Færsluflokkur: Bloggar

Engin skömm að tapa fyrir svona góðu liði.

Þýska kvennalandsliðið í knattpyrnu hefur ekki tapað í 59 leikjum í röð í 17 ár, og það var ekki við því að búast að sú ganga yrði rofin í leik við íslenska liðið í dag.

Allar tölurnar sýndu styrkleikamuninn, 2-22 og 1-12 ef ég man rétt varðandi skot að marki eða á mark og markatala var því eftir því.

Þýska liðið var það gott að það var ekki hægt að búast við að sleppa við refsingu fyrir hver ein mistök, eins og til dæmis mistök íslensks varnarmanns í aðdraganda annars marksins.

Stelpurnar börðust oft vel en mættu einfaldlega ofjörlum sínum. Engin skömm að tapa fyrir svona liði og nú er bara að ná góðum leik gegn hollenska liðinu.


mbl.is Öruggur 3:0 sigur Þjóðverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið var !

Á yngri árum vann ég nokkur sumur á höggbor við framkvæmdir inni í íbúðahverfum. Hávaðinn var mikill og engar heyrnarhlífar notaðar. Ég má þakka fyrir að hafa ekki skemmt heyrnina og að hafa erft sæmilega endingargóða heyrn frá forfeðrum og mæðrum.

Ónæðið var mikið fyrir fólk í næstu húsum og byrjað var snemma á morgnana.

Nú eru komnar reglugerðir um störf verktaka sem langflestir fara eftir en því miður ekki allir.

Tillitsleysi er enn of algengt. Verktakar veita til dæmis of sjaldan lögboðnar upplýsingar um lokaðar götur þannig að ökumenn er stundum komnir nánast á skurðbakkann þegar lokunin verður þeim ljós, öllum til vandræða.

Þetta skapar óþarfa umferðartruflanir.

Eitt sinn lokaði verktaki öllum botnlangagötum við norðanverða Háaleitisbraut snemma morguns, þar sem alls um 700 manns búa, án þess að gefa nokkrar upplýsingar um það sem til stæði.

Þegar ég kvartaði við yfirmanninn brást hann reiður við, hreytti í mig skömmum, ónotum og skætingi og sagði að ég vissi ekkert  hvað ég væri að tala um, samkeppnin væri mikil, tilboðið hans hefði verið lágt svo að engin peningur væri til annars en verksins sjálfs.

Við athugun kom í ljós að hann hafði brotið reglugerð um málið, en hins vegar átti borgarkerfið að sjá um eftirlit með því að hún væri virt. Hringurinn lokaðist og ekkert gerðist.

Þannig er þetta alltof oft. Maður sér muninn erlendis, þar sem vegfarendur eru upplýstir með skiltum mörgum kílómetrum áður en komið er að framkvæmdunum.  

Eitthvað hefði gerst ef Vegagerðin hefði lokað bílaeigendur í 700 manna þorpi úti á landi inni að morgni dags og langt fram á dag.

Ef rétt er að aðeins einn starfsmaður á höggbor hafi valdið ólögmætum hávaða á Hampiðjureitnum sýnir það einstakt tillitsleysi.

Ég man nefnilega frá því að ég var á höggbornum í gamla daga að það þurfti ekki nema einn bor til að valda nær jafnmiklum hávaða og ef þeir hefðu verið fleiri.

Á Hampiðjureitnum hefði verið hægt að stytta ónæðistímann með því að hafa þá tvo í helmingi styttri tíma. En ekkert slíkt virðist hafa verið gert til að koma til móts við fólkið, sem hávaðinn bitnaði á.  

Ef verktakinn þar hefur uppi sömu réttlætinguna og gert var hér við Háaleitisbrautina um árið varðandi lágt tilboðsverð, er það ónýt afsökun, því að auðvitað verður að gera tilboðið með tilliti til gildandi reglugerðar um verkið.  

Það getur verið nauðsynlegt að nota "borgaralega óhlýðni" þegar þeir sem valdið hafa stunda lögbrot eða sýna yfirgang. 

Það gerðist þegar fólk þaut þolinmæðina eftir langvarandi yfirgang við Hampiðjureitinn og greip til sinna ráða.   


mbl.is Ólétt kona stöðvaði vinnu höggbors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurbjörn er einstakur !

Sigurbjörn Bárðarson er ekki bara í eftirlæti hjá mér af því hann er rauðhærður heldur vegna þess árangurs sem hann hefur náð í íþrótt sinni um áratuga skeið.

"Þetta eru nú bara hestarnir" segja einhverjir. En það er ekkert meira vit í að segja það heldur en að segja: "Þetta eru nú bara bílarnir" þegar rætt er um árangur ökumanna í bílaíþróttum.

Auðvitað hafa hestarnir og bílarnir sitt að segja, en "veldur hver á heldur."

Sigurbjörn kemur manni alltaf á óvart.

Ég varð til dæmis mjög undrandi þegar hann hafði fyrir því að fara inn á miðja Þórsmerkurleið um kvöld að haustlagi til að fylgjast með keppninni á þeirri sérleið í einu haustrallinu hér um árið.

Ég hafði ekki fyrr séð afreksmann í íþróttum eyða tíma sínum og hafa fyrir því að skoða aðra íþrótt en sína eigin.

"Hefurðu svona mikinn áhuga á bílaralli?" spurði ég hann þegar við hittumst eftir keppnina.

"Nei", svaraði hann, en ég hef áhuga á að kynna mér það sem liggur að baki góðum árangri í íþróttum, sem hægt er að segja að séu skyldar hestaíþróttum."

Síðan lýsti hann í smáatriðum því, sem hann hafði tekið eftir í akstri keppenda á þeim stutta kafla, sem hann hafði valið sér að skoða af ótrúlegu innsæi og dró af því ályktanir um það, hvernig rallið fór.

Tók eftir notkun eða notkunarleysi hemla, hraða, gírskiptingum og því hvernig bílnum var sveiflað í gegnum beygjurnar o. s. frv.

Þarna kynntist ég óvæntri hlið á Sigurbirni, þauhugsun, gaumgæfni, ályktunarhæfni og vinnu sem liggur að baki góðum árangri þeirra sem lengst ná.

Þess vegna kæmi mér ekkert á óvart þótt hann yrði þrefaldur Íslandsmeistari í þetta sinn og bætti enn einni rósinni í hnappagat sitt "á gamals aldri" .

En það kæmi mér heldur ekkert á óvart að hann yrði það ekki núna, heldur seinna þegar hann væri búinn að kryfja allt til mergjar og koma tvíefldur til baka.

Því að menn verða ekki sannir meistarar á því að sigra sem oftast heldur á því hvernig þeir vinna úr ósigrunum.


mbl.is Sigurbjörn gæti orðið þrefaldur Íslandsmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegur 63 er svakalegur!

Sumarið 1996 gerði ég frétt fyris Sjónvarpið um ástand vegar númer 63, sem liggur frá Bíldudal um Suðurfirði Arnarfjarðar upp á Dynjandisheiði.

Síðsumars fór nýkjörinn forseti Íslands í opinbera heimsókn á þessar slóðir og ástand vega á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum varð fyrsta málið, sem Ólafur Ragnar lét til sín taka í fjölmiðlum.

Á leiðinni vestur um daginn þurfti eins og eðlilegt er að aka um ókláraða vegi og torleiði á þeim langa kafla í Múlasveit sem nú er verið að leggja.

En það var hátíð miðað við veg 63. Ég gat ekki séð betur en að sá vegur væri ekki aðeins í nákvæmlega sama ástandinu og fyrir 17 árum, heldur öllu verri!  Engu líkara en að hann hefði aldrei verið heflaður eða neitt átt við hann í öll þessi sautján ár.  

Sömu klappirnar, sömu hvörfin, sömu þvottabrettin og stóru holurnar og höfðu  verið á þessum vegi frá því fyrir hálfri öld ! Gamlir kunningjar en ekki vinalegir eða ljúfir.

Ég var rúmlega tvítugur þegar ég fór þennan veg í fyrsta sinn og verð líklega dauður áður en honum verður breytt !  

Hve langt fram eftir 21. öldinni á að bjóða heilum landshluta upp á það að sitja einn eftir með samgöngur frá því fyrir meira en hálfri öld?


mbl.is Stór hluti í gagnið næsta sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velheppnuð "retro"hönnun.

Hönnuarsaga Fiat 500, bílsins, sem verið er að faðma í Kringlunni í auglýsingarskyni, er um margt merkileg og lærdómsrík. 

Dante Giacosa, aðalhönnuður Fiat verksmiðjanna frá miðjum fjórða áratugnum fram á þann áttunda, hannaði bílinn, sem kom á markað 1957 og varð með árunum svipað tákn fyriri Ítalíu og Bjallan fyrir Vestur-Þýskaland, Trabant fyrir Austur-Þýskaland, Bragginn fyrir Frakkland og Mini fyrir Bretland.

DSC00067

Upprunalegur Fiat 500 var í forystu í skrúðgöngu Vetrar-Ólympíuleikanna í Torino og Top Gear valdi hann sem kynþokkafyllsta bíl veraldar.

Hann er einfaldleikinn sjálfur, með tveggja strokka fjórgengisvél, sem var upphaflega með aðeins 499 rúmsentimetra sprengirými og 18 hestöfl. Samt mögulegt að Blönduóslöggan stöðvaði hann, - þyngdin aðeins 480 kíló.  

En ferill bílsins var ekki jafn glæsilegur alla tíð.

IMG_5062

Um 1970 þóttu bogadregnar línur hans orðnar svo púkó og hallærislegar að hann seldist illa og gerð var önnur yfirbygging og bíllinn kallaður Fiat 126, rosalega "in", með flottar kantaðar línur.

Hann var framleiddur til ársins 2000 og samanlagt smíðaðir um 8,5 milljónir bíla af Fiat 500 og Fiat 126 gerðum.

Fiat 126 var lengst af framleiddur í Póllandi og kallaður "Maluch", sem þýðir "litli maðurinn" eða "Lilli" á pólsku og varð sams konar tákn Póllands og 500 bíllinn á Ítalíu.

Þegar Mini var endurlífgaður fannst konu framkvæmdastjóra Fiat tilvalið að sama yrði gert við Fiat 500.

280px-Fiat_Cinquecento

Sami maður var fenginn til að hanna 500 og Mini og verður að segjast að hönnun 500 er miklu betur heppnuð, svo vel heppnuð, að bíllinn hefur slegið í gegn alls staðar í Evrópu nema á Íslandi. 

Bæði nær hann mun betur svip fyrirrennarains og einnig léttleika, er um 200 kílóum léttari en nýi Mini og auk þess fáanlegur með hinum snilldarlegu Twin-Air vélum, sem eru tveggja strokka eins og á fyrirrennaranum.  

Á árunum 2005-2008 voru litlir bílar nánast verðlausir og fengust sumir gefins í þenslunni og mér áskotnuðust bæði Fiat 500 og Fiat 126 í gegnum Ebay fyrir skít á priki.

Upp úr 2008 mátti sjá á Ebay að hlutverkaskipti höfðu orðið með þessum bræðrum. Fiat 500 frá árunum 1972-76 seldist á fjórum sinnum hærra verði en jafngóður Fiat 126, svo hallærislegur þótti hinn kantaði 126 þá en hinn rúnnaði 500 hins vegar svo flottur!  


mbl.is Faðma Fiat í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar hið smæsta verður stórt.

"Það er lítið sem hundstungan finnur ekki" segir máltækið, og oft getur hið smæsta orðið stórt í íþróttum.

Það hefði verið afar neyðarlegt miðað við hina miklu yfirburði Aníu Hinriksdóttur í grein sinni fram að þessu ef hún hefði verið felld á því að hafa snert hliðarlínu hárfínt í upphafi undanúrslitanna í dag.

Sem betur fer kom í ljós að það munaði hárfínt og munaði því nógu.  

Íþróttasagan greinir frá mörgum dæmum um það hvernig hið smæsta getur orðið stórt og afdrifaríkt.

Til dæmis skipti einn sentimetri sköpum í spjótkastskeppninni í gær.

Linford Christie, sem var í allra fremstu röð spretthlaupara heims lengur en nokkur annarr fyrr eða síðar, eða allt til 35 ára aldurs, var frægur fyrir það hve ofurmannlega snarpt viðbragð hans var.

Hann var dæmdur úr leik í úrslitum 100 metra hlaupsins á Ólympíuleikunum 1994 fyrir að þjófstarta tvisvar, en hann var yfirleitt svo fljótur í startinu að stundum var hægt að draga hvort tveggja í efa, að hann hefði þjófstartað eða ekki þjófstartað.

Hefur jafnvel verið rökstutt að hann hafi ranglega verið dæmdur úr leik 1994.

Mikill kurr varð í öðrum bardaga þeirra Muhammads Alis og Sonny Listons 1965 þegar enginn virtist sjá höggið, sem felldi Liston í gólfið. Fyrir bragðið hlaut það heitið "phantom punch" eða vofuhögg og allt til dagsins í dag geta menn deilt um það hvort Liston var í raunninni rotaður almennlega.

Ali sagði sjálfur að höggið hefði aðeins sést á einum ramma kvikmyndarinnar, sem tekin var af bardaganum, en einn rammi  tekur 1/25 úr sekúndu í sýningu.

"Það er álíka langur tími", sagði Ali, "og það tekur fólk að depla augunum, og enginn í salnum sá höggið af því að allir depluðu augunum á sama tíma!" 

Þegar myndin er skoðuð sést að höggið lendir leiftursnöggt á kjálka Listons og höfuð hans snýst jafnhratt um 10 sentimetra, þannig að höggið var raunverulegt. Annað atriði réði þó meiru um það hve magnað þetta högg var.

Vitað er í hnefaleikum að hnefaleikarar, sem eru þrautþjálfaðir við að fylgjast með handleggjum og hnefum andstæðinsins, þjálfast upp í það að "rúlla með högginu" þegar það kemur þótt þeir geti ekki vikið sér undan því.

Ef þeir hins vegar sjá aldrei höggið og eru meira að segja á leið áfram á móti því, þarf oft ekki nema nákvæmt og snöggt högg til þess að fella menn og rota þá, þótt höggið sýnist ekki þungt.

Dæmi um þetta fyrirbæri var rothöggið sem felldi Manny Pacquiao þegar hann missti titilinn, högg Jerey Joe Walcott, sem steinrotaði Ezzard Charles 1952, "fullkomnasta högg allra tíma" sem Sugar Ray Robinson felldi Gene Fullmer með, í eina skiptið sem sá gaur fór í strigann,-  högg Alis, sem felldi Cleveland Williams óvænt 1966, og höggið sem felldi Oscar Bonavena 1970 í fyrsta sinn sem sá hnefaleikari fór í strigann.

Allir voru þessir rotuðu menn á leið áfram við að slá eigin högg þegar eldingin laust þá úr launsátri.

En endanlega uppreisn fékk Ali 1975 þegar eldsnöggt högg hans af löngu færi felldi Ron Lyle og bardaginn var úti.

Á kvikmynd sést ekki einu sinni að höggið hafi hreyft höfuð Lyles, svo fáránlega snöggt var það.  

Ali fékk ekki uppreisn í "vofuhöggs" málinu fyrr en þá, þótt enn sé deilt um hvort Liston hefði getað staðið fyrr upp en hann gerði í bardaganum 1965.

Ali var einfaldlega einn um það að hafa hraða, nákvæmni, tækni og getu til að geta slegið svona "leysigeisla-högg".  

 


mbl.is Aníta hleypur í úrslitum! - dómurinn dreginn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaldastríðsbragur á umræðunni.

Allt frá hernámi Íslands 10 maí 1940 þar til herinn fór 2006 var hermálið heitasta deilumálið á Íslandi og litað af Kalda stríðinu. Annar hópurinn leitaðist við að finna NATO og Vesturveldunum allt til foráttu en hinn hópurinn var með kommúnistaríkin og slæmt ástandið þar á heilanum. 

Nú er svo að sjá að umræðan um Evrópu og tengsl Íslendinga við hana sé að fá á sig svipaðan blæ og lita umræðuna svipuðum brag og var á Kaldastríðsumræðunni.

Að hluta til hefur þessi mikla Evrópuumræða snúist upp í það að Evrópa sé hræðileg en Bandaríkin og Kanada dásamleg og að við eigum að leita í vesturveg um samstarf og fyrirmyndir.  

Andstæðu pólarnir ESB og BNA hafa tekið við af Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.  

Þegar íslenskt hvalkjöt er hrakið frá Evrópu til Íslands snýst umræðan öll um það hvað Evrópa sé vond við okkur á allan hátt, smáan og stóran, og að þetta sé bara eitt dæmi um það.

Ef þetta er rétt mætti ætla að málið myndi leysast farsællega með því að við leituðum til Bandaríkjamanna um flutningana á hvalkjötinu eins og um aðrar æskilega samvinnu sem Evrópa neitar okkur um.

Á þann möguleika minnast menn hins vegar ekki, eins ákjósanlegur og hann kann að virðast, miðað við það hvað Evrópa á að vera vond og Ameríka góð.  

Það passar ekki inn í hina nýja Kaldastríðsbrag sem er á umræðunni.  


mbl.is Eimskip hefur ekki flutt hvalkjöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegar þokan grá..."

Eitt raunsæjasta dægurlag sem ég minnist heyrðist oft á dansleikjum á Austurlandi var með þessa aðalsetningu: "...Þegar þokan grá..." og man ég enn átta takta úr þessu lagi en ekki meira. 

En lagið var vinsælt fyrir austan og sýndi ákveðna blöndu af raunsæi og lífsgleði, sem nauðsynleg er til þess að njóta hins íslenska sumars, sem stundum felst raunar í því að svalt vor breytist í umhleypingasamt haust.

Reykvísk hjón á þessum árum, sem unnu hjá Sjónvarpinu, fóru ævinlega til útlanda í sumarfríinu í júlímánuði, en á þeim árum var ekki um aðra sumarleyfistíma að ræða. Ég átti það til að gagnrýna þetta á þeim forsendum að júlí væri þrátt fyrir allt besti mánuðurinn á Íslandi og að það mætti nú kannski gefa Íslandi tækifæri eitthvert sumarið. 

Sumar eitt brá svo við að þau tilkynntu að í þetta sinn yrði ferðalag um Ísland fyrir valinu, og að þau myndu byrja júlímánuð á því að aka af stað frá Reykjavík norður í land.

Fannst mér þetta vera mikill sigur fyrir málflutning minn.  

Fréttist af þeim í upphafi ferðar, að þau óku af stað og voru meira að segja með hluta farangursins á þaki bílsins, þess albúin að fara víða um héruð og gista við misjafnar aðstæður ef með þyrfti. 

Leið nú júlí og þá kom í ljós að ferðalagið hafði aðeins tekið einn dag. Þegar þau höfðu komið upp á Holtavörðuheiði á leið norður skall fram á þau köld þokan, sem lagði suður Strandir og upp á heiðina, komin langt norðan úr Íshafinu.

Sáu þau þá sitt óvænna, sneru við og voru morguninn eftir stigin upp í flugvél á leið til Spánar.  


mbl.is Veðurbarða Íslendinga dreymir um Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stækkunargler í atkvæðatalningu.

Nú berast fréttir af því að í Ástralíu fái kjósendur stækkunargleraugu í hendur ef þeir óska þess, til þess að geta séð betur til við að greiða atkvæði. 

Fyrir mörgum áratugum varð mér hugsað til þessa möguleika þegar ég var á vegum fréttastofu Sjónvarpsins á talningarstað í Austurbæjarskóla, að gott væri fyrir einn talningamanninn ef hann fengi að nota stækkunargleraugu til þess að skoða hvern kjörseðil, sem hann fékk í hendur til að flokka.

Þessi starfsmaður var orðinn nokkuð gamall en hafði unnið gott starf á þessum vinnustað í áratugi og því greinilega tregða gegn því af hálfu stjórnenda talningarinnar að láta hann hætta störfum.

En svo léleg virtist sjón hans orðin, að hann varð að taka hvern kjörseðil fyrir sig og skima rólega yfir hann upp og niður í aðeins 15-20 sentimetra fjarlægð frá augunum áður en hann setti hann á réttan stað.

Augljóst var að afköstin voru langtum minni en hjá öðrum teljendum, en hann vann þetta þó hægt og bítandi og lét greinlega ekki fara fram hjá sér ef til dæmis einhver hefði strikað út eitthvert nafnið, og sömuleiðis var ljóst að hann fann ævinlega að lokum x-ið, hvar sem það var á seðlunum.

En ég minnist þess enn hve mér fannst þetta fyndið og sýna mannúð og mildi þeirra, sem leyfðu þessum aldna og samviskusama starfsmanni að vinna þarna, kannski í síðasta sinn.  


mbl.is Stækkunargler í kjörklefa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að ferðamenn sjái árangur gjaldtöku.

Víða erlendis er margra áratuga reynsla af gjaldtöku á ferðamannastöðum, sem við Íslendingar gætum lært af. 

Eitt var áberandi á þeim mörgum tugum staða, sem við hjónin komum á: Alls staðar fengum við bæklinga með leiðbeiningum, kortum og öðrum hagnýtum upplýsingum í hendur og alls staðar mátti sjá mannvirki stór og smá, sem báru vitni um að í þær hefði verið eytt fjármunum.  

Um þetta gildir það viðskiptalögmál að báðum aðilum sé ljós gagnkvæmur ávinningur af viðskiptunum.  


mbl.is Greiða gjaldið með glöðu geði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband