsanlegt að í móttöku topphótela í Frakklandi eða Þýskalandi væri bara hægt að nota ensku?

En þessi er orðin raunin hér á landi. Samt er móttakan í hverju fyrirtæki og stofnun andlit þess. Eftirminninnilegt þegar síðuhafi var vinsamlega skipað að tala ensku við manninn í móttökunni í einu af fínasta hótelinu í miðborg Reykjavíkur.

Alveg nýtt dæmi úr fréttum er dæmigert um aðra leið, sem enskan fer inn í mál okkar. Það lýsir sér í því ástandi, að það er orðið erfitt, jafnvel fyrir fjölmiðlafólk að hugsa á móðurmáli sínu. 

Fréttamaðurinn var að segja frá golfkeppni og sagði að á ákveðinni holu undir lokin hefði orðið til "snúningspunktur" í keppninni. 

Vesalings fréttamaðurinn neyðist til að þýða hrátt úr enskunni "turning point".    

Hann virðist ekki hafa hugmynd um að í íslensku hafa verið til og eru ennþá til mörg orð um þetta fyrirbæri, svo sem þáttaskil, kaflaskil, vatnaskil, umskipti, tímamót, kúvending, vendipunktur... o. s. frv.  

Kannski hefur hann haldið að það þyrfti íslenskt nýyrði til þess að komast hjá því að nota orðið "turning point". 

Í undanhaldinu undan enskunni er kannski það fyrirbæri varasamast sem lýsir sér í því að við erum í vaxandi mæli þess ekki megnuð að hugsa á íslensku, heldur að bjarga okkur í horn með því að grípa beint eða óbeint til enskunnar. 

Í íþróttum er það þekkt bragð að leiða andstæðinga í gildru, "lokka þá inn" eða "pretta" en nú orðið er það alsiða að segja að verið sé "að lúra þá inn" og að þeir séu "lúraðir inn."

Þarna er á ferðinni aulaleg þýðing á ensku sögninni "to lure" en íslensku orðin að lúra eða nafnorðið lúr þýða allt annað. 


mbl.is Íslenskan er á undanhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spor í snjó geta orðið torkennileg á Hornströndum.

Á árunum 1977 til 1978 fór síðuhafi fljúgandi í gerð sjónvarpsmyndarinnar Eyðibyggð í nokkrar kvikmyndatökuferðir til Hornstranda og voru notaðar tveggja sæta og fjögurra sæta flugvélar af gerðunum Piper PA-12 Super Cub og Cessna 172 Skyhawk tll þess að lenda á mprgum stöðum í fjörum og á öðrum stöðum, jafnvel uppi á Straumnesfjalli og á Þórishorni við Hlöðuvik. 

Nokkrum sinnum var gegið fram á spor í sköflum, bæði að vetrarlagi og öðrum árstímum og var þar langoftast um refaspor að ræða. 

Eitt sinn virtust sporin miklu stærri en eftir ref, en enginn sást hvítabjörninn. 

Þessi spor virðast hafa aflagast og stækkað við hitabreytingar og hugsanlega sólbráð, svona eftir á að hyggja, og tilvist þeirra því ekki tilkynnt til yfirvalda. 

Í ljósi þess að þetta gátu líka verið afmynduð spor eftir stóra gæs eða svan

En teknar voru myndir af orunum fyrir sjónvarpsmyndina og í henni sjást þau auðvitað enn og sömuleiðis þær vangaveltur sem þá voru hafðar uppi um þau. 


mbl.is Töldu ummerki vera um hvítabjörn á Hornströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Let it be done! Mission and fun! Kraftur! Landvernd! Cyclothon!

Frátt er jafn hrífandi og rífandi upp stemningu og að horfa á stórbrotna hjólreiðakeppni eins og Síminn Cyclothon. Að þessu sinni verður safnað áheitum til Landverndar, en mörg önnur góð málefni eins og Kraftur eru líka á þeirri dagskrá. 

Á facebook síðu minni i dag er tónlistarmyndbandið "Let it be done!" sem er hvatningaróður með uppruna í aðdraganda umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 2015, en einnig með tilvísun í "Fighting spirit and fun!"  

 

LET IT BE DONE!  

 

Framfarasporið! 

Let it be done! Come on, let´s have fun

on a journey to a fight, that must be won!

 

We are the generations that start cleaning up the earth! 

We are the generations that shall give new vision birth

spurting over obstacles up every slope and hill 

with ever groving endurance and strength and faith and will!

 

With power from clean energy we light the brightest beam!

With power from our deepest hearts because we have a dream!

By using all our wit and guts we sweep through storm and rain

to undertake enourmous task defying weariness and pain!

 

Let it be done! Fighting spirit and fun!

Bicycles on the run!

Father and mom! Daughter and son!

Electric bikes for everyone!

 

Inevitable energy exchange!

 

Across the ocean, over valleys, thundering through the sky

to promised land of love and peace our minds are flying high!

Sustainable developement shall prosper everywhere 

from the seabeds over continents up through the atmosphere!

 

We are the rangers, pledged to save the nature of the earth!

We are the generations that shall give its life new birth!

Let´s rins the water, clean the air to give us healthy breath, 

fighting for environment against it´s bitter death!

 

Let it be done! Come on, let´s have fun!

El-cars are on the run!

Father and mom, daughter and son!

Solarcars on the run!

Mission and fun!

Love and peace for everyone!

When the battle is won!

Food and health, said an done!

Human rights for everyone!

Life on earth on the run!

Let it be done!

 


mbl.is Farin af stað í Cyclothon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband