Færsluflokkur: Bloggar
17.7.2013 | 21:10
Strákarnir enn úti eftir hálfa öld, - stelpurnar inni.
"Strákarnir okkar" í knattspyrnunni hafa átt þann draum í meira en hálfa öld að komast í átta liða úrslit á stórmóti.
Sú von hefur ekki ræst enn, en þess verður að geta, að frammistaða landsliðsins í kringum síðustu aldamót undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar var einhver sú besta sem íslenskt félagslið hefur náð þegar tekið er tillit til hinnar óhemju miklu samkeppni í þessari vinsælustu íþrótt veraldar.
Liðið velgdi þáverandi heimsmeisturum FRakka undir uggum í leik í Evrópukeppni fyrir framan næstum 100 þúsund áhorfendur í París og hafði áður haldið í við heimsmeistarana hér heima.
Nú hefur "stelpunumm okkar" tekist það á margfalt skemmri tíma, sem strákunum hefur enn ekki tekist.
Einhverjir kunna að benda á að samkeppnin sé ekki eins hörð í kvennaboltanum og karlaboltanum, en þetta er nú staðreynd engu að síður, og iðkendur kvennaknattspyrnu hjá stórþjóðunum svo margfalt fleiri en hér úti á Klakanum að afrek stúlknanna er ekki síður glæsilegt en ef strákarnir hefðu náð svona árangri.
Þessir dagar eru bjartir fyrir íslenskar konur, - Aníta Hinriksdóttir fyrsti íslenski frjálsíþróttamaðurinn sem hlýtur gullverðlaun á heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum og á möguleika á að halda áfram sigurgöngu sinni.
Aníta kemur frá örþjóð og skákar stúlkum frá þúsund sinnum stærri þjóðum.
Íslenskar konur geta borið höfuðið hátt þessa dagana. Til hamingju!
![]() |
Ísland í 8 liða úrslit EM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2013 | 07:33
Nýir markhópar geta birst og hreyfst.
Þegar byggja á ný hótel, sem annað hvort vegna stærðar eða afburða búnaðar, teljast flottari og "dýrari" en önnur, hafa menn stundum áhyggjur af áhrifum þess á önnur hótel og gististaði.
Oftast eru þetta samt óþarfa áhyggjur, að minnsta kosti á meðan ferðamönnum fer fjölgandi.
Dæmi um það er nýja, stóra, flotta hótelið á Patreksfirði, sem ég kom inn í á dögunum án þess að gista, en varð mjög hrifinn af því hvað það var glæsilegt sem og öll þjónusta og aðstaða.
Halda hefði mátt að þessi mikla viðbót við gistiframboð dræpi aðra slíka starfsemi, en svo virðist ekki vera eftir því sem ég komst næst.
Svo er að sjá að þetta nýja og flotta hóteil laði einfaldlega að sér nýjan markhóp viðskiptavina, sem sækist eftir þeirri aðstöðu sem hótel af þessari gerð býður upp á, jafnvel þótt hún sé dýrari fyrir bragðið.
Tvö ný risahótel í Reykjavík gætu að hluta til verið þessa eðlis og í fréttum hefur komið fram að það mun auk þess vanta meira hótelrými.
Fjölbreytni í framboði á gistirými er nauðsynlegt og rétt að hafa í huga að fólk hreyfist oft á milli markhópa. Mörg dæmi eru um útlendinga, sem hafa komið hingað á unga aldri sem "bakpokalýður" en komið síðan aftur síðar þegar fjárráðin voru breytt og gist á dýrari gististöðum.
Sem dæmi má nefna einn meðlim "bakpokalýðsins" 1976, Ulrich Munzer, sem ég tók upp í sem puttaferðalang til Akureyrar en hefur sem háskólaprófessor síðustu áratugi komið árlega til landsins með nokkra tugi nemenda sinna.
![]() |
Byggja stærsta hótel landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.7.2013 | 23:02
Örugg staðfesting.
Ég hef oftar en einu sinni minnt á það á blogginu hérna hve votviðrasöm tíðin í sumar bliknar í samanburði við rigningasumarið mikla 1955.
Páll Bergþórsson staðfestir þetta heldur betur í skrifum sínum um málið og lýsing hans á sumrinu 1955 sýnir, að héðan af mun sumarið núna ekki verða jafnoki sumarsins 1955, því að hingað til hefur einn og einn þurr dagur verið inni á milli, jafnvel tveir saman, og er eins þurrs dags í viðbót að vænta á morgun, að minnsta kosti fram á kvöld.
1955 voru rigningardagarnir 80 í röð, og til þess að jafna það þyrfti að vera dagleg úrkoma frá næstkomandi fimmtudegi 18. júlí allt til 18. september, en það verður bæði að teljast heldur ólíklegt auk þess sem síðasti hluti september heyrir frekar til haustsins en sumarsins.
![]() |
1955 var blautara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.7.2013 | 17:37
Hótanir Breta bitu ekki 1952.
Þegar Íslendingar færðu landhelgina úr í 3 í 4 mílur 1952 og lokuðu flóum og fjörðum hótuðu Bretar löndunarbanni á íslenskan fisk í Bretlandi.
Þeir voru sannfærðir um að hótunin myndi hrífa, því að langstærstu hluti útflutnings Íslendinga fór til Bretlands.
En þeir misreiknuðu sig því að Íslendingar sneru sér til austantjaldslandanna, einkum Rússa, um vöruskipti með fisk en keyptu ýmsar iðnaðarvörur í staðinn. Dæmi um þetta voru Prins Póló, Rússajepparnir og Trabant.
Dawson nokkur rauf smá gat á löndunarbannið og skipti svo sem ekki miklu máli, því að það virkaði ekki.
Nú eru viðskipti með vörur auðveldari en fyrir 60 árum og hótanir vegna makríldeilunnar munu því varla virka meira en vegna þorsksins 1952.
![]() |
Hótanir ESB eru öfugverkandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
16.7.2013 | 07:55
Lítil dæmisaga um dauðaorsök.
Maður, sem stundaði frjálsiþróttir sér til gamans, fékk krabbamein árið 2007.
Talið var þá að viðeigandi "mótvægisaðgerðir", lyfja- og geislameðferð, gæfu góðan von um bata, og var hann þegar settur í slíka meðferð, sem bar góðan árangur.
Í fyrravetur varð hann hins vegar veikur og lést í vor, sex árum eftir meðferðina, aðeins 49 ára að aldri. Eitt af einkennum sjúkdómsins var það, að húðlitur mannsins breyttist úr sólbrúnum í öskugráan og meðallíkamshitinn lækkaði um 1-2 stig.
Nú hefur komið fram við rannsókn, að líkamlegu atgerfi hans fór að hraka árið 1998 þegar hann var 34 ára að aldri.
Þetta sést á árangri hans í spretthlaupum sem byrjaði að hraka að marki 1998 eftir að hafa verið nokkuð stöðugur fram að því.
Rýrnunin hófst áður en hann fékk krabbameinið.
Samkvæmt þeim staðli um árangur krabbameinsmeðferða, sem beitt er varðandi þá tegund krabbameins, sem dró manninn til dauða, er talið að lækning heppnist, takist að halda viðkomandi sjúklingi á lífi í fimm ár eftir að hann fær meðferðina.
Maðurinn llfði í sex ár eftir meðferðina og í meira en fimm ár áður en nokkur einkenni um krabbamein kæmu fram, og telst lækningin því hafa heppnast.
Málið dautt, - en maðurinn reyndar líka.
Hann dó úr elli, - að vísu um aldur fram.
![]() |
Rýrnunin hófst fyrir virkjunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.7.2013 | 23:25
Þar sem húsin eru númerslaus eða í ruglingi.
Ég veit ekki hvort það er svo mikill munur á því að götur séu nafnlausar eins og í Kabúl eða að húsin séu númerslaus eins og sífellt virðist færast í vöxt hér á landi. .
Þegar ég var alast upp var það undantekning ef það vantaði númer á hús. Í Reykjavík voru oddatölur vinstra megin en jafnar tölur hægra megin, ef ekið var eða gengið í átt til hækkandi númera
Fyrir austan Kvos og Tjörn var talið í austur, en fyrir vestan í vestur.
Nú ekur maður um fjölda gatna í Reykjavík og nágrannabæjum þar sem húsnúmer eru á stangli og vantar stundum númer á heilu húsaraðirnar.
