Færsluflokkur: Bloggar
Stórbrotin lýsing Jónasar Hallgrímssonar á því hvernig fjallið Skjaldbreiður, "allra hæða val" varð til, er næstum því eins mikið furðuverk og fjallið og hraunið, sem kom úr því, er sjálft.
Það er því ekkert smámál, ef upp kynni að byggjast stór dyngja í Fagradalsfjalli.
Svo stórbrotið er þetta náttúruundur, Skjaldbreiður, að "listaskáldinu góða" verður hugsað til spurningarinnar um tilvist Guðs almáttugs.
Hann svarar spurningunni afdráttarlaust: "Gat ei nema guð og eldur / gjört svo dýrlegt furðuverk."
Öld síðar stóð annar höfuðsnillingur vísinda og mannlegrar andagiftar, Albert Einstein, frammi fyrir spurningunni, sem var orðuð einhvern veginn á þann veg hvort hann, fremstur allra snillinga í eðlisfræði og geimvísindum og eðli og gerð alheimsins, væri guðstrúar, tryði á Guð.
Og líkt og Jónas, svaraði Einstein því til, að ef hann ætti að byggja á ítrustu þekkingu vísindanna á alheiminum með öllum sínum óravíddum þá væri það fyrirbæri einfaldlega þannig, að enginn nema almáttugur guð hefði getað skapað svo yfirgengilegt undur."
Gaman er að hugsa til þess, að svar Einsteins kemur öld á eftir svari hins íslenska snillings sem bjó hugsanlega yfir enn margbrotnari snilli en Einstein þegar litið til skáldsnilldarinnar og meðferðar máls og hugsana. .
![]() |
Eldgosið gæti þróast í dyngjugos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.5.2021 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo oft hefur það komið fyrir að þátttökuþjóðir í Eurovision hafa fengið núll stig, að það væri farið að fækka þátttökuþjóðunum ef þau hefðu öll sagt sig úr söngvakeppninni.
Þá hefði til dæmis Alexander Ryback ekki átt möguleika á að vinna einhvern mesta yfirburðasigur í sögu keppninnar.
Svipað gildir um önnur alþjóðamót eins og til dæmis í knattspyrnu. 14:2 á móti Dönum var skellur með fádæmum, en á EM og HM hálfri öld síðar skein ljós Íslands skært.
Engu máli skiptir hvort fulltrúi Breta hafði gert stórgóð lög fyrir keppnina. Þau voru ekki í boðið, heldur þetta lélega lag sem fékk auðvitað slæma útreið vegna þess að það sjálft var ekki nógu gott.
![]() |
Eurovision-ófarir skrifist ekki á Brexit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2021 | 10:46
Rétt 80 ár frá langstærsta hernaðarviðburði hér við land.
Í dögun 24. maí 1941 var stærsta og afdrifaríkasta sjóorrusta Seinni heimssttyrjaldarinnar í Orrustunni um Atlantshafið háð á Grænlandssundi vestan við Ísland.
Flaggskip nasista og Bandamanna, Bismarck og Hood, háðu tröllslega orrustu og studdi orrustubeitiskipið Prinz Eugen Bismarckk en Prince of Wales Hood.
Tugum 15 þumlunga sprengikúlna rigndi frá hinum tröllauknu 50 þúsund tonna risabryndrekum þar til ein kúla frá Bismarck hitti á veikan blett á Hood, sprakk í skotfærageymslunni svo að skipið sundraðist í loft upp í tveimur hlutum í gríðarlegri sprengingu og sökk á undraskömmum tíma.
1416 af 1419 um borð fórust; aðeins þrír komust af.
Þessi eina sprengikúla markaði tímamót í sjóhernaði og upphaf endaloka risabryndrekanna á því sviðið hernaðarátaka.
Næstu fjóra sólarhringa geysaði tryllingslegur eltingarleikur breska sjóhersins á eftir Bismarck í átt til Frakklands sem endaði með því að Bismarck var sökkt og á annað þúsund sjóliða fórust.
Sú staðreynd að Bretar réðu yfir Íslandi en ekki Þjóðverjar réði úrslitum í Örrustunni um Atlantshafið sem í fræðibókum er sett á svipaðan stall í stríðssögunni og aðrar stærstu orrustur stríðsins, svo sem um Moskvu, Stalíngrad og innrásinni í Normandí.
Utanríkisstefna risaveldanna miðaðist eftir þetta við yfirráð yfir Norður-Atlantshafi með Ísland í miðju GIUK hliðsins milli Grænlands og Bretlandseyja.
1942 tóku Þjóðverjar Tirpitz, systurskip Bismarcks í norkun en með dirfskufullri og dýrkeyptri árás Breta á St-Naseire þurrkvína i Frakklandi, þá einu sem gat tekið Tirpitz, var skipinu kippt út úr sjóhernaðinum, en gerði samt usla með því einu að leynast í fjörðum Norður-Noregs.
Tilvist þess þar ein og sér olli því til dæmis að Bretar fóru á taugum þegar PQ-17 skipalestinni var tortímt að mestu á leið til Murmansk.
Eftir fjölda tilrauna tókst Bretum síðan að sökkva Tirpitz 1944.
Faðir síðuhafa var vörubílstjóri og ók sólarhringum saman í kapphlaupi með svonefnda barlest í flutningaskipin á leið þeirra um Ísland þegar þau voru tóm, en skipalestirnar með varning og hergögn til Rússa fólu í sér óhjákvæmlegt framlag til stríðsrekstrar Rússa sem báru á þeim árum hitann og þungann af stríðinu við Öxulveldin.
Megin stefna Öxulveldanna með kafbátahernaðinum á Atlantshafi var að svelta Breta til uppgjafar.
Tengdafaðir siðuhafa sigldi öll stríðsárin sem vélstjóri á togara með fisk til Bretlands.
Já, heimurinn er stundum lítill.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2021 | 21:05
Risaskref afturábak.
Í gegnum veraldarsöguna hafa orðið til ýmsara hefðir, bæði diplómatískar og af öðrum toga, þar sem komið hefur verið á ýmsum aðferðum til þess að framkvæma ofbeldisfullar aðgerðir, svo sem framkvæmd hernaðar, á skaplegri hátt en ella.
Þótt maðurinn telji sig standa stigi hærra en dýrin hvað siðferð snertir, má þó sjá ótal atriði í hegðnun dýra, þar sem þau fara á hólm við hvert annað til að útkljá deilur, en þó á þann hátt að sumt virðist ekki leyft sem gæti gengið of nærri þeim.
Í slíkum viðureignum, svo sem í uppgjöri um goggunar- og virðingarröð í sleðahundaeykjum,særast hundarnir að vísu, en virðast þó forðast hörku sem leiði til dauða eða stóralvarlegra meiðsla.
Í bardagaíþróttum eins og júdói og hnefaleikum, eru sum atriði eins og högg undir beltisstað eða hnakkahögg ólögleg og refsiverð, en í júdói og fleiri íþróttum líkt því, er að vísu leyfilegt að taka andstæðingininn hengingartaki eða hliðstæðu banvænu taki eftir ákveðnum reglum sem tryggja andstæðingnum ráðrúm til að gefa merki um uppgjöf.
Hnéþrýstitakið á hálsæðarnar, sem lögreglumaður beitti George Floyd, stóð í níu mínútur og gat þvi varla verið annað en gróft brot á reglum um meðferð á föngum.
Sendiráð erlendra ríkja teljast vera hluti af yfirráðasvæði þeirra og um þau, uppgjöf fanga og varðveislu og meðferð þeirra, auk hinna mörgu reglna Genfarsáttmálans gildi, að þær hefa fengist lögfestar og virtar vegna þess að það er augljóslega miklu skynsamlegra fyrir alla málsaðila að gera það heldur en að beita þannig ítrasta fantaskap og hörku, að allir skaðist á því að lokum.
Þegar ófyrirleitinn þjóðhöfðingi eins og Lúkasjenkó lætur rjúfa friðinn í alþjóðlegu farþegaflugi með grófu valdi, sem tekur völdin af flugstjóranum á ólögan hátt; og í framhaldinu á þann hátt, að slíkt geti þróast upp í það að verða algengt, er stigið risaskref afturábak, sem mun skaða allar þjóðir, nema gripið verði ákveðið í taumana.
![]() |
Flugvél þvinguð til lendingar í Minsk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar gúglað er um slysatíðni á bifhjólum og rafhlaupahjólum kemur mikill munur á þeim og bílslýsum í ljós.
Meira en helmingur af banaslysum og alvarlegum slysum á hjólum er vegna ölvunar eða vímuástands, fjórfalt hærri tíðni en á bílum.
Ástæðan er augljós eins og sést á einföldum samanburði:
Ölvaður maður á bíl ekur af stað og lendir á staur, og loftpúði blæs upp sem slysavörn.
Sami ölvaður maður fer af stað á hjóli og dauðrotast á ljósastaur.
Næst algengasta orsök banaslysa og alvarlegra slysa á hjólum er að ökumaður er ekki með hlífðarhjálm á höfði, nokkuð, sem augljóslega skiptir miklu minna máli í bíl.
Þriðja algengasta orsök alvarlegra slysa á hjólum er að vera ekki í klossum með ökklavörn.
Þegar þessar þrjár aðalástæður alvarlegra slysa á hjólum eru lagðar saman kemur í ljós að ef þetta þrennt er í lagi, verður áhættan af því að aka bíl eða hjóli svipuð.
Í viðtengdri frétt af tveimur rafhlaupahjólsslysum stinga ölvun og hjálmleysi í augun.
Og nú þegar, í byrjun rafhlaupahjólabyltingarinnar, sýnir talning slysa, að flest slysin af völdum ölvunar.
![]() |
Slösuðust á rafskútum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslendingar hafa þreytt alþjóðlega keppni á nokkrum sviðum á liðnu ári og geta vel við unað.
Sennilega hefur mikilvægasta áskorunin verið í bardaganum við heimsfaraldurinn þar sem við höfum til þess sennilega státað lengst allra Evrópuþjóða af grænum lit á Covid-kortinu.
Búningar Daða og Gagnamagnsins settu grænan bjarma á sviðið í Hollandi og fjórða sætið í hörkukeppni er í stíl við það Húsavíkurstuð sem hefur skilað sér alla leið til Hollywood.
Allir, sem hafa átt þátt í þessum árangri eiga þakkir og virðingu skilið.
P.S. Ítalir sigruðu ekki Eurovision, eins og sagt er í viðtengdri frétt, heldur báru þeir sigur úr býtum, unnu sigur í keppninni, urðu efstir, urðu sigurvegarar.
Það er órökrétt að segja, að einhver sigri keppni sem tekinn er þáttur í, því að þar með er sagt að keppnin hafi beðið ósigur, sem er alls ekki rétt.
Í hverri keppni er einn sigurvegari, sem aðrir bíða ósigur fyrir eða bíða lægri hlut. Keppnin sjálf bíður ekki ósigur.
![]() |
Ísland lenti í fjórða sæti í Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2021 | 12:55
Kæling með gríðarlegri dælingu réði úrslitum í Eyjum 1973. Vantar núna.
Stórar jarðýtur og hliðstæð tæki máttu sín lítils í Heimaeyjargosinu 1973. Meðan hraun kom úr gígnum og viðhélt bæði þrýstingi og hita í framrás hraunnsins, var afl þess svo mikið, að meira að segja stærðar hraunbunga eða hóll, sem fékk heitið Flakkarinn, flaut í heilu lagi í átt hafnarinnar og mannvirkja við hana auk þess að gleypa í sig tugi íbúðarhúsa.
Að frumkvæði Þorbjörns Sigurgeirssonar prófessors tók fjöldi dugmikilla manna, meðal þeirra slökkviliðsstjórinn á Keflavíkurflugvelli sem var með viðurnefnið Patton, sig til og flutti mikinn tækjakost út til Eyja sem notaður var til þess að setja upp fjölbreytt dælingarkerfi, að hluta til líkt risavöxnu sprinklerkerfi sem dældi köldum sjó og vatni í stórum stíl yfir hraunið.
Reynslan af þessu varð skýr og heimsþekkt: Sú mikla kæling sem hægt var að beita á heitt hraunið hafði þau áhrif, að það flýtti fyrir storknun þess sem var forsenda fyrir öðrum aðgerðum og hægði á framrás hraunsins eftir að það varð þykkara og seigara en annars hefði orðið.
Aðstæður í Nátthaga eru gerólíkar. Ekki er svo mikið sem einn lítri af köldu vatni, sem af augljósum ástæðum er ekki dælt á þetta hraun vegna þess að engar af þeim kjöraðstæðum sem voru í Eyjum eru fyrir hendi á svæðinu niður að Suðurstrandavegi.
