Færsluflokkur: Bloggar

Gæti verið gagnlegt að læra af öðrum þjóðum.

Eyjafjallajökulsgosið gjörbreytti undirstöðum fyrir þyrluflugi á Íslandi, sem hefur margfaldast síðan. 

Hingað til lands kemur nú ríkt fólk í miklu meiri mæli en áður og er tilbúið að borga fúlgur fjár fyrir að upplifa ævintýri, og oft er fljótlegast og mest spennandi að leysa það með þyrluflugi.

Því nær sem Reykjavík hugsanlegt svæði til einstæðs þyrluflugs er, hugsanlega með lendingu á sem mögnuðustum stað, því meiri er eftirspurnin eftir því.

Þetta vandamál er ekki einskorðað við Ísland. Víða erlendis hefur þurft að rannsaka það, hvernig ferðamenn með mismunandi óskir bera sig að, og koma sanngjörnu skipulagi á ferðir og ferðamáta.

Hér á landi er slíkt á algeru frumstigi svo að ekki verður mikið lengur hægt að sitja með hendur í skauti.

Gagnlegt gæti verið að skoða reynslu annarra þjóða við að vinna úr þessu viðfangsefni.

Sem dæmi má nefna Miklagljúfursþjóðgarð í Bandaríkjunum og fleiri þjóðgarða þar.

Við suðurmörk Miklagljúfursþjóðgarðs er flugvöllur, þar sem hægt er að kaupa sér útsýnisflug og ljóst er að um það hljóta að gilda ákveðnar reglur, sem byggjast á eðli svæðisins og stærð og fjölda mismunandi ferðamannahópa og sérþarfir þeirra.

Sinna þarf þörfum sem flestra mismunandi hópa, göngufólks, hjólafólks, jeppafólks, fólks á flugvélum og fólks á þyrlum á þann hátt að óskir eins hóps bitni ekki um of á óskum annarra hópa.

Þá getur verið fróðlegt og gagnlegt að kynna sér hvernig aðrar þjóðir hafa leyst þetta viðfangsefni.  

 

 


mbl.is Þyrluflug verði bannað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klassísk afgreiðsla á sendiboða slæmra tíðinda.

Blaðamaðurinn á Morgunblaðinu sem komst að slæmum sannleika varðandi íbúðalánasjóð 2004 var afgreiddur á stundinni sem alger bullari.

Það þurfti níu ár til að sjá, að svo var ekki.

Þetta er næstum algilt lögmál frá fornöld þegar slíkir sendiboðar voru drepnir.

Þeir Danir sem sáu í gegnum "íslenska bankaundrið" voru úthrópaðir sem öfundsjúkir landar fyrrum kúgara Íslendinga.

Íslenskir kunnáttumenn, sem efuðust um "undrið" og "tæra snilld" á þessu sviði voru sagðir kverúlantar og nöldrarar.

Erlendur kunnáttumaður, sem sá í hvað stefndi síðsumars 2008 var talinn þurfa að "fara í endurhæfingu."

Frásögn á þessari bloggsíðu þess efnis að það yrði að grafa eins og hálfs milljarðs króna skurð frá Svartsengi alla leið til sjávar til þess að koma affallsvatni virkjunarinnar í burtu var talin "dylgjur", "getgátur", "uppspuni" og "rakalaus þvættingur."

Ári síðar var hið sanna játað af talsmanni virkjunarinnar.

Skipulagsstofnun taldi áhrif þess að veita Jökulsá á Dal yfir í Lagarfljót verða mikil.

Þáverandi forsætisráðherra sagði að "kontóristar úti í bæ" ættu ekki að ráða ferðinni í svona máli.  

Umhverfisráðherra sneri þessu við og taldi áhrifin ekki verða veruleg.

Tíu árum síðar kemur hið sanna í ljós og framkvæmd á einu af "20 ströngum skilyrðum" til þess að ráða bót á þessu vekur aðhlátur.  


mbl.is Sagði að sjóðurinn stefndi í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf líka að finna skárri stað.

Kunnáttumenn vöruðu stjórnvöld sterklega við afleiðingum þess hvernig standa átti að starfsemi Íbúðalánasjóðs fyrir áratug. Á þá var ekki hlustað heldur anað áfram út í ófæruna í samræmi við gylliboðin, sem gefin höfðu verið kjósendum í kosningunum 2003.

Nú stendur til að reisa kísilver á Bakka, sem setja á beint á hættulegasta staðinn, sem hægt er að finna um þessar mundir á landinu varðandi jarðskjálfta af stærstu gerð. Verið á að standa á sjálfri aðalsprungunni.

Jarðfræðingar hafa bent á þetta og sömuleiðis það að kominn sé sá tími, sem stórskjálfti geti riðið þarna yfir hvenær sem er.

Á þá virðist ekkert vera hlustað heldur á að taka áhættuna á fullu í stað þess að huga að því, hvort hægt sé að finna skárri stað.

Það er ekki nóg að ljúka við fjármögnunina heldur gildir gamla spekin um trausta hornsteina hárra sala og að ekki skuli byggja hús á sandi, - í þessu tilfelli beint ofan á einhverja hætttulegustu jarðskjálftasprungu landins.

Jarðfærðingarnir benda líka á slæma staðsetningu sjúkrahússins, sem auðvitað er ekki síðra áhyggjuefni af augljósum ástæðum og spurning, hvort ekki þurfi aðgerðir líka í því máli.

"Þetta reddast" virðist vera afar sterk hugsun hjá okkur Íslendingum og þar með að trúa hæpnum gylliboðum og setja á Guð og gaddinn.  


mbl.is Fjármögnun Bakka ljúki í nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað "Lúkasarmál"?

Enn er svonefnt "Lúkasarmál" á Akureyri í minnum haft og meira að segja er búið að gera leikrit, sem byggist á því.

Málið er eitthvert besta dæmið um það hvernig hægt er að blása upp stórmál í fjölmiðlum og á netinu upp úr engu og gera úr því sannkallað fár.

Lúkas átti að hafa verið drepinn á hrottalegann hátt og meintur morðingi meira að segja nafngreindur og ofsóttur.

Síðan birtist Lúkas allt í einu stálsleginn og "góð frétt" varð allt í einu ónýt.

Nú er svo að sjá sem svipað mál hafi gosið upp í Garðabæ. Því var tekið sem staðreynd og tíundað í fréttum að ungur maður, gott ef ekki kornungur maður,  hefði ekið á ofsahraða í áttina að börnum á hestbaki, flautað ákaflega og fælt hestana, svo að börnin féllu af baki og eitt þeirra stórslasaðist.

Voru netheimar glóandi um þetta fyrst á eftir og hneykslun og reiði mikil sem von var, ekki síður en þegar fréttirnar af drápi Lúkasar voru á allra vörum.

Nú leiðir lögreglurannsókn í ljós að þetta hafi verið alls ekki borið svona að, flaut hafi ekki fælt hestana og því síður að ekið hafi verið flautandi á ofsahraða að þeim, heldur hafi að vísu bíll flautað á annan bíl í grennd en það ekki haft nein áhrif á hestana.  

Minnir óneitanlega svolítið á Lúkasarmálið, ekki satt?


mbl.is Bílflautið fældi ekki hestana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Angi af alþjóðlegu vandamáli.

Hjá mörgum svonefndum "frumstæðum" þjóðum er rík hefð fyrir því að aldraðir njóti umhyggju og samvista við sína nánustu til dauðadags. Þar sem þessi hefð er höfð í heiðri þarf ekki sérstakar stofnanir fyrir aldraða eins og í hinum "þróuðu" löndum.

Reynslan hefur hins vegar sýnt að í svonefndum "velferðar" og "velmegunarþjóðfélögum" Vesturlanda er mikill misbrestur á því að aldraðir fái notið þeirra sjálfsögðu mannréttinda sem í heiðri eru höfð hjá ýmsum "vanþróuðum" þjóðum og þjóðflokkum.

Í keppninni um hin efnislegu lífsgæði samkvæmt kröfunni um sífelldan hagvöxt verða mun fleiri aldraðir útundan og einmana en marga grunar.

Þjóðarskömm eru þau örlög fjölda gamalmenna sem þurfa jafnvel að liggja banaleguna að mestu eða öllu í einsemd og þar með höfnun sinna nánustu.


mbl.is Skyldaðir til að heimsækja aldraða ættingja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirminnilegir tímamótaviðburðir.

Ein eftirminnilegasta stundin í starfi stjórnlagaráðs var þegar Freyja Haraldsdóttir flutti stefnuræðu sína á fundi ráðsins. Hún tók drjúgan þátt í starfi ráðsins og sér þess merki í frumvarpi þess til nýrrar stjórnarskrár, til dæmis í mannréttindakaflanum.

Nú brýtur hún aftur blað, í þetta sinn í sögu Alþingis, með jómfrúarræðu sinni.

Áður hafði sá áfangi náðst fyrir sjö árum að Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hafði talað úr ræðustóli Alþingis með því að nota táknmál, fyrst ræðumanna á hinu virðulega þingi.


mbl.is Freyja flutti jómfrúræðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugkvæmni er allt sem þarf.

Sú var tíðin að það voru ef til vill aðeins tveir hátíðisdagar á sumrin í bæjum landsins, sjómannadagurinn, og 17. júní. Þau ár, sem Sumargleðin fór um landið, var hún ákveðinn atburður af sínu tagi út af fyrir sig, en eftir 1986 var sá tími liðinn.

En smám saman hefur komið í ljós að hugkvæmni er allt sem þarf til að búa til hátíð þar sem séreinkenni viðkomandi bæjarfélags eða eitthvað sérstakt, sem heimamönnum dettur í hug, fær að njóta sín í formi bæjarhátíðar.

Á þriðja tug hátíða er á dagskrá bara í júlí og ágúst svo sem Humarhátíðin á Höfn, Fiskidagurinn á Dalvík, Mærudagar á Húsavík og ótal fleiri hátíðir, sem raða sér um landið á sumrin, sýna að um auðugan garð er að gresja og að á tímum vaxandi umferðar ferðamanna, erlendra og innlendra, er víða að finna tilefni til að gera sér dagamun og hagnast líka fjárhagslega á því í leiðinni.   


mbl.is Bæjarhátíð sem sameinar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoða þarf útsýni og landslag vel.

Ég áttaði mig ekki á því hvað skógur drepur vel niður vind og óveður fyrr en ég ók með Jóni bróður mínum um fjallvegina á Varmalandi í Svíþjóð, sem eknir voru í heimsmeistarakeppninni í ralli í Sænska rallinu 1981.

Þá gekk svo mikið óveður yfir sunnanverða Skandinavíu að skip fórust á Skagerak en inni í skógunum í 500 metra hæð horfðum við á skýin æða yfir fyrir ofan trjátoppana en nutum skjóls á meðan niðri í skóginum.

Einn er þó galli á gjöf Njarðar hvað snertir skjól af skóginum, en hann er sá að sums staðar getur hann eyðilagt fallegt og mikilfenglegt útsýni.

Ef gróðursetja á skóg meðfram vegum Íslands þarf að gæta vel að því að það gangi ekki svo langt að verðmætir útsýnisstaðir fari forgörðum.

Á leiðinni frá Hvalfjarðargöngum til botns Kollafjarðar eru nokkrir staðir, þar sem útýni til suðurs yfir Kollafjörð til Reykjavíkur er tilkomumikið og minnisvert, einkum fyrir þá sem koma til borgarinnar í fyrsta sinn. Vel þarf því að vanda til skjólbeltisræktunar á þessari leið svo að farinn verði vegur meðalhófs í þessu efni og það á við um fleiri staði á vegum landsins.

Á flestum vegunum í Svíþjóð, þar sem skógurinn drap niður vindinn, var útsýnið ekkert til að hrópa húrra fyrir, - landslagið ekki þess eðlis. En víða í Noregi óskaði maður sér þess á köflum, að aðeins rofaði í trén þar sem útsýnið leið fyrir það að vera falið fyrir ferðamönnum.

Kosturinn við ræktun skógar er hins vegar sá, að ef mönnum snýst hugur á einstaka stað, má fella trén og "endurheimta" útsýni og landslag sem nýtur sín hindranalaust.


mbl.is Vilja trjábelti á Kjalarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fannst þetta fráleitt fyrirkomulag fyrir hálfri öld.

Ég minnist þess enn hvað mér fannst ákvæðin um Landsdóm í stjórnarskránni og sú meðferð mála, sem þar var lagt upp með, fráleitt fyrirbrigði fyrir meira en 50 árum þegar ég sá þau fyrst og þetta álit styktist þegar ég var í lagadeild Háskólans.

Þetta var eitt af því í stjórnarskránni sem sýndist vera einna óheppilegasti arfurinn frá fyrri tíð.

Í okkar litla þjóðfélagi og á okkar fámenna þingi virtist mér og fleirum augljóst, að þingmönnum yrði sett fyrir óframkvæmanlegt verk sem fælist í því að ákveða, hvaða samþingmenn sína þeir vildu ákæra, - kannski nána samherja og vini eða sessunauta og samnefndarmenn.

Mér fannst þessi ákvæði líka stangast að vissu leyti á við þrískiptingu valdsins með því að handhöfum löggjafarvaldsins væri fært slíkt hlutskipti ákæruhlutverk í hendur, sem í raun gæti orðið til þess að mjótt yrði á munum og hugsanlega tilviljun hverjir væru ákærðir og hverjir ekki og þar með kveðinn upp dómur, sem væri á verksviði dómsvaldsins.

Eftir rökræður og skoðanaskipti hjá stjórnlagaráði var niðurstaðan sú að eðlilegast væri að í nýrri stjórnarskrá myndu svona mál heyra undir endurbætt lög um ábyrgð sjtórnvalda, þar með talda ráðherraábyrgð, og meðferð mála, sem risu af embættisfærslu, - og að Landsdómur yrði þar með sleginn af.

Það eina jákvæða sem kom út úr þessum mikla málarekstri var að ýmislegt skýrðist og upplýstist um aðdraganda Hrunsins og bættist við það sem hafði komið út úr vinnu rannsóknarnefndar Alþingis.

En það hefði alveg eins verið hægt að kanna það mál og draga þá vitneskju fram, þótt enginn hefði verið Landsdómurinn.   


mbl.is Rangt að efna til Landsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vespa" er vörumerki. Frekar "skutla".

Íslendingar hafa löngum verið iðnir við það að nefna nýja hluti sama nafni og fyrsti framleiðandinn, sem tókst að koma þeim á markað hér á landi. 

Þannig var dýptarmælir kallaður Asdik í mörg ár eftir að hann kom til landsins, og enn í dag er eimir af því frá árdögum Sjónvarpsins þegar myndbandstæki voru kölluð ampex og meira að segja myndbandsdeildin líka !

Þá og nú er þetta til dæmis enn sprellifandi þegar talað er um hann "Ella á Ampex."

Þegar framleiðandinn Vespa á Ítalíu fór að fjöldaframleiða nýja tegund lítilla vélhjóla eftir stríð tóku Íslendingar strax upp heitið vespa um fyrirbærið.

Hjólin eru í stuttu máli öðruvísi en venjuleg vélhjól að því leyti, að í stað þess að hreyfillinn sé í miðju hjólsins á milli fram- og afturhjóls, er hreyfillinn alveg upp við afturhjólið, beintengdur í það og fjaðrar meira að segja upp og niður með hjólinu.

Við það skapast þægilegt opið rými fyrir fætur ökumannsins sem þar að auki verða í góðu skjóli á bak við hlíf aftan við framhjólið.

Í nágrannalöndum okkar er þetta fyrirbæri kallað "scooter" eða "roller." Eðilegt heiti hér á landi væri "skutla."

Vespa er vörumerki og á tímabili var meira að segja framleiddur fjögurra hjóla smábíll undir heitinu Vespa 400.

"Skutlurnar" hafa þróast í ýmsar áttir síðustu árin og til dæmis er til fyrirbærið "sofascooter", þ. e. "lúxus-skutla" eða "sofaskutla",  þar sem skutlan er orðin að eðalfarartæki með öllum hugsanlegum þægindum. BURGMAN650_K6[1]

Þar trónir efst Suzuki Burgman 650, sem er eitt af þessum draumhjólum, sem ég geymi á bak við eyrað, næstum 300 kílóa glæsifarartæki, eins og sést hér myndinni.

Á markaðnum eru enn hjól með vörumerkið "Vespa" og því skondið að öll önnur hjól, sem framleidd eru af öðrum verksmiðjum hafi þetta heiti hér á landi, skuli bera þetta nafn, svona álíka og að allir bílar væru kallaðir "ford" af því að Ford T var fyrsti bílinn, sem ruddi bílum braut hér á landi.

"Skutla" og "Sófaskutla", lægju beinast við ef miðað er við erlendu heitin "scooter" og "sofascooter".  


mbl.is Biðlistar eftir rafmagnsvespum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband