Færsluflokkur: Bloggar

Létt verk að breyta stjórnarskránni allri rétt si svona ?

Ég lét segja mér það tvisvar í útvarpinu á leið til Reykjavíkur í kvöld að ríkissstjórnin öll eins og hún leggur sig ætlaði að breyta lögum og leggja niður landsdóm. 

Ákvæðin um landsdóm eru í núverandi stjórnarskrá og skrýtið að heyra ríkisstjórnina tala um að "breyta lögum".

Orðalagið "að breyta lögum" er almennt notað um það að breyta almennum lögum en ef ætlunin er að breyta stjórnarskrá er það sagt berum orðum að ætlunin sé að breyta stjórnarskrá.

Og það er ekki hægt að breyta lagaákvæðum um Landsdóm og "leggja hann niður" nema breyta stjórnarskrá.  

Fyrirgefið þið, ég botna ekkert í þessari framsetningu. Gerir ríkisstjórnin það sjálf?  

Ef það er svona einfalt að "breyta lögum" á þann hátt að breyta ákvæðum um einstök atriði í stjórnarskrá ætti ríkisstjórninni ekki að verða skotaskuld úr því að breyta stjórnarskránni allri að sinni vild með því að breyta nógu mörgum lögum og vera snögg að því.

Það er ekki lengra síðan en í fyrradag sem ég minntist á að aftur og aftur kæmu upp mál, sem talið væri að þyrfti að laga, en hefðu hlotið lagfæringar í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár.

Nú gerist þetta á tveggja daga fresti.

Stjórnlagaráð taldi að hugsanlegar refsingar vegna stjórnvaldsákvarðana ættu heima innan ákvæða stjórnarskrárinnar um almenna dómstóla og að Landsdómi væri ofaukið.

Þetta væri nú á góðum skriði ef núverandi stjórnarflokkar hefðu ekki hamast gegn nýrri stjórnarskrá og því að breyta henni og gera á henni endurbætur, - fundu slíku verki allt flest til foráttu. 

Nú segir ríkisstjórnin að hún mun fara létt með að taka einstök ákvæði núverandi stjórnarskrár og breyta þeim með því að "breyta lögum" - ekki með því að breyta stjórnarskrá. Eða hvað? 

Sagt er að á visir.is sé Jón Steinar Gunnlaugsson jafnhissa og ég. Ég er ekki hissa á því. 

 


mbl.is Ætla að leggja niður landsdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um Grímsvötn ?

Eftir viðamiklar athuganir völdu jarðvísindamenn heimsins tíu merkustu eldstöðvar jarðar. Sjö þeirra eru á þurrlendi.

Nú hefði mátt halda að kunnugleg nöfn röðuðu sér á þennan lista, eins og Fujijama, Kilimanjaro, Vesuvíus og jafnvel íslensku eldfjöllin Hekla, Snæfellsjökull eða Surtsey.

Og hvað um Eyjafjallajökul eftir gosið 2010?

Nei, ekkert af þessum eldfjöllum eru á hinum virðulega lista, heldur virkasta eldstöð Íslands, Grímsvötn.

Ástæðan er einstætt samspil íss og elds í Grímsvötnum, ekki sagnfræðileg frægð.

Heimsminjaskrá UNESCO byggir að vísu að miklu leyti á tengsl viðkomandi fyrirbæris við heimsmenninguna og menningu einstakra þjóða og þjóðflokka.

En Vatnajökull og Grímsvötn eru einhver stærstu og merkustu fyrirbærin sem gera Ísland og íslenska menningu svo sérstæða.

Þegar við bætist hve merk þau eru sem náttúrufyrirbæri vaknar sú spurning óneitanlega hvort þau hafi ekki fyrir löngu átt erindi inn á heimsminjaskrána góðu.


mbl.is Etna á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnisstæð athöfn og minningarorð í sérflokki.

Útför Hermanns Gunnarssonar frá Hallgrímskirkju í dag var afar minnisstæð, fögur og smekkleg athöfn sem snart hjörtu allra, sem þekktu hann. 