Í Eyjum var gnægð af vatni við hendina auk möguleika á tengingu við orkugjafa fyrir dælinguna.
Aðeins einn vegur, ljósleiðari og eitt eyðibýli eru í hættu við Nátthaga, en stór íbúðabyggð, vinnslustöðvar, hafnarmannvirki og einhver stærsta og mikilvægasta höfn landsins vou í húfi í Eyjum.
Gosið í Eyjum stóð í fimm mánuði, en gosið við Fagradalsfjall hefur nú staðið í tvo mánuði.
Eitt af því sem má reyna við Ísólfsskála, var ekki reynt í Eyjum, en það er að reyna að greiða hraunstraumnum leið í gegnum Suðurstrandaveginn á þein stað þar sem það rynni á skástum stað til sjávar og eyðilegði sem minnst af veginum.
![]() |
Hraun rennur niður í Nátthaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2021 | 19:45
Hvaða "mögulegar tækniframfarir gætu breytt" þörf Gæslunnar?
Formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar segir í viðtali í Morgunblaðinu varðandi það að Landhelgisgæslan verði flutt á flugvallarstæði í Hvassahrauni, að "mögulega muni tækniframfarir breyta því" að Landhelgisgæsltan þurfi að nota þá tækni, sem núverandi flugvallarstæði býður upp á.
Þetta er ekki í fyrsta skipti undanfarna áratugi, sem menn fara létt með það að fimbulfamba um alls kyns komandi tækniframfarir varðandi flug.
Fyrir rúmum aldarfjórðungi átti ný gerð flugvéla, sem væru blanda af þyrlum og flugvélum, að vera alveg handan við hornið, enda voru slíkar vélar sýndar á flugsýningum.
Þær gátu hafið sig lóðrétt til flugs og gert flugbrautir óþarfar og síðan snúið sér í loftinu og farið á þotuhraða með farþega yfir höf og lönd.
Þótt það blasti við að eðlisfræðilega væri þetta óframkvæmanlegt og að enn í dag hafa svona loftför ekki tekið við af núverandi þotum er enn verið að varpa á loft alls kyns ótilgreindum mögulegum tækniframförum" sem geti gert Hvassahraunsflugvöll að framtíðar varaflugvelli og innanlandsflugvelli landsins.
![]() |
Sjálfstæð ákvörðun borgarinnar að úthýsa Gæslunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2021 | 16:36
Hraðhjólastíga vantar, hjólin fara 4-5 sinnum hraðar en gangandi.
Hugtakið hraðhjólastígar heyrðist nefnt um það leyti sem siðuhafi hóf notkun hjóla í stað bíla að mestu leyti í borgarumferðinni.
Strax á fyrsta ári hjólanotkunarinnar blasti ástæðan fyrir bættum hjólastígum við; skorturinn á stígum var hrópandi mikill; gatnakerfið enn miðað að mestu við annað hvort gangandi eða akandi og hjólafólkið að þvælast í krókaleiðum eftir bútum af gangstéttum og akstursgöfum á víxl.
Að vísu voru brautryðjendur í notkun hjóla í umferðinni farnir að láta til sín taka, en á opnum fundi með borgarstjóra í Grafarvogshverfi virtust forsvarsmenn borgarkerfisins samt koma af fjöllum þegar orðið var nefnt, enda ekki furða miðað við það á hvers konar frumstigi þetta málefni hafði verið fram að því í marga áratugi.
Aðeins fáar undantekningar voru þá komnar í umbótum, svo sem hjóla- og göngustígurinn yfir Geirsnefið.
Gangandi maður fer að meðaltali ekki hraðar yfir en 4-5 kílómetra á klukkustund. Það þýðir að tveggja stunda ganga sé frá Spönginni í Grafarvogi vestur í Útvarpshúsið. 8,5 km.
Hingað til hefur tekið um 25-30 mínútur að fara þetta á rafreiðhjóli og þá aðeins á þann hátt að fara austustu tvo kílómetrana eftir akstursgötum vegna þess hve tafsöm og krókótt leiðin er ef farið er eftir blöndu af gangstéttum, gangstígum og gatnabútum.
"Hraðhjólastígar" sem miðast gætu við 25km/klst hraða myndi stytta hjólferðina um tíu mínútur.
Það sýnist ekki mikil bót, en miðað við raunverulegan meðal aksturshraða á bíl munar miklu um það að færa tímann á rafreiðhjólinu nær tímanum á bíl en nú er.
Ekki má gleyma því hve mikðil öryggisbót er fólgin í því að minnka hættuna á árekstrum á of þröngum og krókóttum stígum þar sem þröngt er um blöndu af hjólandi og gangandi.
Á hjólaárunum frá 2015 hefur síðuhafi reynslu af því að fara á rafreiðhjóli allt austur á Tungubakka í Mosfellsbæ vestur á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, suður í Straumsvík og austur í Hveragerði.
Þar að auki sérstaka ferð á rafreiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur fyrir Hvalfjörð.
Niðurstaðan er skýr. Auk stórbætts hjólastígakerfis þarf átak í viðhaldi, merkingum og skiltum ef hjólin eiga að njóta jafnræðis við aðra samgöngumáta.
Fyrir rúmum tveimur árum var vanrækt og útmáð merking á hjólastígnum yfir Geirsnef meðvirkandi í því að rafreiðhjólamaður, sem kom á móti mér, beygði fyrir mig svo að úr varð árekstur og axlarbrot.
Aðalástæðan var að vísu, að hann var að reyna í hálfrökkri að lesa niður fyrir sig á hleðslumæli hjóls síns um leið og hann fylgdist með punktalínunni í miðju stígsins.
Svo fór að hann að hann kom þar að sem línan hafði máðst út vegna viðhaldsleysis og hann fór snögglega inn á rangan stíghelming.
Það breytir því ekki að rétt eins og þörf er
á merkingum á akbrautum þarf það sama á hjólastígum.
Fyrir sunnan Akureyri varð slys, sem á sínum tíma leiddi til endurskoðunar á breidd stígsins fyrir sunnan bæinn úr 2,5 metrum upp í 3 metra. Allt svona skiptir máli.
![]() |
Hjólreiðastígar fyrir 1,5 milljarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2021 | 11:08
Grímsvötn: 12 af 15 mögulegum?
Ef gosið við Fagradalsfjall fær 10 af 10 mögulegum í samkeppni við önnur eldgos á jörðinni, er hægt að rökstyðja það ef mælikvarðinn er ekki settur hærra en í samkeppni við þau eldgos, sem eru samanburðarhæf samkvæmt mælikvarða þar sem aðgengi, langlífi, myndræn fjölbreytni og rannsóknaraðstaða vísindamanna eru sett á skala eldfjalla, sem ekki eru í neinu samspili við jökulís eða haf.
Slík umfjöllun er eðlileg miðað við þann sjóndeildarhring og aðstæður sem jarðvísindamenn heimsins, kvikmyndargerðarmenn og fjölmiðlamenn hafa almennt.
En Ísland hefur þá algeru sérstöðu að eldstöðvakerfi landsins hefur að stórum hluta búið yfir aðstæðum, þar sem eldsumbrot hafa skapað algerlega einstæðar aðstæður, sem hvergi er að finna annars staðar á þurrlendi jarðar.
Þar ber hæst virkustu eldstöð landsins, Grímsvötn; á svæði þar sem jafnframt hefur verið að finna stórbrotnustu og einstæðustu átök íss og elds sem fyrirfinnast á jörðinni.
Á milli eldgosa í Grimsvötnum verður til samfelld stórsýning átaka íssins og eldsins sem kemur og fer í öllum mögulegum tegundum af gufuvirkni, samspili fljótandi íss og sjóðandi vatns. myndun eins konar veðurkerfis snúings jarðar yfir gígum og drukknun eldstöðvarinnar í ísnum að lokum, áður en næsta stóreldgos hefst.
Síðan má minnast á hin hrikalegu hamfararhlaup úr Grímsvötnum, eins og varð 1996.
Og einnig það að gosin í Grímsvötnum og Bárðarbungu / Holuhrauni eru hundrað sinnum stærri en Fagradalsfjallsgosið.
Ekkert af þessu er sett á skala samanburðarins, sem eðlilega er viðhafður við Fagradalsfjall, einfaldlega vegna þess að Grímsvötn og Ísland eiga sér engan keppinaut í veröldinni hvað þetta varðar.
Hvernig gæti algildur skali litið út?
Og útkoman?
Fagradalsfjall 10 af 15? Grímsvötn 12 af 15?
![]() |
Tíu af tíu mögulegum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)