Ég er hættur að geta talið allar þær mismunandi aðferðir sem notaðar eru til að raða númerunum á húsin, oft svo ruglingslega að samliggjandi tölur geta verið langt frá hvor annarri í annarri götu, sem í ljós kemur að er samt sama gatan.
Engu er líkara en að það sé ætlast til að allir viti án nokkurra upplýsinga um það hvar öll hús eru og hverjir búa í þeim.
Þetta er einstaklega bagalegt vegna þess að í símaskránni er greint frá því hvaða númer eru á húsum, en þegar komið er á staðinn vantar þau alveg.
Þetta minnir mig á skondið atvik á Hellissandi fyrir rúmum 20 árum. Árekstur varð á einstefnugötu og átti að dæma þann bílstjórann í órétti sem varaði sig ekki á því að hinn bílstjórinn kom í veg fyrir hann á móti einstefnunni.
Rökstuðningurinn fyrir úrskurðinum var sá að það færi enginn þarna eftir einstefnumerkinu !
Það hefði meintur óréttis-bílstjóri átt að vita eða gera ráð fyrir.
Hann var hins vegar frá Stykkishólmi og vissi þetta ekki, en sú mótbára hans var að engu höfð.
Ég tók af þessu myndir fyrir Stöð 2 og hugðist gera um þetta frétt.
En þegar ég fór að tala við málsaðila brá svo við að úrskurðinum var snarlega breytt á síðustu stundu áður en fréttin átti að birtast og ég grátbeðinn um að kippa henni til baka, sem ég og gerði.
![]() |
Þar sem göturnar eru nafnlausar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.7.2013 kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.7.2013 | 17:41
Hvernig voru ekki sumrin 1940 og 1955 ?
Rigningin í sumar verður að færast verulega í aukana til þess að nálgast það sem ríkti rigningarsumarið mikla 1955. Og ekki var sumarið 1940 heldur gott.
Í óveðri 29. júní það sumar slitnuðu skip upp og strönduðu, meðal annars breska herskipið Argus, nýkomið til landsins vegna hernámsins.
Það birti ekki almennilega upp fyrr en 6. október.
Sumarið 1955 var jafnvel enn verra á sunnanverðu landinu. En þá, rétt eins og nú, var eindæma veðurblíða sunnar í Evrópu, og í Danmörku hafði annað eins ekki gerst í mörg ár.
Ég var svo heppinn þá að vera í veðurblíðunni í Kaupmannahöfn þær sex vikur sem rigningartíðin var mest heima.
Nú hefur fólk meiri tækifæri til að flýja rigninguna og þarf ekki einu sinni að skreppa til útlanda, heldur rúlla eða fljúga norður og austur til að njóta sólar og yls þar.
![]() |
Áframhaldandi úrkoma út júlímánuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.7.2013 | 17:21
Vitað fyrirfram og smámunir miðað við Hálslón.
Níu metra árleg vatnshæðarsveifla í Blöndulóni er aðeins sjötti hluti af sveiflunni í Hálslóni og því hreinir smámunir í samanburðinum. Þar að auki er vatnið i Hálslóni margfalt aurugra en í Blöndulóni.

Í báðum þessum tilfellum var vitað fyrirfram um afleiðingarnar af þessu en fullyrt að þetta yrði ekkert vandamál og vel viðráðanlegt.
Við Hálslón var meira að segja fullyrt að hægt yrði að verjast þessum með því að dreifa rykbindiefnum úr flugvélum og þar myndi verða eitt besta ferðamannasvæði hálendisins, líkt og sýnt var á myndum frá fyrirtækinu, þar sem drullugasta vatn heims er sýnt blátært, svo að sést til botns !

Skondið er að sjá marga eins og koma af fjöllum úr hópi þeirra, sem voru fylgjandi þessum virkjunum á sínum tíma og stimpluðu aðra sem "óvini byggðanna" og "hryðjuverkamenn" og gerðu ekkert með þessi vandamál, sem og önnur eins og dauða Lagarfljóts, sem fullyrt var að myndi ekki eiga sér stað vegna mótvægisaðgerða.
Við blasti við Hálslón og búið að sýna í sjónvarpsfrétt í smærri stíl, að það tæki aðeins nokkrar klukkustundir fyrir hlýjan suðvestan kalda að þurrka 20-40 ferkílómetra af nýjum jökulleir og búa til gróðarlega leir- og sandstorma sem gera ólíft að vera við lónið.
Jafnvel allur flugher Bandaríkjamanna gæti ekki stöðvað slíkt. Enda fréttist ekkert af flugvélum né heldur af sprengingu á klapparhöftum í Lagarfljóti sem áttu að bjarga því.
![]() |
Mikil hætta á sandfoki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2013 | 13:40
Vitfirring stríðsins.
Nokkrar kvikmyndir, sem gerðar hafa verið um vitfirringu hernaðar, hafa notað grimma kaldhæðni til að leiða fram þessa vitfirringu.
Minnisstæðar eru til dæmis myndirnar um doktor Strangelove og myndin Catch 22, og er atriði síðartöldu myndarinnar, þar sem innyflin vella fram úr dauðsærðum hermanni, viðbjóðslega ljótt og á mörkum þess að vera sýningarhæft en um leið satt og rétt.
Það, sem lagt er á unga menn í stríði, hefur lengi verið bæði feimnismál og vanrækt mál, eins og staðreyndin um mannfall Breta í Afganistan ber með sér.
Skilningsleysi og afskiptaleysi hafa gert þessi mál enn verri en þau eru.
George Patton hershöfðingi sýndi mikið skilningsleysi og hrottaskap þegar hann löðrungaði tvívegis sálarlega illa farna hermenn, sem voru undir læknishendi.
Hann skildi ekki, að líkamleg meiðsl og örkuml væru ekki það eina sem gæti hrjáð hermenn, heldur gætu sálræn áföll verið jafnvel enn verri.
Patton féll í ónáð um hríð vegna þessa, en Eisenhower yfirhershöfðingi Bandamanna sýndi óvenjulega mildi og mannúð í sínum störfum á þessum tíma, miðað við það verkefni að þurfa að fórna mannslífum til að vinna bug á villimennsku nasismans.
Mótsagnir hernaðar, sem leiddar eru fram í Catch 22, eru fleiri en þar koma fram.
Engin ein bók hafði jafn djúp áhrif á almenningsálitið og stjórnmálamenn á Vesturlöndum á millistríðsárunum og "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum".
Fyrri heimsstyrjöldin var einhver tilgangslausasta og mannskæðasta styrjöld sögunnar þar sem fórnað var milljónum ungra manna í blóma lífsins til þess eins að gera þessa styrjöld að fyrri hálfleik í tvöfalt stærra stríði.
Menn hétu því að sú styrjöld yrði "styrjöldin sem byndi enda á allar styrjaldir", en Adolf Hitler og nasistarnir nýttu sér þessa friðarþrá til að fá út úr henni eftirlátssemi sem gerði nasistum kleift að hefja djöfulgang stríðsins á ný og hefja í nýjar hæðir illsku, manndrápa og eyðileggingar.
Forsenda Kalda stríðsins og gereyðingavopnabúra Bandaríkjamanna og Rússa var og er "MAD", þ. e. skammstöfun yfir hugtakið "Mutual Assured Destruction".
Hún þýðir að fyrir hendi þurfi að það þurfi að vera tryggt að hvor aðilinn um sig muni ekki skirrast við að beita gereyðingarvopnum, telji hann sig knúinn til þess.
Sem sagt: Skammstöfunin GAGA, Gagnkvæm Alttryggð Gereyðing Allra. Sú vitfirring lifir enn hjóðlega í gerðeyðingarvopnabúrum stórveldanna og felur sennilega í sér mestu ógnina við tilveru mannkynsins, sem til er.
![]() |
Helvíti á jörð skaðar sálina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
14.7.2013 | 21:08
Er sérkennilegur hlaupastíll Anítu "réttur"? Já!
Aldeilis frábær er árangur Anítu Hinriksdóttur þegar hún verður fyrst Íslendinga heimsmeistari í grein frjálsra íþrótta. Þótt þetta sé í unglingaflokki en ekki í flokki fullorðinna gefur hún okkur fordæmi, fordæmi um það að hjá örþjóð eins og okkur sé hægt ná á hæsta tind íþótta á heimsvísu.
Heyra má rætt um persónulegan hlaupastíl Antíu og það hvort að hann sé "réttur" og hamli henni kannski.
Þetta er gömul óg úrelt umræða, sem ég þekki frá því fyrir 50 árum þegar ég gutlaði í frjálsum.
Þá kom þjálfari til landsins ,Ungverjinn Simony Gabor, með þann lærdóm frá Austur-Evrópu, að einn staðlaður hlaupastíll væri "réttur" og fælist í því eðlisfræðilögmáli að hlauparar ættu að halla sér það mikið áfram að þeir nánast dyttu áfram, skref fram af skrefi, og að handleggirnir ættu einungis að sveiflast afslappaðir og átakalaust með til þess að orkan væri vel nýtt svo að hún færi sem mest í hreyfingar fótanna og skrokksins.
Hann taldi mig hafa "rangan" hlaupastíl, "sitja" alltof aftarlega þegar ég hlypi og taka of mikið á með handleggjunum, og kenndi mér að hlaupa upp á nýtt eftir hinum "kórrétta", átakalitla, sparneytna og staðlaða stíl úr kommúnistaríkjunum.
Brá svo við að árangri mínum hrakaði og ég snerti ekki við frjálsum í fjögur ár á eftir.
Þá hitti ég Jóhannes Sæmundsson, nýkominn frá Bandaríkjunum, sem hvatti mig til að reyna aftur, og nú á þeim forsendum að grafa upp gamla hlaupastílinn minn, sem ég hafði notað þegar mér gekk best á drengjameistaramóti Íslands 1958 og enginn var farinn að fikta við hann.
"Reyndu að muna hvernig þú hljópst þegar þú varst 10-12 ára patti" skipaði Jóhannes.
Brá nú svo við að árangurinn batnaði aftur, en ég mátti ekkert vera að því að fylgja þessu eftir, - var þó mun sáttari en fyrr.
Haukur Clausen tel ég vera næstbesta spretthlaupara sem Íslendingar hafa átt, en hann hljóp alltaf frekar afturhallandi og notaði kraftmiklar handahreyfingar og sumir töldu þennan stíl "rangan" og standa honum fyrir þrifum.
Haukur kærði sig kollóttan.
Raunar höfðu ekki allir austantjaldhlaupararnir hlaupið alveg "eftir bókinni". Þannig náði Emil Zatopek bestum árangri þegar hann hljóp áfram að því er virtist með miklum átökum, gretti sig, sveiflaði höfðinu og blés og fnæsti.
Haukur Clausen fékk síðan uppreisn þegar Michael Johnson setti frábær heimsmet í 200 og 400 metra hlaupum meira en 40 árum síðar, með hlaupastíl sem hefði fengið Gabor heitinn til að fórna höndum.
Meira að segja í 400 metra hlaupinu þar sem hlauparinn þarf á beinu brautinni í miðju hlaupinu að nota svonefnt "coasting", það er að viðhalda sem áreynsluminnst hámarkshraða, eftir að hafa hlaupið fyrstu 100 metrana á útopnu, "sat" Johnson fattur og þrýsti sér þannig áfram alla leið í mark.
George Foreman dreymdi og reyndi í upphafi ferils síns að líkja eftir Ali í hreyfingum og tækni. Það var vonlaust. Eðlilegur og meðfæddur stíll Foremans var einfaldlega allt annar og með honum náði hann sínum mikla árangri áður en yfir lauk.
Hönnuður Citroen DS sagði, að mesta fegurð sem hann þekkti væri fólgin í lagi skiptilykils, vegna þess að hver einasta lína í honum þjónaði tilgangi og hagkvæmni. Skiptilyklar hafa verið óbreyttir í útliti svo lengi sem ég man, kannski út af þessu.
Mig grunar, án þess að hafa spurt að því, að Aníta Hinriksdóttur hafi ekki verið kennt að hlaupa eins sérkennilega og hún gerir, heldur sé þetta hennar náttúrulegi, meðfæddi og eðlilegi hlaupastíll, sem þjálfari hennar hafi í mesta lagið lagfært smávægilega en alls ekki umbylt.
Þess vegna líður mér vel við að horfa á hana hlaupa, hrífst af henni og finnst hún hlaupa fallega.
![]() |
Aníta varð heimsmeistari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)