Ég hef til dæmis aldrei fyrr heyrt vin okkar beggja, Ragnar Bjarnason, syngja lagið "My way" eins vel, og hefur hann þó oft flutt það af snilld.

Þegar ég innti hann eftir skýringu því hvers vegna þessi flutningur hefði verið svona sérstakur,   sagðist hafa horft á mynd af Hemma fyrir framan sig á meðan hann söng lagið og lauk laginu með breytingu á endurtekningunni með því að syngja til Hemma: "...Oh, no, it was´nt me, he did it his way."

En einna minnisstæðust voru minningarorð séra Pálma Matthíassonar sem að mínu mati voru einhver þau bestu sem ég hef heyrt, - með sjaldgæft jafnvægi á milli gleði og sorgar, og blöndu af trú, von og raunveruleika, - sannarlega innihaldsrík og gefandi ræða, - mjög í anda Hemma sjálfs. 

Ég er ekki í vafa um að honum hefði líkað við hana.

"Less is more" átti svo við það þegar Sigríður Thorlacius söng "Í bljúgri bæn" án undirleiks áður en moldað var.   

 


mbl.is Útför Hemma: Ekkert stress, bless bless
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Torfbærinn hefur aðdráttarafl, en skortur er á torfbæjum alþýðunnar.

Hvarvetna um lönd eru erlendir ferðamenn forvitnir um það hvernig þjóðir landanna fóru að því að lifa fyrr á öldum við óblíð kjör. Forvitni um "survival" og tengda menningu hefur mikið aðdráttarafl.

Hér á landi eru nokkrir myndarlegir torfbæir en því miður eru nær allir þessir bæir á höfuðbólum og gefa því alls ekki rétta mynd af kjörum og lífsbaráttu alþýðunnar í 1000 ár.

Ég tel brýnt að endurbyggja nokkra slíka alþýðutorfbæi á nokkrum stöðum á landinu, vegna þess að ég held að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, muni verða snortnari af því að kynnast lífsbaráttu genginna kynslóða þar sem hún var hörðust og erfiðust heldur en með því að skoða höfuðbólin þar sem lítill hluti þjóðarinnar bjó.

Einn slíkur torfbær var lengi að Skarðsá í Sæmundarhlíð og til er sjónvarpsþáttur um einbúann Pálínu sem þar bjó fram á níunda tug síðustu aldar.

Rafn Jónsson flugstjóri var þar í sveit á sumrum og það hlýtur að vera hægt að endurbyggja svona bæ með því að nota sjónvarpsþáttinn og minningar Rafns.

Eitt sinn stóð lítill torbær á Grímsstaðaholtinu, sem Eðvarð Jónsson verkalýðsleiðtogi og alþingismaður hafði búið í, og ég tel að fengur væri í því að finna endurbyggingu hans stað þar í grenndinni.

Að Hvammi í Langadal þar sem ég var í sveit, stóð torfbær fram undir miðjan sjötta áratuginn og í honum bjuggu merkilegar konur, auk þess sem tveir merkir rithöfundar ólust þar upp.

Í Fjörðum myndi það auka aðdráttaraflið ef reistur yrði torfbær, sem yki á kyngimagn áhrifamikillar bókar um þá harðbýlu byggð sem þar þreifst við ótrúlega erfiðar aðstæður og kröpp kjör.


mbl.is Íslendingar í torfbæjum í 1000 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forneskja varðandi vald forsetans.

Það er auðvitað fráleitt á tímum nútímafjarskipta og þotuflugsamgangna að forseti Íslands skuli sjálfkrafa vera sviptur völdum við það eitt að skreppa til útlanda.

Reglur um þetta efni eru frá þeim tímum þegar ekki var hægt að komast til landins nema siglandi og fólk datt úr sambandi við heimalandið í utanferðum.

Ef það ætti að vera regla ferðalög ein séu nefnd sem ástæða valdsviptingar er fólgin í því stór mótsögn, því að forsetinn getur lent í því innanlands að vera mun fjær fjarskiptasambandi en ef hann er erlendis.

Ef hann er til dæmis í gönguferð um Hornstrandir dettur hann úr fjarskiptasambandi og missir jafnvel af möguleikum á gervihnattasambandi.

Ástæðan fyrir því að það fráleita ástand myndist skilyrðislaust að forseti missi völd við að fara í gegnum Leifsstöð, er orðalagið:   "...vegna dvalar erlendis eða af öðrum ástæðum..." í núverandi stjórnarskrá.Það hefur myndað þá venju og hefð í 69 ár að dvöl forsetans erlendis valdi sjálfkrafa sviptingu á valdi hans.  

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er þetta mál einfaldað í 82. greininni þar sem segir: "Geti forseti ekki gegnt störfum um sinn vegna heilsufars eða af öðrum ástæðum fer forseti Alþingis með forsetavald á meðan." 

Þarna kemur orðalagið "...vegna heilsufars..." í staðinn fyrir "vegna dvalar erlendis" og er sett af þeim augljósu ástæðum að forseti geti misst heilsuna og það jafnvel óvænt og snögglega, til dæmis vegna slysfara eða áfalls, sem er auðvitað allt annars eðlis en það að fara í gegnum Leifsstöð.

Nú er rætt um málþóf á Alþingi vegna þessara forneskjulega ákvæðis í stjórnarskránni, sem er auðvitað fráleitt ástand á öld fullkominna heimsfjarskipta og þotuflugs.

Síðan er það athyglisvert hve oft hefur verið hægt að benda á ákvæði nýrrar stjórnarskrár í umræðu varðandi umbætur í ýmsum þjóðfélagsmálefnum síðustu mánuðina.  


mbl.is Málþóf þar til forsetinn kemur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf ekki 1500-3000 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti.

Segway-skutlurnar eru gott dæmi um það að það þarf ekki 1500-3000 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti á milli staða.  

Að meðaltali eru 1,3 um borð í hverjum bíl og það eru því um 100 kíló, sem bíllinn flytur.

Skondið er að sjá þá furðu algengu sjón þegar 3000 kílóa pallbíll rennir upp að Bónusverslun og út stígur ein manneskja sem ætlar að versla þar og spara í daglegri verslunarferð sinni á bílnum góða.


mbl.is Fólk snýr sér við og tekur myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Litli hringurinn."Minnsta ferðin."

Okkur Íslendingum hættir oft til að vanmeta náttúruverðmæti sem eru beint fyrir framan nefið á okkur. 

Þannig finnst mörgu fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu að nágrenni þess hafi upp á fátt að bjóða og sjá því oft enga möguleika til að bjóða erlendum ráðstefnugestum, sem stansa aðeins eina helgi, upp á neina skoðunarferð, af því að það tekkur of langan tíma fyrir það að fara "Gullni hringinn".

En þvert á móti er hægt að skipuleggja ýmsar styttri ferðir, sem gefa mikið af sér, þótt þær séu ekki eins langar og Gullni hringurinn.

Sú stysta er aðeins 12 kílómetrar samanlagt, frá Hafnarfirði inn að Kaldárbotnum og til baka og enginn erlendur ferðamaður hefur það knappan tíma að hann hafi ekki tíma til að fórna korteri í þessa stuttu ferð.

Frá góðum útsýnisstað rétt austan við Kaldársel sést vítt yfir Reykjansskagann sunnanverðan og á þessari stuttu leið er hægt að sjá og útskýra flest af þeim fyrirbærum, sem gera Reykjanesskagann einstæðan á heimsvísu, sem eina staðinn þar sem sést hvernig skil meginlandsfleka ganga á land.

Einkum finnst útlendingum mikið til þess koma að Kaldá sé aðeins örlítill hluti af svo stórri neðanjarðar bergvatnsá, að við Straumsvík gátu sjómennirnir forðum daga ausið upp fersku vatni sér til drykkjar, án þess að fara í land.

Síðan er annar möguleiki sem ég hef notað oftar en einu sinni, en það er "Litli hringurinn", Reykjavík-Hellisgerði-Kaldársel-(Straumsvík)-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp-Keflavíkurflugvöllur/Reykjavík.

Ef útlendingarnir eru á leið úr landi eru Kapellan og Straumsvík tekin í suðurleið, en annars á leið til Reykjavíkur.

Þessi leið býður upp á möguleika til lengingar eftir þörfum.

Auðvitað er enginn goshver á þessari leið en hins vegar dugar Krýsuvík furðu vel sem hverasvæði og í Grindavík finnst útlendingum mikið koma til innsiglingarinnar og þess sýniglugga íslensks mannlífs í sjávarplássi, sem þar er, ekki hvað síst ef hann gustar svolítið úr suðri og brimið er magnað. 

Enn meira hrífast þeir ef þeim er gerð grein fyrir lífsbaráttu fyrri kynslóða við óblíðar aðstæður á þessu svæði. Á Gullna hringnum er enginn staður sem líkist Grindavík.   

Við gleymum því nefnilega að það sem okkur finnst hversdagslegt finnst erlendum gestum óvenjulegt og merkilegt, einkum ef þeim er vel þjónað í þeim efnum af gestgjöfunum að draga slíkt fram.

Þeir útlendu gestir, sem heyra það að í Krýsuvík standi til að gera það svæði að virkjunar/iðnaðarsvæði, verða undrandi við að heyra það, líklega ekki minna undrandi en ef þeim væri sagt svipað ef þeir væru við Geysi.  


mbl.is Ánægðir með Íslandsferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of góðu vön ?

"Óvenjuleg lægð" sem nú ræður veðrinu hér á landi, þykir að vonum sæta tíðindum, en þó kannski meira en efni standa til þegar þess er gætt að undanfarin sumur hafa verið alveg einstaklega ljúf með meiri stillum og góðviðri en venja er.

Okkur bregður því við þegar það hvessir núna.

Þetta er þó ekkert einsdæmi.

Þegar hlýindatímabilið 1920-65 stóð sem hæst í kringum 1940 kom óveður í júnílok sem gerði usla hjá breska setuliðinu, sem þá hafði verið hér í tæpa tvo mánuði.

Á níunda áratugnum gerði eitt sinn hret sem var kallað Jónsmessuhretið og færði mörgum landsmönnum snjó um hásumar.

Svo að aftur sé vikið að sumrinu 1940 færði það landsmönnum mikil viðbrigði frá sumrinu árið áður, sem var mesta góðviðrissumar í manna minnum.

Sumarið 1940 var umhleypingasamt og rakt og birti ekki til að gagni með staðviðrum og stillum fyrr en í október.

Þessu komst ég að þegar ég leitaði upplýsinga hjá Trausta Jónssyni veðurfræðings um veðrið þetta sumar vegna gerðar kvikmynda- / bókarhandrits um hugsanlega innrás Þjóðverja í landið og töku þess af Bretum haustið 1940.

Þegar nokkur hlý góðviðrissumur hafa komið í röð er viðbúið að viðbrigðin verði meiri en ella þegar allt í einu skellur á "venjulegt" íslenskt sumar.

Siggi stormur hefur spáð slíku sumri og ég held að hann hafi ekki þurft að taka mikla áhættu af þeirri spá miðað við það hve algeng slík sumur eru.

Eða eins og Jónas Guðmundsson stýrimaður sagði einu sinni: "Alltaf undrast ég hina óhæfilegu og undarlegu bjartsýni Íslendinga þegar þeir halda útihátíðir að sumarlagi. Það er eins og þeir haldi að það rigni aldrei nema 17. júní."


mbl.is Óvenjuleg lægð í vændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fossaþöggunin.

Hvað er hægt að gera þegar stanslaus fréttaflutningur er um Norðlingaölduveitu í fjölmiðlum án þess að minnast á stórfossana, sem þurrka á upp og alltaf látið eins og að með því að vatnsflutningarnir verði utan við Eyvaver og núverandi friðland verði engin umhverfisáhrif? 

Ég var að blogga um þetta í fyrradag og hef gert það ótal sinnum áður en ætla nú fyrir mitt leyti að rjúfa þöggunina um fossana hér á þessari bloggsíðu í hvert skipti sem þagað verður um þá í fréttum fjölmiðlanna.

Þótt það kosti bloggfærslu á hverjum degi og að fjölmiðlarnir hafi yfirburði í því að ná til meira en hundrað þúsund manna á dag en þessi síða aðeins til brots af þeim fjölda, verður að hafa það.

Það verður þá varla sagt að á þessari bloggsíðu hafi verið tekið þátt í þessari þöggun.

Þó er aldrei að vita.  Að ósekju er er ég iðulega sakaður um slíkt varðandi aðrar virkjanir eins og Bjarnarflagsvirkjun og Hellisheiðarvirkjun og þar með að hafa átt þátt í gerð þeirra,  en jafnvel samtímis sakaður um það að "vera á móti öllu."  

Nú er tíundaður sá kostnaður sem Landsvirkjun hafi gjaldfært sem kostnað vegna Norðlingaölduveitu.

Ekki er að efa að sama verður gert varðandi komandi kostnað við rannsóknir vegna virkjunar Skjálfandafljóts, svo að hægt verði þrýsta á um að þeir peningar verði ekki "ónýttir." 

Athyglisverð tilviljun að strax í kjölfar fréttanna af fyrirhuguðum fjáraustri í virkjun Skjálfandafljóts kemur fréttin um hið sama vegna Norðlingaölduveitu.

En hvort tveggja má flokka undir "túrbínutrixið" sem stjórn Laxárvirkjunar beitti 1970 þegar keyptar voru allt of stórar túrbínur í virkjunina til þess að geta sagt, að þessi kaup "mættu ekki fara í súginn", heldur yrði að virkja margfalt stærra svo að túrbínurnar nýttust.

Þá var Skjálfandafljót á aftökulistanum alveg eins og nú. Það virðist lítið hafa breyst á þeim 43 árum sem liðið hafa síðan svonefnd Gljúfurversvirkjun var talin nauðsynleg.


mbl.is Búið að verja 1,3 milljörðum í Norðlingaölduveitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt: Fyrst litli fingurinn og svo öll höndin.

Landsvirkjun er í eigu almennings og því er það ekkert einkamál stjórnenda hennar að eyða fé almennings í rannsóknir á virkjun ofarlega í Skjálfandafljóti, sem hafa mun í för með sér eyðileggingu Aldeyjarfoss og fleiri fossa auk drekkingar á dal, sem er álíka langur og Hvalfjörður.

Dalurinn er eitt best varðveitta leyndarmál hálendisins, vegna þess að hann er að stórum hluta gróinn og einstaklega skjólgóður af því að hann liggur mun neðar en landið allt í kring og nær langt inn á það.  

Sú aðferð hefur dugað vel hjá orkufyrirtækjum að eyða fyrst svo miklu fé í rannsóknir, að hægt sé að benda á að það muni verða ónýt fjárfesting ef ekki er virkjað.

Það minnir á orðtakið að ef skrattanum sé réttur litli fingurinn taki hann alla höndina.

Engum Bandaríkjamanni myndi detta í hug að veita rannsóknarleyfi í Yellowstone.

Því hefur verið lýst yfir í Noregi að tími stórra vatnsaflsvirkjana sé liðinn. Punktur.

Það á ekki að líða það að eyða fé almennings í það að valda eins gríðarlegum umhverfisspjöllum og virkjun ofarlega í Skjálfandafljóti veldur.

Ég er á ferðalagi og hef kannski ekki tíma til að birta myndir af þessu svæði en vísa á leitardálkinn vinstra megin á síðunni þar sem finna má fyrri bloggpistla mína um þetta efni.  


mbl.is Rannsaka efri hluta vatnasviðs Skjálfandafljóts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband